Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 13. desember 2010. 

Nr. 680/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember  2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar 2011 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að  lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar stórfellda líkamsárás, en þann 11. október sl. hafi verið ráðist á A, kt. [...], þar sem hún hafi verið á gangi á leið heim úr skóla á göngustíg í [...]. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá stóran skurð á höfði A og hafði blætt mikið niður á andlit hennar og föt. Hafi hún verið í miklu uppnámi og hafi vart getað tjáð sig sökum geðshræringar.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi A lýst árásinni þannig að hún hefði heyrt fótatak fyrir aftan sig og síðan hefði hún verið lamin margsinnis með þungu áhaldi í höfuðið. Hafi hún talið að um stein hefði verið að ræða. Árásarmaðurinn hefði svo tekið hana kverkataki aftan frá og þrengt að þannig að hún missti meðvitund. Hann hefði síðan sleppt henni og hlaupið í burtu. Kvað hún árásarmanninn hafa verið í kringum tvítugt, aðeins lægri en hún, í dökkum fötum og hvítum skóm með rauðri línu á tánni.

A hafi hlotið skurði bæði á enni og á hnakka.  Skurðurinn á enni hafi náð alveg inn á kúpu og sé það álit lækna að skurðurinn sé eftir högg með barefli.  Þá hafi hún hlotið mar víðsvegar á líkamanum m.a. á hálsi og kjálka, en einnig hafi hún verið þverfingurbrotin á vísifingri hægri handar, sem læknir hafi talið vera líkleg varnarsár.

Þann 8. nóvember sl. hafði b, systir kærða, samband við lögreglu og lýsti því yfir að hún hefði upplýsingar um árásina. Hún hafi borið svo í skýrslutöku að kærði hefði játað árásina fyrir henni. Kvaðst hún hafa séð kærða daginn sem árásin átt sér stað á Hlemmi en þar hefði honum verið hent út úr strætó. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og mjög ofbeldisfullur og hávær. Hann hefði verið klæddur í  gráa peysu, gráar eða svartar buxur og hvíta skó með rauðu í. Þann 23. nóvember sl. hafi verið tekin önnur skýrsla af B þar sem hún hafi borið að kærði hefði hringt í sig úr gæsluvarðhaldinu og  lýst árásinni. Kvað hún hann hafa sagt að hann hefði hlaupið upp að stúlkunni og kastað múrsteini í höfuð hennar. Hann hefði svo lamið stúlkuna nokkrum sinnum í höfuðið og hún dottið í jörðina.

Hinn 9. nóvember sl. hafi verið tekin skýrsla af vitninu C sem hafi borið að kærði hefði játað árásina fyrir sér. Kvaðst hann hafa séð kærða sama dag og árásin hafi átt sér stað en þá hafi kærði verið að rífast við strætóbílstjóra sem hafi ekki viljað hleypa honum inn. Hafi kærði verið klæddur í föt sem pössuðu við lýsingu fjölmiðla á fatnaði árásarmannsins og í hvíta skó.

Í skýrslutöku þann 11. nóvember sl. hafi X viðurkennt verknaðinn, en kvaðst ekki muna mikið eftir atburðarásinni sökum ölvunar. Lýsingar hans á því sem hann mundi samrýmast  lýsingu  A á atlögunni. Þá samrýmist lýsing hans á  útliti árásárþola útliti A. Kvað X enga sérstaka ástæðu hafa verið fyrir árásinni, nema að hann hafi verið mjög reiður, þar sem honum hafi verið vísað út úr strætisvagni. Kvaðst hann muna eftir því að hafa ráðist á stúlku og tekið eftir því þegar heim hafi verið komið að skór og fatnaður hans hafi verið blóðugur. Í skýrslutöku þann 29. nóvember sl. hafi kærði dregið játningu sína tilbaka. Hafi framburður hans þá verið mjög ótrúverðugur að mati lögreglu og ekki mark á takandi, sérstaklega í ljósi fyrri framburðar hans sem hafi verið nákvæmur um ýmis atriði sem aðeins árásarmaðurinn hafi getað vitað.

Rannsókn málsins sé lokið fyrir utan það að beðið sé eftir niðurstöðu úr DNA rannsókn á blóði sem fannst í gallabuxum sem hald var lagt á við húsleit hjá kærða. Þá sæti kærði nú geðrannsókn og sé því einnig beðið niðurstöðu hennar. Málið muni verða sent ríkissaksóknara á næstu dögum.

Að mati lögreglustjóra sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðar allt að 16 ára fangelsi. Kærði hafi játað verknaðinn í skýrslutöku hjá lögreglu og styðji gögn málsins þá játningu. Um sérlega fólskulega árás sé að ræða þar sem tilviljun réð því hver fyrir varð. Tilgangurinn hafi verið sá einn að beita ofbeldi. Sú aðferð sem notuð sé þyki sérlega vítaverð og þyki mildi að ekki fór verr. Áverkar séu auk þess verulegir, m.a. beinbrot. Þá sé óhætt að segja að árás sem þessi sé til þess fallin að hafa veruleg áhrif á sálarheill manna. Telji lögreglustjóri brot það sem hér um ræði vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leikur á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum er gefið að sök. Þyki brotið vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að kærði gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

Með úrskurði þann 12. nóvember sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna allt til kl. 16:00 í dag vegna þess brots sem hér um ræðir. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 636/2010.

Niðurstaða

Eins og gögn málsins bera með sér er kærði grunaður um stórfellda líkamsárás gegn A hinn 11. október sl. Sú líkamsárás var mjög fólskuleg og algjörlega tilefnislaus, en samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði var A lamin í höfuðið með barefli og hlaut sár á hnakka og enni og missti meðvitund. Hún hlaut marbletti á hálsi, framhandlegg, úlnlið og hendi auk axlar og upphandleggs. Hún reyndist brotin á nærkjúku hægri vísifingurs vegna árásarinnar. Þá kemur fram í læknisvottorðinu að hún hafi verið í miklu uppnámi vegna fólskulegrar árásar. 

Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði verknaðinn, en hefur dregið þá játningu til baka. Að virtri skýrslugjöf kæranda og með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins er nægilega fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um líkamsárás sem varðað getur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Brot það sem kærða er gefið að sök er mjög alvarlegt og réði hending ein hver varð fyrir árás kærða. Verknaðurinn er þess eðlis að ætla má að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna skv. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærða var með úrskurði dómsins frá 12. nóvember sl., gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag vegna þess brots sem hér um ræðir og var úrskurðurinn staðfestur  með dómi Hæstaréttar í máli nr. 636/2010. Rannsókn máls þessa er á lokastigi og verður málið sent ríkissaksóknara á næstu dögum.

Verður samkvæmt öllu ofangreindu fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald hans og eru ekki efni til að marka því skemmri tíma en krafist er.  

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. janúar 2011 kl. 16:00.