Hæstiréttur íslands
Mál nr. 201/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2012. |
|
Nr. 201/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Líkamsárás. Einkaréttarkrafa. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
X var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa kastað skó í andlit þáverandi sambýliskonu sinnar og barnsmóður, A, með þeim afleiðingum að hún missti báðar miðframtennur í efri góm, los kom á aðra framtönn og hún hlaut bólgur, mar og hrufl innan og utan á efri vör. Refsing X var hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Var framkvæmd refsingarinnar frestað skilorðsbundið til 3 ára. Þá var X gert að greiða A miskabætur, en kröfu hennar um skaðabætur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar og þjáningarbætur var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram varð ákærði þess valdandi fimmtudagskvöldið 30. desember 2010, á heimili barnsmóður sinnar, A, að hún fékk högg á andlitið með þeim afleiðingum að hún missti báðar miðframtennur í efri góm og los kom á þá þriðju. Liggur fyrir að umrætt sinn hafði A neitað að hleypa ákærða inn í íbúðina og þar sem hann var ósáttur við það barði hann á hurðina með skó með mjóum hæl þannig að göt komu á hana. Kveðst A því hafa opnað fyrir honum. Heldur ákærði því fram að um hafi verið að ræða óhapp og því hafi það ekki verið ásetningur sinn að meiða hana. A ber hins vegar að áverkunum hafi ákærði valdið með því að kasta skónum, sem hann notaði til að berja á hurðina, í andlit hennar í þann mund sem hún opnaði hurðina. Í hinum áfrýjaða dómi þótti sannað, meðal annars vegna reikuls framburðar ákærða, sem dómari mat í heild fremur ótrúverðugan, að ákærði hefði kastað skónum í andlit A með framangreindum afleiðingum.
II
Í frumskýrslu lögreglu, sem kom á vettvang í kjölfar atburðarins, var haft eftir ákærða að A hefði sjálf lamið sig í andlitið og þannig fengið áverkana. Í skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir ákærði að hann hefði þrýst á hurðina um leið og A opnaði hana og við það hafi hurðin skollið á andliti hennar með fyrrgreindum afleiðingum. Við þingfestingu málsins bar ákærði á hinn bóginn á þann veg að hann hefði verið að banka á hurðina með skónum og þegar A hafi skyndilega opnað hafi skórinn lent á andliti hennar. Fyrir dómi hélt hann síðan fast við það að hurðin hefði skollið á henni. Hann viðurkenndi að hafa kastað skónum sem hann notaði til að berja á hurðina en skórinn hefði ekki farið í brotaþola. Samkvæmt þessu hefur frásögn ákærða verið reikul svo sem lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu og refsingu ákærða. Þá verða ákvæði hans um miskabætur, útlagðan kostnað og sakarkostnað einnig staðfest.
III
Einkaréttarkrafa A um skaðabætur vegna áætlaðs tannlækniskostnaðar styðst við greinargerð Helgu Pétursdóttur tannlæknis sem byggir á sundurliðaðri kostnaðaráætlun Elínar Sigurgeirsdóttur tannlæknis. Í greinargerð þessari er gert ráð fyrir kostnaði við svokallaða tannplantameðferð sem telja verði bestu fáanlegu meðferð sem nú sé völ á. Samkvæmt kostnaðaráætlun þessari er reiknað með að fimm tennur hafi tapast en fyrir liggur að áverkar A voru þeir að hún missti tvær tennur og ein losnaði. Þá kemur fram í vitnisburði Jóns Viðars Arnórssonar tannlæknis, sem hafði samkvæmt beiðni lögreglu gefið álit á því hvort áverkar brotaþola kæmu heim og saman við lýsingu þá sem hún hafði gefið af því sem gerðist umrætt kvöld, að kostnaður við lagfæringu væri misdýr eftir aðferðum og svokölluð tannplant aðgerð myndi kosta nokkur hundruð þúsund, kannski hálfa milljón fyrir þriggja tanna svæði. Þótt brotaþoli hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna þeirra áverka sem ákærði veitti henni verður ekki með vissu ráðið af gögnum málsins umfang tjóns hennar að þessu leyti. Þá hefur brotaþoli engin gögn lagt fram í málinu sem renna stoðum undir kröfu hennar um bætur fyrir þjáningar í 30 daga. Að þessu gættu er krafa um bæði tannlæknakostnað og þjáningarbætur svo vanreifuð að vísa verður henni frá héraðsdómi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu brotaþola, A.
Kröfu um tannlæknakostnað og þjáningarbætur er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði, X, greiði brotaþola 504.900 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 30. desember 2010 til 6. nóvember 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 364.095 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012 .
Ár 2012, miðvikudaginn 11. janúar, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr.1535/2011: Ákæruvaldið (Fanney Björk Frostadóttir) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 5. janúar sl. að aflokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 27. september sl. á hendur ákærða, X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 30. desember 2010, ráðist á þáverandi sambýliskonu og barnsmóður sína, A, á heimili hennar að [...] í [...], með því að kasta skó í andlitið á henni, með þeim afleiðingum að A missti báðar miðframtennur í efri góm, los kom á aðra framtönn hægra megin að ofan og hún hlaut bólgur, mar og hrufl innan og utan á efri vör hægra megin að ofan.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kennitala [...], er gerð krafa um skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 2.967.690.-, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, þann 30. desember 2010, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.“
Málavextir
Fyrir liggur að fimmtudagskvöldið 30. desember 2010 var lögreglan kvödd í [...] vegna heimilisófriðar þar og að karlmaður væri þar að slá sambýliskonu sína. Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu Grétars Stefánssonar var ákærði þar staddur og sást hann vera að reyna að komast inn í svefnherbergi nálægt útidyrunum. Segir þar einnig að maðurinn hafi verið nokkuð æstur og hávær. Eftir honum er haft að eiginkona hans hefði sjálf barið sig í andlitið og væri hann saklaus af áverkum við hana. Þá segir í skýrslunni að konan, A, sem kvaðst vera húsráðandinn, hafi verið með áverka í andliti og sagt manninn hafa kastað skó í andlit henni svo að tennur losnuðu í munni hennar. Hefði hún hringt í systur sína sem hefði hringt í lögregluna. Systirin, B, var stödd þarna og kvað A hafa hringt grátandi og sagt ákærða hafa kastað skó í andlit sér svo að tennur losnuðu í munni hennar. Þá hefði hann barið í hurð svo að gat kom á hana. Þarna var einnig staddur C, eiginmaður B og sagði hann A hafa sagt ákærða hafa hent skó í hana. Í íbúðinni voru tveir synir A og ákærða, 4 og 6 ára. A var flutt á slysadeild til aðhlynningar en ákærði handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Öndunarpróf, sem ekki tókst að ljúka, gaf til kynna að hann væri undir áhrifum áfengis.
Tekin var stutt lögregluskýrsla af , kl. 00.36 um nóttina, meðan hún var á slysadeild. Er þar haft eftir henni að ákærði hefði komið heim til hennar drukkinn um kvöldið og viljað komast inn. Hefði hún ekki hleypt honum inn fyrr en hún þóttist verða vör við að hann væri að skemma eitthvað. Þegar hún opnaði hefði hann slegið hana með skóhæl í andlitið, mjög föstu höggi, svo að þrjár tennur í henni brotnuðu. Að því búnu hefði hann sett skóinn í sorpið. Ekki er að sjá að túlkur hafi verið til staðar við skýrslutökuna.
Í málinu er staðfest vottorð Theodórs Friðrikssonar sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Segir þar að tvær miðframtennur í efri gómi hafi vantað og sú þriðja verið laflaus og sár í góminum. Þá hafi verið bólga, mar og hrufl bæði innan- og utanvert hægra megin á efri vör. Þá segir þar að ekki hafi tekist að koma lausu tönninni á réttan stað og henni því verið vísað á tannlækni.
Ljósmyndir sem teknar voru af áverunum á A skömmu eftir atvikið fylgja málinu.
Í málinu er staðfest vottorð Helgu Pétursdóttur tannlæknis, dagsett 25. janúar 2011 þar sem segir að A hafi komið á neyðarvakt tannlækna 31. desember 2010. Þá hafi hliðarframtönn, augntönn og forjaxl verið laus. Beinplatan yfir þeim hafi verið brotin og tennurnar gengnar úr beinholunni. Þessar þrjár tennur voru fjarlægðar. Þá hafi sést að efri og neðri vör hennar voru bólgnar. Fimm dögum síðar hafi verið útbúinn bráðabirgðapartur með 5 plasttönnum sem þó var einungis ætlaður til útlitsbóta. Þá segir þar að ekki sé unnt að ákveða frekari meðferð fyrr en í febrúarlok. Sú meðferð ráðist að miklu leyti af því hversu mikið verði eftir af beininu. Þá segir að ekki sé góður kostur í málinu að gera henni falskar tennur heldur leggur læknirinn til bestu meðferð sem í boði sé en um leið þá dýrustu, að setja fimm tannplanta í kjálkabeinið og festa á þá postulínstennur. Fylgir með kostnaðaráætlun tannlæknisins að fjárhæð 1.731.590 krónur, dagsett 3. febrúar 2011. Samkvæmt gögnum málsins kom A tvisvar til tannlæknisins, 31. desember og 5. janúar. Ekki er að sjá að hún hafi komið til tannlæknisins eftir það.
Í málinu er staðfest álitsgerð Jóns Viðars Arnórssonar tannlæknis og sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum, dagsett 4. júlí sl. Segir þar að læknirinn hafi skoðað vandlega tilsend málsgögn og rætt við tannlæknana sem hana höfðu meðhöndlað undanfarin þrjú ár. Sé ljóst að A hafi verið með tannvegssjúkdóm á mjög háu stigi. Hafi kjálkabein umhverfis nokkrar tennur þannig verið mjög eytt og festa tannanna við tannstæðið orðin lítil. Ekki hafi því þurft mikið högg á tennurnar til þess að þær losnuðu, skekktust eða féllu alveg úr tannstæðinu. Ólíklegt væri vegna tannholdsbólgunnar og sýkingarinnar að unnt hefði verið að færa skekktar tennur á sinn stað að nýju. Þá segir læknirinn að tennurnar, sem brotnuðu úr góminum, hafi verið það lausar fyrir að þyngd skósins sem um ræðir hefði ekki skipt sköpum. Samkvæmt ljósmyndum af konunni hafi varirnar orðið fyrir minni háttar áverka. Af því megi ætla að höggið hafi verið létt eða það lent að mestu leyti milli varanna.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 16. janúar í fyrra. Var skýrsla hennar tekin upp með hljóði og mynd og fór hún fram með aðstoð túlks. Sagði hún svo frá að barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður, ákærði í málinu, hefði komið heim til hennar klukkan tíu umrætt kvöld, en þar hefði hann dvalið um skeið vegna veikinda sonar þeirra. Hann hefði verið drukkinn og hún ekki viljað hleypa honum inn um innri dyrnar að íbúðinni, sem voru læstar. Hefði hann þá farið að berja í hurðina. Þegar barsmíðinni linnti hefði hún haldið að hann væri farinn og hún þá opnað. Hefði hún þá séð hvar hann sat á hækjum fyrir framan hurðina. Hefði hann þá kastað háhæluðum skó hennar, sem var þarna fyrir framan, í andlit henni svo að hællinn lenti í munni hennar og tennurnar brotnuðu.
Ákærði, sem hefur dvalið hér á landi frá því árinu 2000, var yfirheyrður hjá lögreglu 31. desember að viðstöddum verjanda. Hann sagði A hafa læst hann úti kvöldið áður og verið búin að setja föt hans framfyrir í poka. Kvaðst hann hafa bankað á dyrnar og beðið hana um að opna fyrir sér. Hefði hún ekki opnað fyrir honum og hann þá sest niður hjá fatapokunum. Þegar hann hélt áfram að banka hefði hún að endingu opnað en við það hefi hurðin rekist framan í hana. Hann tók fram að tennurnar í henni væru ónýtar. Hann neitaði því aðspurður að hafa verið með nokkuð í höndunum. Hann kvaðst hafa beðið konuna afsökunar á þessu óhappi og hjálpað henni að þrífa blóð framan úr sér. Hún hefði hins vegar ekki viljað taka afsökunarbeiðni hans til greina heldur hringt á systur sína. Lögreglan hefði svo verið kölluð til og hann verið handtekinn.
Athygli ákærða var vakin á því að göt hefðu fundist á hurðinni sem um ræðir. Sagði hann að þau væru gömul. Frekar aðspurður sagðist hann fyrst hafa bankað á hurðina með hnúunum en síðan hefði hann tekið skó af henni sem þarna voru til þess að betur heyrðist til hans, enda hefði hún spilað músík hátt fyrir innan. Kannast hann þá við að smágöt hefðu komið á hurðina við það. Hann neitar því að hafa kastað nokkru í konuna og væru það ósannindi hjá henni.
Ákærði talar íslensku sæmilega og tjáði sig einnig á ensku. Var ekki annað að heyra en hann skildi spurningar lögreglumannsins og gert sig skiljanlegan.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði skýrir frá því að konan hafi verið heima umrætt kvöld og verið lasin. Hann hefði verið með börn þeirra fyrr um daginn í Kringlunni. Þegar hann kom heim seinna hafi hún ekki viljað opna fyrir honum. Hafi hann bankað fast á dyrnar og þegar dyrnar opnuðust hafi hurðin lent framan í hana svo að hún varð fyrir áverka á tönnum. Hafi hún verið mjög viðkvæm fyrir í tönnunum og því hafi þær brotnað þegar hurðin skall á henni. Hafi farið að blæða úr henni og hún orðið æst mjög. Hafi hún hringt í lögregluna en hann reynt að róa hana enda hefði þetta verið slys. Þá hafi hún hringt í systur sína sem hefði komið með manninum sínum og þremur öðrum í viðbót sem hefðu verið með ofstopa við hann. Hann segir að blætt hafi úr konunni. Hafi hann því spurt hana hvort hún hefði meiðst vegna þess hversu fast hann opnaði hurðina og hún játað því. Hann segir að þau hefðu deilt um peninga fyrr um daginn þar eð hún vildi fá hluta af greiðslu sem hann hafði fengið. Hann hafi ekki viljað það þar sem hann þyrfti að laga bílinn fyrir skoðun. Hann kannast aðspurður við að hafa barið með skónum í hurðina til þess að hún heyrði, enda hefði hún verið búin að læsa sig inni í herbergi en heyrt börnin segja grátandi fyrir innan hurðina að móðir þeirra væri búin að læsa sig inni í herbergi. Hann segir að A eigi það oft til að læsa sig inni í herbergi. Hann kveðst hafa verið rólegur í sinni þetta kvöld, eins og eigi vanda til. Hann kveðst hafa verið búinn að drekka eitt glas af rauðvíni þegar þetta gerðist.
Hann er spurður út í það sem lögreglan hefur eftir honum að A hefði veitt sér áverkana sjálf. Hann skýrir þessi orð sín með því að hann hafi fengið áfall þegar hann sá blóðið og þá haldið að hún hefði skaðað sig sjálf. Tveimur dögum síðar hafi runnið upp fyrir honum að hún kynni að hafa meiðst þegar hann opnaði hurðina svo fast. Ákærði neitar því að hafa kastað skónum í A. Hið rétta sé að hann hafi kastað skónum frá sér en hann hafi ekki farið í konuna. Muni hann ekki hvar skórinn lenti. Skóinn segist hann hafa tekið upp þarna í anddyrinu fyrir framan innri dyrnar. Ákærði segist oft vera á heimili A því konan sé heilsulaus.
A hefur skýrt frá því að ákærði hafi komið heim til hennar um tíuleytið þetta kvöld. Hún hafi verið búin að læsa og ákærði bankað á hurðina. Hún hafi vitað að hann var fullur og því ekki opnað. Hafi mikið gengið á fyrir honum í fáeinar mínútur. Hafi það líkst því að hann væri að eyðileggja hurðina. Hún hafi svo opnað og hann þá verið þar þétt fyrir framan hana. Hafi hann hafi þá hent í hana skó sem hann hafi verið með í hendinni. Hafi skórinn lent beint á munninn á henni. Aðspurð segir hún ákærða ekki hafa gert þetta af slysni heldur hafi hann hent skónum beint í hana og þá verið örstutt á milli þeirra. Hann hafi verið drukkinn en sjálf hafi hún verið alls gáð. Undir hana er borið það sem haft er eftir henni í skýrslunni að ákærði hefði slegið hana með skónum. Segist hún ekki muna hvað hún sagði við lögreglumanninn enda verið í uppnámi. Hún muni þó að hún hafi sagt ákærða hafa hent skónum í hana. Hún segir aðspurð að túlkur hafi þar ekki verið til staðar. Hún segir að ákærði hafi ekki verið á heimili hennar eftir atburðinn nema til þess að hjálpa henni með börnin, fara með þau og sækja og eins þegar hún var veik hafi hann gætt þeirra einnig.
Hún kannast við að vera með sjúkdóm í tönnunum. Hún segir sjúkdóminn ´þó ekki vera í framtönnum heldur í tönnum aftar í munninum. Hafi tannlæknir á Filippseyjum, sem hún fór til, sagt að hún væri með sterkar tennur. Hún er spurð nánar út í tannheilsu sína en ekki fást greinargóð svör hjá henni um það atriði.
B, systir A, hefur skýrt frá því að systir hennar hafi hringt og sagt að hún hefði verið slegin og tennur losnað úr henni við það. Hafi hún spurt út í þetta og systir hennar þá sagt að ákærði hefði gert það með því að berja hana með skó. Hefði hún farið til systur sinnar og þá séð að tennurnar voru úr henni og mikið blóð í munninum. Hafi hún spurt ákærða hvað hefði gerst og hann sagt að A hefði bitið í hurðina. A hafi sagt að þetta væri ekki rétt. Kveðst hún þá hafa hringt í lögregluna sem hefði komið. Undir vitnið er borið það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu að A hefði verið slegin með skónum. Segir hún að systir hennar haf sagt að hún hefði verið slegin með skónum.
C, mágur A, hefur skýrt frá því að þau B hafi komið heim til hennar og hann þá séð að mikið blóð hafi verið í munni hennar og hún ekki getað talað fyrir því. Hafi hún þó getað sagt að ákærði hefði hent í hana skó af stuttu færi og mjög fast. Segist hann hafa séð brotinn skó þarna sem mágkona hans sýndi honum. Ákærði hafi hins vegar sagt að hann hefði ekki gert þetta. Hann segist ekki hafa farið inn í íbúðina heldur beðið í dyrunum.
Theodór Friðriksson læknir á slysa- og bráðadeild Fossvogsspítala hefur staðfest vottorð sitt í málinu. Hann segir áverkann geta samrýmst því að skó hefði verið kastað í hana, eins og hann hafi heyrt haft eftir henni þarna á deildinni. Hann segir aðspurður að slíkur áverki gæti einnig hafa hlotist af því að hurð hefði skollið framan í konuna. Líklega hefði áverkinn þá verið útbreiddari en í þessu tilviki hafi hann verið afmarkaður.
Jón Viðar Arnórsson tannlæknir og sérfræðingur í munn- og kjálkaskurð-lækningum hefur komið fyrir dóm og staðfest álitsgerð sína í málinu. Hann kveðst ekki hafa skoðað konuna en byggja álit sitt á gögnum, röntgenmyndum og viðtölum við tannlækna sem höfðu með hana að gera. Hann kveður tannholdssjúkdóm A vera á háu stigi, og þá einkanlega á þeim tönnum sem um ræðir. Festa tannanna hafi því verið orðin afbrigðilega léleg og ekki hafi þurft mikið högg eða annað álag til þess að þær losnuðu úr tannstæðinu. Þá hafi af þeirri sömu ástæðu ekki verið hægt að festa tennurnar aftur. Þessi sjúkdómur leiði að endingu til þess að tennurnar losni úr tannstæðinu. Um það hvort áverkinn gæti hafa orsakast af því að konan hefði rekist á hurð segir tannlæknirinn að hann hafi veitt því athygli á ljósmyndum af konunni hversu lítið hún var særð á vörunum. Miðað við það hversu lítið sjáist á mjúkvefjunum í kring um munninn finnist honum líklegt að áverkinn stafi af því að konan hafi rekist á hurð. Aftur á móti þyki honum þessir áverkar samrýmast því betur að hæll eða slíkur hlutur hafi skroppið inn á milli varanna ef konan hafi verið með opinn munninn, t.d. Aftur á móti hefði þessi hlutur ekki þurft að vera þungur til þess að valda þessum áverka. Hann segir bestu og varanlegustu meðferð við áverkanum vera að festa tannplanta i kjálkabeinið.
Helga Einarsdóttir tannlæknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt í málinu. Hún segir konuna hafa sagst hafa fengið skó í andlitið og það valdið áverkunum. Hún segir þá geta samrýmst því að konan hafi fengið skó í andlitið. Hún segist annars ekki geta getið sér neitt til um þá atburðarás. Konan hafi verið með tannvegssjúkdóm á háu stigi. Hafi sjúkdómurinn verið um það bil öll hægri hliðin. Aftur á móti hafi tennurnar losnað við það að fá á sig eitthvert högg, a.m.k. hafi högg þurft til svo að hún bólgnaði í andliti og á tanngarðinum. Hún segir jafnframt að sjúkdómur þessi leiði til þess að lokum að tennur detti sjálfar úr tannstæðinu. Aftur á móti verði þá engin bólga og sárið lokist fljótlega eins og eftir barnatennur. Hún staðfestir það að besta fáanlega meðferðin, þ.e. tannplantar, sé jafnframt sú dýrasta. Ódýrasta meðferðin myndi aftur á móti kosta á bilinu 120 150 þúsund. Kostnaðarmatið sem hún gerði hafi miðast við fimm tennur, þ.e. fimm tannplanta.
Grétar Stefánsson lögreglumaður staðfestir skýrslu sína í málinu. Hann kveðst hafa hitt fólkið á vettvangi í umrætt sinn. Hafi konan sagt að skó hefði verið kastað í andlitið á henni og staðfesti önnur kona sem þarna var að konan hefði einnig sagt þetta við hana. Þá segir að ákærði hafi sagt konuna hafa sjálfa valdið sér þessum meiðslum. Hafi hann verið bæði æstur og hávær og virst ölvaður. Konan hafi verið grátandi og með áverka í andliti.
Baldur Ólafsson lögreglumaður segir ákærða hafa verið mjög „pirraðan“ og lítt viðræðuhæfan þegar hann kom þarna á vettvang. Hann kveðst ekki muna eftir því sem sagt var þar. Auk ákærða, konunnar og barnanna hafi verið þarna 2 eða 3 fullorðnir.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og hefur skýrt áverkann á A með því að hurðin hafi skollið framan í hana. Framburður hans hefur hins vegar verið reikull, bæði að þessu leyti og öðru. Þykir dóminum hann í heild vera fremur ótrúverðugur og ber að hafna þessari skýringu hans. Ákærði hefur hins vegar kannast við að hafa notað skóinn til þess að berja með honum á hurðina og einnig hefur hann sagst hafa hent skónum frá sér í íbúðinni. A hefur verið stöðug í frásögn sinni um það að ákærði hafi kastað skónum í munninn á henni. Frásögn vitna sem hittu hana strax eftir atburðinn styður framburð hennar að þessu leyti. Loks er að líta til vottorða og skýrslna læknis og tannlækna í málinu sem einnig þykja styðja frásögn A. Telur dómurinn því vera sannað að ákærði hafi kastað skónum í andlit hennar svo að hann skall í munni hennar og hún missti tvær framtennur úr efri gómi og að los kom á þá þriðju. Hefur ákærði með þessu gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Aftur á móti var árás hans fruntaleg og gerð í viðurvist tveggja ungra barna. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Með bótakröfu, dagsettri 7. febrúar 2011, hefur þess verið krafist af hálfu A að ákærði verið dæmdur til þess að greiða henni samtals 2.967.690 krónur í skaðabætur. Krafan sundurliðast svo:
|
áætlaður kostnaður vegna tannplanta og tannkróna |
kr. 1.731.590 |
|
kostnaður við komu á slysadeild |
4.900 |
|
þjáningabætur (30 dagar @ kr. 1.540) |
46.200 |
|
miskabætur |
1.000.000 |
|
lögmannskostnaður |
185.000 |
|
samtals |
2.967.690 |
Ekki eru efni til þess að vefengja áætlaðan kostnað við tannviðgerð en fram er komið í málinu. Sú áætlun miðast þó við viðgerð á fimm tönnum en ekki þremur. Er dómurinn bundinn að umfangi ákærunnar hvað þetta varðar. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa telst þessi kostnaður vera 1.042.212 krónur. Taka ber til greina kostnað A af því að leita sér læknishjálpar á slysadeild svo og kröfu hennar um þjáningabætur. Þá þykir miski konunnar vera hæfilega metinn 500.000 krónur. Lögmannskostnaðurinn verður dæmdur með þóknun til réttargæslumanns. Samkvæmt þessu ber að dæma ákærða til þess að greiða A 1.593.312 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 30. desember 2010 til 6. nóvember 2011 en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Í aðalmeðferð málsins hefur verið gerð krafa um það að ákærði verði dæmdur til þess að greiða 621.380 króna þjáningabætur til viðbótar kröfunni frá 7. febrúar, sem getið er í ákæru. Af hálfu ákærða er því mótmælt með skírskotun til 1. mgr. 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 að krafan komist að í málinu. Eru því ekki skilyrði til þess að fjalla um þessa viðbótarkröfu.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Bjarna Haukssyni hrl. 276.100 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti. Þá ber ennfremur að dæma ákærða til þess að greiða Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl. 250.000 krónur í réttargæslulaun, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað, 151.050 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði A 1.593.312 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 30. desember 2010 til 6. nóvember 2011 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði greiði greiða verjanda sínum, Bjarna Haukssyni hrl. 276.100 krónur í málsvarnarlaun og Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl. 250.000 krónur í réttargæslulaun.
Ákærði greiði 151.050 krónur í annan sakarkostnað.