Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2013


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Gjöf
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni


                                     

Fimmtudaginn 23. janúar 2013.

Nr. 531/2013.

Veigur ehf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

þrotabúi Jafets Ólafssonar

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf. Stjórnarskrá. Afturvirkni.

Í nóvember 2008 afsalaði J tveimur bifreiðum til V ehf., en bú J var í júlí 2011 tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabú J höfðaði mál á hendur V ehf. til riftunar á fyrrgreindum afsölum á grundvelli reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skilyrði riftunar samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 194. gr. sömu laga voru talin uppfyllt og var krafa um riftun því tekin til greina. Þá var hvorki talið að það fyrirkomulag, sem mælt var fyrir um í lögum nr. 31/2010 um framlengingu fresta til riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, hefði brotið gegn réttmætum væntingum V ehf., einkum að virtum dómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 340/2011, né farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar um afturvirkni laga, enda hefði frestur til riftunar fyrrgreindra afsala ekki verið liðinn er hinn tímabundna framlenging hans samkvæmt lögum nr. 31/2010 tók gildi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi teflt fram þeirri málsástæðu að hann hafi greitt þrotamanni ætlað kaupverð bifreiða þeirra sem um ræðir í málinu. Þessa málsástæðu hafði áfrýjandi ekki uppi í héraði og kemst hún því ekki að hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína meðal annars á þeim málsástæðum að sú framlenging fresta til riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem átti sér stað með setningu laga nr. 31/2010, hafi brotið gegn réttmætum væntingum hans og haft með afturvirkum hætti íþyngjandi áhrif á réttarsamband hans og þrotamanns þannig að ekki fái samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Hvað varðar sjónarmið áfrýjanda um réttmætar væntingar er fyrst til þess að líta að löggjafinn hefur gengið út frá því um langa hríð að honum sé heimilt að breyta rétthæð krafna við búskipti án þess að stjórnskipunarlög takmarki svigrúm til þess. Hafa forgangskröfur samkvæmt því ýmist verið rýmkaðar eða þrengdar en það hefur um leið haft áhrif á stöðu annarra krafna í réttindaröð og þá eigendum þeirra ýmist til hags eða óhagræðis. Í annan stað hefur reglum um stöðu skattkrafna í réttindaröð einnig verið breytt með sambærilegum hætti og það haft augljós og jafnvel veruleg áhrif á hagsmuni annarra kröfuhafa. Í þriðja lagi hefur löggjafinn margoft veitt tilteknum kröfum lögveðrétt eða breytt stöðu slíkra krafna en það hefur með sama hætti verið til þess fallið að hafa áhrif á stöðu annarra krafna við búskipti. Löggjafinn hefur samkvæmt þessu ekki litið svo á að reglur á þessu sviði væru óbreytanlegar. Gat áfrýjandi því ekki skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast neitt er áhrif gæti haft á gildi ráðstafana sem þrotamaður greip til í aðdraganda þess að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar þetta er virt og litið er til niðurstöðu dóms Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 340/2011 verður ekki fallist á með áfrýjanda að það fyrirkomulag sem mælt var fyrir um í lögum nr. 31/2010 hafi brotið gegn réttmætum væntingum hans.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var sá tuttugu og fjögurra mánaða frestur til riftunar sem um ræðir í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki liðinn þegar fresturinn var tímabundið lengdur 27. apríl 2010 við gildistöku laga nr. 31/2010. Var því ekki gripið inn í réttarsamband áfrýjanda og þrotamanns þannig að í bága fari við grundvallarreglur stjórnskipunarinnar um bann við afturvirkni laga. Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Veigur ehf., greiði stefnda, þrotabúi Jafets Ólafssonar, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2013.

I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 30. apríl sl., er höfðað 30. ágúst 2012 af þrotabúi Jafets Ólafssonar, Aðalstræti 6 í Reykjavík, gegn Veigi ehf., Langagerði 26 í Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess að að rift verði þeim gerningum Jafets Ólafssonar að afsala þann 14. nóvember 2008 til stefnda bifreiðum með skráningarnúmerunum JSÓ og HBL 19. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 15.000.000 króna auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. nóvember 2008 til greiðsludags. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar.

         Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

II.

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2011 var bú Jafets Ólafssonar tekið til gjaldþrotaskipta. Þorsteinn Einarsson hrl. var skipaður skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin er 22. mars 2011, en þá mun héraðsdómi hafa borist krafa Landsbankans hf. um gjaldþrotaskiptin. Innköllun var birt í Lögbirtingarblaði 13. júlí 2011 og kröfulýsingarfresti lauk 13. september sama ár.

         Samkvæmt gögnum málsins var þrotamaður skráður eigandi bifreiðarinnar HBL 19, sem er bifreið af tegundinni Mercedes Benz C, árgerð 2007, og bifreiðarinnar JSÓ, sem hefur fastanúmerið UGN 44, og er af tegundinni Toyota Landcruiser  200, árgerð 2008. Skráningu í ökutækjaskrá Umferðarstofu var breytt 14. nóvember 2008 og hið stefnda félag skráður eigandi beggja bifreiðanna. Kaupdagur í ökutækjaskrá er í báðum tilvikum tilgreindur 22. september 2008. Hið stefnda félag var samkvæmt skránni til heimilis að Langagerði 26 í Reykjavík, eins og þrotamaður. Báðar bifreiðarnar voru síðan skráðar 30. nóvember 2009 á nafn Hildar Hermóðsdóttur, sem er eiginkona þrotamanns.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi kveður þrotamann hafa gefið skýrslu 18. ágúst 2011 hjá skiptastjóra og þá rakið gjaldþrot sitt til bankahrunsins 2008. Við það hafi hann orðið fyrir miklu tjóni vegna verðfalls hlutabréfa og annarra verðbréfa. Aðspurður um eignir hafi þrotamaður kveðið sig að mestu eignalausan. Hafi þrotamaður jafnframt upplýst að hann myndi verða við kröfu skiptastjóra um að senda honum yfirlit yfir ráðstöfun eigna á tímabilinu frá 2008 til 2011. Engin slík yfirlit hafi borist skiptastjóra.

         Athugun skiptastjóra hafi leitt í ljós að þrotamaður hafi 14. nóvember 2008 afsalað bifreiðunum HBL 19, Mercedes Benz C, árg. 2007, og JSÓ, (fastanúmer UG-M44) Toyota Landcruiser 200, árg. 2008, til Veigs ehf. Á þeim tíma hafi þrotamaður verið eigandi 70% hlutafjár í Veigi ehf. og eiginkona hans verið eigandi að 30% hlutafjár í félaginu. Félagið hafi því verið nákomið þrotamanni samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá hafi afsöl ökutækjanna verið dagsett 22. september 2008, en eigendaskipti þeirra verið skráð 14. nóvember 2008. Með vísan til 140. gr. laga nr. 21/1991, sbr. ákvæði 47. gr. og 48. gr. laga nr. 39/1978, hafi ökutækjunum verið ráðstafað til stefnda þann dag, er stefndi var skráður eigandi bifreiðanna. Verði ekki fallist á að bifreiðunum hafi verið afsalað til stefnda þann dag er á því byggt að þeim hafi verið afsalað 22. september 2008 og að gerningarnir séu riftanlegir með sömu rökum og gildi um afsöl þeirra 14. nóvember 2008.

         Stefnandi telur afsöl þrotamanns á fyrrgreindum bifreiðum til stefnda, Veigs ehf., vera gjafagerninga, enda hafi ekkert verið greitt fyrir ökutækin. Engin gögn hafi komið fram er sýni hvert hafi verið ætlað kaupverð bifreiðanna og að það hafi verið greitt. Hvorki þrotamaður né stefndi hafi freistað þess á nokkurn hátt að sýna fram á ætluð viðskipti. Stefndi hafi engar upplýsingar veitt um viðskiptin og hafi m.a. ekki orðið við kröfu stefnanda um að afhenda yfirlit úr bókhaldi stefnda um viðskipti við þrotamann, þ. á m. um ætlaða greiðslu kaupverðs ökutækjanna. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að þrotamaður hafi gefið stefnda fyrrgreindar bifreiðir 14. nóvember 2008.

         Stefnandi tekur fram að samkvæmt fullyrðingu þrotamanns hafi hann selt 70% hlutafjár í Veigi ehf. til eiginkonu sinnar og barna á árinu 2009. Sú ráðstöfun sé umdeild og tilefni annarra málaferla. Óumdeilt sé að Veigur ehf. hafi verið nátengdur þrotmanni þann dag er bifreiðunum var afsalað til félagsins, án þess að greitt væri fyrir ökutækin. Stefnandi leggur áherslu á að þrotmaður var á þeim tíma er bifreiðunum var afsalað, líkt og nú, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hins stefnda félags.

         Þá bendir stefnandi á að í nóvember 2009 hafi hið stefnda félag afsalað bifreiðunum til eiginkonu þrotamanns sem í dag sé eigandi bifreiðanna. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt ferilskrá hjá ökutækjaskrá Umferðarstofu sé þrotamaður skráður umráðamaður ökutækjanna og hafi hann verið skráður umráðamaður þeirra frá upphafi. Þrotamaður hafi því verið og sé formlega skráður umráðaaðili ökutækjanna þrátt fyrir afsal þeirra til stefnda og þrátt fyrir afsal stefnda á bifreiðunum til eiginkonu þrotmanns á árinu 2009. Vegna þessa vakni upp spurningar um tilgang með afsali þeirra. Telur stefnandi að þessi skráning renni stoðum undir þá ályktun að um gjafagerninga sé að ræða og að tilgangur þeirra hafi verið að tryggja að þær eignir yrðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum þrotamanns.

         Stefnandi vísar til þess að frestdagur við skiptin hafi verið 22. mars 2011 og hafi bifreiðunum verið afsalað til hins stefnda félags þegar um 28 mánuðir voru til frestdags við skipti á búi þrotamanns. Stefnandi telur að um riftanlega gerninga sé að ræða samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og krefst þess að þeim verði rift.

         Stefnandi tekur fram að með beiðni, dags. 16. apríl 2012, hafi hann óskað eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að meta verðmæta fyrrgreindra ökutækja þann 14. nóvember 2008 og 30. nóvember 2009. Síðar hafi stefnandi fallið frá mati á verðmæti ökutækjanna þann 30. nóvember 2009. Enda þótt matsbeiðni hafi verið lögð fram 16. apríl 2012 hafi matsmaður ekki enn verið dómkvaddur, en sá dráttur sé af völdum stefnda. Stefndi hafi mótmælt dómkvaðningunni og hafi m.a. lagt fram greinargerð til héraðsdóms þeirri kröfu til stuðnings. Í þeirri greinargerð sé haldið fram efnisvörnum gegn riftun gerninga, en þær efnisvarnir eigi að sjálfsögðu ekkert erindi inn í það mál. Stefnandi leggur áherslu á að þrátt fyrir efnisvarnir í matsmálinu hafi stefndi ekki lagt fram í því máli gögn er staðfesti að hann hafi greitt fyrir ökutækin. Fyrrgreint matsmál hafi dregist af völdum stefnda.

         Vegna mótmæla stefnda við matsbeiðni og tafa á því máli kveðst stefnandi hafa aflað mats Guðlaugs B. Ásgeirssonar, löggilts bifreiðasala, á verðmæti bifreiðanna þann 14. nóvember 2008. Þetta mat sé dagsett 21. ágúst 2012 og þar sé komist að eftirfarandi niðurstöðu:

         Bifreiðin JSÓ:

Guðlaugur B. Ásgeirsson, löggiltur bifreiðasali mat verðmæti JSÓ þann 14. nóvember 2008 vera  kr. 10.000.000.-

Bifreiðin HBL 19:

Guðlaugur B. Ásgeirsson, löggiltur bifreiðasali mat verðmæti HB-L19 þann 14. nóvember 2008 vera kr. 5.000.000.-

         Við aðalmeðferð breytti stefnandi kröfugerð sinni þannig að nú tekur hún alfarið mið af framangreindri niðurstöðu hins löggilta bifreiðasala. Til stuðnings þeirri niðurstöðu vísar stefnandi enn fremur til þess að í skattframtali þrotamanns 2009 hafi verðmæti bifreiðarinnar JSÓ verið tilgreint 11.022.201 krónur.

         Samkvæmt framansögðu krefst stefnandi þess að rift verði framangreindum gjafagerningum þrotamanns. Stefnandi færir þau lagarök fyrir kröfum sínum að sú ráðstöfun þrotamanns, að afsala Veigi ehf. fyrrgreindum bifreiðum, hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 194. gr. sömu laga, en samkvæmt ákvæðunum geti þrotabú krafist riftunar á gjöfum til nákominna, sem hafi verið afhentar sex til fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Stefnandi kveðst leggja áherslu á að ekkert hafi verið greitt fyrir hlutina. A.m.k. sé ósannað að svo hafi verið. Þá leggur stefnandi áherslu á að stefndi, Veigur ehf., hafi í nóvember 2008 líkt og nú verið nákominn þrotamanni, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991, eins og þegar hefur verið rakið.

         Þá byggir stefnandi á því að framangreindar ráðstafanir séu einnig riftanlegar á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. gjaldþrotalaga, nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin telst vera ótilhlýðileg. Á því sé byggt að stefndi, sem hafi verið og sé nákominn þrotamanni, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns eða að ógjaldfærni leiddi af ráðstöfuninni. Þá sé augljóst að ráðstöfun bifreiðanna hafi verið til tjóns fyrir kröfuhafa enda þær eignir ekki til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Þá hafi stefnda og forsvarsmönnum hans verið ljóst að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg eða a.m.k. mátt vita að svo hafi verið. Að sjálfsögðu hafi þrotamanni, sem var forsvarsmaður hins stefnda félags, verið ljóst hver staða hans hafi verið á þeim tíma og m.a. að gjaldfallin krafa Landsbankans á hendur honum hafi þá numið um 630 milljónum króna. Stefnandi telur öll skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 vera til staðar og því megi rifta gerningnum á þeim grunni einnig.

         Fjárkröfu sína reisir stefnandi á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þar sem krafa um riftun sé reist á 131. gr. þeirra laga. Þá styðjist fjárkrafa á hendur stefnda við 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem krafa um riftun sé reist á 141. gr. þeirra laga. Stefnandi telur augljóst að stefndi hafi haft hag að umræddum ráðstöfunum, sem nemi í heild sinni raunvirði þeirra bifreiða sem um ræði. Stefnandi telur verðmæti þeirra vera 15 milljónir króna, eins og fram hafi komið. Til stuðning fjárhæð kröfu sinnar vísar stefnandi til fyrrgreinds verðmats sem og skattframtals þrotamanns um verðmæti JSÓ. Stefnandi kveður fyrrgreinda fjárhæð svara til þess tjóns sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna fyrrgreindra ráðstafana, þar sem þær eignir séu nú ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Einnig telur stefnandi ljóst að stefndi hafi vegna tengsla við þrotamann verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri því að greiða búinu skaðabætur vegna þess tjóns sem það hafi orðið fyrir. Grandsemi og saknæm háttsemi stefnda blasi við enda hafi stefndi á þessum tíma verið alfarið í eigu þrotamanns og eiginkonu hans. Þá hafi þrotamaður verið skráður umráðamaður ökutækjanna eftir afsöl þeirra til stefnda og því sé augljóst að aðeins hafi átt að breyta um nafn á eiganda bifreiðanna, en þrotamaður skyldi hafa óbreytt umráð þeirra framvegis í skjóli frá kröfuhöfum þrotamanns.

         Verði á því byggt af hálfu stefnda að þrotamaður hafi greitt skuld við stefnda með afsali bifreiðanna og að viðskiptin hafi verið viðskiptafærð á viðskiptareikning þrotmanns í bókhaldi stefnda er á því byggt af hálfu stefnanda að þeir gerningar séu riftanlegir með vísan til 1. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 194. gr. laganna. Greiðsla skuldar með ökutækjum sé greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri og þá sé jafnframt uppfyllt skilyrði um greiðslu fyrr en eðlilegt hafi verið og að greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu þrotmanns verulega, enda greiðsla ekki venjuleg eftir atvikum. Þá vísar stefnandi til 141. gr. laga nr. 21/1991. Um sönnunarbyrði og ógjaldfærni þrotamanns á þessum tíma vísast til þess er fyrr greini. Um fjárhæð kröfunnar og rökstuðning að öðru leyti vísar stefnandi til umfjöllunar hér á undan um riftun gjafagerninga, m.a. til 142. gr. laga nr. 21/1991.

         Stefnandi krefur stefnda um dráttarvexti frá þeim degi er ökutækin hafi verið skráð í eigu stefndu, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991.

         Stefnandi byggir enn fremur á því að þrotamaður hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem hann hafi afsalað ökutækjunum til hins stefnda félags. Þrotamaður hafi sjálfur upplýst í skýrslutöku hjá skiptastjóra að gjaldþrot hans megi rekja til verðfalls hlutabréfa og annarra verðbréfa í kjölfar bankahrunsins. Það liggi í augum uppi að þrotamaður  hafi a.m.k. verið ógjaldfær frá 6. október 2008. Þá hafi þrotamaður jafnframt verið ógjaldfær er afsöl, sem eigi að vera dagsett 22. september 2008, hafi verið gerð enda hafi þá hrun verið fyrirsjáanlegt og skuldir hans langt umfram eignir. Þegar þrotamaður hafi fært félagi í sinni eigu og eiginkonu sinnar fyrrgreindar gjafir hafi bankahrun verið staðreynd og verðbréf í eigu þrotamanns orðin ónýt. Þrotamanni hafi verið það ljóst, enda hafi hann verið fyrrum stjórnandi fjármálafyrirtækis á Íslandi og því öllum hnútum kunnugur á markaði. Fjármálakerfi landsins hafi þá verið hrunið og þrotamaður ógjaldfær á þeim tíma. Bendir stefnandi m.a. á að þá hafi krafa Landsbankans á hendur þrotamanni numið liðlega 636 milljónum króna. Þá leggur stefnandi áherslu á að að á stefnda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að þrotamaður hafi verið gjaldfær er bifreiðunum var afsalað til stefnda.

         Stefnandi reisir kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 21/1991, einkum 3. gr., 131. gr., 134. gr., 140. gr., 141. gr., 142. gr., og 194. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar. Kröfu um dráttarvexti byggir hann á ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá styðst krafa hans um málskostnað við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991, og um málshöfðunarfrest til 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 194. gr. þeirra laga, sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi krefst sýknu annars vegar á þeim grundvelli að þrotamaður hafi verið gjaldfær, hvort heldur sé litið til stöðu hans 22. september 2008 eða 14. nóvember 2008, og hins vegar á því að riftunarfrestir samkvæmt 131., 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 séu liðnir.

         Stefndi kveður þrotamann, seljanda bifreiðanna, hafa verið gjaldfæran 22. september 2008, enda hafi bankahrunið ekki orðið fyrr en 6. október 2008. Ekki sé hægt að miða við skráningu hjá bifreiðaskrá, enda sé raunveruleg sala bifreiðanna, eins og hún komi fram í eigendaferilsskrá, það sem máli skipti. Ekki sé hægt að byggja á 140. gr. laga nr. 21/1991 í þessu sambandi. Staðfest afrit sölutilkynningar sanni einnig að raunveruleg sala hafi farið fram á uppgefnum kaupdegi.

         Stefndi heldur því fram að ófært sé að fullyrða að þrotamaður hafi verið ógjaldfær fyrir hrun bankanna. Engin gögn gefi vísbendingu um að svo hafi verið. Fyrir „hrun“ hafi skuldir hans ekki sætt þeirri stökkbreytingu sem síðar hafi orðið og eignahliðin hafi sömuleiðis verið ósködduð. Þykir stefnda raunar liggja svo í augum uppi að seljandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma að stefndi telur sig ekki þurfa að sanna það sérstaklega. Þá vísar stefndi á bug vangaveltum um að þrotamaður hafi búið yfir spásagnargáfu um bankahrunið umfram aðra menn.

         Stefndi telur sömuleiðis að þótt miðað verði við hina síðari dagsetningu, þ.e. 14. nóvember 2008, hafi þrotamaður og seljandi bifreiðanna, verið gjaldfær. Það helgist af allri þeirri óvissu sem þá hafi ríkt um afdrif eigna og skulda. Fyrirtæki þau sem seljandi hafi átt hluti í höfðu þá fæst farið í kollhnís og enginn í raun vitað sitt rjúkandi ráð. Fráleitt sé að byggja á því að óvissan hafi falið í sér sjálfvirka ógjaldfærni og að af þeim sökum hafi einstaklingum og öðrum verið óheimilt að standa að þeim löggerningum sem þeir hafi talið vera ábyrga, eðlilega og skynsamlega. Ekki gangi að túlka óvissutímann allan bönkunum í hag og að þegnunum hafi borið skylda til þess að passa upp á að þeir fengju sitt í dagslok ef allt færi á versta veg. Vafinn hljóti m.ö.o. að vera túlkaður þegnunum í hag. Sönnunarbyrðin um ógjaldfærni í máli þessu hljóti í öllu falli að hvíla á stefnanda eins og mál þetta snúi, með tilliti til hinna óvenjulega aðstæðna sem uppi hafi verið, og gildi þá einu til hvors tímamarksins sé litið.

         Að því er síðari málsástæðu stefnda varðar telur hann að ekki sé unnt að lengja fresti með afturvirkum hætti. Fyrir liggi að frestdagur í gjaldþrotaskiptum þrotamanns sé 22. mars 2011. Löggerningar þeir sem hér um ræði séu því gerðir tveimur og hálfu ári fyrir frestdag. Gjörningar þessi falli því langt utan hámarksriftunarfresta 131. gr. laga nr. 21/1991 og breyti þá engu þótt lög nr. 31/2010, frá 23. apríl sama ár, hafi lengt hámarksfrestinn í fjörtíu og átta mánuði. Stefndi heldur því fram að ekki sé hægt að breyta lögum afturvirkt með svo íþyngjandi hætti, enda verði og megi þegnarnir reikna með að sú lagaumgjörð, sem í gildi hafi verið þegar þeir taka ákvarðanir sínar og flytji eftir atvikum réttindi, haldist óbreytt eða verði a.m.k. ekki breytt íþyngjandi eftir á með afturvirkum hætti. Mikið óvissuástand hafi skapast í kjölfar falls bankanna sem síðar hafi haft ýmsar keðjuverkanir. Um miðjan nóvember 2008 hafi þannig hlutabréfasafn þrotamanns, sem hann hafði haft til tryggingar skuldum sínum við Landsbankann, verið fullnægjandi trygging og félögin þar á bak við ekki verið fallin. Því hafi við þær aðstæður verið fullkomlega eðlilegt að allir þeir, sem hið fjármálalega gjörningaveður hafi haft áhrif á, hafi leitast við að gæta hagsmuna sinna. Ekkert sé óeðlilegt, saknæmt eða riftanlegt við það, enda hljóti samfélag manna að mótast af því að hver og einn leiti bestu leiða fyrir sig og sína miðað við gildandi réttarreglur hverju sinni. Telur stefndi fráleitt að halda því fram að hagsmunum einstaklinganna og heildarinnar sé best borgið með því að slá skjaldborg um bankana með því að setja löggerninga viðskiptamanna þeirra í djúpfrysti svo bankarnir geti mjatlað þaðan næringu eftir hendinni. Þó að skjaldborg heimilanna hafi sannarlega aldrei risið sé ástæðulaust að vernda bankana sérstaklega með lagatúlkunum um afturvirkni. Líta þurfi til fleiri hagsmuna en kröfuhafa eingöngu. Telur stefndi að varla hafi verið ætlun löggjafans að tryggja bönkum og öðrum kröfuhöfum framlengdan, óheftan og ótímasettan aðgang að skuldurum, en meina þeim að freista þess að haga sínum málum að bestu manna ráðum. Heldur stefndi því fram að það stangist enda fullkomlega á við viðleitni löggjafans að öðru leyti í kjölfar hrunsins, sem hafi meðal annars falið í sér styttingu fyrningarfrests krafna við gjaldþrot og kröfu um sérstakan dóm til að slíta fyrningu í framhaldinu. Þá vísar stefndi til tilgangs laga nr. 31/2010 samkvæmt lögskýringargögnum. Ekkert sé þar vikið að afturvirkni. Þá liggi heldur ekkert fyrir um sérstakt álag eða tímaskort í þrotabúi gamla Landsbankans, sem hafi aftrað því að leita fullnustu á fjórum gengistryggðum skuldabréfakröfum bankans á hendur þrotamanni.

         Stefndi styður varakröfu sína um lækkun með því að engin rök séu færð fyrir mismuni á kröfufjárhæðinni og mati bílasala sem liggi fyrir í málinu. Útilokað sé því að dæma hærri fjárhæð en 15 milljónir króna verði á annað borð fallist á riftun. Þá beri að taka tillit til þess að markaður með notaðar bifreiðar, sérstaklega í dýrari kantinum hafi verið botnfrosinn þegar bifreiðarnar hafi verið seldar. Matinu sé einnig mótmælt að öðru leyti. Að öðru leyti sé varakrafan sett fram ex tuto.

         Stefndi telur samkvæmt framansögðu fráleitt að um einhverja riftanlega gjöf sé að ræða í skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og enn síður að um ótilhlýðilega ráðstöfun í skilningi 141. gr. sömu laga sé að ræða. Sama gildi að sínu leyti um 134. gr. laganna. Því er á því byggt af hálfu stefnda að riftunarskilyrði séu ekki fyrir hendi og þá ekki bóta- eða endurgreiðsluskilyrði 142. gr. laganna. Ekki hafi verið um auðgun eða hagsbætur að ræða fyrir stefnda auk þess sem huglæg skilyrði skorti. Fjárkrafa stefnanda eigi sé enga stoð og verði því að hafna henni alfarið sem og riftuninni. Endurgreiðslu- og eða skaðabótakröfum öllum sé mótmælt enda séu þær bæði órökstuddar, vanreifaðar og tilhæfulausar og skorti lagastoð. Ætti í raun að vísa þeim frá ex officio.

         Stefndi heldur því fram að sönnunarbyrði fyrir bæði riftunar- og bótaskilyrðum hvíli alfarið á stefnanda eins og mál þetta sé vaxið.

         Af hálfu stefnda er málskostnaðarkröfu stefnanda sérstaklega mótmælt með vísan til 4. mgr. 130. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991, en hann kveður stefnanda reka þrjú riftunarmál gegn stefnda samtímis sem hæglega hefði verið hægt að reka í einu máli. Þá er vaxtakröfunni sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda sem allt of hárri og andstæðri lögum nr. 38/2001, en óheimilt sé að reikna dráttarvexti frá því tímamarki sem gert sé í kröfugerðinni.

         Til stuðnings málaltilbúnaði sínum vísar stefndi meðal annars til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 með síðari breytingum, einkum 131., 134., 140., 141., 142., 194. gr., sbr. lög nr. 31/2010, vaxtalaga nr. 38/2001, einkum III. og IV. kafla laganna. Þá vísar stefndi til meginreglna fjármuna- og kröfuréttarins sem og meginreglna réttarfarsins. Hann vísar og til stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 69. og 72. gr., sem og til fræðimanna um afturvirkni laga. Loks sé vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafa um málskostnað sé reist á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laganna. Einnig sé vísað til 4. mgr. 130. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 27. gr.

IV.

         Stefnandi reisir riftunarkröfu sína á aðallega á því að þrotamaður hafi gefið stefnda, sem hafi verið honum nákominn, þær tvær bifreiðar sem dómkröfurnar lúta að, innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 194. gr. sömu laga. Stefndi telur að þau tímamörk hafi verið liðin á frestdegi auk þess sem skilyrðum riftunar sé ekki fullnægt þar sem þrotamaður hafi verið gjaldfær er bifreiðarnar voru afhentar hinu stefnda félagi.

         Í málinu liggur fyrir útprent úr ökutækjaskrá um bifreiðarnar HBL 19 og UGM 44, en síðargreinda bifreiðin ber skráningarnúmerið JSÓ, sem og ódagsettar tilkynningar til Umferðarstofu um eigendaskiptin. Efni þessara skjala eru rakin í kafla II í dóminum. Eins og þar kemur fram var hið stefnda félag skráð fyrir bifreiðunum 14. nóvember 2008. Skráning bifreiðar í ökutækjaskrá er nauðsynleg tryggingarráðstöfun til að koma í veg fyrir að betri réttur fáist með fullnustugerð, sbr. 47. og 48. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og dóm Hæstaréttar 28. janúar 1985 í máli nr. 13/1984 (Hrd. 1985: 49). Samkvæmt því ber að miða við að afhending bifreiðanna hafi átt sér stað 14. nóvember 2008, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991, en ekki 22. september sama ár. Frestdagur við skipti á búi þrotamanns var 22. mars 2011 eða tuttugu og átta mánuðum síðar og átta dögum betur.

         Ekkert liggur fyrir um að hið stefnda félag hafi greitt þrotamanni fyrir bifreiðarnar og er því raunar ekki borið við í greinargerð þess. Með þessum ráðstöfunum rýrnuðu eignir þrotamanns sem nam verðmæti bifreiðanna og samsvarandi eignaaukning varð hjá hinu stefnda félagi. Það var að meiri hluta í eigu þrotamanns og var félagið því nákomið honum, sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991. Þá liggur fyrir að vörslur bifreiðarinnar breyttust ekki við eigendaskiptin auk þess sem viðurkennt er að til þessara gerninga hafi verið gripið öðrum þræði í öryggisskyni vegna óvissu um fjárhagsstöðu þrotamanns. Samkvæmt þessu liggur fyrir að um gjöf hafi verið að ræða í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991 sem eins og áður segir var innt af hendi 14. nóvember 2008.

         Í 2. mgr. 131. gr. laganna segir að kefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þar kemur jafnframt fram að þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Með 1. gr. laga nr. 31/2010 var bætt við nýju ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 21/1991 sem varð að 194. gr. þeirra síðarnefndu. Þar kemur ótvírætt fram að í stað tuttugu og fjögurra mánaða frests samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 131. gr. skuli hann vera fjörtíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð séu fyrir árslok 2012. Stefndi telur þessa lengingu frestsins fela í sér afturvirka lagasetningu sem stangist á við grundvallarreglur stjórnskipunar og að hún sé því að engu hafandi.

         Í lögum nr. 31/2010, er tóku gildi 27. apríl 2010, voru engin ákvæði um lagaskil. Því gilda almennar reglur um það efni. Nýjum lögum verður almennt beitt um lögskipti sem undir þau falla þó að til þeirra hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra. Með setningu laga nr. 31/2010 var í engu hróflað við þáttum er lúta að réttarstöðu stefnda sem voru umsamdir eða til lykta leiddir er lögin tóku gildi. Þau atriði í réttarstöðu hins stefnda félags, sem ekki voru ákveðin í tengslum við eigendaskipti bifreiðanna þegar lögin tóku gildi, markast hins vegar af þeim. Engu skiptir þó að væntingar stefnda hafi staðið til annars. Ekki er fallist á að beiting þessara sjónarmiða við lagaskil feli í sér afturvirka lagasetningu sem stangist á við grundvallarreglur stjórnskipunar. Þegar fresturinn samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 var tímabundið lengdur við gildistöku laga nr. 31/2010 í fjörtíu og átta mánuði var tuttugu og fjögurra mánaða frestur til að rifta gjöf þrotamanns til stefnda ekki liðinn. Samkvæmt öllu framansögðu verður ákvæði 194. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, beitt í máli þessu, en eins og rakið hefur verið var mál þetta höfðað 30. ágúst 2012. Umræddir gjafagerningar fóru fram innan þeirra tímamarka sem þar greinir.

         Efni 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið rakið. Riftunarregla þessi er hlutlæg þannig að fallast ber á riftun sé hlutbundnum skilyrðum, sem þar er getið, fullnægt. Samkvæmt ákvæðinu er það ekki skilyrði riftunar að sýnt sé fram á að þrotamaður hafi verið ógjaldfær er gjöf var innt af hendi. Liggi hins vegar fyrir að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær verður gjöfinni ekki rift. Eðli máls samkvæmt hvílir sönnunarbyrði á stefnda um að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær. Hvað þetta atriði varðar er í máli þessu ekki við nein gögn að styðjast nema staðhæfingar þrotamanns um gjaldfærni sína, en hann er jafnframt fyrirsvarsmaður stefnda. Ekkert liggur því fyrir um hverjar eignir hans hafi verið um miðjan nóvember 2008 eða hver skuldastaða hans hafi þá verið. Þá eru engar upplýsingar í málinu um greiðslufærni hans á sama tíma. Verður stefndi að bera hallan af því. Þar sem öðrum skilyrðum riftunar samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 194. gr. sömu laga, er fullnægt, verður fallist á að gjöf bifreiðanna verði rift eins og stefnandi fer fram á.

         Fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda er reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Hann kveður bifreiðarnar hafa komið stefnda að fullum notum og krefur stefnda um verðmæti þeirra um miðjan nóvember 2008 er eigendaskiptin fóru fram. Við aðalmeðferð breytti stefnandi fjárkröfu sinni þannig að hún tekur nú mið af fyrirliggjandi mati löggilts bifreiðasala á verðmæti þeirra 14. nóvember 2008. Þar er Toyota Landcruiser bifreiðin metin á 10 milljónir króna en Mercedes Benz bifreiðin á 5 milljónir króna. Gegn andmælum stefnda liggur ekki fyrir að samkomulag sé milli aðila um að leggja þetta álit til grundvallar úrlausn málsins. Þess var aflað einhliða af hálfu stefnanda og þar kemur ekki fram á hvaða forsendum það er reist. Þá gaf hinn löggilti bifreiðasali ekki skýrslu í málinu. Stefndi hefur andmælt því sérstaklega að bifreiðarnar hafi verið jafn verðmætar 14. nóvember 2008 og stefnandi heldur fram.

         Ekki liggja fyrir nein samtímagögn um verðmæti bifreiðanna við eigendaskiptin. Stefnandi fékk í fyrstu dómkvaddan matsmann til að meta verðmæti þeirra. Af óljósum ástæðum virðist matsvinnu hafa verið hætt. Á það er fallist að álit af því tagi sem krafa stefnanda er reist á hafi afar takmarkað sönnunargildi. Til þess ber þó að líta báðar bifreiðarnar voru mjög nýlegar er eigendaskiptin fóru fram, en Toyota Landcruiser bifreiðin var nýskráð í janúar 2008 og Mercedes Benz bifreiðin í október 2007. Þeirri fullyrðing í stefnu er ómótmælt að í skattframtali þrotamanns 2009 hafi verðmæti Toyota Landcruiser bifreiðarinnar verið talið nema rúmlega 11 milljónum króna. Í ljósi 3. töluliðar 73. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er líklegt að það hafi verið upphaflegt kaupverð bifreiðarinnar, en eins og fram er komið virðist hún hafa verið keypt snemma árs 2008. Sambærilegar upplýsingar um Mercedes Benz bifreiðina liggja hins vegar ekki fyrir. Þrátt fyrir framangreindar vísbendingar í gögnum málsins um verðmæti bifreiðanna telur dómurinn að gegn andmælum stefnda hafi stefnandi ekki lagt fram viðhlítandi gögn sem geti skotið stoðum undir fjárhæð fjárkröfunnar. Sá þáttur málsins er því vanreifaður og óhjákvæmilegt að vísa þeirri kröfu frá dómi án kröfu.

         Samkvæmt framansögðu er tekin til greina krafa stefnanda um að rift verði afsali þrotamanns 14. nóvember 2008 á bifreiðum með skráningarnúmerin JSÓ og HBL 19. Með heimild í 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 er fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda hins vegar vísað frá dómi. Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Í ljósi umfangs málsins og efni ágreiningsins þykir hann hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. Í máli þessu liggja ekki fyrir upplýsingar um önnur mál sem stefnandi hefur höfðað gegn stefnda og verður því ekki litið til 4. mgr. 130. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 við ákvörðun málskostnaðar.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Rift er afsali Jafets Ólafssonar 14. nóvember 2008 til stefnda, Veigs ehf., á bifreiðum með skráningarnúmerin JSÓ og HBL 19.

         Fjárkröfu stefnanda, þrotabús Jafets Ólafssonar, á hendur stefnda er vísað frá dómi.

         Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.