Hæstiréttur íslands
Mál nr. 687/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 23. desember 2008. |
|
Nr. 687/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 15. janúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi í 4 vikur eða til 15. janúar 2009, kl. 16.00.
Í greinargerð kemur fram að 10. júní sl. hafi hollenskur maður, Y , fæddur [...], verið handtekinn á Seyðisfirði við komu til landsins með Norrænu. Í húsbifreið hans hafi fundist 190.035,26 g af hassi, 1.679,49 g af marihuana og 1.305.23 g af kókaíni. Kærði Y hafi viðurkennt að hafa komið með efnin til landsins. Hann hafi greint frá samskiptum sínum við íslenskan mann, sem hann kalli Kimma og sé talinn vera kærði, sem hann segi hafa fjármagnað og skipulagt innflutning fíkniefnanna. Fram hafi komið hjá kærða Y að þeirra á milli hafi verið samið um að kærði mundi greiða honum 30.000 evrur fyrir að annast flutninginn. Einnig hafi kærði Y greint frá því að hann hafi á sama hátt komið með fíkniefni til landsins á árinu 2007 og þá einnig á vegum kærða.
Kærði Y hafi lýst því í framburði sínum að í fyrri ferðinni hafi fíkniefnin verið tekin úr bifreiðinni á Laugavatni en þangað hafi hann farið eftir fyrirmælum kærða sem hafi sagt honum að hann ræki gufubaðið sem þar hafi verið starfrækt. Hann segist einnig, samkvæmt fyrirmælum frá kærða, hafa átt að fara á Laugarvatn þegar hann hafi komið til landsins núna í júní. Kærði hafi staðfest að hafa rekið gufuböðin sumarið 2007.
Það liggi því fyrir skýr framburður kærða Y um þátt kærða. Þar lýsi hann í smáatriðum skipulagningu og framkvæmd tveggja ferða hans til Íslands, annars vegar á árinu 2007 og hins vegar 2008 og þætti kærða, sem hann telji að hafi skipulagt og fjármagnað ferðirnar. Þegar báðir kærðu hafi verið komnir í lausagæslu í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni, í september sl., hafi kærði Y dregið framburð sinn gegn kærða til baka. Gögn liggi fyrir um að á þessum tíma hafi kærði rætt við kærða Y og þannig haft áhrif á framburð hans. Litlar skýringar hafi fylgt breyttum framburði Y og komi hann illa heim og saman við önnur gögn málisns. Sá framburður sem Y hafi áður haldið sig við og staðfest fyrir dómi fái á móti stoð í öðrum gögnum málsins.
Allar upplýsingar sem fram hafi komið við rannsókn lögreglu bendi til að “Kimmi” sé X. Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi kærði alfarið neitað sök og kannist ekki við að þekkja kærða Y.
Héraðsdómur hafi úrskurðað um skyldu símafyrirtækja til að veita lögreglustjóra upplýsingar um númerið [...] sem sé skráð á kærða. Upplýsingarnar sýni fram á að sími kærða hafi færst austur á land á nákvæmlega sömu tímum og kærði Y hafi komið til landsins árið 2007 og fylgi síminn í raun staðsetningum á landinu, sem kærði Y kveðist hafa verið með ,,Kimma” á.
Við fyrstu yfirheyrslu hafi kærði alfarið neitað að þekkja kærða Y og að hafa hitt hann hér á landi. Þegar framangreindar símaupplýsingar hafi verið bornar undir kærða þá hafi hann sagst bara ferðast mikið um landið en ekki getað skýrt ferðir sínar nánar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 16. júlí 2008 hafi kærði svo breytt framangreindum framburði sínum og sagst hafa hitt Spánverja að nafni ,,Rabido” þann 5. júlí 2007 á Seyðisfirði. Hafi Spánverjinn verið á rauðum húsbíl og hafi kærði hitt hann vegna samkomulags sem hann hefði gert við spænska ferðaskrifstofu um að fylgja hópi spænskra ferðamanna um Ísland, en þessi Spánverji hafi komið einn til landsins. Lögregla hafi reynt að fá staðfestingu á þessum framburði kærða en umrædd ferðaskrifstofa finnist hvergi á Spáni. Við skoðun á tölvu kærða hafi fundist skrá undir heitinu “contacts” og hafi þar verið að finna nafnið Rabit og undir því sé skráð hollenskt farsímanúmer kærða Y. Greind færsla hafi verið færð í tölvuna þann 20. maí 2007, daginn eftir að kærði hafi komið til Íslands úr ferð frá Hollandi. Við skoðun á dagatali í farsíma kærða hafi verið skráðar áminningar 8. og 9. júní sl. “Eric /Rabit”, sem bendi til þess að áminning sé um komu kærða Y til landsins, en hann hafi verið handtekinn þann 10. júní sl. Í dagatali í farsíma kærða hafi einnig fundist áminning 17. janúar, Áminningin sé “Rabit”, en 17. janúar sé afmælisdagur kærða Ys.
Skoðun á símanúmerinu [...] sem kærði Y hafi sagt við yfirheyrslur vera símanúmer ,,Kimma” hafi sýnt fram á að símarnir [...], sem sé skráður á kærða, og [...] hafi í fjölmörg skipti verið staðsettir á sama stað á landinu. Þá beri símarnir áþekka kveðju í talhólfi og hljómi röddin í talhólfunum eins.
Gögn lögreglu sýni fram á ítrekuð samskipti [...] við kærða Y á árinu 2008 og hafi hann sagt þessi símtöl snúast um að “Kimmi” hafi verið að boða komu sína til Amsterdam og þá að boða til fundar. Þessi símtöl hafi iðulega farið fram 1-2 dögum áður en gögn lögreglu sýni að kærði hafi ferðast til Amsterdam.
Í minnisbók í eigu Y sem haldlögð hafi verið í þágu rannsóknarinnar séu hvoru tveggja símanúmerin [...] og [...] undir nafninu “Kimi”.
Í myndsakbendingu hjá lögreglu sem staðfest hafi verið fyrir dómi, hafi Y bent á kærða sem “Kimma”, skipuleggjanda innflutnings, bæði árið 2007 og 2008, og eiganda þeirra fíkniefna sem flutt hafi verið til landsins. Kveðist kærði Y hafa hitt “Kimma” oftar en einu sinni, í Amsterdam þar sem lagt hafi verið á ráðin um innflutninginn og þegar hann hafi komið til Íslands árið 2007. Kærði Y hafi dregið greindan framburð til baka hjá lögreglu.
Gögn frá símafyrirtækjum beri einnig með sér samskipti milli símanúmersins [...] og númera frá þýsku pari sem hafi komið til landsins í haustbyrjun 2007 á húsbíl með ferjunni Norrænu. Grunur sé um að þýska parið hafi komið til Íslands í sama tilgangi og kærði Y, þ.e. til að flytja inn fíkniefni til landsins að beiðni kærða. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa hitt umrætt par hér á landi sumarið 2007 í þeim tilgangi að sýna þeim landið. Rannsóknaraðgerðir hafi farið fram í Þýskalandi á grundvelli réttarbeiði sem þangað hafi verið send. Þar hafi komið fram að karlmaðurinn sem komið hafi til landsins og móðir hans hafi tjáð sig við lögreglu um að hafa verið í símasamskiptum við kærða, en skv. símagögnum sjáist engin samskipti þeirra á milli, aðeins samskipti við farsímanúmerið [...], sem eins og áður greinir sé númer “Kimma”. Húsleit hafi farið fram hjá greindum aðilum og fundist þar lítið magn af kannabisefnum.
Gögn frá símafyrirtækjum beri einnig með sér samskipti kærða við spænskt símanúmer, en þann 23. ágúst 2007, sama dag og kærði Y hafi farið frá Íslandi eftir ætlaðan fyrri innflutning fíkniefna sem hann greini frá, hafi sama spænska símanúmerið verið í samskiptum við síma kærða [...] kl. 13.32, stutt samtal, og við síma kærða Y kl. 13:34, en því símtali hafi ekki verið svarað. Að lokum hafi verið hringt úr sama spænska númeri í númer ,,Kimma” [...]. Beðið sé upplýsinga frá Spáni varðandi greint símanúmer. Í símabókum kærða og kærða Y sé að finna fleiri en eitt símanúmer á konu kallaða Anat/Netty. Eftir fyrirspurnir lögreglu hafi nú komið í ljós um hvaða konu sé að ræða og hafi réttarbeiðni verið send til erlendra lögregluyfirvalda varðandi skýrslutöku af henni. Athygli veki að kærði hafi beðið heimsóknargest sinn í gæsluvarðhaldið á Litla-Hraun að hafa samband við Anat og segja henni að halda sig við söguna sem Thor hafi sagt henni, en það nafn kannist kærði við að nota gagnvart útlendingum.
Auk framangreinds hafi hollenskt farsímanúmer undir nafninu “Kimi” verið að finna í síma kærða Y. Sama símanúmer sé undir nafninu “MU MU NI” í síma kærða, en hann kveði um að ræða dreng af arabískum uppruna sem hann hafi ekki getað gert frekari grein fyrir. Við hringingu í greint númer komi eins svörun og á talhólfi [...] og talið að um kærða sé að ræða. Þá veki það athygli að öryggisnúmer inn í talhólf símans sé sama og pin númer inn á gsm síma kærða og sama númer sé öryggisnúmer inn í talhólf símans [...]. Sé grunur um að greint hollenskt farsímanúmer hafi verið notað af kærða er hann hafi verið staddur erlendis í samskiptum við ætlaða samstarfsaðila. Á grundvelli réttarbeiðni sem send hafi verið hollenskum lögregluyfirvöldum hafi borist gögn varðandi notkun á greindu hollensku símanúmeri. Komi þar fram að símanúmerið hafi verið notað í símtækið sem kærði hafi notað fyrir sitt persónulega símanúmer. Þá beri gögnin með sér samskipti á milli greinds hollensks símanúmers, símanúmers kærða Y og símanúmers áðurgreindrar Anat. Komi notkunin heim og saman við gögn lögreglu um ítrekaðar ferðir kærða til Amsterdam.
Við skoðun lögreglu á gögnum frá Hollandi um símanotkun kærða Y komi fram símtöl við spænskt símanúmer sem kærði hafi kannast við hjá lögreglu að vera notandi að og sé skráð í síma kærða Y undir “Kimi”. Í skýrslutökum hjá lögreglu hafi kærði neitað því að hafa haft nokkur samskipti við kærða Y eftir að þeir hafi hist á Íslandi árið 2007, sem stangist á við notkun símanna.
Gögn þessi renni frekari stoðum undir ætlaðan þátt kærða í hinu stórfellda fíkniefnabroti. Það sé því mat ákæruvalds að sterkur grunur sé um að kærði hafi átt þátt í að flytja til landsins mikið magn fíkniefna ætluðu til söludreifingar hér á landi, m.a. með skipulagningu og fjármögnun innflutningsins.
Ætlað brot kærða teljist varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum.
Málið hafi borist ríkissaksóknara mánudaginn 15. desember sl. Rannsókn málsins hafi verið mjög umfangsmikil bæði hvað varði umfang brota, fjölda vitna og einstaklinga sem hlotið hafi réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins. Einnig hafi viðamikil gagnaöflun farið fram bæði hér á landi og erlendis. Ríkissaksóknari áætli að ákvörðun um framhald málsins liggi fyrir um miðjan janúar 2009 og þá hafi, eftir atvikum, verið gefin út ákæra í málinu.
Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 2. júlí 2008 á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, og setið í gæslu á grundvelli þessa ákvæðis til 3. september sl. Þann dag hafi héraðsdómur hafnað kröfu lögreglustjóra um að kærða yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og þá á grundvelli 2. mgr. 103. gr. sömu laga og úrskurðað hann þess í stað til þess að sæta farbanni. Hæstiréttur hafi breytt niðurstöðu héraðsdóms og dæmt kærða til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. ákvæðisins. Hann hafi síðan þá setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr.
Almannahagsmunir krefjist þess að kærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans og sé vísað til dómvenju í þeim efnum, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 154/2006, 522/2006, 590/2007, 589/2007 og 635/2007. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 483/2008 og 548/2008 hafi rétturinn staðfest úrskurði héraðsdóms um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Kærði hefur mótmælt kröfunni og telur að farbann muni nægja til að tryggja nærveru sína en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður mun skemmri tími en krafist er.
Öll framlögð gögn þykja sýna svo ekki verði um villst mikil tengsl kærða og kærða Y , og renna um leið sterkum stoðum undir þær röksemdir ríkissaksóknara að kærði hafi framið brot gegn nefndri grein almennra hegningarlaga. Kærði er þannig undir grun um að hafa framið brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi og er eðli og umfang þess slíkt að fallast ber á að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá þykja, með tillit til umfangs málsins, ekki efni til þess að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma. Með vísan til þessa fellst dómurinn á að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi í 4 vikur eða allt til 15. janúar 2009, kl. 16.00.