Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2008. |
|
Nr. 281/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í endurriti af dómþingi Héraðsdóms Reykjaness 19. maí 2008 kemur fram að varnaraðili hafi mótmælt kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.
Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Sóknaraðili telur að ætluð háttsemi varnaraðila kunni að varða við ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 244., 248. og 249. gr., og ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga. Sóknaraðili hefur ekki gert grein fyrir því með hvaða hætti hann telur varnaraðila hafa brotið gegn nefndum ákvæðum almennra hegningarlaga. Sóknaraðili hefur heldur ekki gert grein fyrir þeim brotum gegn lögum nr. 96/2002 sem hann telur varnaraðila grunaðan um að hafa framið og þá ekki heldur hvaða refsing sé við þeim lögð.
Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. maí 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, fd. [...] 1986, rúmenskum ríkisborgara, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. maí 2008, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu segir að kærði hafi ásamt samferðamanni sínum og unnustu verið stöðvuð í tollhliði við reglubundið eftirlit er þau komu til landsins með flugi frá London sunnudaginn 18. maí s.l. Við leit í farangri kærðu fann lögregla og tollgæsla 60 óútfyllt kort, samskonar og greiðslukort sem höfðu að geyma segulrönd. Voru kortin vandlega falin innan um klæðnað í ferðatöskum kærðu.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir því að kærðu hafi ætlað að nota þau kort sem haldlögð voru í vörslum þeirra í ólögmætum tilgangi. Meðal þess sem rannsaka þarf er aðdragandi ferðar kærðu til landsins og tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Telur lögreglan að ætluð háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 einkum 244., 248. og 249. gr. auk ákvæði laga nr. 96, 2002 um útlendinga. Lögregla telur að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 96, 2002 um útlendinga telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. maí 2008 kl. 16.00.
Kærða andmælti ekki kröfunni.
Ljóst er að málið sem lögreglustjóri hefur til rannsóknar getur reynst umfangsmikið og rannsókn þesss er á frumstigi. Þá er fallist á að lögreglan kunni að þurfa að rannsaka hugsanleg tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn bæði hérlendis og erlendis.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og og a-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga
Í ljósi framangreindra raka lögreglustjóra, sem eiga stoð í rannsóknargögnum málsins, er fallist á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og kærðu gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. maí 2008, kl. 16.00.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 26. maí 2008, kl. 16.00.