Hæstiréttur íslands
Mál nr. 631/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Miðvikudaginn 13. desember 2006. |
|
Nr. 631/2006. |
Sýslumaðurinn á Akureyri(Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X(Arnar Sigfússon hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingu.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að afplána 315 daga eftirstöðvar af 21 mánaða refsingu þar sem skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 þóttu uppfyllt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að afplána 315 daga eftirstöðvar af 21 mánaða fangelsisrefsingu, sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. febrúar og 2. júní 2005 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2005. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2006.
Mál þetta, barst dóminum 17. nóvember sl. með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dags. sama dag. Var málið tekið til úrskurðar að loknu þinghaldi fyrr í dag.
Krefst sýslumaður þess að X, [kt. og heimilisfang] verði með úrskurði gert að afplána 315 eftirstöðva 21 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með þremur dómum, uppkveðnum 25. febrúar 2005, 2. júní 2005 og 14. október 2005.
Þann 8. maí 2006 var varnaraðila veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum ofannefndra refsinga af Fangelsismálastofnun ríkisins. Skipaður verjandi varnaraðila krefst þess að kröfu sýslumannsins verði hafnað, enda sé skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005 ekki fullnægt þá krefst verjandinn hæfilegrar þóknunar sé til handa úr ríkissjóði.
Sýslumaður byggir kröfu sína á 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005 um fullnustu refsinga. Byggt er á því að varnaraðili hafi gróflega rofið almenn skilyrði reynslulausnar með því að hafa ásamt félaga sínum brotist inn í Glerárskóla á Akureyri þann 16. nóvember sl. þar sem þeir hafi ollið miklu tjóni og stolið m.a. peningum, 5 fartölvum, 2 skjávörpum, hörðum tölvudiski, digital myndavél ásamt fleiru. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 16. nóvember sl. hafi kærði játað nefnt innbrot og hafi þýfinu að mestu verið komið til skila til umsjónarmanns í Glerárskóla í framhaldi af því.
Brot þau sem varnaraðili sé með rökstuddum grun um talinn hafa framið varði við 244. gr. almennra hegningarlaga og geti varðað allt að 6 ára fangelsi.
Álit dómsins.
Í máli þessu liggja fyrir lögregluskýrslu þ.á.m. skýrsla varnaraðila hjá lögreglu dags. 16. nóvember 2006, en þar játar hann að öllu verulega umrætt þjófnaðarbrot. Varnaraðili staðfesti skýrslu þessa fyrir dómi í dag.
Að þessu virtu þykir vera fyrir hendi sterkur rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um alvarlegt þjófnaðarbrot í félagi við annan aðila, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940
Ekki þykir unnt að byggja á yfirlýsingum sóknaraðila fyrir dómi um að nú séu til rannsóknar fleiri mál á hendur varnaraðila vegna ætlaðra þjófnaðarbrota, án gagnaframlagninga, þar sem vafi leikur á að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005, hvað þau ætluðu brot varðar.
Fyrir liggur staðfesting Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 17. nóvember 2006, um að varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn á eftirstöðum 315 daga á 21. mánaða fangelsisrefsingu skv. áðurnefndum dómum. Er til þess að líta að samkvæmt síðasta dóminum, uppkveðnum 14. október 2005 var við ákvörðun refsingar m.a. litið til 71. 72. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Varnaraðili kom til dómþings fyrr í dag í fylgd lögreglu, en hann hafði skömmu áður verið handtekinn.
Dómari telur að ofangreindu virtu skilyrði 1. málsliðar, 2. mgr., 65. gr. laga nr. 49, 2005 um fullnustu refsingar séu uppfyllt og með vísan til þess fellst dómurinn á þá kröfu að varnaraðili skuli afplána 315 daga eftirstöðva 21 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með áðurnefndum dómum.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Varnaraðili, X, afpláni 315 daga eftirstöðva 21 mánaða fangelsisrefsingar sem að hann hlaut með dómum Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 25. febrúar 2005, dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra uppkveðnum 2. júní 2005 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 14. október 2005.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Arnars Sigfússonar hdl. kr. 62.250, greiðist úr ríkissjóði og er þá virðisaukaskattur meðtalinn