Hæstiréttur íslands
Mál nr. 321/2015
Lykilorð
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Einkahlutafélag
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og dæmd til refsingar.
Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi bera gögn málsins með sér að nafngreindur stjórnarformaður einkahlutafélagsins A, sem dæmdur var til refsingar með hinum áfrýjaða dómi, hafi eftir kaup á félaginu árið 2010 borið ábyrgð á rekstri þess, þar með töldum skattskilum, skilum á skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu. Jafnframt er upplýst í málinu að þrátt fyrir að ákærða væri formlega skráð framkvæmdastjóri félagsins eftir lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 hafi hún eingöngu sinnt starfsmannamálum í daglegum rekstri þess. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006, 12. desember 2013 í máli nr. 354/2013, 23. janúar 2014 í máli nr. 388/2013 og 30. október 2014 í máli nr. 295/2014 getur ákærða ekki borið refsiábyrgð á því á grundvelli 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að vanhöld hafi orðið á skilum skýrslna vegna staðgreiðslu opinberra gjalda eða vanskil á greiðslu þeirra. Við þessar aðstæður eru ekki efni til þess að gera greinarmun á stöðu stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Skiptir heldur ekki máli um sakargiftirnar þótt vanrækt hafi verið að tilkynna fyrirtækjaskrá um breytingar á framkvæmdarstjórn áðurnefnds einkahlutafélags. Að þessu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu X, Borgars Þórs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars sl., er höfðað af sérstökum saksóknara með ákæru dags. 17. júlí 2014 á hendur X, kt. [...], [...], Garðabæ, og Y [...], kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, X sem framkvæmdastjóra og Y sem stjórnarmanni einkahlutafélagsins A (nú þrotabú), kt. [...], með því að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðsluskilagrein félagsins fyrir tímabilið júlí 2011 á lögmæltum tíma og fyrir að hafa eigi staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna frá maí til og með desember rekstrarárið 2011 og janúar til og með september rekstrarárið 2012, samtals að fjárhæð kr. 33.861.435 hvað varðar X og 34.960.099 hvað varðar Y, sem sundurliðast sem hér greinir.
|
Hvað varðar X: |
Hvað varðar Y: |
|||||
|
Rekstrarárið 2011 |
Rekstrarárið 2011 |
|||||
|
maí |
kr. |
2.174.581 |
maí |
kr. |
2.251.612 |
|
|
júní |
kr. |
1.998.295 |
júní |
kr. |
2.064.252 |
|
|
júlí |
kr. |
2.328.259 |
júlí |
kr. |
2.398.848 |
|
|
ágúst |
kr. |
2.134.382 |
ágúst |
kr. |
2.194.610 |
|
|
september |
kr. |
1.888.712 |
september |
kr. |
1.948.940 |
|
|
október |
kr. |
2.282.096 |
október |
kr. |
2.346.176 |
|
|
nóvember |
kr. |
2.105.238 |
nóvember |
kr. |
2.165.466 |
|
|
desember |
kr. |
2.788.130 |
desember |
kr. |
2.872.931 |
|
|
17.699.693 |
18.242.835 |
|||||
|
Hvað varðar X: |
Hvað varðar Y: |
|||||
|
Rekstrarárið 2012 |
Rekstrarárið 2012 |
|||||
|
janúar |
kr. |
1.955.273 |
janúar |
kr. |
2.015.681 |
|
|
febrúar |
kr. |
1.791.430 |
febrúar |
kr. |
1.853.953 |
|
|
mars |
kr. |
1.669.052 |
mars |
kr. |
1.731.575 |
|
|
apríl |
kr. |
1.818.006 |
apríl |
kr. |
1.880.529 |
|
|
maí |
kr. |
2.243.567 |
maí |
kr. |
2.306.090 |
|
|
júní |
kr. |
1.747.737 |
júní |
kr. |
1.810.260 |
|
|
júlí |
kr. |
1.526.767 |
júlí |
kr. |
1.589.290 |
|
|
ágúst |
kr. |
1.808.641 |
ágúst |
kr. |
1.870.436 |
|
|
september |
kr. |
1.601.269 |
september |
kr. |
1.659.450 |
|
|
16.161.742 |
16.717.264 |
|||||
|
Samtals: |
kr. |
33.861.435 |
kr. |
34.960.099 |
Framangreind brot ákærðu eru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.
Er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærðu neita bæði sök. Af hálfu verjenda er þess krafist að ákærðu verði sýknuð og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, 27. júní 2013, var málefnum einkahlutafélagsins A beint til embættis sérstaks saksóknara. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að eigi hafi verið staðin skil á staðgreiðsluskilagrein fyrir tímabilið júlí 2011 á lögmæltum tíma og eigi staðin skil á staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna maí til og með desember rekstrarárið 2011 og janúar til og með september 2012, að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu fyrirsvarsmanna félagsins, samtals að fjárhæð 32.319.454 krónur.
Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærðu skýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn fyrrum stjórnarmaður í félaginu A ehf. og bókari er annaðist bókhald félagsins á þeim tíma er ákæra tekur til.
Ákærða, X, hefur greint svo frá að hún hafi stofnað einkahlutafélagið A á árinu 2004 í kringum heilsutengd verkefni er hún hafi haft með höndum. Sá rekstur hafi verið tengdur [...] á ýmsan hátt, en á þeim tíma hafi ákærða starfað sem [...]. Hafi hún verið með námskeið í [...] tengt viðfangsefninu og víðar. Hún hafi stofnað félagið til að halda utan um starfsemina, sem ekki hafi verið virðisaukaskattskyld. Ákærða hafi þekkt meðákærða, sem vorið 2010 hafi boðið ákærðu að koma til starfa hjá sér. Á þeim tíma hafi meðákærði haft með höndum rekstur veitingastaðakeðjunnar [...]. Meðákærði hafi óskað eftir því að ákærða tæki að sér að starfa sem starfsmannastjóri og um leið hafi hann keypt einkahlutafélagið af ákærðu og félagið tekið yfir rekstur veitingastaðakeðjunnar. Ákærða hafi frá fornu fari verið skráð framkvæmdastjóri félagsins og þeirri skráningu hafi ekki verið breytt við kaupin. Frá þeirri stundu er meðákærði hafi keypt félagið og látið það reka [...] hafi ákærða ekkert komið að daglegum rekstri félagsins og skattaskilum. Hafi meðákærði séð um bókhald og skil á staðgreiðslu, tryggingargjaldi og virðisaukaskatti. Hann hafi verið með bókara við störf sem aðstoðað hafi hann við bókhaldið. Ákærða hafi að engu leyti verið inni í rekstrinum og ekki verið til þess ætlast. Meðákærði hafi starfað sem framkvæmdastjóri félagsins. Verkefni ákærðu hafi snúið að starfsmannahaldinu og hafi henni ekki verið kunnugt um skuldastöðu félagsins og ekki orðið hún ljós fyrr en í yfirheyrslum hjá skattrannsóknarstjóra. Ákærða hafi vitað að svokallaðir [...] hafi lánað meðákærða fé til rekstursins. Hún hafi að engu leyti komið að lánveitingunni eða ritað undir hana fyrir hönd félagsins. Um það leyti hafi henni orðið ljóst að reksturinn væri nokkuð þungur, en það hafi hún merkt af því hvernig gengið hafi að fá aðföng í reksturinn. Meðákærði hafi útbúið yfirlýsingu fyrir skattayfirvöld til að skýra stöðu ákærðu í fyrirtækinu og væri sú yfirlýsing rétt. Hafi meðákærði tekið ákvörðun um að útbúa yfirlýsinguna og ákærða ekkert að því komið.
Ákærði, Y, kvaðst hafa haft með höndum rekstur veitingastaðakveðjunnar [...]. Reksturinn hafi reynst erfiður í erfiðu rekstrarumhverfi vegna hruns á fjármálamörkuðum og lánum í erlendum gjaldmiðlum og farið í þrot. Ákærði hafi ákveðið að stofna eða kaupa annað félag og láta það kaupa reksturinn, en margir starfsmenn hafi starfað hjá ákærða. Hann hafi ætlað að fá aðila að rekstrinum til að lágmarka það tjón sem orðið hafði. Í þessum tilgangi hafi ákærði, vorið 2010, nálgast meðákærðu og óskað eftir því að kaupa einkahlutafélag er hún hafi átt og um leið ráða hana sem starfsmannastjóra. Kaupin hafi gengið eftir. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að þegar um rekstur slíks félags væri að ræða gæti einn og sami maður ekki myndað framkvæmdastjórn og verið í stjórn. Hafi hann því ákveðið að meðákærða yrði áfram skráður framkvæmdastjóri, þrátt fyrir að hún myndi ekki gegna því starfi. Hafi ákærði farið með daglegan rekstur félagsins og séð um allt er snéri að fjármálum. Ákærða hafi verið kunnar skyldur hans sem stjórnarmanns og starfandi framkvæmdastjóra. Störf meðákærðu hafi öll snúið að starfsmannahaldi en starfsmenn hafi verið margir á nokkrum stöðum. Ákærði hafi séð um öll staðgreiðsluskil og skil skilagreina. Basl hafi verið í rekstri og ákærði reynt að fá aðila að rekstrinum. Á árinu 2010 hafi hann fengið svokallaða [...] til að koma að rekstrinum með lánveitingu. Um leið hafi fulltrúi þeirra bræðra tekið sæti í stjórn fyrir þeirra hönd til að fylgjast með rekstirnum. Ætlunin hafi verið að fulltrúinn kæmi að færslu bókhalds, en það hafi verið vistað hjá Nýherja. Illa hafi gengið að koma tengingu á og fulltrúi lánveitenda hafi á endanum aldrei komist í bókhaldið og skuld hafi myndast hjá tollstjóra. Ákærði hafi farið mánaðarlega til tollstjóra og reynt að greiða eftir mætti. Um leið hafi hann haldið starfsmönnum tollstjóra upplýstum um tilraunir sínar til að fá fjársterka aðila að rekstrinum. Að endingu hafi hlutirnir ekki gengið eftir. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við fjárhæðir í ákæru. Skilagarein hafi ekki verið skilað fyrir júlí 2011, en væntanlega hafi verið um mistök að ræða, þar sem munað hafi einum degi í skilum. Að öðru leyti hafi ákærði lagt sig fram um að skila skilagreinum á réttum tíma. Ákærða hafi verið í mun að skattayfirvöld hefðu vitneskju um hvernig aðkomu meðákærðu að rekstrinum væri háttað. Af þeim ástæðum hafi ákærði látið lögmann sinn undirbúa yfirlýsingu um það sem ákærði hafi komið á framfæri.
Fyrrum stjórnarmaður í A ehf. bar að hann hafi gengið í stjórn einkahlutafélagsins fyrir hönd manna sem lánað hafi ákærða fé í reksturinn. Hafi hlutverk hans átt að vera að fylgjast með rekstrinum. Það hafi ekki tekist þar sem ekki hafi tekist að tengja stjórnarmanninn við bókhald félagsins sem vistað hafi verið hjá Nýherja. Um leið og stjórnarmanninum hafi orðið ljóst hver staða félagsins var hafi hann umsvifalaust gengið úr stjórn þess. Stjórnarmaðurinn hafi ekki orðið var við að ákærða, X, hefði haft eitthvað um rekstur og fjármál félagsins að gera.
Fyrrum bókari í A ehf. kvaðst hafa starfað með ákærða, Y, við bókhald félagsins. Hafi hún, í samráði við yfirmann sinn, ákærða Y, séð um útreikning launa, skil skilagreina staðgreiðslu og greiðslu afdreginnar staðgreiðslu. Hún hafi ekki átt mikil samskipti við ákærðu, X, og hafi ekki litið á hana sem yfirmann sinn varðandi bókhald og rekstur. Hún hafi einungis tekið við fyrirmælum frá ákærða, Y, hvað það varðaði.
Niðurstaða:
Í máli þessu er ekki ágreiningur um fjárhæðir í ákæru. Þá liggur fyrir að ekkert hefur verið greitt inn á skattaskuld einkahlutafélagsins A, eftir að ákæra var gefin út.
Ákærðu eru á einu máli um að ákærði, Y, hafi eftir kaup á félaginu 2010 séð um allan rekstur félagsins og borið ábyrgð á honum. Þannig hafi ákærði borið ábyrgð á skattaskilum félagsins, skilum á skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu. Ákærða, X, hafi ekkert komið nærri rekstrinum en starfað sem starfsmannastjóri. Bókari hjá félaginu hefur að sínu leyti staðfest þetta, en hún kvaðst einungis hafa tekið við fyrirmælum frá ákærða, Y, og ekki litið á ákærðu, X, sem yfirmann sinn varðandi bókhald og rekstur. Þegar þessi atriði eru virt er sannað að ákærða, X, hefur ekki, á þeim tíma sem ákæra tekur til, haft það hlutverk að koma að skilum á skilagreinum eða standa skil á afdreginni staðgreiðslu starfsmanna einkahlutafélagsins heldur hafi ákærði, Y, haft það verk með höndum.
Dómstólar hafa á liðnum árum skýrt ákvæði laga um skyldur stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í einkahlutafélögum, tengt skilum á staðgreiðsluskilagreinum og afdreginni staðgreiðslu starfsmanna. Verður að telja að með nýlegum dómum hafi Hæstiréttur varðað þá leið að úrslitum ráði hver hafi haft með höndum skil á skýrslum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts eða annast skil á slíkum gjöldum. Ákærða, X, var ekki starfandi sem eiginlegur framkvæmdastjóri, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, þó svo hún hafi verið skráð sem slík. Ákærði, Y, kvaðst hins vegar hafa starfað sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður og þannig borið ábyrgð á rekstrinum. Þegar virt er að ákærði, Y, var á sama tíma skráður stjórnarmaður í félaginu, verður ákærða, X, sýknuð af ákæru í málinu.
Ákærði, Y, hefur eins og áður sagði viðurkennt að hafa borið ábyrgð á því að staðgreiðsluskilagrein fyrir júlí 2011 hafi ekki verið skilað og að hafa eigi staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að skilagareinum var í öllum tilvikum skilað innan frests, fyrir utan júlí 2011, þar sem munar einum degi. Verður að telja að þar hafi verið um mistök að ræða, og ákærði ekki sýnt af sér ásetning til að svo var né orðið uppvís að stórkostlegu hirðuleysi, sbr. 30. gr. laga nr. 45/1987.
Ákærði hefur borið því við að þrotabú A ehf. kunni að eignast fjármuni ef kaup takast um rekstur félagsins. Gangi það eftir muni skattaskuldin að mestu fást greidd. Að því er varðar varnir ákærða, sem að þessu lúta, er til þess að líta að refsing samkvæmt lögum nr. 45/1987 er lögð á mann við að afhenda ekki á lögmæltum tíma skilagrein eða afdregna staðgreiðslu, sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Brot telst því fullframið þegar skýrsla eða staðgreiðsla, sem var innheimt eða bar að innheimta, er ekki afhent á réttum tíma. Samkvæmt því er brot ákærða fullframið. Á þessu stigi hefur ekkert verið greitt inn á staðgreiðsluskuld, sem áhrif getur haft á áhrif refsingar.
Dómstólar hafa áður um það dæmt að málsmeðferð í málum af þessum toga fari ekki í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár eða að ákvörðun sektar og vararefsingar hennar feli í sér brot gegn 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. 4. samningsviðauka við hann, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Verður ekki heldur talið að svo sé í máli þessu. Samkvæmt þessu verður ákærði, Y, sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans, að gættu því sem áður sagði um skil skilagreinar, rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Við ákvörðun refsingar verður litið til 78. gr. laga nr. 19/1940, en um er að ræða hegningarauka við dóm héraðsdóms frá 7. febrúar 2014, sem staðfestur var í Hæstarétti í málinu nr. 192/2014. Ákærða var með þeim dómi ákveðin fangelsisrefsing í 5 mánuði sem skilorðsbundin var. Verður nú að fella þann dóm inn í mál það sem hér er dæmt og búa til nýjan dóm, eftir reglum 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 60. gr. laganna i.f. Með hliðsjón af því er refsing ákærða, Y, ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem skilorðsbundið verður að hluta til. Þá greiði ákærði sekt að fjárhæð 70.000.000 króna er greiðast í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. Við ákvörðun fésektar er litið til 78. gr. laga nr. 19/1940. Ekki verður ákveðin vararefsing í málinu þar sem vararefsing gagnvart ákærða var fullnýtt í þeim héraðsdómi sem staðfestur var í Hæstaréttarmálinu nr. 192/2014.
Um greiðslu sakarkostnaðar og málsvarnarlauna fer sem í dómsorði greinir. Hefur við ákvörðun málsvarnarlauna verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði. Fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 70.000.000 króna er greiðast í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds.
Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmanns, 716.100 krónur.
Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, X, Kristjáns Gunnars Valdimarssonar héraðsdómslögmanns, 716.100 krónur.