Hæstiréttur íslands
Mál nr. 778/2016
Lykilorð
- Börn
- Barnavernd
- Forsjá
- Samningur
- Matsgerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2016. Þau krefjast þess að samningur 20. október 2015, sem þau gerðu við stefnda C um að barnavernd C tæki við forsjá barns þeirra, verði felldur úr gildi og þeim falin forsjá barnsins að nýju. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir niðurstöðum F sálfræðings sem dómkvödd var til þess að meta forsjárhæfni áfrýjenda, tengsl þeirra við barnið, G, uppeldisaðstæður og afstöðu hans til búsetu og umgengni við áfrýjendur. Kemur fram í lokaorðum matsgerðar F að forsjárhæfni áfrýjenda sé alvarlega ábótavant og þess ekki að vænta að á henni verði breytingar vegna skilningsleysis þeirra á þörfum drengsins, uppeldisaðferðum og aðstæðum sem hann þurfi á að halda. Fullvíst megi telja að ástandið færi aftur í sama horf færi hann heim til áfrýjenda. Drengurinn byggi við góðar aðstæður hjá fósturforeldrum sem væru vakandi fyrir þörfum hans og gerðu sér grein fyrir þroskastigi hans og getu. Að virtu mati F og þeirri niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að ekkert skilyrða 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir því að hnekkt verði framangreindum samningi áfrýjenda og stefnda C, sé fyrir hendi verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfum áfrýjenda.
Málskostnaður verður hvorki dæmdur í héraði né fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda á báðum dómstigum fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, A og B, á báðum dómstigum, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra í héraði, 1.100.000 krónur, og lögmanns þeirra fyrir Hæstarétti 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2016.
Mál þetta, sem var þingfest 11. apríl 2016, var höfðað með réttarstefnu útgefinni 31. mars 2016 og birtri 5. apríl 2015 fyrir stefndu.
Stefnendur eru A, kt. [...], og B, kt. [...], [...], [...].
Stefndu eru C, kt. [...] [...], [...], fyrir hönd barnaverndarnefndar C, D, kt. [...], og E, kt. [...], [...], [...].
Dómkröfur stefnenda eru gagnvart öllum stefndu að samningi sem gerður var 20. október 2015 um að barnaverndarnefnd C tæki við forsjá G, kt. [...], verði hnekkt með dómi og stefnendum fengin forsjá barnsins að nýju.
Gerð er krafa gagnvart stefndu E og D að þeim verði gert að þola að samningi dagsettum 20. október 2015 verði hnekkt með dómi. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda.
Undir rekstri málsins var þess krafist að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta forsjárhæfni stefnenda. Var þeirri kröfu mótmælt af hálfu stefndu. Gekk úrskurður þess efnis 29. apríl 2016 og var dómkvaddur matsmaður til að meta forsjárhæfni stefnenda. Var matsgerð lögð fram í þinghaldi 20. júlí 2016. Aðalmeðferð fór fram dagana 24. október og 2. nóvember 2016.
Málsatvik.
Mál þetta snýr að drengnum G, sem er fæddur [...] 2003 í [...] en foreldrar hans eru frá [...] og [...]. Þau fluttu til Íslands árið 2005 þegar G var á öðru ári. Samkvæmt gögnum málsins voru áhyggjur af þroska drengsins strax á árinu 2007. Liggja fyrir læknabréf í málinu þar sem áhyggjum af þroska drengsins er lýst. Samkvæmt bréfi um athugun á þroska og hegðun drengsins frá 20. október 2007 segir í niðurstöðum að í málskilningi, tjáningu, skynjun og eftirhermu sýni hann getu á við eins og hálfs árs börn. Hreyfiþættir komi betur út, samhæfing, gróf- og fínhreyfingar séu á við getu tveggja og hálfs til þriggja ára barna sem sé þó nokkuð undir meðaltali miðað við lífaldur. Þá segir að þessi athugun styðji það sem áður hafi komið fram hjá barnalækni að um víðtæka erfiðleika í þroska og atferli sé að ræða. Það sé því nauðsynlegt að fram fari frekari athugun.
Athugun á hegðun í leik ADS-1 var gerð á G í maí 2008. Var niðurstaðan sú að í heild næði hegðun drengsins greiningarmörkum fyrir einhverfu. Þá kemur fram í gögnum málsins að drengurinn hafi verið illa til fara, með mjög skemmdar tennur, þreytulegur og illa sofinn. Þurfti að draga úr honum fjórtán barnatennur vegna skemmda og hafi drengurinn greinilega þjáðst af tannpínu. Athugun á fagsviði einhverfu var gerð í október 2008. Var niðurstaðan að athuganir gæfu til kynna að til staðar væru einhverfueinkenni hjá drengnum og frávik í vitsmunaþroska og málþroska. Segir að mikilvægt sé að bregðast við erfiðleikum drengsins með sérkennslu, þjálfun og stuðningi í leikskóla, á heimili og meðal jafnaldra. Þá var mælt með sértækri talþjálfun, læknisfræðilegri eftirfylgni barnalækna og stuðningi við fjölskyldu sem tækist á við krefjandi uppeldi og umönnun. Einnig kemur fram að foreldrar drengsins hafi ekki verið samvinnufús vegna afskipta barnaverndarnefndar og hafi m.a. ekki viljað fara með drenginn á Greiningarstöð til Reykjavíkur en hafi samþykkt að starfsmenn Greiningarstöðvarinnar kæmu [...]til þeirra. Í leikskóla hafi hann verið með mjög mikla áráttuhegðun, lamið og hrint öðrum börnum. Hann hafi verið með dæmigerða einhverfu og þroskahömlun. Þá hafi ekki gengið að hafa foreldrana með í talkennslu þar sem drengurinn hafi gengið í skrokk á þeim en betur hafi gengið þegar starfsmenn leikskólans voru með honum. Illa hafi gengið að setja upp prógramm fyrir fjölskylduna til að fara eftir þar sem þau hafi ekki verið tilbúin í afskipti barnaverndarnefndar.
Á árinu 2009 hafi þjálfun drengsins gengið vel í leikskóla og hann lært að tjá sig í gegnum myndir. Þá var fundað með foreldrum og rætt við þau um alvarleika þess að hræða, lemja eða meiða barnið sitt. Hafi þeim fundist það lítilvægt. Reynt hafi verið ítrekað að útskýra fyrir foreldrunum hvað einhverfa þýddi og að drengurinn þyrfti ramma og skýr skilaboð. Þá hafi verið ákveðið að fá túlk til að þýða upplýsingaspólu um einhverfu fyrir þau, fara á heimili þeirra til að setja upp myndakerfi og reyna að kenna þeim á það.
Barnaverndarnefnd H gerði áætlun um meðferð máls í október 2009. Er ástæða afskipta barnaverndarnefndar sögð tilkynning um að drengurinn hafi verið laminn af föður og einnig hafi barnið verið með mar á handlegg vegna þess að faðir greip í það. Ákveðið var því að setja upp stuðningskerfi fyrir drenginn. Átti að fá liðveitanda fyrir drenginn sem og heimsókn frá þroskaþjálfa inn á heimili hans. Hlutverk foreldra var að fá leiðbeiningar um myndakerfi til að setja upp skýrari rútínu fyrir drenginn, að vera samvinnufús um liðveisluna og ráðgjöf frá félagsþjónustu. Átti að endurmeta áætlunina í apríl 2010. Í heimsókn til þeirra í október hafi einnig verið rætt við móðurbróður drengsins og honum sagt að ekki væri boðlegt að löðrunga drenginn. Þá hafi verið lagt hart að fjölskyldunni að senda yngri bróður drengsins á leikskóla en þau ekki viljað þar sem hann hafi verið fótbrotinn. Liðveisla hafi verið fengin fyrir drenginn með það einnig í huga að hafa hlutverk stuðningsfjölskyldu. Það hafi gengið mjög illa og hafi faðir drengsins ekki virt mörk hvað varði tíma og hafi hringt á öllum tímum sólarhrings í liðveitandann og hafi jafnvel komið með drenginn því hann hafi ekki skilið svörin. Liðveitandinn hafi hætt með drenginn í lok árs.
Vinnuskýrsla barnaverndarnefndar H frá 31. janúar 2011 liggur fyrir þar sem segir að afskiptin séu vegna ofbeldis gagnvart drengnum. Rætt hafi verið við foreldra um að hætta þeirri hegðun gagnvart barninu og þau lofað bót og betrun. Ákveðið hafi verið að finna stuðningsfjölskyldu og liðveislu fyrir drenginn þar sem fjölskyldan hafi verið orðin mjög þreytt. Þá segir að drengurinn sé löðrungaður heima fyrir. Undir liðnum „Sjónarmið foreldra“ segir að foreldrum finnist óþarfa afskipti vera af drengnum og þeim finnist þessar uppeldisvenjur vera eðlilegar í [...].
Á árinu 2010 hafi G fengið nýjan liðveitanda og verið mjög glaður. Var hann um sumarið í sumargæslu og fór í grunnskóla um haustið. Urðu starfsmenn að sækja hann heim og skila þar sem foreldrarnir vildu ekki keyra hann sjálf. Í ágúst það ár hafi foreldrarnir komið í sitt hvoru lagi á skrifstofu félagsþjónustunnar og óskað eftir því að félagsþjónustan útvegaði þeim íbúð og vinnu í [...]. Hafi þeim verið bent á með aðstoð túlks hver réttindi og skyldur þeirra væru gagnvart því að bjarga sér og sjá um sig sjálf. B hafi komið og krafist þess sama og þegar honum hafi verið bent á skyldur hans um að sjá sér farborða með vinnu kvað hann að eitthvað skelfilegt myndi koma fyrir, svo sem að G myndi ganga í sjóinn. Í lok ágúst hafi liðveitandinn svo aftur gefist upp vegna afskipta föður. Þá hafi móðirin ekki komist á atvinnuleysisbætur þar sem hún vildi ekki vinna. Föðurnum hafi verið sagt upp starfi vegna erfiðleika í samskiptum.
Á árinu 2011 hafi samskipti við fjölskylduna snúist um atvinnuleysi móður og samskipti við Vinnumálastofnun. G hafi gengið vel í skólanum. Í maí hafi borist tilkynning um að faðir hafi löðrungað drenginn úti í búð. Þá hafi börn heyrt föður hóta drengnum að berja hann með spýtu. Drengurinn hafi einnig kvartað í skólanum yfir ofbeldi föður. Var fjölskyldan boðuð í viðtal 7. júní sem gekk illa. Þá var fundur með fjölskyldunni í september þar sem samþykkt var að leita að stuðningsfjölskyldu fyrir G og liðveitanda fyrir hann. Þá hafi faðirinn samþykkt að fara með I, yngri drenginn, til tannlæknis og í leikskóla sem búið var að sækja um fyrir hann. Í október hafi svo borist ný tilkynning frá skólanum þar sem G hafi verið illa marinn á upphandlegg og sagt að faðir hans hafi lamið sig með spýtu.
Í október 2011 flutti fjölskyldan til C. Þann 13. desember 2011 barst barnaverndarnefnd C tilkynning frá Grunnskóla C um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit og nám G, en þá hafði hann mætt í 21 dag af 40 skóladögum frá því að hann hóf nám í skólanum. Í kjölfarið gerði barnaverndarnefnd C fyrstu áætlun um meðferð máls sem gilti frá 7.-28. febrúar 2012. Í áætluninni segir að ástæða afskipta sé léleg mæting í skóla og sýnilegir áverkar vegna mögulegs ofbeldis heima fyrir. Útvegaði barnaverndarnefnd stuðningsfjölskyldu fyrir G eina helgi í mánuði, fékk vistun í heilsdagsskóla fyrir hann og hlutaðist til um að hann fengi úrræði eftir skóla, auk þess að veita foreldrum, stuðningsfjölskyldu og skóla ráðgjöf. Voru sambærilegar áætlanir undirritaðar fyrir allt árið 2012.
Haustið 2012 fór G í frekara þroskamat og greiningu hjá GRR. Sýndu niðurstöður þroskamælinga vitsmunaþroska á stigi vægrar þroskahömlunar. Þá var drengurinn með hamlandi einkenni einhverfu. Áætlanir barnaverndarnefndar C um meðferð máls frá janúar til júlí 2013 liggja fyrir. Lengdist dvöl hjá stuðningsfjölskyldu í eina helgi í mánuði og þrjá virka daga auk þess sem barnaverndarnefnd tók að sér að koma skipulagi á þjónustu liðveitanda. Í áætlunum frá 1. mars 2013 er ástæða afskipta sögð sú að G sýni hegðunarerfiðleika heima og að foreldrar ráði illa við hann og sé hann bæði ofbeldisfullur og stjórnsamur. Tekur barnaverndarnefnd að sér auk fyrri úrræða að útvega skammtímavistun fyrir G. Þá er í tveimur áætlunum gert ráð fyrir að ráðinn verði tilsjónaraðili sem komi og aðstoði á heimilinu á kvöldin. Í ágúst 2013 var það mat barnaverndarnefndar að aðstæður G væru viðunandi og var málinu því lokið af hálfu barnaverndaryfirvalda enda talið að stuðningur myndi engu breyta um samskipti og uppeldisaðferðir foreldranna heima fyrir. Var mælt með stofnun þjónustuteymis til að samræma þjónustu á grundvelli grunnskólalaga og laga um málefni fatlaðra. Var þjónustuteymi stofnað í kjölfarið en í þjónustuteymi voru foreldrar og fulltrúar þjónustuaðila, s.s. sérfræðiþjónustu skóla, grunnskóla, félagsþjónustu og annarra stofnana. Var fundað á 4-6 vikna fresti um námslega þætti og ýmislegt varðandi þjónustu við G og stuðning við foreldra. Kemur ítrekað fram í minnisblöðunum að það gangi vel í skóla og hjá stuðningsaðilum, en að illa gangi heima fyrir. Reynt var að setja upp umbunarkerfi heima og í skóla, en það virðist hafa gengið illa. Í minnisblaði frá því í mars 2014 kemur fram að ákveðið hafi verið í samráði við móður að setja í gang upptöku heima ákveðinn dag í ákveðinn tíma til að skoða samskiptin heima og finna hvað hægt væri að gera til hjálpar. Endanlegt samþykki hafi ekki fengist fyrir ráðstöfuninni og varð því ekkert úr henni.
Á fundi þjónustuteymis þann 23. janúar 2015 lýstu foreldrar G sig vanfæra um að hafa drenginn á heimilinu vegna erfiðrar hegðunar og óskuðu eftir því að hann yrði vistaður utan heimilis og þau fengju umgengni við hann. Kemur fram í greinargerð barnaverndarnefndar C að þrátt fyrir aukna skammtímavistun ráði foreldrar ekki við hegðun G heima fyrir, hann sitji við tölvu tímunum saman, neiti að taka þátt í matmálstímum, neiti háttatíma og sýni stjórnlausa hegðun. Foreldrar sjái ekki aðra lausn en að hann búi á öðru heimili þar sem hann læri að fara eftir reglum og að hegða sér betur. Óskuðu þau eftir að hann byggi utan heimilis í þrjá mánuði eða lengur ef hegðun hann breyttist ekki. Í greinargerðinni kemur fram að umsjónarkennari og þroskaþjálfi drengsins segi að hann fari eftir reglum í skólanum og frístundaklúbbi og sé samvinnuþýður og blíður og þær sjái ekki mótþróann og erfiðleikana sem foreldrar lýsa. Þær segja þó jafnframt að drengurinn lýsi sjálfur erfiðum samskiptum heima sem felist í öskrum, líkamlegu og andlegu ofbeldi og neikvæðum samskiptum. Einnig segir stuðningsforeldri að hann hegði sér vel hjá henni og sinni því sem hann á að sinna. Einnig kemur fram að móðir drengsins hafi hringt í stuðningsforeldri kl. 23 að kvöldi og beðið hana að koma til að róa drenginn, sem hún gerði. Sé það mat stuðningsforeldris að samskipti G við fjölskyldu sína séu óviðunandi þar sem þau séu neikvæð og að ekki sé unnt að breyta þeim eins og staðan sé heima.
Áætlun um meðferð máls var gerð fyrir tímabilið 24. mars til 30. ágúst 2015. Var markmið áætlunarinnar að veita barninu viðunandi fjölskyldulíf og uppeldisskilyrði og efla jákvæð samskipti við foreldra og bróður í umgengni. Áætlun með sama markmiði var undirrituð varðandi tímabilið frá 31. ágúst til 30. september 2015. Þann 22. mars 2015 var gerður samningur við stuðningsforeldri G um að hann dveldi hjá fjölskyldunni í apríl, maí og ágúst 2015. Af dagálum megi sjá að samskipti hjá stuðningsfjölskyldunni hafi gengið vel, en að samskipti við stefnendur hafi verið miserfið, en alltaf einhverjar uppákomur í hverri heimsókn. Segir að móðir upplifi sem drengurinn sé ánægður í vistuninni en einnig heima. Móðir G segir ástandið á heimilinu betra eftir að hann fór og henni líði betur. Faðir G sé veikari og þurfi rólegheit, en enga hvíld sé að fá þegar G sé á heimilinu. Móðirin segist ekki kvíða heimsóknum G en væntir alltaf einhvers neikvæðs í hverri heimsókn. Á tímabilinu hafi ekki tekist að fá foreldra til að skipuleggja jákvæða samveru með drengnum og hafi foreldrar ekki verið tilbúnir að taka hann aftur í lok dvalar hjá stuðningsforeldri. Er ástæðan sögð sú að hegðun hans sé erfið heima og þau heilsulaus bæði tvö. Undirrituðu foreldrar hans yfirlýsingu um vistun í fóstri þann 1. júlí 2015. Því hafi verið sótt um fósturheimili fyrir G til 18 ára aldurs af barnaverndarnefnd C þann 3. júlí. Segir í umsókninni að ekki sé sótt um tímabundið fóstur þar sem nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir langvarandi fóstri vegna heilsuleysis foreldra og viðhorfi þeirra til uppeldis G. Skilningur á vanda hans sé ekki fyrir hendi og væri stöðugleiki í fóstri til heilla. Kemur fram að mikilvægt sé að heimilislíf fósturfjölskyldu einkennist af hlýleika, væntumþykju og alúð þar sem G hafi skort slíkt. G hafi dvalið áfram hjá stuðningsfjölskyldu sinni í september á meðan leitað var að fósturfjölskyldu, en þann 22. september 2015 hafi verið gerður samningur við fósturfjölskyldu með búsetu í Reykjavík. G hafi þó haldið áfram að sækja nám í Grunnskóla V.
Þann 20. október 2015 undirrituðu stefnendur yfirlýsingu þar sem þau afsöluðu sér forsjá G. Sama dag var gerður samningur um umgengni þeirra við G til 15. desember 2015. Samningurinn fól í sér að lágmarki vikulega umgengni á tímabilinu, alls í 10 skipti. Gekk umgengni eftir í fjórum tilvikum af tíu og í einu tilviki var umsjónarkennari drengsins kallaður til af foreldri í miðri umgengni og færði hún drenginn úr umgengni yfir í lengda viðveru í grunnskólanum. Ætlunin var að G yrði búsettur hjá fósturfjölskyldunni til 18 ára aldurs. Þegar á reyndi var fjölgun í fjölskyldunni of mikið fyrir heildina á heimilinu og upplifðu fósturforeldrar mikla þjónustuþörf hjá G vegna einhverfu og þroskaröskunar og þurfti hann meira eftirlit en þau töldu sig geta veitt. Gáfu þau því ekki kost á áframhaldandi vistun hjá sér nema þar til ný fjölskylda væri fundin. Ný fósturfjölskylda fannst í desember og flutti G til þeirra um síðustu áramót. Er hann nú búsettur hjá þeim í [...], en er ekið til og frá skóla í C.
Þann 25. febrúar 2016 gekk úrskurður hjá félagsmálanefnd um umgengni aðila við drenginn. Skyldi hún vera tvisvar í mánuði, frá lokum skóladags á þriðjudögum til klukkan 16.00. Auk þess áttu foreldrar kost á að ræða við barnið vikulega í síma og tvo daga á ári skyldu aðilar eiga rétt á umgengni í tengslum við trúarhátíðir eða viðburði tengda fjölskyldunni. Var þessi niðurstaða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 16. mars sl. Niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir. Í dag er umgengni fjórar klukkustundir einu sinni í mánuði.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur byggja kröfugerð sína á 34. gr. barnalaga nr. 80/2002. Byggja þau kröfu sína á því að forsjá barnsins sé best komið fyrir hjá þeim en ekki hjá stefnda eða fósturforeldrum barnsins. Stefnendur séu líffræðilegir foreldrar barnsins, sem barnið hafi alist upp hjá frá fæðingu. Barnið vilji sjálft koma aftur til dvalar inni á heimili stefnenda og líta verði til vilja barnsins, enda orðið svo gamalt að verulegt tillit skuli taka til afstöðu þess. Þá séu þau með bestu tilfinningalegu tengslin við G og því ákjósanlegt að barnið komi inn á heimili þeirra.
Þá hafi breytni stefnda og starfsmanna sveitarfélagsins einnig valdið því að stefnendur telja forsjá betur varið hjá þeim en starfsmönnum stefnda. Verulega vanhugsað hafi verið að koma barninu fyrir á fósturheimili í Reykjavík, þegar ávallt hafi staðið til að hann héldi áfram í Grunnskóla C. Hafi þetta valdið því að barnið hafi eytt stórum hluta dagsins í ferðir. Það hafi komið í veg fyrir tengslamyndun hans við börn í nærumhverfi hans, enda hafi hann eytt stærstum hluta dagsins í C eða við ferðir á milli skóla og fósturheimilis. Þá telja stefnendur að barnið hafi verið beitt harðræði á umræddu heimili og honum hafi liðið verulega illa þar. Stefnendur telja að enn sé ekki komin reynsla á nýja fósturforeldra í [...], og óvíst sé hvernig barninu vegni í þeim aðstæðum. Vilja stefnendur þó benda á að umrætt fósturheimili sé ekki í C, heldur í nágrannasveitarfélagi og þurfi barnið því enn að ferðast langar vegalengdir á degi hverjum til þess að komast í skóla í C. Telja stefnendur ótækt að farið sé svona með barnið, betra sé að það komi aftur til dvalar á heimili þeirra og þau fái þá hugsanlega stuðning af einhverju tagi til samræmis við það hvernig ástandið hafi verið fyrir vistun utan heimilis.
Stefnendur benda á að þau eigi annað barn, I, bróður G. Ekkert barnaverndarmál sé opið gagnvart því barni. Megi því rökstyðja á þeim grundvelli að afstaða stefnda sé að stefnendur sem slíkir séu hæfir til að hafa forsjá barns. Telja stefnendur að G eigi ekki að missa af því að hafa forsjá foreldra sinna vegna þeirra erfiðleika sem hann glími við, einhverfu, þroskahömlun og ofvirkni/athyglisbrest. Telja stefnendur að ef þau fái ekki forsjá barnsins vegna þess að hann sé haldinn fötlun brjóti það í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hefur verið af Alþingi með lögum nr. 19/2013, sérstaklega 23. gr. sáttmálans. Þá telja stefnendur það jafnframt geta brotið í bága við lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, þ.m.t. 8. gr. og IX. kafla laganna.
Stefnendur telja að skilyrði 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt til að samþykkja kröfu þeirra. Aðstæður barnsins séu ekki nægilega góðar í dag, það raski ekki stöðugleika í uppeldi barnsins að koma til stefnenda og taki mið af hag og þörfum barnsins. Telja stefnendur að sá tími sem G hafi verið utan heimilis þeirra hafi verið góður fyrir báða aðila, bæði hafi stefnendur unnið í sínum málum og þá hafi G fengið að upplifa hvernig heimilishald sé á öðrum heimilum. Telja stefnendur að hann sé nú tilbúinn til þess að koma aftur heim til sín og þau tilbúin til þess að sinna forsjá hans. Við þetta mat verði að benda á að stefnendur og þar með G séu af erlendu bergi brotin og komi upprunalega frá [...]. Mikilvægt sé að stefnendur haldi forsjá, meðal annars til þess að kynna G fyrir siðum heimalands síns og til þess að hann haldi tengslum við uppruna sinn, m.a. með því að koma með þeim þegar þau fara í frí til fjölskyldu í heimalandi sínu. Slíkt geti fósturforeldrar ekki boðið barninu upp á. Þá telja stefnendur gögn málsins bera það með sér að G vilji búa á heimili sínu og sjáist það af því hversu erfitt hann eigi með það þegar umgengni við foreldra falli niður.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu mótmæla öllum málsástæðum stefnenda um að forsjá drengsins sé best komið fyrir hjá þeim, m.a. af því að þau séu líffræðilegir foreldrar hans. Stefndu mótmæla röksemdum stefnenda og benda á að ákvæði 2. og 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fjalli á mjög skýran hátt um skilyrði fyrir endurskoðun ákvarðana um afsal foreldra á forsjá til barnaverndarnefndar skv. 25. gr. laganna. Í 2. mgr. 34. gr. segi að ef foreldrar hafi veitt samþykki sitt fyrir því að forsjá barns verði falin barnaverndarnefnd geti þau gert kröfu fyrir dómi um að samningi verði hnekkt og að foreldri verði falin forsjá eða umsjá barns að nýju. Í 3. mgr. greinarinnar segir svo að krafa skv. 2. mgr. verði því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna, raski ekki stöðugleika í uppeldi barns og taki mið af hag og þörfum þess. Telja stefndu ljóst að umrædd skilyrði séu ekki uppfyllt í máli þessu, en ótvírætt sé að skilyrðin þurfa öll að vera uppfyllt til að unnt sé að taka til greina kröfu foreldra um að þeim verði falin forsjá að nýju.
Stefndu mótmæla því að um breyttar aðstæður sé að ræða. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nokkrar breytingar hafi orðið á aðstæðum síðan þau óskuðu eftir því að G yrði vistaður utan heimilis þann 23. janúar 2015, en þá hafi þau lýst sig vanfæra um að hafa G á heimilinu vegna erfiðrar hegðunar og heilsufars þeirra, þrátt fyrir mikinn stuðning. Sú afstaða þeirra hafi ekki breyst á þeim tíma sem barnið bjó hjá stuðningsfjölskyldu og hafði ekki breyst þegar þau undirrituðu yfirlýsingu um vistun í fóstri þann 1. júlí 2015. Þá hafði afstaða þeirra heldur ekki breyst þann 20. október 2015 þegar stefnendur óskuðu eftir því að barnaverndarnefnd stefnda tæki við forsjá barnsins, en á þeim tíma hafði barnið búið annars staðar en hjá foreldrum sínum í sjö mánuði og hjá fyrri fósturfjölskyldu sinni í um mánuð. Ekkert í þeim gögnum sem stefnendur hafi lagt fram bendi til þess að aðstæður þeirra til að hugsa um G hafi batnað á þeim tæpu sex mánuðum sem liðnir séu frá því að þau afsöluðu sér forsjá drengsins. Fram að aðalmeðferð málsins hafi þau ekki lagt fram nein gögn sem sýni heilsufar þeirra áður en drengurinn fór í fóstur og svo aftur í dag. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hegðun hans gagnvart stefnendum hafi breyst eða að heilsufar stefnenda hafi lagast. Þvert á móti megi sjá í greinargerð með úrskurði um umgengni frá 25. febrúar 2016, að stefnendur neiti því að breytingar hafi orðið á heilsufari þeirra eða aðstæðum. Því sé skilyrði um að aðstæður hafi breyst ekki uppfyllt.
Þá sé skilyrði um að breyting raski ekki stöðugleika barnsins í uppeldi þess ekki uppfyllt. Í málinu liggi fyrir að G hafi nú komið sér vel fyrir hjá fósturfjölskyldu sinni og líki dvölin þar vel. Líf hans sé í föstum skorðum, en slíkt sé sérstaklega mikilvægt í ljósi fötlunar hans. Þá hafi drengurinn gengið í gegnum eitt fósturrof, sem alltaf sé viðbúið í reynslufóstri, ekki síst þegar um fatlað fósturbarn er að ræða. Breytt forsjá á þessum tímapunkti myndi skapa óróleika og óvissu hjá drengnum og væri til þess fallin að raska þeim stöðugleika sem reynt hefur verið að búa honum.
Þá byggja stefndu á því að við úrlausn málsins sé einnig nauðsynlegt að horfa til markmiða ákvæða 2. málsl. 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga, en þar sé sett fram sú regla að hafi foreldri verið svipt forsjá sé einungis hægt að gera kröfu um breytingu forsjár að liðnir séu hið skemmsta 12 mánuðir frá því að dómstóll leysti síðast úr máli með endanlegum dómi. Af lögskýringargögnum megi ráða að rökin að baki reglunni séu að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir endurtekin og samfelld málaferli sem séu til þess fallin að skapa óróleika og óvissu um framtíð barns og raska þeim stöðugleika í lífi þess sem ávallt beri að leitast við að varðveita. Þó að stefnendur hafi ekki verið svipt forsjá sonar síns verði að telja að sömu sjónarmið eigi við að því leyti að nauðsynlegt sé að tryggja drengnum eins mikinn stöðugleika og mögulegt er. Samkvæmt framangreindu gangi krafa stefnenda beinlínis gegn því skilyrði að breyting raski ekki stöðugleika í uppeldi barnsins.
Þá byggja stefnendur á 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga en samkvæmt henni verði að taka, við breytingu á forsjá, mið af hag og þörfum barnsins. Ekki hafi verið færð nein rök fyrir því að þarfir drengsins verði best uppfylltar hjá stefnendum eða að það sé barninu fyrir bestu að þau fari með forsjá hans. Liggi augljós rök til þess að varlega verði farið í breytingar, enda sé barni yfirleitt fyrir bestu að sem minnstar breytingar séu gerðar á högum þess, dvalarstað og félagslegu umhverfi. Þau rök sem stefnendur færi fram til stuðnings því að þau eigi að fara með forsjá G, um að þau séu líffræðilegir foreldrar hans, að þeim sé treyst til að ala upp annað barn og að mikilvægt sé að þau kynni honum siði heimalands síns til að hann haldi tengslum við uppruna sinn, séu allt rök sem hafi verið fyrir hendi þegar stefnendur óskuðu eftir því að drengurinn yrði fyrst vistaður utan heimilis og svo að forsjá hans yrði falin barnaverndarnefnd stefnda og verður ekki séð að þau hafi nokkurt gildi í máli þessu.
Þá benda stefndu á þær meginreglur sem fram koma í 4. gr. barnaverndarlaga. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem hefur lagagildi hér á landi á grundvelli 2. gr. laga nr. 19/2013. Í 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna. Þegar hagsmunir barna og foreldra vegast á á því að hafa hagsmuni barnanna í fyrirrúmi.
Þá sýni gögn málsins eindregið fram á að innsæi stefnenda í þarfir drengsins sé verulega ábótavant. Í því sambandi megi nefna að viðhorf þeirra til vanda fjölskyldunnar í gegnum tíðina hafi einkennst af því að laga þurfi barnið og að markmið stuðnings og vistunar af hálfu barnaverndaryfirvalda áður en afsal forsjár kom til væri að drengurinn lærði að haga sér á heimilinu. Þá er einnig vísað til ummæla stefnenda fyrir félagsmálanefnd stefnda hinn 25. febrúar 2016 um að þjónusta skammtímavistunar barna á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks ætti að víkja fyrir umgengni við stefnendur í fóstrinu. Sú afstaða sé ekki til merkis um að stefnendur setji hag barnsins í forgang.
Telja stefndu því ljóst, í ljósi hagsmuna drengsins G, að hafna verði kröfum stefnenda um að þeim verði falin forsjá drengsins.
Skýrslur fyrir dómi.
A gaf skýrslu fyrir dóminum. Kvað hún aðspurð G hafa orðið fyrir ofbeldi hjá fyrstu fósturforeldrunum. Aðspurð hvers vegna G hafi fyrst farið af heimilinu kvað hún að þá hafi verið mikið álag á fjölskyldunni. Maður hennar hafi verið í brjósklosaðgerð og hún sjálf verið veik. Drengurinn sé einhverfur og hún hafi því beðið um aðstoð inn á heimilið þar sem hann hafi verið erfiður heima. Allt í einu hafi hún verið búin að skrifa undir samning og drengurinn farið af heimilinu án hennar vilja. Hafi hún verið blekkt af barnaverndaryfirvöldum og sagt að það væri lítið mál að fá drenginn aftur heim. Aðspurð um það hvað hafi breyst frá því að drengurinn fór í fóstur, kvað hún mikil veikindi hafa verið heima fyrir og hún eingöngu viljað hjálp. Nú líði henni betur og manni hennar en hún vilji fá barnið heim sem fyrst. Aðspurð um umgengni eftir að G fór í fóstur, kvað hún umgengni ganga vel. Þá svaraði hún því ekki fyrir dóminum hvort hún myndi nýta aðstoð félagsmálayfirvalda ef drengurinn kæmi heim aftur en þau séu nú flutt í [...]. Drengurinn hafi breyst mikið, hann hafi horast mikið og sé hræddur. Aðspurð um niðurstöður sálfræðimatsgerðarinnar kvað A fram koma að hún hafi ekki verið tilbúin áður fyrr að sinna þörfum drengsins en það sé ekki rétt. Þá sé rangt sem fram komi í gögnum málsins að drengurinn hafi verið beittur ofbeldi. Þá kvað hún G hafa tjáð sér að hann vilji koma heim til stefnenda. Þá gangi samskipti bræðranna mun betur en áður fyrr. Aðspurð kvað A áður hafa verið erfitt að eiga við G en það hafi breyst, hann sé mun betri eftir að hann fór í fóstur. Kvað A umgengni vera núna einu sinni í mánuði, fjórar klukkustundir í einu. Þau nýti tímann vel og eigi góðar stundir.
Vitnið J, starfsmaður hjá skóla- og félagsþjónustunni í C, kom fyrir dóminn. Vitnið lýsti því svo að afskipti af fjölskyldunni hafi byrjað fyrir um fimm árum eða þegar þau fluttu frá [...]. Síðan hafi verið stuðningur við að koma drengnum í skóla, stuðningur varðandi fötlun hans, stuðningur við foreldra varðandi læknisþjónustu, stuðningur við að fara með drenginn til læknis og margt annað, s.s. liðveisla við drenginn. Barnaverndarmálinu hafi verið lokað þar sem öll stuðningsúrræði höfðu verið reynd og ekki hafi verið talin ástæða til að taka barnið af heimlinu með þvingunarúrræðum. Áfram hafi verið veittur stuðningur á vegum félagsþjónustu fatlaðra. Á þeim tíma hafi verið reglulegir teymisfundir, sem vitnið sat, og þjónustan við fjölskylduna skipulögð. Á slíkum fundi í september 2015 hafi foreldrarnir óskað eftir því að drengurinn yrði tekinn af heimilinu. Þau gætu ekki haft hann, hann væri erfiður á heimilinu og þau væru þreytt. Þeim hafi þá verið gerð full grein fyrir afleiðingum þess og að málið færi þá aftur fyrir barnaverndarnefnd. Stuðningsfjölskylda hafi verið með hann eina helgi í mánuði fyrir þennan tíma svo það hafi verið leitað til þeirra aftur en það hafi ekki gengið eftir, þau hafi ekki treyst sér til að taka drenginn í varanlegt fóstur. Þau hafi ekki haft aðra stuðningsfjölskyldu í C en faðir drengsins hafi sjálfur haft á orði að það væri jafnvel betra að drengurinn væri vistaður fjarri heimlinu. Sérstakur fundur hafi verið haldinn þegar foreldrar skrifuðu undir fóstursamning og ítrekað hafi verið farið yfir það með þeim ásamt túlki hvaða áhrif slíkur samningur myndi þýða fyrir þau. Vitnið kvað að þessi fundur væri sérstaklega minnisstæður þar sem foreldrar höfðu stuttu áður spurt um það á fundi í skólanum hvort það væri algjörlega á hreinu að þau bæru enga ábyrgð á hegðun eða gjörðum drengsins. Kvað vitnið ganga mjög vel með drenginn hjá fósturforeldrum, orðaforði hans sé að aukast og félagsleg færni hans að aukast. Hann dafni vel og reynsluheimur hans stækki. Hann fari í sund, bíó, umgangist dýr, fari að veiða og hann sé móttækilegri fyrir meiri kröfum. Slíkt hafi hann ekki upplifað með foreldrum sínum. Umgengni virðist vera íþyngjandi fyrir drenginn og því hafi umgengni verið breytt úr tveimur klukkustundum aðra hverja viku í fjórar klukkustundir einu sinni í mánuði. Undanfarið hafi þó umgengni gengið betur. Drengurinn tali um að hann vilji fara til foreldra sinna og hitta þá og virðist vera dapur eftir umgengni. Hann virðist fá misvísandi upplýsingar frá foreldrum sínum sem virðast ekki vera góðar fyrir hann. Sem dæmi að hlutirnir muni snarbreytast, eitthvað muni batna, hann fái nýtt herbergi eða hann sé að flytja eitthvað. Meðal annars af þessum ástæðum var talið rétt að lengra liði á milli þess sem umgengni færi fram til að hafa meiri stöðugleika. Þá hefði hann einnig lengri tíma í einu með fjölskyldu sinni. Foreldrarnir hafi þó ekki verið að nýta þennan tíma til fullnustu, þau hafi stundum sótt hann seint eða skilað honum fyrr en gert hafi verið ráð fyrir. Stundum hafi móðir hans lagt sig í umgengni og sagst vera þreytt. Þau noti einnig tímann til að fara í matvörubúð og kaupi inn í matinn eða bakstur sem hefði átt að vera búið að gera áður en umgengni hæfist og tíminn notaður í eitthvað uppbyggilegra. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að þær breytingar hafi orðið hjá stefnendum sem réttlættu breytingu á högum drengsins. Vitnið kvað A yfirleitt hafa verið til samvinnu á fundum en svo hafi hún ekki náð að fylgja fyrirmælum eftir. Aðspurt um fósturrof og hvort það hafi komið til skoðunar að drengurinn færi þá aftur til foreldra sinna, kvað vitnið svo ekki hafa verið því að það hafi verið ljóst að þau hafi ekki getað tekið hann heim þá. Aðspurt hvort barnaverndarnefnd hafi afskipti af fjölskyldunni og yngri drengnum kvaðst vitnið vita að svo væri en þekkti það ekki frekar.
Vitnið F sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti sálfræðilega matsgerð sem liggur fyrir í málinu. Aðspurt um aðstæður og hæfni foreldranna kvað vitnið marga aðila, sem hafi komið að málefni drengsins, hafa lýst honum sem glöðum, jákvæðum og að honum gangi vel í skólanum. Foreldrarnir hafi hins vegar lýst honum sem erfiðum fram að því að hann fór að koma í umgengni undanfarið. Vitninu hafi virst að verið væri að lýsa tveimur börnum. Fyrir hafi legið, allt frá því að drengurinn var fimm ára, nákvæm greining á þroska drengsins frá Greiningarstöð ríkisins, hann væri einhverfur, með athyglisbrest og ofvirkni og þroskafrávik. Foreldrarnir hafi hins vegar ekki áttað sig á aðstæðum og um mikla vanrækslu hafi verið að ræða. Fjórtán barnatennur hafi t.d. verið dregnar úr honum af tuttugu barnatönnum sem drengurinn hafði um þriggja ára aldur. Það sé svo margt sem foreldrarnir hafi ekki áttað sig á né skilið hvað varðar þroska drengsins og ekki staðið nógu vel að uppeldi hans. Í dag telja foreldrarnir drenginn meðfærilegri, þægilegri og prúðari af því að hann hafi þroskast en þau virðist ekki skilja að það sé það þroskavænlega umhverfi sem hann alist upp við í dag sem sé ástæða þess. Móðirin hafi lýst fyrir vitninu dæmi um uppeldisaðferðir hvað varðar drenginn, þar sem drengurinn væri mjög sérstakur. Ef hún neitaði honum um eitthvað sem hann vildi, þá héldi hann áfram að gera sínar kröfur og samkvæmt móðurinni þá fengið hann „auðvitað“ að lokum það sem hann vildi. Með þessu er verið að kenna barninu að með því að láta nógu illa og jafnvel beita foreldra sína ofbeldi nái það sínu fram. Þetta sé hins vegar kolröng aðferð við að setja börnum mörk og kenna þeim að fara eftir reglum. Foreldrum hafi verið veitt aðstoð heima fyrir við að setja drengnum reglur og kenna þeim uppeldisaðferðir sem hann þurfi á að halda í allt að ár en það hafi verið án árangurs, þau hafi ekki getað tileinkað sér slíkar aðferðir. Vitnið taldi að það myndi allt fara í sama farið ef drengurinn færi aftur heim til foreldra sinna því að þeir telji að aukinn þroski drengsins sé tilkominn vegna aukins aldurs hans en ekki samspil uppeldis og uppeldisskilyrða. Myndi það kippa fótunum undan þroskavænlegum uppeldisskilyrðum. Vitnið kvað aðstæður hjá fósturforeldrum vera mjög góðar, drengurinn stundaði íþróttir með aðstoð fósturforeldra, færi að veiða, færi í sund, væri innan um skepnur, færi í bíó og væri sinnt að öllu leyti í samræmi við þroska hans en slíku hafi ekki verið sinnt af foreldrum hans. Þá sæki fósturforeldrarnir sér aðstoð og upplýsingar um þarfir drengsins til sérfræðinga sem foreldrar hans hefðu ekki gert.
Aðspurt um afstöðu barnsins til að fara aftur heim til foreldra sinna kvað vitnið að við könnun á afstöðu hans við gerð matsgerðarinnar hafi hann sagst vilja fara til foreldra sinna en hins vegar hafi drengurinn engar forsendur til að meta slíkt sjálfur. Vitnið kvað G vera greindan með einhverfu, verulega þroskahömlun og ADHD og uppeldi slíkra barna geri miklu meiri kröfur til foreldra og uppalenda en uppeldi barna yfirleitt. Aðspurt hvort foreldrarnir gætu með aukinni aðstoð inn á heimilið og með hliðsjón af þörfum drengsins sinnt uppeldishlutverki sínu kvaðst vitnið ekki telja svo vera. Slík aðstoð væri í formi kennslu og leiðbeininga, það væri búið að reyna það og árangurinn hafi ekki verið neinn. Staðfesti vitnið að það teldi forsjárhæfni foreldranna vera alvarlega ábótavant.
Forsendur og niðurstöður.
Stefnendur krefjast þess að samningur frá 20. október 2015 sem þau undirrituðu um forsjá drengsins G verði feldur úr gildi og þeim fengin forsjá drengsins á ný. Byggja stefnendur í fyrsta lagi á 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 23. gr. laga nr. 19/2013 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, 8. gr. og IX. kafla laganna.
Í 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að hafi foreldri eða barn sem náð hefur 15 ára aldri veitt samþykki sitt fyrir úrræði skv. 25. gr., sem ætlað sé að standa þar til barn verður lögráða, eða hafi foreldri verið svipt forsjá skv. 29. gr., geti foreldri eða barn sem náð hefur 15 ára aldri gert kröfu á hendur barnaverndarnefnd, foreldri sem fer með forsjá skv. 67. gr. a eða 67. gr. b og fósturforeldrum, ef það á við, fyrir dómi um að samningi verði hnekkt eða dómi um sviptingu breytt og að foreldri verði falin forsjá eða umsjá barns að nýju. Grundvallast dómkrafa stefnenda á þessu lagaákvæði. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að krafa skv. 2. mgr. verði því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna, raski ekki stöðugleika í uppeldi barns og taki mið af hag og þörfum þess. Í greinargerð með ákvæði þessu segir m.a. að krafa verði því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Þá segir að ákvæðið sé orðað með hliðstæðum hætti og ákvæði 35. gr. banalaga nr. 20/1992. Í 1. mgr. 35. gr. barnalaga segir m.a. að krafa samkvæmt þeirri málsgrein verði því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Í greinargerð með ákvæðinu segir að breyting verði ekki ákveðin, nema vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags barns. Liggi auðsæ rök til þess að varlega verði að fara í breytingar með því að barni er jafnaðarlega fyrir bestu að sem minnstar breytingar séu gerðar á högum þess, dvalarstað og félagslegu umhverfi.
Eins og rakið er í kaflanum um málavexti hefur stefnendum verið veitt aðstoð með drenginn allt frá því að þau fluttu fyrst á [...] árið 2005. Fékk drengurinn greiningu frá Greiningarstöð ríkisins um fimm ára aldur. Þá strax voru erfiðleikar við að fá foreldrana til samvinnu en þau kváðust ekki fara með drenginn til Reykjavíkur heldur yrði starfsfólk frá Greiningarstöðinni að koma [...]. Þá liggur fyrir að draga þurfti fjórtán tennur af tuttugu tönnum úr drengnum um þriggja ára aldur vegna skemmda. Á leikskólaaldri komu kvartanir og ábendingar um ofbeldi heima fyrir gegn drengnum og bar hann merki þess. Barnaverndarmáli vegna drengsins var lokað í ágúst 2014 þar sem fullreynt var að öll aðstoð við uppeldi og þroska drengsins inn á heimilið bæri árangur. Voru öll úrræði því fullreynd. Þrátt fyrir það taldi barnaverndarnefnd ekki ástæðu til að svipta foreldrana forsjá eða vista drenginn utan heimilis vegna aðstæðna drengsins. Í skýrslu F, dómkvadds matsmanns, kemur fram að drengurinn hafi verið hjá stuðningsfjölskyldu og mikið í skammtímavistun áður en foreldrar óskuðu eftir því að koma honum í varanlegt fóstur vegna þess að þau treystu sér ekki til að hafa hann á heimilinu lengur vegna erfiðrar hegðunar hans. Í gögnum málsins kemur fram að móðir drengsins hafi lýst honum sem mjög erfiðum, þegar hann var í skóla í C, hann færi ekki eftir fyrirmælum, eyðilegði hluti og beitti ofbeldi. Í skóla, hjá stuðningsfjölskyldu, liðveitanda og í skammtímavistun var honum hins vegar lýst sem glöðum og hlýðnum dreng. Þá liggur fyrir að drengnum hafi ekki gengið vel í skóla, hann hafi komið illa undirbúinn og verið vansvefta þegar hann var hjá foreldrum sínum en allt hafi verið á betri veg þegar hann var hjá stuðningsfjölskyldum. Þar hafi hann hlýtt og farið að reglum. Hins vegar séu ævinlega einhverjar neikvæðar uppákomur í heimsóknum til foreldra hans.
Í niðurstöðum sálfræðimatsins segir m.a. að mikið ósamræmi sé í lýsingum á G. Skóli, stuðningsfjölskylda, liðveitandi og skammtímavistun segi að hann sé glaður og hlýðinn. Foreldrar hans segi að hann fari ekki eftir fyrirmælum, eyðileggi hluti og beiti ofbeldi. Þá hafi viðurkenndar og þekktar uppeldisaðferðir sem miðlað hafi verið til foreldranna ekki skilað árangri og telur matsmaður að þar liggi vandinn í hegðun drengsins heima fyrir. Þau kunni ekki að ræða við drenginn heldur beiti hótunum og ofbeldi þegar þau ráði ekki við aðstæður auk þess að tala niður til hans og gera lítið úr honum. G hafi gengið í gengum miklar breytingar á því rúma ári sem liðið sé síðan hann fór af heimili foreldra sinna og sjá viðmælendur matsmanns miklar framfarir hjá honum á þeim tíma. Foreldrar drengsins orði það þannig að hann hafi þroskast mikið. Kennari hans segist sjá miklar jákvæðar breytingar á líðan hans og núverandi fósturforeldrar hafi nefnt ýmsar jákvæðar framfarir síðan hann kom til þeirra, svo sem minni lyfjanotkun og góð skref í félagslegri aðlögun. Þetta gefi til kynna að markvissar og góðar aðferðir kalli fram árangur í hegðun hans og líðan. Um móðurina segir að hún sé innan meðalmarka utan líkamlegra umkvartana. Niðurstöður Raven-prófsins sýni meðalgreind. Hún hafi litla skólagöngu, sé illa læs og skrifandi, hafi lítinn orðaforða á móðurmáli sínu og hafi aldrei unnið utan heimilis en sé á örorkubótum. Hún hafi búið á Íslandi í ellefu ár, lítið lært íslensku og lítið aðlagast íslensku samfélagi. Um föðurinn segir að hann sé innan meðalmarka nema hvað varði líkamlegar umkvartanir og vísbendingar séu um athyglisbrest. Hann hafi engum tökum náð á Raven-prófinu og bendi það til mjög slakrar greindar. Hann hafi litla skólagöngu, sé illa læs og skrifandi og hafi lítinn orðaforða á móðurmáli sínu. Hann hafi aðeins unnið við búskap fjölskyldunnar áður en hann kom til Íslands og hafi verið við vinnu fyrstu árin á Íslandi en síðan verið á örorkubótum. Hann kunni fá orð í íslensku og hafi lítið aðlagast íslensku samfélagi og forsendur hans til þess virðast vera slakar af greindarfarslegum ástæðum. Þá er því lýst í niðurstöðum að faðir drengsins hafi beitt hann ofbeldi og greinilegt sé að foreldrar ráði ekki við að setja drengnum mörk. Til átaka hafi komið milli þeirra. Þá tali foreldrar niður til drengsins og geri það í viðurvist kennara. Þá hafi umgengni gengið illa. Drengurinn hafi fengið að ráða því að fara vikulega til foreldra sinna en í ljós hafi komið að hann fór aðeins til þeirra í fjögur skipti af tíu skipulögðum heimsóknum haustið 2015. Í eitt af þeim skiptum hafi umsjónarkennari verið kallaður til aðstoðar um kvöld þar sem foreldrarnir réðu ekki við G. Þá virðist vera að foreldrar átti sig á að drengurinn er ekki eins og fólk er flest en þau virðist sjá það eins og ástand sem þau hafi engin áhrif á. Þau telji að honum muni batna með auknum þroska. Þá sé ekki að sjá nein merki um að þau átti sig á að þær jákvæðu framfarir í hegðun, sem þau kalli aukinn þroska hjá drengnum, séu vegna áhrifa frá umhverfi hans og því hvernig staðið hafi verið að uppeldi hans að undanförnu. Þau sjá því ekki mikilvægi þess hvernig foreldrar eða aðrir sem beri meginábyrgð á honum standi að uppeldinu. Foreldrarnir virðast lítið skilja þarfir drengsins. Tilraunir til að leiðbeina þeim með uppeldi hans hafi ekki borið árangur. Telur matsmaður engan vafa leika á því að uppeldisaðstæður drengsins hjá foreldrum séu óviðunandi vegna skorts þeirra á skilningi á þörfum hans og vanhæfni þeirra í að mæta þeim. Markvissri aðstoð inn á heimilið hafi verið hætt því að árangur hafi enginn verið. Þau séu ekki fær um að veita honum þá þjálfun og stuðning sem þyki forsenda í uppeldi barna með einhverfu. Í lokaorðum matsins segir að forsjárhæfni foreldranna sé alvarlega ábótavant og ekki sé við því að búast að á því verði breytingar vegna víðtæks skilningsleysis þeirra gagnvart þörfum drengsins og uppeldisaðferðum og aðstæðum sem hann þurfi á að halda. Fullvíst megi telja að ástandið fari aftur í sama farið ef hann fari heim til þeirra. Drengurinn búi við góðar aðstæður hjá núverandi fósturforeldrum. Þau sinni honum vel og séu vakandi fyrir þörfum hans og geri sér góða grein fyrir þroskastigi hans og getu. Aðspurð fyrir dóminum kvað F drenginn ekki hafa getu til að meta það sjálfur hvort honum sé betur borgið hjá foreldrum sínum eða í fóstri. Hann virðist meta það svo að vandræði og veikindi hjá fjölskyldu sinni sé hegðun hans að kenna. Fyrir dóminum kvað móðirin betri hegðun drengsins að þakka öllum þeim sem hafi komið að uppeldi hans, s.s. barnaverndarnefnd og fósturforeldrum.
Í 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga eru þrjú skilyrði sett fyrir því að breyting verði gerð á högum barns skv. 2. mgr. 34. gr. Í fyrsta lagi ef breyting þykir réttmæt vegna breyttra aðstæðna. Í öðru lagi að breytingin raski ekki stöðugleika í uppeldi barns og í þriðja lagi að taka þurfi mið af hag og þörfum barnsins.
Stefnendur byggja á því að það séu breyttar aðstæður. Stefnendur séu ekki lengur lasin og eins þreytt eins og þau hafi verið þegar þau óskuðu eftir því að barnaverndarnefnd yrði falin forsjá drengsins haustið 2015. Ekkert hefur komið fram um breyttar aðstæður hjá stefnendum nema þá að þau byggja á því að drengurinn sé orðinn hlýðinn og meðfærilegri í dag en hann hafi verið áður. Eins og að framan er rakið hefur orðið mikil breyting á G til hins betra frá því að hann fór í fóstur, bæði hvað varðar framkomu hans og hegðun svo og námslegar og félagslegar framfarir. Þykir dóminum sannað að þær breytingar liggi í þáttum sem eru stefnendum óviðkomandi og þykja þau ekki hafa sýnt með nokkrum hætti að aðstæður þeirra séu breyttar á þann hátt að réttmæt uppeldisskilyrði séu til staðar á heimili þeirra núna. Þá er það staðfest í mati sálfræðings að ekki megi gera ráð fyrir breytingu til hins betra fyrir drenginn af hálfu stefnenda. Er þetta skilyrði því ekki uppfyllt af hálfu stefnenda.
Stefnendur byggja á því að breytt forsjá raski ekki stöðugleika í uppeldi barnsins. Eins og rakið hefur verið er ljóst að sú breyting sem hefur orðið hjá drengnum er tilkomin vegna stöðugleika, reglna sem honum eru settar, og réttrar vinnslu með þroskahömlun hans og einhverfu. Eins og rakið hefur verið í gögnum málsins og sálfræðilegt mat staðfestir, hafa stefnendur ekki getu til að sinna þeim þáttum uppeldis sem G þarfnast vegna þroskahömlunar sinnar og annarra greininga. Verði breyting á þeim stöðugleika sem drengurinn býr við í dag, myndi hegðun hans og háttalag fara í sama farið og var fyrir fóstrið. Þá er ljóst að fari forsjá drengsins aftur til stefnenda mun drengurinn þurfa að skipta um skóla, umhverfi og vini, sem má ætla að verði honum verulega erfitt með tilliti til þroska hans. Þegar af þessum ástæðum er ljóst að breytingar á forsjánni myndu raska þeim stöðugleika sem drengurinn býr við í dag. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnenda.
Að lokum byggja stefnendur á því að breyting á forsjá myndi þjóna hag og þörfum drengsins. Eins og ítarlega hefur verið rakið að framan, eru núverandi aðstæður drengsins í samræmi við þarfir hans og hagi. Drengurinn hefur umgengnisrétt við foreldra sína og hann á rétt á að þekkja þá og umgangast. Það er einnig réttur foreldra hans. Réttur foreldra má þó aldrei ganga lengra en svo að hann raski ekki stöðugleika og rétti drengsins til að búa við mannsæmandi uppeldisskilyrði sem eru í samræmi við þarfir hans og getu. Er þetta einnig staðfest í 3. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns en þar segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðilar, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir geri ráðstafanir sem varði börn. Fram hjá þessu verður ekki gengið og telur dómurinn stefndu hafa sýnt fram á að öll röskun á högum drengsins muni raska þeim stöðugleika sem hann býr við í dag og hamla þroska hans. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnenda.
Eins og rakið hefur verið hafa stefnendur ekki sýnt fram á að skilyrði 3. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt og ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda.
Stefnendur hafa fengið gjafsóknarleyfi í máli þessu. Stefndu krefjast ekki málskostnaðar. Lögmaður stefnenda útskýrði fyrir dóminum að mikill tími hefði farið í málið, m.a. vegna túlkunar. Eftir niðurstöðum þessa máls ber að dæma stefnendur til að greiða allan kostnað við rekstur málsins, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns þeirra, Hrafns Flosa Sigurðssonar hdl., sem þykja hæfileg 1.100.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, Oddi Erlingsson sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.
DÓMSORÐ.
Stefndu, C, D og E, eru sýkn í máli þessu.
Allur gjafsóknarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns stefnenda, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 1.100.000 krónur, skal greiddur úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.