Hæstiréttur íslands
Mál nr. 500/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfararheimild
|
|
Fimmtudaginn 15. september 2011. |
|
Nr. 500/2011.
|
Lárus Kristinn Viggósson (Jón Einar Jakobsson hrl.) gegn Orlofssjóði Kennarasambands Íslands (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Aðfararheimild.
L kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns að stöðva gerð í aðfararmáli hans gegn O. Krafa L var byggð á skuldabréfi sem hafði verið undirritað af V, kjörnum varaformanni en starfandi formanni þegar bréfið var undirritað, fyrir hönd O sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. O mótmælti greiðsluskyldu samkvæmt bréfinu með þeim rökum að V hefði ekki haft umboð til að skuldbinda O. Í dómi Hæstaréttar sagði að L hefði ekki á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt væri að afla samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 fært sönnur á að skuldabréf það sem hann byggði aðfaraheimild sína á veitti honum nægilega skýra og ótvíræða heimild til aðfarar á hendur O. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. ágúst 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2011, þar sem staðfest var sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 25. janúar 2011 að stöðva gerð í aðfararmáli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og honum gert að halda áfram og ljúka aðfarargerðinni. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 fært sönnur á að skuldabréf það sem hann byggir aðfararbeiðni sína á veiti honum nægilega skýra og ótvíræða heimild til aðfarar á hendur varnaraðila, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Lárus Kristinn Viggósson, greiði varnaraðila, Orlofssjóði Kennarasambands Íslands, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2011.
Með tilkynningu, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. febrúar sl., var þessu máli skotið til dómsins. Sóknaraðili, Lárus Kristinn Viggósson, kt. 080757-2559, Kristnibraut 99, Reykjavík, krefst þess að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 25. janúar 2011, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram með fjárnámi í eigum varnaraðila til tryggingar skuld hans við sóknaraðila í samræmi við aðfararbeiðni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Varnaraðili, Orlofssjóður Kennarasambands Íslands, kt. 701090-1879, Laufásvegi 81, Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málsatvik
Sóknaraðili fór þess á leit við Sýslumanninn í Reykjavík, með aðfararbeiðni 17. ágúst 2010, að fram færi fjárnám í eignum varnaraðila til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi sem fylgdi beiðninni. Skuldabréfið er handhafabréf, útgefið 1. nóvember 2007, af Ennishlíð ehf., að fjárhæð 14.000.000 króna. Valgeir Gestsson ritar undir bréfið fyrir hönd Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Tveir vottar staðfesta undirritunina, dagsetningu hennar og fjárræði skuldara og sjálfskuldarábyrgðaraðila.
Sýslumaðurinn í Reykjavík tók málið fyrir 8. desember 2010 með aðfarargerð nr. 011-2010-11707. Við fyrirtöku málsins 25. janúar 2011 tók sýslumaður svofellda ákvörðun:
Fulltrúi sýslumanns ákveður, að gerðinni skuli ekki vera framhaldið. Aðfararheimild sé ekki fyrir hendi sbr. 1. gr. aðfararlaga, þar sem ekki verður talið, að sá aðili, sem skuldbindur Orlofssjóðinn sem sjálfskuldarábyrgðaraðila hafi haft ótvíræða heimild til þess.
Þessari ákvörðun skaut sóknaraðili til héraðsdóms með heimild í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Lögskiptin að baki viðskiptabréfskröfu sinni kveður sóknaraðili þau að 20. febrúar 2007 hafi varnaraðili gert verksamning við fyrirtækið KB-hús ehf. um byggingu sex sumarhúsa í Heiðarbyggð nálægt Flúðum, Hrunamannahreppi, en verkefni varnaraðila hafi um árabil verið að reisa og reka sumarhús fyrir Kennarasamband Íslands. Sjóðurinn sé rekinn sem sjálfstæð deild innan sambandsins með eigin kennitölu og stjórn, sem sé kosin á þingum þess. Innan stjórnar sjóðsins sé síðan framkvæmdastjórn.
Með samningi við varnaraðila hafi fyrirtækið EPST Ltd. tekið við verktöku KB-húsa ehf. samkvæmt fyrrgreindum verksamningi, en húshlutar og annað efni til sumarhúsanna hafi verið flutt inn frá fyrirtækinu EPST Ltd. í Litháen. Hafi varnaraðili haft í hyggju að fá fjármögnun allt að 50 milljóna króna í Litháen á þann hátt, að EPST Ltd. tæki lánið, en Byr sparisjóður tæki að sér að greiða lánið, sem hafi verið í þágu varnaraðila. Hafi tveir stjórnarmenn úr framkvæmdastjórn varnaraðila farið til Litháen til að ganga frá lánamálum eins og komi fram í fundargerð framkvæmdastjórnar 3. október 2007.
Horfið hafi verið frá því ráði, en í stað þess hafi verið ákveðið að sami háttur yrði hafður á fjármögnun til húsakaupanna með innlendu lánsfé. Þá hafi verið útbúið það skuldabréf sem ágreiningurinn standi um. Samið hafi verið um að Ennishlíð ehf., sem var umboðsaðili EPST hér á landi, ritaði á bréfið sem aðalskuldari, en varnaraðili sem sjálfskuldarábyrgðaraðili.
Þann dag sem skuldabréfið hafi verið gefið út, 1. nóvember 2007, hafi verið undirritað annað skjal, svonefnt samkomulag. Í því segi að varnaraðili taki að sér að greiða „allar greiðslur“ samkvæmt skuldabréfinu og „ábyrgist uppgreiðslu að fullu“. Í samkomulaginu sé tekið fram, að skuldabréfið sé greiðsla vegna fokheldisgreiðslna og annarra framkvæmda í Heiðarbyggð.
Fyrirtækið EPST muni um þetta leyti hafa krafist þess að varnaraðili greiddi gjaldfallnar kröfur vegna efniskaupa til sumarhúsanna o.fl., en hafi látið af þeirri kröfu, eftir að skuldabréfið og samkomulagið voru gerð. Skuldabréfið hafi því beinlínis verið greiðsla á vörum og þjónustu í þágu varnaraðila.
Á þeim tíma sem bréfið er undirritað var Hilmar Ingólfsson formaður stjórnar Orlofssjóðsins og Hanna Dóra Þórisdóttir framkvæmdastjóri. Þau höfðu bæði prókúru en voru bæði í fríi. Valgeir Gestsson var kjörinn varaformaður stjórnar Orlofssjóðsins og starfandi formaður hans.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir mál sitt á því að hann hafi eignast skuldabréfið í góðri trú um að ábyrgðin væri að fullu gild samkvæmt efni sínu. Bréfið sé viðskiptabréf og um það gildi reglur um traustfang. Það sé ágreiningslaust að Valgeir Gestsson hafi verið starfandi formaður varnaraðila þegar bréfið var gefið út. Hann hafi því haft stöðuumboð fyrir varnaraðila og þar með fullt umboð til að skuldbinda varnaraðila í umrætt sinn, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Algengt hafi verið að einn stjórnarmaður undirritaði skuldbindingar, á borð við þessa, í viðskiptum varnaraðila, eins og meðal annars sjáist af fyrrgreindum verksamningi, þar sem undirritun fyrrverandi formanns varnaraðila, Hilmars Ingólfssonar, sé látin duga til að gera samning um verk að fjárhæð 75.580.566 krónur og afsal og kaupsamning og framlögð bréf Hilmars.
Sóknaraðili mótmælir þeim mótbárum varnaraðila að Valgeir hafi farið út fyrir umboð sitt, þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki Kennarasambands Íslands. Sóknaraðili vísar til þingsamþykktar KÍ, svo og skýrslu stjórnar sambandsins. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa sönnunarbyrði fyrir því gagnstæða og að skýra eigi allan vafa í þeim efnum sóknaraðila í hag. Hann vísar einnig til framlagðrar fundargerðar framkvæmdastjórnar varnaraðila, dags. 3. október 2007. Af öðrum gögnum málsins sé einnig ljóst að Valgeir hafi unnið verkið í þágu og í fullu samræmi við vilja stjórnar og framkvæmdastjórnar varnaraðila.
Varnaraðili hafi ekki haldið því fram að skuldbinding samkvæmt skuldabréfinu og samkomulaginu, 1. nóvember 2007, hafi verið óvenjuleg eða meiriháttar ráðstöfun miðað við fjárhag og rekstur varnaraðila enda sýni framlögð gögn að það hafi hún ekki verið. Framkvæmdastjórn, og þar með Valgeiri Gestssyni, hafi hreint og beint verið skylt að gæta hagsmuna og tryggja hag varnaraðila við framkvæmdir sjóðsins og hafi útgáfa skuldabréfsins verið liður í þeim störfum.
Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi sjálfstæðan fjárhag, eins og staðfest sé í skýrslu endurskoðenda. Samkvæmt henni hafi hrein eign varnaraðila í árslok 2007 verið 168.105.640 krónur, tekjur það ár hafi numið 168.830.474 krónum, en árið áður hafi þær numið rösklega 153.800.000 krónum eins og fram komi í ársfundarskýrslu KÍ, dags. 27. apríl 2007. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir hafi árið 2007 numið 49.866.430 krónum og nettóhagnaður 9.162.008 krónum. Bókfært verðmæti eigna hafi verið 412.776.689 krónur og hafi þá aukist um, um það bil, 60 milljónir á árinu. Þá bendir sóknaraðili á, að verðmæti viðskipta varnaraðila við KB-hús, sem fyrirtækið EPST Ltd. hafi síðan tekið við, hafi numið rúmlega 75.500.000 krónum og sé skuldabréfið hluti þeirrar fjárhæðar samkvæmt verksamningi.
Sóknaraðili áréttar að varnaraðili sé hvorki hlutafélag né annars konar félag, sem lúti sérstökum lögum, meðal annars um takmarkanir á ráðstöfunum starfsmanna þess. Samþykktir og skipan innri mála varnaraðila eða Kennarasambandsins séu ekki á almannavitorði. Varnaraðili geti ekki skákað í því skjóli, að innri félagssamþykktir geti ógilt samninga eða skuldbindingar, sem tekið sé við í grandleysi og góðri trú. Öryggi viðskiptalífsins krefjist þess, að viðsemjendur þurfi ekki að óttast slíkan skollaleik, leikinn í því skyni að komast undan lögmætum skuldbindingum. Skuldabréfið sé viðskiptabréf, sem samkvæmt ákvæði í bréfinu lúti réttarfarsreglum XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og byggi sóknaraðili á þeim, enda hafi málsaðilar ekki áður átt lögskipti.
Sóknaraðili mótmælir öllum mótbárum varnaraðila. Telur hann haldlausar mótbárur, reistar á 1. og 2. gr. reglna fyrir Orlofssjóðinn og á 25. gr. laga Kennarasambandsins. Hann vísar til 1. mgr. 13. gr. laga KÍ, þess efnis að þing KÍ hafi æðsta vald í málum sambandsins. Þingið hafi samþykkt fjárfestinguna, eins og framlögð þingsamþykkt KÍ sýni og stjórn KÍ í framhaldi af því, eins og meðal annars komi fram í skýrslu stjórnar KÍ fyrir árin 2005-2008. Stjórn KÍ beri að lúta fyrirmælum þings sambandsins, sbr. 22. gr. laga KÍ um hlutverk stjórnar.
Krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri að taka tillit til þess, við ákvörðun málskostnaðar, sbr. lög nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili byggi á 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sem lagastoð fyrir aðfararbeiðni sinni. Samkvæmt því ákvæði megi fjárnám fara fram án undangengins dóms eða dómssáttar til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eitt af þessum skilyrðum sé að viðkomandi gerðarþoli hafi undirritað skuldabréfið að viðstöddum vottum sem jafnframt votti dagsetningu skjalsins og fjárræði útgefandans, sé hann einstaklingur. Skuldabréfið sjálft verði að bera það með sér að skilyrðunum sé fullnægt ekki nægi að hægt sé að færa sönnur á skuld eða ábyrgð með öðrum gögnum.
Skuldabréfið, sem sóknaraðili byggi á, beri ekki með sér heimild Valgeirs Gestssonar til að skuldbinda Orlofssjóð Kennarasambands Íslands. Ekki sé heldur fest við bréfið neitt skjal sem varpað gæti ljósi á slíka heimild. Þegar af þessari ástæðu telji varnaraðili að líta beri svo á að bréfið sé alls ekki undirritað af hálfu sjóðsins. Varnir sem að þessu lúti komist að við meðferð máls sem þessa, enda væri réttaröryggi í öllu viðskiptalífi hér á landi að öðrum kosti stórkostlega ógnað.
Varnaraðili vísar til reglna fyrir Orlofssjóð Kennarasambands Íslands. Í 1. gr. þeirra segi skýrum stöfum að sjóðurinn sé eign Kennarasambands Íslands. Tilgangi sjóðsins og hlutverki sjóðsstjórnar sé lýst svo í 2. gr.:
· Að kaupa orlofsheimili einn sér eða ásamt öðrum, fjármagna byggingu þeirra og annast viðhald og rekstur á þeim hluta er heyrir undir sjóðinn. Fjárfesting og eignasala, annað en eðlilegt viðhald eigna, er þó ekki heimil nema að fengnu samþykki stjórnar Kennarasambands Íslands.
· Að taka á leigu orlofshús og endurleigja félagsmönnum eftir því sem þurfa þykir.
· Að annast úthlutun orlofshúsa Kennarasambands Íslands skv. reglum sem stjórnin setur sér.
· Að semja um orlofsferðir fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands innan lands sem utan.
Í 4. gr. reglnanna sé svohljóðandi ákvæði um stjórn:
Stjórn sjóðsins skipa sjö menn og þrír til vara. Skulu þeir kosnir á þingi Kennarasambands Íslands. Formaður skal kjörinn sérstaklega og síðan sex meðstjórnendur. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Heimilt er stjórn að kjósa úr sínum röðum þriggja manna framkvæmdastjórn og setur stjórnin henni ákveðnar reglur um verksvið. Einnig er stjórn heimilt að skipa nefndir úr hópi félagsmanna til að annast ákveðin verkefni.
Þessar reglur hafi verið settar með stoð í 25. gr. þágildandi laga fyrir Kennarasamband Íslands.
Sóknaraðili hafi lagt fram skjal með heitinu „samkomulag“, dags. 1. nóvember 2007. Samkvæmt því eigi varnaraðili að hafa yfirtekið skuldina samkvæmt skuldabréfinu, og sé skjalið undirritað af Valgeiri Gestssyni fyrir hönd Orlofssjóðsins. Þessi skjalagerð sé afar torkennileg, þó ekki sé nema fyrir þá sök að skjalið sé dagsett sama dag og skuldabréfið sé gefið út. Þetta „samkomulag“ sé brennt sama marki og skuldabréfið, því það beri alls ekki með sér heimild Valgeirs Gestssonar til að binda Orlofssjóðinn við skuldbindinguna enda hafi hann ekki haft slíka heimild.
Í málinu leggi sóknaraðili fram ýmis gögn sem hann telji sýna fram á að undirritun Valgeirs Gestssonar undir skuldabréfið sé í samræmi við það sem tíðkast hafi hjá Orlofssjóðnum gegnum tíðina. Varnaraðili geri alvarlegar athugasemdir við þennan málatilbúnað.
Ákvæði 7. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, sem fjárnámsbeiðnin styðjist við, heimili aðför án undangengins dóms eða sáttar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Skuldabréf, sem gera eigi fjárnám fyrir, verði að uppfylla slíkar kröfur að fullu og ekki séu leyfð nein frávik frá því. Í því felist meðal annars að það verði að vera hafið yfir vafa að sá, sem hafi undirritað skuldbindinguna, hafi haft heimild til að skuldbinda gerðarþolann. Í þeim efnum nægi ekki að vísa til annarra löggerninga, ársreikninga félags eða fyrirtækis, óstaðfestra utanréttarvottorða eða annarra þess háttar gagna.
Varnaraðili telur það ekki geta skipt neinu máli fyrir gildi þessarar yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð að stjórn Kennarasambands Íslands hafi í einhverjum tilvikum látið það viðgangast að formaður Orlofssjóðsins undirritaði samninga fyrir hönd sjóðsins. Varnaraðili fullyrðir hins vegar að ekki hafi, fyrr en með umræddu skuldabréfi, komið fram vísbendingar um misferli í tengslum við slíkar skuldbindingar, enda hafi ekkert verið rætt við stjórnendur Kennarasambands Íslands um að varnaraðili tæki á sig þessa skuldbindingu og því síður hafi stjórn sambandsins veitt heimild til að stofna til hennar.
Sóknaraðili hafi til stuðnings máli sínu lagt fram ársreikninga varnaraðila fyrir árið 2007, það ár sem varnaraðili eigi að hafa tekið á sig hina umdeildu skuldbindingu. Þetta sé væntanlega gert til að sýna fram á mikil umsvif Orlofssjóðsins og verulegar langtímaskuldir hans. Ársreikningurinn beri með sér að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hafi endurskoðað bókhald sjóðsins. Eins og komi fram í ársreikningnum hafi langtímaskuldir sjóðsins numið 228.600.000 krónum í árslok 2007. Varnaraðili leggi fram gögn frá endurskoðendunum sem sýni ótvírætt að varnaraðili sé ekki í skuld við sóknaraðila þessa máls, heldur séu öll langtímalánin skuldir við einn og sama aðilann, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Valgeir Gestsson hafi með öðrum orðum ekki komið neinum upplýsingum um ábyrgðina, eða þá meintu skuld sem þetta mál snúist um, inn í bókhald sjóðsins og ekki heldur til endurskoðendanna sem hafi annast endurskoðun og gerð ársreikningsins. Ekki sé heldur getið um neina ábyrgð á meintri skuldbindingu í sundurliðun með ársreikningnum, en í 8. lið sundurliðunarinnar sé gerð grein fyrir veðsetningum og ábyrgðarskuldbindingum. Af þessu ætti að vera ljóst að stjórn Kennarasambands Íslands hafi ekki fengið vitneskju um þá meintu skuldbindingu sem þetta mál snúist um, hvað þá að hún hafi samþykkt að sjóðurinn tæki skuldbindinguna á sig.
Með vísan til þessa telji varnaraðili augljóst að sóknaraðili geti ekki knúið fram aðför á grundvelli áritunar á skuldabréfið, heldur verði hann að leita dóms í einkamáli um réttmæti kröfu sinnar, vilji hann halda henni til streitu. Í slíku máli myndu mun fleiri sjónarmið koma fram af hálfu varnaraðila gegn réttmæti kröfunnar en lýst er hér að framan.
Vegna kröfu sinnar um málskostnað úr hendi sóknaraðila vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að hann hafi ekki rétt til frádráttar á móti virðisaukaskatti sem hann þarf að greiða til viðbótar lögmannsþóknun.
Niðurstaða
Sóknaraðili höfðar þetta mál með heimild í 14. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga, þar sem hann sættir sig ekki við þá ákvörðun sýslumanns að hafna beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila. Í þessu máli þarf einungis að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili hafi nægilega skýra aðfararheimild til þess að gera megi fjárnám hjá varnaraðila fyrir kröfum sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila er byggð á skuldabréfi, sem hefur verið undirritað fyrir hönd varnaraðila sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Sóknaraðili byggir á því að bréfið sé viðskiptabréf og um það gildi reglur um traustfang. Varnaraðili mótmælir greiðsluskyldu samkvæmt bréfinu með þeim rökum að sá sem hafi ritað undir bréfið fyrir hönd varnaraðila hafi ekki haft umboð til að skuldbinda varnaraðila á þann hátt, sem hann gerði.
Umboðsskortur er mótbára sem glatast ekki þótt skuldabréf sé framselt grandlausum framsalshafa. Vegna mótmæla varnaraðila þarf sóknaraðili að sýna fram á að Valgeir Gestsson, kjörinn varaformaður en starfandi formaður varnaraðila þegar bréfið var undirritað, hafi haft umboð til að skuldbinda varnaraðila sem sjálfskuldarábyrgðaraðila.
Ákvæði 14. kafla, 85.-91. gr., laga nr. 90/1989 um aðför gilda um úrlausn ágreinings sem rís við framkvæmd aðfarargerðar. Samkvæmt 90. gr. laganna skulu vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt þeim kafla. Lög um aðför útiloka því ekki að vitni verði leidd fyrir dóm í ágreiningsmálum sem rekin eru með stoð í 14. kafla laganna. Í fræðum hefur verið miðað við að vitni skuli ekki leidd nema svo standi á að gerðarbeiðanda sé brýn nauðsyn að fá réttindum sínum fullnægt með mjög skjótum hætti, önnur úrræði standi honum ekki til boða í þessu skyni og honum sé ekki kleift að sýna nægilega fram á réttindi sín án þessarar gagnaöflunar. Með úrskurði 28. júní sl. hafnaði héraðsdómur þeirri kröfu sóknaraðila að vitni yrðu leidd fyrir dóminn vegna þessa ágreiningsmáls þar sem ofangreind skilyrði væru ekki uppfyllt. Sóknaraðili getur því einungis stutt málsástæður sínar við skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
Til sönnunar því að lengi hafi tíðkast að einn starfsmaður varnaraðila skuldbindi hann hefur sóknaraðili lagt fram ýmis skjöl. Þar má nefna verksamning um smíði sumarhúsa að andvirði ríflega 75 milljóna króna, dags. 20. febrúar 2007, undirritaðan af Hilmari Ingólfssyni, fyrrum formanni varnaraðila, kaupsamning um tvö sumarhús að andvirði ríflega 8 milljóna króna, dags. 17. nóvember 2006, undirritaðan af Hönnu Dóru Þórisdóttur, framkvæmdastjóra varnaraðila, og tvö bréf rituð af Hilmari, þar sem kemur fram að stjórn Orlofssjóðsins hafi aldrei gert athugasemdir við þá framkvæmd að einn starfsmaður undirritaði skjöl í nafni sjóðsins. Þessi bréf verða ekki lögð að jöfnu við skýrslugjöf Hilmars fyrir dómi enda hefur gagnaðila ekki gefist kostur á að spyrja vitnið.
Sóknaraðili hefur, með framlögðum skjölum, leitt nokkrar líkur að því að hefð hafi verið fyrir þeirri framkvæmd að einn stjórnarmaður, eða framkvæmdastjóri, gæti skuldbundið varnaraðila. Gegn mótmælum varnaraðila þykir hann þó ekki, með þeim takmörkuðu sönnunargögnum sem koma má að í ágreiningsmáli sem þessu, hafa fært sönnur á að það skuldabréf sem hann byggir beiðni sína á veiti honum nægilega skýra heimild til aðfarar á hendur varnaraðila, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Af þessum sökum verður staðfest sú ákvörðun sýslumanns, 25. janúar 2011, að stöðva aðfarargerð í máli nr. 011-2010-11707.
Vegna þessarar niðurstöðu málsins verður varnaraðila dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Þykir fjárhæð hans hæfilega ákveðin 200.000 krónur og hefur við ákvörðun hennar verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð
Staðfest er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 25. janúar 2011, að stöðva gerð í aðfararmáli nr. 011-2010-11707, Lárus Kristinn Viggósson gegn Orlofssjóði Kennarasambands Íslands.
Sóknaraðili, Lárus Kristinn Viggósson, greiði varnaraðila, Orlofssjóði Kennarasambands Íslands, 200.000 kr. í málskostnað.