Hæstiréttur íslands

Mál nr. 345/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Þriðjudaginn 15. júní 2010.

Nr. 345/2010.

A

(Guðbjarni Eggertsson hdl.) 

gegn

Héraðsdómi Reykjaness

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að A hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna hafi verið stofnað. Með vísan til 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 var því talið að ekki yrði hjá því komist að hafna beiðni A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010.

A, kt. [...], [...], [...], hefur farið þess á leit með vísan til ákvæða X. kafla a 3. þáttar laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 að honum verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína.

Beiðni skuldara er dagsett 9. nóvember 2009 og var hún móttekin 13. nóvember 2009 hjá Héraðsdómi Reykjaness. Af hálfu dómsins var óskað eftir ítarlegri greinargerð í málinu. Var málið tekið fyrir á dómþingi 4. maí 2010 þar sem gögn málsins ásamt viðbótargreinargerð voru lögð fram. Málinu var síðan frestað til uppkvaðningar úrskurðar 18. maí 2010.

Beiðnin er reist á því að skuldari sé um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.

Í beiðni skuldara kemur fram að skuldari búi ásamt sambýliskonu sinni og tveimur börnum í eigin fasteign. Skuldari hafi misst atvinnu sína þann 1. desember 2008 en af skattframtölum skuldara má ráða að hann hafi starfað hjá [...]. Í beiðni skuldara kemur hins vegar ekki fram við hvað skuldari starfaði hjá áðurgreindu fyrirtæki. Eftir að skuldari missti atvinnu sína hafi hann fengið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Skuldari kveður sambýliskona sína vera öryrkja eftir bílslys árið 2003 og að hún hafi ekki verið úti á vinnumarkaðinum frá árinu 2006. Hún hafi fengið örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en sé nú í endurmati og hafi því verið án tekna síðan í júlí 2009.

Upphaf fjárhagsörðugleika skuldara megi rekja allt til ársins 1998 þegar skuldari hafi stofnað fyrirtækið [...] ásamt eiginkonu sinni, móður og þáverandi unnusta hennar. Fyrirtækið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi skiptalok átt sér stað í apríl 2004. Skuldari hafi unnið við rekstur fyrirtækisins sem hafi farið ágætlega af stað. Lán hafi verið tekin með persónulegum ábyrgðum eigenda samtals að fjárhæð 15 milljónum króna. Rekstur fyrirtækisins hafi falist í innflutningi á [...]. Þegar rekstur félagsins hafi verið kominn á réttan kjöl hafi meðeigandi skuldara að rekstrinum svikið hann og aðra eigendur og tekið yfir umboð og innflutning í gegnum félag sitt [...]. Eftir það hafi skuldari, maki hans og móðir setið í skuldasúpu en margar samningskröfur skuldara megi rekja til persónulegra ábyrgða sem skuldari hafi gengist í vegna rekstrarins. Samningskröfur skuldara séu m.a. kröfur með lánsveði í fasteign foreldra hans. Aðstæður þessar hafi valdið því að skuldari hafi verið tekjulaus um tíma en lán hafi verið tekin til að brúa tekjutapið, auk þess sem taka hafi þurft lífeyrissjóðslán til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld og skatta.

Haustið 2009 hafi skuldari hafið nám við háskólann í [...] í Bretlandi í meistaranámi í [...]. Um eins árs nám sé að ræða og því séu áætluð námslok haustið 2010. Skuldari fái nú námslán frá LÍN en þau séu umtalsvert hærri en atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið áður. Vonir standi til þess hjá skuldara að hann fái atvinnu við sitt hæfi að námi loknu en skuldari hafi meðal annars ákveðið að hefja nám í því skyni að auka atvinnumöguleika sína.

Hvað helstu samningskröfur skuldara snerti þá hafi tvö lífeyrissjóðslán verið tekin til að standa skil á vanskilum félagsins [...] vegna persónulegra ábyrgða umsækjanda og til að létta undir vegna vanskila eiginkonu skuldara sökum tekjumissis hennar í kjölfar örorku. Lánin hafi auk þess verið nýtt til framfærslu fjölskyldu skuldara vegna tímabundins tekjumissis skuldara í kjölfar gjaldþrots [...]. Lán hjá Byr sparisjóði nr. [...] hafi verið tekið árið 2004 til að greiða persónulega ábyrgð að baki rekstri [...]. Lán hjá Arion banka nr. [...] hafi skuldari tekið að loknu námi til að greiða upp eldri skuldir og til að framfleyta fjölskyldu sinni. Tvö lán hjá Lýsingu séu vegna tveggja bílasamninga. Annar bílasamningurinn sé vegna bifreiðar sem hafi verið keypt á árinu 2006, sbr. gögn málsins og hinn bílasamningurinn sé vegna fjórhjóls sem keypt hafi verið á árinu 2007. Báðir samningarnir séu bundnir við gengi erlends gjaldmiðils. Lán við lífeyrissjóðinn Gildi hafi verið tekið til að standa skil á vanskilum í kjölfar greiðsluþrots [...]. Smærri samningskröfur skuldara, t.d. vegna kreditkortanotkunar, megi rekja til framfærslu fjölskyldu skuldara.

Meginorsakir greiðsluerfiðleika skuldara megi því einkum rekja til gjaldþrots atvinnureksturs skuldara á árinu 2004, tekjumissis vegna atvinnuleysis frá árinu 2008 sem og til örorku og tekjuleysis sambýliskonu skuldara. Auk þess hafi greiðslubyrði lána aukist gífurlega í kjölfar bankahrunsins hér á landi haustið 2008. Nú sé svo komið að skuldari sé ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Tillaga skuldara kveði á um algera eftirgjöf samningskrafna.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða:

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Því er lýst í beiðni skuldara að hann hafi misst atvinnu sína í desember 2008 og í kjölfarið verið atvinnulaus en síðan hafið nám erlendis haustið 2009. Þá sé sambýliskona hans öryrki og hafi ekki haft tekjur frá sumrinu 2009. Heildarsamningskröfur skuldara nema um 30.801.000 krónum og vanskil og gjaldfallnar kröfur nema um 112.159 krónum. Tekjur skuldara (í formi námslána frá LÍN) nema um 293.880 krónum á mánuði að meðtöldum barna- og vaxtabótum. Mánaðarleg framfærsla skuldara nemur um 336.300 krónum á mánuði en skuldari þarf bæði að greiða afborganir af fasteign sinni hér á landi og af leiguhúsnæði í Bretlandi á meðan á námi hans stendur. Greiðslugeta skuldara er því neikvæð um 42.420 krónur á mánuði. Í skattframtali skuldara árið 2009, fyrir tekjuárið 2008, kemur fram að skuldari hafi haft 5,2 milljónir króna í árstekjur og í skattframtali 2008, fyrir tekjuárið 2007, kemur fram að skuldari hafi haft um 800 þúsund krónur í tekjur. Árið 2006 hafi skuldari haft 5,6 milljónir króna í árstekjur og árið 2005 hafi tekjur hans numið um 2,7 milljónum króna. Ástæður fyrir lágum tekjum á árinu 2007 megi rekja til þess að skuldari hafi ætlað að hefja atvinnurekstur á ný ásamt félaga sínum en þær áætlanir hafi ekki gengið eftir.

Í gögnum málsins kemur fram að skuldari hafi gert tvo bílasamninga við Lýsingu hf. um annars vegar bifreið en hins vegar um fjórhjól. Helstu samningskröfuhafar skuldara eru Byr sparisjóður, Lífeyrissjóður VR, Lífeyrissjóðurinn Gildi, Arion banki hf. og Lýsing hf. vegna bílasamninga. Eins og fram kemur í beiðni skuldara rak hann fyrirtæki sem varð gjaldþrota árið 2004 en stærstan hluta samningskrafna skuldara má rekja til þess. Samkvæmt skattframtali 2006, fyrir tekjuárið 2005, festi skuldari kaup á fasteign sinni að [...] á því ári en kaupverð hennar var 27,9 milljónir króna. Í lok ársins námu aðrar skuldir skuldara 18.860.000 krónum. Þær skuldir uxu síðan hægt og bítandi en í árslok 2007, sbr. skattframtal 2008, námu þær 22.171.128 krónum. Það ár hafði skuldari einungis 779.902 krónur í árstekjur en þrátt fyrir það og aðrar skuldir sem skuldari þurfti að greiða af, gerði skuldari kaupleigusamning um fjórhjól að fjárhæð tæplega 1,2 milljónir króna. Skuldir skuldara voru í árslok 2008, sbr. skattframtal 2009, orðnar 29.690.000 krónur en þá hækkun má að nokkru leyti rekja til bankahrunsins haustið 2008 og falls krónunnar.

Í 2. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991 kemur fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingar var stofnað. Í 3. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991 kemur síðan fram að hafna megi beiðni um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Skuldari hefur lýst því að ástæður fyrir óvenju lágum tekjum árið 2007 megi rekja til þess að hann hugðist hefja rekstur að nýju en þær áætlanir hafi ekki gengið eftir. Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu skuldara á þessum tíma og til þess að samningsskuldir skuldara voru þá umtalsverðar, verður að telja að skuldari hafi með þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á þessum tíma, m.a. vegna kaupa á áðurnefndu fjórhjóli, hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingar var stofnað. Þá festi skuldari kaup á fasteign ásamt sambýliskonu sinni árið 2005 en kaupverð hennar var tæplega 30 milljónir króna. Það ár hafði skuldari um 2,7 milljónir króna í árstekjur, sambýliskona hans var tekjulág sökum örorku og aðrar skuldir námu þegar tæplega 19 milljónum króna. Eins og fram hefur komið eru samningsskuldir skuldara töluverðar og hafa aukist umtalsvert á undangengnum misserum þrátt fyrir að staða skuldara hafi verið þröng fyrir. Af því sem að ofan greinir verður að telja að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu skuldara á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Með vísan til þess sem að ofan hefur verið rakið, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, verður ekki hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar

Ragnheiður Bragadóttir kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er hafnað.