Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2015
Lykilorð
- Skilasvik
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um skilasvik samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 1. febrúar 2010, í aðdraganda töku bús hans til gjaldþrotaskipta, skert rétt lánardrottna sinna til að öðlast fullnægju af eignum sínum með því að afsala tilgreindri fasteign í Bandaríkjunum, sem hann átti að helmingi með eiginkonu sinni, til svissnesks félags gegn greiðslu 10 bandaríkjadala og þannig með málamyndagerningi skotið eignarhluta sínum undan skiptum.
Ákærði kveðst reisa aðalkröfu sína á því að héraðsdómur hafi látið hjá líða að fjalla um þær málsástæður að háttsemi sín hafi hvorki falið í sér ásetning til undanskots fasteignarinnar né til auðgunar hans. Tilgreinir ákærði sérstaklega að af hálfu síðari eiganda framangreindrar fasteignar hafi við meðferð málsins í héraði því verið lýst yfir að hann myndi hafa fallist á kröfu skiptastjóra um riftun ráðstöfunarinnar hefði hún komið fram. Hafi héraðsdómur að þessu leyti verið í andstöðu við fyrirmæli e. og f. liðar 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Bú ákærða var tekið til gjaldþrotaskipta 18. febrúar 2010 á grundvelli árangurslauss fjárnáms 18. nóvember 2009. Voru ákærði og eiginkona hans þá skráð eigendur umræddrar fasteignar, en hana munu þau hafa keypt á árinu 2007 fyrir 657.483,95 bandaríkjadali. Ákærði lét á hinn bóginn hjá líða að gefa skiptastjóra upplýsingar um fasteignina og gaf síðar þær skýringar að hann hefði í raun selt hana á árinu 2008. Jafnframt er í héraðsdómi lýst tilurð ýmissa skjala varðandi ætluð lögskipti ákærða við tilgreindan mann sem og sölu á fasteigninni, en í upphafi árs 2010 nam eignarhluti ákærða í henni að lágmarki 136.060,50 bandaríkjadölum. Eru í héraðsdómi raktar misvísandi skýringar ákærða og vitna um málsatvik og komist með rökstuddum hætti að niðurstöðu um ásetning ákærða til brotsins og fullframningu þess. Eru framangreindar ástæður ákærða fyrir heimvísun málsins því með öllu haldlausar.
Að virtum þeim röksemdum héraðsdóms sem vísað hefur verið til verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Ákærði lýsti yfir áfrýjun héraðsdóms 27. febrúar 2015 og bárust ríkissaksóknara dómsgerðir frá héraðsdómi 2. júlí sama ár. Málsgögn frá ríkissaksóknara bárust Hæstarétti á hinn bóginn ekki fyrr en 29. febrúar 2016. Þessi dráttur hefur ekki verið skýrður og að því gættu kemur krafa ákæruvaldsins um þyngingu refsingar ákærða ekki til álita hér fyrir dómi. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um refsingu ákærða og sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað fyrir Hæstarétti sem nemur kostnaði við gerð málsgagna, en krafa um málsvarnarlaun skipuðum verjanda ákærða til handa var háð þeirri forsendu að greiðsla þeirra félli að einhverju leyti á ríkissjóð.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Arnfinnur Sævar Jónsson, greiði 46.179 krónur í sakarkostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2015
Mál þetta, sem þingfest var 5. mars 2014 og dómtekið 23. janúar sl., er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara útgefinni 30. janúar 2014 á hendur Arnfinni Sævari Jónssyni, kt. [...], með lögheimili í Sviss,
„fyrir eftirfarandi brot gegn almennum hegningarlögum:
I
fyrir skilasvik, með því að hafa 1. febrúar 2010, í aðdraganda töku bús hans til gjaldþrotaskipta, skert rétt lánardrottna sinna til að öðlast fullnægju af eignum hans með því að afsala fasteigninni að 8700 Sandy Crest Lane, Boynton Beach í Flórída, Bandaríkjunum, sem hann átti að hálfu á móti eiginkonu sinni, til svissneska félagsins iiLuxury International AG, þar sem ákærði var stjórnarformaður, gegn 10 Bandaríkjadala greiðslu og þannig skotið eignarhluta sínum undan búskiptunum eða varið andvirði eignarhlutans til greiðslu tiltölulega hárrar gjaldkræfar kröfu.
Árangurslaust fjárnám var gert hjá ákærða 18. nóvember 2009 og var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2010.
Ákærði og eiginkona hans keyptu fasteignina á árinu 2007 fyrir 657.483,95 Bandaríkjadali en í upphafi árs 2010 var verðmæti eignarinnar samkvæmt fasteignamati 272.121 Bandaríkjadalur og nam verðmæti eignarhlutar ákærða í fasteigninni að lágmarki 136.060,50 Bandaríkjadölum.
Telst brot ákærða varða við 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
II
Í málinu gerir Pétur Már Jónsson hdl., fyrir hönd Pillar Securitisation S.à.r.l., 35a avenue J.F. Kennedy, Lúxemborg, þá kröfu aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð 57.143 Bandaríkjadalir auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2010 til þingfestingardags sakar, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð 7.332.058 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2010 til þingfestingardags sakar, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilfellum er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu málskostnað.“
Ákærði kom fyrir dóminn 19. mars 2014 og neitaði sök og mótmælti bótakröfunni. Var málinu ítrekað frestað vegna fjarveru ákærða eða vitna. Fór aðalmeðferð fram þann 16. janúar sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Við upphaf aðalmeðferðar tók dómari þá ákvörðun, með vísan til 175. gr. laga nr. 88/2008, að vísa einkaréttarkröfunni á reglulegt þing og var sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun. Fékk einkaréttarkrafan málanúmer E-61/2015. Ákærði krafðist sýknu og að málskostnaður yrði felldur á ríkissjóð. Þá féll verjandi ákærða frá málskostnaðarkröfu sinni yrði ákærði sakfelldur. Var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Upphaf máls þessa er kæra skiptastjóra í þrotabúi ákærða til sérstaks saksóknara vegna sölu á fasteign þrotabúsins að Boynton Beach 33437 FL, Sandy Crest Lane í Flórídaríki í Bandaríkjunum en með sölunni hafi eignum, sem hugsanlega áttu að tilheyra þrotabúinu, verið skotið undan. Til fasteignakaupanna hafi ákærði fengið lán hjá Kaupthing Luxembourg S.A. á árinu 2007 að fjárhæð USD 578.841,66 og hafi lánið verið greitt út til ákærða 25. janúar 2007. Vegna vanskila á láninu höfðaði kröfuhafinn mál á hendur ákærða og þann 14. apríl 2009 var ákærða stefnt til greiðslu skuldar að fjárhæð 451.781,52 EUR ásamt vöxtum og kostnaði. Var málið þingfest í Héraðsdómi Hafnarfjarðar 6. maí 2009 og var stefnan árituð um aðfararhæfi en útivist varð af hálfu ákærða.
Þann 23. september 2009 var boðun í fjárnám hjá sýslumanninum í Hafnarfirði sem taka átti fyrir 29. september 2009 á hendur ákærða, birt eiginkonu hans á heimili þeirra. Ákærði mætti ekki í þá fyrirtöku en í gögnum málsins liggur fyrir kvaðning til ákærða frá sýslumanninum í Hafnarfirði, dagsett 12. nóvember 2009, þar sem ítrekað er að ákærði mæti við fyrirtöku fjárnámsgerðar. Að öðrum kosti verði hann færður með aðstoð lögreglu til sýslumanns.
Þann 10. nóvember 2009 gerðu ákærði og eiginkona hans með sér kaupmála þar sem einbýlishús í smíðum að Mosaprýði 10, Garðabæ, 50% eignarhlutur í jörð í Hafrafellslandi og 100% hlutur í Ellum ehf. varð að séreign eiginkonu ákærða. Var kaupmálinn skráður í þinglýsingabók sýslumanns 16. nóvember 2009.
Þann 18. nóvember 2009 fór fram fjárnám hjá ákærða hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og mætti ákærði þar sjálfur. Lýsti hann því yfir að hann ætti engar eignir til tryggingar fjárkröfunni sem var að fjárhæð rúmlega 93.000.000 króna. Var fjárnáminu lokið án árangurs.
Þann 6. janúar 2010 var krafa um gjaldþrotaskipti á búi ákærða afhent Héraðsdómi Reykjaness og var ákærði boðaður til fyrirtöku á dómþing þann 11. febrúar 2010 með fyrirkalli sem birt var honum 2. febrúar 2010. Var úrskurður kveðinn upp 18. febrúar 2010 þar sem bú ákærða var tekið til gjaldþrotaskipta og Grétar Dór Sigurðsson hdl. skipaður skiptastjóri.
Meðal innkallaðra krafna í þrotabúið var krafa frá Pillar Securitsation S.a.r.l., samtals að fjárhæð 97.375.605 krónur. Við skoðun skiptastjóra á eignum búsins komst hann að því að ofangreind fasteign í Flórída hafði verið á nafni ákærða og eiginkonu hans en seld til iiLuxury International AG. með afsali sem undirritað var 1. febrúar 2010 hjá Notarius Publicus í Reykjavík.
Við skýrslutöku hjá skiptastjóra 16. mars 2010 kvaðst ákærði hafa selt fasteignina rúmu ári áður, þá í byrjun árs 2009, og tapað um tuttugu milljónum króna á þeim viðskiptum. Að ábendingu ákærða hafði skiptastjórinn samband með tölvupósti við lögmann ákærða, Tómas Jónsson hdl., þann 22. mars 2010 og óskaði m.a. eftir upplýsingum um fasteign í Flórída, hver hafi keypt, fyrir hvaða verð og um eignarhlut eiginkonu ákærða í húsinu. Svaraði lögmaðurinn í tölvupósti 30. mars 2010 að fasteignin hefði verið seld gegn staðgreiðslu á árinu 2007 og frekari gögn um það væru ekki tiltæk. Óskaði skiptastjóri í framhaldi eftir upplýsingum um það í hvað peningarnir hefðu farið ef eignin hefði verið seld án nokkurra skjala. Svaraði lögmaðurinn því til að hann hefði ekki frekari upplýsingar um fasteignina en skyldi reyna að afla frekari upplýsinga. Þann 6. apríl 2010 svaraði ákærði einnig skiptastjóra og kvaðst aldrei hafa sagt að pappírarnir um fasteignina væru ekki til, hann bara hreinlega vissi ekki hvar þeir væru, enda dveldi hann ekki lengur í fortíðinni. Peningarnir hafi m.a. farið í bankann sem hafi farið fram á gjaldþrot hans, nokkrir tugir milljóna þar, greiðslur á húsi sem fjölskyldan væri búin að tapa og fleira í þeim dúr.
Þann 23. september 2010 gerði skiptastjóri samkomulag við eiginkonu ákærða um riftun á ráðstöfun ákærða á eignarhlut í jörðinni Hafrahlíð í Berufirði. Engar frekari upplýsingar fengust frá ákærða um ráðstöfun eignarinnar í Flórída.
Með bréfi 21. október 2010 skoraði skiptastjóri á ákærða að upplýsa frekar um fasteignina og svaraði ákærði honum í tölvupósti þann 28. október s.á. þar sem hann kvaðst hafa selt húsið áður en hann hafi getað vitað að hann yrði ógjaldfær í kjölfar bankahrunsins og því komi það engum við í hvað þeir peningar hafi farið á þeim tíma. Í kjölfar þessara samskipta við ákærða aflaði skiptastjóri, í samvinnu við lögmann í Flórída, upplýsinga um fasteignina þar. Kvað hann ákærða og eiginkonu hans hafa keypt fasteignina 16. janúar 2007 og þau síðan afsalað henni til iiLuxury International AG 29. janúar 2010. Sendi lögmaðurinn skiptastjóra gögn þessu til staðfestingar. Þá liggur fyrir útprentun af fasteignavef í Flórída þar sem húsið er auglýst til sölu á 449.749 dollara. Er sú útprentun dagsett 23. ágúst 2010.
Þann 22. júlí 2009 voru samþykktir iiLuxury International AG í Olten, Sviss, undirritaðar. Var ákærði skráður stjórnarformaður, A, indverskur ríkisborgari, stjórnarmaður og B frá Bettlach framkvæmdarstjóri. Var hlutaféð 100.000 svissneskir frankar.
Með tölvupósti 10. janúar 2011 frá ákærða til A óskar ákærði eftir því við A að ákærði verði afskráður úr stjórn félagsins iiLuxury Group í Swiss. Þann 16. janúar s.á. svaraði A því til að hann lofaði því að ákærði yrði afskráður úr stjórn félagsins innan tíu daga. Þann 25. janúar 2011 svaraði Brynjar Níelsson hrl. skiptastjóra og sagði húsið hafa verið notað sem greiðsla á skuld ákærða við félagið iiLuxury Group í Swiss. Kvað Brynjar skuld ákærða gagnvart félaginu vera einhvers staðar á bilinu 120-150 þúsund dollarar og kaupverð á svona húsum eftir hrun hafi verið ca 180-220 þúsund dollarar. Þá hafi eiginkona ákærða átt helming í húsinu.
Í gögnum málsins liggur fyrir samkomulag ákærða og A dagsett 3. september 2008. Segir í samkomulaginu að ákærði skuldi A 145.530 dollara. Hafi lánið verið veitt til ákærða síðustu ár vegna ýmiss kostnaðar hans. Þá segir í 2. gr. samningsins að til endurgreiðslu á láni þessu afsali ákærði sér húsi sínu í Boyton Beach í Flórída og sé verð hússins metið á 200.000 dollara. Verði húsið flutt á nafn félags í eigu A. Í 3. gr. samningsins segir að húsið verði fært á nafn iiLuxury SA, staðsett í Solothun í Sviss, sem sé alfarið í eigu A. Segir svo í lok samningsins að hann sé undirritaður 3. september 2008 í Lugano í Sviss í votta viðurvist.
Þá liggur fyrir afsal, „e. Quit Claim Deed“, fyrir ofangreindri fasteign, undirritað hjá Notarius Puplicus í Reykjavík þann 1. febrúar 2010. Var söluverð hússins sagt vera $10, tíu dollarar. Fór endanleg skráning á nafnabreytingu hússins fram í Flórída 2. febrúar 2010.
Skattframtöl ákærða fyrir tekjuárin 2007 til og með 2009 liggja frammi í málinu. Eru þar hvorki tilgreindar skuldir ákærða við Kaupþing í Lúxemborg frá 15. janúar 2007 að fjárhæð USD 578.841,66 né skuld ákærða við A að fjárhæð USD 145.530. Þá er fasteignin á Flórída ekki talin fram sem eign til skattyfirvalda.
Ákærði gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara 12. mars 2013. Kvaðst ákærði þá ekki hafa vitað um að A, viðskiptafélagi sinn, hafi stofnað félagið iiLuxury svo seint en ákærði hafi hlaupið undir bagga með honum til að loka þessu máli. Þá kvaðst ákærði hafa skuldað honum til margra ára, skuldin hafi verið töluvert eldri en frá árinu 2008. Ákærði og A hafi því undirritað samning þar sem þeir gera upp skuldina á árinu 2008. Kvað ákærði engar tryggingar hafa verið að baki láninu frá Kaupþing í Lúxemborg. Þá lýsti ákærði því að salan á húsinu í Flórída hafi verið til að skuldajafna skuld hans við A. Þeir hafi ekki farið á fasteignasölu til að yfirfæra húsið á A þar sem þurft hefði að borga fyrir það, það hafi bara verið gert hjá lögfræðingi. Það hafi verið í mars 2008. Skuldin við A hafi verið USD 150.000. Kvað ákærði húsið hafa fallið í hruninu um USD 450.000. Aðspurður um verðmat á húsinu mundi ákærði ekki hvernig það hafi verið fengið en menn hafi verið ásáttir með það. Kvað ákærði skuld sína við A hafa verið vegna kaupa ákærða á úrum, skartgripum, töskum og drasli og hafi A verið með opinn reikning, inn og út og síðan hafi orðið eitthvert uppgjör.
Ákærði var spurður um félagið INCE. International Inceorporated. Kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um það og ekki hafa verið skráður í félag sem heiti INCE. Samkvæmt gögnum málsins var fasteigninni afsalað með „e Quit Claim“ frá félaginu iiLuxury International AG til INCE International Inc í ágúst 2011. Ákærði kvaðst aðspurður ekkert vita um það félag. Þá virtist það koma ákærða á óvart að IN Heildsala ehf., sem ákærði kvaðst vinna hjá, væri í 100% eigu INCE. International Inceorporated. Ákærði kvaðst ekki hafa stigið fæti inn í húsið í Flórída eftir ágúst 2008 eða eftir að hann afsalaði sér eigninni. Þá kvaðst ákærði eingöngu hafa verið að hjálpa A við stofnun iiLuxury þar sem A hafi verið í vandræðum með að fá menn til þess að stofna félagið, hann hafi bara þurft einhvern til að skrifa undir fyrir sig, sem ákærði hafi gert. Ákærði hafi ekki átt að vera í stjórn félagsins nema í um mánuð og síðan hafi annar átt að koma í sinn stað. Þá kvaðst ákærði ekkert vita í hvaða tilgangi A hafi stofnað þetta félag en ákærði hafi skrifað undir. Þá voru skýringar ákærða á því hvernig hægt væri að koma honum úr stjórn án hans aðkomu loðnar og óskýrar en ákærði kvaðst örugglega eiga einhver skjöl um það eða geta aflað þeirra. Staðfesti ákærði í skýrslutökunni að samningur hans og A um uppgjör á skuld ákærða við hann hafi verið undirritaður í september 2008. Þá kvað ákærði lögfræðing í Sviss hafa útbúið afsalið fyrir eigninni í janúar 2010 en ákærði hafi fengið pappírana senda í pósti, undirritað þá hér heima og fengið staðfestingu sýslumanns á undirritun þeirra hjóna og sent pappírana til baka. Afsalinu hafi síðan verið þinglýst í Flórída daginn eftir. Ákærði kvað þá A vera í viðskiptasamböndum í dag, m.a. með verslun á æðardúni.
Ákærði gaf aftur skýrslu hjá sérstökum saksóknara þann 18. desember 2013. Kvað hann það rétt haft eftir konu sinni í skýrslutöku hjá lögreglu að þau hjón hafi haft afnot af fasteigninni í Flórída eftir uppgjörið við A. Þau hafi verið í húsinu síðast um páskana 2013. Gat ákærði ekki gefið skýringu á fyrri framburði sínum um að hann hefði aldrei komið í húsið eftir uppgjör þeirra 2008. Eiginkona ákærða kvað í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara að þau hafi verið í húsinu á árinu 2012 og 2013. Ákærði sagði A vera eiganda félagsins INCE International Inc, sem væri skráð á Tortóla, en það félag væri nú skráð eigandi að húsinu í Flórída. Þá upplýsti ákærði að félagið sem hann ynni hjá, IN-heildsala, héti nú IN-import en eingöngu hefði verið breytt um kennitölu, félaginu hefði ekki verið slitið. Staða þess væri góð og félag A, INCE, ætti 100% í félaginu og staðan væri þokkaleg, hlutaféð 389.000,000 krónur.
A gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara 20. desember 2013. Kvað hann ákærða mjög náinn vin sinn en þeir hafi kynnst fyrir tíu til fimmtán árum og þeir væru einnig góðir viðskiptafélagar. Aðspurður kvað hann skuldir ákærða við sig hafa orðið til á árunum 2001 og 2004 eða 2005. Þeir hafi verið í viðskiptum saman, A hefði lagt til skartgripi og selt ákærða en ekki fengið greitt fyrir. Þá hafi ákærði fengið lán hjá sér til að greiða birgjum. Þeir hafi hins vegar leyst þetta allt árið 2005 eða 2006. Þeir hafi gert allt upp. Uppgjörið hafi falist í því að A hafi tekið eignir ákærða upp í skuldina og hafi uppgjörið farið fram á grundvelli fasteignaverðs árið 2002. Kvað A enga samninga hafa verið undirritaða vegna þessara skulda en A hafi pressað á ákærða á árunum 2001 til 2005 að greiða sér skuldina. A kvað þá hafa undirritað samninginn um yfirfærsluna á húsinu í Mílanó, A búi þar og þeir hafi hist þar og undirritað samninginn. A var ekki viss um dagsetninguna á skjalinu sem undirritað sé 3. september 2008, en kvaðst viss um að skjalið væri ekki falsað. Kvaðst A muna að ákærði hafi komið til Mílanó og þeir undirritað skjalið sem lögmaður hafi samið. Þá kvað A félagið iiLuxury International AF, sem skráð sé í Sviss, ekki vera lengur til. Það sé gamalt félag sem þeir hafi stofnað utan um fasteignina en það félag sé ekki lengur til, því hafi verið lokað fyrir nokkrum árum. Ákærði hafi verið settur sem stjórnarformaður í félaginu því að A hafi verið mikið erlendis og því verið auðveldara, þar sem átti að framselja fasteignina á félagið, að ákærði væri í stjórn þess til að undirrita pappíra. Félagið hafi bara verið stofnað til að færa fasteignina yfir á það. Engin önnur starfsemi hafi verið hjá félaginu. Hafi vitnið, ákærði og lögmaður hist á fundi til að skrá ákærða úr stjórn félagsins. Ef frá því hafi verið gengið með skjölum hafi lögmaðurinn séð um það. Engin fundargerð hafi verið gerð. Þá kvaðst A vera eigandi IN Import ehf., með um 400.000.000 króna hlutafé. Til standi að fara í miklar fjárfestingar á Íslandi á árinu 2014.
Þá liggur frammi í málinu yfirlit yfir stjórnarmenn INCE International Inc en þar eru ákærði og A skráðir stjórnarmenn frá stofnun félagsins þann 18. janúar 2007. Þá er yfirlit yfir hluthafa í félaginu en ákærði og A eru eigendur að helmings hluta hvor. Þá kemur fram að ákærði hafi afsalað 50 hlutum til A 12. janúar 2014 og eftir það er A skráður fyrir öllum hlutum í félaginu.
Að auki liggja frammi afrit af tveimur reikningum, útgefnum af A, annar dagsettur 30. apríl 2005 að fjárhæð USD 90.000 og hinn útgefinn 30. janúar 2006 að fjárhæð USD 55,530. Á báðum reikningunum er vegabréfanúmer ákærða tiltekið [...].
Staðfesting frá Þjóðskrá Íslands liggur fyrir þar sem staðfest er að vegabréf útgefið á ákærða nr. [...] var gefið út 5. október 2009.
Skattframtöl fyrir tekjuárin 2006 til og með 2011 liggja frammi í málinu. Eru hvorki skuldir við Kaupþing í Lúxemborg né skuldir við A taldar þar meðal skulda né fasteignin í Flórída. Samkvæmt skattframtölum þessara ára var ákærði með aðallaunatekjur árin 2006, 2007, 2008, 2010 og 2011 frá Leonard ehf. en árið 2009 frá INCE ehf.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa gagnfræðapróf og vera sjálfmenntaður í þeim viðskiptum sem hann hafi stundað í gengum tíðina. Starfsreynsla sé aðallega íþróttir og viðskipti. Þá kvaðst ákærði hafa keypt einhverjar fasteignir í gegnum ævina eins og gerist og gengur. Fasteignin á Flórída væri ekki fyrsta fasteignin sem hann keypti eða seldi.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki reka verslun í Reykjavík en hann hefði verið í verslunarrekstri á árunum 2001 til 2006. Þá sé ákærði að vinna við ráðgjöf erlendis, aðallega hjá nýjum verslunum sem verið sé að opna. Ákærði kvaðst kannast við félagið iiLuxury Internatioal AG að því leyti að hann hafi verið stjórnarformaður í félaginu í ákveðinn tíma. Hann hafi stofnað félagið fyrir vin sinn sem heiti A en félagið hafi verið stofnað árið 2009 eða 2010. Ákærði hafi ekki haft nein önnur tengsl við félagið. Kvað ákærði svissnesk lög vera þannig að Svisslendingur verði að vera eigandi að félagi og ákærði hafi haft sambönd sem hann hafi nýtt sér. Ákærði kvaðst einnig kannast við félag sem heiti INCE International Inc og sé skráð á Tortóla. Félagið hafi verið stofnað árið 2007 og hafi ákærði komið að því sem eigandi. Félagið hafi aldrei farið í neinn rekstur. Ákærði kvaðst ekki vera eigandi í dag. Ákærði kvað þá A hafa verið vini og félaga í ein fimmtán ár og átt viðskipti saman í gegnum tíðina. Ákærði kannaðist við afsal vegna kaupa ákærða á fasteign í Flórída árið 2007. Ákærði kvað kaupin hafa verið fjármögnuð með láni að fjárhæð USD 578.841,66 frá Kaupþingi í Lúxemborg. Hann hafi hins vegar látið eigið fé í bankann sem tryggingu sem hafi tapast í bankahruninu. Ákærði kvaðst ekki vera klár á því hvort fasteignin hafi verið tilgreind í skattframtölum sínum til skattyfirvalda. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið komið að afborgun á þessu láni og hann hafi aldrei fengið rukkun um afborgun. Ákærði kvaðst ekki kannast við kröfubréf sem liggur frammi í málinu frá 3. apríl 2008 frá Kaupþing banka í Lúxemborg. Þá kvaðst ákærði ekki muna hver viðbrögð hans hafi verið þegar hann fékk stefnu birta frá bankanum vegna lánsins frá bankanum. Ákærði kvaðst halda að hann hafi verið á leiðinni í gjaldþrot á þessum tíma og hafi þá verið að bjarga því sem bjargað varð í þeim efnum á þeim tíma. Stefnan sé vafalaust eitt af þeim málum sem hafi dúkkað upp á borð hjá honum þegar hann var að reyna að bjarga sínum persónulegu málum. Aðspurður hvort það hafi komið til greina að selja fasteignina í Flórída á þessum tíma, kvaðst ákærði ekki muna það. Ákærði hafi hins vegar gert samkomulag við A seint á árinu 2008 um að hann tæki húsið upp í skuld ákærða við A. Ekkert annað hafi verið í stöðunni. Aðspurður um aðkomu ákærða að stofnun iiLuxury, kvað hann A hafa beðið sig um að stofna þetta félag með sér þar sem A gat það ekki einn og sér. Ákærði hafi því verið skráður sem stjórnarformaður en ekki komið að félaginu að öðru leyti. A hafi síðan skráð húsið yfir á þetta félag sem A átti einn. Ákærði vissi ekki til að frekari rekstur væri í félaginu. Tilgangur stofnunar félagsins hafi verið að koma húsinu yfir í félagið. Ákærði kvað B hafa farið fram á að ákærði sæti í stjórn félagsins en B sæti einnig í stjórn þess.
Aðspurður um boðun ákærða í fjárnám hjá sýslumanni, sem birt var eiginkonu ákærða 23. september 2009, kvaðst ákærði halda að þetta hafi verið vegna allra skulda hans. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi mætt í fjárnámið. Aðspurður um kvaðningu sýslumanns til fjárnáms, dagsett 12. nóvember 2009, kvaðst ákærði ekki muna eftir henni, hann hafi kannski verið erlendis. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið gjaldþrota á þessum tíma. Ákærði kvað aðspurður þau hjón hafa verið að gera upp sín mál, eins og hjón gera, þegar kaupmáli var gerður um eignir þeirra og allar eignir þeirra voru gerðar að séreign eiginkonu hans þann 10. nóvember 2009. Eiginkona hans hafi verið að byggja hús persónulega sem hann hafi ekki getað gert þar sem hann hafi verið gjaldþrota. Því hafi legið beinast við að hann færi út úr því öllu. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna kaupmálinn hafi ekki tekið til fasteignarinnar í Flórída, hann hafi bara ekkert „pælt“ í því. Ákærði kvaðst hafa lýst sig eignalausan við fjárnámsgerð hjá sýslumanni 18. nóvember 2009 þar sem hann hafi ekkert átt á þessum tíma, það væri augljóst. Hann hafi verið búinn að afsala sér húsinu í Flórída til A og hann hafi ekkert átt. Það hafi verið búið að taka allt af ákærða sem hægt var að taka. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær honum hafi orðið ljóst að búið væri að biðja um gjaldþrotaskipti hjá honum, en hann hafi verið að vinna í þessum málum á þeim tíma og sér hafi verið ljóst í hvað stefndi. Afsal, dagsett 29. janúar 2010, var borið undir ákærða og kvaðst hann kannast við það. Afsalið hafi verið gert til að klára samkomulag sem þeir A hafi gert árið 2008. Ákærði hafi áttað sig á því þegar hann var á leiðinni í gjaldþrot að aldrei hafði verið gengið frá afsali vegna hússins. Lánið sem ákærði hafi fengið hjá A, USD 145.000, hafi í raun verið endurgjaldið fyrir húsið en þeir hafi ekki sett það í pappírana því að í Flórída séu borgaðar háar fjárhæðir til fasteignasala fyrir að ganga frá sölu fasteigna. Því hafi bara verið farið til lögfræðings til að búa til skjalið og hafi því síðan verið þinglýst í Flórída. Ákærði hafi á þessum tíma verið á leiðinni í gjaldþrot. Þetta hafi ekki verið bein sala heldur bara yfirtaka á húsinu. Minnti ákærða að þinglýsing í Flórída hafi ekki farið fram fyrr en 17. febrúar 2010 þar sem hann hafi átt eftir að greiða einhverja USD 20 til að þinglýsingin færi í gegn. Aðspurður um það hvers vegna ákærði hafi verið að yfirfæra húsið í Flórída yfir í fyrirtæki sem hann hafi verið stjórnarformaður í, kvað ákærði sig ekkert hafa haft með félagið að gera, hann hafi bara verið skráður stjórnarformaður. Aðspurður hvers vegna ákærði hafi verið að ganga frá nafnabreytingu á húsinu á sama tíma og hann varð gjaldþrota, kvaðst ákærði bara hafa verið í skuld við manninn og hafa viljað gera upp við hann, hann hafi verið vinur sinn og ákærði ekki viljað koma honum í þá stöðu að þeir sætu frammi fyrir því að ákærði skuldaði honum lengur peninga. Það hafi ekki verið gert í neinum annarlegum tilgangi. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi upplýst skiptastjóra um afsalið á eigninni. Aðspurður um upplýsingar lögmanns ákærða, Tómasar Jónssonar, 6. apríl 2010 til skiptastjóra um að fasteignin hafi verið seld gegn staðgreiðslu árið 2007 og frekari gögn ekki tiltæk, kvaðst ákærði ekki vita hvað Tómas hafi verið að meina þarna en ákærði hljóti að hafa komið að því líka að semja þessi svör sem komi fram í skjalinu. Tómas hljóti að vera að vísa til þess að A hafi tekið eignina yfir. Aðspurður um svar ákærða til skiptastjóra þann 6. apríl 2010 um að peningarnir fyrir húsið hafi meðal annars farið í bankann, greiðslu á húsi sem fjölskyldan búi í og fleira í þeim dúr, kvaðst ákærði vera að vísa í húsið sem hann hafi tapað að Súlunesi 16, og það sem hafi fylgt gjaldþrotinu en hann hafi reynt að bjarga því sem bjargað varð því að enginn vilji hafi verið til að hjálpa honum hjá bankanum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa talið neina þörf á því að upplýsa skiptastjóra um að hann hafi afsalað eigninni til iiLuxury því að eignin hafi verið skuldlaus og ekkert veð í henni. Aðspurður um tölvupóst frá ákærða til skiptastjóra 25. október 2010 um að ákærði hafi selt húsið áður en hann hafi vitað að hann yrði ógjaldfær í kjölfar bankahruns, og því komi það engum við í hvað þeir peningar hafi farið á þeim tíma, kvaðst ákærði væntanlega vera að vísa til þess að hann hafi látið húsið af hendi árið 2007 og á þeim tímapunkti hafi ákærði ekki verið í neinum peningavandræðum. Aðspurður um það hvers vegna ákærði hafi ekki upplýst skiptastjóra fyrr en 24. febrúar 2011, í tölvupósti, um að hann hafi gert umræddan samning um húsið, kvað ákærði það hafa bara verið svo löngu löngu búið að ganga frá þessu. Húsið hafi verið veðbandslaust og eign þeirra hjóna og húsið farið í að borga skuldir. Ákærði kvað samninginn um sölu hússins hafa verið dagsettan aftur í tímann, það verði bara að viðurkennast. Þegar ákærði hafi verið beðinn um gögn um húsið í upphafi hafi hann ekki átt nein gögn. Þeir A hafi gert samkomulagið árið 2008 og sé samningurinn gerður sennilega árið 2010 en dagsetningin færð aftur í tímann, til þess tíma sem A raunverulega fékk húsið. Kvað ákærði rétt að hann hafi afhent skiptastjóra samninginn 24. febrúar 2011. Tilgangurinn með samningnum hafi verið að sýna fram á að það hafi verið ákveðin skuld sem hann skuldaði A en þeir hafi ekki verið með neinn samning um það nema traust og trúnað. Lögmaður í Lugano hafi samið skjalið. Reikningar frá A, dagsettir 30. apríl 2005 og 30. janúar 2006, voru bornir undir ákærða. Kvað hann þá hafa verið gerða nákvæmlega eins og hitt skjalið. Ákærði hafi beðið A um að senda sér einhver gögn um skuldina og hafi A sent sér framlagða reikninga. Það væru ákveðin mistök að dagsetja reikningana aftur í tímann. Ákærði hafi beðið A um reikningana þegar lögreglan fór fram á gögn um skuldina en ákærði kvaðst ekki muna hvenær það hafi verið. Þegar ákærða var bent á að vegabréfsnúmer hans, sem gefið var út 5. október 2009, komi fram á reikningunum, kvaðst ákærði gera sér grein fyrir því að reikningarnir séu með rangar dagsetningar. Aðspurður um framsal á fasteigninni frá iiLuxury til INCE International Inc. kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa komið að því framsali. Aðspurður um staðfestingu á að ákærði hafi verið skráður stjórnarmaður í INCE International Inc. frá 18. janúar 2007 til 24. janúar 2014, kvað ákærði rétt vera að hann hafi verið stjórnarmaður þar en hann hafi aldrei haft nein afskipti af því félagi. Þegar lögreglan hafi farið fram á gögn um eigendur þessa félags hafi A séð að ákærði var ennþá skráður stjórnarmaður og eigandi að hluta. A hafi þá breytt því í framhaldi. Ákærði hafi talið að hann væri ekki í stjórninni á þessum tíma. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hann hafi ekkert kannast við þetta félag, kvað ákærði það hafa verið einhvern misskilning, það væru tvö félög skráð með þessu heiti, annað sé INCE á Íslandi og hitt sé INCE International. Ákærði hafi bara eitthvað misskilið þetta. Aðspurður um 50% eignarhlut sinn í INCE International allt til 12. janúar 2014, kvaðst ákærði hafa skýrt það áður. A hafi ekki áttað sig á því fyrr en lögreglan óskaði eftir gögnum að ákærði væri enn þarna inni. Ákærða var bent á að hann hafi verið eigandi og stjórnarmaður í félaginu þegar húsinu á Flórída var afsalað frá iiLuxury til INCE International. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað af því að hann hafi verið í stjórn. Aðspurður um að ákærði hafi greitt fasteignaskatt í Flórída 31. janúar 2013, kvað ákærði það eflaust hafa verið einhverjar eftirstöðvar sem hann hafi verið að greiða eða þá að A hafi beðið sig að greiða þetta, enda hafi það bara verið USD 6,25. Ákærði kvaðst hafa haft afnot af fasteigninni í gegnum A, hann gæti notað fasteignina þegar hann vildi. Ákærði hafi verið þar árin 2013 og 2014. Þeir væru vinir. Ákærði kvaðst hafa ætlað í rekstur með A með stofnun félagsins INCE en það hafi aldrei orðið neinn rekstur í því félagi og ákærða var ekki kunnugt um hvort einhver rekstur væri í því félagi í dag. Ákærði kvaðst hafa reynt að semja við sína kröfuhafa á þeim tíma er hann stefndi í gjaldþrot og m.a. farið á fund með skiptastjóra til að leita samninga en ekki haft erindi sem erfiði. Ákærði kvað aðspurður að mismunur á söluverði hússins, USD 200.000, og skuldinni, USD 145.000, hafi verið vextir og kostnaður og þeir verið sammála um að A fengi eitthvað fyrir sinn snúð. Aðspurður hvers vegna kona ákærða hafi ekki ritað undir samning þeirra til A, kvaðst ákærði hafa farið með hlut konu sinnar sem hafi átt helminginn í húsinu.
Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Reykjavík á árinu 2010. Hafi vitnið staðfest undirritun eiginkonu ákærða hjá Notarius Publicus. Kvað vitnið skjalið hafa verið vottað 1. febrúar 2010 og staðfesti vitnið að dagsetning sem komi fram á seinni síðu skjalsins sé röng, skjalið hafi verið gert og staðfest 1. febrúar 2010.
Vitnið Grétar Dór Sigurðsson, skipaður skiptastjóri í búi ákærða, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fengið upplýsingar í upphafi skiptanna um tilvist fasteignarinnar í Flórída. Kvað vitnið skýringar sem það hafi fengið hjá ákærða varðandi fasteignina ekki hafa verið trúverðugar og því hafi það aflað sér upplýsinga um eignina frá bandarískum lögmanni. Vitnið kvaðst ekki hafa haft samband við A vegna kaupanna en kröfuhafar hafi ekki haft vilja til að höfða riftunarmál í Sviss og tekin hafi verið ákvörðun um að vísa málinu til sérstaks saksóknara. Vitnið staðfesti að skiptalok í búi ákærða hafi verið 28. september 2012 og ekkert fengist upp í lýstar kröfur.
Vitnið A gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst vitnið hafa þekkt ákærða til fimmtán ára og þeir átt í viðskiptum saman og verið góðir vinir í gegnum árin. Vitnið kvaðst hafa verið eigandi og stjórnarmaður í félaginu iiLuxury. Vitnið hafi nú selt félagið. Félagið hafi verið svissneskt og samkvæmt lögum í Sviss verði að vera svissneskur ríkisborgari í stjórn félaga. Vitnið hafi notið aðstoðar ákærða við stofnun félagsins í Sviss. Félagið sé alfarið í eigu vitnisins. Vitnið, ákærði og B, sem sé Svisslendingur, hafi setið í stjórn félagsins. Vitnið kvaðst vera eigandi félagsins INCE, International Inc. Vitnið og ákærði hafi stofnað félagið árið 2007 til að sinna viðskiptum, sem hafi þó ekki orðið af. Vitnið hafi séð um stofnun félagsins og sé það alfarið í eigu vitnisins. Félagið sé í raun ekki virkt, það hafi einungis verið notað þegar vitnið lokaði fyrirtækinu iiLuxury og flutti fasteignina í Flórída yfir í INCE. Aðspurt um það hvort vitnið og ákærði hafi verið í sambandi eða samskiptum frá því að sakamálið var höfðað, kvað vitnið sig og ákærða hafa verið vini í fimmtán ár og vitnið hefði samskipti við vitnið eins og aðra vini sína. Vitnið kvaðst vita um sakamálið. Aðspurt um tilgang stofnunar iiLuxury kvað vitnið tilganginn hafa verið tilfærsla á eignum vegna skuldar ákærða við vitnið. Þeir hafi líka átt í samskiptum á árunum 2001 til 2006 með eignir. Samningur um afsal á fasteigninni í Flórída „Quit Claim Deed“ var borinn undir vitnið. Vitnið kannaðist við skjalið og kvað ástæðu þess að fasteignin hafi verið færð á félagið iiLuxury hafa verið skuld ákærða við sig frá árunum 2001 til 2005. Þeir hafi verið sammála um að ef ákærði gæti ekki greitt skuldina þá myndi hann afsala til vitnisins einhverjum eignum sínum, hvort sem það væru eignir á Íslandi eða annars staðar. Aðspurt um það hvort vitninu hafi verið kunnugt um fjárhagsstöðu ákærða í ársbyrjun 2010, kvaðst vitnið hafa getað sagt sér, fyrst ákærði hafi verið ófær um að greiða sér skuldina, að fjárhagsstaða hans hafi ekki verið góð. Aðspurt um verðmat á fasteigninni kvað vitnið hafa verið samþykkt á árinu 2008 að fasteignin skyldi metin á USD 200.000. Vitnið kvað söluverðmætið USD 10 í afsalinu ekki hafa endurspeglað verðgildi eignarinnar heldur hafi þeir verið að koma sér hjá því að greiða háan umsýslukostnað lögmanna og þess háttar. Aðspurt um samning aðila um uppgjör á skuldinni, dagsettan 3. september 2008, kvað vitnið munnlegt samkomulag hafa verið á milli þeirra um yfirfærslu eignarinnar og það hafi verið gert á árinu 2008. Vitnið staðfesti undirritun sína á samningnum. Kvað vitnið samninginn hafa verið gerðan í lok árs 2009 en dagsetningin hafi verið færð aftur í tímann. Spurt um það hvers vegna þeir hafi dagsett samninginn aftur í tímann kvað vitnið sjö ár vera liðin frá þessum gjörningi og vitnið myndi það ekki svo vel en minnti að ákærði hafi verið í Lugano á þessum tíma og því hafi þessi dagsetning verið valin. Framburður ákærða fyrir dóminum um að samningurinn hafi verið gerður 2010 eða 2011 var borinn undir vitnið. Kvað vitnið það mögulega geta verið en það myndi það ekki vel. Reikningar útgefnir af vitninu til ákærða, dagsettir í apríl 2005 og janúar 2006, voru bornir undir vitnið. Kvað vitnið reikningana hafa verið gerða eftir að þeir gerðu samninginn um yfirfærsluna, hvort það hafi verið 2009 eða 2010 myndi vitnið ekki en þeir hafi verið dagsettir aftur í tímann. Kvað vitnið ákærða hafa leitað til sín til að útbúa reikningana þar sem ákærða hafi vantað staðfestingu á skuldinni. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað að ákærði ætlaði að leggja reikningana fram í sakamálinu. Aðspurt kvaðst vitnið hafa fengið vegabréfsnúmer frá ákærða að beiðni vitnisins. Vitnið kvað félag sitt vera eigandi fasteignarinnar í dag. Vitnið kvaðst, aðspurt, hafa ákveðið sjálft að flytja fasteignina frá iiLuxury yfir í INCE International en myndi ekki hvort ákærði hafi komið að þeirri gjörð. Það gæti hafa verið B, ákærði eða vitnið sjálft sem hafi undirritað skjölin, vitnið myndi það ekki vel. Aðspurt kvaðst vitnið hafa aflað staðfestingar á skráningu INCE International Inc, dskj. 7, sem dagsett sé 24. janúar 2014. Það hafi vitnið gert að beiðni lögmanns. Það sé rétt sem þar komi fram að vitnið sé eini eigandi félagsins. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað að ákærði ætlaði að leggja þetta skjal fram í sakamálinu. Aðspurt um stjórnarmennsku ákærða í félaginu frá janúar 2007 til 24. janúar 2014, kvað vitnið rétt vera að hann hafi verið í stjórninni en þetta hafi verið skúffufyrirtæki, sem hafi ekki verið í neinum rekstri. Það hafi ekki verið fyrr en vitnið hafi verið beðið um skjalið af lögreglu að vitnið hafi gert sér grein fyrir því að ákærði var enn skráður í stjórn þess og sem eigandi félagsins. Aðspurt um félagið IN heildsala ehf. kvaðst vitnið þekkja það og hafa stofnað það félag. INCE heildsala hafi síðan verið stofnuð og sé hún í eigu INCE International. Vitnið kvað í lokin ákærða vera framkvæmdastjóra félagsins sem vitnið eigi á Íslandi. Aðspurt kvað vitnið skuld ákærða hafa stofnast á árunum 2001 til 2005 og mismunur á skuldinni og verðmati hússins hafi verið vextir. Í september 2008 hafi verið gengið frá því að ákveða kaupverðið. Frá þeim tíma hafi ákærði átt fasteignina. Vitnið kvaðst aldrei hafa fengið bréf um riftun á þessum kaupum en hefði svo verið hefði vitnið vitaskuld greitt götur ákærða og látið kaupin ganga til baka þar sem þeir væru mjög góðir vinir. Ef vitnið hefði getað hjálpað vini sínum, og húsið runnið til þrotabúsins, hefði vitnið að sjálfsögðu orðið vini sínum að liði. Aðspurt um það hver hafi greitt kostnað og fasteignaskatt af húsinu frá árinu 2008, kvaðst vitnið ekki muna það, vitnið væri með skrifstofu sem sæi um svona hluti fyrir það. Vitnið kvaðst ekki vita hvert söluandvirði hússins hafi verið í ársbyrjun 2010 en vitnið kvaðst vita að 2008 hafi húsið verið verðmetið á USD 200.000.
Forsendur og niðurstöður.
Ákært er fyrir skilasvik með því að ákærði hafi, í aðdraganda töku bús ákærða til gjaldþrotaskipta, skert rétt lánardrottna sinna til að öðlast fullnægju af eignum hans með því að afsala fasteigninni að 8700 Sandy Crest Lane, Boynton Beach í Flórída, Bandaríkjunum, sem ákærði átti að hálfu á móti eiginkonu sinni, til svissneska félagsins iiLuxury International AG, þar sem ákærði var stjórnarformaður, gegn 10 Bandaríkjadala greiðslu og þannig skotið eignarhluta sínum undan búskiptunum eða varið andvirði eignarhlutans til greiðslu tiltölulega hárrar gjaldkræfar kröfu.
Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá ákærða 18. nóvember 2009 og hafi bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2010.
Árið 2007 keypti ákærði ásamt eiginkonu sinni fasteignina að 8700 Sandy Crest Lane, Boynton Beach í Flórída, Bandaríkjunum, fyrir 657.483,95 Bandaríkjadali. Ákærði fjármagnaði kaupin með láni í eigin nafni frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Húsið var síðan framselt félaginu iiLuxury í Sviss með afsali þann 1. febrúar 2010 en þinglýst 17. febrúar 2010.
Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða er ekki hjá því komist að horfa til framburðar hans undir rannsókn málsins og fyrir dóminum varðandi ráðstöfun á fasteigninni sem deilt er um í þessu máli. Í skýrslu hjá skiptastjóra þrotabúsins 16. mars 2010 kvaðst ákærði hafa selt fasteignina rúmu ári áður. Þann 30. mars 2010 kvað ákærði fasteignina hafa verið selda gegn staðgreiðslu á árinu 2007. Þann 6. apríl 2010 kvaðst ákærði aldrei hafa sagt að pappírarnir væru ekki til, hann bara vissi ekki hvar þeir væru en peningarnir hefðu farið í bankann, sem hafi farið fram á gjaldþrot hans, og húsið sem hann missti að Súlunesi 16 Garðabæ. Þann 28. október 2010 kvaðst ákærði hafa selt húsið í Flórída áður en hann hafi getað vitað að hann yrði ógjaldfær í kjölfar bankahruns. Þann 25. janúar 2011 kvað lögmaður ákærða andvirði hússins hafa verið ætlað til að greiða skuld ákærða við iiLuxury.
Í skýrslu hjá lögreglu þann 12. mars 2103 kvaðst ákærði hafa skuldað A fé og hann því undirritað samning í mars 2008 þar sem skuldin við A hafi verið gerð upp. Ákærði kvaðst eingöngu hafa verið að hjálpa vini sínum A við að stofna félag í Sviss, ákærði hafi að öðru leyti ekkert komið nálægt því félagi. Þá kvaðst ákærði ekkert kannast við félagið INCE International. Þá hafi það komið ákærða á óvart að INCE International væri 100% eigandi IN important ehf., sem ákærði starfaði hjá. Ákærði kvaðst ekkert vita í hvaða tilgangi A hafi stofnað iiLuxury. Þá staðfesti ákærði hjá lögreglu að hann og A hafi undirritað samninginn um skuldauppgjörið í september 2008 en ákærði hafi fengið pappírana senda í pósti til undirritunar. Vitnið A kvað ákærða hafa komið til Mílanó til að undirrita pappírana í september 2008. Þá kvað ákærði húsið hafa verið selt gegn staðgreiðslu og frekari gögn væru ekki tiltæk. Lögmaður ákærða upplýsti skiptastjóra þann 25. janúar 2011 að andvirði hússins hefði farið til að greiða skuld ákærða við iiLuxury. Að auki kvaðst ákærði aldrei hafa stigið inn í húsið í Flórída eftir að hann afsalaði það A á árinu 2008 en staðfesti síðan fyrir dóminum að það væri rangt, hann hafi notað húsið allavega síðustu tvö árin. Fyrir dóminum kvað ákærði þá A hafa dagsett samninginn um skuldauppgjörið aftur í tímann en samningurinn hafi verið gerður á árinu 2009 eða 2010. Hefur framburður ákærða um tilvist hússins verið villandi og fálmkenndur allt þar til hann viðurkenndi í skýrslutöku fyrir dóminum að samningur milli hans og A um skuldauppgjörið hafi verið dagsettur aftur í tímann. Verður horft til þessa við mat á trúverðugleika ákærða við úrlausn málsins.
Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi skuldað A fé allt frá árinu 2001 og því hafi þeir orðið ásáttir um að skuldajafna þá kröfu með yfirfærslu hússins í Flórída yfir til A. Ákærði kvað fyrir lögreglu og dóminum að hann hafi skuldað A USD 145.000, sem hafi orðið til á árunum 2001 til 2005. Undir rekstri málsins voru tveir reikningar lagðir fram, útgefnir af A í apríl 2005 og janúar 2006. Fyrir dóminum upplýstu bæði ákærði og vitnið A að þessir reikningar hafi verið tilbúnir eftir að rannsókn málsins hófst, enda ljóst að þeir voru í það fyrsta útbúnir eftir að vegabréf nr. [...] til ákærða var gefið út 5. október 2009. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram af hálfu ákærða sem gætu sýnt fram á að hann hafi skuldað vitninu A einhverja fjárhæð. Telur dómurinn að gerð þessara reikninga sé málamyndagjörningur og að engu hafandi. Verður að auki að virða framburð A með hliðsjón af því sem hann fullyrti fyrir dóminum, að hann myndi leggja ákærða lið ef það mætti hjálpa honum eitthvað, þeir væru miklir vinir. Í ljósi þess að A viðurkenndi að hafa gefið reikninga út aftur í tímann í þágu ákærða, verður að meta trúverðugleika framburðar hans í ljósi þess. Er því ósannað að ákærði hafi skuldað vitninu A nokkra fjárhæð, enda er framburður þeirra beggja, hjá lögreglu og fyrir dóminum, með slíkum ólíkindablæ að hann er að engu hafandi.
Ákærði kvaðst hjá skiptastjóra ekki kannast við fyrirtækið iiLuxury. Þrátt fyrir misvísandi og ótrúverðugan framburð ákærða fyrir skiptastjóra, lögreglu og dómi þá liggur fyrir að ákærði kom að stofnun þess fyrirtækis í júlí 2009 og sat sem stjórnarformaður í félaginu til ársins 2010. Er því ljóst að ákærði vissi um tilvist félagsins frá upphafi og aðkomu sína að því. Þá er annað útilokað en að ákærði hafi verið meðvitaður um tilgang félagsins en samkvæmt vitninu A var félagið stofnað til þess að flytja fasteign ákærða í Flórída yfir í félagið. Þá er einnig framburður ákærða um vitneskju sína um félagið INCE International Inc fyrir lögreglu og dóminum með ólíkindum en ákærði stóð að stofnun þess félags, sat í stjórn þess og var eigandi að helmings hlutafé þess, allt til 12. janúar 2014, þegar lögreglan kallaði eftir gögnum um það félag. Er því óhjákvæmilegt að yfirfærsla hússins, fyrst til iiLuxury í febrúar 2010 og síðan yfir í INCE International, hafi verið með vitund og vilja ákærða.
Þá kemur til skoðunar hvort ákærða hafi verið kunnugt um fjárhagsstöðu sína við yfirfærslu hússins í Flórída yfir í félagið iiLuxury þegar hann undirritaði yfirlýsingu þess efnis hjá Notarius Publicus í Reykjavík 1. febrúar 2010. Ákærða var stefnt til greiðslu skuldar að fjárhæð EUR 451.781,51 þann 6. maí 2009. Mætti ákærði ekki við þingfestingu málsins og var stefnan árituð um aðfararhæfi. Þann 23. september 2009 var ákærði boðaður til fjárnáms hjá sýslumanni, með fyrirkalli birtu fyrir eiginkonu ákærða, sem hann mætti ekki í. Var ákærða þá birt kvaðning til að mæta í fyrirtöku vegna fjárnáms 12. nóvember 2009. Þann 10. nóvember 2009 gerðu ákærði og eiginkona hans með sér kaupmála þar sem allar eignir þeirra á Íslandi urðu séreign konunnar. Ákærði mætti við fjárnám hjá sýslumanni 18. nóvember 2009 og lýsti sig eignalausan. Þann 2. febrúar 2010 var ákærða birt boðun um fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur honum fyrir héraðsdómi. Mætti ákærði þar ekki. Var úrskurður kveðinn upp 18. febrúar 2010 um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Samþykktir iiLuxury voru undirritaðar 22. júlí 2009 en félagið skráð 19. ágúst 2009. Á þeim tíma var búið að stefna og dómtaka mál á hendur ákærða vegna skuldar hans við Kaupþing banka í Lúxemborg að fjárhæð EUR 451.781.52 auk vaxta og kostnaðar. Þann 1. febrúar 2010, þegar ákærði og kona hans létu sýslumanninn í Reykjavík staðfesta undirritun sína vegna afsals til iiLuxury, var búið að gera árangurslaust fjárnám hjá ákærða vegna ofangreindrar skuldar og hafði ákærði sjálfur lýst yfir eignaleysi sínu. Yfirfærsluskjalinu vegna fasteignarinnar í Flórída var ekki þinglýst fyrr en 17. febrúar 2010. Á þeim tíma var búið að boða ákærða til héraðsdóms vegna fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðni og hann úrskurðaður gjaldþrota daginn eftir eða 18. febrúar 2010. Er því ljóst að ákærði hafði fulla vitneskju um bágan fjárhag sinn á þeim tíma er hann hóf það ferli að stofna fyrirtæki til að koma fasteigninni í Flórída yfir til þess. Meðal annars gaf ákærði þá skýringu vegna kaupmálans, milli sín og eiginkonu sinnar, sem undirritaður var 10. nóvember 2009, að hann hefði verið að reyna að bjarga því sem bjargað varð þar sem hann væri að fara í gjaldþrot og mætti ekki eiga neitt. Telur dómurinn því sannað að ákærði hafi, með aðstoð vitnisins A, stofnað fyrirtæki í Sviss í þeim tilgangi að færa eignarhald fasteignarinnar í Flórída til í þeim tilgangi að koma eigninni undan kröfuhöfum sínum.
Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að meint skuld ákærða við vitnið A hafi verið málamyndagjörningur og ósannað að nokkur skuld hafi verið til staðar. Af því leiðir að ekkert annað er til viðmiðunar um það hvort húsið hafi verið selt á óheyrilega lágu verði eða ekki til iiLuxury en verðmat hússins á þeim tíma er gjörningurinn fór fram. Í samningi aðila í febrúar 2010 kemur fram að húsið hafi verið metið á USD 200.000 en í afsalsskjalinu segir að söluverðið hafi verið USD 10. Vitnið A sagði hjá lögreglu að USD 200.000 hafi verið fasteignamatsverð hússins árið 2001 og eðlilegt hafi verið að meta húsið á þeim forsendum. Ákærði og vitnið A sögðu fyrir dómi að þeir hafi orðið ásáttir um að USD 200.000 væri andvirði skuldar ákærða við A ásamt vöxtum. Vitnið A sagði einnig að þeir hafi látið meta húsið og hafi þetta verið eðlilegt verð. Telur dómurinn þessar skýringar ákærða og vitnisins A ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Fyrir liggur í gögnum málsins að ákærði keypti húsið 16. janúar 2007 á USD 657.484. Á fasteignavefnum Trulia þann 23. ágúst 2010, sem liggur fyrir í málinu, er húsið auglýst til sölu á USD 449.749. Á upplýsingavef um fasteignamat o.fl. á árinu 2010 er fasteignamat hússins sagt vera USD 272.121. Er því ljóst að með því að selja húsið á USD 10 hafi húsið nánast verið metið verðlaust. Eru skýringar ákærða og vitnisins A um að þessi fjárhæð hafi verið sett til að losna við að greiða fasteignasölum kostnað við að útbúa skjalið ótrúverðug skýring. Telur dómurinn óyggjandi að með þessari yfirfærslu hafi nánast ekkert verð komið fyrir húsið. Með þessum gjörningi kom ákærði andvirði hússins undan og kom þar með í veg fyrir að það kæmi undir skipti þrotabús síns. Með þessu olli ákærði kröfuhöfum sannanlegu fjártjóni þrátt fyrir að ákærði hafi einungis átt helming hússins.
Að öllu ofansögðu telur dómurinn sannað að ákærði hafi haft einbeittan ásetning til að koma fasteigninni í Flórída undan í þeim tilgangi að afla sér fjárvinnings á þann hátt að kröfuhafar biðu fjártjón að sama skapi. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og gerð refsing fyrir.
Brot ákærða er heimfært til 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. segir að fyrir skilasvik skuli refsa með allt að sex ára fangelsi hverjum þeim, sem gerist sekur um eftirgreinda verknaði. Í 4. tl. 1. mgr. segir að sá sem skerði rétt einhvers lánardrottins síns til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með því að gefa rangar upplýsingar, með undanskoti eigna, málamyndagerningum, ótilhlýðilega miklum gjöfum eða mikilli eyðslu, sölu eigna fyrir óhæfilega lágt verð, greiðslu eða tryggingu ógjaldkræfra krafna eða tiltölulega hárra gjaldkræfra krafna, stofnun nýrra skulda, sem mun rýra efnahag hans, eða með öðrum svipuðum hætti.
Ákærði gaf skiptastjóra og lögreglu sannanlega rangar upplýsingar undir rannsókn málsins um tilvist fasteignarinnar í Flórída. Ákærði kom fasteigninni undan því að kröfuhafar í þrotabúi hans nytu verðmætis hússins með yfirfærslu þess á annan eiganda. Ákærði gerði málamyndagjörning til að villa um fyrir tilgangi sölu hússins og ákærði seldi eignina á óhæfilega lágu verði. Að þessu öllu metnu er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður. Ákærði gaf ítrekað misvísandi upplýsingar við rannsókn málsins um tilvist hússins í þeim tilgangi að leyna upplýsingum, sem tafði fyrir rannsókn. Þá verður að líta til þess að um veruleg verðmæti er að ræða og ásetningur ákærða hefur verið einbeittur frá upphafi. Verður ofangreint metið ákærða til refsiþyngingar með vísan til 1. tl., 6. tl., 7. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. til refsiþyngingar. Ákærði á sér engar málsbætur.
Er refsing ákærða ákveðin hæfileg fangelsi í tólf mánuði, en rétt þykir að skilorðsbinda níu mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Verjandi ákærða féll frá málskostnaðarkröfu sinni, verði ákærði fundin sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Af þeim sökum verður ákærði ekki dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hrl.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Arnfinnur Sævar Jónsson, sæti fangelsi í tólf mánuði, en fresta skal fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakarkostnaður verður ekki dæmdur.