Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Matsgerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 16. og 17. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðilanum Landsbankanum hf. yrði gert að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að nánar tilgreindum gögnum. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að viðurkennt verði að gögn, sem nánar eru tilgreind í 28 liðum, „séu ekki háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki“. Að því frágengnu krefjast varnaraðilar þess að sóknaraðilanum Landsbankanum hf. verði gert að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að þessum gögnum „í trúnaði og gegn þagnarskyldu“, en ella verði honum með sama skilyrði gert að leggja þau fyrir dómara í málinu. Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Með ákvörðun 9. sama mánaðar ráðstafaði Fjármálaeftirlitið tilteknum réttindum og skyldum félagsins til nýs banka, sem nú ber heiti sóknaraðilans Landsbankans hf. Í 3. lið ákvörðunarinnar var meðal annars tekið fram að nýi bankinn tæki yfir „gagnasöfn“ eldri bankans. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem breyttu lögum nr. 161/2002, var Landsbanki Íslands hf. tekinn til slita 22. apríl 2009, en þeim lauk með nauðasamningi, sem komst á 25. desember 2015. Það félag er nú sóknaraðilinn LBI ehf.
Sóknaraðilinn LBI ehf. höfðaði 17. janúar 2012 mál gegn varnaraðilum ásamt sjö fyrrverandi starfsmönnum og stjórnarmönnum í Landsbanka Íslands hf. Krafðist sóknaraðilinn þess að gagnaðilum sínum yrði, að nokkru óskipt og að öðru leyti að tiltölu, gert að greiða sér 14.116.395.373 krónur, 10.546.970 bandaríkjadali og 10.840.714 evrur með nánar tilgreindum vöxtum frá 6. október 2008 til greiðsludags auk málskostnaðar. Kröfur sóknaraðilans á hendur fyrrverandi starfsmönnum og stjórnarmönnum voru um skaðabætur vegna nánar tiltekinna ráðstafana á fé Landsbanka Íslands hf. 6. október 2008. Gagnvart varnaraðilum voru kröfur á hinn bóginn reistar á ábyrgðartryggingu, sem sóknaraðilinn kvað félagið hafa keypt fyrir stjórnendur sína og aðra starfsmenn, en hana hafi varnaraðilarnir veitt 9. janúar 2008 og hún tekið gildi 1. febrúar sama ár. Málið var þingfest 8. mars 2012 og tóku allir, sem sóknaraðilinn beindi kröfum að, til varna með greinargerðum sem lagðar voru fram í þinghaldi 22. janúar 2013. Nokkrir þeirra gerðu þar kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómur við því með úrskurði 27. júní 2013. Með dómi Hæstaréttar 26. september sama ár í máli nr. 491/2013 var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Að þessu frágengnu stóð eftir krafa allra gagnaðila sóknaraðilans um sýknu. Varnaraðilar reistu þá kröfu fyrir sitt leyti meðal annars á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með aðgerðum stjórnenda sinna og starfsmanna, þar á meðal þeirra sem sóknaraðilinn hafi stefnt í málinu, brotið verulega gegn upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þegar áðurnefnd ábyrgðartrygging var tekin með því að veita varnaraðilum rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði, sem hafi miklu skipt fyrir mat á áhættu þeirra.
Í þinghaldi 26. nóvember 2013 lögðu varnaraðilar fram beiðni um að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á nánar tiltekin atriði í tengslum við fyrrgreindar varnir þeirra. Beiðni þessi sætti andmælum annarra málsaðila, en héraðsdómur varð að mestu við henni með úrskurði 14. mars 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl sama ár í máli nr. 243/2014. Í úrskurði héraðsdóms voru talin í níu liðum með fjölmörgum undirliðum þau atriði, sem dómkveðja átti menn til að meta. Í grófum dráttum var beint til matsmanna spurningum um hvort reikningsskil Landsbanka Íslands hf. hafi, miðað við árslok 2006, árslok 2007, 31. mars 2008 og að nokkru 30. júní sama ár, gefið rétta mynd af því hvert eigið fé félagsins hafi verið og eiginfjárhlutfall, hversu margir hlutir í félaginu hafi beint eða óbeint verið í eigu þess, hversu margir hlutir hafi staðið til tryggingar fyrir kröfum þess á hendur öðrum, hversu margir hlutir hafi staðið stjórnendum og starfsmönnum félagsins til boða á grundvelli afkastahvetjandi launakerfis, hver áhætta félagsins hafi verið af kröfum þess á hendur 44 nafngreindum mönnum og félögum ásamt aðilum þeim tengdum, hvert hafi verið virði lánasafns félagsins, hverjar hafi verið skuldbindingar þess, sem greiða hafi þurft að nokkru eða öllu á árinu 2008, og hvort það hafi fyrirsjáanlega getað staðið við þær, hver hafi verið staða á svonefndum heildarskiptasamningum félagsins og hver lausafjárstaða þess hafi verið, en um síðastgreint atriði var jafnframt leitað svara um hvort mánaðarlegar skýrslur félagsins fyrir tímabilið frá nóvember 2007 til mars 2008 hafi gefið rétta mynd af lausafjárstöðunni. Að fenginni áðurgreindri niðurstöðu um matsbeiðni varnaraðila urðu tafir á því að menn yrðu dómkvaddir til matsstarfa, en leyst var úr ágreiningi um val á matsmönnum með úrskurði héraðsdóms 24. september 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 691/2014. Matsmenn voru síðan dómkvaddir í þinghaldi 17. nóvember 2014.
Þess er að geta að til kasta Hæstaréttar hefur komið ágreiningur um fleiri atriði varðandi öflun sönnunargagna undir rekstri málsins. Þannig var í dómi Hæstaréttar 3. nóvember 2014 í máli nr. 687/2014 staðfestur úrskurður héraðsdóms 24. september sama ár, þar sem hrundið var mótmælum, sem varnaraðilar höfðu meðal annarra uppi gegn því að sóknaraðilinn LBI ehf. fengi dómkvadda menn til að meta nánar tilgreind atriði. Þá var í dómi Hæstaréttar 7. janúar 2015 í máli nr. 840/2014 staðfestur úrskurður héraðsdóms 21. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Fjármálaeftirlitinu yrði gert að afhenda þeim gögn til framlagningar í málinu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 263/2015. Í dómi réttarins 15. júní 2016 í máli nr. 385/2016 var síðan staðfestur úrskurður héraðsdóms 2. maí sama ár, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að Seðlabanka Íslands yrði gert að afhenda þeim gögn til að leggja fram í málinu.
II
Varnaraðilar lögðu fram í þinghaldi 12. nóvember 2015 beiðni „um að Landsbankinn hf. verði skyldaður með úrskurði til að veita aðgang að skjölum“, sem talin voru upp í 210 liðum. Í beiðninni kom fram að matsmennirnir, sem dómkvaddir voru 17. nóvember 2014, hafi tilkynnt varnaraðilum með bréfi 5. nóvember 2015 að þeir hafi óskað eftir að sóknaraðilinn Landsbankinn hf. veitti þeim aðgang að þessum gögnum, en hann ekki orðið við því. Varnaraðilar teldu sig því þurfa að leita „eftir úrskurði um aðgang matsmanna að umræddum gögnum.“ Beiðni þessi var tekin til meðferðar á dómþingi 16. desember 2015. Þar var meðal annars mætt af hálfu sóknaraðilans Landsbankans hf. og lögð fram greinargerð um mótmæli hans gegn beiðninni. Í sama þinghaldi var kveðinn upp svofelldur úrskurður: „Landsbankanum hf. er skylt að veita dómkvöddum matsmönnum ... aðgang að þeim skjölum, sem tilgreind eru í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., lögð fram á dómþingi 12. nóvember sl., þó einungis að því marki sem þessi gögn eru til og með þeim takmörkunum sem leiða af 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.“ Tekið var fram í þingbók að dómari hafi fært „munnlega rök fyrir niðurstöðu úrskurðarins sem er án forsendna samkvæmt heimild í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991.“
Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 16. nóvember 2016 greindu varnaraðilar frá því að fyrir lægju drög að samningi við sóknaraðilann Landsbankann hf. „um aðstoð við öflun gagna fyrir matsmenn“, en einnig lögðu þeir fram beiðni „um úrskurð um að tiltekin gögn í vörslum Landsbankans hf. séu ekki háð bankaleynd og um að bankinn verði skyldaður með úrskurði til að veita aðgang að gögnum“, sem talin voru upp í 37 liðum. Af þessu tilefni var sóknaraðilinn Landsbankinn hf. kvaddur til þinghalds 16. desember 2016 og lagði hann þar fram greinargerð um andmæli gegn beiðni varnaraðila, en þó að gættu því að sóknaraðilar lýstu sameiginlega yfir að þeir myndu afhenda gögn, sem tilgreind voru í 9 af fyrrnefndum 37 liðum. Gögnin sem sóknaraðilarnir neituðu að láta af hendi samkvæmt þeim 28 liðum í beiðninni, sem út af stóðu, tóku til tímabilsins frá 2006 til loka mars 2008 og var þar í meginatriðum um að ræða eftirfarandi: Í fyrsta lagi heildarlista yfir öll útlán Landsbanka Íslands hf., í öðru lagi lista yfir hluti í félaginu, sem „boðnir höfðu verið stjórnendum/starfsmönnum“, í þriðja lagi lista yfir veðsetningar fyrir hverju útláni bankans, í fjórði lagi lista yfir „virka kaupréttarsamninga“, í fimmta lagi það, sem nefnt var „niðurfærsla lánabókar (sundurliðun sértækrar + útreikningur almennrar) 2006“, í sjötta lagi skjöl, sem styddu mat á öllum niðurfærslum á útlánum, í sjöunda lagi sundurliðun á „kröfum á viðskiptavini niður á mótaðila“, í áttunda lagi lista yfir „tryggingaandlög (veðandlög) á öllum fyrirgreiðslum“, í níunda lagi vinnugögn „sem héldu utan um eigna- og/eða stjórnunartengsl við Landsbanka Íslands hf.“, í tíunda lagi „allar skýrslur vegna fyrirgreiðslna til venslaðra aðila sem Landsbanki Íslands hf. skilaði“, í ellefta lagi allar skýrslur, sem nafngreint endurskoðunarfyrirtæki „vann og/eða skilaði“ fyrir bankann varðandi annars vegar „fyrirgreiðslur til venslaðra aðila“ og hins vegar áhættuskuldbindingar, ásamt vinnugögnum með þeim skýrslum, og loks í tólfta lagi allar skýrslur innri endurskoðunar bankans.
Héraðsdómur tók afstöðu til framangreindrar beiðni varnaraðila með hinum kærða úrskurði. Þar var hún tekin til greina á þann hátt að kveðið var á um að sóknaraðilanum Landsbankanum hf. væri skylt að veita nafngreindum dómkvöddum matsmönnum aðgang að „upplýsingum“, sem taldar voru upp í úrskurðarorði. Sú upptalning svaraði til þeirrar, sem fram kom í beiðni varnaraðila og áður var getið, en þó þannig að beiðninni var hafnað að því er varðar þann lið, sem lýst var hér að framan í níunda lagi, svo og vinnugögn um þau atriði, sem greint var frá í ellefta lagi, auk þess sem ekki verður séð að afstaða hafi verið tekin til kröfu varnaraðila um lista, sem getið var hér áður í öðru lagi. Eftir aðalkröfu varnaraðila fyrir Hæstarétti una þeir niðurstöðu hins kærða úrskurðar, en fyrrgreindar varakröfur þeirra ná þó allt að einu jafnframt til þeirra liða í beiðninni, sem héraðsdómur tók ekki til greina samkvæmt framansögðu.
III
Ákvæði laga nr. 91/1991 eru meðal annars reist á þeim meginreglum að aðilar hafi í einkamáli, hvor eða hver fyrir sitt leyti, forræði á sönnunarfærslu og leggi fram sönnunargögn, sem þeir ýmist hafa þegar undir höndum eða afla frá öðrum undir rekstri málsins. Við slíka öflun sönnunargagna geti aðili ekki fengið gagnaðila sinn knúinn til athafna, hvorki til að gefa munnlega skýrslu fyrir dómi né láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn, en verði gagnaðilinn ekki við áskorun um slíkar athafnir megi skýra neitun hans á þann hátt sem aðilanum er hagfelldastur. Aðili geti á hinn bóginn krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því að fá hann skyldaðan til að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni eða til að afhenda tiltekið skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn til framlagningar þar, enda sanni aðili að sönnunargagnið sé til og í vörslum þess manns. Af þessum meginreglum, sem búa meðal annars að baki 1. mgr. 46. gr., 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 51. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 55. gr., 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991, verður að taka mið við skýringu þeirra og annarra ákvæða laganna.
Samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 eru matsgerðir meðal þeirra sönnunargagna, sem aðili getur aflað undir rekstri einkamáls frá öðrum, ýmist opinberum starfsmanni, sem skipaður er í eitt skipti fyrir öll til viðkomandi matsstarfa, eða matsmanni, sem dómkvaddur er eftir beiðni aðilans, sbr. 3. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 61. gr. laganna. Við framkvæmd mats verður aðilinn, sem eftir því leitar, að stuðla eftir þörfum að framgangi hennar með því að veita eða tryggja matsmanni aðgang að því, sem meta skal, og að þeim gögnum, sem þörf kann að vera á vegna starfa hans, svo og að veita nauðsynlegar skýringar á matsatriði. Í þessu þrennu felst nánar tiltekið að ráði aðilinn í fyrsta lagi ekki aðgangi að því, sem matið lýtur að, getur hann beitt heimild í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 til að fá umráðamann, hvort sem hann er gagnaðili eða þriðji maður, knúinn til að veita matsmanni slíkan aðgang til skoðunargerðar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 16. ágúst 2006 í máli nr. 352/2006. Heimildin í þessu ákvæði er samkvæmt hljóðan þess bundin við það að matsmanni verði tryggður aðgangur að því, sem matið lýtur að, svo sem fasteign, sem meta þarf hvort haldin sé göllum, lausafjármunum, sem meta þarf til gangverðs, eða skjali, sem meta þarf hvort beri falsaða undirskrift. Eftir tilgangi þessa ákvæðis og að gættum áðurgreindum meginreglum laga nr. 91/1991 er á hinn bóginn ófært að veita ákvæðinu rýmra inntak en leiðir af orðalagi þess, þannig að því verði beitt sjálfstætt til að knýja aðra, hvort heldur gagnaðila eða þriðja mann, til að veita matsmanni aðgang að annars konar gögnum eða upplýsingum, sem hann kynni að þurfa á að halda til að leysa af hendi verk sitt. Hafi aðilinn í öðru lagi ekki undir höndum gögn, sem matsmaður kann að þarfnast til starfa sinna en getur ekki aflað sjálfur samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, getur aðilinn neytt úrræða samkvæmt lögunum til að fá gögnin afhent til framlagningar í máli og þar með til afnota við matið. Hafi þriðji maður gögnin undir höndum getur aðilinn beitt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna til að fá hann skyldaðan til að láta þau í té. Hafi á hinn bóginn gagnaðili gögnin í sínum vörslum og vilji hann ekki láta þau af hendi getur aðilinn ekki brugðist við á annan hátt en þann, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 68. gr. sömu laga, en með því fengi aðilinn ekki gögnin sem slík í hendur. Geti aðilinn í þriðja lagi ekki veitt matsmanni upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til skýringar á matsatriði, en það væri hins vegar á færi einhvers, sem ekki er aðili að málinu, getur aðilinn neytt heimildar í 4. málslið 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 til að fá þann mann leiddan fyrir dóm sem vitni til skýrslugjafar um það efni.
Að öðru leyti en því, sem að framan greinir, hefur aðili, sem leitar matsgerðar í einkamáli, ekki úrræði samkvæmt lögum nr. 91/1991 til að krefja aðra um atbeina til að dómkvaddur matsmaður geti leyst af hendi starf sitt. Það á hér við um varnaraðila, en þess er þá jafnframt að gæta að þeir geta ekki lengur stuðst við 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, til að krefjast aðgangs að skjölum sóknaraðilans LBI ehf., enda hefur slitameðferð á honum eins og áður greinir verið lokið með nauðasamningi.
IV
Varnaraðilar krefjast þess sem fyrr segir aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þar var í úrskurðarorði kveðið á um að sóknaraðilanum Landsbankanum hf. væri skylt að veita nafngreindum dómkvöddum matsmönnum aðgang að upplýsingum, sem voru síðan tilgreindar í ellefu stafliðum. Um þessa kröfugerð er að því að gæta að í lögum nr. 91/1991 er ekki stoð fyrir því að maður verði knúinn til að gefa upplýsingar nema þá eftir atvikum á þann hátt að hann verði kvaddur fyrir dóm sem vitni til að gefa skýrslu um atriði, sem hann getur borið um af eigin raun. Eigi að skilja þessa dómkröfu á þann veg að varnaraðilar miði að því að sóknaraðilanum verði gert að veita matsmönnum aðgang að gögnum, en ekki upplýsingum, er þess að gæta að í lögum nr. 91/1991 er ekki að finna heimild til að skylda mann til slíkrar athafnar nema svo hátti til að hann hafi undir höndum skjal, sem matsgerð á beinlínis að lúta að, og matsmaður þurfi að sjá það til að vinna verk sitt, svo sem til að gera skoðunargerð til að lýsa útliti eða efni skjalsins eða leggja mat á verðgildi þess, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 62. gr. laganna. Svo er ekki ástatt hér. Eigi að þessu frágengnu að leggja þann skilning í dómkröfu varnaraðila að markmið hennar sé að útvega handa matsmönnum gögn, sem þeir telji sig þurfa til að framkvæma verk sitt, verður að líta til þess að gagnaðili þeirra að málinu, sóknaraðilinn LBI ehf., verður hvorki skyldaður til að láta af hendi gögn né til að afhenda þau matsmönnum, heldur væri unnt að skora á hann að afhenda varnaraðilum gögn til framlagningar í máli þeirra og þar með til afnota fyrir matsmenn. Á hinn bóginn geta varnaraðilar samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 leitað eftir því að sóknaraðilinn Landsbankinn hf. verði sem þriðji maður skyldaður til að afhenda þeim skjöl til framlagningar í máli sóknaraðilans LBI ehf. á hendur þeim. Sé unnt að ganga svo langt við skýringu á orðalagi dómkröfu varnaraðila og telja inntak hennar vera þetta, verður auk alls annars, sem þegar hefur verið getið, að gæta að því að í ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 er því lýst hvernig aðili geti neytt úrræða til að fá til framlagningar í máli skjal, sem sannanlega er þegar orðið til og aðilinn getur að minnsta kosti að einhverju marki lýst hvers efnis sé, sbr. 4. mgr. 67. gr. laganna. Varnaraðilar geta því ekki stuðst við þessi ákvæði til að fá sóknaraðilann Landsbankann hf. skyldaðan til að afhenda sér ótilgreind gögn, sem aðeins er lýst undir sameiginlegu heiti með tilliti til tegundar þeirra eða ætlaðs efnis, og enn síður til að búa slík gögn til.
Þegar af þeim ástæðum, sem að framan greinir, er aðalkrafa varnaraðila hér fyrir dómi þannig úr garði gerð að fyrir henni verður ekki fundin stoð í ákvæðum laga nr. 91/1991 og eru varakröfur þeirra jafnframt því marki brenndar. Þess gerist því ekki þörf að leysa úr því hvort ákvæðum 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna verði að réttu lagi beitt til að krefjast þess að sóknaraðilanum Landsbankanum hf. verði í máli, sem hann er ekki sjálfur aðili að heldur sóknaraðilinn LBI ehf., gert að afhenda skjöl, sem upphaflega tilheyrðu þeim síðarnefnda og sneru að starfsemi hans en sá fyrrnefndi hefur nú í vörslum sínum, að því er virðist á grundvelli áðurgreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Þarf heldur ekki að taka afstöðu til þess hvort og þá í hvaða mæli ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 standi því í vegi að varnaraðilar geti krafið sóknaraðilann Landsbankann hf. um afhendingu gagna af þeim toga, sem dómkrafa þeirra virðist beinast að. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og varnaraðilum gert óskipt að greiða hvorum sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðilar, Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe, Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd., greiði óskipt sóknaraðilum, Landsbankanum hf. og LBI ehf., hvorum fyrir sig 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi („Brit Insurance Ltd. o.fl.“).
Við fyrirtöku málsins 16. nóvember sl. lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. fram beiðni þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði með úrskurði að eftirfarandi gögn, sem Landsbankinn hf., hefði í vörslum sínum, væru ekki háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki:
„Nr. 6 Afrit af gildandi reglum um niðurfærslu útlána Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 1/1 2006 - 30/6 2008
Nr. 9 Afrit af öllum lánasamningum Landsbanka Íslands hf. (skuldamegin) 1/2 2008
Nr. 10 Afrit af öllum lánasamningum Landsbanka Íslands hf. (skuldamegin) 2007
Nr. 11 Afrit af öllum lánasamningum Landsbanka Íslands hf. (skuldamegin) 31/3 2008
Nr. 12 Afrit af öllum lánasamningum Landsbanka Íslands hf. (skuldamegin) 9/1 2008
Nr. 37 Heildarlista yfir öll útlán bankans á samstæðugrunni, þann 31.12.2006. Mikilvægt að bókfært verð lána stemmi við útgefna fjárhagsupplýsingar bankans á þeirri dagsetningu sem um ræðir, sem og fjárhæð og niðurfærslu. Eftirfarandi þarf að lágmarki að koma fram: Nafn lántaka, kennitala lántaka, nafn hóps lántaka, kröfuvirði láns (face value), niðurfærsla (flokkuð í almenna og sértæka), bókfært verð, vanskilastaða, fjárhæð í vanskilum, dagar í vanskilum, lánanúmer, tegund láns (niðurgreiðslulán, yfirdráttur, eingreiðslulán o.s.frv.), dagsetning lánveitingar, lokadagur láns (fyrir yfirdrætti þegar heimild fellur niður), fyrsti gjalddagi, fyrsti vaxtadagur, fjöldi gjalddaga höfuðstóls á ári, fjöldi gjalddaga vaxta á ári, tegund og dagsetning nýjustu skilmálabreytingar, áhættuflokkun bankans 1-4 og PD gildi ("Credit risk classification system" eins og skilgreint er í ársreikningi 2007) og aðrar stærðir sem stjórnendur/starfsmenn fylgdust með.
Nr. 38 Heildarlista yfir öll útlán bankans á samstæðugrunni, þann 31.12.2007. Mikilvægt að bókfært verð lána stemmi við útgefna fjárhagsupplýsingar bankans á þeirri dagsetningu sem um ræðir, sem og fjárhæð og niðurfærslu. Eftirfarandi þarf að lágmarki að koma fram: Nafn lántaka, kennitala lántaka, nafn hóps lántaka, kröfuvirði láns (face value), niðurfærsla (flokkuð í almenna og sértæka), bókfært verð, vanskilastaða, fjárhæð í vanskilum, dagar í vanskilum, lánanúmer, tegund láns (niðurgreiðslulán, yfirdráttur, eingreiðslulán o.s.frv.), dagsetning lánveitingar, lokadagur láns (fyrir yfirdrætti þegar heimild fellur niður), fyrsti gjalddagi, fyrsti vaxtadagur, fjöldi gjalddaga höfuðstóls á ári, fjöldi gjalddaga vaxta á ári, tegund og dagsetning nýjustu skilmálabreytingar, áhættuflokkun bankans 1-4 og PD gildi ("Credit risk classification system" eins og skilgreint er í ársreikningi 2007) og aðrar stærðir sem stjórnendur/starfsmenn fylgdust með.
Nr. 39 Heildarlista yfir öll útlán bankans á samstæðugrunni, þann 31.3.2008. Mikilvægt að bókfært verð lána stemmi við útgefna fjárhagsupplýsingar bankans á þeirri dagsetningu sem um ræðir, sem og fjárhæð og niðurfærslu. Eftirfarandi þarf að lágmarki að koma fram: Nafn lántaka, kennitala lántaka, nafn hóps lántaka, kröfuvirði láns (face value), niðurfærsla (flokkuð í almenna og sértæka), bókfært verð, vanskilastaða, fjárhæð í vanskilum, dagar í vanskilum, lánanúmer, tegund láns (niðurgreiðslulán, yfirdráttur, eingreiðslulán o.s.frv.), dagsetning lánveitingar, lokadagur láns (fyrir yfirdrætti þegar heimild fellur niður), fyrsti gjalddagi, fyrsti vaxtadagur, fjöldi gjalddaga höfuðstóls á ári, fjöldi gjalddaga vaxta á ári, tegund og dagsetning nýjustu skilmálabreytingar, áhættuflokkun bankans 1-4 og PD gildi ("Credit risk classification system" eins og skilgreint er í ársreikningi 2007) og aðrar stærðir sem stjórnendur/starfsmenn fylgdust með.
Nr. 40 Listi yfir hluti Landbanka Íslands hf. sem boðnir höfðu verið stjórnendum/starfsmönnum 2006.
Nr. 41 Listi yfir hluti Landbanka Íslands hf. sem boðnir höfðu verið stjórnendum/starfsmönnum 2007.
Nr. 42 Listi yfir hluti Landbanka Íslands hf. sem boðnir höfðu verið stjórnendum/starfsmönnum 31/3 2008.
Nr. 47 Listi yfir TRS samninga 2006.
Nr. 51 Listi yfir veðsetningar pr. lán í lánabók Landbanka Íslands hf. 2006
Nr. 52 Listi yfir veðsetningar pr. lán í lánabók Landbanka Íslands hf. 2007
Nr. 53 Listi yfir veðsetningar pr. lán í lánabók Landbanka Íslands hf. 31/3 2008
Nr. 54 Listi yfir virka kaupréttarsamninga Landsbanka Íslands hf. 2006
Nr. 55 Listi yfir virka kaupréttarsamninga Landsbanka Íslands hf. 2007
Nr. 56 Listi yfir virka kaupréttarsamninga Landsbanka Íslands hf. 31/3 2008
Nr. 57 Listi yfir virka kaupréttarsamninga Landsbanka Íslands hf. 9/1 2008
Nr. 59 Niðurfærsla lánabókar (sundurliðun sértækrar + útreikningur almennrar) 2006
Nr. 68 Skjöl sem styðja mat á öllum niðurfærslum í árshlutareikningi 31/3 2008 (t.d. yfirlitsskjöl sem notuð eru við mat á niðurfærslu þar sem kemur fram skuld viðkomandi, hvað er að veði, hvernig verðmæti veða er ákvarðað, rökstuðningur fyrir niðurfærslu o.fl.)
Nr. 69 Skjöl sem styðja mat á öllum niðurfærslum í ársreikningi 2006 (t.d. yfirlitsskjöl sem notuð eru við mat á niðurfærslu þar sem kemur fram skuld viðkomandi, hvað er að veði, hvernig verðmæti veða er ákvarðað, rökstuðningur fyrir niðurfærslu o.fl.)
Nr. 70 Skjöl sem styðja mat á öllum niðurfærslum í ársreikningi 2007 (t.d. yfirlitsskjöl sem notuð eru við mat á niðurfærslu þar sem kemur fram skuld viðkomandi, hvað er að veði, hvernig verðmæti veða er ákvarðað, rökstuðningur fyrir niðurfærslu o.fl.)
Nr. 76 Sundurliðun á kröfum á viðskiptavini niður á mótaðila 31.3.2008
Nr. 146 Tryggingaandlög (veðandlög) á öllum fyrirgreiðslum (útlán, yfirdrætti, afleiður o.fl.) 2006
Nr. 147 Tryggingaandlög (veðandlög) á öllum fyrirgreiðslum (útlán, yfirdrætti, afleiður o.fl.) 2007
Nr. 148 Tryggingaandlög (veðandlög) á öllum fyrirgreiðslum (útlán, yfirdrætti, afleiður o.fl.) 31/3 2008
Nr. 158 Útreikningsskjal TRS samninga 2006
Nr. 160 Útreikningsskjal TRS samninga 30/6 2008
Nr. 161 Útreikningsskjal TRS samninga 31/3 2008
Nr. 240 Vinnugögn Landsbanka Íslands hf. sem héldu utan um eigna- og/eða stjórnunartengsl við Landsbanka Íslands hf., 31.12.2006, 31.12.2007, 9.1.2008 og 31.3.2008
Nr. 241 Allar skýrslur vegna fyrirgreiðslna til venslaðra aðila sem Landsbanka Íslands hf. skilaði á árunum 2006-2008, ásamt vinnugögnum (t.d. lögbundnar skýrslur til eftirlitsaðila, o.fl.)
Nr. 242 Allar skýrslur sem PricewaterhouseCoopers vann og/eða skilaði fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. varðandi fyrirgreiðslur til venslaðra aðila á árunum 2006-2008, ásamt vinnugögnum
Nr. 244 Allar skýrslur sem PricewaterhouseCoopers vann og/eða skilaði fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. varðandi áhættuskuldbindingar á árunum 2006-2008, ásamt vinnugögnum
Nr. 245 Allar skýrslur innri endurskoðunar á árinu 2006
Nr. 246 Allar skýrslur innri endurskoðunar á árinu 2007
Nr. 247 Allar skýrslur innri endurskoðunar frá 01.01.2008-30.06.2008“
Þessir stefndu krefjast þess einnig að Landsbankanum hf. verði gert skylt með úrskurði að veita Jóhanni Unnsteinssyni og Margréti Pétursdóttur, dómkvöddum matsmönnum í málinu, aðgang að framangreindum skjölum, sem Landsbankinn hf. hafi í vörslum sínum. Til vara er þess krafist að Landsbankanum hf. verði gert skylt með úrskurði að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að framangreindum skjölum í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Til þrautavara er þess krafist að Landsbankanum hf. verði gert skylt að leggja framangreind gögn fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu.
Í framhaldi af kröfu stefndu ritaði dómari Landsbankanum hf. bréf þar sem bankanum var kynnt krafan og boðið að gera athugasemdir við fyrirtöku málsins sem ákveðin var 16. desember 2016. Í því þinghaldi var sótt þing af hálfu bankans og jafnframt lögð fram skrifleg greinargerð af hans hálfu sem áður hafði verið kynnt dómara og aðilum málsins utan réttar. Af hálfu stefnanda og Landsbankans hf. var því lýst yfir sameiginlega við þessa fyrirtöku málsins að fallist væri á afhendingu gagna sem vísað væri til í liðum 6, 9-12, 47 og 158-161 í beiðni stefndu að því marki sem þessi gögn væru til. Í því sambandi var sérstaklega tekið fram að í liðum 158-161 væri vísað til útreikningskjala sem óvíst væru að séu til í því formi sem lýst væri í beiðni stefndu. Kom jafnframt fram að sum þessara gagna kynnu að vera aðgengileg matsmönnum í sérstöku gagnaherbergi sem stefnandi hefði látið útbúa. Að öðru leyti mótmæltu þessir aðilar kröfum stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., þó þannig að Landsbankinn hf. lýsti sig reiðubúinn til að leggja gögn, eða sýnishorn gagna, fyrir dómara í trúnaði.
Með hliðsjón af yfirlýsingu stefnanda og Landsbankans hf. ákvað dómari að ekki yrði, að svo stöddu, tekin afstaða til afhendingar þeirra gagna sem yfirlýsing stefnanda og Landsbankans hf. lyti að. Af hálfu annarra málsaðila var ekki tekin sérstök afstaða til krafna stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. Var ágreiningur aðila tekinn til úrskurðar eftir að lögmönnum aðila hafði verið gefinn kostur á munnlegum athugasemdum.
A
Með úrskurði 14. mars 2014 var fallist á beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem lögð var fram 26. nóvember 2013, um dómkvaðningu matsmanna að frátaldri einni spurningu í matsbeiðni. Með dómi Hæstaréttar 29. apríl 2014 í máli nr. 243/2014 var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Tilraunir aðila til að koma sér saman um matsmenn báru ekki árangur og gerði dómari því tillögu um matsmenn. Með úrskurði 24. september 2014 hafnaði dómari mótmælum tiltekinna stefndu við tillögu sinni um að hann hygðist kveðja til matsstarfa Margréti Pétursdóttur löggiltan endurskoðanda og Jóhann Unnsteinsson löggiltan endurskoðanda. Umræddir endurskoðendur voru svo loks dómkvaddir 3. nóvember 2014 eftir að Hæstiréttur hafði staðfest úrskurð héraðsdómara þessa efnis með dómi 3. nóvember 2014 í máli nr. 691/2014.
Í þinghaldi 12. nóvember 2015 lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. fram beiðni um aðgang að gögnum í vörslum Landsbankans hf. í 247 liðum. Með úrskurði 16. desember þess árs var kveðinn upp úrskurður um að Landsbankanum hf. væri skylt að veita dómkvöddum matsmönnum, Jóhanni Unnsteinssyni og Margréti Pétursdóttur, aðgang að þeim skjölum sem tilgreind væru í beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., þó einungis að því marki sem þessi gögn væru til og með þeim takmörkunum sem leiddi af 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í munnlegum rökstuðningi dómara samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 kom meðal annars fram að úrskurðurinn væri því ekki til fyrirstöðu að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. óskuðu síðar eftir afhendingu nánar tiltekinna gagna sem háð væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 enda lægi þá fyrir um hvaða gögn væri að ræða og hvaða hagsmuni þessir stefndu, svo og Landsbankinn hf., teldu vera í húfi um einstök gögn. Beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. nú lýtur að meginstefnu að gögnum sem Landsbankinn hf. hefur ekki afhent samkvæmt fyrrgreindum úrskurði héraðsdómara og þá í flestum tilvikum með vísan til þess að þau lúti bankaleynd.
B
Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lýsa kröfugerð sinni þannig að aðallega sé þess krafist, annars vegar, að viðurkennt verði með úrskurði að tiltekin gögn falli ekki undir þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en hins vegar að matsmönnum verði heimilaður aðgangur að gögnunum, meðal annars á grundvelli 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, án takmarkana eða fyrirvara. Um vitnaskyldu Landsbankans hf. vísa stefndu meðal annars til 51. gr. sömu laga, einkum til 5. mgr. þeirrar greinar, og 3. mgr. 53. gr. laganna. Einnig byggja stefndu á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna.
Til stuðnings aðalkröfu sinni vísa téðir stefndu til þess að óumdeilt sé að gögnin séu til og í vörslum Landsbankans hf. Landsbankinn hf. hafi hins vegar ekki veitt dómkvöddum matsmönnum aðgang að gögnunum með vísan til þess að þau séu háð þagnarskyldu eða bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Stefndu séu ósammála þeirri afstöðu Landsbankans hf. og telji að ekki séu fyrir hendi neinar ástæður, sem komið geta í veg fyrir að dómkvöddum matsmönnum verði veittur aðgangur, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Eðli máls samkvæmt beri Landsbankinn hf. alfarið sönnunarbyrðina fyrir þeirri afstöðu sinni að tiltekin gögn séu háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 og að það geti staðið í vegi fyrir aðgangi dómkvaddra matsmanna að gögnunum. Í því sambandi benda stefndu á að almenn staðhæfing vörslumanns þess efnis að gögn séu háð bankaleynd eða þagnarskyldu geti aldrei ein og sér leitt til þess að synjað verði um aðgang að gögnum.
Hins vegar byggja stefndu á því, að jafnvel þó að talið yrði að einhver umræddra gagna séu háð þagnarskyldu, væri Landsbankanum hf. samt sem áður skylt að veita matsmönnum aðgang að viðkomandi gögnum. Þannig sé gert ráð fyrir því 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að starfsmönnum fjármálafyrirtækis kunni að vera skylt að veita upplýsingar samkvæmt öðrum lögum en slík skylda komi einmitt fram í 3. mgr. 62. gr. nr. 91/1991. Um vitnaskyldu Landsbankans hf. vísa stefndu meðal annars til 51. gr. laganna, einkum til 5. mgr. þeirrar greinar. Telja stefndu að umbeðin sönnunarfærsla þeirra sé réttmæt, sanngjörn og eðlileg með hliðsjón af málatilbúnaði þeirra. Hafi þessir stefndu lögvarða hagsmuni af því að matsmenn fái aðgang að gögnunum, enda sé sá aðgangur liður í matsstörfum matsmanna, og þannig þáttur í þeirri sönnunarfærslu sem hafi verið heimiluð af dómstólum. Með öllu sé óljóst hvaða hagsmuni Landsbankinn hf. telji sig vera að vernda með því að neita aðgangi að hinum umbeðnu gögnum. Verði því að telja hagsmuni stefndu af aðgangi að gögnum, sem dómkvaddir matsmenn hafa óskað eftir, mun ríkari en hagsmuni Landsbankans hf. af leynd, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Beri því að heimila dómkvöddum matsmönnum aðgang að umræddum gögnum, jafnvel þó að talið verði að einhver þeirra séu háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.
Til viðbótar framangreindu benda stefndu á að Rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar hafa með einhverjum hætti fjallað um stóran hluta þeirra gagna sem óskað er eftir aðgangi að. Hafi ríkt þagnarskylda um einhver þessara atriða á einhverju tímamarki, þá geri hún það ekki lengur af þessum sökum.
Varakrafa stefndu byggir að breyttu breytanda á sömu málsástæðum og aðalkrafa þeirra. Bendu téðir stefndu á að dómkvaddir matsmenn gætu borið þagnarskyldu við þær aðstæður að þeim væru afhent gögnin samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Eftir atvikum myndu dómkvaddir matsmenn þá vinna matsgerð sína án þess að í henni kæmu fram upplýsingar sem háðar væru þagnarskyldu. Þrautavarakrafa stefndu um framlagningu gagna fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu byggir á 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 og að sínu leyti á 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þrautavarakrafan er sett fram ef svo færi að hvorki væri fallist á aðalkröfu né varakröfu stefndu. Við þær aðstæður sé Landsbankanum hf. engu að síður skylt að afhenda gögnin til dómara í trúnaði. Vísa stefndu einnig til 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 í þessu sambandi.
C
Landsbankinn hf. vísar til þess að um öll þau gögn, sem krafa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lúti að, gildi þagnarskylda samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Tilgangur ákvæðisins sé að verja viðskiptamenn fjármálafyrirtækja fyrir því að þau upplýsi þriðja aðila um einka- eða viðskiptamálefni þeirra. Landsbankinn hf. geti ekki upp á sitt einsdæmi aflétt þagnarskyldunni, sbr. 60. gr. laganna. Með því að neita að afhenda umrædd gögn sé bankinn því að sinna skyldu sinni gagnvart viðskiptamönnum sínum, en með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 hafi flestar kröfur Landsbanka Íslands hf. flust til bankans ásamt tryggingarréttindum. Landsbankinn hf. telur einnig að nokkrir töluliðir séu ekki nægilega skýrir um hvaða gögn sé verið að biðja um. Þá telur bankinn að téðir stefndu hafi ekki rökstutt að tiltekinn gögn hafi þýðingu fyrir sönnunarfærslu þeirra. Er nánar vikið að þessum andmælum í forsendum dómsins síðar.
Af hálfu stefnanda er tekið undir sjónarmið Landsbankans hf. um að umrædd gögn séu háð trúnaðarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Telur stefnandi auk þess að gögnin séu þess eðlis að ekki komi til greina að afhenda þau. Þá telur stefnandi að kröfur téðra stefndu séu í ýmsum atriðum ekki nægilega afmarkaðar og/eða rökstuddar. Stefnandi telur að varakrafa þessara stefndu gangi gegn jafnræði aðila málsins og sé af þeirri ástæðu ótæk. Þá telur stefnandi að þrautavarakrafa stefndu þjóni engum tilgangi fyrir sönnunarfærslu þessara aðila og beri að hafna henni af þeirri ástæðu.
Niðurstaða
Með fyrri lið aðalkröfu sinnar krefjast stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. viðurkenningar á því að nánar tiltekin gögn séu ekki háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Téðum stefndu er heimilt að hafa uppi kröfu fyrir dóminum um að Landsbankinn hf. verði með úrskurði gert skylt að veita matsmönnum aðgang að gögnum sem eru í hans vörslu að uppfylltum þeim skilyrðum sem leiðir af 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem síðari liður aðalkröfu gerir ráð fyrir. Hins vegar fær umrædd viðurkenningarkrafa þessara stefndu, sem auk þess er í reynd efnisleg málsástæða fyrir síðari lið aðalkröfu þeirra, ekki stoð í reglum um meðferð einkamála. Verður téðri viðurkenningarkröfu þessara stefndu því sjálfkrafa vísað frá dóminum.
Ekki er um það deilt að þau gögn, sem beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lýtur að, eru gögn sem matsmenn hafa óskað eftir og þannig talið nauðsynleg til þess mats sem þeir voru kvaddir til að framkvæma með áðurgreindum úrskurði héraðsdóms sem staðfestur hefur verið af Hæstarétti. Er og ekkert annað komið fram í málinu um að þessi gögn þjóni ekki þeim tilgangi að matsmenn geti lokið matsstörfum hið fyrsta, svo sem dómari hefur ítrekað brýnt fyrir aðilum við fyrirtökur málsins. Verður því að leggja til grundvallar að gögnin hafi beina þýðingu fyrir matið og þar með sönnunarfærslu þessara stefndu.
Líkt og áður greinir er úrskurður héraðsdóms 16. desember 2015 því ekki til fyrirstöðu að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. óski þess nú, með nýrri beiðni, að nánar tiltekin gögn verði gerð aðgengileg matsmönnum þótt um þau kunni að ríkja þagnarskylda. Þá hefur því ekki verið haldið fram í málinu að beiðnin sé of seint fram komin.
Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er þeim, sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að, skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Að því marki sem umbeðin gögn eru háð þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 væri starfsmönnum Landsbankans hf. óheimilt að bera vitni um gögnin. Þrátt fyrir þetta gæti dómari ákveðið að leggja fyrir starfsmenn Landsbankans hf. að svara spurningu um þessi gögn ef hann teldi hagsmuni málsaðila verulega meiri af því að upplýst væri um atriði en hagsmuni hlutaðeiganda af því að leynd yrði haldið, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Við úrlausn um kröfu téðra stefndu, um hvort matsmenn eigi rétt á því að fá umráð eða aðgang að téðum gögnum, verður því í fyrsta lagi að taka til skoðunar hvort tiltekin gögn falli undir 58. gr. laga nr. 161/2002. Ef talið er að svo sé verður í annan stað að líta til þeirra nánari hagsmuna sem felast í því að full leynd ríki áfram um skjölin.
Af því er varðar þorra þeirra upplýsinga, sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. krefjast að matsmönnum verði heimilaður aðgangur að, vísar Landsbankinn hf. einkum til þess um sé að ræða „persónugreinanlegar upplýsingar“ um fjárhags- og persónuleg málefni viðskiptavina Landsbanka Íslands hf. sem falli undir 58. gr. laga nr. 161/2002. Liggur fyrir að viðskiptamenn Landsbanka Íslands hf. fluttust að meginstefnu til nýja Landsbankans hf., nú Landsbankans hf., með ákvörðunum Fjármálaeftirlitisins í október 2008 eftir að fyrrnefnda bankanum hafði verið skipuð skilanefnd. Vísar Landsbankinn hf. til hagsmuna umræddra viðskiptamanna af því að viðskipta- og einkamálefni þeirra séu ekki gerð opinber. Við munnlegan flutning um beiðni stefndu var jafnframt lögð áhersla á að hér væri um að ræða gríðarlegt magn upplýsinga um hvers kyns ráðstafanir og hagsmuni viðskiptamanna bankans. Að því er varðar liði nr. 10-12, svo og 240-244, er einnig vísað til þess að beiðnin sé ekki nægilega afmörkuð og erfitt geti verið fyrir starfsmenn bankans að átta sig á því að hvaða gögnum beiðnin lúti. Að því er varðar liði nr. 245-247 telur bankinn sömuleiðis að beiðnin sé of víðtæk og óskýr og ekki sé rökstutt hvernig umbeðin gögn tengist matsefninu.
Að mati dómsins er ekki ljóst til hvaða gagna stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa til í lið nr. 240 sem „vinnugagna Landsbanka Íslands hf. sem héldu utan um eigna- og stjórnunartengsl við Landsbanka Íslands hf.“ við tiltekið tímamark. Að þessu leyti verður því fallist á það með Landsbankanum hf. að beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. sé svo óafmörkuð að ekki sé unnt að henda reiður á til hvaða gagna er vísað. Sama á við um þau „vinnugögn“ vegna skýrslna sem óskað er eftir í liðum nr. 241, 242 og 244. Hins vegar telur dómurinn ekki að beiðni um aðgang matsmanna að skýrslum innri endurskoðunar bankans sé óafmörkuð eða of víðtæk með hliðsjón af markmiðum matsins. Gildir þá einu þótt líklegt megi telji að aðeins óverulegur hluti þeirra skýrslna sem matsmenn óska eftir aðgangi að hafi beina þýðingu fyrir endanleg svör matsmanna við matsspurningum og rökstuðning þeirra fyrir þeim.
Að mati dómsins getur ekki farið á milli mála að beiðni téðra stefndu lýtur í langflestum atriðum að gögnum sem falla undir viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna Landsbanka Íslands hf., þar með talið málefnum viðskiptamanna sem einnig voru starfsmenn bankans, og lúta sem slík þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Beinist beiðnin þannig að hvers kyns viðskiptamönnum samstæðu Landsbanka Íslands hf., margvíslegum tegundum löggerninga og skjölum þeim tengdum, án tillits til fjárhæðar. Er í sumum tilvikum beinlínis gerð krafa af hálfu stefndu um að nöfn og kennitölur komi fram en í öðrum tilvikum er ljóst að slíkar upplýsingar er allt að einu að finna á umbeðnum gögnum. Er því um að ræða beiðni um að óhemjumikið magn ítarlegra og viðkvæmra persónutengdra upplýsinga verði afhent eða gert aðgengilegt dómkvöddum matsmönnum í þágu matsstarfa.
Í málinu er uppi sú óvenjulega staða að stefnandi, sem er banki sem tekin var til slitameðferðar samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002, og hefur nú höfðað mál gegn stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hefur ekki í vörslum sínum, nema að takmörkuðu leyti, frumgögn sem lúta að reikningsskilum bankans, en líta verður á reikningsskil bankans á árunum 2007 og 2008 sem meginandlag þess mats sem matsmenn voru kvaddir til að framkvæma með fyrrgreindum úrskurði héraðsdóms. Er ekki um það deilt að slík gögn voru að verulegu leyti afhent Nýja Landsbankanum hf., nú Landsbankanum hf., í framhaldi af stofnun hans í október 2008. Téðum stefndu er því ókleift að skora á stefnanda að veita matsmönnum aðgang að umræddum gögnum. Hins vegar er ljóst að umræddir stefndu líta á umrætt mat sem mikilvægan þátt í vörnum sínum. Þá telur dómurinn nægilega liggja fyrir að matsmönnum sé ill- eða ómögulegt að framkvæma það mat, sem þeir voru kvaddir til að sinna, án þess að þeir fá umbeðinn aðgang að gögnum. Verður því að leggja til grundvallar að það myndi koma niður á möguleikum stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til að halda uppi fullum vörnum í málinu ef ekki reyndist unnt að framkvæma umrætt mat. Slík niðurstaða væri að sínu leyti einnig illa samrýmanleg meginreglu íslensks réttarfars um jafnræði aðila dómsmáls.
Dómurinn telur einnig að líta verði til þess að um er að ræða tiltölulega gamlar upplýsingar sem stafa frá stefnanda sjálfum sem er banki sem tekin var slita, svo sem áður greinir. Hefur í dómaframkvæmd verið talið að við aðstæður sem þessar kunni viðskiptamenn banka að þurfa að sæta því að bankaleynd sé aflétt að meira eða minna leyti, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 15. júní 2016 í máli nr. 385/2016.
Að lokum telur dómurinn að horfa verði til þess að aðalkrafa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lýtur að því að matsmenn fái umráð eða aðgang að umræddum upplýsingum án þess að þetta leiði nauðsynlega til þess að öll hlutaðeigandi gögn verði hluti matsmálsins, hvað þá gagna málsins fyrir dómi. Með hliðsjón af fyrirliggjandi matsspurningum verður þannig að gera ráð fyrir því að matsmenn muni kanna umbeðnar upplýsingar, en einungis í undantekningartilvikum vísa til tiltekinna persónutengdra upplýsinga í matsgerð og þá að því marki sem það er talið nauðsynlegt. Um allar aðrar upplýsingar, sem teljast ekki hafa þýðingu fyrir matsstörfin, myndu matsmenn vera bundnir þagnarskyldu samkvæmt 2. mgr. 58. laga nr. 161/2002.
Að öllu framangreindu athuguðu er það niðurstaða dómara að hagsmunir stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. af því að matsmenn fái aðgang að umræddum upplýsingum þannig að þeir geti lokið matsstörfum sínum vegi þungt. Telur dómurinn að hagsmunir Landsbankans hf., svo og hagsmunir þeirra tilteknu aðila sem dómkvaddir matsmenn kunna hugsanlega að þurfa að vísa til í rökstuðningi eða svörum við matsspurningum, séu ekki þess eðlis að þeir eigi að vega þyngra en hagsmunir téðra stefndu af því að sönnunarfærsla þeirra nái fram að ganga og þeir geti haldið uppi fullum vörnum fyrir dómi.
Með hliðsjón af 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 er ljóst að gæta þarf varfærni þegar úrskurður héraðsdómara um afhendingu eða aðgang að gögnum fjármálafyrirtæki samkvæmt 3. mgr. 53. gr. laganna er túlkaður. Leiki vafi á því hvort tilteknar tegundir samninga falli undir úrskurðarorð dómsins getur Landsbankinn hf. synjað um aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum. Væri þá stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. jafnframt heimilt í framhaldi af slíkri synjun að gera nýja kröfu fyrir dóminum um aðgang að slíkum gögnum. Að mati dómsins geta athugasemdir Landsbankans hf. um að beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. í liðum nr. 9-12 sé óljós um hvort einnig sé óskað eftir upplýsingum um svonefnd EMTN og repo viðskipti bankans því ekki leitt til þess að beiðninni verði hafnað af þeirri ástæðu. Þá athugast að ekki er gert ráð fyrir því í lögum nr. 91/1991 að heimilt sé að synja um aðgang eða afhendingu gagna með vísan til þess kostnaðar sem aðili hefur af slíkri afhendingu eða veitingu aðgangs. Gildir einu í því sambandi þótt maður, sem skyldaður hefur verið til að veita matsmönnum aðgang að gögnum, kunni að eiga fjárkröfu gegn aðila dómsmáls vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir og eigi þess kost að krefjast endurgreiðslu slíks kostnaðar samkvæmt almennum reglum.
Með vísan til 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna, verður samkvæmt þessu, að öðru leyti en að framan greinir, fallist á aðalkröfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um aðgang dómkvaddra matsmanna að gögnum í umráðum Landsbankans hf., svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Landsbankanum hf. er skylt að veita dómkvöddum matsmönnum, Jóhanni Unnsteinssyni löggiltum endurskoðanda og Margréti Pétursdóttur löggiltum endurskoðanda, aðgang að eftirgreindum upplýsingum:
a) Heildarlistar yfir öll útlán bankans á samstæðugrunni miðað við 31. desember 2006, 2007 og 31. mars 2008 (liðir nr. 37-39 í beiðni).
b) Listar yfir veðsetningar pr. lán í lánabók Landsbanka Íslands hf. 2006, 2007 og 31. mars 2008 (liðir nr. 51-53 í beiðni).
c) Listar yfir virka kaupréttarsamninga Landsbanka Íslands hf. 2006, 2007, 9. janúar 2008 og 31. mars 2008 (liðir nr. 54-57 í beiðni).
d) „Niðurfærsla lánabókar (sundurliðun sértækrar + útreikningur almennrar) 2006“ (liður nr. 59 í beiðni).
e) Skjöl sem styðja mat á öllum niðurfærslum í árshlutareikningi 2006, 2007 og 31. mars 2008 (liðir nr. 68-70 í beiðni).
f) Sundurliðun á kröfum á viðskiptavini niður á mótaðila 31. mars 2008 (liður nr. 76 í beiðni). g) Tryggingaandlög (veðandlög) á öllum fyrirgreiðslum (útlán, yfirdrætti, afleiður o.fl.) 2006, 2007 og 31. mars 2008 (liðir nr. 146-148 í beiðni).
i) Allar skýrslur vegna fyrirgreiðslna til venslaðra aðila sem Landsbanki Íslands hf. skilaði á árunum 2006-2008 (liður nr. 241 í beiðni).
j) Allar skýrslur sem PricewaterhouseCoopers vann og/eða skilaði fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. varðandi fyrirgreiðslur til venslaðra aðila á árunum 2006-2008 (liður nr. 242 í beiðni).
k) Allar skýrslur sem PricewaterhouseCoopers vann og/eða skilaði fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. varðandi áhættuskuldbindingar á árunum 2006-2008 (liður nr. 244 í beiðni).
l) Allar skýrslur innri endurskoðunar á árinu 2006, 2007 og frá 1. janúar 2008 til 30. júní 2008 (liðir nr. 245-247 í beiðni).
Skúli Magnússon