Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 2

 

Þriðjudaginn 2. maí 2006.

Nr. 228/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Björk Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í greinargerð sóknaraðila í héraði kemur fram að rannsókn málsins sé á lokastigi. Unnið sé að gerð greinargerðar rannsóknara samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991 en málsgögn verði því næst send ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar.

Fallist er á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2006.

            

             Ár 2006, föstudaginn 28. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Söndru Baldvinsdóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

             Lögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, litháískur ríkisborgari, fd. [...] 1976, sæti áfram gæslu­varðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. júní 2006, kl. 16:00.

                       Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint fíkniefnabrot kærða sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins. Kærði hafi komið til landsins þann 26. febrúar sl. með flugi frá London og haft meðferðis 3 flöskur sem innihéldu sterkt amfetamín í vökvaformi og 2 flöskur með brennisteinssýru. Kærði hafi greint frá því að hann hafi keypt umræddar flöskur á markaði í Litháen í þeirri trú að þær innihéldu löglega drykki í samræmi við merkingar þeirra. Kærði hafi einnig greint frá því að tilgangur ferðar hans hingað til lands hafi verið sá að heimsækja vinkonu sína en hann hafi aðeins getað greint frá skírnarnafni hennar. Fram hafi komið við yfirheyrslu að megintilgangur ferðar hans hafi verið að ferðast um landið í 4 daga. Kærði hafi verið með tvo farsíma meðferðis en sagst hvorki muna símanúmer þeirra né pin-númer. Framburður kærða sé að mati lögreglu mjög ótrúverðugur en hann sé talinn hafa átt að afhenda flöskurnar til óþekkts móttakanda hér á landi. 

             Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands liggi fyrir að hin haldlögðu fíkniefni hafi reynst vera 2.040 ml af amfetamínvökva sem vóg 1.913,4 g. Styrkleiki vökvans hafi reynst vera 95%, 94% og 85% amfetamínbasi.  Samanlögð þyngd efnisins í duftformi sem amfetamínsúlfat væri 2.383 g en efnið hefði þá náð 100% styrkleika. Samsvari innihaldið um 17,49 kg af amfetamíndufti með 10% styrkleika en það sé algengur styrkleiki amfetamíns í útþynntum neyslu­skömmtum. Sé þannig um að ræða mjög sterkt efni sem unnt sé að nota til tilbúnings á miklu magni af amfetamíni í neyslueiningar. Einnig hafi verið greind brennisteinssýra í 2 flöskum sem ákærði hafi að auki haft í fórum sínum, alls 1028,1 g, en sýruna megi nota til að vinna amfetamínvökva í neysluhæft form.

             Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot.  Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 27. febrúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknar­hagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykja­víkur frá 17. mars sl., í máli nr. R-161/2006.  Þáttur kærða sé talinn afmarkaður við flutning fíkniefnisins og brennisteins­sýrunnar til landsins en kærði þyki þannig vera aðalmaður í hinu meinta broti. Um sé að ræða mikið magn sterks og hættulegs fíkni­efnis sem mögulegt hefði verið að margfalda með frekari meðferð á því. Einnig sé um að ræða talsvert magn eftirlitsskylds efnis að því er varði brennisteinssýruna. Nær öruggt þyki að fíkniefnið hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings, sbr. danska fræðiritið Straffeprocess, eftir prófessor Eva Smith, útgefið 2003, bls. 81. Þyki staða kærða sambærileg stöðu annarra sakborninga sem setið hafi í gæsluvarðhaldi fram að dómi á grundvelli almannahagsmuna, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 158/2001, 417/2000 og 471/1999, þegar legið hafi fyrir sterkur rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, þannig að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki full­nægt í því máli sem hér um ræði. 

             Rannsókn málsins sé á lokastigi hjá embættinu. Unnið sé að gerð greinargerðar rannsóknara, skv. 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála, en máls­gögn verði því næst send ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar.

             Lögreglan kveður sakarefnið vera talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins er á lokastigi. Eðli brotsins og umfang þess telst slíkt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Teljast skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt og ber því að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett, en ekki þykja efni til að beita vægari úrræðum. Dómari bendir á að rannsóknara beri skylda til að hraða rannsókn og meðferð málsins eins og hægt er.

Úrskurðarorð

             Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. júní 2006, kl. 16.00.