Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                              

Miðvikudaginn 6. júní 2012.

Nr. 372/2012.

 

Steinar Marteinsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Hákoni Svavarssyni

(enginn)

Fasteignasölunni Gimli ehf.

(enginn)

Þráni Elíasi Gíslasyni

(enginn)

Eljunni ehf. og

(enginn)

Hvalfjarðarsveit

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

og Verði tryggingum hf. til réttargæslu

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem S var gert að setja málskostnaðartryggingu að kröfu H, HS, F ehf. og V hf., í máli sem S hafði höfðað á hendur H og fleirum. Til stuðnings kröfu sinni vísuðu H, HS, F ehf. og V hf. til þess að árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá S 22. nóvember 2011. Málið hafði verið þingfest 18. janúar 2011 en krafa um málskostnaðartryggingu kom fyrst fram við fyrirtöku málsins 22. maí 2012. Í dómi Hæstaréttar var vísað til 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 þar sem veitt er heimild til að krefjast málskostnaðartryggingar við þingfestingu máls. Ákvæðið hefði þó ekki verið talið girða fyrir að hafa mætti uppi slíka kröfu eftir þingfestingu ef sérstakt tilefni gæfist þá fyrst til þess. Samkvæmt útskrift úr vanskilaskrá höfðu áður verið gerð árangurslaus fjárnám hjá S, 8. apríl og 21. október 2010. Voru H, HS, F ehf. og V hf. því ekki talin hafa sýnt fram á að þau hefðu fyrst átt þess kost að koma með kröfu um málskostnaðartryggingu svo seint sem raun varð á þannig að skilyrði væru til að víkja frá fyrrgreindri meginreglu. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. maí 2012, þar sem sóknaraðila var gert að setja innan tveggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins tryggingu í peningum, með bankatryggingu eða bankabók að fjárhæð 3.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Hvalfjarðarsveit krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Hákon Svavarsson, Fasteignasalan Gimli ehf., Þráinn Elías Gíslason, Eljan ehf. og Vörður tryggingar hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt endurriti úr þingbók reistu varnaraðilarnir Hákon Svavarsson, Fasteignasalan Gimli ehf., Hvalfjarðarsveit og Vörður tryggingar hf. kröfu sína um málskostnaðartryggingu í héraði á þeim grundvelli að sóknaraðili væri ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr. b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, og leysti héraðsdómur úr kröfunni í samræmi við það. Því til stuðnings vísuðu þeir meðal annars til útprentunar úr svonefndri vanskilaskrá fyrirtækisins Creditinfo þar sem fram kom að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila 22. nóvember 2011. Í greinargerð varnaraðilans Hvalfjarðarsveitar fyrir Hæstarétti er því haldið fram að af hans hálfu hafi krafan um málskostnaðartryggingu einnig verið byggð á því að sóknaraðili væri búsettur í Bandaríkjunum, sbr. a. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Sú staðhæfing á sér eins og áður segir ekki stoð í gögnum málsins og verður því ekki litið til hennar við úrlausn þess, sbr. 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga.

Málið var þingfest 18. janúar 2011. Það hefur síðan verið tekið fyrir 1. mars, 5. apríl, 19. apríl, 16. maí, 30. maí, 23. júní, 8. ágúst og 2. september 2011 og síðan 22. maí 2012 þegar krafan um málskostnaðartryggingu var gerð og hinn kærði úrskurður upp kveðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að krefjast málskostnaðartryggingar við þingfestingu máls. Ákvæðið hefur þó ekki verið talið girða fyrir að hafa megi síðar uppi slíka kröfu ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Sem fyrr segir var málið þingfest 18. janúar 2011. Samkvæmt útskrift úr þeirri skrá, sem varnaraðilar hafa vísað til, voru gerð árangurslaus fjárnám hjá sóknaraðila 8. apríl og 21. október 2010. Upplýsingar þess efnis voru færðar á skrána 12. apríl og 1. nóvember það ár. Samkvæmt því verður ekki talið að varnaraðilar hafi sýnt fram á að þeir hafi fyrst átt þess kost að koma með kröfu um málskostnaðartryggingu svo seint sem raun varð á þannig að skilyrði séu til að víkja frá fyrrgreindri meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði í þessum þætti málsins bíði endanlegs dóms í því.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að þess er ekki getið í hinum kærða úrskurði hvenær málið var þingfest sem er grundvallaratriði við úrlausn þess. Þá kemur þar heldur ekki fram að ekki hafi verið sótt þing af hálfu varnaraðilans Þráins Elíasar Gíslasonar við þingfestinguna. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðilarnir Hákon Svavarsson, Fasteignasalan Gimli ehf., Hvalfjarðarsveit og Vörður tryggingar hf. greiði óskipt sóknaraðila, Steinari Marteinssyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. maí 2012.

Mál þetta var höfðað 7., 14. og 17. desember 2010 og 5. og 10. janúar 2011, en það var tekið til úrskurðar 30. maí 2011. Stefnandi er Steinar Marteinsson, Hagamel 5 á Akranesi. Stefndu eru Eljan ehf., Hagamel 3 á Akranesi, Fasteignasalan Gimli ehf., Grensásvegi 13 í Reykjavík, Hákon Svavarsson, Miðholti 3 í Mosfellsbæ, Hvalfjarðarsveit, Innrimel 3 í Hvalfjarðarsveit, og Þráinn Gíslason, Jörundarholti 30 á Akranesi. Þá er Verði tryggingum hf., Borgartúni 25 í Reykjavík, og Sjóvá Almennu tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík, stefnt til réttargæslu.

Í málinu krefst stefnandi þess að stefndu verði gert óskipt að greiða honum 6.965.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 2. september 2009 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða málskostnað.

Stefndu Fasteignasalan Gimli ehf., Hákon Svavarsson og Hvalfjarðarsveit gera kröfu um sýknu af kröfum stefnanda, auk þess sem stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað. Af hálfu stefndu Eljunnar ehf. eru ekki gerðar kröfur í málinu, en þingsókn af hálfu þess stefnda féll niður 5. apríl sl.

Í þinghaldi nú í dag gerðu stefndu Hvalfjarðarsveit og stefndu Hákon Svavarsson, Fasteignasalan Gimli ehf., og réttargæslustefndi Vörður tryggingar hf. þá kröfu að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði að fjárhæð samtals þrjár milljónir króna.

Í úrskurði þessum er sú krafa til úrlausnar.

Stefnandi krefst þess að kröfu þessari verði hrundið.

Með kaupsamningi 29. ágúst 2007 festi stefnandi kaup á Hagamel 5 í Hvalfjarðarsveit ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, en um var að ræða hús í smíðum. Seljandi eignarinnar var stefndi Eljan ehf., en byggingarstjóri var stefndi Þráinn. Kaupverð eignarinnar var 20.000.000 króna, en greiða átti 19.000.000 króna við undirritun samnings en eftirstöðvar að fjárhæð 1.000.000 króna við fullnaðarfrágagn samkvæmt undirritaðri skilalýsingu. Milligöngu við söluna hafði stefndi Hákon, en hann er löggiltur fasteignasali hjá stefnda Fasteignasölunni Gimli ehf.

Stefnandi taldi að eignin hefði verið gölluð og aflaði matsgerðar 1. október 2009 um kostnað við úrbætur. Samkvæmt sundurliðuðum útreikningi matsmanns nemur sá kostnaður samtals 6.965.000 krónur sem svarar til stefnukröfu málsins. Reisir stefnandi málatilbúnað sinn á matsgerðinni sem hann telur leiða í ljós tjón sitt vegna vanefnda við kaupin. Kröfu sína reisir stefnandi bæði á efndagrundvelli og á bótareglum utan samninga.

Krafa stefndu um málskostnaðartryggingu er á því reist að frá því að síðast var þingað í máli þessu, hinn 2. september 2011, hafi farið fram árangurslaus fjárnám hjá stefnanda vegna kröfu Tollstjóra að fjárhæð 1.924.812 krónur. Telja stefndu að ákvæði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála mála taki til tilviks þessa, þar sem leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.

Af hálfu stefnanda er kröfu stefndu mótmælt og vísað til þess að samkvæmt a lið 1. mgr. 133 gr. laga um meðferð einkamála skuli krafa um tryggingu greiðslu málskostnaðar koma fram við þingfestingu máls. Svo hafi ekki verið gert hér og krafa stefndu því of seint fram komin.

Í 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála segir að stefndi geti krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef tiltekin skilyrði séu fyrir hendi þ. á. m. að leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar og samkvæmt 2. mgr. ákveður dómari með úrskurði hvort stefnanda verði gert að setja tryggingu, hverrar fjárhæðar og í hverju formi hún verði og innan hvers frests það skuli gert.

Ákvæði þetta hefur verið túlkað þannig að ekki sé loku fyrir það skotið að taka megi til greina kröfu um málskostnaðartryggingu, komi hún fyrst fram eftir þingfestingu, enda hafi þá fyrst verið tilefni til þess að telja stefnanda ógreiðslufæran. 

Í máli þessu háttar svo til að eftir að þingað var í því síðast hinn 2. september sl. eða hinn 22. nóvember sl., fór fram árangurslaus aðfarargerð hjá stefnanda. Af hálfu stefndu hefur endurrit aðfarargerðarinnar verið lagt fram í máli þessu og er fallist á það með stefndu að með því að fram er komið að árangurslaus aðför var gerð hjá stefnanda eftir að mál þetta var höfðað séu líkur leiddar að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar stefndu komi til þess að hann verði dæmdur til greiðslu hans.             Er og til þess að líta að stefndu gafst fyrst færi á því nú í dag að koma með kröfu á hendur stefnanda um málskostnaðartryggingu fyrir dómi.

Samkvæmt þessu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður tekin til greina krafa stefndu um að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Um fjáræð tryggingarinnar, form hennar og frest til að leggja hana fram fer eins og greinir í úrskurðarorði.

Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Stefnandi, Steinar Marteinsson, skal innan tveggja vikna frá úrskurði þessum, leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 3 milljónir króna í peningum, með bankatryggingu eða bankabók.