Hæstiréttur íslands

Mál nr. 210/2008


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Skuldamál
  • Galli
  • Málsástæða
  • Afdráttarlaus málflutningur
  • Matsgerð


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2008.

Nr. 210/2008.

Verkfræðistofan Rýni ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Hasa ehf.

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

 

Verksamningur. Skuldamál. Galli. Málsástæða. Afdráttarlaus málflutningur. Matsgerð.

 

H höfðaði mál til heimtu eftirstöðva vangoldinna reikninga vegna vinnu sinnar við Hellisheiðarvirkjun sem undirverktaki hjá V og til staðfestingar á kyrrsetningargerð í eigum V. Málsaðilar sömdu um verkið munnlega. V hélt því fram að H hefði tekið að sér að setja klæðningu á áhaldahús fyrir 2.755 krónur á hvern fermetra. H taldi á hinn bóginn að umrætt gjald hefði borið að greiða fyrir klæðningu á slétta fleti en aðra hluta verksins hefði átt að vinna eftir tímagjaldi, svo sem frágang við horn, glugga og hurðir. Óumdeilt var að við samningsgerð hefðu legið fyrir útlitsteikningar af áhaldahúsinu en ekki deiliteikningar af samsetningum við horn, glugga og hurðir. Með vísan til þess var talið að V bæri sönnunarbyrði um að verksamningur aðila hefði verið með öðru efni en H hélt fram. Þá mótmælti V ekki reikningum og vinnuskýrslum H fyrr en 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, sem honum hefði borið að gera samkvæmt 47. gr. laga nr. 50/2000. Þá hélt V því fram að vinna H hefði verið haldin ýmsum göllum sem nauðsynlegt hefði verið að lagfæra. Ekki var talið að V hefði tekist að sanna að verk H hefði verið haldið þeim gæðafrávikum sem talist hefðu getað til galla og V byggði á. Samkvæmt þessu var V dæmt til greiðslu vangoldinna reikninga. Þá var kyrrsetningargerð  í eignum V staðfest til tryggingar dæmdum fjárhæðum.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. mars 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. apríl 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 17. apríl 2008. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Stefndi tók að sér fyrir áfrýjanda að setja klæðningu á áhaldahús Orkuveitu Reykjavíkur sem reist var við Hellisheiðarvirkjun. Ágreiningur aðila lýtur að uppgjöri fyrir verkið.

Í greinargerð áfrýjanda í héraði var sú málsástæða ekki höfð uppi að vinnustundir sem honum voru gerðir reikningar fyrir séu í ósamræmi við skráðar stundir í vinnuskýrslum. Í greinargerðinni var hins vegar skorað á stefnda að leggja vinnu­skýrslur fram um þau aukaverk sem stefndi teldi sig hafa unnið. Stefndi heldur því fram að tímaskýrslur hafi reglulega verið afhentar fyrirsvarsmanni áfrýjanda eða föður hans meðan á framkvæmdum stóð. Stefndi gaf út 14 reikninga fyrir verkið á tímabilinu 11. febrúar til 9. maí 2006 og hefur áfrýjandi ekki mótmælt því að þeir hafi borist honum. Í þeim reikningum, sem byggðir eru á tímagjaldi, er ávallt gerð grein fyrir fjölda tíma og á hvaða tímabili þeir hafa verið unnir. Í fimm reikninganna er áréttað sérstaklega að tímarnir séu samkvæmt skýrslum. Ekki liggur fyrir að áfrýjandi hafi andmælt reikningunum fyrr en 3. maí 2006, þegar 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, en þá ritaði lögmaður áfrýjanda stefnda bréf í tilefni af því að stefndi hafði falið lögmanni að innheimta þá reikninga sem voru í vanskilum. Andmæli áfrýjanda lutu þó ekki að því að ósamræmi væri á milli vinnuskýrslna og útgefinna reikninga heldur að því hvaða þætti verksins áfrýjanda bæri að greiða eftir tímagjaldi. Í fyrrnefndu bréfi lögmanns áfrýjanda segir meðal annars svo: „umbj. m. hafa borist tímaskýrslur, sem hann hefur ekki samþykkt fyrirfram, né eftirfarandi.“ Þessi ummæli staðfesta staðhæfingu stefnda um að áfrýjanda hafi verið afhentar tímaskýrslur. Þótt ekki verði fullyrt að áfrýjanda hafi borist þær allar verður að telja með hliðsjón af atvikum að komið hafi verið fram tilefni fyrir áfrýjanda að bera fram málsástæðu sem að þessu laut í greinargerð, vildi hann byggja varnir sínar á henni. Að þessu gættu var héraðsdómara rétt með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hafna málsástæðu áfrýjanda um þetta sem of seint fram kominni og kemur hún því heldur ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga.

Málsaðilar sömdu munnlega um verkið. Deila þeirra lýtur einkum að því hvernig samist hafi um greiðslu fyrir það. Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi tekið að sér að setja klæðningu á áhaldahús fyrir 2.755 krónur á hvern fermetra. Stefndi telur á hinn bóginn að þetta gjald hafi borið að greiða fyrir klæðningu á slétta fleti en aðra hluta verksins hafi átt að vinna eftir tímagjaldi, svo sem við frágang klæðningar við horn, glugga og hurðagöt þar sem klippa þurfti til efni, enda hafi ekki verið unnt að meta fyrirfram umfang þessara verkþátta. Óumdeilt er að við samningsgerð lágu fyrir útlitsteikningar af áhaldahúsinu en ekki deiliteikningar af samsetningum við horn, glugga og hurðir. Með hliðsjón af þessu verður talið að áfrýjandi beri sönnunarbyrði um að verksamningur aðila hafi verið með öðru efni en stefndi heldur fram. Þá mótmælti áfrýjandi ekki reikningum og vinnuskýrslum stefnda fyrr en með áðurnefndu bréfi 3. maí 2006, þegar 13 af 14 reikningum höfðu verið gefnir út, svo sem honum hefði borið að gera eftir þeirri meginreglu kröfuréttar sem 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er byggð á. Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi ekki fært fram sönnun fyrir staðhæfingum sínum um efni samningsins.

Áfrýjandi krefst lækkunar á kröfu stefnda vegna galla á frágangi á klæðningu áhaldahússins og kostnaðar sem áfrýjandi hafi haft af því að ljúka við klæðningu þess. Þannig hafi frágangur klæðingar við horn, vatnsbretti og hurðagöt verið gallaður. Áfrýjandi vísar um þetta til matsgerðar 15. júní 2007 sem gerð var eftir ljósmyndum, en að sögn var þá búið að lagfæra það sem talið var gallað.

Í fyrrnefndri matsgerð kemur fram að ekki hafi verið til deiliteikningar af samsetningu við horn, glugga og hurðir. Í framburði Leifs Stefánssonar byggingarstjóra, sem annaðist eftirlit fyrir hönd aðalverktakans, kom fram að einhverjar deiliteikningar hefðu verið gerðar af arkitekt en þær ekki reynst fullnægjandi. Hefði þetta því verið hannað á staðnum af starfsmönnum aðalverktakans. Ekki voru haldnir verkfundir á verktíma og ekki verður séð að áfrýjandi hafi haft reglubundið eftirlit með verkinu. Þá verður ekki séð að áfrýjandi hafi komið fram með athugasemdir við verkið á meðan verktíma stóð og eða við úttekt þess.

Af framansögðu athuguðu verður áfrýjandi ekki talinn hafa fært fram sönnun þess að verk stefnda hafi verið haldið þeim gæðafrávikum sem talist geti galli og stefndi beri ábyrgð á.

Óumdeilt er að stefndi lauk ekki við að klæða 10% af áhaldahúsinu, en stefndi fullyrðir að það hafi ekki verið hægt bæði vegna efnisskorts og þess að verkpallar hafi verið fastir við grind hússins. Hafi hann af þessum sökum dregið 10% af umsömdu verði fyrir klæðningu á sléttum plötum við útgáfu reikninga.

Áfrýjandi kveðst hafa látið ljúka við klæðningu áhaldahússins og krefur stefnda af því tilefni bóta að fjárhæð 944.200 krónur samkvæmt matsgerð.

Matsgerðin er byggð á forsendum áfrýjanda um efni verksamnings aðila sem hér að framan var hafnað. Þannig er þar metinn kostnaður við frágang sem stefndi segir að ekki hafi verið lokið þegar hann hvarf frá verkinu og hann hafi því ekki gert áfrýjanda reikning fyrir. Þá felst heldur ekki í matsgerðinni sönnun um þau útgjöld sem áfrýjandi varð fyrir við að ljúka klæðningu hússins. Þar sem áfrýjandi hefur ekki fært fram gögn til að sýna fram á raunkostnað sinn hefur honum ekki tekist sönnun um að kostnaður hans hafi verið meiri en nam 10% af umsamdri þóknun til stefnda við að klæða slétta fleti áhaldahússins.

Aðilar eru sammála um að til frádráttar kröfu stefnda komi 1.322.000 krónur og gera ekki ágreining um aðferð héraðsdóms við frádrátt þeirrar fjárhæðar.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Verkfræðistofan Rýni ehf., greiði stefnda, Hasa ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2007.

Mál þetta höfðaði Hasi ehf., Faxabraut 37c, Keflavík, með réttarstefnu útgefinni 28. júní 2006 á hendur Verkfræðistofunni Rýni ehf. Skúlagötu 44, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 19. nóvember sl.

Stefnandi krefst greiðslu á 7.852.516 krónum með dráttarvöxtum skv. 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001, af 321.280 krónum frá 26. febrúar 2006 til 15. mars sama ár, af 667.257 krónum frá þeim degi til 25. mars sama ár, af 1.148.325 krónum frá þeim degi til 12. apríl sama ár, af 2.090.931 krónu frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 2.418.615 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 3.481.845 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 3.978.600 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 4.150.108 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af stefnufjárhæðinni allri frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.702.408 krónum, sem stefndi hafi greitt inn á skuld sína við stefnanda og tekið hafi verið tillit til við dráttarvaxtakröfu.

Þá krefst stefnandi staðfestingar kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík í eignum stefnda sem fram fór 22. júní 2006. 

Loks krefst stefnandi málskostnaðar. 

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda.  Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

Stefnandi kveðst höfða mál þetta til heimtu eftirstöðva vangoldinna reikninga vegna vinnu sinnar við Hellisheiðarvirkjun sem undirverktaki hjá stefnda, svo og til staðfestingar á kyrrsetningargerð er fór fram 22. júní 2006. 

Í skýrslum þeirra Hjalta Ástþórs Sigurðssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, Odds Björns Sveinssonar, samstarfsmanns hans, og Ingibergs Ragnarssonar, forsvars­manns stefnda, kom fram að þeir hittust á Englandi og ræddu verkefnið og sömdu svo um að stefnandi tæki að sér að klæða áhaldahús Hellisheiðarvirkjunar.  Stefndi kemur að verkinu sem undirverktaki hjá ÞG verktökum, sem voru aðalverktakar hjá Orku­veitunni við byggingu virkjunarinnar.  Hjalti og Oddur héldu því fram að það hafi verið ákveðið verð á hvern fermetra af sléttum flötum, 2.755 krónur, en annað yrði unnið fyrir ákveðið tímagjald.  Sagði hann að ekki hefði verið hægt að bjóða ákveðið verð í verkið þar sem ekki hafi verið búið að teikna allar útfærslur.  Ingibergur Ragnarsson hélt því fram að þetta verð á hvern fermetra hefði gilt um allt verkið.  Hann hefði lagt bann við því að unnin yrðu aukaverk nema samkvæmt sinni beiðni.  Aðeins hafi verið samþykkt eitt aukaverk.  Stefnanda hafi verið falin smíði vinnupalla við húsið þegar starfsmenn hans mættu til starfa. 

Forsvarsmaður stefnanda hélt því fram að samið hefði verið um að greitt yrði fyrir tíu tíma vinnu, en unnið hafi verið frá klukkan átta að morgni til klukkan sex síð­degis.  Eftirlit með verkinu hafi að mestu verið í höndum Leifs Stefánssonar, byggingarstjóra hjá ÞG verktökum, en það fyrirtæki var aðalverktaki við framkvæmdina.  Ingibergur Ragnarsson, eða faðir hans, sem var á staðnum hafi reglulega fengið vinnuskýrslur.  Aukaverk hafi flest verið unnin að beiðni Leifs Stefánssonar, sum þó að beiðni Ingibergs Ragnarssonar.  Ingibergur Ragnarsson bar á hinn bóginn að hann hefði ekki fengið nema sumar vinnuskýrslurnar.  Í bréfi lög­manns stefnda 3. maí 2006, sem var svarbréf við innheimtubréfi lögmanns stefnanda, eru gerðar nokkrar athugasemdir, sem sýna þó að einhver hluti vinnuskýrslna hefur verið kominn í hendur stefnda.  Er tekið fram að stefndi hafi ekki samþykkt vinnu­skýrslur sem honum hafi borist. 

Stefnandi hefur lagt fram afrit 14 reikninga á hendur stefnda.  Á sex af afritunum er skráð að þeir séu greiddir.  Ógreiddu reikningarnir eru átta talsins og samtals að fjárhæð 3.482.851 krónur.  Þeir reikningar sem greiddir hafa verið eru samtals að fjárhæð 4.369.665 krónur.  Frá tveimur þeim fyrstu var þó dregin fjárhæð vegna matar annars vegar og hins vegar vegna kaupa stefnanda eða forsvarsmanns hans á hlut stefnda í fyrirtækinu Blue Steel Construction ltd.  Fyrir dómi hélt Ingibergur Ragnarsson því fram að stefnandi ætti að greiða sér 350.000 krónur vegna fæðis sem starfsmenn stefnanda nutu á vinnustaðnum.  Hjalti Sigurðsson staðfesti þetta.  Þá hélt Ingibergur því fram að draga hefði átt frá reikningum vegna verksins skuld stefnanda við sig vegna kaupa á hlut í áðurnefndu fyrirtæki í Bretlandi.  Hjalti Sigurðsson kvaðst hafa samþykkt þessa tilhögun þegar Ingibergur dró frá reikningunum, en ekki hefði verið samið um þessa tilhögun fyrirfram. 

Fram kemur í stefnu að stefnandi hætti störfum við verkið 9. maí 2006.  Hafi verkinu þá verið lokið nema klæðningu á þeim stöðum sem vinnupallar hindruðu framkvæmd verksins.  Kveðst stefnandi hafa dregið 10% frá reikningum sínum vegna þessa, í samráði við Leif Stefánsson, eftirlitsmann aðalverktakans.  Hjalti Sigurðsson sagði fyrir dómi að þeir hefðu hætt vegna þess að þeir fengu ekki greitt.  Byggingar­stjórinn hafi verið sáttur við að þær hættu.  Ingibergur Ragnarsson bar hins vegar að verkkaupi hefði ekki verið reiðubúinn til að taka við verkinu.  Kvaðst hann hafa fengið aðra menn til að ljúka við það.  Hafi það kostað sig um 1.500.000 krónur.  Leifur Stefánsson bar að aðalverktakinn hefði lokið verkinu og að Ingibergur hefði einnig lagt til einn mann.  Eitthvað hefði síðan verið lagfært eftir að úttekt var gerð.  Hann kvaðst ekki muna eftir því að stefnandi hefði verið beðinn um að laga eitthvað. 

Þann 30. janúar 2007 var að kröfu stefnda dómkvaddur matsmaður til að meta ýmis atriði varðandi verk stefnanda.  Matsgerð Auðuns Elíssonar byggingarfræðings er dagsett 15. júní 2007.  Fram kemur í matsgerðinni að hún sé takmörkuð við þær upplýsingar sem fram komi í málsgögnum, en þegar matsmaður skoðaði húsið hafði verið lokið við klæðningu og gert við meinta galla. 

Í fyrsta lið matsgerðar kemur fram, sem raunar er óumdeilt, að stefnandi hafi ekki lokið við að klæða alla útveggi.  Þá segir:  „Erfitt er að greina á fyrirliggjandi teikningum hvernig hver hluti klæðningarinnar hafi átt að vera útfærður, einnig hvernig útfærslur á samsetningum við horn og glugga og hurðaáfellur/klæðningar hafi átt að vera þar sem engar deiliteikningar eru til staðar.  Þegar myndir eru skoðaðar þá má greina að samsetningar og tengingar klæðningar séu ekki með þeim hætti að teljast megi fullnægjandi frágangur.  Einnig að samsetning við úthorn sé ekki með fullnægjandi hætti.“ 

Í öðrum lið er tekið fram að kostnaðartölur í matsgerð séu miðaðar við að framkvæmd sé unnin af öðrum aðila en matsþola og að ekki sé litið til tilboðs hans. 

Í þriðja lið er farið nákvæmlega yfir þau atriði sem sjást á ljósmyndum og matsmaður telur ófullnægjandi.  Í samantekt um þennan lið segir:  „Matsmaður telur að endurgera þurfi úthorn þar sem langveggir og skammveggir mætast í samræmi við þá klæðningu sem komin er við úthorn (sjá lið 1).  Endurgera þarf samsetningar og tengingar við vatnsbretti beggja vegna við hurðarop (mynd 5).  Endurnýja vatnsbretti þar sem kvarnað er upp úr áli við samsetningar (mynd 6).  Endurgera úthorn við hurðir, setja úthornalista og lagfæra klæðningu í samræmi við önnur úthorn (mynd 7).  Endurgera úthorn á vatnsbrettum klæðningar (myndir 1, 2 og 9).  Endurgera klæðningu (áfellu) innan og við hurðir (myndir 10 og 11).“

Í lok matsgerðar dregur matsmaður saman áætlun sína um kostnað.  Telur hann að kostnaður við klæðningu óklæddra flata nemi samtals 944.200 krónum.  Lagfæringar á úthornum, vatnsbrettum o.fl. telur hann að muni kosta 806.300 krónur.  Þá telur hann að tæknileg umsjón og eftirlit muni kosta 300.000 krónur.  Samtals nemi kostnaður því 2.050.000 krónum.  Þar af sé virðisaukaskattur 403.500 krónur. 

Með bréfi er barst sýslumanninum í Reykjavík 22. júní 2007 krafðist stefnandi þess að kyrrsettar yrðu eignir stefnda svo dygði til að tryggja kröfu samtals að fjárhæð 4.552.424 krónur, auk áfallandi vaxta og kostnaðar.  Í beiðni þessari er krafan rök­studd með því að ekki sé vitað til þess að stefndi eigi aðrar eignir en kröfur á hendur aðalverktakanum, ÞG verktökum, sem koma ættu til greiðslu 22. eða 23. júní. 

Við fyrirtöku málsins 22. júní mótmælti stefndi kröfunni, svo og því að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 væru uppfyllt.  Svo fór að kyrrsettar voru „ ... greiðslur til [stefnda] vegna útistandandi reikninga á hendur verkkaupa ÞG verktökum ehf. ... vegna framangreindrar kröfu allt að framangreindri fjárhæð. “ 

Í stefnu er skorað á stefnda að leggja fram sundurliðað yfirlit yfir þá verkþætti sem hann hafi krafið verkkaupa um og fengið greitt fyrir.  Þessari áskorun var ekki sinnt. 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Stefnandi segir að með munnlegu samkomulagi aðila hafi komist á samningur um verkið og verkframkvæmd.  Ekki hafi verið hægt að bjóða fast verð í alla þætti verksins þar sem fullnægjandi teikningar og upplýsingar hafi ekki legið fyrir.  Hafi verið boðið fast verð í hreina fleti en að önnur vinna skyldi greidd með ákveðnu tíma­gjaldi.  Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við tímaskýrslur sem stefnda hafi verið afhentar daglega. 

Þá segir stefnandi að stefndi hafi þegar fengið greitt frá verkkaupa fyrir vinnu stefnanda.  Skorar hann í stefnu á stefnda að leggja fram sundurliðað yfirlit um þá verkþætti sem hann hafi krafið verkkaupa um og þegar fengið greidda. 

Í stefnu er því mótmælt að inn í  uppgjör verði dregin óskyld málefni vegna fyrri samskipta starfsmanna stefnanda og fulltrúa stefnda. 

Stefnandi telur skilyrði 5. gr. laga 31/1990 um kyrrsetningu séu að öllu leyti uppfyllt.  Þannig eigi stefnandi óvarða kröfu á hendur stefnda um greiðslu peninga sem ekki verði þegar fullnægt með aðför.  Telur stefnandi að verulegar líkur séu á að draga muni úr möguleikum á því að krafa hans fáist greidd miðað við bága eignastöðu stefnda, svo og því að dragi að verklokum stefnda hjá verkkaupa.  Því hafi verið brýn nauðsyn á að krefjast kyrrsetningar á svo miklu af eignum stefnda að duga myndi til fullnustu á kröfum stefnanda að fenginni niðurstöðu dómsstóla. 

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kauparéttar og reglna um efndir samninga.  Þá vísar hann til 47. og 49. gr. laga nr. 50/2000 og 36. gr. laga 31/1990. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi kveðst hafa staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda samkvæmt samkomulagi þeirra.  Stefnandi hafi fengið verkið greitt að fullu, en samið hafi verið um fast verð.  Þá hafi verið samið um að greitt yrði fyrir smíði vinnupalla í tímavinnu og hafi hann þegar greitt stefnanda að fullu fyrir þá vinnu. 

Stefndi segir að samið hafi verið svo um að til frádráttar greiðslum fyrir verkið kæmi skuld stefnanda vegna kaupa hans á fyrirtæki stefnda í Bretlandi, Blue Steel Construction, 9.000 pund.  Er krafist lækkunar á kröfu stefnanda sem nemur þessari fjárhæð.  Í greinargerð er reiknað með gengi 28. júní 2006 og frádrátturinn talinn nema 1.247.940 krónum.  Við aðalmeðferð samþykkti stefndi að reikna frádráttinn sem 972.000 krónur. 

Stefndi bendir á að hluti af reikningum stefnanda sé fyrir aukaverk.  Raunar hafi þau átt að vera innifalin í aðalverki samkvæmt framlagðri verklýsingu.  Auk þess hafi þau verk sem innheimt sé fyrir sem aukaverk að stórum hluta verið ónýt og hafi þurft að vinna þau aftur.  Þá hafi bann verið lagt við því að stefnandi ynni aukaverk.  Liggi ekki fyrir verkbeiðnir eða samþykktar tímaskýrslur. 

Í greinargerð segir að stefndi hafi greitt reikninga að fjárhæð 3.702.408 krónur, en þeir reikningar sem að stefndi hafi móttekið séu að fjárhæð u.þ.b. 5.300.000 krónur. Aðra reikninga hafi hann ekki fengið eða ekki samþykkt.  Kveðst hann mót­mæla þeim.  Meint skuld stefnda við stefnanda sé að fullu greidd og gott betur. 

Varakröfu um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar byggir stefndi á eftir­greindum sjónarmiðum. 

Stefnandi hafi ekki lokið verki eins og honum bar.  Margir fletir hafi verið óklæddir og engar hornklæðningar hafi verið settar.  Þá hafi þurft að endurklæða öll dyraop að kröfu aðalverktaka.  Vatnsbretti hafi verið ófullnægjandi og rangt sett á.  Þá hafi frágangur við efri brún klæðningar einnig verið rangur.  Stefndi hafi staðið straum af öllum kostnaði vegna galla á verki stefnanda.  Vísar hann hér til skýrslu er yfirverkfræðingur hans og eftirlitsmaður aðalverktaka hafi unnið. 

Þá vísar stefndi á ný til þess er áður segir um aukaverk. 

Stefndi kveðst krefjast þess að kyrrsetningargerð sú sem framkvæmd var verði felld úr gildi, en hefur ekki uppi sérstök andmæli vegna hennar. 

Stefndi kveðst mótmæla dráttarvaxtakröfu sérstaklega og krefst þess að dráttar­vextir verði ekki dæmdir nema frá dómsuppsögu verði fallist á kröfur stefnanda. 

Um lagarök vísar stefndi til grunnreglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og meginreglna laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.  Um gagnkröfu sína vísar hann til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða.

Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni stefnda fullyrðing um að vinnuskýrslur þær sem stefnandi lagði fram eftir áskorun hans, sýndu ekki allar þær vinnustundir sem framlagðir reikningar krefðu um greiðslu fyrir.  Afhenti lög­maðurinn þá dóminum skriflegar athugasemdir um einstök atriði, en öflun skriflegra sönnunargagna hafði verið lýst lokið við fyrirtöku í dóminum 5. september sl.  Í greinargerð stefnda er ekki fjallað sérstaklega um vinnuskýrslur nema hvað skorað er á stefnanda að leggja þær fram. 

Við þetta er það að athuga að áður en málið var höfðað hafði stefndi undir höndum a.m.k. einhvern hluta af vinnuskýrslunum.  Er vitnað til þeirra í bréfi lög­manns hans 3. maí 2006.  Hafi stefndi ekki fengið skýrslurnar á verktímanum hefði verið rétt að krefja um þær, sérstaklega þegar reikningar bárust.  Þá lagði stefnandi vinnuskýrslurnar fram við fyrirtöku málsins í desember 2006.  Var stefnda í lófa lagið að taka saman vinnustundir samkvæmt þeim skýrslum sem hann hafði undir höndum og gera skýrar athugasemdir þegar í greinargerð um vinnustundir sem vantaði skýringar á eða hann taldi ofreiknaðar.  Þar sem ekki er fjallað um misræmi milli vinnuskýrslna og reikninga í greinargerð stefnda mun dómurinn ekki fjalla um þetta atriði.  Verður að miða við að reikningar séu í samræmi við vinnuskýrslur.  

Samningur aðila er munnlegur og eru þeir ekki sammála um efni hans að öllu leyti.  Stefnandi telur að samið hafi verið um tiltekið verð fyrir slétta fleti, en að aðrir hlutar verksins yrðu greiddir með tímagjaldi.  Stefndi telur að samið hafi verið svo um að umsamið gjald væri fyrir allt verkið. 

Stefndi gerði ekki athugasemd við reikningagerð stefnanda fyrr en með bréfi sínu 3. maí 2006, en þá hafði honum borist innheimtubréf lögmanns.  Stefnandi virðist hafa krafið um greiðslu fyrir það sem hann kallar „aukaverk“ í reikningnum 10. mars 2006.  Hefði verið rétt af stefnda að gera þá þegar athugasemd ef hann taldi reikninginn of háan. 

Þegar litið er til þess gjalds, sem ákveðið er fyrir hvern fermetra og borið saman við það sem meðdómendur telja sig vita að sé algengt í viðskiptum manna á milli, er sennilegt að samið hafi verið um fermetraverð fyrir slétta fleti eins og stefnandi heldur fram, en að fyrir aðra hluta skyldi krafið samkvæmt tímagjaldi.  Telur dómurinn því að reikningar stefnanda hafi verið í samræmi við unnið verk og samning aðila. 

Stefndi hefur haldið því fram að vinna stefnanda hafi verið haldin ýmsum ágöllum sem nauðsynlegt hafi verið að lagfæra.  Kveðst hann hafa kostað til sjálfur um 1.500.000 krónum.  Þessa fullyrðingu sína hefur hann ekki stutt gögnum.  Þá kom fram í skýrslu Leifs Stefánssonar fyrir dómi að ÞG verktakar, sem voru verkkaupar stefnda, hafi annast frágang eftir stefnanda, en að stefndi hefði lagt til einn starfsmann. Stefndi hefur einnig aflað matsgerðar eins og að framan er lýst.  Er þar metið ástand klæðningarinnar eftir ljósmyndum og reiknaður kostnaður við endurbætur.  Þessi aðferð er ónothæf í þessu tilviki.  Stefnandi hefði þurft að leggja fram sönnun þess að hann hefði haft kostnað af endurbótum á verki stefnanda til að unnt hefði verið að meta það til lækkunar eða niðurfellingar á kröfu stefnanda.  Með því að sýna fram á kostnað af nauðsynlegum úrbótum hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi borið þann kostnað.  Er í þessu sambandi ekki hjá því komist að líta til þess að stefndi sinnti ekki áskorun stefnanda um að leggja fram upplýsingar um greiðslur er hann hefur fengið frá verkkaupa. 

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á kröfur stefnanda sem byggjast á framlögðum reikningum.  Hinir ógreiddu reikningar eru þessir:

Nr. 5.  10.03.06.                                                   481.068
Nr. 8.  28.03.06.                                                     599.592
Nr. 9.  28.03.06.                                              343.014
Nr. 10.  01.04.06.                                                                 327.684
Nr. 11.  11.04.06.                                                              679.770
Nr. 12.  22.04.06.                                                                 383.460
Nr. 13.  28.04.06.                                                                    496.755
Nr. 14.  09.05.06.                                                                   171.508

Þar sem forsvarsmaður stefnanda hefur samþykkt að draga fæðiskostnað að fjárhæð 350.000 krónur frá reikningum sínum, svo og kaupverð hlutar í félagi, 9.000 bresk pund, verður einnig að draga þessar fjárhæðir frá kröfu hans.  Eru aðilar sammála um að reikna umrætt kaupverð sem 972.000 krónur.  Því dragast samtals 1.322.000 krónur frá kröfu stefnanda vegna þessara tveggja liða.  Greiðslur til stefnanda hafa þegar verið lækkaðar um 667.257 krónur vegna þessa, þannig að eftir standa 654.743 krónur.  Ekki er unnt að dæma kröfu stefnanda eins og hún hljóðar þar sem krafist er vaxta fyrir tímabil áður en til vanskila kom.  Stefndi verður dæmdur til að greiða fjárhæð hinna ógreiddu reikninga.  Þeir eru samtals að fjárhæð 3.482.851 krónur.  Að frádregnum áðurgreindum 654.743 krónum nemur krafan 2.828.108 krónum. 

Dráttarvextir verða dæmdir frá 15. degi eftir útgáfudag hvers reiknings, en miðað verður við að lækkun vegna fæðiskostnaðar og hlutafjárkaupa komi fram hlutfallslega jafnt á hvern af hinum ógreiddu reikningum.  Fjárhæðin ber því vexti sem hér segir:  Af 390.632 krónum frá 15. mars 2006 til 12. apríl sama ár, af 1.156.036 krónum frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 1.422.119 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 1.974.099 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 2.285.472 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 2.688.842 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af 2.828.108 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefndi hefur ekki komið fram með neinar röksemdir gegn þeirri fullyrðingu stefnanda að kyrrsetning hafi verið nauðsynleg til að tryggja kröfu hans.  Verður við svo búið að staðfesta kyrrsetningargerðina. 

Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefnda gert að greiða 400.000 krónur í málskostnað. 

Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og meðdómendurnir Guðmundur Baldvin Ólason byggingartæknifræðingur og Tryggvi Jakobsson byggingarfræðingur.

D ó m s o r ð

Stefndi, Verkfræðistofan Rýnir ehf., greiði stefnanda, Hasa ehf., 2.828.108 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 390.632 krónum frá 15. mars 2006 til 12. apríl sama ár, af 1.156.036 krónum frá þeim degi til 16. apríl sama ár, af 1.422.119 krónum frá þeim degi til 26. apríl sama ár, af 1.974.099 krónum frá þeim degi til 7. maí sama ár, af 2.285.472 krónum frá þeim degi til 13. maí sama ár, af 2.688.842 krónum frá þeim degi til 24. maí sama ár, en af 2.828.108 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað. 

Framangreind kyrrsetningargerð er staðfest til tryggingar dæmdum fjárhæðum.