Hæstiréttur íslands
Mál nr. 346/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 29. júní 2007. |
|
Nr. 346/2007: |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „þar til dómur gengi í málum hans“, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 7. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Það athugast að samkvæmt gögnum málsins hefur ekki verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna þeirra ætluðu brota sem rannsókn sóknaraðila beinist að og getið er í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. ágúst 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2007.
Ár 2007, þriðjudaginn 26. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 7. ágúst nk. kl. 16:00 eða þar til dómur gengur í málum hans.
Í greinargerð kemur fram að þau mál sem kærði hafi viðurkennt aðild að og sæti rannsókn hjá lögreglu séu eftirtalin:
Að hafa í félagi við fleiri aðila, þann 7. janúar sl., ráðist að Y [kennitala], á heimili hans að [...], Reykjavík, heimtað af honum peninga og slegið hann ítrekað með þeim afleiðingum að hann hlaut kjálkabrot. (007-2007-2106)
Að hafa þann 9. janúar sl. í félagi við annan mann farið að heimili greinds Y, [...], Reykjavík, og tekið í heimildarleysi ýmis verðmæti. (007-2007-5729)
Að hafa þann 27. janúar sl. í félagi við annan mann ráðist inn á ofangreindan Y á heimili hans að [...], Reykjavík, og slegið hann ítrekað með þeim afleiðingum að hann hlaut kjálkabrot, yfirborðsáverka í andliti, yfirborðsáverka á útlimum og yfirborðsáverka á brjóstkassa. (007-2007-15097)
Að hafa þann 31. janúar sl. ekið bifreiðinni MP-047 sviptur ökuréttindum af Skemmuvegi inn á Valahjalla, Kópavogi. (007-2007-6421)
Að hafa þann 29. maí 2007 brotist inn í herbergi í kjallara að [...], Reykjavík, og tekið í heimildarleysi m.a. tölvuturn, heimabíó og ferðatöskur. (007-2007-38980)
Að hafa þann 13. júní sl. haft í vörslum sínum amfetamín og kannabisefni. (007-2007-44115)
Að hafa þann 31. maí sl. brotist inn í 4 geymslur í fjölbýlishúsi við [...], Reykjavík og tekið þaðan í heimildarleysi ýmsan varning, m.a. mótorhjólafatnað. (007-2007-39820)
Að hafa þann 30.- 31. maí sl. brotist inn í bifreiðina [...] þar sem hún stóð í læstri bifreiðageymslu við fjölbýlishús að [...], Reykjavík, og tekið þaðan í heimildarleysi möppu og ýmis greiðslukort en í kjölfarið reynt að svíkja út vörur úr fyrirtækinu Wurth, Vesturhrauni, Garðabæ. (007-2007-39714)
Að hafa síðastliðna nótt, aðfararnótt 26. júní, farið í heimildarleysi inn í bifreiðageymslu við [...], Reykjavík, og tekið þaðan í heimildarleysi bifhjól ásamt búnaði en jafnframt farið í heimildarleysi inn í nokkrar bifreiðar í leit að verðmætum. (007-2007-48254)
Þau mál sem lögregla hefur rökstuddan grun um að kærði hafi átt aðild að eru eftirtalin:
Að hafa þann 16. maí sl. farið í heimildarleysi inn í íbúð á 4. hæð við [...], Reykjavík, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-35068)
Að hafa þann 17. maí sl. farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að [...], Reykjavík, og tekið í heimildarleysi ýmsan varning, samtals að áætluðu verðmæti um kr. 150.000. (007-2007-39252 og 37750)
Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. júní, farið í heimildarleysi inn í geymslur að [...], Reykjavík, og tekið það ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-48261)
Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. júní, farið í heimildarleysi inn í fjölbýlishús að [...], Reykjavík og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verkfæri. (007-2007-48268)
Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. júní, farið í heimildarleysi inn í inn í íbúðarhúsnæðið að [...], Reykjavík, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-47951)
Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. júní, farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæðið að [...], Reykjavík, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-48274)
Þann 2. febrúar sl., í kjölfar mála nr. 007-2007-2106, 5729 og 15097, hafi verið kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur að kröfu lögreglustjóra um að kærði skyldi afplána 90 daga af eftirstöðvum reynslulausnar sem honum hafði verið veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar þann 11. október 2006. Hafi kærði verið því frjáls maður þann 2. maí sl.
Brot þau sem kærði sé grunaður um að hafa framið, varði flest við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum auðgunarbrotakafla þeirra laga og þau flest framin eftir 2. maí sl. Kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að vera fíkniefnaneytandi í töluverðri neyslu, og að hafa fjármagnað neyslu sína með afbrotum. Það sé mat lögreglustjóra að þegar hafi sýnt sig að brýn hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum meðan málum hans sé ólokið fyrir dómi.
Vísað sé til framangreinds úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-81/2007, hjálagðra gagna, c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Samkvæmt rannsóknargögnum hefur kærði játað aðild að 9 málum sem hafa verið til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Er þar um að ræða líkamsárásir, rán, innbrot í íbúðir og bifreiðar, fíkniefnabrot, umferðarlagabrot o.fl., og voru brotin öll framin á þessu ári. Þar fyrir utan er ákærði grunaður um aðild að 6 innbrotum í íbúðarhúsnæði sem öll hafa átt sér stað síðan 16. maí sl. Ákærði hafði þá skömmu áður, eða 3. maí sl., lokið við að afplána 90 daga fangavist vegna rofs á reynslulausn sem honum hafði verið veitt 11. október 2006. Með vísan til þessa og framangreinds rökstuðnings í greinargerð lögreglustjóra verður fallist á með lögreglustjóra að veruleg hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi sé hann frjáls ferða sinna. Er krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X [kennitala], sæti gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 7. ágúst nk. kl. 16:00.