Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/1999


Lykilorð

  • Banki
  • Opinberir starfsmenn
  • Starfslokasamningur
  • Biðlaun
  • Niðurlagning stöðu
  • Sératkvæði


           

Fimmtudaginn 3. febrúar 2000.

Nr. 357/1999.

Bjarni Magnússon

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.

Steingrímur Eiríksson hdl.)

 

Bankar. Opinberir starfsmenn. Starfslokasamningur. Biðlaunaréttur. Niðurlagning stöðu. Sératkvæði.

Í október 1997 var gerður starfslokasamnigur við B, sem hafði starfað hjá bankanum LÍ í 42 ár. Vinnuframlags hans var ekki krafist í þriggja mánaða uppsagnarfresti, en eftir það skyldi hann fá greidd í einu lagi 6 mánaða laun auk bifreiðahlunninda og 6/12 af orlofsframlagi og launum 13. mánaðar. Höfðaði B mál gegn LÍ hf. vegna uppsagnarinnar. Talið var að um uppsögn B ætti að fara eftir sérreglum kjarasamninga, sbr. lög nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins. Hefði átt að segja B upp með sex mánaða fyrirvara og gefa honum kost á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn tæki gildi. Var talið að réttar B til að tala máli sínu hefði verið gætt, en ekki var talið liggja fyrir að málið hefði verið rætt frá því sjónarmiði að um niðurlagningu stöðu væri að ræða. Talið var að staða B hefði verið lögð niður og að ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ættu við um B og því gæti hann átt rétt til bóta er næmi launum í 12 mánuði væri starf hans lagt niður, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki var tekin til greina krafa B um rétt til sambærilegs starfs hjá LÍ hf. og hann gegndi hjá LÍ, enda hefði störfum B verið lokið þegar LÍ hf. tók við rekstri bankans. Ekki var talið að B hefði verið beittur ólögmætri nauðung við undirskrift samningsins, en talið var ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að B skyldi vera bundinn af samningnum. Var honum því vikið til hliðar að hluta og LÍ hf. dæmdur til að greiða B bætur sem námu 6 mánaða launum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 9. september 1999. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til sambærilegs starfs hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands, það er sem sérfræðingur í útlánastýringu við útlánaeftirlit. Þá verði stefndi dæmdur til að greiða 3.466.383 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.540.297 krónum frá 3. janúar 1998 til 1. október sama ár, en af 3.466.383 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Héraðsdóm kvað upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Þar er því lýst að Landsbanki Íslands gerði starfslokasamning við áfrýjanda 6. október 1997. Samkvæmt honum samþykkti áfrýjandi að láta af störfum hjá bankanum 5. janúar 1998. Vinnu hans var ekki krafist frá og með 1. október 1997, en bankinn skyldi þó greiða honum laun með venjulegum hætti til 31. desember 1997. Ennfremur átti bankinn 1. janúar 1998 að greiða honum í einu lagi sex mánaða laun og bifreiðahlunnindi og 6/12 af orlofsframlagi og launum 13. mánaðar. Með því að hann naut starfsins fram yfir áramót var honum tryggð hækkun lífeyrisréttinda, sem gildi tók 1. janúar 1998.

Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi verið beittur nauðung til undirritunar samnings þessa og ekki hafi hann heldur fengið að tala máli sínu. Þá heldur hann því fram að vegna ákvæða laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eigi hann rétt á starfi hjá bankanum eftir að hann var gerður að hlutafélagi. Vitnar hann í því sambandi til bréfs bankans til hans 27. júní 1997 og yfirlýsingu hans sjálfs frá 20. ágúst sama ár, þar sem hann óskaði eftir starfi við Landsbanka Íslands hf. Loks heldur hann því fram að samningurinn hafi verið ósanngjarn gagnvart sér þar sem hann hafi átt að njóta réttar til biðlauna samkvæmt lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eða lögum nr. 70/1996, sem leystu þau lög af hólmi.

II.

Í lögum nr. 10/1928 um Landsbanka Íslands sagði í 1. gr. að bankinn væri sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins undir sérstakri stjórn. Samkvæmt 45. gr. laganna skyldi framkvæmdastjórn bankans ráða alla þá starfsmenn sem bankaráðinu væri eigi sérstaklega falið að ráða og segja þeim upp. Starfsmenn bankans skyldu að jafnaði ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þegar lögin voru endurútgefin með lögum nr. 33/1957 sem lög nr. 63/1957 var efnislega samhljóða ákvæði í 41. gr. þeirra. Í 13. gr. laga nr. 11/1961 um Landsbanka Íslands sagði að bankaráð réði tiltekna forstöðumenn en alla aðra starfsmenn réði bankastjórnin og segði þeim upp. Um laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans svo og eftirlaun færi eftir ákvörðun bankaráðs. Með heimild í 44. gr. reglugerðar nr. 30/1962 um bankann voru þessar ákvarðanir teknar í svonefndum reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna. Var þar meðal annars mælt fyrir um ýmis starfskjör bankamanna svo sem uppsagnarfrest. Efni þessara reglugerða og breytingar á þeim urðu til í viðræðum bankanna og Sambands íslenskra bankamanna allt þar lög nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins tóku gildi. Samningsréttur starfsmanna í þjónustu ríkisbankanna var fyrst formlega viðurkenndur með þeim lögum. Reglugerðir þessar munu hafa verið gefnar út sameiginlega af öllum bankaráðum í landinu og gilti einu hvort þeir voru í eigu ríkisins eða ekki. Í þessum reglugerðum voru ákvæði um ráðningar og starfskjör bankamanna.

Engin breyting var gerð á lagaákvæðum um uppsagnarfrest bankastarfsmanna við gildistöku laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur voru þau óbreytt í lögum nr. 63/1957. Í athugasemdum með frumvarpi því sem samþykkt var og varð að lögum nr. 11/1961 kemur ekki fram að ætlunin hafi verið að breyta ráðningarkjörum starfsmanna Landsbankans. Er ekki annað fram komið en að þeir hafi alltaf verið ráðnir með uppsagnarfresti. Hefur sú framkvæmd verið óslitin að minnsta kosti frá samþykkt laga nr. 11/1961 að mæla fyrir um starfskjör fyrst í launaákvörðunum bankaráða og síðar í kjarasamningum sem höfðu ákvæði um uppsagnarfrest. Í 1. gr. laga nr. 38/1954 sagði að ákvæði í lögum sem öðruvísi mæltu fyrir um einstaka flokka starfsmanna skyldu haldast. Af þessu ákvæði laganna og óslitinni framkvæmd um starfskjör bankastarfsmanna þykir leiða að ákvæði laga nr. 38/1954 hafi gilt nema öðruvísi væri mælt í lögum og ákvörðunum settum af bankaráðunum með heimild í lögum. Verður og í þessu sambandi að líta til þess að ríkisbankarnir sinntu atvinnurekstri í samkeppni við aðrar bankastofnanir en voru ekki hefðbundnar stjórnsýslustofnanir og starfsmenn þeirra bjuggu við launakjör, sem um margt voru frábrugðin því er tíðkaðist um aðra ríkisstarfsmenn.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1997 átti Landsbanki Íslands hf. að taka við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands 1. janúar 1998. Í 8. gr. sömu laga var svo fyrir mælt að allir starfsmenn Landsbankans, sem tækju laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skyldu eiga kost á sambærilegu starfi hjá hlutafélagsbankanum við yfirtöku hans á ríkisviðskiptabankanum. Tæki maður við starfi hjá hlutafélagsbankanum skyldi hann njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Verður því við það að miða að Landsbanki Íslands hf. hafi tekið við starfssamningum Landsbanka Íslands eins og þeir voru 1. janúar 1998. Gagnvart áfrýjanda átti hann að framkvæma starfslokasamninginn og svara til vanheimilda hans. Stefndi er því réttur aðili að máli þessu.

Áfrýjandi réðst til starfa hjá Landsbanka Íslands árið 1955 og hafði því unnið hjá bankanum í 42 ár 1. október 1997. Hafði hann gegnt ýmsum störfum innan bankans en síðustu fimm árin starfaði hann sem sérfræðingur við útlánaeftirlit. Um starf hans höfðu gilt samkvæmt því sem áður segir lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 38/1954 og síðan lög nr. 70/1996 með þeim breytingum sem leiddi af kjarasamningi við Samband íslenskra bankamanna, sbr. lög nr. 34/1977. Átti samkvæmt því að ákveða laun og önnur starfskjör starfsmanna með kjarasamningum milli Sambands íslenskra bankamanna og sameiginlegrar nefndar sem bankaráð ríkisbankanna skipuðu. Samkvæmt grein 11.2.3 í gildandi kjarasamningi bar að segja áfrýjanda upp með sex mánaða fyrirvara. Þá átti samkvæmt grein 11.2.4 að gefa honum kost á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn tæki gildi. Í héraðsdómi er því lýst að starfslok áfrýjanda voru við hann rædd og að hann fékk að koma að tillögum um hvernig þeim skyldi háttað. Verður því að telja að réttar hans til að tala máli sínu hafi verið gætt. Hins vegar liggur ekki fyrir að málið hafi verið rætt frá því sjónarmiði að um niðurlagningu stöðu væri að ræða.

IV.

Fram er komið að bankastjórn réði í þá stöðu er áfrýjandi gegndi og er ósannað að stjórnin hafi þurft að bera uppsögn hans undir bankaráð.

Þótt bankastarfsmenn í þjónustu ríkisins hafi samkvæmt framansögðu verið ráðnir með uppsagnarfresti samkvæmt lögum eða reglum sem settar voru með heimild í lögum og um uppsögn þeirra hafi gilt sérstakar reglur, áttu ákvæði laga nr. 38/1954 við um þá sem aðra ríkisstarfsmenn hefðu reglur um bankamenn ekki að geyma sérreglur þar um. Biðlaunaréttur ríkisstarfsmanna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 taldist til meginréttinda þeirra samkvæmt lögunum. Hafa réttindi þessi einnig verið talin ná til þeirra sem segja mátti upp með uppsagnarfresti. Þar sem í lögum og reglum um bankastarfsmenn hafa ekki verið sérstök ákvæði um réttarstöðu þeirra þegar staða er lögð niður þykja ákvæði 14. gr. einnig hafa átt við um þá. Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996, sem tóku við af lögum nr. 38/1954, gat áfrýjandi því átt rétt til bóta er næmi launum í 12 mánuði væri starf hans lagt niður.

Í framburði Sverris Hermannssonar fyrrum bankastjóra og Jóhanns Ágústssonar fyrrum aðstoðarbankastjóra kemur fram að áfrýjanda og nokkrum öðrum hafi verið boðnir starfslokasamningar í því skyni að spara í rekstri bankans. Má af framburði þessum ráða að störf þeirra hafi verið lögð niður. Áfrýjandi hélt óbreyttum kjörum til áramóta 1997/1998 og verður að telja að staðan hafi verið lögð niður miðað við það tímamark. Þar sem starf áfrýjanda hafði þannig verið lagt niður átti hann þess ekki kost að fá starf við Landsbanka Íslands hf. í samræmi við ákvæði 8. gr. laga nr. 50/1997 við yfirtöku hlutafélagsbankans á starfsemi ríkisviðskiptabankans 1. janúar 1998. Honum hefur ekki staðið til boða sambærilegt starf hjá stefnda eða notið launa hjá öðrum og á því 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 ekki við um hann. Starfslokasamningur sá sem gerður var við áfrýjanda bauð ekki upp á eins góð kjör og hefði hann verið látinn njóta biðlauna.

V.

Af því sem að framan er rakið þykir leiða að staða áfrýjanda hafi með starfslokasamningnum verið lögð niður frá og með 1. janúar 1998 og hafi hann ekki fengið jafn góð kjör og hann átti rétt á samkvæmt lögum nr. 70/1996. Með vísun til raka héraðsdóms ber að fallast á það að ósannað sé að hann hafi verið beittur ólögmætri nauðung við undirskrift samningsins. Hins vegar var bankastjórn Landsbankans við gerð hans að firra sig nokkrum greiðslum sem ella hefðu hlotist af því að leggja stöðu hans niður. Mátti stjórninni vera ljóst að áfrýjandi gerði sér ekki fulla grein fyrir stöðu sinni, er hann ritaði undir starfslokasamninginn rétt áður en hann og lögmaður hans áttu boðaðan fund með bankastjóra. Naut hann ekki samráðs við lögmanninn við undirritun samningsins. Verður í ljósi aðdraganda og aðstæðna að telja ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, að áfrýjandi skuli vera bundinn af samningnum. Verður að víkja honum til hliðar að hluta.

Störfum áfrýjanda í þágu Landsbanka Íslands var lokið þegar stefndi tók við rekstrinum 1. janúar 1998 og öðlaðist áfrýjandi því ekki annan rétt á hendur stefnda en leiddi af starfslokasamningnum og gerð hans. Krafa áfrýjanda um að viðurkenndur verði réttur hans til sambærilegs starfs hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands verður þannig ekki tekin til greina. Samkvæmt framansögðu á hann hins vegar í samræmi við 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis með lögum nr. 70/1996 rétt á bótum sem nemi launum í tólf mánuði. Af þeirri fjárhæð hefur hann þegar fengið laun í sex mánuði með starfslokasamningnum. Þykja bætur réttilega ákveðnar 1.722.955 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi.

Rétt þykir að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar er ákveðið í héraðsdómi.

Dómsorð:

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., á að vera sýkn af þeirri kröfu áfrýjanda, Bjarna Magnússonar, að hann eigi rétt á sambærilegu starfi hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands.

Stefndi greiði áfrýjanda 1.722.955 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. október 1998 til greiðsludags og 700.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.


Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

Ég er í meginatriðum sammála I. - IV. kafla atkvæðis annarra dómenda. Hef ég engar athugasemdir við efni þeirra, er raski niðurstöðu málsins, aðra en þá, að líta verði til upphaflegrar ákvörðunar bankastjórnar Landsbanka Íslands um að leysa áfrýjanda frá störfum, þegar virt er, hvenær telja megi hann hafa látið af starfi í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en hann átti við starfslokin tilkall til réttarverndar samkvæmt þeirri lagagrein.

Í IV. kafla er því réttilega lýst, að meta verði umrædda ákvörðun bankastjórnarinnar sem ákvörðun um að leggja stöðu áfrýjanda niður. Við það var miðað, að starfslok hans yrðu frá og með 1. október 1997, á grundvelli uppsagnar af hálfu hans eða bankans, en laun yrðu greidd til loka sex mánaða uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi. Gekk þetta eftir að því leyti, að áfrýjandi var látinn hætta vinnu í bankanum við það tímamark. Hins vegar samþykkti bankastjórnin með starfslokasamningnum við áfrýjanda að framlengja starfstíma hans til 5. janúar 1998, án þess að vinnuframlag fylgdi, og greiða honum venjuleg laun til og með 31. desember, en hinn 1. janúar skyldi hann fá greidda fjárhæð, er svaraði til sex mánaða launa, og væri skiptum aðila þar með lokið. Er auðsætt af aðdraganda samningsins og innihaldi hans, að um var að ræða aukningu og hagræðingu á greiðslum til áfrýjanda vegna starfsloka, sem í raun áttu sér stað hinn 1. október.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið, að áfrýjanda hafi verið gefinn kostur á að ræða starfslokin á þeim grundvelli að hann kynni að eiga rétt til launa í tólf mánuði frá því er hann léti af starfi, og virðist hvorugur aðila hafa gætt þess, þegar gengið var frá umræddum samningi. Skortir þá forsendu til þess, að samningurinn verði talinn bindandi fyrir áfrýjanda eftir efni sínu. Verður að telja stefnda skylt að bæta honum það, sem á vantar til að hann nái fullum rétti sínum samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 í samræmi við þá staðreynd, að staða hans við bankann var lögð niður. Eðlilegt er eftir atvikum málsins að líta svo á, að það hafi gerst 1. október 1997. Við ákvörðun þessarar bótagreiðslu er þannig rétt að horfa til mismunarins á tólf mánaða launum frá þeim tíma og þeim greiðslum, sem starfslokasamningurinn færði áfrýjanda, en hann nemur sem næst þriggja mánaða launum.

Samkvæmt þessu er ég sammála niðurstöðu annarra dómenda að því breyttu, að fjárhæð greiðslu til áfrýjanda verði 850.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 4. maí 1999, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 3. október 1998 og var málið þingfest 20. október sama ár.

Stefnandi er Bjarni Magnússon, kt. 281136-3489, Heiðvangi 8, Hafnarfirði.

Stefndi er Landsbanki Íslands hf., kt. 710169-3819, Austurstræti 11, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Að viðurkenndur verði réttur stefnanda til sambærilegs starfs hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands, það er sérfræðingur í útlánastýringu við útlánaeftirlit.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.466.383 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.540.297 krónum frá 3. janúar 1998 til 1. október 1998, en af 3.466.383 krónum til greiðsludags.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts af málskostnaði.

Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda um að viðurkenndur verði réttur hans til sambærilegs starfs hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands verði hafnað og jafnframt að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

II.

Málsatvik

Stefnandi réðst til starfa hjá Landsbanka Íslands árið 1955 og vann óslitið hjá bankanum í 42 ár eða til 1. október 1997. Hann gegndi margvíslegum störfum hjá Landsbankanum á þessum tíma, m.a. var hann útibússtjóri í tveimur útibúum bankans og síðustu fimm árin gegndi hann starfi sérfræðings í Útlánastýringu við útlánaeftirlit.

Þann 22. maí 1997 voru staðfest lög nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Skyldu hlutafélög taka við rekstri og starfsemi bankanna 1. janúar 1998, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 8. gr. laganna skyldu allir starfsmenn Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka, sem tækju laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, eiga kost á sambærilegu starfi hjá nýju hlutafélagabönkunum við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Tækju þeir við starfi hjá nýju bönkunum skyldu þeir njóta sömu réttinda og þeir hefðu haft samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum.

Hinn 27. júní 1997 sendi Landsbanki Íslands starfsfólki sínu bréf, þar á meðal stefnanda, þar sem fjallað var ítarlega um 8. gr. fyrrnefndra laga og rétt starfsfólks samkvæmt henni. Jafnframt var þar tilkynnt að starfslok stefnanda hjá Landsbanka Íslands yrðu 31. desember 1997. Bréfinu fylgdi staðlað eyðublað þar sem gert var ráð fyrir að starfsfólk gæti ritað undir yfirlýsingu þess efnis að það óskaði eftir að taka við sambærilegu starfi hjá hlutafélagabankanum og það hafði áður gegnt hjá Landsbanka Íslands. Yfirlýsingin skyldi berast starfsmannasviði bankans fyrir 15. september 1997. Á eyðublaðinu var 8. gr. laga nr. 50/1997 tekin upp orðrétt. Stefnandi ritaði undir fyrrnefnda yfirlýsingu og afhenti starfsmannasviði bankans 20. ágúst 1997.

Miðvikudaginn 24. september 1997 var stefnandi boðaður á fund Sverris Hermannssonar bankastjóra, Jóhanns Ágústssonar aðstoðarbankastjóra og Kristínar Rafnar starfsmannastjóra Landsbankans. Á fundinum voru stefnanda kynnt drög að starfslokasamningi hans og bankans. Stefnanda var gefinn kostur á að íhuga drögin til 30. september 1997.

Stefnandi kveður forsvarsmenn bankans hafa eftir fyrrgreindan fund beitt sig miklum þrýstingi til að skrifa undir starfslokasamninginn með því að hóta stefnanda ítrekað að honum yrði sagt upp störfum ef hann skrifaði ekki undir samninginn.

Með bréfi 29. september 1997 setti stefnandi fram tilteknar óskir um starfslok hjá Landsbanka Íslands. Óskaði hann eftir því að fá að starfa hjá bankanum fram til næsta vors eða til 1. júní 1998. Þá óskaði stefnandi þess, að hann fengi greidd laun í sex mánuði eftir að hann léti af störfum, auk mánaðarlegra bifreiðahlunninda, orlofsframlags og helmings hlutfalls af þrettánda mánuðinum.

Með bréfi dagsettu sama dag hafnaði bankinn beiðni stefnanda. Stefndi kveður að næsta dag hafi þó verið komið verulega til móts við óskir stefnanda í nýjum drögum að starfslokasamningi. Stefnandi hafi hins vegar ekki viljað ganga að tilboði bankans um starfslok og hafi forsvarsmönnum stefnda þótt sýnt að ekki næðust sættir um málið milli aðila. Af þeim sökum, og jafnframt þar sem fram komin andmæli höfðu ekki breytt afstöðu stefnda til starfsloka stefnanda, hafi honum verið sagt upp starfi.

Stefnanda var sagt upp störfum hjá Landsbanka Íslands frá og með 1. október 1997 með bréfi dags. 29. september 1997. Af hálfu bankans var vinnuframlags stefnanda ekki krafist á meðan á uppsagnarfresti stæði. Þá kom fram að stefnanda yrðu greidd laun til loka uppsagnarfrests í samræmi við ákvæði í kjarasamningi starfsmanna bankanna, þ.e. til 1. apríl 1998.

Stefndi kveður stefnanda hafa brugðist afar illa við uppsögninni og hafi hann gert um það ítrekaðar kröfur við forráðamenn Landsbanka Íslands að hún yrði dregin til baka. Það hafi hins vegar ekki komið til greina. Eftir margítrekuð viðtöl hans við forráðamenn bankans hafi þó náðst samkomulag um starfslok stefnanda hjá bankanum og kjör þar að lútandi. Stefnandi kveðst hins vegar hafa verið miður sín vegna alls þessa og loks látið undan hótunum og þrýstingi yfirmanna bankans og undirritað starfslokasamning.

Starfslokasamningur stefnanda við Landsbanka Íslands er dagsettur 6. október 1997. Með samningnum samþykkti stefnandi að hætta störfum hjá bankanum 5. janúar 1998. Vinnuframlags stefnanda var ekki krafist frá og með 1. október 1997, en bankinn skyldi greiða stefnanda laun og bifreiðahlunnindi, auk áunninna réttinda til 31. desember 1997. Hinn 1. janúar 1998 skyldi bankinn ennfremur greiða stefnanda í einu lagi sex mánaða grunnlaun, eins og þau væru þann dag, sex mánaða bifreiðarhlunnindi og 6/12 af orlofsframlagi og launum vegna 13. mánaðar. Með því að stefnandi naut starfsins fram yfir áramót var honum tryggð hækkun lífeyrisréttinda, sem tók gildi 1. janúar 1998.

Stefndi kveður að undirritun starfslokasamnings eftir að uppsögn hafði tekið gildi hafi einungis verið til þess gerð að koma til móts við sjónarmið stefnanda, sem átt hafi að baki langan starfsaldur hjá bankanum.

Fram kom í skýrslu stefnanda hér fyrir dómi, að Landsbanki Íslands bauð stefnanda og eiginkonu hans í ferð til Bandaríkjanna í tilefni starfsloka stefnanda hjá bankanum. Greiddi bankinn bæði fargjald og farareyri. Kvað stefnandi einn bankastjóranna hafa boðið stefnanda upp á framangreinda ferð ef hann skrifaði undir starfslokasamninginn. Í skýrslu stefnanda kom einnig fram, að hann nyti fullra eftirlauna hjá bankanum.

Í skýrslu Sverris Hermannssonar, bankastjóra, Jóhanns Ágústssonar, aðstoðarbankastjóra og Kristínar Rafnar, starfsmannastjóra, hér fyrir dómi kom fram, að á þessum tíma hafi verið stefnt að fækkun starfsfólks vegna endurskipulagningar bankans og hagræðingar í rekstri hans. Ljóst hafi verið að rekstrarkostnaður bankans var of hár. Stefnandi hafi átt rétt á fullum eftirlaunum úr lífeyrissjóði á þessum tíma og hafi hann verið hættur að auka við réttindi sín í sjóðnum. Hafi því þótt hagstæðast að segja stefnanda ásamt fleiri starfsmönnum, sem líkt hafi staðið á um, upp störfum.

Stefnandi kveðst ætíð hafa litið svo á, að uppsögn hans úr starfi væri ólögmæt, svo og starfslokasamningur hans við Landsbanka Íslands, sérstaklega með hliðsjón af 8. gr. laga nr. 50/1997. Með bréfi 14. janúar 1998 ritaði lögmaður stefnanda stjórnarformanni stefnda bréf, þar sem ítrekuð var ósk stefnanda um að taka við sambærilegu starfi hjá stefnda og hann hafði áður gegnt hjá Landsbanka Íslands. Beiðnin var ítrekuð með bréfi 11. febrúar 1998. Í svarbréfi stefnda 13. febrúar 1998 kemur fram, að stefnandi eigi engan kost á starfi hjá stefnda. Stefndi hafi tekið við öllum málefnum Landsbanka Íslands, stórum og smáum, þar á meðal starfslokasamningi við stefnanda, enda hafi Landsbanki Íslands hf. séð um efndir þess samnings.

Þessu svari undi stefnandi ekki og höfðaði því mál þetta á hendur stefnda.

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar þannig:

Kaup í janúar 1998 kr. 265.070,- greiddir 2 dagar af stefnda kr. 17.100,-

kr. 247.970

Kaup (biðlaun) í 12 mánuði frá og með febrúar 1998 til og með janúar 1999, kr. 265.070,- á mánuði

kr. 3.180.840-

Greitt af stefnda kr. 1.529.250

-kr. 1.651.590

Desemberuppbót vegna ársins 1998

kr.265.070

Orlof 10,17% af kaupi í janúar ’98

kr. 247.970

kaupi (biðlaunum feb. ’98 jan.-1999 kr. 3.180.840-) og desemberuppbót ’98 kr. 265.070- = kr. 3.693.880

kr. 375.667

 

Samtals

kr. 2.540.297

Miskabætur

kr. 1.000.000 -

Samtals

kr. 3.540.297

Frá dregst innborgun 1.10.98, dskj. 20

kr. 73.914

Dómkrafa

kr. 3.466.383

 

Í máli þessu er aðallega um það deilt hvort stefnandi eigi vegna ákvæða laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem og vegna undirritunar hans á yfirlýsingu á dómskjali nr. 4, rétt á starfi hjá Landsbanka Íslands hf., hvort stefnanda hafi verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en endanleg ákvörðun var tekin um uppsögn hans úr starfi hjá Landsbanka Íslands, hvort stefnandi hafi verið beittur nauðung við undirritun starfslokasamnings og loks hvort stefnandi hafi í starfi sínu hjá stefnda notið biðlaunaréttar ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum nr. 54/1938 og/eða lögum nr. 70/1996.

III.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir mál sitt á því, að er lög nr. 50/1997 hafi tekið gildi, hafi stefnandi verið starfsmaður Landsbanka Íslands. Hann njóti því allra þeirra réttinda, sem starfsmönnum bankans séu áskilin í III. kafla laganna og vísar stefnandi sérstaklega til 8. og 10. gr. laganna. Geðþóttaákvarðanir forsvarsmanna bankans geti ekki svipt honum þessum lögbundna rétti.

Einnig byggir stefnandi á því að með því að hann undirritaði yfirlýsingu þess efnis, að hann óskaði eftir að taka við sambærilegu starfi hjá hlutafélagabankanum og hann hafði áður gegnt hjá Landsbanka Íslands, og skilaði henni til starfsmannasviðs bankans fyrir tilskilinn tíma, hafi verið kominn á bindandi samningur á milli hans og bankans um starf hans hjá hlutafélagabankanum. Bankinn hafi ekki getað rift þessum samningi einhliða með uppsögn.

Í fyrrgreindu bréfi Landsbanka Íslands 27. júní 1997 til starfsmanna bankans segi, að bréfið feli í sér tilkynningu um starfslok starfsmannanna hjá Landsbanka Íslands hinn 31. desember 1997. Tilkynning þessi sé á sama hátt bindandi fyrir bankann og hafi veitt stefnanda rétt til starfa án uppsagnar til ársloka 1997. Einhliða uppsögn bankans á skuldbindingum sínum með því að segja stefnanda upp starfi á miðju uppsagnartímabili, þ.e. 29. september 1997, fái því ekki staðist og brjóti gegn reglum samningaréttar. Í þessu sambandi vísar stefnandi einnig til 1. mgr. 25. gr. sjómannalaganna nr. 35/1985, en þau lög séu talin hafa almennt gildi á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt hinni tilvitnuðu lagagrein gildi ákvæði ráðningarsamnings óbreytt á uppsagnarfresti. Ráðningarsamningi verði því ekki raskað með nýrri uppsögn á þeim tíma, sem uppsagnarfrestur sé að líða.

Stefnandi telur, að með uppsögn hans úr starfi hafi bankinn berlega verið að svipta hann þeim rétti, sem hann hafi átt sem starfsmaður samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1997. Með því að segja stefnanda upp störfum fyrir 31. desember 1997 hafi bankinn ætlað að sneiða fram hjá skyldum sínum samkvæmt fyrrgreindri 8. gr. um að stefnandi ætti sem starfmaður bankans rétt til sambærilegs starfs hjá hlutafélagabankanum þegar hann tæki til starfa 1. janúar 1998. Stefnandi telur títtnefnda 8. gr. afdráttarlausa og sérstaklega setta til að tryggja réttindi starfsmanna Landsbanka Íslands.

Þá byggir stefnandi kröfur sínar á því, að forsvarsmenn Landsbanka Íslands hafi beitt hann nauðung til að fá hann til að skrifa undir fyrrgreindan starfslokasamning og sé hann því ekki bindandi fyrir stefnanda, sbr. 29. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá telur stefnandi að hér eigi einnig við 36. gr. sömu laga. Stefnandi kveður Jóhann Ágústsson, aðstoðarbankastjóra, hafa beitt sig miklum þrýstingi og ítrekað hótað stefnanda að honum yrði sagt upp störfum ef hann skrifaði ekki undir starfslokasamninginn. Stefnandi kveður Jóhann hafa afhent sér uppsagnarbréfið, sem dagsett sé 29. september 1997, hinn 1. október s.á. Eftir það hafi enn verið þrýst á hann að skrifa undir samninginn. Stefnandi kveður fyrrgreindar hótanir hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu, enda hafi þær stangast á við ákvæði 8. gr. laga nr. 50/1997, umræður og yfirlýsingar gefnar á Alþingi, er frumvarpið var þar til meðferðar, og þær væntingar, sem stefnandi hafi haft til áframhaldandi starfa við hinn nýja hlutafélagabanka. Stefnandi kveðst hafa verið miður sín yfir allri þessari atburðarás og loks látið undan hótunum og þrýstingi yfirmanna bankans og undirritað starfslokasamninginn svo sem fyrr greinir hinn 6. október 1997. Þá hafi átök hans við yfirmenn bankans út af brottrekstrinum staðið í 12 daga.

Stefnandi vekur athygli á því að uppsögn hans sé án alls rökstuðnings og tilefnislaus. Í engu sé virtur hinn langi starfsaldur stefnanda hjá bankanum, en það sé meginregla í vinnurétti að starfsaldur skipti verulegu máli og veiti starfsmönnum ákveðin réttindi. Þurfi að koma til uppsagna sé þeim yfirleitt beitt fyrst gagnvart þeim, sem stystan hafi starfsaldur. Stefnandi hafi aldrei hlotið áminningu í starfi og ávallt gegnt starfi sínu af samviskusemi og dugnaði.

Þá bendir stefnandi á að samkvæmt grein 11.2.4. í kjarasamningi bankamanna frá 3. apríl 1997 skuli starfsmanni, sem sagt er upp starfi, veittur kostur á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn er tekin. Stefnandi heldur því fram að forráðamenn bankans hafi þegar verið búnir að taka ákvörðun um uppsögn stefnanda þegar hann hafi verið boðaður á fund þeirra 24. september 1997. Daginn eftir fundinn hafi stefnandi beðið um frest til að athuga málið en svar aðstoðarbankastjórans hafi verið þvert nei og jafnframt hafi hann tjáð stefnanda að uppsagnarbréfið væri tilbúið. Halldór Guðbjarnarson bankastjóri hafi jafnframt neitað stefnanda um viðtal fyrr en hann væri búinn að skrifa undir starfslokasamninginn. Stefnanda hafi því aldrei gefist tækifæri til að tala máli sínu við forráðamenn bankans áður en ákvörðun var tekin um uppsögn hans. Með þessu hafi forsvarsmenn bankans brotið gegn fyrrgreindu ákvæði kjarasamningsins.

Þegar stefnandi hafi hafið störf hjá Landsbanka Íslands 1955 hafi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 gilt um bankastarfsmenn, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, þar sem getið sé um atvinnufyrirtæki, sem ríkið reki. Fari réttindi stefnanda því samkvæmt þeim lögum enda þótt þau hafi verið felld úr gildi og önnur komið í þeirra stað, lög nr. 70/1996. Samkvæmt 14. gr. hinna eldri laga hafi starfsmaður, sem unnið hafi lengur en 15 ár, átt rétt til fastra launa í 12 mánuði frá því hann lét af starfi, ef staða hans var lögð niður. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 34. gr. hinna nýju laga, sbr. og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þeim lögum. Í 10. gr. laga nr. 50/1997 sé vísað til ákvæða laga nr. 70/1996 um biðlaunarétt bankastarfsmanna.

Með vísan til svarbréfs stefnda frá 13. febrúar 1998, þar sem segi að stefnandi eigi engan kost á starfi hjá stefnda, verði að álykta að starf stefnanda hafi verið lagt niður. Samkvæmt því eigi stefnandi rétt til greiðslna í 12 mánuði frá því að honum var gert að hætta störfum í janúar 1998, en ekki 6 eins og standi í starfslokasamningnum. Sé í stefnukröfu miðað við það. Jafnvel þótt litið verði svo á, að staða stefnanda hafi ekki verið lögð niður, þá telur stefnandi að beita eigi framangreindum lagagreinum um biðlaun með lögjöfnun í máli þessu. Beri þá einnig að líta til þess að uppsögn stefnanda var ólögmæt.

Stefnandi kveður að skort hafi á greiðslur við uppgjörið 1. janúar 1998, sem stefnandi eigi rétt á. Hann hafi aðeins fengið greitt kaup fyrir tvo daga í janúar 1998, en ekki fyrir allan mánuðinn, svo sem honum beri samkvæmt grein 11.2.3. í kjarasamningi, en þar segi að miða skuli uppsögn og þar með kaupgreiðslur við heilan mánuð en ekki daga. Þá kveður stefnandi það hafa verið venju hjá Landsbanka Íslands að greiða full mánaðarlaun til starfsmanna síðasta starfsmánuð þeirra, án tillits til þess hvort þeir hafi unnið hann allan eða að hluta.

Stefnandi kveður að í uppgjörinu hafi mánaðarkaup hans verið talið 254.875 krónur en það hafi átt að hækka í 265.070 krónur þann 1. janúar 1998. Þá telur stefnandi sig eiga rétt á desemberuppbót árið 1998, sem hluta af launakjörum, og rétt til orlofs af framangreindum launagreiðslum samkvæmt lögum. Upphafsdagur dráttarvaxakröfunnar 3. janúar 1998 sé miðaður við það, að frá og með þeim degi hafi stefnandi ekki átt þess kost að starfa hjá stefnda. Þar með hafi öll stefnukrafan verið gjaldfallin.

Stefnandi telur að við úrlausn þessa máls beri að hafa hliðsjón af reglum skaðabótaréttarins. Hann telur stefnda hafa sýnt mjög einbeittan vilja til að hrekja sig úr starfi og koma með þeim hætti í veg fyrir að hann fengi sambærilegt starf við hlutafélagabankann. Stefndi beri því alla sök á því hvernig komið sé í þessu máli og beri m.a. á grundvelli reglna skaðabótaréttarins að bæta stefnanda allt það tjón, sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum.

Um miskabótakröfuna vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993. Ljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir verulegum miska og röskun á stöðu og högum við hina óvæntu uppsögn úr starfi og þá framkomu, sem hann hafi orðið fyrir af hálfu forsvarsmanna bankans. Hér skipti einnig verulegu máli hinn langi starfsferill stefnanda hjá bankanum og þau ábyrgðarmiklu störf, sem hann hafi gegnt þar í áranna rás. Telur stefnandi að með hinn óvæntu og ólögmætu uppsögn hafi verið veist alvarlega og með ómaklegum hætti að persónu sinni og sé stefndi þar bótaskyldur.

IV.

Málsástæður stefnda

Stefndi mótmælir því, að stefnandi eigi kost á starfi hjá stefnda, sambærilegu við það sem hann gegndi hjá Landsbanka Íslands, á grundvelli 8. gr. laga nr. 50/1997 og þess að hann hafi verið starfsmaður Landsbanka Íslands við gildistöku laganna.

Stefndi bendir á, að hinn 1. janúar 1998 hafi stefndi tekið við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1997. Þá hafi allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar bankans, eftir atvikum gagnvart starfsfólki, verið lagðar til hlutafélagsins, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu laga. Við mat á því hvort stefnandi eigi rétt til starfs hjá stefnda beri að líta til þess að þegar hlutafélagið hafi tekið við rekstri Landsbanka Íslands hafi þegar verið búið að segja stefnanda upp starfi hjá Landsbanka Íslands. Fáum dögum síðar hafi hann sjálfur undirritað samning um starfslok sín hjá bankanum og réttindi og skyldur þeim samfara. Í samningi þessum hafi því verið lýst yfir, að fullnaðarsamkomulag hafi orðið um starfslok stefnanda hjá Landsbanka Íslands og hvorki stefnandi né bankinn ættu frekari kröfur á hinn, en greindi í samningnum, af því tilefni.

Stefndi byggir á því að með téðum samningi hafi aðilar gert með sér bindandi samkomulag um starfslok stefnanda hjá Landsbanka Íslands. Með samningi þessum hafi stefnandi eignast fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands, sem síðan hafi verið yfirtekin af stefnda, ásamt öðrum skuldbindingum bankans. Hefði stefnandi eftir sem áður átt að njóta réttar til starfs hjá stefnda hefði undirritun starfslokasamnings verið algerlega þarflaus og einungis leitt til útgjaldaaukningar án nokkurs sjáanlegs tilgangs. Einnig hefði stefnandi hagnast óeðlilega á starfslokum sínum hjá Landsbanka Íslands, þ.e.a.s. hann hefði í starfi hjá hlutafélaginu haldið fyrri starfskjörum sínum, en jafnframt fengið greidd laun og önnur launtengd hlunnindi fyrir sex mánaða tímabil með einni greiðslu 1. janúar 1998. Stefndi byggir á því að sú niðurstaða fái ekki samrýmst lögum nr. 50/1997 enda eigi hún hvergi stoð í lagatextanum sjálfum né verði hún leidd af almennum reglum.

Með vísan til þess sem að ofan greinir hafnar stefndi því alfarið að stefnandi eigi eða hafi á grundvelli 8. gr. laga nr. 50/1997 átt rétt til starfs hjá stefnda. Landsbaki Íslands hafi haft fulla heimild til að segja stefnanda upp starfi með þeim hætti sem gert hafi verið, en síðar hafi náðst samkomulag um starfslok hans hjá bankanum og gerður um þau bindandi samningur. Bendir stefndi á, að ef fallist yrði á túlkun stefnanda á 8. gr., hefði sú grein nánast útilokað uppsagnir starfsfólks Landsbanka Íslands eða samninga um starfslok frá gildistöku laganna seint í maí 1997 allt þar til stefndi tók yfir rekstur bankans hinn 1. janúar 1998. Slík túlkun sé með öllu ótæk að mati stefnda. Þá bendir stefndi á, að hvorki að lögum né samkvæmt kjarasamningi stefnanda hafi stefnda verið skylt að veita stefnanda áminningu áður en til uppsagnar eða annarra starfsloka kæmi.

Stefndi telur óhugsandi að með yfirlýsingu stefnanda á dskj. nr. 4 hafi komist á bindandi samningur milli aðila um starf stefnanda hjá stefnda. Bréf Landsbanka Íslands á dómskjali nr. 3 hafi ekki falið í sér tilboð um starf, sem sent hafi verið stefnanda til samþykktar eða synjunar. Í bréfinu hafi einungis verið vakin athygli á því, að samkvæmt lögum nr. 50/1997 væri það réttur starfsmanns að segja til um hvort hann kysi að taka við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. Væri það ósk hans yrði hann að staðfesta hana með undirritun fyrrnefndrar yfirlýsingar. Yfirlýsing stefnanda feli ekki í sér annað og meira en staðfestingu á ósk hans um að taka við sambærilegu starfi hjá stefnda og hann hafi áður gegnt hjá Landsbanka Íslands. Stefndi mótmælir því að 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hafi nokkra þýðingu fyrir úrlausn máls þessa.

Stefndi kveður stefnanda hafa átt þess kost að tjá sig um starfslok sín hjá Landsbanka Íslands, svo sem málsatvikalýsing beri með sér. Þegar stefnandi hafi verið boðaður til fundar hinn 24. september 1997 hafi honum verið gerð grein fyrir því, að á fundinum yrðu rædd fyrirhuguð starfslok hans hjá bankanum. Bæði á fundinum sjálfum og jafnframt síðar hafi stefnanda gefist fullnægjandi kostur á að koma sjónarmiðum sínum að, svo og andmælum við starfslokum. Það hafi ekki verið fyrr en nokkrum dögum síðar, eða undir lok mánaðarins, sem endanleg ákvörðun hafi verið tekin um uppsögn hans úr starfi. Af þessum sökum mótmælir stefndi því að Landsbanki Íslands hafi gerst brotlegur við grein 11.2.4 í kjarasamningi bankamanna.

Stefndi hafnar því alfarið, að hafa beitt stefnanda ólögmætri nauðung í tengslum við gerð starfslokasamnings. Samkvæmt kjarasamningi bankamanna, en stefnandi hafi tekið laun samkvæmt honum, hafi stefnda verið heimilt að segja stefnanda upp starfi með sex mánaða fyrirvara. Undirritun starfslokasamnings hljóti því ótvírætt að hafa verið honum í hag, annars vegar vegna þess að slíkur samningur hafi ekki það harkalega yfirbragð, sem uppsögn hefur, og hins vegar vegna þess að starfslokasamningurinn hafi falið í sér ríkari réttindi en stefnandi hefði notið samkvæmt uppsögn.

Stefndi mótmælir því að starfslokasamningurinn sé saminn einhliða af háflu bankans, enda sé í samningnum að miklu leyti komið til móts við óskir stefnanda sjálfs um starfslok hans og kjör þar að lútandi. Samningurinn geti vart heldur talist ósanngjarn enda stefnanda veittur verulega rýmri réttur til launa og annarra hlunninda en hann hafi átt við uppsögn samkvæmt kjarasamningi bankamanna. Þá bendir stefndi á, að stefnandi hafi notið aðstoðar lögfræðings í viðræðum sínum við forráðamenn Landsbanka Íslands allt frá 25. september 1997, sbr. dagbókarfærslur hans sjálfs á dskj. nr. 14.

Stefndi heldur því fram að krafa stefnanda um biðlaun eigi ekki við rök að styðjast og þá þegar af þeirri ástæðu að starf stefnanda hafi ekki verið lagt niður hjá bankanum. Telur stefndi ekki skilyrði fyrir því að beita nefndum lagaákvæðum um biðlaun með lögjöfnun í málinu eins og haldið sé fram í stefnu.

Stefndi kveður lagalegt umhverfi ráðningar-, launa- og starfskjara starfsmanna Landsbanka Íslands ávallt hafa verið með þeim hætti, að starfsmenn bankans hafi fallið utan ramma laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 1. gr. laga nr. 10/1928 um Landsbanka Íslands hafi verið tekið fram, að bankinn væri sjálfstæð stofnun, sem væri eign ríkisins, undir sérstakri stjórn, svo sem nánar væri ákveðið í V. kafla laganna. Meðal ákvæða V. kafla hafi verið 45. gr., en þar hafi komið fram, að framkvæmdastjórn bankans réði alla þá starfsmenn bankans, sem bankaráðinu væri eigi falið sérstaklega að ráða samkvæmt 43. gr., og segði þeim upp. Þá hafi komið fram, að starfsmenn bankans skyldu að jafnaði ráðnir með 3 mánaða uppsagnarfresti. Samhljóða ákvæði hafi verið í 41. gr. laga nr. 63/1957. Í 13. gr. laga nr. 11/1961 um Landsbanka Íslands hafi komið fram, að bankaráð réði tiltekna forstöðumenn, en alla aðra starfsmenn skyldi bankastjórnin ráða og segja þeim upp. Laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans, svo og eftirlaun, skyldu fara eftir ákvörðun bankaráðs. Hafi þessar ákvarðanir verið teknar í svonefndum reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna. Efni þeirra og breytingar hafi síðar orðið til í viðræðum bankanna og Sambands íslenskra bankamanna, þó svo að sjálfstæður samningsréttur starfsmanna banka í eigu ríkisins hafi ekki komið til fyrr en með lögum nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.

Stefndi bendir á, að engin breyting hafi orðið á lagareglum um ráðningar og starfskjör starfsmanna Landsbanka Íslands við tilkomu laga nr. 38/1954, enda þótt 2. gr. þeirra laga hafi gilt almennt um ráðningu starfsmanna ríkisins. Ennfremur sé þess að geta, að í reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna og síðar samningum um þau kjör eða framkvæmd hafi ekki verið vísað til eða verið byggt á lögum nr. 38/1954. Stefndi kveðst því telja, að starfsmenn Landsbanka Íslands, að því marki sem þeir teldust hafa verið ráðnir í þjónustu ríkisins með föstum launum, hafi fallið undir það sérákvæði 1. gr. laga nr. 38/1954 að ákvæði í lögum, sem öðruvísi mæltu fyrir um einstaka flokka starfsmanna, skyldu haldast, sbr. síðar 3. gr. laga nr. 70/1996.

Stefndi bendir á, að lög nr. 60/1945 um laun starfsmanna ríkisins, sem hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 38/1954, sbr. 37. gr., hafi ekki tekið til starfsmanna Landsbanka Íslands. Lög nr. 92/1955 um laun starfsmanna ríkisins hafi ekki heldur tekið til starfsmanna Landsbanka Íslands. Þá bendir stefndi á, að lög um eftirlit með ráningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana nr. 97/1974 hafi aldrei verið beitt um starfsmenn Landsbanka Íslands.

Þá bendir stefndi á, að ákvæði laga nr. 38/1954 um biðlaunagreiðslur verði að skoða í ljósi þess, að þau lög kveði á um að starfslok þeirra starfsmanna, sem lögin hafi tekið til, gætu aðeins orðið með ákveðnum hætti. Lögin hafi ekki heimilað uppsögn og þau hafi því veitt starfsmönnum hina svonefndu æviráðningu. Til að tryggja að ekki væri hægt að fara í kringum þann rétt hafi þessum starfsmönnum verið veittur biðlaunaréttur í 14. gr. Fram hafi komið í athugasemdum með því ákvæði, að því væri ætlað að tryggja starfsmönnum laun sem svöruðu ríflegum uppsagnarfresti.

Samkvæmt því sem að ofan greinir hafi allt frá árinu 1928 verið í gildi sjálfstæðar reglur lögum samkvæmt um uppsagnarrétt gagnvart starfsmönnum Landsbanka Íslands. Þessar reglur hafi gilt áfram þrátt fyrir tilkomu ákvæða laga nr. 38/1954 um svonefnda æviráðningu og biðlaun í því tilviki að staða starfsmanns væri lögð niður. Af þeim sökum telur stefndi að lög nr. 38/1954 og síðar lög nr. 70/1996 hafi ekki átt við um starfsmenn Landsbanka Íslands, þ.á.m. stefnanda málsins. Stefndi telur 10. gr. laga nr. 50/1997 ekki breyta þeirri niðurstöðu, enda sé þar vísvitandi sneitt hjá því að taka afstöðu til biðlaunaréttar starfsmanna ríkisbankanna, sbr. orðalagið “biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum.”

Verði ekki fallist á sýknukröfu gerir stefndi neðangreindar athugasemdir við kröfur stefnanda og stefnufjárhæð málsins:

Í fyrsta lagi hafi útreikningur launa og annarra hlunninda vegna starfsloka stefnanda verið leiðréttur miðað við launahækkun 1. janúar 1998. Stefnandi hafi þegar fengið mismuninn greiddan, sbr. dómskjal nr. 20.

Í öðru lagi vekur stefndi athygli á því, að samkvæmt starfslokasamningi hafi stefnandi notið fullra launa og hlunninda í 9 mánuði eftir starfslok hjá Landsbanka Íslands. Stefnandi krefjist, til viðbótar við greidd laun fyrir október til desember 1997, launa fyrir janúar 1998, en þar að auki biðlauna í 12 mánuði frá og með febrúar 1998. Ef krafa stefnanda yrði tekin til greina hefði hann þannig notið launa án vinnu í 16 mánuði. Stefndi mótmælir kröfugerðinni og bendir á, að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar komi laun í uppsagnarfresti til frádráttar biðlaunum. Kröfur stefnanda um desemberuppbót og orlofsgreiðslur taki mið af 16 mánaða launatímabili, sem eins og fram hafi komið sé að mati stefnda of langt. Að öðru leyti sé ekki tölulegur ágreiningur um þær.

Þá tekur stefndi fram, að það hafi aldrei verið venja hjá Landsbanka Íslands að greiða full mánaðarlaun til starfsmanna síðasta starfsmánuð þeirra án tillits til þess hvort þeir hafi unnið hann allan eða að hluta.

Loks er mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta. Stefnandi geti fyrst krafist dráttarvaxta frá og með því tímamarki þegar mánuður var liðinn frá því að stefnandi gerði ákveðna kröfu um greiðslu úr hendi stefnda.

Stefndi telur að ekki séu skilyrði fyrir því að taka miskabótakröfu stefnanda til greina, sbr. ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefndi vísar til laga nr. 50/1997, einkum til 1., 3. og 8. gr. og jafnframt til 29. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Að auki er vísað til eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 sem og núgildandi laga um sama efni nr. 70/1996. Þá vísar stefndi til eldri laga um Landsbanka Íslands nr. 28/1928 og síðari laga um bankann, sem áður er getið. Vegna kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda vísar stefndi til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

V.

Niðurstaða

Svo sem fyrr greinir gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands með sér samning 6. október 1997 þar sem stefnandi féllst á að hætta störfum hjá bankanum 5. janúar 1998. Í samningnum er fjallað um réttindi og skyldur aðila samfara starfslokum stefnanda. Í lok samningsins lýsir stefnandi eftirfarandi yfir:

“Með undirskrift minni lýsi ég því yfir, að fullnaðarsamkomulag hefur orðið um starfslok mín hjá Landsbanka Íslands og á hvorki ég né bankinn frekari kröfur, en að framan greinir, á hinn af því tilefni.”

Stefnandi byggir mál sitt meðal annars á því að samningur þessi hafi komist á vegna ólögmætrar nauðungar og því sé hann óskuldbindandi fyrir stefnanda samkvæmt 29. gr. samningalaga nr. 7/1936. Aðspurður hér fyrir dómi kvað stefnandi nauðung stefnda eingöngu hafa falist í því, að honum hafi verið gert að velja á milli þess, að gera samning við bankann um starfslok sín, en að öðrum kosti yrði honum sagt upp störfum hjá bankanum.

Samkvæmt grein 11.2.3. í kjarasamningi sambands íslenskra bankamanna og samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða hafði bankinn heimild til að segja stefnanda upp starfi svo sem gert var og bar honum hvorki að lögum né samkvæmt kjarasamningi að tilgreina ástæður fyrir uppsögn eða rökstyðja hana með öðrum hætti. Sömuleiðis var bankanum ekki skylt að veita stefnanda áminningu áður en til uppsagnar kæmi. Starfslokasamningur stefnanda og Landsbanka Íslands fól í sér ríkari réttindi en stefnandi hefði notið ef honum hefði verið sagt upp störfum. Undirritun starfslokasamningsins var því stefnanda í hag. Að framansögðu verður ekki fallist á, að stefnandi hafi verið beittur ólögmætri nauðung í skilningi 29. gr. samningalaga nr. 7/1936 við gerð starfslokasamningsins. Með sömu rökum verður ekki fallist á að samningurinn sé ósanngjarn og er því hafnað að 36. gr. sömu laga geti átt við í máli þessu.

Fram hefur komið að þegar stefnandi var boðaður á fyrrgreindan fund með yfirmönnum bankans 24. september 1997 var honum gerð grein fyrir að á honum yrðu væntanleg starfslok hans til umræðu. Þá kemur kemur fram í málavaxtalýsingu stefnanda sjálfs að honum gafst kostur á að íhuga drög bankans að starfslokasamningi til 30. september s.á. Stefnandi ritaði helstu forsvarsmönnum bankans bréf 29. september 1997 þar sem hann reifaði sjónarmið sín hvað snerti fyrirhuguð starfslok og setti fram tilteknar óskir í því sambandi. Þá hefur komið fram að hann ræddi nokkrum sinnum við Jóhann Ágústsson aðstoðarbankastjóra um starfslokin áður en til uppsagnar kom. Að framansögðu verður ekki fallist á, að stefnanda hafi ekki gefist kostur á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn hans var tekin. Hefur bankinn því ekki brotið gegn grein 11.2.4. í fyrrgreindum kjarasamningi bankamanna.

Að framansögðu verður að telja að hinn 6. október 1997 hafi komist á bindandi samningur um starfslok stefnanda hjá Landsbanka Íslands.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1997 tók stefndi hinn 1. janúar 1998 við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands og voru þá allar eignir, réttindi og skuldbindingar bankans lagðar til stefnda, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu laga, m.a. skuldbindingar bankans samkvæmt starfslokasamningi 6. október 1997 við stefnanda, enda sá stefndi um efndir samningsins eftir að hann tók við rekstri bankans.

Með lögum nr. 50/1997 var Landsbanka Íslands breytt úr sjálfstæðu fyrirtæki í eigu ríkisins í hlutafélag. Í athugasemdum við frumvarp, sem síðar varð að lögum nr. 50/1997 segir m.a., að frumvarpið miði að því að sem minnst röskun verði á starfshögum almennra starfsmanna við breytinguna. Í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins segir m.a.: “Lagt er til að allir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum SÍB eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skuli eiga kost á sambærilegu starfi hjá hlutafélagsbönkunum við yfirtökuna. Taki starfsmaður við slíku starfi skal hann njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Óþarft þykir með tilliti til þessa að telja upp hvaða réttindi sé hér um að ræða. Einkum er um að ræða áunnin réttindi starfsmanna, svo sem rétt til launagreiðslna í veikindum, barnsburðarleyfi og orlofsrétt. Einnig falla hér undir réttur til uppsagnarfrests og önnur starfstengd kjör.”

Með hliðsjón af orðalagi 8. og 10. gr. laga nr. 50/1997 og athugasemdum í frumvarpi til laganna verður ekki talið að tilgangur III. kafla laganna hafi verið sá, að veita starfsmönnum ríkari rétt til starfa hjá stefnda, en þeir höfðu haft hjá Landsbanka Íslands. Svo sem fyrr greinir hafði Landsbanki Íslands heimild til að segja stefnanda upp starfi samkvæmt grein 11.2.3. í kjarasamningi bankamanna. Standa engin rök til þess að skýra ákvæði 8. gr. laga nr. 50/1997 á þann veg, að frá því að lög nr. 50/1997 tóku gildi hafi Landsbankanum verið óheimilt að segja starfsfólki sínu upp starfi. Með því að stefnandi gerði bindandi samning við Landsbanka Íslands um starfslok sín hjá bankanum verður að telja, að hann hafi þar með fallið frá þeim rétti, sem hann átti samkvæmt ákvæði 8. gr. laga nr. 50/1997, sbr. og 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. sömu laga.

Í bréfi Landsbanka Íslands 27. júní 1997, sem sent var öllum starfsmönnum bankans í tilefni af gildistöku laga nr. 50/1997 segir m.a.: “Vakin er athygli á því að samkvæmt lögum nr. 50/1997 er það réttur starfsmanns að segja til um hvort hann kýs að taka við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. og ef það er ósk hans verður að staðfesta hana með undirritun meðfylgjandi yfirlýsingar sem þarf að hafa borist starfsmannasviði bankans fyrir 15. sept. nk.” Ennfremur segir í bréfinu: “Breyting á rekstrarformi bankans gerir lögum samkvæmt kröfu til þess að það liggi fyrir tímanlega hverjir af starfsmönnum Landsbanka Íslands óska eftir að nota sér þennan rétt sinn. Jafnframt er nauðsynlegt að starfsmenn hafi ríflegan aðlögunartíma kjósi þeir að gera breytingar á högum sínum auk þess sem uppfyllt eru ákvæði kjarasamninga um uppsagnarfrest.”

Samkvæmt orðan bréfsins var hér um að ræða könnun bankans á því hverjir af starfsmönnum bankans ætluðu að notfæra sér þann rétt, sem þeir höfðu samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1997. Í bréfi þessu verður því ekki talið felast tilboð um starf, sem stefnanda var sent til samþykktar og synjunar. Með yfirlýsingu á dskj. nr. 4 staðfesti stefnandi ósk sína um að nýta sér rétt sinn samkvæmt fyrrgreindri 8. grein. Samkvæmt orðanna hljóðan felur yfirlýsing þessi ekki í sér annað og meira en staðfestingu stefnanda á framangreindri ósk sinni. Er því ekki fallist á með stefnanda að með yfirlýsingu þessari hafi komist á bindandi samningur milli aðila máls þessa um starf stefnanda hjá stefnda.

Í fyrrgreindu bréfi Landsbanka Íslands frá 27. júní 1997 tilkynnti bankinn starfsfólki sínu, að starfslok þess hjá Landsbanka Íslands yrðu 31. desember 1997 óháð því hvort það kysi að taka við starfi hjá stefnda eða ekki. Var tilkynning þessi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1997, en þar kemur fram að réttur þeirra starfsmanna, sem kjósa að taka við starfi hjá stefnda, til launa hjá Landsbanka Íslands falli niður er þeir taki við starfinu. Stefnandi telur tilkynningu þessa hafa veitt stefnanda rétt til starfa hjá Landsbanka Íslands án uppsagnar til ársloka 1997, þar sem þegar hafi verið búið að segja honum upp störfum hjá Landsbanka Íslands. Í þessu sambandi ber að líta til þess, að eftir að tilkynning þessi barst stefnanda gerði hann bindandi samning við Landsbanka Íslands um starfslok sín hjá bankanum og er í samningnum m.a. kveðið á um að stefnandi láti af störfum hjá bankanum 5. janúar 1998. Naut stefnandi launa, bifreiðahlunninda og annarra réttinda hjá bankanum til 31. desember 1997 þótt vinnuframlags hans væri ekki krafist frá 1. október s.á. Ákvæði 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þykja ekki eiga við í máli þessu.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi notið biðlaunaréttar í starfi hjá Landsbanka Íslands samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 þar sem þau lög hafi verið í gildi er stefnandi hóf störf hjá bankanum. Byggir stefnandi á því að þar sem hann hafi ekki átt kost á starfi hjá stefnda verði að draga þá ályktun að starfið hafi verið lagt niður. Hinsvegar byggir hann ekki á því, að biðlaunaréttur sé fyrir hendi þegar af þeirri ástæðu að ríkisviðskiptabankanum Landsbanka Íslands hafi verið breytt í hlutafélag og að staða stefnanda hafi þar með fallið niður í þeirri mynd, sem hún hafi verið hjá ríkisviðskiptabankanum.

Ekki er fallist á með stefnanda að draga megi þá ályktun af svarbréfi stefnda 13. febrúar 1998 að starf stefnda hjá bankanum hljóti að hafa verið lagt niður. Gegn andmælum stefnda er ósannað að svo hafi verið gert. Samkvæmt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna var það skilyrði fyrir greiðslu biðlauna, að staða starfsmanns hefði verið lögð niður, sbr. nú 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. og bráðabirgðaákvæði með sömu lögum. Þar sem ósannað er samkvæmt framansögðu að staða stefnanda hafi verið lögð niður er þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á, að stefnandi geti krafist biðlauna úr hendi stefnda. Þá þykja ekki skilyrði til að beita ákvæði starfsmannalaga um biðlaunarétt með lögjöfnun í máli þessu.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, þykja ekki skilyrði til að taka kröfu stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda til greina, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Fram hefur komið í málinu að útreikningur launa og annarra hlunninda stefnanda samkvæmt starfslokasamningi hefur verið leiðréttur miðað við hækkun launa, sem tók gildi 1. janúar 1998, og hefur stefnanda verið greiddur sá mismunur. Stefnandi hefur lækkað stefnukröfur sínar í samræmi við þá leiðréttingu, sbr. dskj. nr. 34.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, ber að hafna þeirri kröfu stefnanda, að viðurkenndur verði réttur hans til sambærilegs starfs hjá stefnda og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands. Einnig ber að sýkna stefnda af öðrum kröfum stefnanda í málinu.

Í samræmi við úrslit málsins ber stefnanda að greiða stefnda 250.000 í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Kröfu stefnanda, Bjarna Magnússonar, um að viðurkenndur verði réttur hans til sambærilegs starfs hjá stefnda, Landsbanka Íslands hf., og hann gegndi áður hjá Landsbanka Íslands, þ.e. sérfræðingur í útlánastýringu við útlánaeftirlit, er hafnað.

Stefndi er sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur.