Hæstiréttur íslands

Mál nr. 783/2016

Rannsóknarnefnd Alþingis (Kjartan Bjarni Björgvinsson skipaður stjórnandi rannsóknar samkvæmt ályktun Alþingis 2. júní 2016)
gegn
A (Gísli Guðni Hall hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanhæfi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu A, um að héraðsdómarinn Á viki sæti í tengslum við kröfu rannsóknarnefndar Alþingis um að A gæfi skýrslu fyrir dómi, var hafnað. Byggði A aðallega á því að Á væri vanhæfur til að fara með málið þar sem hann og skipaður stjórnandi rannsóknar á vegum nefndarinnar störfuðu báðir sem héraðsdómarar við sama dómstól. Í dómi Hæstaréttar var vísað í dóm réttarins í máli nr. 487/2002 þar sem fram kom að héraðsdómari yrði aldrei stöðu sinnar vegna vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að það varðaði persónu, störf eða hagsmuni annars héraðsdómara og helgaðist það af meginreglunni um sjálfstæði dómara, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998. Þá hafði A að öðru leyti ekki sýnt fram á að tengsl milli rannsakandans og Á væru með þeim hætti að með réttu væri unnt að draga óhlutdrægni dómarans í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2016, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Ásmundur Helgason héraðsdómari víki sæti í tengslum við kröfu sóknaraðila um að varnaraðili gefi skýrslu fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2002 í máli nr. 487/2002 verður héraðsdómari aldrei stöðu sinnar vegna vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að það varði persónu, störf eða hagsmuni annars héraðsdómara. Helgast það af meginreglunni um sjálfstæði dómara sem fram kemur í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, um að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð, en við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Þá hefur varnaraðili að öðru leyti ekki sýnt fram á að tengsl milli héraðsdómarans og skipaðs stjórnanda rannsóknar samkvæmt ályktun Alþingis 2. júní 2016 séu með þeim hætti að með réttu sé unnt að draga óhlutdrægni dómarans í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur, en kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2016.

         Kjartan Bjarni Björgvinsson hefur krafist þess fyrir hönd rannsóknarnefndar Alþingis að A, kt. [...], verði gert að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarefndir.

         Í kröfu sóknaraðila kemur fram að Alþingi hafi ályktað 2. júní 2016 að fram færi rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Forseti hafi skipað Kjartan Bjarna Björgvinsson til að stýra ofangreindri rannsókn 16. júlí sl. en hann er skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í kröfunni kemur fram að hann hafi boðað vitnið, A, ásamt öðrum þeim sem krafa sóknaraðila lýtur að, 11. nóvember sl. til skýrslutöku á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011, en vitnið sé fyrrverandi framkvæmdastjóri [...]. Í bréfi til vitnisins hafi verið upplýst að þar sem rannsóknarnefnd þeirri sem komið var á fót með ályktun Alþingis 2. júní sl. hefði ekki verið falið að veita álit sitt á því hvort til staðar kynnu að vera lögfræðileg atriði sem gætu varpað ljósi á hvort tilefni væri til þess að þar til bær stjórnvöld könnuðu grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011, teldi nefndin að ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 10. gr. sömu laga ættu ekki við um réttarstöðu vitnisins fyrir nefndinni.

         Því er lýst í kröfunni að vegna nánar tilgreindra viðbragða vitnisins telji rannsóknarnefndin að vitnið hafi ekki orðið við ósk rannsóknarnefndar um skýrslutöku, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 68/2011. Því óskar sóknaraðili eftir því að hann verði kvaddur fyrir dóm til skýrslutöku og til að svara spurningum nefndarinnar.

         Í kröfu vitnisins um að dómari víki sæti í málinu er vísað til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Almennt hafi verið litið svo á að þegar dómari á aðild að dómsmáli séu allir dómarar við sama dómstól verði allir dómarar að víkja sæti á grundvelli vanhæfis, sbr. fyrrgreint ákvæði sakamálalaga eða sambærilegs ákvæðis í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Fordæmi úr réttarframkvæmd styðji þá ályktun. Lítur vitnið svo á að leggja verði stöðu Kjartans að jöfnu við að hann sé aðili að þessu máli.

Niðurstaða

         Mál þetta er rekið á grundvelli sérlaga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Einungis er óskað atbeina dómara til að vitnið gefi skýrslu fyrir dómi um þau atvik sem rannsóknin sem Alþingi hefur ályktað að fram skuli fara, þar sem sóknaraðili telur að skilyrðum 2. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga sé fullnægt. Dómara er einungis ætlað að stýra þeirri skýrslutöku en kemur ekki að rannsókninni að öðru leyti. Kjartan Bjarni Björgvinsson er skipaður héraðsdómari við sama dómstól og undirritaður héraðsdómari. Honum hefur verið falið af forseta Alþingis á grundvelli laga nr. 68/2011 að stýra umræddri rannsókn. Hann á hins vegar enga hagsmuni tengda niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómara að ekki séu fyrir hendi atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni undirritaðs dómara með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Kröfu vitnisins um að dómarinn víki sæti er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ:

         Hafnað er kröfu vitnisins, A, um að dómarinn, Ásmundur Helgason, víki sæti í málinu.