Hæstiréttur íslands
Mál nr. 70/2017
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Árslaun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Símon Sigvaldason dómstjóri.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2017. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
I
Ágreiningsefni málsins hér fyrir dómi lúta að uppgjöri skaðabóta fyrir varanlega örorku stefnda, vegna afleiðinga umferðarslyss sem hann varð fyrir 7. september 2011. Einungis er deilt um hvort árslaun stefnda samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli við útreikning skaðabóta ákvörðuð á grundvelli meginreglu 1. mgr., sbr. hér 3. mgr., greinarinnar, eða hvort beita skuli undantekningarreglu 2. mgr. á þann hátt sem felst í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Beiting meginreglunnar felur í sér að miða beri árslaun stefnda við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr., en hann hefur fengið uppgjör skaðabóta vegna slyssins á þeim grundvelli. Niðurstaða héraðsdóms felur í sér að við uppgjör bóta til hans fyrir varanlega örorku vegna slyssins skuli árslaun ákvörðuð samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og talin vera jöfn meðaltekjum verkafólks.
Stefndi er fæddur á árinu 1984. Að loknu grunnskólanámi var hann samkvæmt gögnum málsins við nám í húsasmíði við […], en lauk því námi ekki. Hann hóf atvinnuþátttöku í litlum mæli á árinu 2000 og hafði einnig launatekjur á síðari hluta ársins 2001. Hann hafði einnig launatekjur á árunum 2002 og 2003, sem námu bæði árin tæpum þriðjungi af meðaltekjum verkafólks og tæplega helmingi af lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. eins og þau voru á þeim árum. Á árinu 2004, þegar stefndi var 20 ára, hafði hann ekki launatekjur í janúar og hluta febrúar, en fékk þær aðra mánuði ársins. Samtals námu laun hans það ár rúmlega helmingi af meðallaunum verkafólks og voru nokkru hærri en lágmarkslaun. Stefndi var í launuðum störfum allt árið 2005 og voru launatekjur hans það ár hærri en meðallaun verkafólks og um tvöfalt hærri en lágmarkslaun. Hið sama á við að öllu leyti um árið 2007. Á árinu 2006 var stefndi samkvæmt gögnum málsins ekki í launuðum störfum síðustu fjóra mánuði ársins. Heildarlaun hans það ár voru um þriðjungi lægri en meðallaun verkafólks, en hærri en lágmarkslaun. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vann stefndi einungis launuð störf á fyrri hluta árs 2008 og námu heildarlaun hans fyrir þá vinnu um helmingi af meðallaunum verkafólks það árið, en voru þó ívið hærri en lágmarkslaun. Stefndi þáði atvinnuleysisbætur frá árslokum 2008 og allt árið 2009, 2010 og 2011, en hann varð sem fyrr segir fyrir slysi því sem ágreiningur málsaðila reis af 7. september 2011. Tímabundinni óvinnufærni hans vegna afleiðinga slyssins lauk samkvæmt mati dómkvaddra manna 7. janúar 2012. Hann þáði atvinnuleysisbætur allt árið 2012 og um mitt það ár jafnframt styrk frá velferðarsviði Reykjavíkur. Hann þáði greiðslur þaðan allt árið 2013 og 2014, en hóf aftur störf á vinnumarkaði í ársbyrjun 2015. Heildarárslaun hans fyrir það ár voru verulega lægri en meðallaun verkafólks, en um 30% hærri en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
II
Við ákvörðun árslauna samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ber að leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur stefnda að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til batahvarfa. Samkvæmt þessu átti að nota sem grundvöll við ákvörðun árslauna stefnda atvinnutekjur hans árin 2008, 2009 og 2010. Á þessu tímabili aflaði stefndi einungis launatekna, svo sannað sé, á fyrri hluta árs 2008. Þessi grundvöllur er því ekki tækur þar sem lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna leiða til hærri árslauna.
Stefndi hefur sönnunarbyrði fyrir því að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til þess að ákveða árslaun sérstaklega. Þau skilyrði eru í meginatriðum tvenns konar. Annars vegar að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá stefnda að því er atvinnuþátttöku eða atvinnutekjur varðar eða hvort tveggja. Hins vegar að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Í hinum áfrýjaða dómi er skilmerkilega gerð grein fyrir því að stefndi hafi lokið hluta náms í húsasmíði og aflað sér ýmissa réttinda sem kunni að nýtast honum í starfi í framtíðinni og líklega veita honum færi á hærri tekjum en ella. Þar er jafnframt gerð grein fyrir því að stefndi hafi fyrst og fremst unnið við húsasmíði. Verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þau efnahagsáföll sem urðu haustið 2008 og atvinnuleysi einkum í byggingariðnaði í kjölfar þeirra hafi leitt til sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði ekki síst árin 2009 og 2010. Voru því óvenjulegar aðstæður fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Við mat á því hvort skilyrðinu um að önnur laun en lágmarkslaun séu réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnda verður fyrst og fremst að líta til atvinnuþátttöku hans og launatekna fram á mitt ár 2008. Jafnframt verður í ljósi takmarkaðra varanlegra afleiðinga slyssins fyrir stefnda, en varanleg örorka hans var metin 10% og varanlegur miski 8 stig, einnig að taka tillit til atvinnuþátttöku hans og launatekna eftir slysið 7. september 2011. Eins og rakið hefur verið voru launatekjur stefnda hærri en meðallaun verkafólks á árunum 2005 og 2007, en verulega lægri 2004, 2006 og 2008. Það leiddi ekki síst af stopulli atvinnuþátttöku hans. Eftir slysið vann hann, samkvæmt því sem leggja verður til grundvallar í málinu, ekkert frá því að tímabili óvinnufærni lauk 7. janúar 2012 og þar til í byrjun janúar 2015 eða um þriggja ára skeið. Hann var á vinnumarkaði árið 2015 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2016, en gögn um atvinnuþátttöku hans eftir það hafa ekki verið lögð fram í málinu. Samanlagðar launatekjur stefnda árið 2015 voru mun hærri en lágmarkslaun en verulega lægri en meðallaun verkafólks. Atvinnuþátttaka stefnda fyrir slysið og eftir 7. janúar 2012 og launatekjur hans, að því leyti sem upplýst er um þær í málinu, renna ekki stoðum undir að meðallaun verkafólks séu réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans en lágmarkslaun þau, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og leiða af meginreglunni í 1. mgr. greinarinnar. Eru því ekki uppfyllt bæði skilyrði, sem þarf til að beita undantekningareglu 2. mgr. 7. gr. laganna.
Samkvæmt öllu framansögðu verða áfrýjendur sýknaðir af kröfu stefnda.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.
Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Vátryggingafélag Íslands hf. og Íllgil ehf., eru sýknuð af kröfu stefnda, A.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað þar fyrir dómi er staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 3. október sl., var höfðað 15. janúar 2016.
Stefnandi er A, […].
Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík og Íllgil ehf., […].
Stefnandi krefst þess að aðallega að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða honum 8.761.448 krónur að viðbættum 4,5% vöxtum, skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 7. janúar 2012 til 7. september 2014 og dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 3.867.386 krónur þann 27. febrúar 2015.
Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda 7.272.115 krónur að viðbættum 4,5% vöxtum, skv. 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 7. janúar 2012 til 7. september 2014 og dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 3.867.386 krónur þann 27. febrúar 2015.
Þá krefst stefnandi í báðum tilvikum málskostnaðar, ásamt virðisaukaskatti, óskipt úr hendi stefndu eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 7. september 2011 er ekið var aftan á bifreiðina, […], sem hann ók, á […]. Eigandi bifreiðarinnar […], sem ók aftan á, var stefndi Íllgil ehf. Stefnandi hlaut af þessu skaða m.a. á höfði, baki og hálsi. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafnaði, með bréfi dags. 6. október 2011, bótaskyldu vegna slyssins á þeim grundvelli að orsakatengsl milli slyssins og áverka stefnanda væru ósönnuð. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu, nr. E-4475/2013, til viðurkenningar á bótaskyldu, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. nóvember 2013. Undir rekstri málsins öfluðu báðir aðilar matsgerða dómkvaddra matsmanna. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru milli slyss stefnanda og einkenna hans og var varanlegur miski hans metinn 8 stig og varanleg örorka 10%. Varð sátt með aðilum um bótaskyldu í málinu. Ágreiningur varð hins vegar með aðilum um viðmiðunarlaun við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku. Stefndi taldi að miða bæri við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en stefnandi að beita ætti 2. mgr. 7. gr. laganna og meta árslaun sérstaklega. Gert var upp við stefnanda 27. febrúar 2015 miðað við lágmarkslaunaviðmið. Stefnandi gerði fyrirvara við þá niðurstöðu við uppgjörið.
II
Stefnandi reisir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við slysið 7. september 2011 sem stefndi Íllgil ehf. beri skaðabótaábyrgð á sem eigandi bifreiðarinnar […], samkvæmt 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Bifreiðin hafi verið tryggð með lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. sem málið beinist að skv. 97. gr. umferðarlaga. Stefndu hafi viðurkennt bótaskyldu vegna slyssins og greitt stefnanda bætur sem hann hafi tekið við með fyrirvara um viðmiðunarlaun. Ágreiningur málsins lúti því eingöngu að fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku stefnanda, nánar tiltekið hvaða viðmið eigi að nota við útreikning þeirra bóta.
Stefnandi byggi á því að við útreikning bótanna skuli beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem kveði á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola heldur en árslaun skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Um leið telji stefnandi ljóst að lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna sé ekki réttmætt viðmið í þessu tilviki enda endurspegli það ekki rauntjón stefnanda til framtíðar.
Lögð hafi verið fram skattframtöl og staðgreiðsluskrár stefnanda sem sýni meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, þ.e. almanaksárin 2008, 2009 og 2010. Á þessum tíma hafi stefnandi verið í byggingarvinnu hjá tveimur fyrirtækjum mestan hluta ársins 2008. Hluta ársins 2008 og allt árið 2009 og árið 2010 hafi hann hins vegar verið atvinnulaus. Stefnandi telji að atvinnuleysi hans hafi verið óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. skaðabótalaga. Tímabundið atvinnuleysi hans á árunum eftir efnahagshrunið á Íslandi megi rekja til þeirra óvenjulegu aðstæðna sem hafi skapast í kjölfar hrunsins. Þessar aðstæður hafi falið í sér óvenjulegt og verulegt bakslag í íslensku efnahagslífi með auknu almennu atvinnuleysi og ekki síst algjöri hruni á sviði byggingariðnaðar þar sem stefnandi hafi fyrst og fremst starfað. Stefnanda hafi því verið óhægt um vik að fá vinnu á þessu tímabili.
Ekkert bendi til annars en að atvinnutekjur stefnanda á árinu 2008 gefi raunhæfa mynd af ætluðum framtíðartekjum hans. Til þess sé einnig að líta að allt árið 2015 og til þessa dags hafi stefnandi stundað byggingarvinnu áþekka þeirri sem hann hafi stundað árið 2008. Ekki sé hægt að ganga út frá því að stefnandi verði atvinnulaus um aldur og ævi eins og hann hafi verið á árunum eftir hrun. Það telji stefnandi ófyrirsynju og ósanngjarnt í sinn garð, enda hafi hann sannarlega atvinnusögu og hafi nýlega sýnt fram á að hann vilji og geti starfað á vinnumarkaði eftir því sem atvinnutækifæri bjóðist og starfsorka hans leyfi. Aðstæður þær sem hann hafi verið í á viðmiðunartímabilinu 2008 til 2010, þegar hann hafi um langt skeið verið atvinnulaus hafi því sannarlega verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi telji að túlka beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga rúmt í samræmi við dómaframkvæmd og álit fræðimanna og að ganga megi langt í að áætla þær tekjur sem tjónþoli hefði haft í framtíðinni ef launatekjur síðustu ára fyrir slys eru ekki viðmiðunarhæfar. Ekki verði annað ráðið en að það hafi verið vilji löggjafans með breytingunni sem gerð hafi verið á skaðabótalögum með lögum nr. 37/1999. Í greinargerð frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 37/1999 segi í athugasemdum með 6. gr.: „Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.“ Stefnandi telji því ljóst að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 7. gr. laganna og að annar mælikvarði en meðalvinnutekjur hans síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið teljist réttari á líklegar framtíðartekjur hans.
Aðalkrafa stefnanda lútið að því að miðað sé við uppreiknuð laun hans árið 2008. Stefnandi hafi sannarlega verið í byggingarvinnu það ár, sem sé áþekk þeirri vinnu sem hann hafi síðar stundað. Tekjur hans á meðan hann hafi verið í vinnu árið 2008 gefi því eins rétta mynd og hægt sé að fá af framtíðartekjum hans. Beri því að nota þær til viðmiðunar við útreikning tjónsins, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi verið í vinnu í sex mánuði af tólf árið 2008. Heildartekjur hans hafi verið 2.402.356 krónur. Sé sú fjárhæð uppreiknuð á tólf mánuði nemi hún 4.804.712 krónum sem reiknist þannig: 2.402.356 krónur (heildarlaun 2008) / 6 (mánuðir sem stefnandi hafi unnið) x 12 (heildarfjöldi mánaða í ári) = 4.804.712 krónur. Meðaltalslaunavísitala ársins 2008 hafi verið 345,0 og launavísitala á stöðugleikapunkti hafi verið 418,2. Þegar launin séu uppreiknuð miðað við launavísitölu og 8% mótframlagi í lífeyrissjóð bætt við nemi fjárhæðin 6.290.078 krónum. Með tilliti til margföldunarstuðuls og örorkustigs stefnanda reiknist krafan þannig: 6.290.077 krónur (árslaun) x 13,92900 (stuðull) x 10% (örorkustig) = 8.761.448 krónur. Til frádráttar heildarkröfunni og vöxtum komi innborgun stefnda að fjárhæð 3.867.386 krónur þann 27. febrúar 2015.
Varakrafa stefnanda miðist við meðallaun verkamanna á árinu 2010, árið fyrir slysið, við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Ef frá er talin framangreind viðmiðun við uppreiknaðar tekjur stefnanda árið 2008, telji stefnandi að meðallaun verkamanna á árinu 2010 gefi réttasta mynd af líklegum framtíðartekjum hans, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í ljósi þess að stefnandi hafi sögu um atvinnuþátttöku í byggingariðnaði í hvert sinn sem honum hafi verið það kleift fyrir slysið og jafnframt eftir slysið, telji hann eðlilegt og raunhæft að miða við meðaltekjur verkamanna við mat á líklegum framtíðartekjum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi meðallaun verkamanna á árinu 2010 verið að fjárhæð 4.344.000 krónur (362.000 x 12 = 4.344.000). Þegar tekið sé tillit til verðbreytinga og 8% mótframlags í lífeyrissjóð, séu viðmiðunarlaun 5.220.845 krónur sem reiknist þannig: 4.344.000 krónur (meðallaun verkamanna 2010) x 1,08 (8% mótframlag í lífeyrissjóð) x 418,2 (launavísitala á stöðugleikapunkti) / 375,8 (meðaltalslaunavísitala 2010) = 5.220.845 krónur. Með tilliti til margföldunarstuðuls og örorkustigs stefnanda reiknist krafan þannig: 5.220.845 krónur (árslaun) x 13,92900 (stuðull) x 10% (örorkustig) = 7.272.115 krónur. Til frádráttar komi svo innborgun stefnda.
Krafa um vexti miðist við 7. janúar 2012 sem sé upphafsdagur metinnar örorku (stöðugleikapunktur), sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Dráttarvaxtakrafa miðist við 7. september 2014 en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að matsgerð hafi legið fyrir sem hafi staðfest varanlegt tjón stefnanda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir beitingu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysdag og stefnandi hafi ekki sýnt fram á annan réttari mælikvarða á líklegar framtíðartekjur sínar.
Við uppgjör skaðabóta vegna varanlegs líkamstjóns sé leitast við að bæta tjónþola þær tekjur sem líkur séu á að hann verði af vegna örorku sinnar. Líkindaútreikningur sem þessi sé ýmsum annmörkum háður en til þess að koma í veg fyrir að meta þurfi tjónið með flóknum útreikningum í hverju tilviki fyrir sig hafi verið settar fram staðlaðar reglur um hann með skaðabótalögum. Meginregla íslensks skaðabótaréttar varðandi laun sem miða skuli við að tjónþoli hafi í framtíðinni sé að finna í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt henni skuli árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. laganna teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 3. mgr. 7. gr. komi þó fram að þrátt fyrir þetta skuli aldrei miða við lægri fjarhæðir en settar séu fram í töflu í greininni. Gert hafi verið upp við stefnanda miðað við þessar fjárhæðir.
Krafa stefnanda byggist á undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar komi fram að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Gæta þurfi varúðar við beitingu undantekningarreglna. Þeim skuli einungis beitt þegar ljóst sé að lagaskilyrði séu til þess. Sönnunarbyrði um að skilyrðum þessarar greinar sé fullnægt hvíli alfarið á stefnanda. Skilyrði fyrir beitingu 2. mgr. 7. gr. séu tvö. Annars vegar þurfi óvenjulegar aðstæður að hafa leitt til þess að ekki gefist rétt mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola við beitingu 1. mgr. 7. gr. Hins vegar þurfi að vera til annað og betra viðmið sem gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola.
Stefnandi hafi verið 27 ára á slysdegi og hafi ekki aflað sér sérstakra starfsréttinda annarra en meiraprófs og hafi ekki haslað sér völl á tilteknu sviði atvinnulífs fremur en öðru. Þau gögn sem liggi fyrir um atvinnuþátttöku hans bendi til þess að hún hafi verið stopul. Stefnandi hafi verið greindur með ofvirkni og athyglisbrest, auk þess sem hann hafi lengi átt við þunglyndi, kvíða og áfengis- og vímuefnavandamál að stríða.
Stefnandi byggi á því að síðustu þrjú árin fyrir slysið hafi verið óvenjuleg sökum efnahagshrunsins í september 2008. Engin gögn í málinu staðfesti að stefnandi hefði getað nýtt vinnugetu sína með öðrum hætti fyrir þann tíma en eftir þann tíma og enn síður að hann hefði í raun gert það ef ekki hefði verið fyrir slysið. Þvert á móti komi skýrt fram í matsgerð sem stefnandi byggi á að af sjúkraskrá stefnanda að dæma hafi þunglyndi og eða kvíðaröskun helst ráðið því að hann hafi ekki komist í vinnu eða haldið vinnu. Ætla verði að þetta ástand hefði hrjáð stefnanda til framtíðar óháð slysinu enda séu umrædd einkenni ótengd því. Stefnandi hafi í öllu falli hvorki lagt fram staðfestingu vinnuveitanda um að hann hafi misst vinnu sökum efnahagshrunsins né upplýsingar um tekjur vegna áranna frá því hann hóf störf á almennum markaði fram til ársins 2008. Þá sé óútskýrt hvers vegna hann hafi ekki stundað atvinnu í júní og júlí 2008. Stefnandi hafi því ekki sannað að nokkuð hafi verið óvenjulegt við síðustu þrjú tekjuár fyrir slysið. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að ætla megi að þau gefi góða mynd af því sem búast hefði mátt við í framtíðinni. Það sé því eðlilegt að ætla að atvinnuþátttaka stefnanda hefði áfram verið stopul líkt og fyrir slys.
Aðalkrafa stefnanda miði við þá sex mánuði sem hann hafi verið við vinnu árið 2008. Þetta tímabil sé nokkuð löngu fyrir slys og á miklum uppgangs- og uppgripstíma í íslensku atvinnulífi. Það sé óraunhæft að miða framtíðartekjur við framreiknaðar tekjur síðustu mánuði fyrir efnahagshrunið. Þá sé það svo stutt að engin leið sé að draga nákvæmar ályktanir um framtíðartekjur út frá því. Þá megi benda á að tekjur stefnanda fyrir ágústmánuð þetta ár séu næstum tvöfalt hærri en hann virðist hafa aflað sér með vinnu aðra mánuði starfsævinnar.
Það sé einnig ósannað að meðallaun verkamanna séu betri mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda en tekjur hans sjálfs síðustu þrjú ár fyrir slys. Í fyrsta lagi nái ekki allt verkafólk meðalárslaunum verkamanna á starfsævinni og ekkert sérstakt bendi til þess að stefnandi hefði náð þeim launum hefði slysið ekki orðið. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að meiri líkur en minni séu til þess að hann hefði náð meðaltekjum verkamanna í framtíðinni. Þá séu meðaltekjur verkafólks og annarra starfstétta óhæfur viðmiðunargrundvöllur þegar í hlut eigi tiltölulega ungir tjónþolar þar sem inn í margföldunarstuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga sé reiknað sérstakt aldursálag fyrir tjónþola yngri en 30 ára. Aldursálagið hækki eftir því sem tjónþoli sé yngri. Það valdi því að uppreiknuð viðmiðunarlaun ungra einstaklinga sem njóti aldursálags verði í raun verulega hærri en ella. Þannig sé ótækt þegar mjög ungir tjónþolar eigi í hlut að leggja meðaltekjur verkafólks eða annarra starfstétta til grundvallar sem viðmiðunarlaun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku nema tekið sé tillit til þessa miðvægis og viðmiðunarlaunin lækkuð sem því svari.
Loks telji stefndi rétt, ef miða á við meðalatvinnutekjur starfstétta, að miða við meðalatvinnutekjur þriggja síðustu ára í takt við meginregluna í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki aðeins við síðasta árið fyrir slys. Þá beri að sjálfsögðu að miða við meðallaun starfstéttarinnar óháð kyni en ekki eingöngu við meðallaun annars kynsins, enda væri það í andstöðu við meginreglu laga um jafnan rétt karla og kvenna, en næsta víst sé að sá launamunur sem stefnandi reikni sér muni ekki haldast út starfsævi stefnanda.
IV
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 7. september 2011. Bótaskylda er óumdeild en aðila greinir á um viðmiðunarlaun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Stefnandi byggir á því að við útreikning bóta skuli beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðalkrafa hans miðar við uppreiknuð laun hans árið 2008 en varakrafa við meðaltekjur verkamanna árið 2010. Stefndi telur hins vegar rétt að miða við lágmarkslaun, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt því hafi stefnandi fengið tjón sitt að fullu bætt.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Samkvæmt 2. mgr. skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þá segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1.-2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en þar eru tilgreind.
Samkvæmt framangreindu eru tvö skilyrði fyrir því að ákvarða megi árslaun sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. Annars vegar þarf að vera um að ræða óvenjulegar aðstæður hjá tjónþola og hins vegar þarf að vera fyrir hendi annar réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans en laun síðustu þriggja almanaksára.
Stefnandi var 27 ára á slysdegi. Eftir grunnskólanám, sem hann lauk árið 2000, lagði hann stund á nám í húsasmíði í […] og lauk þar um 60-70 einingum til stúdentsprófs, en það mun vera ríflega helmingur námsins. Þá fór stefnandi á samning. Stefnandi hefur tekið meirapróf sem bílstjóri og hefur réttindi til þess að aka leigubifreiðum. Þá hefur hann réttindi til að stjórna krana og vinnuvélaréttindi. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, B bæklunarskurðlæknis og C hrl., í málinu nr. E-4475/2013, kemur fram að stefnandi hafi lengst af unnið við smíðar og um tíma ekið leigubifreið. Hann stefni á að komast í vinnu, og þá helst við smíðar, og/eða í frekara nám. Stefnandi greindi frá því fyrir dóminum að hann hefði lokið verklega hluta námsins í húsasmíði en ekki bóklega hlutanum. Hann hefði starfað við byggingarstörf og leigubifreiðaakstur og nýtt til þess meirapróf sitt og vinnuvélaréttindi. Árin 2001 til 2007 hafi hann stundað byggingarvinnu og leigubifreiðaakstur. Eftir að missa starf sitt í byggingariðnaði vegna samdráttar hafi hann ekið leigubifreið árin 2008 og 2009. Þá hafi hann starfað við að keyra út matarbakka í afleysingum árin 2009 og 2010 en hann hafi verið í atvinnuleit á þessum tíma. Hann hafi ætlað sér að vinna við störf tengd byggingariðnaði og jafnvel að læra meira á því sviði.
Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra var stefnandi við störf allt árið 2007 og fram til maí 2008, auk ágústmánaðar það ár. Stefnandi hefur aftur haft launatekjur frá apríl 2015. Samkvæmt framangreindu hafði stefnandi verið atvinnulaus í nokkurn tíma þegar slysið varð í september 2011. Alkunna er að sérstakar aðstæður sköpuðust í byggingariðnaði á þessum tíma og lítið var um verkefni. Stefnandi var í föstu starfi fram til maímánaðar árið 2008 þegar hann missti vinnuna. Þá hefur hann lagt fram gögn um að hann hafi ekið leigubifreið í afleysingum árin 2008 og 2009. Með hliðsjón af framangreindu verður að fallast á að um óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi verið að ræða.
Þrátt fyrir takmarkaða menntun og starfsréttindi stefnanda hafði hann markað sér starfssvið í byggingariðnaði þegar slysið varð og hafði stundað nám á því sviði þótt hann hafi ekki lokið því. Hann hafði starfað í nokkur ár við byggingarstörf, eins og sýnt hefur verið fram á með gögnum málsins, m.a. framlögðum matsgerðum úr málinu nr. E-4475/2013, og ætlaði sér að halda áfram á þeirri braut. Þá hefur hann aftur hafið störf á sama sviði. Aðalkrafa stefnanda miðar við nokkra mánuði á árinu 2008, á tímabili þar sem aðstæður voru nokkuð óvenjulegar í byggingariðnaði. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að raunhæft sé að miða líklegar framtíðartekjur við þau tímabil. Að öllu framangreindu virtu verður að telja réttast að miða líklegar framtíðartekjur stefnanda við meðallaun verkafólks eins og varakrafa stefnanda lýtur að. Þó þykja rök ekki standa til þess að greina á milli kynja í því sambandi. Að teknu tilliti til þess verður fallist á kröfu stefnanda að fjárhæð 6.870.341 króna, með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en stefnandi hefur lagt fyrir dóminn útreikning kröfunnar og hefur honum ekki verið andmælt.
Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 15. júní 2015. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu verður stefndu, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, gert að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 1.043.460 krónur sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 1.043.460 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Íllgil ehf., greiði óskipt stefnanda, A, 6.870.341 krónu ásamt 4,5% vöxtum frá 7. janúar 2012 til 7. september 2014 og dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 3.867.386 krónur þann 27. febrúar 2015.
Stefndu greiði óskipt 1.043.460 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.043.460 krónur, greiðist úr ríkissjóði.