Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. september 2003.

Nr. 359/2003.

Sýslumaðurinn á Húsavík

(Ragnheiður Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu um að X yrði gert að sæta nálgunarbanni var hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. september 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að varnaraðili hafi ekki flutt lögheimili sitt. Þrátt fyrir það hefur sóknaraðili ekki gert sennilegt að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði Z og barna þeirra. Þá verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að málskostnaður varnaraðila verði greiddur úr ríkissjóði. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. september 2003.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. þ.m., er til komið vegna kröfu lögreglustjórans á Húsavík, sem með kröfu, dagsettri 2. september 2003, krefst þess að X verði með vísan til 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að bann sé lagt við því að hann komi að […].  Þá er þess krafist að bannið taki einnig til þess að hann veiti eftirför, heimsæki, eða sé með öðru móti í beinu og milliliðalausu sambandi, þar með talið símasambandi, við Z, og sameiginleg börn hennar og varnaraðila, […].

Varnaraðili, X, krefst þess að kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Húsavík, verði alfarið hafnað og krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. 

[...]

Álit dómsins.

Í máli þessu liggur fyrir að lögregla var kvödd á heimili varnaraðila 9. ágúst s.l. að beiðni sambýliskonu hans.  Í skýrslu lögreglu er brotið, verkefnið, flokkað undir heimilisófrið/ölvun og heimilisófrið/ofbeldi.  Er rakið hér að framan hvernig það mál leystist og áverkar á sambýliskonu varnaraðila.  Í kæru hennar 2. þ.m. hnykkir hún á atvikum 9. f.m., auk þess sem hún kærir varnaraðila fyrir líkamsárás, eignaspjöll, önnur kynferðisbrot og lög um vernd barna og ungmenna eins og brotin eru flokkuð niður í lögregluskýrslu og lagaákvæði tilgreind í kröfu sóknaraðila sem ætluð brot varnaraðila þykja varða við.  Varnaraðili neitar alfarið sök og lýsir nánar í skýrslu sinni hjá lögreglu 3. þ.m. samskiptum sínum við kæranda.  Það álitaefni sem að dóminum snýr er til komið að því er virðist vegna ótta Z um að atvikið frá 9. ágúst s.l. endurtaki sig. 

Til þess ber að líta að varnaraðili og kærandi eru að slíta sambúð sinni og varnaraðili hefur flutt lögheimili sitt og fram kemur í lögregluskýrslu að hann hafi ekki á nokkurn hátt veist að börnum sínum.  Þegar varnaraðili kom fyrir dóm var hann allsgáður og kom vel fyrir og í vottorði [...] læknis kemur fram að hann sé að jafnaði dagfarsprúður þegar hann er ekki undir áhrifum áfengis.

Sóknaraðili, sýslumaðurinn á Húsavík, hefur ekki á nokkurn hátt gert það sennilegt eða líklegt að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði Z og barna hennar [...].  Hafnar því dómurinn kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni eins og krafist er.  Með vísan til þess svo og þess að hér er reitt hátt til höggs af sóknaraðila ber sóknaraðila að greiða allan málskostnað varnaraðila, en þóknun til skipaðs réttargæslumanns hans, Berglindar Svavarsdóttur hdl., þykir hæfilega ákveðin kr. 50.000.

 

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Húsavík, um að varnaraðila, X, verði gert að sæta nálgunarbanni.

Allur málskostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun til skipaðs réttargæslumanns hans, Berglindar Svavarsdóttur hdl.