Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2011
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Skaðabætur
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 258/2011.
|
Guðmann Marel Sigurðsson (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Isavia ohf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur. Miskabætur.
G starfaði sem öryggisvörður hjá lögreglustjóranum á S. Með sameiginlegu bréfi lögreglustjórans og I ohf. var G tilkynnt að fyrirtækið myndi yfirtaka ráðningarsamning hans í samræmi við reglur laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. G var sagt upp störfum 29. maí 2009 og leystur undan vinnuskyldu. Í málinu hélt G því fram að við flutning úr starfi hefði hann haldið öllum þeim réttindum sem hann hafði hjá fyrri vinnuveitanda og uppsögn án undanfarandi áminningar hefði því verið óheimil. Vísaði Hæstiréttur til þess að í fyrrnefndu bréfi hefði ekki verið gerður fyrirvari um að G ætti að njóta lakari verndar gegn uppsögn en hann bjó við hjá fyrri vinnuveitanda. Vafa um réttarstöðu G yrði að virða I ohf. í óhag. Hefði I ohf. borið að veita G áminningu ef framganga hans í starfi gaf tilefni til þess áður en honum yrði sagt upp starfi. Var uppsögn G talin ólögmæt og bæri I ohf. skaðabótaábyrgð á henni eftir almennum reglum. Þá var G einnig talinn eiga rétt til miskabóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 9.167.528 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 1. október 2006 hóf áfrýjandi störf sem öryggisvörður hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli. Í fyrstu var gerður tímabundinn ráðningarsamningur við áfrýjanda en hann var síðan fastráðinn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum með samningi 31. maí 2007. Í ráðningarsamningnum kom fram að um réttindi og skyldur áfrýjanda færi eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Auk þess var tekið fram að þau lög og kjarasamningur lægju til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins.
Stefndi tók við rekstri Keflavíkurflugvallar 1. janúar 2009 en félaginu var komið á fót samkvæmt heimild í lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Frá þeim tíma tók stefndi við öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Af þeim sökum voru lögð niður störf við öryggisgæslu þar á vegum embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Með sameiginlegu bréfi stefnda og lögreglustjórans 29. október 2008 var áfrýjanda tilkynnt að stefndi myndi yfirtaka ráðningarsamning hans í samræmi við reglur laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í bréfinu var tekið fram að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi við áfrýjanda færðust til stefnda og því yrði ekki breyting við aðilaskiptin á launum eða starfskjörum hans samkvæmt ráðningarsamningi. Þannig yrði meðal annars miðað við að skuldbinding vegna áfallins orlofs og áunnins veikindaréttar flyttist yfir til stefnda. Í samræmi við þetta hóf áfrýjandi störf hjá stefnda í ársbyrjun 2009.
Hinn 29. maí 2009 var áfrýjandi kallaður á fund hjá stefnda þar sem honum var sagt upp störfum. Á fundinum var áfrýjanda afhent uppsagnarbréf en þar kom fram að hann væri leystur undan vinnuskyldu á samningsbundnum uppsagnarfresti sem var þrír mánuðir. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var tilefni uppsagnarinnar að stefndi taldi störf og viðmót áfrýjanda ófullnægjandi, auk þess sem hann hefði sótt tónleika á sama tíma og hann hafði tilkynnt sig óvinnufæran vegna veikinda.
II
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að við flutning úr starfi frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum til stefnda hafi hann haldið öllum þeim réttindum sem hann hafði hjá fyrri vinnuveitanda. Af því leiði að um heimild til að segja honum upp starfi hafi farið eftir reglum laga nr. 70/1996. Því hafi uppsögn án undanfarandi áminningar verið óheimil, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar fyrir utan heldur áfrýjandi því fram að allar ávirðingar stefnda í sinn garð séu tilhæfulausar. Stefndi telur aftur á móti að lagareglur sem takmarka uppsagnarrétt gagnvart ríkisstarfsmönnum hafi ekki gilt í lögskiptum aðila.
Eftir að áfrýjandi hóf störf hjá stefnda í ársbyrjun 2009 sinnti hann sömu verkefnum og hann hafði gegnt áður í starfi sínu hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þá átti áfrýjandi áfram aðild að sama stéttarfélagi, SFR stéttarfélagi í almannaþjónustu, meðan hann starfaði hjá stefnda. Í bréfi til áfrýjanda 29. október 2009, sem eins og áður segir var ritað sameiginlega af stefnda og lögreglustjóranum á Suðurnesjum, sagði að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi áfrýjanda færðust til stefnda. Að þessu leyti var ekki gerður fyrirvari um að áfrýjandi ætti að njóta lakari verndar gegn uppsögn en hann bjó við hjá fyrri vinnuveitanda. Var stefnda í lófa lagið að búa þannig um hnútana að hann hefði rýmri heimild að þessu leyti, en það var honum meðal annars kleift með því að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi þess efnis við áfrýjanda. Til þess var og fullt tilefni í ljósi þess að áfrýjandi var að færast úr starfi hjá ríkinu til fyrirtækis sem starfar á almennum vinnumarkaði. Þennan vafa um réttarstöðu áfrýjanda verður að virða stefnda í óhag og leggja til grundvallar að hliðstæðar reglur hafi áfram gilt um heimild hans til að segja áfrýjanda upp starfi og eiga við eftir lögum nr. 70/1996, enda eru ekki lagðar skorður við því í lögum að starfsmenn á almennum vinnumarkaði njóti slíks réttar. Bar stefnda samkvæmt framansögðu að veita áfrýjanda áminningu ef framganga hans í starfi gaf tilefni til þess áður en honum yrði sagt upp starfi.
Þótt lagt yrði til grundvallar að þær ávirðingar sem stefndi hefur borið á áfrýjanda væru að öllu leyti sannar eru þær ekki þess eðlis að segja hefði mátt starfsmanni fyrirvaralaust upp starfi á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Með vísan til þess sem að framan greinir var uppsögn áfrýjanda 29. maí 2009 ólögmæt og ber stefndi skaðabótaábyrgð á henni eftir almennum reglum.
III
Við ákvörðun bóta til áfrýjanda er þess að gæta að hann mátti að öllu óbreyttu gera ráð fyrir að fá að gegna starfi sínu áfram hjá stefnda þótt hann hafi verið ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Áfrýjandi var 54 ára að aldri þegar hann missti starf sitt. Hann hefur ekki menntun umfram gagnfræðapróf og hefur verið atvinnulaus frá því hann missti starfið, ef frá er talin íhlaupavinna að sumarlagi sem vörður á íþróttavelli. Einnig er þess að gæta að hann býr á svæði þar sem atvinnumöguleikar fyrir ófaglærða eru litlir. Þá ber að líta til þess að uppsögnin og þær ávirðingar sem bornar voru á áfrýjanda eru til þess fallnar að gera honum erfiðara fyrir við leit að nýju starfi. Að öllu þessu virtu verða bætur til áfrýjanda vegna fjártjóns ákveðnar að álitum 1.500.000 krónur og er þá haft í huga að hann hefur fengið atvinnuleysisbætur.
Svo sem rakið hefur verið var fyrirvaralaus uppsögn áfrýjanda úr starfi hjá stefnda ólögmæt. Jafnframt var honum ekki gefið færi á að andmæla þeim ávirðingum sem á hann voru bornar áður en gripið var til uppsagnar. Þessi framganga stefnda við slit ráðningarsamningsins var meiðandi í garð áfrýjanda og fól í sér ólögmæta meingerð gegn honum. Hann á því rétt til miskabóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.
Krafa áfrýjanda um dráttarvexti verður tekin til greina en þeir eru reiknaðir að liðnum mánuði frá því að kröfu var beint að stefnda með bréfi lögmanns áfrýjanda 5. janúar 2010.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Isavia ohf., greiði áfrýjanda, Guðmanni Marel Sigurðssyni, 1.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. febrúar 2011.
Mál þetta var þingfest 12. apríl 2010 og tekið til dóms 20. janúar 2010. Stefnandi er Guðmann Marel Sigurðsson, Einidal 6, Reykjanesbæ, en stefndi er Isavia ohf. (áður Keflavíkurflugvöllur ohf.), Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Reykjanesbæ.
Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.167.528 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 29. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
I.
Málavaxtalýsing stefnanda.
Stefnandi kveður málavexti þá að hinn 1. janúar 2009 hafi Keflavíkurflugvöllur ohf. tekið við rekstri Keflavíkurflugvallar en félaginu hafi verið komið á fót með lögum nr. 76/2008. Með lögunum hafi rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. verið sameinaður og færður á hendi eins rekstraraðila, þ.e. opinbers hlutafélags í eigu íslenska ríkisins. Tilgangi félagsins sé að öðru leyti lýst í 4. gr. laganna.
Stefnandi kveðst hafa unnið sem öryggisvörður á Keflavíkurflugvelli áður en stofnfundur stefnda var haldinn þann 1. janúar 2009. Vinnuveitandi stefnanda hafi verið lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sbr. framlagðan ráðningarsamning. Í samningnum, sem og eldri ráðningarsamningi, sé tekið fram um réttindi og skyldur stefnanda, að þau fari eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins.
Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi sinnt öryggisgæslu á flugvellinum á grundvelli samnings við Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Vegna gildistöku laga nr. 76/2008 hafi fyrrgreindum samningi verið sagt upp af hálfu Flugmálastjórnar. Verkefni á sviði öryggisgæslu hafi verið færð til Keflavíkurflugvallar ohf.
Af þessu tilefni hafi stefnanda verið sent bréf, dags. 29. október 2008. Undir bréfið sé ritað af hálfu þáverandi vinnuveitanda stefnanda, lögreglustjórans á Suðurnesjum, og stefnda. Í bréfinu segi orðrétt:
„Af þessu leiðir að Keflavíkurflugvöllur ohf. mun um komandi áramót yfirtaka þá starfsemi sem þér hafið starfað við, en gert er ráð fyrir að þér munið áfram sinna starfinu hjá hinu nýja félagi frá og með þeim tíma að telja. Mun Keflavíkurflugvöllur ohf. yfirtaka ráðningarsamning yðar, í samræmi við almennar reglur um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. lög nr. 72/2002. Með þessu er einnig leitast við að tryggja að þekking yðar og starfsreynsla á þessu sviði nýtist áfram hjá hinu nýja félagi.
Rétt er að ítreka að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi yðar við núverandi vinnuveitanda, lögreglustjórann á Suðurnesjum, færast yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. og verður því ekki breyting á launum eða starfskjörum yðar samkvæmt ráðningarsamningi við aðilaskiptin. Þannig verður m.a. miðað við að skuldbinding vegna áfallins orlofs og áunnins veikindaréttar flytjist yfir til hins nýja fyrirtækis.“
Í samræmi við ofangreint hafi stefnandi hafið störf hjá stefnda 1. janúar 2009. Þann 29. maí 2009 hafi stefnandi verið kallaður til fundar á skrifstofu starfsmannastjóra. Viðstaddir fundinn hafi verið 5 eða 6 aðrir menn. Á fundinum hafi stefnanda verið tilkynnt að honum væri sagt upp störfum og að hann skyldi ekki mæta frekar til vinnu. Stefnanda hafi jafnframt verið rétt uppsagnarbréf, sem ranglega sé dagsett 30. apríl 2009. Í bréfinu séu ekki tilgreindar neinar ástæður uppsagnarinnar. Á fundinum hafi stefnanda hins vegar verið tjáð að hann hefði sést á tónleikum að kvöldi sama dags og hann hafi verið fjarverandi úr vinnu vegna veikinda. Þetta munu hafa verið tónleikar sem haldnir voru 2. maí 2009 til heiðurs minningu Rúnars Júlíussonar.
Í framhaldinu hafi stefndi tilkynnti til Vinnumálastofnunar að ástæður starfsloka stefnanda væru: „Sagt upp vegna ástundunar“. Afleiðing þessarar tilkynningar hafi orðið sú að Vinnumálastofnun tók formlega ákvörðun um að stefnandi öðlaðist ekki rétt til atvinnuleysisbóta í 40 daga þar sem framkoma hans við starfslokin jafngilti því að hann hefði sjálfur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna.
Með bréfi, dags. 5. janúar 2010, hafi stefnandi lýst því yfir við stefnda að hann teldi uppsögnina hafa verið ólögmæta, meiðandi og bótaskylda. Jafnframt hafi verið óskað eftir viðræðum við stefnda um hæfilegar bætur til stefnanda vegna þessa. Kröfunni hafi verið hafnað af hálfu stefnda með bréfi, dags. 20. janúar 2010. Í bréfi stefnda komi fram að ástæða uppsagnarinnar hafi ekki verið sú að stefnandi hafi sést á umræddum tónleikum. Ástæðan hafi á hinn bóginn verið sú að stefnandi hafi ekki staðið sig sem skyldi í starfi sínu. Þannig hafi hann bæði virkað áhugalaus og hægvirkur. Þrátt fyrir munnlegar ábendingar og tilmæli aðalvarðstjóra hafi stefnanda ekki tekist að sinna starfi sínu eins og til hafi verið mælst.
Stefnandi sé atvinnulaus í dag og atvinnuleit hans hafi engan árangur borið. Vegna framangreindrar afstöðu stefnda sé stefnanda nauðugur sá kostur að höfða mál þetta.
Með lögum nr. 153/2009 hafi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins verið heimilað að ákveða samruna Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. Stofnfundur hins sameinaða félags, FLUG-KEF ohf., hafi verið haldinn 29. janúar 2010. Samkvæmt 5. gr. laganna taki félagið yfir öll réttindi og skuldbindingar yfirteknu félaganna tveggja. Sameining félaganna muni þó ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. maí 2010. Kröfum í máli þessu sé því réttilega beint að stefnda.
Málsástæður stefnanda og lagarök.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og veiti honum þar af leiðandi rétt til skaðabóta.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á að um réttarsamband hans og stefnda hafi gilt lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Því til stuðnings vísar stefnandi til bréfs stefnda og lögreglustjórans á Suðurnesjum til stefnanda, dags. 29. október 2009. Eins og áður greini sé skýrt tekið fram í bréfinu að réttindi og skyldur stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi færist til stefnda og að ekki verði breyting á launum eða öðrum starfskjörum samkvæmt ráðningarsamningi við aðilaskiptin. Þá vísar stefnandi einnig að því er varðar framangreint til ákvæða laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, einkum 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008, og 5. gr. laga nr. 153/2009.
Í ráðningarsamningnum sé tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins. Stefndi hafi tekið yfir skyldur gagnvart stefnanda samkvæmt ráðningarsamningnum. Stefnandi telur þar af leiðandi hafið yfir allan vafa að lög nr. 70/1996 hafi gilt um réttarsamband hans og stefnda. Stefnandi telur einnig að tilvísun stefnda til dóms EFTA-dómstólsins í máli E-3/01 breyti engu hvað það varðar. Stefnandi bendir jafnframt á að samkvæmt meginreglum vinnuréttar beri að túlka allan vafa um réttarstöðu starfsmanns honum í hag. Það leiði einnig af tilskipun Evrópuráðsins nr. 91/533/EBE en samkvæmt henni hvíli sú skylda á vinnuveitendum að upplýsa starfsmenn með skýrum hætti um kaup og kjör og réttindi og skyldur þeirra.
Í öðru lagi bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 sé skylt að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum sé sagt upp störfum, ef uppsögn eigi rætur að rekja til ástæðna, sem þar séu greindar. Í 21. gr. laganna séu meðal annars nefndar ástæður á borð við óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns, vankunnáttu, óvandvirkni eða ófullnægjandi árangur í starfi. Áminning sé stjórnvaldsákvörðun. Við slíka ákvörðun þurfi þar af leiðandi að gæta að málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins, sem m.a. komi fram í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í samræmi við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga og bein fyrirmæli 21. gr. starfsmannalaga beri að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og einstaka efnisþætti hennar sé það unnt. Að öðrum kosti geti starfsmaður ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna. Þá verði einnig að gæta að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýsluaga við ákvörðunina.
Hvort sem lögð sé til grundvallar frásögn stefnanda eða stefnda um ástæður uppsagnar sé ljóst að hana megi rekja til ávirðinga í garð stefnanda. Með vísan til þess og framangreindra lagaákvæða telur stefnandi að stefnda hafi verið skylt að áminna hann áður en til uppsagnar kom, að undangengnum fresti fyrir stefnanda til að koma að andmælum sínum. Þar sem uppsögn stefnda hafi ekki uppfyllt ofangreind skilyrði hafi hún verið ólögmæt. Stefnandi tekur þó skýrt fram að hann mótmæli alfarið ásökunum stefnda um að hann hafi ekki staðið sig í starfi. Þá telur stefnandi fráleitt að vottorð læknis um óvinnufærni hans feli það í sér að hann hafi hvorki getað né mátt sækja tónleika. Þótt óvinnufær starfsmaður sæki tónleika feli það ekki í sér brot á ráðningarsamningi eða skyldum starfsmanns við vinnuveitanda og réttlætir þaðan af síður áminningu eða fyrirvaralausa uppsögn.
Stefnandi byggir á því að stefndi beri fébótaábyrgð á hinni ólögmætu uppsögn samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og dómvenju. Bótakrafa stefnanda svari til tvöfaldra árslauna hans hjá stefnda auk miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur. Útreikning SFR á árslaunum stefnanda sé að finna í gögnum málsins og byggist hann á launaseðlum stefnanda.
Stefnandi hafi hafið störf hjá lögreglunni 1. október 2006. Í upphafi hafi hann sinnt eftirliti á almenna varnarsvæðinu en frá 1. júní 2007 hafi hann sinnt öryggisgæslu í flugstöðinni sjálfri. Tæpt ár sé síðan stefnanda hafi verið sagt upp störfum og hafi hann verið án atvinnu allan þann tíma. Litlar líkur séu á því að breyting verði þar á næstu mánuði.
Stefnandi telur að við mat á fjártjóni hans vegna hinnar ólögmætu uppsagnar beri m.a. að hafa í huga aldur hans, kyn, menntun og starfsreynslu. Atvinnumöguleikar 56 ára karlmanns, sem hafi gagnfræðapróf, sé búsettur í Reykjanesbæ og hafi lengst af unnið störf er tengjast varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, séu fáir. Þetta eigi sérstaklega við um störf í heimabyggð stefnanda þar sem þekking hans og reynsla komi að notum. Þá beri að hafa í huga að stefnandi hafi notið réttinda samkvæmt lögum nr. 70/1996 og lögum nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hann hafi þar af leiðandi mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka ríkisstarfsmanna svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum ríkisins og hann gerðist ekki brotlegur í starfi. Í ljósi alls ofangreinds sé krafa stefnanda síst of há um skaðabætur vegna fjártjóns er svari til tvöfaldra árslauna, samtals 8.667.528 krónur.
Krafa stefnanda um miskabætur er studd við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Uppsögnin hafi verið sérlega meiðandi. Stefnanda hafi verið tilkynnt í viðurvist margra manna að hann hefði brotið af sér í starfi og þess væri ekki óskað að hann kæmi aftur á vinnustað. Stefnandi hafi því verið lítillækkaður frammi fyrir hópi manna er honum hafi verið sagt upp. Út á við beri uppsögnin þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um alvarlegt afbrot sem réttlæti fyrirvaralausan brottrekstur af vinnustað. Í framhaldinu hafi stefndi tilkynnti til Vinnumálastofnunar að ástæður starfsloka stefnanda væru léleg ástundun hans. Afleiðing þessarar tilkynningar hafi verið sú að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um að stefnandi öðlaðist ekki rétt til atvinnuleysisbóta í 40 daga þar sem framkoma hans við starfslokin jafngilti því að hann hefði sjálfur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Háttsemi stefnda gagnvart stefnanda í kjölfar uppsagnarinnar hafi þar af leiðandi verið einkar meiðandi. Með vísan til framangreinds telur stefnandi að uppfyllt séu skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika telur stefnandi að krafa hans um miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur sé hófleg. Tekið skuli fram að stefnandi hafi átt flekklausan starfsferil og hlotið hrós fyrir hin ýmsu störf í gegnum árin.
Stefnandi telur að stefndi eigi engar málsbætur sem leitt geti til lækkunar á stefnukröfunni. Stefnandi miðar kröfu sína um greiðslu dráttarvaxta af stefnufjárhæð við þann dag er honum var sagt upp störfum.
Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.
II.
Málavaxtalýsing stefnda.
Stefndi segir að stefndi Keflavíkurflugvöllur (nú Isavia) sé hlutafélag í eigu ríkisins. Félagið hafi verið stofnað af samgönguráðuneytinu 26. júní 2008 með heimild í lögum nr. 76/2008. Rekstur Keflavíkurflugvallar ohf. hafi hafist 1. janúar 2009 þegar verkefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. og Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli færðust yfir til félagsins. Hlutverk Flugmálastjórnar hafi m.a.verið að annast flugvernd og flugöryggi og gerði Flugmálastjórn í því skyni samning um öryggisgæslu við lögreglustjórann á Suðurnesjum.
Þegar öryggisgæsla hafi verið færð yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. hafi verið ákveðið að bjóða öllum starfsmönnum lögreglustjórans á Suðurnesjum sem henni höfðu sinnt, alls 63 starfsmönnum, að hefja störf hjá stefnda. Stefnandi hafi verið í þeim hópi. Þótt ekki væri tekin afstaða til þess í lögum nr. 76/2008 hvort í því fælist aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum hafi í bréfi til starfsmanna, dags. 29. október 2008, verið gengið út frá því að þeim reglum yrði beitt við yfirfærslu öryggisgæslu yfir til Keflavíkurflugvallar ohf.
Við undirbúning stofnunar Keflavíkurflugvallar ohf. hafi samgönguráðuneytið komið á fót vinnuhópi með hlutaðeigandi stéttarfélögum og hafi SFR, stéttarfélag stefnanda, átt aðild að hópnum. Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður, hafi starfaði að undirbúningi stofnunar félagsins, gert drög að bréfum til starfsmanna og setið fundi vinnuhópsins. Vinnuhópurinn hafi haldið þrjá fundi og starfsmaður ráðuneytisins haldið fundargerðir. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hafi Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður, verið fengin til að veita starfsmönnum lögreglustjórans á Suðurnesjum ráðgjöf vegna yfirtöku Keflavíkurflugvallar ohf. á öryggisgæslunni. Mikil áhersla hafi verið lögð á að upplýsa starfsmenn um breytingar og hvaða ákvæði laga ættu við. Í allri vinnu ráðuneyta og vinnuhópsins hafi verið gert ráð fyrir að breyting yrði á réttindum og skyldum opinberu starfsmannanna við yfirtöku hlutafélags á verkefnum.
Stefnandi hafi tilkynnt um veikindi að kvöldi 30. apríl 2009 og verið fjarverandi þrjár vaktir, þ.e. 1. til 3. maí. Hann hafi verið næstu tvo daga á frívakt og komið til vinnu 6. maí. Stefnandi hafi skilað inn læknisvottorði 18. maí um að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms frá 1. til 3. maí. Stefndi hafi síðan fengið upplýsingar um að stefnandi hafi verið á tónleikum að kvöldi 2. maí. Segja má að þetta atvik hafi verið dropinn sem fyllti mælinn því yfirmenn öryggisgæslu stefnda höfðu um nokkurt skeið verið óánægðir með hátterni stefnanda og afstöðu hans til vinnunnar og veitt stefnanda munnleg tilmæli um að bæta ráð sitt. Eftir samráð yfirmanna öryggisgæslu við starfsmannastjóra stefnda hafi verið ákveðið að segja stefnanda upp störfum og fundur verið haldinn með stefnanda 29. maí. Viðstaddir fundinn hafi verið auk stefnanda: Sigurður Ólafsson, starfsmannastjóri stefnda, Helgi Haraldsson, aðstoðarframkvæmdastjóri flugverndarsviðs, Einar Ólafsson, daglegur stjórnandi flugverndargæslu, og Grétar Hermannsson aðalvarðstjóri. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir ástæðum uppsagnarinnar og ekki óskað eftir vinnuframlagi á uppsagnarfrestinum. Stefnandi hafi því kvatt samstarfsmenn sína og yfirgefið vinnustaðinn.
Stefnandi hafi leitaði til stéttarfélags síns í júlí 2009 vegna uppgjörs á orlofi og hafi framkvæmdastjóri SFR haft samband við starfsmannastjóra stefnda 17. júlí. Ekkert hafi þá verið rætt um lögmæti uppsagnar stefnanda. Að beiðni stefnanda hafi stefndi gefið út „vottorð vinnuveitanda“, dags. 24. ágúst 2009, samhliða umsókn stefnanda um atvinnuleysisbætur. Ekki hafi verið tilgreint um ástæður uppsagnar á því vottorði en þá hafi verið haft samband við stefnda frá Vinnumálastofnun og óskað eftir skýringum á starfslokum stefnanda. Stefndi hafi þá gefið upp ástæður, enda taldi hann sé skylt að gera það samkvæmd ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Margir mánuðir hafi liðið frá starfslokum stefnanda þar til hann hafi gert athugasemdir við lögmæti uppsagnarinnar.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi að fullu gert upp laun við stefnanda á grundvelli ráðningarsamningsbundins uppsagnarfrests og því eigi stefnandi engar frekari kröfur á stefnda. Uppsögnin hafi verið lögleg og á engan hátt meiðandi. Því sé hvorki grundvöllur fyrir skaðabóta- né miskabótakröfur stefnanda. Stefndi sé hlutafélag einkaréttarlegs eðlis sem lúti almennri löggjöf á sviði vinnuréttar. Ákvæði laga sem takmarka uppsagnarrétt vinnuveitanda eigi ekki við um uppsögn stefnanda. Stefndi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti sé áminning ekki forsenda uppsagnar. Það sé því stefnanda að sýna fram á að stefndi hafi sérstaklega undirgengist frekari takmarkanir á uppsagnarrétti.
Enginn ágreiningur sé milli aðila um að með lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar ohf. hafi starf stefnanda hjá ríkinu verið lagt niður og því hafi stefnandi við yfirtöku Keflavíkurflugvallar ohf. á starfseminni misst stöðu sína sem ríkisstarfsmaður. Stefndi telur sig ekki hafa tekið yfir ráðningarkjör stefnanda sem sérstaklega eru afmörkuð í lögum fyrir ríkisstarfsmenn eða veitt stefnanda slíkan rétt, hvorki með athöfn né athafnaleysi.
Stefndi hafnar þeim skilningi stefnanda að ráðningarsamningur hans við ríkið, sem í gildi var fyrir flutning starfseminnar til hlutafélagsins, hafi veitt honum réttindi ríkisstarfsmanns í störfum hjá hlutafélaginu. Ráðningarsamningurinn tryggi ekki stefnanda málsmeðferð og uppsagnarvernd samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda verði að túlka ráðningarsamning aðila að breyttu breytanda. Ráðningarsamningurinn hafi verið gerður 31. maí 2007 þegar stefnandi var ríkisstarfsmaður, þ.e. starfsmaður lögreglustjórans á Suðurnesjum. Yfirskrift ráðningarsamnings stefnanda sé „Ráðningarsamningur samkvæmt 42. grein laga nr. 70/1996“ Í honum sé tilgreind „ríkisstofnun“ og neðst á eyðublaðinu komi fram að um sé að ræða rafræna útgáfu fjármálaráðuneytisins frá október 2001. Í meginmáli samningsins komi fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins liggi til grundvallar við gerð þessa ráðningarsamnings auk kjarasamnings stéttarfélags sem tilgreint sé í samningnum. Um sé að ræða samningseyðublað sem stofnanir ríkisins noti á grundvelli laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hafi stefndi fallið undir þau lög samkvæmt 1. grein þeirra. Ákvæði ráðningarsamnings um að réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir þeim lögum hafi því enga efnislega eða sjálfstæða þýðingu, enda ekki verið að veita stefnanda réttindi umfram það sem leiddi af lögum. Einungis hafi verið vísað til laga sem stofnunin og stefnandi hafi fallið undir.
Ljóst sé að stefndi hafi ekki tekið yfir ráðningarsamning sem byggist á 42. gr. laga nr. 70/1996. Einungis ríkið og stofnanir þess geri ráðningarsamninga á grundvelli laganna. Því verði að túlka ráðningarsamninginn í því ljósi að vinnuveitandi stefnanda frá 1. janúar 2009 var hlutafélag á almennum vinnumarkaði sem sé óheimilt að gera ráðningarsamninga á grundvelli laga nr. 70/1996.
Stefndi byggir á því að lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum verndi ekki sérréttindi opinberra starfsmanna. Um sé að ræða sérstök réttindi sem þeir hafi umfram almenna löggjöf á sviði vinnuréttar. Eigi sá skilningur sér stoð í dómi EFTA dómstólsins í máli E-3/01. Stefnanda hafi verið ljóst að starf hans hjá lögreglustjóra Suðurnesja var lagt niður 31. desember 2008 er hann hóf störf hjá hlutafélagi 1. janúar 2009. Hann hafi því ekki getað vænst þess að njóta réttarstöðu ríkisstarfsmanns hjá nýjum vinnuveitanda. Hvorki fyrir yfirtöku stefnda á verkefnum stefnanda né síðar hafi stefnanda verið gefinn neinn ádráttur um að hann nyti áfram réttarstöðu ríkisstarfsmanns. Stefndi bendir einnig á að vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði geti ekki byggt á sérákvæðum um skyldur ríkisstarfsmanna í lögum nr. 70/1996, sbr. IV. kafla laganna. Mat á samningsfrelsi launamanns og vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði verði einungis metið út frá almennum reglum vinnuréttar en ekki á grundvelli laga nr. 70/1996. Ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda um að hann beri skyldur ríkisstarfsmanns skorti því lagastoð. Veiki það enn þann málflutning stefnanda að ákvæðið hafi gilt fullum fetum.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að bréf til stefnanda, dags. 29. október 2009, undirritað af lögreglustjóranum á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli ohf., hafi að geyma yfirlýsingu um að stefndi skuli njóta áfram réttinda ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefndi byggir á því að bréfið gangi á engan hátt lengra en ákvæði laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Því hafi það enga sjálfstæða þýðingu umfram ákvæði laga nr. 72/2002. Stefndi bendir á að skýrt komi fram í bréfinu að yfirtaka á ráðningarsamningi stefnanda sé gerð í samræmi við lög nr. 72/2002. Stefnandi geti því ekki túlkað bréfið víðar en ákvæði laga nr. 72/2002 gefi tilefni til. Verði fallist á að stefndi hafi verið bundinn af tilvísun til laga nr. 70/1996 í ráðningarsamningi byggir stefndi á því að einungis skilyrði 1. mgr. 44. gr. laganna, sbr. 21. gr., komi til skoðunar í málinu. Stefndi andmælir sérstaklega tilvísun stefnanda til ákvæða stjórnsýslulaga og reglna stjórnsýsluréttar. Hvorki í ráðningarsamningi stefnanda, dags. 31.5.2007, né í lögum nr. 70/1996 sé vísað til ákvæða stjórnsýslulaga. Því geti stefnandi ekki gert þá kröfu að málsmeðferð, hvað varðar áminningu og uppsögn, fari eftir ákvæðum stjórnsýsluréttar, enda falli stefndi ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga né sé hann að öðru leyti bundinn af reglum stjórnsýsluréttar þegar komi að ráðningum starfsmanna og uppsögnum. Ákvæði stjórnsýslulaga komi því ekki til fyllingar ákvæðum 21. og 44. gr. laga nr. 70/1996. Að mati stefnda hafi verið fullt tilefni til að segja stefnanda upp störfum þegar hann sótti langa tónleika að kvöldi til á sama tíma og hann kvaðst vera óvinnufær vegna sjúkdóms. Stefnandi hafi átt að vera við vinnu sama dag og tónleikarnir voru haldnir, þ.e. 2. maí 2009. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði hafi stefnandi verið „óvinnufær með öllu“ frá 1. til 3. maí 2009. Það var að mati stefnda mjög alvarlegt brot á ráðningarsamningi að tilkynna um veikindafjarvistir, sem vinnuveitanda ber að greiða samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, ef starfsmaður er fær um að sinna starfi sínu, a.m.k. að einhverjum hluta. Stefnandi hafi ekki andmælti þessum skilningi stefnda við uppsögnina og hafi hvorki síðar, né með stefnu í máli þessu, reynt að réttlæta gjörðir sínar.
Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda sem allt of hárri og órökstuddri. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi verði fyrir tjóni sem nemi tveimur árslaunum. Stefnandi hafi verið á launaskrá hjá stefnda til 30. september 2009 og beri hann sönnunarbyrði fyrir því að hann muni eftir þann tíma verða fyrir fjártjóni sem nemi tveimur árslaunum. Stefnandi sé búsettur á stóru atvinnusvæði sem nái yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanes og miklar líkur séu á að atvinnuhorfur glæðist á svæðinu innan fárra mánaða. Ekki sé unnt að jafna stöðu stefnanda við réttarstöðu ríkisstarfsmanna sem almennt megi gera ráð fyrir að gegna starfi sínu um aldur og ævi. Dómafordæmi um bætur til ríkisstarfsmanna vegna ólögmætra uppsagnar hafi því ekki þýðingu. Skilja verði málflutning stefnanda svo að ákvæði ráðningarsamnings stefnanda, með tilvísun til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé sjálfstætt samningsákvæði en byggist ekki á lágmarksákvæðum laga eða kjarasamninga sem stefndi sé bundinn af. Stefnda hafi því verið í lófa lagið að segja upp slíkum ráðningarsamningi og bjóða hlutaðeigandi starfsmönnum nýjan ráðningarsamning án slíks ákvæðis. Verði að meta bótaskyldu stefnda í því ljósi. Verði fallist á að stefnandi eigi bótakröfu á stefnda vegna starfslokanna telur stefndi að miða eigi við bótafjárhæðir sem dæmdar séu vegna ólöglegra uppsagna á almennum vinnumarkaði, t.d. þegar starfsmönnum, sem njóta sérstakrar uppsagnarverndar, sé sagt upp störfum. Komi þar helst til skoðunar bætur sem dæmdar séu vegna ólögmætra uppsagna trúnaðarmanna.
Vegna bótakröfunnar sé skorað á stefnanda að upplýsa um greiðslur frá öðrum aðilum eftir að hann féll af launaskrá hjá stefnda, m.a. frá Atvinnuleysistryggingasjóði og öðrum vinnuveitendum.
Stefndi andmælir miskabótakröfu stefnanda, enda eigi hún sér ekki lagastoð. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum og á þeim fundi hafi einungis starfsmannastjóri stefnda verið viðstaddur og næstu yfirmenn stefnanda. Komið hafi verið fram við stefnanda af kurteisi og uppsögnin á engan hátt meiðandi. Engin fordæmi séu fyrir miskabótum þótt vinnuveitandi kjósi að afþakka vinnuframlag starfsmanns í uppsagnarfresti. Tilkynning stefnda til Vinnumálastofnunar hafi heldur ekki verið meiðandi, enda stefnandi einungis að uppfylla lagaskyldu sína til að upplýsa stofnunina um ástæður uppsagnar af hálfu vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Stefndi hafi því ekki getað vikið sér undan því að tilgreina á vottorði vinnuveitanda að ástundun hafi verið ástæða uppsagnarinnar. Ekki verði séð af stefnu að stefnandi hafi andmælt vinnuveitandavottorðinu, t.d. með bréfi til Vinnumálastofnunar eða kæru til úrkurðarnefndar atvinnuleysistrygginga. Af framansögðu sé ljóst að stefndi hafi á engan hátt komið með meiðandi hætti fram gagnvart stefnanda og því ekki lagaskilyrði fyrir greiðslu miskabóta.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi hafi verið á launaskrá hjá stefnda til loka september 2009 og á þeim tíma engar athugasemdir gert við starfslok sín hjá stefnanda. Formleg krafa um bætur til handa stefnanda hafi fyrst komið fram með bréfi lögmanns stefnda, dags. 5. janúar 2010. Verði fallist á kröfur stefnanda um bætur komi dráttarvextir því fyrst til álita einum mánuði eftir að krafa kom fram frá lögmanni stefnanda, þ.e. frá 5. febrúar 2010.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr.
III.
Niðurstaða.
Stefnandi kom fyrir dóminn og gaf skýrslu ásamt Sigurði Ólafssyni, starfsmannastjóra stefnda, Birgi Eðvarðssyni, starfsmanni stefnda, og Jónu Hólm, fyrrverandi starfsmanni stefnda.
Stefnandi starfaði sem öryggisvörður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum en embætti lögreglustjórans sinnti öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli á grundvelli samnings við Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Keflavíkurflugvöllur ohf. (nú Isavia ohf.) var stofnað 26. júní 2008 með heimild í lögum nr. 76/2008. Rekstur Keflavíkurflugvallar ohf. hófst 1. janúar 2009 en þá fluttust verkefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. og Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar yfir til hins nýja félags. Við þennan samruna fluttist öryggisgæslan á flugvellinum til Keflavíkurflugvallar ohf. og var ákveðið að bjóða öllum starfsmönnum lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem sinnt höfðu öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli, alls 63 starfsmönnum, að hefja störf hjá stefnda.
Við undirbúning stofnunar félagsins var komið á fót vinnuhópi með hlutaðeigandi stéttarfélögum og átti SFR, stéttarfélag stefnanda, aðild að hópnum. Fundir voru haldnir og starfsmönnum veitt ráðgjöf vegna yfirtöku stefnda á öryggisgæslu. Stefnandi hóf störf hjá Keflavíkurflugvelli ohf. 1. janúar 2009 og var sagt upp störfum 29. maí 2009. Með bréfi, dags. 5. júní 2010, lýsti stefndi því yfir að hann teldi uppsögnina ólögmæta og bótaskylda.
Með lögum nr. 153/2009 var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra f.h. íslenska ríkisins heimilað að ákveða samruna Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. Stofnfundur hins sameinaða félags var haldinn 29. janúar 2010 en sameining kom ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí 2010, eftir að mál þetta var höfðað. Hið nýja félag starfar undir nafninu Isavia ohf.
Aðilar deila um hvort lögbundin sérkjör opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um áminningarskyldu vinnuveitanda áður en til uppsagnar kemur, hafi færst yfir til hins nýja vinnuveitanda, stefnda í málinu. Aðilar deila ekki um að áunnin persónuleg réttindi stefnanda samkvæmt kjarasamningi hafi haldist, eins og t.d. lífeyris-, orlofs- og veikindaréttur svo og réttindi samkvæmt framlögum í sjúkrasjóð.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að um réttarsamband hans og stefnda hafi gilt lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Til stuðnings því vísar stefnandi til bréfs stefnda og lögreglustjórans á Suðurnesjum til stefnanda, dags. 29. október 2009, þar sem skýrt sé tekið fram að réttindi og skyldur stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hans við lögreglustjórann á Suðurnesjum færist yfir til stefnda. Til frekari stuðnings vísar stefnandi einnig til ákvæða 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., svo og til 5. gr. laga nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Í framangreindum lögum er kveðið á um að réttindi og skyldur starfsmanns flytjist yfir til hins nýja vinnuveitanda. Stefnandi telur að ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, sbr. 21. gr. um áminningu, hafi gilt við uppsögn stefnanda. Hafi stefndi ekki virt þau ákvæði og sé því skaðabótaskyldur.
Samkvæmt 1. tl. 2. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ákvæði laganna ekki um opinber hlutafélög en þar segir að lögin taki ekki til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Reglur hins almenna vinnumarkaðar gilda því um opinber hlutafélög.
Stefnandi gerði ráðningarsamning við lögreglustjórann á Suðurnesjum 31. maí 2007 og færðust réttindi og skyldur stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi yfir til stefnda eins og segir í bréfi stefnda og lögreglustjórans á Suðurnesjum til stefnanda 29. okt. 2008. Ekki verður talið að ákvæði ráðningarsamnings stefnanda við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafi sérstakt efnislegt gildi í málinu. Þessi samningur var gerður við opinberan starfsmann og var hann byggður á opinberum rétti. Stefnandi var ríkisstarfsmaður og um hann giltu því lög nr. 70/1996. Stefndi gat ekki tekið yfir ráðningarsamning sem byggðist á 42. gr. laga nr. 70/1996. Einungis ríkið og stofnanir þess geta gert ráðningarsamning á grundvelli laganna. Verður að túlka samninginn í því ljósi og telja að hann hafi ekki veitt stefnanda meiri rétt umfram það er leiddi af lögum.
Stefnandi byggir á að túlka beri bréf stefnda og lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 29. október 2008, sem skuldbindandi loforð um að stefnandi haldi öllum sínum réttindum sem hann hafði sem opinber starfsmaður, þ. á m. þeim réttindum sem felast í uppsagnarvernd samkvæmt lögum nr. 70/1996. Eins og áður sagði segir m.a. í bréfinu að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi við fyrrverandi vinnuveitanda færist yfir til stefnda við aðilaskiptin og verði því ekki breyting á launum eða starfskjörum stefnda samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta bréf er í samræmi við 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eins og hún hljóðaði er bréfið var samið. Bréfið þykir ekki veita meiri rétt en þann að nýr vinnuveitandi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi hafði við fyrrverandi vinnuveitanda, lögreglustjórann á Suðurnesjum. Ekki verður fallist á með stefnanda að ákvæði 3. gr. laga nr. 72/2002 eigi við sérstök lögbundin réttindi ríkisstarfsmanna tengd uppsagnarvernd samkvæmt lögum nr. 70/1996. Í bréfinu fólst aðeins loforð um að ekki yrði breyting á launum stefnanda og starfskjörum samkvæmt kjarasamningi. Bréfið gekk á engan hátt lengra en ákvæði 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Það hafði því enga sjálfstæða þýðingu umfram ákvæði laganna.
Samkvæmt öllu framansögðu giltu almennar reglur vinnuréttar um vinnusamning aðila. Hinn nýi samningur var einkaréttarlegur samningur og ráðningarsamningur stefnanda við lögreglustjórann á Suðurnesjum féll niður er stefnandi lét af störfum sem opinber starfsmaður. Eftir það naut hann ekki verndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 þar sem kveðið er á um uppsögn og áminningarferli. Ákvæði 3. gr. laga nr. 72/2002 vernda ekki sérréttindi opinberra starfsmanna.
Stefndi verður því alfarið sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Isavia ohf, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðmanns Marels Sigurðssonar, í málinu.
Málskostnaður fellur niður.