Hæstiréttur íslands

Mál nr. 168/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala


                                     

Þriðjudaginn 18. mars 2014.

Nr. 168/2014.

 

Jónas Sveinsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarsala.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli J á hendur Í hf. til úrlausnar um gildi nauðungarsölu, sökum þess að frestur samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu var liðinn er krafa J barst héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 er meðal annars mælt fyrir um, að þegar uppboði sé lokið samkvæmt V. kafla laganna, sé þeim, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu. Krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því að uppboðinu lauk. Samkvæmt 4. mgr. 36. gr. laganna, en sú grein er í V. kafla þeirra, lýkur uppboði þegar sýslumaður hefur þrívegis lýst eftir öðrum boðum á framhaldsuppboði án þess að þau komi fram og hann hefur látið hamar falla til merkis um að því sé lokið. Uppboði á fasteignum sóknaraðila lauk með framangreindum hætti 3. desember 2013. Krafa hans um úrlausn um gildi nauðungarsölunnar barst héraðsdómi 3. febrúar 2014, en þá var löngu lokið framangreindum fresti. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2014.

                Með bréfi mótteknu 3. febrúar 2014 leitar sóknaraðili, Jónas Sveinsson, kt. [...], Sævangi 6, Hafnarfirði, úrlausnar héraðsdómara vegna nauðungarsölu sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði hinn 3. desember 2013, á fasteign að Sævangi 6, Hafnarfirði, 0201 og 0101, með fasteignanúmerin 226-7283 og 208-0121.

                Samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu verður krafa um gildi nauðungarsölu að berast héraðsdómara innan fjögurra vikna. Umrædd nauðungarsala fór fram 3. desember 2013 og var málshöfðunarfrestur því liðinn þegar mál þetta barst héraðsdómara. Ber því að vísa máli þessu frá dómi án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.