Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2008


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. mars 2009.

Nr. 456/2008.

Herbjörn Sigmarsson

(Björgvin Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.

H, sem hafði setið í gæsluvarðhaldi í rúmlega einn mánuð vegna gruns um aðild að innflutningi á fíkniefnum, krafðist skaðabóta eftir að ríkissaksóknari tilkynnti honum að mál á hendur honum hefði verið fellt niður. Talið var að hegðun H hafi leitt til handtöku hans og framkoma hans við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað að því að hann var hnepptur í gæsluvarðahald og hversu sú vist hans dróst á langinn. Var íslenska ríkið því sýknað af bótakröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2008 og krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur, til vara 1.300.000 krónur en ella 500.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. janúar 2008 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Herbjörns Sigmarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Herbirni Sigmarssyni, Kársnesbraut 135, Kópavogi á hendur íslenska ríkinu með stefnu birtri  27. desember 2007.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 4.000.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þingfestingardegi, 10. janúar 2008, til greiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.300.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þingfestingardegi, 10. janúar 2008, til greiðsludags. Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 500.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þingfestingardegi, 10. janúar 2008, til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu. Stefnandi krefst þess einnig að honum verði dæmdur gjafsóknarkostnaður skv. 178. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála, úr hendi ríkissjóðs, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti. 

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.

Málavextir

Í byrjun apríl 2006 var lagt hald á rúm 15 kg af amfetamíni og rúm 10 kg af kannabisefnum, sem falin voru í bifreið af tegundinni BMW, skráðri undir fastanúmerinu OG-093, er flutt var með flutningaskipi til landsins. Í upphafi sættu fjórir menn gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn málsins. Hinn 26. apríl 2006 var stefnandi handtekinn vegna rannsóknar málsins. Hann var þá yfirheyrður og síðar þann dag krafðist lögreglan þess að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að umræddum fíkniefnainnflutningi. Stefnandi sætti síðan óslitið gæsluvarðhaldi frá 26. apríl 2006 til 30. maí 2006. Allir úrskurðir Héraðsdóms voru kærðir til Hæstaréttar Íslands, sem staðfesti þá. Meðan á gæsluvarðhaldinu stóð sætti stefnandi einangrun, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni samkvæmt b-,c-,d- og e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, að því undanskildu að fjölmiðlabanni var aflétt 16. maí 2006.  Skýrslur voru teknar af stefnanda vegna rannsóknar málsins 26. apríl, 5. maí, 22. maí og 30. maí 2006.  Stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi að lokinni skýrslutöku 30. maí 2006. 

Með bréfi Ríkissaksóknara, dags. 29. júní 2007, til verjanda stefnanda, var tilkynnt um niðurfellingu máls gagnvart stefnanda með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, hvað varðaði ætlað fíkniefnalagabrot og með vísan til 1. mgr. 76. gr. sömu laga að rannsókn hefði verið hætt hvað varðaði ætlað peningaþvættisbrot. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Kröfur stefnanda eru m.a. reistar á því að hann hafi að ósekju sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 26. apríl 2006 til og með 30. maí 2006 og að hann hafi frá fyrstu yfirheyrslu alfarið neitað sakargiftum. Fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins hafi allan tímann verið algjör einangrun samkvæmt b-, c-, d-, og e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, þ.e. einangrun, heimsóknarbann, bréfaskoðun og svonefnt fjölmiðlabann, að því undanskildu að fjölmiðlabanni var aflétt 16. maí 2006. Hafi stefnandi skv. framangreindu verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju í þágu svonefndra rannsóknarhagsmuna í samtals 35 daga. Stefnandi byggir á að frelsissvipting sé alvarlegur hlutur fyrir einstakling og ekki sé vafa undiropið að gæsluvarðhald í svo langan tíma í fullkominni einangrun hafi valdið honum miska, s.s. andlegri þjáningu, öryggisleysi og ótta, sem hann eigi rétt á að fá bættan að svo miklu leyti sem það sé unnt.

Stefnandi byggir á að skv. íslenskum rétti eigi maður rétt á skaðabótum fyrir fjárhagslegt tjón og miska ef honum hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi að ósekju, vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn, sé ósaknæm eða sönnun hefur ekki fengist um hana. Því aðeins komi til álita að lækka bætur eða fella þær niður hafi sakborningur stuðlað að gæsluvarðhaldi. Heimildir til frelsisskerðingar, án þess að áður hafi verið staðreynt hvort sakborningur hafi unnið til hennar, helgist fyrst og fremst af hagsmunum þjóðfélagsins af því að upplýsa afbrot í því skyni að geta beitt refsingum lögum samkvæmt. Standi augljós rök til þess að sá maður, sem þurft hafi að sæta sviptingu á frelsi sínu í þágu almannahagsmuna, geti átt rétt á bótum frá ríkinu ef niðurstaðan verður sú að rannsókn máls leiði ekki til málsóknar gegn honum. Í slíkum bótarétti felist einungis að sá sem eigi þá hagsmuni sem krefjist frelsissviptingar, þ.e.a.s. almenningur, greiði bætur til þess einstaklings sem hafi þurft að fórna frelsi sínu tímabundið í þágu þeirra. Í XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. einkum 175. gr. og 176. gr. laganna, séu ákvæði um bætur handa sakborningum við þessar aðstæður. Í hrd. 2005:170 og hrd. 2005:1208 hafa skilyrði bótaréttar XXI. kafla laga nr. 19/1991 t.d. verið skýrð með hliðsjón af ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg að sá sem sæta þarf gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega unnið til frelsissviptingar, njóti bótaréttar, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði eða felli hann niður. Í 1. - 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um rétt borgara til verndar við frelsissviptingu. Í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um bótarétt þeirra sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið. Þá sé þessi réttur einnig varinn í 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Skilyrði bóta séu fyrir hendi í þessu máli, enda hafi rannsókn máls á hendur stefnanda verið hætt og hann hvorki valdið né stuðlað að aðgerðum ríkisvaldsins. 

Til vara er á því byggt af hálfu stefnanda að gæsluvarðhald stefnanda hafi staðið lengur en nauðsynlegt var vegna rannsóknar málsins. Grunsemdir lögreglu gagnvart stefnanda virðast einkum hafa verið reistar á framburði eins sakbornings, Harðar Eyjólfs Hilmarssonar, er sætti gæsluvarðhaldi  vegna málsrannsóknar.  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. desember 2006 í máli nr. S-1695/2006; Ákæruvaldið gegn Ársæli Snorrasyni, Herði Eyjólfi Hilmarssyni, Ólafi Hraundal Ægissyni, Johan Hendrik Engelsman og Hafþóri Harðarsyni, kemur fram að umræddur Hörður Eyjólfur var síðast yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins 10. maí 2006.  Á því er byggt að í öllu falli hafi krafa lögreglu þann 23. maí 2007 um framlengingu gæsluvarðhalds stefnanda verið sett fram eftir að nægilegar upplýsingar hafi legið fyrir til að stefnandi yrði leystur úr gæsluvarðhaldi.  Hafi stefnandi því að minnsta kosti sætt gæsluvarðhaldi 8 dögum lengur en rökstutt verði með vísan til rannsóknarhagsmuna.

Þá eru kröfur stefnanda byggðar á því að honum var ekki tilkynnt um niðurfellingu máls gagnvart honum, þ.e. varðandi ætlað fíkniefnabrot, sem og að rannsókn hefði verið hætt varðandi ætlað peningaþvættisbrot, fyrr en með bréfi Ríkissaksóknara til skipaðs verjanda hans, dags. 29. júní 2007, eða rúmum 14 mánuðum eftir að rannsókn hófst gegn stefnanda sem sakborningi.  Á því er byggt að þessi dráttur er varð á niðurfellingu málsins og rannsókn gagnvart stefnanda og tilkynningu þar um, hafi verið óhóflegur, enda varðaði það stefnanda eðlilega miklu að málinu yrði lýst lokið gagnvart honum. Á meðan hafi stefnanda verið haldið í óvissu um hvort framhald yrði á málinu gagnvart honum. Stefndi beri ábyrgð á þeim langa drætti sem varð á niðurfellingu málsins og rannsókn gagnvart stefnanda og tilkynningu til stefnanda þar um, enda sérstök ástæða til að flýta málinu eftir að stefnandi hafði setið svo lengi í gæsluvarðhaldi. Sé þessi dráttur andstæður meginreglu í opinberu réttarfari um að meðferð sakamála skuli hraðað eftir föngum, sbr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Beri stefnda að bæta stefnanda miska af þessum sökum, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999 og sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

Stefnandi sundurliðar stefnukröfur sínar þannig: Sbr. framangreint var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi í 35 daga. Hann krefst 100.000 kr. miskabóta fyrir hvern dag sem hann hafi verið í gæsluvarðhaldi, eða 3.500.000 kr. Að auki krefst hann miskabóta að fjárhæð 500.000 kr. vegna þess dráttar sem varð á að málið yrði fellt niður gagnvart honum og honum tilkynnt um það. Kröfugerð stefnanda um miskabætur að fjárhæð 4.000.000 kr. verði að telja síst of háa miðað við þann tíma sem hann hafi sætt gæsluvarðhaldi svo og með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta sem á hann voru bornar í málinu.  Hafa beri og í huga að auk andlegra þjáninga, öryggisleysis og ótta sem málið hafi valdið  honum, hafi stefnandi vegna gæsluvarðhaldsins þurft að sæta fjarvistum frá börnum sínum, en hann eigi tvö börn úr fyrri sambúð þar sem foreldrarnir voru á þessum tíma með sameiginlegt forræði, auk einnar dóttur sem er eldri. Þá hafi gæsluvarðhaldið og málið í heild bakað honum álitshnekki og tekjumissi, en stefnandi starfar sem sjálfstæður verktaki við málun.

Fjárhæð varakröfu sinnar rökstyður stefnandi með vísan til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að vegna rannsóknar hafi verið þörf á beiðni lögreglu hinn 23. maí 2006 um framlengingu gæsluvarðhalds hans. Honum hafi því að minnsta kosti verið gert að sæta gæsluvarðhaldi 8 dögum lengur en rökstutt verði með vísan til rannsóknarhagsmuna. Eigi hann rétt á bótum vegna þess tíma, 100.000 kr. fyrir hvern dag eða 800.000 kr., auk sem honum beri 500.000 kr. bætur vegna þess dráttar sem varð á að málið yrði fellt niður gagnvart honum og honum tilkynnt um það.

Fjárhæð þrautavarakröfu rökstyður stefnandi með vísan til að hann eigi rétt á miskabótum að fjárhæð 500.000 kr. vegna þess dráttar sem varð á að málið yrði fellt niður gagnvart honum og honum tilkynnt um það, en meta verði hann sem brot gegn friði og æru stefnanda, sbr. til hliðsjónar hrd. 2005:613.

 Um lagarök vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sér í lagi til 175. gr. og 176. gr. laganna.  Einnig er í þessu sambandi vísað til 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Vísað er til meginreglu í opinberu réttarfari um að meðferð sakamála skuli hraðað, 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Þá er vísað til 26. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Kröfur sínar um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur ber honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.  Krafa um málskostnað er gerð eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en lögbundin gjafsókn er í málinu skv. 178. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varðandi kröfu stefnanda um að fjárhæðin beri dráttarvexti frá þingfestingardegi, er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnandi krefst bóta í máli þessu, á grundvelli 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 22/1944, sbr. lög nr. 97/1995 og  XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og er vísað til 175. og  176. gr. þeirra. Byggt er á 175. gr. laganna eins og hún er í núverandi mynd, sbr. 42. gr. l. 36/1999. Einnig er vísað til 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Stefndi telur ljóst að um mál þetta gildi almennar reglur skaðabótaréttarins, um skaðabætur utan samninga. Hugsanlegur bótaréttur stefnanda byggir því á almennum reglum skaðabótaréttarins og tilgreindum ákv. XXI. kafla laga, um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Hvorki framangreind ákv. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, né ákv. mannréttindasáttmála Evrópu verða skýrð svo, að með þeim sé sakborningi veittur ríkari réttur til skaðabóta, en mælt er fyrir í ákv. XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í þessu sambandi vísast til ummæla í dómi  Hæstaréttar Íslands í máli nr. 175/2000: Kio Alexander Ayobambele Briggs gegn íslenska ríkinu,  uppkveðnum hinn 12.10.2000.  Þar segir m.a.:  „Hvorki ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar né 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verða skýrð svo, að með þeim sé sakborningi veittur ríkari réttur til skaðabóta en mælt er fyrir um í framangreindum ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991.  Þau ákvæði ber að túlka svo að bótakröfu vegna aðgerða, sem þar eru nefndar, skuli meta með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal um eigin sök, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr.  Einnig beri að meta með tilliti til bótaskyldu, hvort lögmæt skilyrði fyrir aðgerðum hafi verið fyrir hendi eða nægilegt tilefni til þeirra, eins og á stóð, sbr. 176. gr. laganna.“

Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á því að þvingunaraðgerðir þær sem stefnandi sætti við lögreglurannsókn, hafi verið fyllilega lögmætar og eðlilegar, með hliðsjón af málsatvikum, á þeim tíma sem ákvörðunin um handtöku stefnanda og gæsluvarðhald yfir honum var tekin og í fullu samræmi við réttarframkvæmd hér á landi. Úrskurðir um gæsluvarðhaldsvist stefnanda voru kveðnir upp af þar til bærum dómstól á grundvelli gagna sem fyrir lágu. Stefnandi kærði úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands, sem staðfesti greinda úrskurði.

Á því er byggt af hálfu stefnda að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir hendi, til þess að stefnandi var handtekinn og sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins jafnframt sem fullt tilefni hafi verið til þess að beita gæsluvarðhaldi í umrætt sinn.

Ákvæði 175. gr. oml. er ekki hægt að túlka sem sjálfstæða bótareglu. Ákv. 175. gr. eru almenn fyrir öll bótaákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991 og fjallar fyrst og fremst um það að dómari megi taka bótakröfu til greina og á sama hátt fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. M.ö.o. er um heimildarákvæði að ræða, en enginn hlutlægur mælikvarði er gefinn til ákvörðunar bóta.

Samkvæmt 176. gr. oml. má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, o.s.frv. ef lögmæt skilyrði hafa ekki verið fyrir hendi eða, sbr. b-lið 176. gr. oml., „ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.“ Niðurstaða um bótaskyldu í máli þessu ræðst af túlkun á 176. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Það kemur í hlut dómara að leggja á það mat,  hvort skilyrði a. og b. liðar  176. gr. séu fyrir hendi.  

Stefndi byggir á því að öll lögmæt skilyrði til handtöku stefnanda og gæsluvarðhalds hans, hafi verið fyrir hendi.  Rannsóknarferli í máli stefnanda er lýst  á nákvæman hátt í gögnum málsins. Stefndi telur að eðlilega og lögformlega hafi verið staðið að rannsókn í máli stefnanda í öllum atriðum.

Um tilefni til rannsóknar, handtöku og  gæsluvarðhalds í máli stefnanda vísast m.a. til umsagnar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. feb. 2008 og greinargerðar/samantektar rannsóknara.

Ekki verður annað séð, en að ærið tilefni hafi verið til aðgerða og erfitt er að sjá á hvern hátt rannsóknaraðilar áttu að bera sig öðruvísi að í málinu, þar sem við handtöku stefnanda bar brýna nauðsyn til þess að taka frekari skýrslur af stefnanda vegna málsins og koma jafnframt í veg fyrir það að stefnandi gæti spillt fyrir framgangi rannsóknar málsins.  

Stefndi telur hér skipta meginmáli, að á greindu stigi rannsóknar, þ.e. við handtöku stefnanda, bentu margvísleg atriði í gögnum málsins til sektar stefnanda, þótt síðar hafi þau, að mati ríkissaksóknara, ekki verið talin nægja til þess að gefa út ákæru í málinu. Tilefni til aðgerða, eins og á stóð, var því nægjanlegt.

Allt sem gert var við rannsókn málsins, þ.á m. formlegar heimildir til rannsóknaraðgerða, sbr. úrskurði héraðsdóms, var nauðsynlegt í þágu rannsóknar og innan þess lagaramma sem íslensk lög gera ráð fyrir. Enn og aftur er bent á það, þó svo að rannsókn máls hafi ekki leitt til útgáfu ákæru í sakamáli, hefur það út af fyrir sig, ekki úrslitaáhrif á það hvort eðlilega hafi verið staðið að rannsókn máls.  Framkvæmdina verður að skoða sjálfstætt og leggja mat á hvort tilefni hafi verið til aðgerða á hverjum tíma og hvernig að hlutum var staðið.

Meðal annars með vísan til framangreinds rökstuðnings er afstaða stefnda áréttuð um að hafna beri öllum framkomnum kröfum stefnanda.

Meginmálsástæður stefnanda eru þær að stefnandi hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju í þágu rannsóknarhagsmuna í 35 daga. Skilyrði bóta séu fyrir hendi í málinu enda hafi rannsókn máls á hendur stefnanda verið hætt og hann hvorki valdið né stuðlað að aðgerðum ríkisvaldsins.

Til vara er á því byggt af hálfu stefnanda að gæsluvarðhald hans hafi staðið lengur en nauðsynlegt var vegna rannsóknar málsins.

Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að honum hafi ekki verið tilkynnt um að málið væri fellt niður gagnvart honum þ.e. varðandi ætlað fíkniefnabrot, sem og að rannsókn hefði verið hætt varðandi ætlað peningaþvættisbrot, fyrr en með bréfi ríkissaksóknara til skipaðs verjanda hans, dags. 29. júlí 2007, eða rúmum 14 mánuðum eftir að rannsókn hófst gegn stefnanda sem sakborningi.

Svo sem ítarlega hefur verið gerð grein fyrir, er málsástæðum þessum ákveðið andmælt.

Stefnandi krefst miskabóta, annars vegar vegna gæsluvarðhaldsvistar sinnar að ósekju og hins vegar vegna þess hversu lengi það dróst að tilkynna honum formlega um málalok. Í sóknargögnum er ekki að finna andmæli gegn handtöku stefnanda sem slíkri eða öðrum rannsóknaraðgerðum lögreglu Tölulegri kröfugerð stefnanda er mótmælt í heild sinni. Miskabótakrafa stefnanda er ekki studd gögnum og því órökstudd. Ekki er sýnt fram á orsakatengsl milli gæsluvarðhaldsvistar stefnanda og þess miska/tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Því er mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir miskatjóni vegna rannsóknar þess máls sem hann var grunaður um aðild að.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er á því byggt af hálfu stefnda að stefnukröfur beri að lækka verulega, annars vegar með vísan til niðurlags 1. mgr. 175. gr. oml. þar sem kveðið er á um það að fella megi niður bætur „eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á“ og hins vegar með vísan til dómaframkvæmdar í sambærilegum/líkum málum, þar sem bætur eru ákvarðaðar að álitum mun lægri en stefnukröfur kveða á um.  Ítarlegri grein verður gerð fyrir varakröfu stefnda við aðalmeðferð málsins.

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að því að stefnandi var látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 26. apríl 2006 og til 30. maí 2006. Með bréfi ríkissaksóknara frá 29. júní 2007 var tilkynnt um niðurfellingu málsins gagnvart honum. Stefnandi gerir því kröfu um bætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju og byggir kröfuna á 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála, 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 175/2000 kemur fram að hvorki ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar né 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verða skýrð svo, að með þeim sé sakborningi veittur ríkari réttur til skaðabóta en mælt er fyrir um í framangreindum ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991.  Þau ákvæði ber að túlka svo að bótakröfu vegna aðgerða, sem þar eru nefndar, skuli meta með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal um eigin sök, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. Einnig beri að meta með tilliti til bótaskyldu, hvort lögmæt skilyrði fyrir aðgerðum hafi verið fyrir hendi eða nægilegt tilefni til þeirra, eins og á stóð, sbr. 176. gr. laganna. Ekki verður séð að tilvitnun stefnanda til Hrd. 2005:170 og 2005:1208 breyti í neinu nefndri túlkun Hæstaréttar Íslands.

Stefnandi var handtekinn 26. apríl 2006. Lögreglan hafði þá um nokkurt skeið haft til rannsóknar, innflutning á miklu magni af fíkniefnum sem falin voru í BMW bifreið. Þá þegar sátu menn í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Einn þeirra upplýsti um ætlaða aðild stefnanda að málinu. Því var stefnandi handtekinn. Ekki er krafa um bætur vegna handtökunnar, enda er hún í samræmi við 97. gr. laga um meðferð opinberra mála. Framburður þess er benti á ætlaða aðild stefnanda að málinu var einnig í samræmi við eftirlit lögreglu fyrir handtöku og hljóðritað samtal stefnanda við annan aðila. 

Lögregla yfirheyrði stefnanda sama dag og hann var handtekinn og því næst var hann leiddur fyrir dómara og gæsluvarðhalds krafist yfir honum til 9. maí 2006. Héraðsdómur féllst á kröfu lögreglunnar með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 28. sama mánaðar. Alls var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald tvisvar til viðbótar, þ.e. 9. og 23. maí 2006.  Í báðum tilvikunum voru úrskurðirnir byggðir á a-lið 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála og í báðum tilvikunum voru þeir staðfestir af Hæstarétti Íslands. Af gögnum málsins má ráða að um mjög umfangsmikið mál var að ræða. Alls voru níu einstaklingar sem nutu réttarstöðu sakbornings á einhverju stigi rannsóknarinnar og fjórir þeirra voru síðan ákærðir um aðild að umfangsmiklum innflutningi á fíkniefnum, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. desember 2006, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands frá 25. október 2007.

Eins og að framan greinir benti einn þeirra er í gæsluvarðhaldi sat vegna málsins á aðild stefnanda að því. Gögn eru um tíð símasamskipti hans og stefnanda frá því í ársbyrjun 2006 og allt til tveimur dögum fyrir handtöku þess aðila. Meðal annars hringdi stefnandi níu sinnum í viðkomandi aðila hinn 15. febrúar 2006, þ.e. daginn áður en hann hélt utan í fyrri ferð sína til Belgíu. Skýringar stefnanda voru einkar ótrúverðugar en stefnandi sagði að hann hefði beðið viðkomandi aðila að kaup radarvara fyrir sig í fríhöfninni. Í seinni ferð viðkomandi aðila til Belgíu er hann fór til að kaupa bifreiðina hringdi stefnandi í hann á hverjum einasta degi og gat stefnandi ekki gefið skýringar á þessum símtölum sínum. Þá segir viðkomandi aðili að hann hafi fengið fé hjá stefnanda og lagt það inná bankareikning sinn. Styðst þessi framburður við síma- og bankaupplýsingar, en stefnandi neitar. Þá liggur fyrir, án trúverðugra skýringa af hálfu stefnanda, að hann hafði tíð símasamskipti við tvo aðra aðila er báðir hlutu dóma vegna innflutningsins. Framburður stefnanda undir rannsókn málsins ber þess merki, að hann kýs að upplýsa ekki um mikilvæg atriði sem snúa að honum sjálfum og samskiptum hans við aðra grunaða í málinu á þeim tíma sem um ræðir. Skýrslur stefnanda bera það með sér að hann ýmist kveðst ekkert muna um ákveðin símtöl, sem óumdeilt er að hann hefur átt við greinda aðila, eða skýringar hans á þeim eru afar ótrúverðugar. Stuðlaði hann þannig sjálfur að því að rannsóknin dróst á langinn og gæsluvarðhaldstíminn varð svo langur sem raun ber vitni. Þótt rannsóknin leiddi ekki til ákæru á hendur stefnanda verður ekki hjá því komist að líta svo á að framkoma hans við skýrslugjöfina hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað að því hversu gæsluvarðhaldsvist hans dróst á langinn. Samkvæmt framansögðu, með stoð í niðurlagi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, verður að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda. 

Ákæra í málinu var gefin út 4. október 2006, eða fimm mánuðum eftir handtöku stefnanda. Aðfinnsluvert er að stefnanda var ekki tilkynnt formlega um að málið hefði verið fellt niður gagnvart honum fyrr en 29. júní 2007. Í ljósi málsatvika skapar slíkt þó ekki rétt til bóta honum til handa.

Með vísan til þess sem að ofan greinir er það niðurstaða málsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnandi greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hans Björgvins Jónssonar hrl., 550.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Björgvin Jónsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Sigmundur Hannesson hrl. 

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Herbjörns Sigmarssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björgvins Jónssonar hrl., 550.000 krónur.