Hæstiréttur íslands
Mál nr. 203/2015
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Hraðakstur
- Ökutæki
- Hættubrot
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Ökuréttarsvipting
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.
I
Ákærði reisir ómerkingarkröfu sína á því að ranglega hafi verið staðið að rannsókn málsins og að ákæruvaldið hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar. Engir slíkir annmarkar eru á rannsókn málsins að varðað geti ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Verður þessari kröfu ákærða því hafnað.
II
Í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa undir áhrifum áfengis ekið bifreiðinni SE-966 á um það bil 178 km hraða eftir Reykjanesbraut aðfaranótt 4. mars 2012 og hafi bifreiðin ekki verið í ökuhæfu ástandi. Hann hafi með þessu raskað umferðaröryggi á alfaraleiðum og stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu annarra vegfarenda og farþega bifreiðarinnar í augljósan háska. Ákærði missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að fjórir farþegar slösuðust, tveir þeirra mjög alvarlega.
Ákærði hefur neitað að hafa verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn og kvaðst hafa verið á löglegum hraða, en orsök slyssins taldi hann hafa verið hálku á veginum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa vitað um ástand bifreiðarinnar, enda hafi hann átt hana í stuttan tíma. Hann staðfesti þó fyrir rétti að hann hafi skipt um dekk á felgu sama dag og slysið varð, þar sem felga hafði skekkst.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sannað sé að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn og sakfelling vegna þessa ákæruatriðis. Varðar brot ákærða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr sömu laga.
IV
Í málinu hefur verið lögð fram skýrsla Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði, frá 21. júní 2012 sem ber yfirskriftina „Ökuhraði bifreiðar SE-966 þegar hún lendir utan vegar hjá Reykjanesbraut á móts við afrein að Sörlatorgi“. Staðfesti Magnús Þór skýrsluna fyrir dómi og kvað útreikninga í henni byggða á mælingum lögreglunnar sem greint hafi vettvanginn. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var vettvangur skoðaður og mældur af rannsóknarlögreglu strax eftir slysið og myndir teknar, en einnig voru teknar myndir daginn eftir, 4. mars, í dagsbirtu. Vettvangur var einnig skoðaður 5. mars af rannsóknarlögreglu, starfsmönnum rannsóknarnefndar umferðarslysa og sérfræðingum, þar á meðal sérfræðingi á bíltæknisviði, Snorra Konráðssyni. Hinn 6. mars skoðuðu tveir rannsóknarlögreglumenn vettvanginn ásamt Magnúsi Þór. Skýrslan var unnin að beiðni lögreglunnar, lýst er þar forsendum og þeirri aðferðarfræði sem er beitt og reiknaður ætlaður, minnsti mögulegi og mesti mögulegi hraði bifreiðarinnar annars vegar miðað við gefnar forsendur skýrsluhöfundar og hins vegar ef miðað er við þætti sem „ekki er tekið tillit til í útreikningum“ og „valda því að raunverulegur hraði er meiri en útreiknaður hraði“. Ætlaður hraði samkvæmt síðargreindum forsendum er 178 km/klst og er ákærða gefið að sök að hafa ekið „á um það bil“ þeim hraða. Reiknaður ætlaður hraði bifreiðarinnar „þegar hún fer hliðarskrið“ er samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar 162 km/klst, mögulegur lágmarkshraði 153 km/klst og mögulegur hámarkshraði 171 km/klst. Aðspurður fyrir dómi bar Magnús Þór að líklegast væri að hraði bifreiðarinnar hafi verið á milli 178 og 188 km/klst og alveg útilokað að hann hafi verið undir 150 km/klst. Ekkert tilefni er til þess að vefengja mælingar rannsóknarlögreglu sem skýrslan um ökuhraða er byggð á. Einn farþega bifreiðarinnar og ökumaður bifreiðar sem ákærði fór fram úr örstuttu fyrir slysið báru fyrir dómi að hann hefði verið á mjög miklum hraða. Er með vísan til alls þessa hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ekið á ofsahraða þegar slysið varð, eða á meira en tvöföldum þeim hámarkshraða sem heimill er á þeim vegi sem ákærði ók umrætt sinn, 80 km/klst. Varðar brot ákærða við 1. mgr. og c. lið 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.
V
Ítarleg skýrsla um bíltæknirannsókn á ökutækinu SE-966 var unnin í mars, apríl og maí 2012 af Snorra S. Konráðssyni, sem staðfesti hana fyrir dómi. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ökutækið hefði ekki verið notkunarhæft í aðdraganda slyssins „vegna ástands hjólbarða og hemla.“ Var ökutækið auk þess talið stórhættulegt vegna yfirvofandi skyndibilunar í hemladiskum og stöðugleiki þess enn fremur talinn verulega skertur „vegna ólíkrar gerðar og eiginleika hjólbarðans hægra megin að framan miðað við hina hjólbarðana“ sem og „vegna misbreiðra felga á báðum ásum þar sem stífleiki hjólbarðanna mótast meðal annars af felgubreidd.“ Eru að öðru leyti staðfestar forsendur og sakfelling héraðsdóms vegna þessa ákæruatriðis, svo og heimfærsla brotsins til refsiákvæðis.
VI
Með framangreindum rannsóknarskýrslum er sannað að ákærði ók í umrætt sinn þungri og kraftmikilli bifreið í óökuhæfu ástandi á ofsahraða eftir Reykjanesbraut, sem er fjölfarin leið, og að orsök slyssins verði að hluta rakin til þessara þátta. Auk þess var ákærði undir áhrifum áfengis samkvæmt niðurstöðu blóðrannsóknar. Akstursskilyrði voru góð samkvæmt frumskýrslu lögreglu, veður þurrt og yfirborð vegar malbikað og fast. Með þessu atferli raskaði ákærði umferðaröryggi og olli almannahættu og varðar sú háttsemi við 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fjórir farþegar voru í bifreið hans og lagði hann líf og heilsu þeirra og annarra vegfarenda í hættu. Varðar sú háttsemi við 4. mgr. 220. gr. laganna sem verður beitt jafnhliða 168. gr. sömu laga, sbr. dóma Hæstaréttar 21. maí 1993 í máli nr. 67/1993, sem birtur er á blaðsíðu 1081 í dómasafni réttarins það ár, og 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012. Tveir farþeganna hlutu mjög alvarlegt líkamstjón og tveir minna. Verður ákærði því jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 219. gr. laganna.
VII
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess hversu alvarleg og margþætt brot ákærða eru og þeirra alvarlegu afleiðinga sem af þeim hlutust. Auk ölvunar- og glæfraaksturs, sem olli líkamstjóni fjögurra manna, hefur ákærði gerst sekur um að raska umferðaröryggi og valda almannahættu. Á hinn bóginn verður einnig að líta til þess að engar haldbærar skýringar hafa verið gefnar á þeim langa tíma sem leið frá slysinu og þar til ákæra var gefin út. Þá tafðist málið enn eftir útgáfu áfrýjunarstefnu af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt, en fjögur ár eru nú liðin frá því að slysið varð. Með vísan til alls þessa verður refsiákvörðun héraðsdóms staðfest, en rétt er að fresta fullnustu refsingarinnar að hluta eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála dæmdur til að greiða ⅔ hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Draupnir Gestson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild nemur 942.732 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.