Hæstiréttur íslands
Mál nr. 339/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
|
|
Miðvikudaginn 25. júní 2008. |
|
Nr. 339/2008. |
A ogB(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn dánarbúi C (enginn) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.
Sóknaraðilar kröfðust þess að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Héraðsdómur hafnaði kröfu þeirra. Í dómi Hæstaréttar sagði að í málinu lægi ekkert fyrir um hvort H hefði verið veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi C. Þótt slíkt leyfi hefði verið veitt myndi það þó ekki fá því breytt að sóknaraðilum, sem kvæðust vera nánustu eftirlifandi skyldmenni þess látna og hefðu lagt fram gögn um þau fjölskyldutengsl, væri heimilt að krefjast fyrir dómi opinberra skipta á dánarbúinu ef þeir vefengdu réttindi þess, sem einkaskiptaleyfi hefði fengið, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúi o.fl. Óvissa um það hvort aðrir kynnu að eiga réttindi til arfs eftir þann látna, sem gengi framar réttindum sóknaraðila, gæti ekki með réttu valdið því að héraðsdómari hafnaði þegar í stað kröfu þeirra um opinber skipti á grundvelli 1. málsliðar 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Samkvæmt gögnum málsins fæddist C í Bandaríkjum Norður Ameríku [...], þar sem foreldrar hans voru þá búsett, en þau munu nú bæði vera látin. Þau áttu fyrir eina dóttur, F, fædda [...], en ekki önnur börn. Hún er nú látin, en var gift G og eignuðust þau þrjú börn, sóknaraðila, sem fæddir eru [...] og [...], og dótturina I, sem einnig mun vera látin og ekki hafa látið eftir sig börn. C var veittur íslenskur ríkisborgararéttur 22. mars 2005 og var búsettur hér á landi þar til hann lést [...] 2008. Hann mun þá hafa átt lögheimili að [...] í Reykjavík. Samkvæmt vottorði úr þjóðskrá 5. júní 2008 var hjúskaparstaða hans ótilgreind. Sóknaraðilar kveðast enga staðfestingu hafa um að hinn látni hafi látið eftir sig niðja.
Sóknaraðilar beindu 16. maí 2008 kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta, en samkvæmt henni telja sóknaraðilar sig einu lögerfingja hans. Í kröfu þeirra er þess þó getið að kona að nafni H, fædd [...], hafi samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Reykjavík sótt um leyfi hans til einkaskipta á dánarbúinu á þeim grunni að hún væri ekkja eftir þann látna. Hún hafi lagt fyrir sýslumann staðfestingu sendiráðs Japan á Íslandi frá 30. janúar 2008 um að hún hafi gengið í hjúskap við C 6. september 2004 og hafi sú staðfesting verið reist á skráningu fjölskylduupplýsinga frá yfirvöldum í Tokyo í Japan. Sóknaraðilar andmæla því að þessi staðfesting verði lögð til grundvallar um lögerfðaréttindi eftir þann látna, enda styðjist hún aðeins við upplýsingar úr íbúaskrá í Tokyo og liggi ekkert fyrir um á hvaða gögnum þær upplýsingar séu byggðar. Sóknaraðilar kveðast aldrei hafa vitað til þess að sá látni hafi gengið í hjúskap, en hann hafi marg oft eftir að hann settist að hér á landi greint öðrum frá því að hann væri ókvæntur og fyrrnefnd H einungis vinkona hans.
Í málinu hafa sóknaraðilar ekki lagt fram eftirrit úr dánarskrá sýslumannsins í Reykjavík, svo sem þeim hefði borið samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 20/1991, og liggur því ekkert fyrir um hvort H hafi verið veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi C. Þótt slíkt leyfi hefði verið veitt myndi það þó ekki fá því breytt að sóknaraðilum, sem kveðast vera nánustu eftirlifandi skyldmenni þess látna og hafa lagt fram gögn um þau fjölskyldutengsl, er heimilt að krefjast fyrir dómi opinberra skipta á dánarbúinu ef þeir vefengja réttindi þess, sem einkaskiptaleyfi hefði fengið, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Óvissa um það hvort aðrir kunni að eiga réttindi til arfs eftir þann látna, sem gangi framar réttindum sóknaraðila, getur ekki með réttu valdið því að héraðsdómari hafni þegar í stað kröfu þeirra um opinber skipti á grundvelli 1. málsliðar 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Samkvæmt sömu málsgrein ber héraðsdómara þvert á móti að boða þá, sem kunna að telja til arfs og upplýst hefur verið um, til þinghalds, þar sem þeim gefst meðal annars kostur á að mótmæla kröfu um opinber skipti á þeim grunni að réttur þeirra til arfs gangi framar réttindum þeirra, sem skipta krefjast, en við úrlausn um kröfuna yrði þá að taka afstöðu til slíks ágreinings. Af þessum sökum verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2008.
Með kröfu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. maí sl. hafa A, f. [...], Bandaríkjum Norður-Ameríku, og B, f. [...], Bandaríkjum Norður-Ameríku, með vísan til 38. gr. laga nr. 20, 1991 um skipti á dánarbúum o.fl., krafist opinberra skipta á dánarbúi móðurbróður þeirra, C, kt. [...], Reykjavík, sem lést 17. janúar 2008.
Í kröfunni kemur fram að C hafi fæðst í Bandaríkjum Norður-Ameríku [...]. Foreldrar hans hafi verið D og E. Systir hans F, sem sé látin, hafi verið gift G. Þau hafi eignast þrjú börn, skiptabeiðendur og dóttur sem sé látin. Dóttirin hafi verið barnlaus en látið eftir sig eiginmann.
Skiptabeiðendur séu nánustu ættingjar C. Faðir þeirra, G, hafi komið hingað til lands að morgni 21. janúar 2008 til að undirbúa útförina fyrir hönd fjölskyldunnar. Síðla sama dags hafi borist fréttir af því að útförin hefði farið fram þá um morguninn. Andlátið hafi ekki verið tilkynnt sýslumanni fyrr en 22. janúar 2008, en óheimilt sé að láta útför fara fram nema sýslumaður hafi áður staðfest tilkynningu andláts, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 61, 1998 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 20, 1991.
Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 23. janúar 2008, hafi lögmaður skiptabeiðenda spurst fyrir um útgáfu dánarvottorðs, tilkynningu andláts og afhendingu staðfestingar sýslumanns á slíkri tilkynningu. Jafnframt hafi þess verið krafist að sýslumaður tæki eignir búsins í sína umsjón og að þær yrðu skrásettar, sbr. 16. og 17. gr. laga nr. 20, 1991. Erindið hafi verið ítrekað með bréfi dagsettu 27. sama mánaðar.
Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 1. apríl 2008, hafi kröfum skiptabeiðenda verið hafnað á þeim grundvelli að þeir væru ekki erfingjar C. Í ljósi þessarar afstöðu sýslumanns sé óhjákvæmilegt fyrir skiptabeiðendur að krefjast opinberra skipt á dánarbúi C.
Samkvæmt upplýsingum sýslumanns liggi fyrir beiðni H, f. [...], um leyfi til einkaskipta. Hún hafi lagt fyrir sýslumann staðfestingu á að hún og C hafi verið í hjúskap, útgefna á ensku af sendiráði Japans á Íslandi 30. janúar 2008 og sé hún sögð grundvölluð á fjölskylduskráningu yfirvalda í Ota Ward í Tokyo í Japan. Um sé að ræða skráningu persónuupplýsinga um nefnda H. Komi þar fram að hún hafi gifst C 6. september 2004.
Skiptabeiðendur telji framangreinda staðfestingu sendiráðsins ekki verða lagða til grundvallar við ákvörðun um skipti á dánarbúi móðurbróður þeirra. Skjalið hafi ekki að geyma annað en hvaða upplýsingar komi fram í íbúaskrá í Ota Ward í Tokyo. Ekki liggi fyrir á grundvelli hvers slíkar upplýsingar hafi verið færðar í persónuskrá H, en skiptabeiðendur telji að í öllu falli verði að liggja fyrir þau gögn, sem legið hafi til grundvallar þeirri skráningu, þ.m.t. skjöl undirrituð af C um ætlaðan hjúskap hans.
Engar fregnir hafi borist fyrir andlát C um að hann hefði gengið í hjúskap og hafi hann þó verið heimsfrægur. Þá hafi hann margoft lýst því yfir í vitna viðurvist, meðan hann var búsettur hérlendis, að hann væri ókvæntur og að nefnd H væri einungis vinkona hans.
Fram hafi komið í fjölmiðlum að C og nefnd H hafi haft í hyggju að giftast til að forða C frá framsali til Bandaríkjanna, en hann sat þá í fangelsi í Japan. Hafi sá ráðahagur verið hugsaður til bráðabrigða. Af fréttum verði hins vegar ráðið að japönsk yfirvöld hafi ekki fallist á að um gilt hjónaband væri að ræða, m.a. sakir þess að C hafi ekki verið með gilt vegabréf. Með lögum nr. 16, 2005 um veitingu ríkisborgararéttar, sem tóku gildi 22. mars 2005, hafi C verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Í þjóðskrá sé hjúskaparstaða C ótilgreind og hann ekki skráður kvæntur. Bendi það til þess að hann hafi verið ókvæntur við útgáfu íslensks ríkisborgararéttar og komu til landsins 2005.
Samkvæmt framansögðu telji skiptabeiðendur ósannað að C hafi verið í hjúskap er hann lést 17. janúar 2008. Áskilja þeir sér rétt til að afla frekari gagna og upplýsinga til að rökstyðja mál sitt frekar.
Skiptabeiðendur séu lögerfingjar C, sem systursynir hans. Þá kunni eftirlifandi eiginmaður systur þeirra, I, sem talinn er dvelja í Hong Kong, að telja til arfs eftir C, sé hann á annað borð á lífi. Þá hafi skiptabeiðendur heyrt af því að C hafi átt barnunga dóttur á Filippseyjum, en hafi enga staðfestingu fengið á því. Telji skiptabeiðendur því að þeir telji einir til arfs eftir nefndan móðurbróður þeirra.
Helst eignir búsins séu taldar vera íbúð og innbú að Espigerði 4 í Reykjavík, auk verulegra bankainnistæða í Sviss.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er erfingjum mæltur skilyrðislaus réttur til að krefjast opinberra skipta svo lengi sem skiptum hefur ekki þegar verið lokið vegna eignaleysis dánarbús eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi.
Samkvæmt því sem fram kemur í beiðni skiptabeiðanda heldur H því fram að hún hafi verið eiginkona C. Þá kemur fram í beiðninni að skiptabeiðendur hafi heyrt að C hafi látið eftir sig dóttur.
Börn arfleifanda og maki eru lögerfingjar samkvæmt 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Erfðaréttur barna eða annarra niðja foreldra verður því aðeins virkur að arfleifandi eigi enga niðja, engan maka og foreldrar hans séu látnir, sbr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Skiptabeiðendur eru samkvæmt því ekki erfingjar C ef hann á niðja á lífi og/eða eiginkonu.
Fyrir liggur að H, sem kveðst vera eiginkona C, hefur sótt um leyfi til einkaskipta.
Leiki vafi á því hverjir geti kallað til arfs úr búi er sýslumanni skylt samkvæmt 3. tl. 37. gr. laga nr. 20/1991 að krefjast opinberra skipta á búinu.
Það er því sýslumanns að krefjast opinberra skipta á búi C leiki einhver vafi á því hvort H hafi verið eiginkona hans og hvort hann hafi látið eftir sig barn.
Verður því að hafna kröfu skiptabeiðanda um opinber skipti á dánarbúi C.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu A og B, um opinber skipti á dánarbúi C, er hafnað.