Hæstiréttur íslands

Mál nr. 518/2011


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Riftun
  • Gjöf
  • Endurgreiðslukrafa


                                     

Fimmtudaginn 10. maí 2012.

Nr. 518/2011.

Delia Kristín Howser

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Gjöf. Endurgreiðslukrafa.

Fjármálafyrirtækið K hf., sem tekið hafði verið til slitameðferðar, höfðaði mál gegn D og krafðist riftunar þeirrar ákvörðunar fyrrum stjórnar K hf. að fella niður ábyrgð D á lánum sem hún hafði tekið hjá K hf. til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu er hún starfaði hjá því. Hvorki var fallist á með D að K hf. væri ekki eigandi kröfunnar né að D hefði verið lofað skaðleysi af hlutabréfakaupunum. Talið var að gjafatilgangur hefði búið að baki ákvörðun fyrrum stjórnar K hf. og að fyrirtækinu hefði því verið heimilt að rifta ráðstöfuninni á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Var því fallist á kröfu K hf. og D gert að greiða þann hluta lánanna sem hún bar ábyrgð á. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2011. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 5.892.810 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2010 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi réðst til starfa hjá Kaupþingi hf. árið 1997 og varð síðar einn af fjórum forstöðumönnum viðskiptaumsjónar stefnda. Í nóvember 2003 tók hún lán hjá stefnda til kaupa á hlutum í honum og setti hlutina til tryggingar láninu sem greiða skyldi þremur árum síðar. Hafði áfrýjandi rétt til að selja hlutina að þeim tíma liðnum og í ákveðnum tilvikum við starfslok, kæmu þau til fyrr, og skuldbatt stefndi sig til að greiða henni þá markaðsverð hlutanna, þó aldrei lægri fjárhæð en kaupverð þeirra að viðbættum vöxtum.

Hinn 1. desember 2005 gerði áfrýjandi lánssamning við stefnda, þar sem endurfjármögnuð var skuldbinding hennar vegna kaupa á hlutum í stefnda. Samkvæmt hinum nýja samningi nam fjárhæð lánsins 18.240.906 krónum og skyldi það endurgreitt í einu lagi 1. desember 2010. Í 5.1. gr. samningsins var svofellt ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar skv. lánssamningi þessum setur lántaki bankanum að handveði hluti í Kaupþingi banka hf., í eigu lántaka, að nafnverði kr. 79.503,- sbr. handveðsyfirlýsingu dags. 01.12.2005.“  Þá sagði í 6.1. gr.: „Ábyrgð lántaka á skuldinni skv. lánasamningi þessum takmarkast við andvirði handveðsins og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kann að leggja fram í samræmi við ákvæði 5. gr. en auk þess skal hann því til viðbótar bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma með öðrum eignum sínum.“ Samkvæmt c. lið 7.1. gr. skuldbatt lántaki sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti nema að fengnu skriflegu samþykki stefnda. Áþekkt ákvæði var í fyrrgreindri handveðsyfirlýsingu sem áfrýjandi undirritaði 1. desember 2005 samhliða lánssamningnum. Hinn 1. mars 2007 gerði áfrýjandi lánssamning við stefnda vegna nýs láns sem hún tók til kaupa á hlutum í honum. Fjárhæð þessa láns var jafnvirði 3.024.472 króna í svissneskum frönkum og japönskum jenum og skyldi lánið greiðast í einu lagi 15. maí 2009. Í 4.1. gr. samningsins var svohljóðandi ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar skv. lánssamningi þessum setur lántaki bankanum að handveði alla þá hluti í Kaupþingi banka hf., sem andvirði láns þessa verður varið til kaupa á, sbr. handveðsyfirlýsingu dags. á svipuðum tíma og lánssamningur þessi.“ Í samningnum var hvorki að finna takmörkun á ábyrgð lántaka á greiðslu lánsins né settar skorður við sölu eða annars konar framsali á hinum veðsettu hlutum. Hins vegar sagði í yfirlýsingu um handveðsetningu er áfrýjandi undirritaði sem veðsali 1. mars 2007 samhliða lánssamningnum: „Veðsala er óheimilt, meðan skuldbindingar þær sem veðandlagið á að tryggja eru ekki að fullu greiddar, að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa“. Í hvorugum lánssamningnum var kveðið á um það að stefndi skyldi tryggja áfrýjanda skaðleysi vegna umræddra lána sem hún tók til kaupa á hlutum í stefnda. Þrátt fyrir veðsetningu hlutanna naut áfrýjandi arðs af þeim og voru henni á árunum 2005 til 2008 greiddar alls 5.325.187 krónur í arð af hlutum, sem keyptir höfðu verið fyrir lán frá stefnda, að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

Á fundi stjórnar stefnda 25. og 26. september 2008 var lögð fram greinargerð frá starfskjaranefnd hans sem tekin hafði verið saman fyrr í þeim mánuði. Í henni var meðal annars tekið fram að í samræmi við launastefnu stefnda hafi hann gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í sér og fjármagnað þau kaup. Síðan sagði: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað stjórnin að veita forstjóra stefnda heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt því gaf forstjórinn 25. september 2008 út yfirlýsingu til áfrýjanda þar sem henni var tilkynnt að stefndi hafi ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ hennar vegna lána til kaupa á hlutabréfum í stefnda. Takmarkist ábyrgð hennar við hlutabréf í stefnda sem sett hafi verið sem veð.

Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn stefnda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar hans í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Daginn eftir, 9. sama mánaðar, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum stefnda, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., að undanskildum nánar tilgreindum eignum. Samkvæmt því voru kröfur stefnda á hendur áfrýjanda vegna fyrrgreindra tveggja lánssamninga framseldar til umrædds banka.

Hinn 25. maí 2009 var stefnda skipuð slitastjórn sem ákvað að rifta þeirri ráðstöfun 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna tveggja. Var henni tilkynnt þessi ákvörðun slitastjórnarinnar með bréfi 17. maí 2010 og hún jafnframt krafin um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna riftunarinnar.

II

Í máli þessu gerir stefndi aðallega þá kröfu að ráðstöfuninni 25. september 2008 verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og áfrýjanda gert að endurgreiða sér 6.567.948 krónur eftir 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, má krefjast riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eins og stefnda eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fyrirtækisins muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Frestdagur við slit stefnda var 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008.

Krafa áfrýjanda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti vegna þess að fyrrgreind fjárkrafa stefnda hafi verið framseld til Nýja Kaupþings banka hf. 21. október 2008 og hann þar með fyrirgert rétti til að sækja kröfuna á hendur henni. Að því er þessa málsástæðu varðar ber að horfa til þess að þegar kröfur samkvæmt lánssamningunum tveimur voru framseldar voru þær einungis tryggðar með veði í hlutum í stefnda sem voru með öllu verðlausir eftir fall hans skömmu áður. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að ekkert endurgjald hafi komið fyrir kröfurnar úr hendi Nýja Kaupþings banka hf. Einnig stofnaðist endurgreiðslukrafan, sem stefndi hefur uppi í málinu, ekki fyrr en 17. maí 2010 er hann lýsti yfir riftun gagnvart áfrýjanda. Að þessu virtu er stefndi réttur aðili að lögum til að beina síðastgreindri kröfu að áfrýjanda og verður því ekki fallist á sýknukröfu hennar vegna aðildarskorts, en stefndi hefur ávallt haldið því fram í málatilbúnaði sínum að krafan tilheyri sér og hafi ekki verið framseld öðrum.

Sýknukrafa áfrýjanda er í öðru lagi reist á því að kröfur stefnda á hendur henni vegna lánssamninganna tveggja hafi hvorki verið lögmætar né innheimtanlegar þegar persónuleg ábyrgð hennar var felld niður. Helsta röksemdin, sem áfrýjandi hefur fært fyrir þessu, er að henni hafi af hálfu stefnda verið lofað skaðleysi af kaupum á þeim hlutum sem hún keypti fyrir lánin. Svo sem áður segir er ekki kveðið á um slíkt skaðleysi í lánssamningunum, heldur er ábyrgð áfrýjanda verulega takmörkuð í öðrum þeirra, en að engu leyti í hinum. Þótt fyrir liggi samkvæmt ýmsum gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að því hafi verið lýst yfir af stefnda og ýmsum stjórnendum hans á árunum 2004 til 2008 að æskilegt væri að starfsmenn yrðu ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á hlutum í honum kemur þar hvergi fram að áfrýjanda hafi verið lofað skaðleysi af þeim kaupum svo að skuldbindandi sé fyrir stefnda. Framburður áfrýjanda og vitna fyrir dómi breytir engu um það. Samkvæmt því sem að framan greinir verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að færa sönnur á áðurgreinda staðhæfingu um að henni hafi verið lofað skaðleysi og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með vísan til málsatvika verður ekki heldur fallist á þær röksemdir áfrýjanda að lánssamningar þeir, sem hér um ræðir, hafi verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir hana á grundvelli reglna um brostnar forsendur eða vegna ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

III

Ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið skýrt svo að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni, nema hún falli undir 3. mgr. sömu lagagreinar, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni.

Sem fyrr segir reisir stefndi riftunarkröfu sína aðallega á því að sú ráðstöfun stefnda 25. september 2008, tæpum tveimur mánuðum fyrir frestdag, að gefa eftir persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna tveggja hafi verið gjafagerningur í merkingu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Því mótmælir áfrýjandi, meðal annars vegna þess að af fyrirliggjandi gögnum um hvernig staðið hafi verið að ráðstöfun Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum stefnda til Nýja Kaupþings banka hf. verði ráðið að ekkert endurgjald hefði komið fyrir kröfur stefnda vegna lánssamninganna tveggja, jafnvel þótt áfrýjandi hefði borið ábyrgð á greiðslu lánanna. Því til stuðnings vísar hún til þess að við yfirfærslu á útlánum stefnda til Nýja Kaupþings banka hf. í því útibúi þar sem lán starfsmanna vegna kaupa á hlutum í stefnda voru, þar á meðal umrædd lán hennar, hafi þau verið metin einskis virði án tillits til þess hvort starfsmennirnir báru á þeim ábyrgð. Við úrlausn um þetta verður að líta til þess að hér var um að ræða mat á heildarvirði lánasafna, en ekki einstakra lána, við gerð upphaflegs efnahagsreiknings hins nýja banka. Að því gættu hvíldi á áfrýjanda að renna stoðum undir þá staðhæfingu sína að umrædd lán með persónulegri ábyrgð lántaka hefðu verið einskis virði í uppgjöri milli stefnda og Nýja Kaupþings banka hf. vegna yfirtöku síðarnefnda bankans á eignum og skuldum þess fyrrnefnda. Þessari sönnunarbyrði gat áfrýjandi ekki velt yfir á stefnda með því að skora á hann að leggja fram ótilgreind skjöl um mat á nánar tilteknum eignum í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþings banka hf. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að lánssamningarnir tveir hefðu verið metnir til verðs samkvæmt efni sínu ef ábyrgð áfrýjanda á efndum þeirra hefði staðið óbreytt þegar þeir voru framseldir til Nýja Kaupþings banka hf. Af þeim sökum hefur stefndi sannanlega orðið fyrir tjóni þegar ábyrgð áfrýjanda var felld niður 25. september 2008 sem nemur uppgreiðsluverðmæti 10% af fyrra láninu og alls síðara lánsins miðað við þann dag.

Áfrýjandi hefur andmælt því að um gjafagerning hafi verið að ræða umrætt sinn með því að hún hafi innt af hendi gagngjald um leið og ábyrgð hennar á lánunum var felld niður. Gagngjaldið hafi verið í því fólgið að hún hafi skuldbundið sig sérstaklega til þess gagnvart stefnda að selja ekki hlutina sem settir höfðu verið að veði fyrir lánunum. Sökum þess að við eftirgjöfina á ábyrgð áfrýjanda varð ekki nein breyting á ráðstöfunarrétti hennar yfir hlutunum, þar sem sala þeirra var eftir sem áður háð samþykki stefnda, verður þessi málstæða áfrýjanda ekki tekin til greina.

Sú ákvörðun stjórnar stefnda 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, var augljóslega byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir stefnda. Þótt fallast megi á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni hans í huga var hún í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið höfðu lánin, þar á meðal áfrýjanda. Samkvæmt því bjó einnig gjafatilgangur að baki ákvörðuninni þegar hún var tekin og mátti áfrýjanda vera það ljóst.

Með skírskotun til þess, sem rakið hefur verið, var stefnda heimilt að rifta fyrrgreindri ráðstöfun, sem gerð var í þágu áfrýjanda, á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Af orðalagi 1. og 2. mgr. 142. gr. laganna, þar sem kveðið er á um endurgreiðslu úr hendi þess sem hefur haft hag af riftanlegri ráðstöfun, er ljóst að það tímamark, sem miðað er við í þeim ákvæðum, er hvenær riftun er lýst yfir eða eftir atvikum hvenær endurgreiðslukrafa er gerð upp. Þótt gögn málsins bendi til að verðmæti hlutanna, sem settir höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu á skuldbindingum áfrýjanda samkvæmt lánssamningunum tveimur, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð hennar á lánunum var felld niður, er ljóst að tveimur vikum síðar voru hlutirnir orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgð hennar orðið virk. Þar sem sú ábyrgð hafði verið gefin eftir með hinni riftanlegu ráðstöfun varð stefndi sem fyrr segir fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu auðgaðist áfrýjandi að sama skapi. Verður krafa stefnda um endurgreiðslu úr hendi hennar því tekin til greina, en að öllu virtu eru ekki efni til að lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991 eða af öðrum ástæðum.

Aðalkrafa stefnda um endurgreiðslu vegna riftunar á niðurfellingu ábyrgðar áfrýjanda á síðara láninu tekur mið af því að verðtrygging lánsins hafi verið ólögmæt þar sem það var veitt í íslenskum krónum, en skyldi endurgreiðast miðað við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla. Þar sem áfrýjandi hefur ekki greitt af láninu standa ekki rök til þess að miða við aðra vexti af því en vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 þegar uppgreiðsluverðmæti þess 25. september 2008 er reiknað út. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júlí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. júlí sl., er höfðað 28. júní 2010.

Stefnandi er Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Stefndi er Delia Kristín Howser, Hraunhvammi 8, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að rift verði þeirri ráðstöfun Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefndu á greiðslu lánssamninga aðila númer 2894, dagsettum 1. desember 2005 og númer 4643, dagsettum 1. mars 2007. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði aðallega dæmd til að greiða stefnanda 7.505.373 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda greiði stefnanda 6.567.948 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2008 til greiðsludags. Loks er krafist málskostnaðar.

Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar.

I

A.

Stefnandi kveður mál þetta lúta að riftanleika þeirrar ráðstöfunar Kaupþings banka hf. að fella niður persónulega ábyrgð stefndu samkvæmt lánssamningum vegna hlutabréfakaupa stefndu í Kaupþingi banka hf. Stefnda hafi verið forstöðumaður viðskiptaumsjónar í bankanum.

Hinn 1. desember 2005 hafi stefnda ritað undir lánssamning númer 2894 við stefnanda um lán að fjárhæð 18.240.906 krónur. Stefnda hafi notað andvirði lánsins til þess að endurfjármagna kaup sín á 79.503 hlutum í Kaupþingi. Lánið skyldi greiða með einni greiðslu 1. desember 2010. Þó skyldi lánið falla í gjalddaga léti stefnda af störfum sínum hjá bankanum fyrir þann tíma. Lánið skyldi bera breytilega vexti REIBOR auk 1.2% vaxtaálags. Skyldu þeir reiknast á 3ja mánaða fresti í fyrsta sinn frá 1. desember 2005 og skyldi fyrsta vaxtatímabil vera frá þeim degi til 1. mars 2006. Vextir skyldu leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. desember 2006. Til tryggingar greiðslu lánsins hafi stefnda sett að handveði 79.503 hluti, sbr. gr. 5.1. í lánssamningi. Samkvæmt gr. 6 í lánssamningi hafi ábyrgð stefndu takmarkast við 10% af fjárhæð lánsins eins og það hafi verið hverju sinni. Hinn 25. september 2008 hafi uppgreiðsluverðmæti lánsins numið 26.992.310 krónum.

Hinn 1. mars 2007 hafi stefnda ritað undir lánssamning númer 4643 í erlendum myntum við stefnanda um lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum að jafnvirði 3.024.472 króna. Lánið skyldi greitt upp þann 15. maí 2009 í myntunum CHF og JPY sbr. gr. 2.5. í lánssamningi aðila. Fram komi að tilgangur lánsins hafi verið að fjármagna hlutabréfakaup. Vextir skyldu vera breytilegir LIBOR vextir auk 1,75% álags og skyldu þeir reiknast frá útborgunardegi lánsins og leggjast við höfuðstól þess á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 15. maí 2008. Hvert vaxtatímabil skyldi vera 12 mánuðir. Samkvæmt gr. 4.1. hafi stefnda sett að handveði alla hluti í bankanum sem keyptir hafi verið sbr. handveðsyfirlýsingu dagsetta sama dag upp á 5.000 hluti. Þann 25. september 2008 hafi uppgreiðsluverðmæti lánsins numið 4.806.142 krónum.

Á fundi í stjórn Kaupþings dagana 25. og 26. september 2008 hafi verið rædd greinargerð frá starfskjaranefnd stefnanda. Í henni komi meðal annars fram að starfskjaranefndin hafi áhyggjur af því að ýmsir háttsettir stjórnendur innan bankans eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna lækkunar á virði hlutabréfa í bankanum. Nefndin hafi talið að bæta yrði úr þessu ástandi. Tryggja yrði að lykilstarfsmenn gætu einbeitt sér að starfsemi bankans á erfiðistímum. Á grundvelli tillagna starfskjaranefndar hafi stjórn bankans ákveðið að fela Hreiðari Má Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Kaupþings samstæðunnar, að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaup þeirra í bankanum með það að leiðarljósi að tryggja að þeim væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í þágu bankans, eins og segi í fundargerð stjórnar. Ábyrgð starfsmanna skyldi þannig takmörkuð við þau hlutabréf sem sett hafi verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum.

Hinn 25. september 2008 gaf stefnandi út yfirlýsingu til stefndu um að hann hefði ákveðið að krefja ekki stefndu (not to enforce) um persónulega ábyrgð hennar vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Ábyrgð hennar takmarkaðist því við þau hlutabréf í Kaupþingi sem voru sett að veði til tryggingar lánsskuldbindingum hennar. Stefnda hafi staðfest yfirlýsinguna með undirritun sinni. Litlu síðar, eða 9. október 2008, hafi Kaupþingi verið skipuð skilanefnd af hálfu Fjármálaeftirlitsins í samræmi við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og 5. gr. hinna svokölluðu neyðarlaga nr. 125/2008. Hafi stjórn Kaupþings farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar í bankanum og að stjórn bankans segði jafnframt af sér í heild sinni. 

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banki hf.), dagsettri 21. október 2008, hafi öllum eignum Kaupþings, þ.m.t. kröfuréttindum, sbr. lið 1 í ákvörðuninni, verið ráðstafað til Arion banka hf. Í samræmi við þetta hafi lánssamningar Kaupþings og stefndu verið framseldir til Arion banka hf. Mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf., sem útbúinn var af Fjármálaeftirlitinu, hafi verið 0 krónur, sbr. yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers hf. Helgist það mat eðli málsins samkvæmt af því að engin persónuleg ábyrgð hafi lengur verið til staðar vegna lánveitinganna og lánin eingöngu tryggð með veði í hlutabréfum í Kaupþingi sem hafi án vafa verið einskis virði.

Þann 25. maí 2009 hafi Kaupþingi verið skipuð slitastjórn af Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Kaupþingi hafi áður verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sérreglum um slíka heimild fjármálafyrirtækja í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008, en sú greiðslustöðvun hafi síðar verið framlengd tvisvar. Í 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, sé kveðið á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Fyrir liggi að eignir stefnanda dugi hvergi nærri til að efna skuldbindingar hans að fullu og sé stefnanda því heimilt að krefjast riftunar ráðstafana eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Frestdagur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti sé 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Þar sem stefnandi telji að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefndu samkvæmt áður greindum lánssamningum hafi verið ólögmæt hefur stefnandi rift ráðstöfuninni, aðallega á grundvelli 131. gr. en til vara á grundvelli 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti, sbr. bréf stefnanda til stefnda dags. 17. maí 2010. Hafi stefnda samfara riftuninni verið krafin um endurgreiðslu þeirrar auðgunar (og til vara skaðabóta að sömu fjárhæð) sem stefnandi telji að stefnda hafi haft af ráðstöfuninni auk áfallinna vaxta, eða alls 7.505.373 krónur. Hafi stefndu verið gefinn kostur á að greiða skuldina við stefnanda en að öðrum kosti að leggja fram viðeigandi tryggingar og semja um greiðslukjör. Þar sem stefnda hafi ekki orðið við framangreindu sé málshöfðun þessi óhjákvæmileg.

B.

Stefnda kveður lýsingu málsatvika í stefnu vera að hluta til óumdeilda en að hluta til villandi og vanreifaða. Stefnda telji því ástæðu til að leiðrétta og bæta við málavaxtalýsingu stefnanda sem sé afar almenns eðlis og sleppt sé málavöxtum sem stefnda telji að skipt geti meginmáli við úrlausn málsins.

Við undirbúning að skráningu á hlutabréfum stefnanda í kauphöll á árinu 2000 hafi verið rætt um að koma á fót kaupréttarkerfi fyrir starfsmenn og hafi þessi fyrirætlan stefnanda m.a. komið fram á stjórnarfundi þann 7. júní 2000. Á stjórnarfundi 10. ágúst 2000 hafi jafnframt verið vikið að vandkvæðum sem leiddu af takmörkuðum möguleikum starfsmanna til að stofna félög utan um kaup á hlutum í stefnanda, og takmarka með því ábyrgð sína, vegna reglna sem hafi komið í veg fyrir kaup starfsmanna á óskráðum félögum.

Í skráningar- og útboðslýsingu vegna skráningar á hlutabréfum stefnanda, sem hafi verið gefin út 2. október 2000, hafi starfsmönnum stefnanda verið veittur forgangsréttur að 40 milljónum hluta af þeim 180 milljónum hluta sem boðnir hafi verið til sölu í útboðinu og fjármögnun vegna þess. Samtals hafi sá hlutur numið um 4% hlutafjár stefnanda á þeim tíma. Hafi  jafnframt verið gengið frá kaupréttaráætlun fyrir starfsmenn í tengslum við útboðið í því skyni að auka hlutdeild þeirra í hluthafahópi stefnanda, en eitt af markmiðum með skráningu stefnanda á hlutabréfamarkað hafi verið, líkt og fram komi í útboðs- og skráningarlýsingu, að laða að stefnanda hæft og vel menntað starfsfólk, m.a. með því að veita því eignarhlutdeild í stefnanda. Þessi stefna hafi verið útfærð nánar á árunum 2003 og 2004 og m.a. kynnt fyrir Fjármálaeftirlitinu. Á fundi stjórnar stefnanda 8. ágúst 2003 hafi verið skipuð sérstök launanefnd stjórnar stefnanda, sem hafi verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið til stefnanda í tengslum við skráningu hlutabréfa stefnanda á sænskan hlutabréfamarkað. Á fundinum hafi jafnframt verið staðfestar reglur fyrir nefndina. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt reglunum hafi m.a. verið að „align the incentives of the executives with actions that will enhance long-term shareholder value.“ 

Á aðalfundi stefnanda 27. mars 2004 hafi verið samþykkt tillaga um að starfsmönnum og stjórnendum skyldi veittur valréttur til hlutabréfakaupa í bankanum. Þar hafi verið staðfest að kaupréttir og söluréttir með tilheyrandi eignarhaldi gætu á hverjum tíma numið allt að 9% af útgefnum hlutum í stefnanda. Jafnframt hafi aðalfundur samþykkt að fela stjórn stefnanda að veita lán til hlutabréfakaupa til samræmis við almennar reglur um fjármögnun slíkra kaupa. Tillagan hafi áður verið kynnt Fjármálaeftirlitinu og rækilega farið yfir forsendur hennar.

Eins og sjá megi af ræðu þeirri sem formaður starfskjaranefndar stefnanda hafi haldið þegar hann flutti framangreinda tillögu hafi markmið launastefnu stefnanda verið að tengja saman hagsmuni starfsmanna við hagsmuni hluthafa með því að gera starfsmenn að eigendum að hlutum í stefnanda. Þessu markmiði yrði hins vegar ekki náð nema með fjármögnun slíkra kaupa. Jafnframt hafi verið lögð á að það áhersla í ræðu formanns launanefndar að mikilvægt væri bæði fyrir starfsmenn og stefnanda sjálfan að starfsmenn yrðu varðir fyrir tjóni af lækkun á gengi hlutabréfa. Hafi þannig komið fram skýr stefna stefnanda um að starfsmenn ættu að vera skaðlausir af viðskiptum með hluti í stefnanda, en á þessum tíma hafi skaðleysi starfsmanna verið tryggt með útgáfu sölurétta, enda hafi verið um hluta af starfskjarastefnu stefnanda að ræða.

Á árinu 2005 hafi Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við að hlutabréfakaup starfsmanna væru fjármögnuð utan stefnanda og í kjölfarið samþykkti stjórn stefnanda 28. september 2005 að slíkar lánveitingar skyldu ávallt fara fram innan stefnanda sjálfs. Að beiðni launanefndar stjórnar stefnanda hafi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs ritað stefnanda minnisblað, dagsett 19. september 2005, þar sem fjallað hafi verið um helstu álitaefni sem tengdust kaupum starfsmanna á hlutum í stefnanda. Á minnisblaðinu komi fram að rétt sé að tryggja áfram að starfsmenn beri ekki fjárhagslega áhættu af þátttöku í hvatakerfi stefnanda þar sem það yrði engum til góðs ef lykilstarfsmenn ættu gjaldþrot yfir höfði sér ef verðmæti hluta í stefnanda myndi lækka. Á minnisblaðinu sé einnig farið yfir vandkvæði þess að starfsmenn geti ekki stofnað félög, sem áður hafi verið rædd í stjórn stefnanda, og möguleika á að reyna að breyta afstöðu Fjármálaeftirlitsins til þess, auk þess sem hugmyndir um að stofna sérstakan sjóð utan um fjárfestingu starfsmanna séu reifaðar.

Markmið stefnanda um skaðleysi starfsmanna hafi sem áður segir í upphafi verið tryggt með söluréttarfyrirkomulagi en í því fólst að starfsmaður sem hafði tekið lán til kaupa á hlutum í stefnanda í samræmi við framangreinda stefnu stjórnar stefnanda hafi haft heimild til að selja hlutabréf sín þremur árum eftir kaup, eða í ákveðnum tilvikum við starfslok, á markaðsvirði þess dags auk þess sem stefnanda hafi borið að greiða starfsmanni „uppbót“, sem hafi numið mismuni af því verði sem starfsmaðurinn hafi keypt hlutabréfin á að viðbættum fjármagnskostnaði að frádregnu markaðsvirði á söludegi. Þannig hafi verið tryggt að ef hlutabréfin lækkuðu í verði frá kaupdegi til söludags myndi söluverðið og uppbótin samanlagt ætíð duga til að standa straum af greiðslu lánsins sem tekið hafi verið til að fjármagna kaupin.

Stefnda hafi starfað hjá stefnanda og forvera hans allt frá árinu 1997. Árið 2003 hafi stefndu boðist að taka þátt í útfærslu stefnanda á þeirri stefnu sinni að starfsfólk skyldi eiga hluti í stefnanda og að lánað skyldi fyrir kaupum slíkra hluta. Samkvæmt samningi sem stefnda hafi gert við stefnanda til kaupa á hlutabréfum í stefnanda á þessum tíma hafi skaðleysi stefndu af viðskiptunum verið tryggt með söluréttarfyrirkomulagi því sem lýst hafi verið að framan.

Eftir að stefnandi hafi innleitt alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) á árinu 2005 hafi endurskoðendur stefnanda talið að söluréttir til starfsmanna hefðu áhrif við útreikning stefnanda á eiginfjárhlutfalli. Þessar athugasemdir endurskoðenda hafi verið sérstaklega tilgreindar í áðurnefndu minnisblaði framkvæmdastjóra lögfræðisviðs stefnanda. Athugasemdirnar hafi leitt til þess að stjórn stefnanda hafi farið fram á það við starfsmenn að þeir felldu niður sölurétt af hlutabréfum sínum í stefnanda gegn því að fundin yrði önnur útfærsla til að takmarka áhættu þeirra af hlutabréfaeign í stefnanda. Hafi ástæðan því með öllu verið óviðkomandi stefndu og ekki hafi verið um niðurstöðu samningaumleitana að ræða heldur einhliða kröfu stefnanda sem stefnda hafi ekki getað annað en samþykkt sökum vinnuréttarsambands síns við stefnanda. Stefnda og aðrir starfsmenn stefnanda hafi fallið frá sölurétti sínum með yfirlýsingu og hafi tilkynning þess efnis verið birt í Kauphöll Íslands 30. desember 2005. Yfirlýsing þessi hafi verið útbúin af stefnanda og hafi stefnandi farið fram á það við alla starfsmenn sína sem áttu sölurétti að þeir undirrituðu hana.

Áður, eða 1. desember 2005, hafi stefnda gert lánssamning við stefnanda, þar sem endurfjármagnaðar hafi verið allar skuldbindingar stefndu vegna hlutabréfakaupa í stefnanda. Sé lánssamningurinn til fimm ára og skyldi koma til endurgreiðslu þann 1. desember 2010. Vextir á láninu séu breytilegir REIBOR vextir, auk 1,2% álags. Til tryggingar efndum lánssamningsins hafi verið settir að handveði allir hlutir stefndu í stefnanda. Líkt og áður hafi stefndu verið óheimilt að ráðstafa hlutabréfunum í stefnanda á gildistíma lánsins, með hvaða hætti sem er, nema með samþykki stefnanda.

Þrátt fyrir framangreindar breytingar á hvatakerfi stefnanda hafi aldrei verið vikið frá þeirri stefnu að starfsmenn ættu ekki að bera fjárhagslega áhættu af þátttöku í hvatakerfinu. Engin ákvörðun um slíka stefnubreytingu hafi nokkurn tíma verið tekin af stjórn stefnanda. Til að takmarka áhættu starfsmanna og þar sem reglur á fjármálamarkaði á þessum tíma hafi komið í veg fyrir að starfsmenn gætu stofnað félög utan um hlutabréfakaup hafi því verið farin sú leið sem áður greini, þ.e. að takmarka persónulega ábyrgð starfsmanna við 10% af heildarfjárhæð lánsins. Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því í lánssamningi að bréfin skyldu seld þegar verðmæti þeirra færi niður fyrir 120% af heildarverðmæti lánsins og söluandvirði þeirra notað til uppgreiðslu lánssamnings.

Í 7. gr. lánssamningsins skuldbindi stefnda sig til þess að selja hvorki né veðsetja hluti sína í stefnanda, nema með skriflegu samþykki hans. Samhliða lánssamningnum hafi verið undirrituð handveðsyfirlýsing þar sem stefnda hafi sett hlutabréf sem hún hafi keypt fyrir lánsfjárhæðina að handveði. Hlutabréfin hafi því öll verið í vörslu stefnanda sem handveð fyrir skuldbindingum stefndu. Skuldbinding um bann við sölu og veðsetningu bréfanna hafi verið áréttuð í handveðsyfirlýsingunni.

Lánssamningur, dagsettur 1. mars 2007, sem einnig sé stefnt vegna í málinu, sé einnig tilkominn vegna þátttöku stefndu í hvatakerfi stefnanda og hafi gerð hans verið hluti af starfskjörum stefndu. Þau hlutabréf sem lánað hafi verið til kaupa á hafi verið keypt af stefnanda en ekki á frjálsum markaði og frumkvæði að viðskiptunum hafi verið stefnanda en ekki stefndu.

Framangreind ákvörðun stefnanda um að fella niður sölurétt starfsmanna hafi byggst á þeim forsendum að starfsmenn bæru takmarkaða ábyrgð og að veðköll yrðu virt, þannig að komið yrði í veg fyrir persónulegt tjón starfsmanna af hvatakerfi stefnanda. Vegna lækkunar á verði hlutabréfa í stefnanda í lok árs 2007 hafi stefnandi þurft að taka afstöðu til þess hvort nýta skyldi þær heimildir sem hafi falist í lánssamningum og handveðsyfirlýsingum og krefja stefndu og aðra starfsmenn um frekari tryggingar vegna skulda við stefnanda eða hreinlega selja hina seldu hluti til uppgjörs á skuldinni, sem hefði verið hagfelldast fyrir stefndu og forðað henni frá tjóni. Niðurstaða stefnanda hafi verið að nýta heimildirnar ekki. Samkvæmt skilmálum lánssamnings og handveðsyfirlýsingar hafi stefndu verið óheimilt að selja hlutabréf í stefnanda nema með samþykki hans. Stefnandi hafi því í raun farið með ráðstöfunarrétt á hlutabréfum stefndu og þar af leiðandi ákvörðunarvald um hvort þau skyldu seld til efnda skuldbindinga stefndu. Starfsmenn stefnanda hafi því ekki getað haft áhrif á framangreinda niðurstöðu stefnanda.

Starfsmenn stefnanda hafi á umræddum tíma óskað eftir uppgjöri á lánum en stefnandi hafi metið það svo að það væri ekki unnt af ástæðum er vörðuðu stefnanda sjálfan og stöðu hans. Slík sala hafi kallað á tilkynningu til Kauphallar um stórfelldar sölur hjá starfsmönnum stefnanda sem óhjákvæmilega hafi vakið tortryggni hjá öðrum hluthöfum stefnanda, greiningaraðilum, matsfyrirtækjum og fjárfestum almennt. Stórfelld sala starfsmanna á hlutum í stefnanda þegar verð þeirra hafi farið lækkandi hafi hins vegar verið í andstöðu við þessi markmið. Hafi því ekki verið fallist á þessar óskir starfsmanna og sölubann þvert á móti ítrekað og þeir fullvissaðir um að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að gengið yrði að persónulegri ábyrgð þeirra þar sem verið væri að leita leiða til að finna nýja útfærslu til að tryggja skaðleysi starfsmanna. Þetta hafi verið staðfest af formanni lánanefndar stefnanda á stjórnarfundi stefnanda dagana 25. og 26. september 2008, en þar komi m.a. fram að starfsmenn hafi verið fullvissaðir um að hagsmunir þeirra yrðu tryggðir með öðrum hætti. Stefnda hafi ítrekað verið fullvissuð af yfirmönnum sínum hjá stefnanda um að hún bæri ekki fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Stefndu hafi einnig ætíð verið gert ljóst að henni væri ekki heimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda á almennum markaði án sérstaks samþykkis stefnanda. Á stjórnarfundi stefnanda 25. og 26. september 2008 hafi verið samþykkt að fela forstjóra stefnanda að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna þannig að ábyrgð þeirra takmarkaðist við þær tryggingar sem lagðar hafi verið fram við gerð nefnds lánssamnings. Á þeim tíma hafi verðmæti veðsettra hlutabréfa fjölmargra starfsmanna, þar með talið stefndu, verið umfram skuldir samkvæmt lánssamningi.

Á grundvelli laga nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið 21. október 2008 að nýta sér heimild í lögunum til að taka yfir hluta af réttindum og skyldum stefnanda og færa þau yfir í nýtt félag, Nýja Kaupþing banka hf. (nú Arion banki hf.). Meðal þeirra réttinda sem hafi verið flutt yfir í Nýja Kaupþing banka hf. á þessum grundvelli hafi verið kröfur á hendur starfsmönnum vegna lánveitinga til hlutabréfakaupa, þar með talið þeir lánssamningar stefndu sem stefnt sé vegna í máli þessu, enda hafi kröfur samkvæmt þessum lánssamningum ekki verið undanþegnar í viðauka.

Í kjölfar falls stefnanda 9. október 2008 hafi verið talið nauðsynlegt að eyða óvissu varðandi lán til starfsmanna og eftir atvikum ganga til samninga um uppgjör þeirra þar sem meðal annars yrði tekið tillit til óvissu um réttmæti kröfu stefnanda og óskuðu starfsmenn stefnanda meðal annars eftir viðræðum við bráðabirgðastjórn Nýja Kaupþings banka hf. um uppgjör skuldbindinga sinna á þeim grundvelli. Bráðabirgðastjórn Nýja Kaupþings banka hf. hafi í framhaldinu óskað eftir lögfræðiáliti um réttarstöðu stefnanda vegna starfsmannalána og hafi Viðar Már Matthíasson, þá prófessor en nú hæstaréttardómari, skilað lögfræðiáliti 12. nóvember 2008. Þegar bráðabirgðastjórn Nýja Kaupþings banka hf. hafi lokið störfum í byrjun nóvember 2008 hafi ný stjórn óskað eftir lögfræðiáliti frá Herði Felix Harðarsyni, hrl., um sama efni. Niðurstaða beggja álita er sú að krafa stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi auðgun starfsmanna, þ.e. skuld starfsmanna samkvæmt lánssamningum 25. september 2008 að frádregnu verðmæti þeirra hlutabréfa sem sett hafa verið að handveði fyrir skuldinni þann sama dag. Stjórn Nýja Kaupþings banka hf. hafi jafnframt óskað eftir því að Viðar Már Matthíasson veitti lögfræðilegt álit um hver væri réttarstaða stefnanda til að höfða riftunarmál vegna kröfunnar í ljósi þess að hún hefði verið framseld til Nýja Kaupþings banka hf. Niðurstaða Viðars Más hafi verið sú að stefnandi gæti ekki borið fyrir sig riftunarreglur gjaldþrotalaga eftir að lánssamningar höfðu verið framseldir yfir til nýja bankans. Þá hafi stjórn Nýja Kaupþings banka hf. jafnframt óskað eftir því að Hörður Felix Harðarson veitti lögfræðiálit um skuldbindingargildi lánssamninga vegna hlutabréfakaupa starfsmanna. Sé niðurstaða Harðar Felix sú að líklegt megi telja að starfsmenn séu óskuldbundnir af lánssamningum á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar.

Stefndu hafi nú, þrátt fyrir allt það sem fram komi hér að framan, verið stefnt til fullrar greiðslu þeirrar fjárhæðar sem hún hafi borið persónulega ábyrgð á auk þess sem hún verjist nú kröfum skattyfirvalda um að hún greiði gríðarlega háar fjárhæðir í skatta vegna þátttöku sinnar í hvatakerfi stefnanda. Stefnda á eðli máls samkvæmt ekki möguleika á að greiða þær fjárhæðir sem hún sé krafin um enda sé ljóst að hlutabréf hennar í stefnanda séu einskis virði í dag.

C.

Af hálfu stefnanda gaf Vignir Rafn Gíslason löggiltur endurskoðandi skýrslu fyrir dómi. Stefnda, Delía Kristín Howser, gaf skýrslu og af hennar hálfu Bjarnfreður Ólafsson, Gunnar Páll Pálsson, Svali Hrannar Björgvinsson, Helgi Sigurðsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ásgeir Thoroddsen, Brynja Halldórsdóttir og Sigurður Einarsson.

Stefnda greindi frá því fyrir dómi að hún hefði hafið störf hjá Kaupþing banka í október 1997 og starfaði nú hjá Arion banka. Það áður kvaðst stefnda hafa unnið í öðrum bönkum í 10 ár. Stefnda bar að hringt hafi verið í hana 2003 og henni boðið að kaupa hlutabréf í bankanum. Keypti stefnda 75.000 hluti og síðar 5.000 hluti. Stefnda kvað skilning sinn alltaf hafa verið þann að hún gæti ekki farið illa út úr viðskiptunum. Bannað hafi verið að selja þessa hluti í þrjú ár. Skilningur stefndu var að bankinn myndi kaupa hlutina á ný eftir þrjú ár. Sú breyting varð á árinu 2005 að söluréttur að hlutum var afnuminn en á móti var ábyrgð stefndu samkvæmt lánssamningi takmörkuð við 10%.  Stefnda kvað öll hlutabréf sín hafi verið veðsett til tryggingar greiðslu, einnig þau bréf í bankanum sem stefnda hafði keypt í almennu útboði án þess að fá lánað fyrir þeim hjá bankanum. Stefnda bar að hún hefði gengið út frá skaðleysi sínu af þessum viðskiptum vegna þess að bankinn hafi átt að tryggja sig frekar eða ganga að bréfunum enda hafi stefndu ekki verið heimilt að selja bréfin. Stefnda kvaðst þó hafa selt þau bréf sem hún keypti í almennu útboði og fengið til þess leyfi. Stefnda, sem gegndi starfi forstöðumanns í viðskiptaumsjón bankans, kvaðst ekki hafa búið yfir neinum upplýsingum um fjárhag bankans en haft trú á Kaupþingi banka.

Vitnið Vignir Rafn Gíslason löggiltur endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers kom fyrir dóm og lýsti vinnu fyrirtækisins við rannsókn á lánum til starfsmanna Kaupþings banka vegna hlutabréfakaupa. Þá staðfesti vitnið undirskrift sína á framlögðum skjölum í málinu um þessa vinnu.

Vitnið Bjarnfreður Ólafsson var í stjórn Kaupþings banka 2003-2008 og átti sæti í lánanefnd og endurskoðunarnefnd bankans. Vitnið taldi aðdraganda að kaupum starfsmanna á hlutum í bankanum nokkuð langan. Það hafi verið hluti af starfskjarastefnu bankans sem hafi verið endurnýjuð árlega. Árið 2004 hafi verið mótuð sú stefna að heimila starfsmönnum að eiga allt að 9% hluta í bankanum og var ákveðið að veita kauprétt og sölurétt á móti og veita starfsmönnum lán til að kaupa hluti í bankanum. Tilgangurinn var að tryggja starfsmenn til langs tíma og halda þeim frá samkeppnisaðilum. Skaðleysi starfsmanna var tryggt en vitnið bar að örugglega hefði verið hægt að selja bréf í einhverjum tilvika, en ekki hafi verið ætlast til þess. Nánar aðspurður um hvernig skaðleysi starfsmanna hafi verið hugsað greindi vitnið frá því hugsunin hefði verið að starfsmenn væru til langframa, þeir væru kjölfestan í rekstri félagsins og stykkju ekki fyrir borð þótt eitthvað kæmi upp á. Þar af leiðandi var söluréttur veittur á öllum kaupunum og í sölurétti var tryggt fullkomið skaðleysi, þ.e. að hægt var að kaupa bréfin á upphaflegu kaupverði að viðbætum fjármagnskostnaði og uppbót til að mæta skatti sem gat leitt af söluréttinum. Sú breyting varð á sölurétti 2005 að hann var felldur niður vegna nýrra reikningsskilareglna. Var söluréttur starfsmanna í bankanum talinn hafi áhrif á eiginfjárhlutfall bankans. Finna varð leið til að halda sama skipulagi, þ.e. að starfsmenn gætu átt hluti í bankanum áfram en að sjálfsögðu að tryggja áfram skaðleysi starfsmanna. Niðurstaðan hafi verið að takmarka persónulega ábyrgð starfsmanna á móti afsali söluréttarins við 10% sem hafi svo orðið að verulegum vandræðum síðar. Um aðdraganda þess að ábyrgð starfsmanna hafi verið felld niður í september 2008 bar vitnið að á miðju ári 2007 byrji fjármálakreppa að gera vart við sig víðs vegar í heiminum og bankar taki að falla í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá fer fólk að hafa verulegar áhyggjur og stjórn bankans kemst að því að 10% ábyrgðin er til staðar og því óvissa fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra þótt alltaf hafi legið fyrir ákveðið skaðleysi. Þetta hafi verið einfaldasta leiðin. Ef þetta hafi ekki verið gert hafi orðið að selja hluti í bankanum sem ekki hafi þótt gerlegt miðað við að reka átti bankann áfram þrátt fyrir ólgu. Vitnið kvað fjárhagslega stöðu bankans í september 2008 hafi verið góða, lausafjárstaðan sterk og átti að duga fram á næsta ár. Vitnið kvað bankann gjaldfæran 25. september 2008.

Vitnið Gunnar Páll Pálsson kvaðst hafa setið í stjórn Kaupþings banka 2001-2008 og í launanefnd. Vitnið greindi frá því að það hefði litið á kauprétt starfsmanna sem hluta af starfskjörum þeirra af því að kveðið væri á um kauprétt í starfskjarastefnu bankans. Vitnið kvaðst hafa litið svo á að kaup á hlutum væri langtímafjárfesting og æskilegt að starfsmenn seldu ekki hluti. Vitnið mundi ekki eftir formlegri samþykkt stjórnar um sölubann. Við kynningu stefnunnar hafi verið lagt upp með sölurétt en því hafi verið breytt vegna breyttra uppgjörsreglna bankans. Um aðdragandann að niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar starfsmanna greindi vitnið frá því að við lækkandi verð hlutabréfa hafi einhverjir starfsmenn verið komnir niður fyrir viðmiðunarmörk á verðmæti bréfa gagnvart skuld samkvæmt lánssamningi. Kostirnir hafi verið tveir; annars vegar sala lykilstarfsmanna á hlutum sem gæti reynst bankanum erfið og valdið áhlaupi á bankann og hins vegar að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna á skuld við bankann vegna kaupa þeirra á hlutum í bankanum. Vitnið taldi bankann hafa verið gjaldfæran 25. september 2008.

Vitnið Svali Hrannar Björgvinsson, starfsmannastjóri hjá Kaupþing banka kvaðst hafa starfað í bankanum frá 2003-2009. Vitnið greindi frá því að kaup starfsmanna á hlutum í bankanum hafi verið hluti af starfskjörum og starfskjarastefnu til að laða að starfsfólk. Skilningur vitnisins var að starfsmenn ættu að eiga bréfin til langs tíma og að skaðleysi þeirra væri tryggt. Illa hafi verið tekið í að starfsmenn seldu hlutabréf sín í bankanum og leit vitnið svo á að sölubann gilti. Það kvaðst vitnið hafa eftir yfirmönnum í bankanum, Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Ingólfi Helgasyni. Kerfi kaupréttar hafi verið kynnt sem hvatakerfi til að hvetja fólk til góðra verka hjá bankanum. Þá kom fram hjá vitninu að skaðleysi starfsmanna hefði verið tryggt með veðkalli þannig að bankinn myndi tryggja að starfsfólk yrði ekki fyrir skaða. Bankinn ákvað að gera ekki veðkall, það kom í ljós haustið 2007. Þá var unnið að því að tryggja skaðleysi með öðrum hætti. Vitnið vissi ekki til að einhver starfsmaður hefði leitað eftir sölu. Fólk vildi lausn á málinu sem var í óviðunandi stöðu löngu fyrir fall bankans eða 400 dögum og spurði meðal annars hvort lausnin væri að selja bréfin en á það var ekki fallist af bankanum.

Vitnið Helgi Sigurðsson starfaði í bankanum 1998-2001 sem lögfræðingur á fyrirtækjasviði  og frá 2003 sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs bankans. Vitnið rakti stefnu Kaupþings banka um kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum. Sú leið var farin að lána fyrir kaupunum í stað þess að gefa bréf í bankanum, en menn veltu því fyrir sér hvernig unnt væri að tryggja skaðleysi starfsmanna. Strax hafi verið ljóst við skráningu bankans á markað að starfsmenn myndu eiga hlut í bankanum. Þessi stefna var útfærð 2003 og kom vitnið að því. Gefnir voru út kaupréttir og söluréttir til að tryggja skaðleysi starfsmanna. Var starfsmönnum tryggður hagnaður ef vel gengi og skaðleysi með sölurétti ef illa áraði. Vitnið kvað stefnuna hafa verið útfærða frekar og samþykkta 2004. Þá hafi verið ákveðið og fylgt eftir með ræðu formanns launanefndar stjórnar þeirri ákvörðun að lána til kaupa á hlutabréfum í bankanum sem starfsmenn ættu að eiga til langs tíma og að þeir yrðu varðir fyrir verðsveiflum bréfanna með sölurétti er myndi tryggja skaðleysi þeirra. Vitnið bar að 2005 hafi þurft að falla frá sölurétti sem gengi gegn útreikningi á eigin fé bankans. Hafi stjórn bankans bókað um þetta þannig að hvaða útfærsla sem valin yrði þá yrði þess gætt að tryggja skaðleysi starfsmanna. Vitnið kvaðst aðspurt hafa litið svo á að kaup starfsmanna á hlutabréfum væri hluti af starfskjörum þeirra. Hugmynd stjórnar gekk út á langtímaeign bréfa. Vitnið greindi frá því að við fall bankans hafi verið farið yfir sölur starfsmanna á bréfum. Dæmi voru um sölur en það var lágt hlutfall, en starfsmenn gátu selt með sérstakri heimild bankans. Þá voru einnig dæmi um sölur á hlutum sem ekki voru fjármagnaðir af bankanum. Aðspurt um það hvort starfsmönnum hafi verið lofað skaðleysi starfsmanna bar vitnið að hugmyndafræðin hefði alltaf verið að starfsmenn yrðu skaðlausir af hlutabréfakaupum og hafi það verið gert með sölurétti þeirra á bréfunum. Þegar sölurétturinn hafi verið afnuminn hafi tekið við kerfi sem gerði ráð fyrir að hlutir í bankanum yrðu seldir í tæka tíð áður en  verðmæti þeirra færi niður fyrir tiltekin mörk, en þegar reyndi á þær reglur var bankinn ekki tilbúinn til þess að bréfin yrðu seld. Þegar leitað hafi verið eftir skýringum voru svörin þau að menn skyldu vera rólegir, skaðleysið yrði tryggt. Vitnið bar að eftir að persónulegar ábyrgðir starfsmanna hefðu verið felldar niður hafi starfsmönnum ekki verið heimilt að selja, enda tilgangurinn áfram sá að starfsmenn ættu bréfin til langs tíma.

Vitnið Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka greindi frá því fyrir dómi að kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum hafi verið útfærsla á starfskjarastefnu bankans sem gerði ráð fyrir því að starfsmenn bankans væru einnig hluthafar. Hugmyndin hafi verið að bréfin væru langtímaeign starfsmanna. Um það væri ákvæði í lánssamningum. Þá bar vitnið að sölubann hafi verið í gildi og að skriflegt samþykki hafi þurft til sölu. Dæmi hafi verið um slíkt vegna persónulegra aðstæðna starfsmanna, t.d. vegna skilnaðar. Vitnið greindi frá því að skaðleysi hafi í upphafi verið tryggt með sölurétti, en síðar hafi starfsmenn gefið réttinn eftir, en þá hafi verið gert ráð fyrir að bankinn gæti gengið að bréfunum og selt þau. Mikið traust hafi verið milli bankans og starfsmanna á þessum tíma og þess vegna hafi umræða verið lítil. Breytingin hafi verið ákveðin einhliða af bankanum og ekki annað tilboð verið á borðinu fyrir starfsmenn. Vitnið bar að aðdragandinn að niðurfellingu persónulegra ábyrgða starfsmanna 2008 hafi verið að verðmæti hlutbréfa lækkaði en lán starfsmanna vegna hlutabréfakaupa hækkaði, þannig að starfsmenn höfðu áhyggjur af stöðu sinni og stjórnin varð að taka ákvörðun. Tveir kostir hafi verið í stöðunni; að selja hluti og gera lánin upp eða fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna. Vitnið bar að ákvörðunin um niðurfellinguna hafi verið viðskiptaleg ákvörðun bankans og hafi stjórnin talið hagsmunum bankans betur borgið með því að bréfin yrðu ekki seld. Ekki hefði verið hagfellt að tilkynna um stórfellda sölu starfsmanna á bréfum í bankanum. Þá bar vitnið að bankinn hafi ekki verið ógjaldfær 25. september 2008.

Vitnið Ásgeir Thoroddsen sat í stjórn Kaupþings banka 2003-2008 og kvaðst einnig hafa verið formaður starfskjaranefndar sem var undirnefnd stjórnar og mótaði starfskjarastefnu bankans. Vitnið bar að það hefði gert grein fyrir starfskjarastefnunni á aðalfundi bankans 2004 og hafi stefnan verið til umfjöllunar og samþykkt á síðari fundum. Vitnið lýsti starfskjarastefnu bankans og kaupum starfsmanna á hlutabréfum í bankanum með svipuðum hætti og aðrir stjórnarmenn sem gáfu skýrslu. Vitnið kvaðst hafa gert tillögu um það á stjórnarfundi í september 2008 að forstjóra yrði falið að ganga þannig frá málum að staðfest yrði að persónuleg ábyrgð starfsmanna væri ekki fyrir hendi. Vitnið taldi það hafa verið mistök bankans að ganga ekki að bréfum starfsmanna þegar verðmæti þeirra lækkaði.

Vitnið Brynja Halldórsdóttir sat í stjórn Kaupþings banka 2004-2008. Vitnið bar að hlutabréfakaup starfsmanna gegn lánum frá bankanum hafi verið hluti af starfskjörum. Litið hafi verið svo á starfsmenn ættu að eiga bréfin á meðan þeir væru starfsmenn bankans. Það hafi verið stefna bankans að starfsmenn væru skaðlausir og var það tryggt með sölurétti. Fram kom hjá vitninu að sölurétturinn hefði verið afnuminn 2005, en bókað að skaðleysi yrði áfram tryggt. Það sem hafi komið í staðinn fyrir sölurétt var ekki til umfjöllunar á stjórnarfundum en vitninu kvaðst þekkja til þess að í staðinn hafi komið ákvörðun um að starfsmenn bæru 10% ábyrgð og ákveðið veðhlutfall átti að tryggja veðkall. Í lok árs 2007 og byrjun árs 2008 hafi verið ljóst að veðkall væri komið á lykilstarfsmenn. Rætt hafi verið hvernig hægt væri að koma í veg fyrir stórfellda sölu lykilstarfsmanna á hlutabréfum í bankanum, en engin leið hafi fundist og því hafi niðurstaðan orðið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum til hlutabréfakaupa.

Vitnið Sigurður Einarsson kvaðst hafa verið formaður stjórnar Kaupþings banka 2003-2008. Vitnið kvað hugmyndina að því að starfsmenn bankans keyptu hluti í bankanum hafa orðið til áður en bankinn var skráður á markað. Vitnið lýsti starfskjarastefnu bankans og bar á sama eða svipaðan veg og aðrir stjórnarmenn bankans og þeir starfsmenn sem gáfu skýrslur fyrir dómi um kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum og um afnám söluréttar 2005 með samþykki starfsmanna og 10% ábyrgð þeirra á lánum vegna nýrra alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Vitnið bar að gengið hafi verið út frá skaðleysi starfsmanna og að breytingin 2005 hafi verið tæknileg útfærsla á meðan verið var að finna aðra leið til að tryggja 100% skaðleysi starfsmanna. Frá því hafi ekki verið gengið fyrr en 2008. Vitnið bar að það hefði talið að starfsmönnum hafi verið lofað skaðleysi af kaupum á hlutabréfum en gat ekki bent á neitt sérstakt í því sambandi.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveðst byggja aðild málsins til sóknar á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þar sem kveðið sé á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Enda þótt lánssamningar þeir, sem hin persónuleg ábyrgð stefndu laut að, hafi verið framseldir Nýja Kaupþingi banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins standi slíkt ekki í vegi fyrir því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda sé verið að endurheimta verðmæti, sem Kaupþing banki hf. hafi gefið eftir, fyrir framsal kröfuréttindanna til Arion banka hf. Stefnandi, og kröfuhafar hans, hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta með málshöfðun þessari. Á því   byggt að lánssamningar stefnda við Kaupþing banka hf. hafi hinn 25. september 2008 verið eign bankans. Þann sama dag hafi verðmæti hans verið rýrt með því að fella niður persónulega ábyrgð lántakanda. Þannig hafi sú rýrnun átt sér stað á þeim tíma sem bankinn hafi átt lánssamningana. Sú staðreynd að lánin hafi eftir það verið flutt yfir til Nýja Kaupþings banka hf. með ákvörðun FME frá 21. október 2008, breyti ekki þeirri staðreynd að niðurfelling ábyrgðarinnar hafi þá átt sér stað. Því sé krafan um endurgreiðslu á auðgun stefndu eign stefnanda.

Þá kveðst stefnandi aðallega byggja á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefndu sé gjöf sem sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Umþrætt niðurfelling, og þar með gjafagerningur að mati stefnanda, hafi átt sér stað 25. september 2008. Frestdagur hafi verið 15. nóvember 2008. Gjöfin hafi þannig verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í skilningi ákvæðisins.

Gjafahugtak 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti sé talið hafa þrjú meginskilyrði: (i) að gjöfin rýri eignir skuldara; (ii) að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda og (iii) að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt. Að því er varði fyrst talda skilyrðið þá telji stefnandi óumdeilt að það skilyrði teljist uppfyllt. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að niðurfærsla hinnar persónulegu ábyrgðar hafi falið í sér eftirgjöf kröfuréttinda af hálfu stefnanda, en eftirgjöf kröfuréttinda geti meðal annars talist til gjafagernings í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Af ráðstöfuninni hafi leitt að stefnandi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefndu á grundvelli beggja lánssamninga. Ráðstöfunin hafi þegar af þessum ástæðum leitt til rýrnunar á eignum stefnanda.

Að því er varði annað skilyrðið um auðgun móttakanda þá telji stefnandi að það skilyrði sé jafnframt uppfyllt. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefnda   laus undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti um leið fjármuna sem hefðu að öðrum kosti runnið til stefnanda og um leið kröfuhafa hans. Af framangreindu sé ljóst að ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefndu, enda tilgangur ráðstöfunarinnar beinlínis að fella niður persónulegar skuldbindingar stefndu. Að því er varði þriðja skilyrðið, þ.e. að gjafatilgangi sé til að dreifa, þá telji stefnandi jafnframt ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt. Að mati stefnanda verði ekki séð að ráðstöfunin hafi haft annan tilgang en að ívilna stefndu, ásamt öðrum starfsmönnum, og létta af þeim fjárhagslegum byrðum á kostnað bankans þannig að þeir gætu einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans á erfiðleikatímum. Hafi stefnda og aðrir starfsmenn verið leyst undan persónulegri greiðsluábyrgð og um leið á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Ákvörðun bankans hafi verið tekin þegar fyrirsvarsmönnum hafi verið, eða mátt hafa verið ljóst, að tekið var að fjara undan fjárhag bankans eða a.m.k. hætt við að svo yrði í ljósi þess ástands sem þá hafi ríkt í bankakerfinu, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað. Með vísan til framangreinds telji stefnandi að um gjöf hafi verið að ræða gjöf í skilningi 131.gr. laga um gjaldþrotaskipti, enda hafi umrædd ákvörðun bankans hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu hans.

Verði ekki fallist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti byggi stefnandi til vara á því að hún sé riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141.gr. sömu laga. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Samkvæmt 141. gr. sé það þannig skilyrði riftunar að ráðstöfun hafi verið (i) ótilhlýðileg, (ii) hin ótilhlýðilega ráðstöfun falli í einn hinna þriggja flokka sem taldir eru upp í ákvæðinu, (iii) skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og (iv) sá sem hafði hag af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt.

Stefnandi telji ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu stefnanda gagnvart stefndu án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir. Ekki verði séð að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefndu, svo og annarra starfsmanna bankans, hafi verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna starfsmönnum í þeirri stöðu sem upp hafi verið komin. Ráðstöfunin sé óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili í starfsemi bankans og hafi fyrirsvarsmönnum bankans, sem tóku ákvörðun um ráðstöfunina, mátt vera það ljóst. Af þessu leiði að eftirgjöf kröfuréttindanna geti ekki talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og á stóð. Þá telji stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda, hér kröfuréttindi, gátu ekki orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar stefndu hafi leitt til þess að stefnda losnaði undan persónulegri greiðsluskyldu. Með því urðu stefnandi og kröfuhafar hans fyrir tjóni sem því nemi, enda ljóst að eftir það hafi ekki verið unnt að ganga að stefndu persónulega um greiðslu skuldarinnar. Í ljósi alls framangreinds telji stefnandi að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefndu hafi með ótilhlýðilegum hætti leitt til þess að eignir stefnanda urðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sbr. 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Stefnandi kveðst jafnframt byggja á því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á tímamarki ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Nánar tiltekið sé á því byggt að fjárhagsstaða stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar, þann 25. september 2008, hafi verið orðin slík að hann hafi í raun ekki verið fær um að greiða skuldir sem féllu á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Sé þannig á því byggt að á þessu tímamarki hafi í raun að óbreyttu verið ljóst, eða því sem næst, að fyrirsjáanlegt greiðsluþrot blasti við stefnanda og eins og síðar hafi komið á daginn. Þannig hafi stefnandi orðið greiðsluþrota skömmu síðar og fyrir frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin átti sér stað.

Stefnandi byggi jafnframt á því að stefnda hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar og þær aðstæður sem leitt hafi til þess   ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefnandi bendi á að grandsemiskilyrði 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé talið fullnægt ef móttakanda hefði átt að gruna að skuldari væri ógjaldfær. Í ljósi þess sé á því byggt að stefnda, stöðu sinnar vegna sem forstöðumaður viðskiptaumsjónar Kaupþings, hafi vitað eða mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti og jafnframt um þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg í þeim skilningi eins og rakið hafi verið að framan.

Þá kveðst stefnandi vísa til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. – 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að verði fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti, svo sem stefnandi krefst, eigi stefnandi rétt á að krefja stefndu um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni leiddi. Stefnandi byggi á því að auðgun stefndu svari einfaldlega til hinnar persónulegu ábyrgðar sem hafi verið niðurfelld. Ef ekki hafi komið til niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar stefndu á láni gagnvart stefnanda, gæti stefnandi krafið stefndu persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun bankans hafi sá möguleiki stefnanda verið felldur niður og hafi það leitt til samsvarandi auðgunar stefndu. Tjón stefnanda svari jafnframt til auðgunarinnar.

Aðalkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

Lán númer 2894.

Uppgreiðsluverðmæti lánssamnings með 10% takmörkun                      2.699.231 króna.  

Lán númer 4643.

Uppgreiðsluverðmæti lánssamnings 25. september 2008                         4.806.142 krónur.

Það athugist að lánssamningur númer 2984 hafi þann 25. september 2008 staðið í 26.992.310 krónum en vegna 6. gr. í samningi aðila takmarkist ábyrgð stefndu við 10% af fjárhæð hans. Krafa stefnanda sé samtals 7.505.373 krónur (2.699.231 króna + 4.806.142 krónur) sem gefnar hafi verið eftir með ákvörðun stjórnar Kaupþings banka hf. Séu fjárhæðir byggðar á framlagðri samantekt PricewaterhouseCoopers, dagettri 25. mars 2010. Í þinghaldi 25. mars 2011 lagði stefnandi fram varakröfu til lækkunar og krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda samtals 6.567.948 krónur sem stefnandi sundurliði þannig:

Krafa samkvæmt lánssamningi númer 2894 með 10% takmörkun      2.699.231 króna.  

Krafa samkvæmt lánssamningi númer 4643                                                             3.868.717 krónur.

Stefnandi kveður varakröfuna byggða á útreikningi PricewaterhouseCoopers og því að verði lánssamningur aðila talinn fela í sér skuldbindingu í íslenskum krónum með óheimilli viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla, miðist vaxtaútreikningur lánssamnings aðila við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 471/2010. Að öðru leyti byggist varakrafan á sömu málsástæðum og lagarökum og byggt sé á í aðalkröfu. Krafist sé dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2008 til greiðsludags. Vísist um það til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun fór fram.

Stefnandi kveðst vísa til þess, að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefndu eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggi á því að tjón stefnanda, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu stefnanda. Sé þannig á því byggt að niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess, sbr. og að framan, að stefnandi (og þar með kröfuhafar hans) hafi ekki fengið notið þeirra kröfuréttinda á hendur stefndu sem þau hafi ellegar átt á grundvelli lánssamninga stefnanda og stefndu. Tjón stefnanda svari til fjárhæðar hinna niðurföllnu kröfuréttinda eða 7.505.373 króna. Sé jafnframt krafist dráttarvaxta frá sama tímamarki og í auðgunarkröfu en til vara frá dagsetningu riftunarbréfs stefnanda. Af framansögðu leiði að fjár- og dráttarvaxtakrafa stefnanda, bæði að því er varði auðgunar- og skaðabótakröfu, sé hin sama.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi einkum til 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum, sbr. meðal annars lög nr. 44/2009. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

III

Málsástæður og lagarök stefndu

Aðildarskortur sökum framsals.

Stefnda kveðst byggja á því að til kröfu þeirrar sem stefnandi krefst greiðslu á hafi verið stofnað fyrir 21. október 2008 og því hafi stefnandi framselt kröfuna til Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Kaupþings banka hf. Framangreint framsal sé afar víðtækt. Samkvæmt orðalagi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sé öllum eignum stefnanda, hverju nafni sem nefnist, svo sem kröfuréttindum, að undanskildum eignum og réttindum sem tiltekin séu í viðauka, ráðstafað til Arion banka hf. Því sé ljóst að hvort sem krafa sem stefnandi átti 21. október 2008 var óljós eða skilyrt hafi hún verið framseld Arion banka hf. 21. október 2008. Beri því að sýkna stefndu vegna aðildarskorts til sóknar.

Stefnandi byggi á því í stefnu að til kröfunnar hafi verið stofnað strax við hina riftanlegu ráðstöfun. Að öðrum kosti myndi stefnandi ekki krefjast dráttarvaxta frá þeim degi enda beri óstofnaðar kröfur enga vexti, hvað þá dráttarvexti. Aðilar dómsmáls hafi forræði á sakarefninu og stefnda byggi á að stefnandi hafi ráðstafað sakarefninu með þeim hætti að hann sé við það bundinn að krafa hans hafi stofnast við hina riftanlegu ráðstöfun. Öll andmæli stefnanda við því að krafan hafi stofnast við hina riftanlegu ráðstöfun hljóta í öllu falli að teljast nýjar málsástæður sem væru í andstöðu við þær sem settar eru fram í stefnu. Verði ekki litið svo á að stefnandi sé bundinn við þann málatilbúnað sinn að krafan hafi stofnast við hina riftanlegu ráðstöfun samkvæmt framansögðu byggi stefnda á því að engu að síður sé ljóst að hafi stefnandi, á einhverjum tímapunkti, átt fjárkröfu þá sem hann geri kröfu um greiðslu á í máli þessu, þá hafi sú krafa stofnast við hina riftanlegu ráðstöfun. Meginregla kröfuréttar og raunar íslensks réttar í heild sé sú að til kröfuréttarsambands stofnist ekki nema samkvæmt lögum eða sökum lögskipta aðila kröfuréttarsambandsins. Samkvæmt íslenskum lögum geti krafa aldrei stofnast fyrir einhliða yfirlýsingu eða athöfn meints kröfuhafa.

Því sé ljóst að krafa stefnanda geti ekki hafa stofnast við riftunaryfirlýsingu hans enda sé hún einhliða yfirlýsing stefnanda. Þá geti krafa stefnanda ekki hafa stofnast við það að stefnandi hafi verið tekinn til slitameðferðar enda sé þeirri athöfn ekki beint að stefndu. Þá mæli lög um gjaldþrotaskipti ekki fyrir um að kröfur stofnist sérstaklega við töku bús til gjaldþrotaskipta. Til samanburðar megi nefna að sambærilegar kröfur líkt og kröfur um endurgreiðslu ofgreiddra launa stofnist við ofgreiðsluna en hvorki við það er launagreiðandi uppgötvi hana né þegar hann krefjist einhliða endurgreiðslu. Meginregla sú sem framangreint beri vitni um, þess efnis að stofndagur kröfu vegna auðgunar, ofgreiðslu eða annars óréttmæts ávinnings, sé þegar auðgunin, ofgreiðslan eða hinn óréttmæti ávinningur eigi sér stað. Stefnda telji eðlilegast að líta svo á að við lögskipti aðila, nánar til tekið við hina meintu riftanlegu ráðstöfun, hafi stofnast skilyrt endurgreiðslukrafa, háð því skilyrði að stefnandi rifti ráðstöfuninni að fenginni heimild til slíks. Hin skilyrta endurgreiðslukrafa hafi því verið hluti af því kröfusafni sem framselt hafi verið frá stefnanda til Arion banka hf. þann 21. október 2008.

Stefnda telji í öllu falli ljóst að ef krafa stefnanda sé skaðabótakrafa samkvæmt 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, líkt og byggt sé á í stefnu, þá stofnist skaðabótakröfur að íslenskum rétti undantekningalaust við tjónsatvik. Tjónsatvik í þessu tilviki sé augljóslega hin meinta riftanlega ráðstöfun. Verði fallist á það með stefndu að krafa stefnanda hafi verið stofnuð fyrir 21. október 2008 verði að sýkna stefndu af fjárkröfunni sökum aðildarskorts til sóknar. Fjárkrafa stefnanda hafi þá verið framseld Arion banka hf. 21. október 2008 og þrátt fyrir að riftunarkröfur stefnanda nái fram að ganga geti fjárkrafa stefnanda ekki náð fram að ganga þar sem stefnandi sé ekki eigandi fjárkröfunnar.

Krafa stefnanda er ólögmæt, ógildanleg og óskuldbindandi.

Hvort sem riftunarkröfur stefnanda byggi á 131. gr. eða 141. gr. gjaldþrotalaga og hvort sem fjárkrafa stefnanda byggi á reglum 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga um endurgreiðslu auðgunar eða 3. mgr. 142. gr. um skaðabætur sé ljóst að kröfur stefnanda nái ekki fram að ganga nema krafa sú sem persónuleg ábyrgð hafi verið felld niður á, hafi verið réttmæt og lögmæt fjárkrafa sem unnt hafi verið að innheimta á hendur stefndu ef ekki hafi komið til ráðstöfunar þeirrar sem krafist sé riftunar á. Stefnda kveðst byggja á því að stefnandi hafi, í ljósi þess sem tíundað verði ítarlega hér að neðan, ekki átt réttmæta, lögmæta eða innheimtanlega kröfu á hendur sér á grundvelli þeirra lánssamninga sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda þegar þær ráðstafanir sem krafist er riftunar á voru framkvæmdar. Stefnda byggi þannig á því að í ljósi þessa hafi tjón stefnanda af ráðstöfuninni ekkert verið, meint auðgun stefndu af ráðstöfuninni á sama hátt engin verið, að ekki geti hafa verið um gjöf að ræða þar sem krafa stefnanda sem gefin hafi verið eftir hafi í raun ekki verið til staðar og að formleg eftirgjöf slíkrar kröfu geti aldrei talist ótilhlýðileg ráðstöfun. Beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Þá kveðst stefnda byggja á því að með ítrekuðum yfirlýsingum stefnanda og forsvarsmanna stefnanda um að starfsmenn stefnanda skyldu vera skaðlausir af hlutabréfaviðskiptunum, sem voru hluti af hvatakerfi stefnanda, hafi stefnandi gefið stefndu skuldbindandi loforð um að stefnandi myndi ekki eignast fjárkröfu á hendur stefndu á grundvelli lánssamninga þeirra sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda, og að stefnanda beri að efna þetta loforð. Stefnda byggi á að slík loforð hafi verið gefin henni með þrennum hætti. Í fyrsta lagi hafi henni persónulega margítrekað verið lofað því af sínum yfirmönnum, sem jafnframt voru forsvarsmenn stefnanda sem hafi haft heimild til að skuldbinda stefnanda, að hún myndi ekki bera fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Í öðru lagi hafi stefndu og öðrum starfsmönnum stefnanda ítrekað verið tilkynnt að starfsmenn stefnanda almennt þyrftu ekki að bera fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Í þriðja lagi liggi fyrir almenn stefna stefnanda, sem lýst sé í málavaxtalýsingu, um að tryggja ætti að starfsmenn stefnanda þyrftu ekki að bera fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda.

Til marks um að það hafi aldrei verið ætlun samningsaðila að stefnda myndi greiða stefnanda fjármuni sökum þátttöku sinnar í hvatakerfi stefnanda megi einnig nefna að lánveitingar stefnanda hafi ekki verið framkvæmdar eftir hefðbundnum reglum stefnanda og aldrei farið fyrir lánanefndir stefnanda heldur hafi lán verið veitt samkvæmt sérstakri heimild forstjóra sem stjórn stefnanda hafði veitt honum. Ekki hafi verið framkvæmt mat á greiðslugetu stefndu við töku hvers láns fyrir sig, ekki hafi farið fram mat á þekkingu stefndu á þeim viðskiptum sem hún hafi verið að taka þátt í hverju sinni og stefnda hafi hvorki fengið afhenta greiðsluáætlun né önnur gögn um endurgreiðslubyrði af lánssamningunum. Þá hafi sú ákvörðun stefnanda að kalla ekki eftir frekari veðum þegar veðþekja hafi farið undir 120% einnig verið til þess fallin að vekja hjá stefndu væntingar um að ekki stæði til að krefjast þess að hún greiddi stefnanda meinta skuld. Hafi ekki verið fyrir þessar væntingar hafi stefnda krafist þess að fá að selja hlutabréf sín til þess að takmarka áhættu sína. Leyfi stefnda sér að minna á að skuldbindingargildi loforða felist að íslenskum rétti fyrst og fremst í þeim væntingum sem vaktar séu hjá loforðsmóttakanda.

Allt framangreint, auk ákvæða lánssamninganna um heimild til sölu hlutabréfa stefndu í stefnanda til uppgjörs á lánssamningunum, hafi tvímælalaust verið til þess fallið að vekja hjá stefndu væntingar um að stefnandi myndi aldrei eignast fjárkröfu á hendur stefndu á grundvelli lánssamninga þeirra sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda, og hafi stefnanda borið að efna þetta loforð. Það hafi stefnandi með vissum hætti gert með framkvæmd þeirra ráðstafana sem nú sé krafist riftunar á.

Stefnda kveðst byggja á því að stefnandi hafi ekki átt lögvarða kröfu á hendur stefndu á grundvelli þeirra lánssamninga sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda áður en ráðstafanir þær sem krafist sé riftunar á voru framkvæmdar. Líkt og staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar megi efni samnings um kröfuréttindi ekki vera andstætt lögum og velsæmi. Slíkur samningur stofni ekki efnislegan rétt til handa kröfuhafa og slík krafa njóti ekki lögverndar. Þrátt fyrir að lán stefnanda til stefndu til kaupa á hlutum í stefnanda hafi hvorki verið andstæð lögum né velsæmi þegar þau hafi verið veitt byggi stefnda á að þau hafi, á einhverju tímamarki, orðið þáttur í ólögmætum og refsiverðum athöfnum stefnanda. Hér sé átt við að stefnandi hafi með skipulögðum, markvissum, ólögmætum og refsiverðum hætti haldið uppi verði hlutabréfa í stefnanda og að hlutafjáreign starfsmanna stefnanda og bann stefnanda við sölu slíkra bréfa hafi verið hluti af þeirri háttsemi. Af því leiði að lánssamningar þeir sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda stofni ekki efnislegan rétt til handa stefnanda gagnvart stefndu og verði því að sýkna stefndu af fjárkröfum stefnanda.

Þá byggi stefnda á því að áður en ráðstöfunin hafi átt sér stað hafi lánssamningar þeir sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir stefndu á grundvelli sjónarmiða um brostnar forsendur og á grundvelli 36. gr. og 36. gr. c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í þessu sambandi sé mikilvægt að halda því til haga að engar greiðslur hafi farið frá stefnanda til stefndu á grundvelli lánssamninga þeirra sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda og því aldrei um það að ræða að stefnandi tapi fjármunum sem hann hafi látið af hendi rakna fái hann ekki greiðslur samkvæmt lánssamningunum eða ígildi þeirra. Stefnda telji að bæði atvik sem uppi hafi verið við samningsgerðina og atvik er síðar hafi orðið leiði til þess að lánssamningar þeir sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda hafi verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir hana á grundvelli sjónarmiða um brostnar forsendur og á grundvelli 36. gr. og 36. gr. c. samningalaga.

Lánssamningarnir og þau viðskipti sem þeir hafi tengst hafi verið hluti af hvatakerfi stefnanda og þar með hluti starfskjara stefndu. Lánssamningunum hafi þannig verið ætlað allt annað hlutverk og ætlað að hafa allt önnur réttaráhrif en lánssamningum sé almennt ætlað að hafa. Markmið hvatakerfisins hafi verið að starfsmenn högnuðust á því ef vel gengi í rekstri stefnanda en ekki að stefnandi eignaðist fjárkröfu á hendur starfsmönnum sínum á grundvelli þess ef illa gengi. Slíkt yrði afar óeðlilegt í ljósi þess að um hluta starfskjara starfsmanna stefnanda hafi verið að ræða. Það hafi því aldrei verið markmið samningsaðila né tilætlan að stefnandi eignaðist fjárkröfu á hendur stefndu á grundvelli lánssamninganna. Það hafi því verið, áður en sú ráðstöfun sem nú sé krafist riftunar á, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, af stefnanda að krefja stefndu um greiðslu fjármuna á grundvelli lánssamninganna.

Varðandi þau atvik sem uppi hafi verið við samningsgerðina beri að hafa í huga þann aðstöðumun sem hafi verið á milli samningsaðila, þ.e. annars vegar fjármálastofnun og hins vegar starfsmann hennar sem hafi verið sett undir boðvald hennar. Stefnda og aðrir starfsmenn stefnanda hafi sem áður segir verið fullvissuð um að hlutabréfakaupunum fylgdi engin fjárhagsleg áhætta. Þetta hafi í upphafi verið tryggt með söluréttarfyrirkomulagi en síðar hafi starfsmenn verið sannfærðir um að skaðleysið væri tryggt án söluréttar. Það hafi því ætíð verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að krefja stefndu um greiðslu fjármuna á grundvelli lánssamninga sem gefnir hafi verið út í tengslum við hlutabréfakaupin.

Stefnda byggi á því að atvik og háttsemi stefnanda, sem hafi átt sér stað yfir langan tíma og eftir atvikum fyrir og eftir undirritun lánssamninga þeirra sem um ræði, leiði til þess að það hafi verið orðið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að innheimta fjárkröfur sínar að fullu á hendur stefndu og að forsendur stefndu fyrir lántökunni hafi verið brostnar. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sé sérstaklega fjallað um inngrip stefnanda í viðskipti með hlutabréf í stefnanda. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að inngripið hafi orðið til þess að skekkja þá mynd sem þáverandi hluthafar, þar með taldir starfsmenn, hafi haft um verðmæti hlutabréfa sinna. Rannsóknarnefndin telji jafnframt að mikið ójafnvægi á kaupum og sölu deildar eigin viðskipta stefnanda sýni að stefnandi hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri leiðréttingu á of háu gengi hlutabréfanna. Það verð sem stefnda hafi keypt bréf sín á hafi því verið byggt á blekkingum stefnanda og hafi stefnda því fengið lánaðar hærri fjárhæðir en ella frá stefnanda til kaupa á hlutabréfunum. Þá sé einnig ljóst að möguleikar stefndu til að verja fjárhagslega stöðu sína með því að ganga út úr hvatakerfi stefnanda með sölu á hlutabréfum sínum í stefnanda hafi verið eyðilagðir af stefnanda með því að stuðla að því að verðmyndun á markaði væri óeðlileg.

Að lokum beri að vísa til kæru Fjármálaeftirlitsins til Embættis sérstaks saksóknara vegna markaðsmisnotkunar, en stefnda byggi á því að hún sýni svo ekki verði um villst inngrip stefnanda í verðmyndun eigin bréfa. Þá bendi einnig ýmislegt til að hlutabréfakaup stefndu og annarra starfsmanna hafi verið liður í kaupum stefnanda á eigin bréfum til að halda uppi verði þeirra. Markmið stefnanda hafi því aldrei verið að innheimta þá fjármuni sem lánaðir hafi verið heldur hagnast á hlutabréfakaupum starfsmanna sinna með ólögmætum hætti sökum áhrifa þeirra á verð hlutabréfa í stefnanda. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sé einnig fjallað um óeðlileg áhrif stefnanda á gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim myntum sem annað lán stefndu sé tengt. Stefnda byggi á því að stefnandi hafi þannig, á þeim tíma sem leið frá lántöku stefndu til gjalddaga lána hennar, verið að taka stöðu á móti íslensku krónunni og þannig markvisst unnið gegn hagsmunum stefndu. Til viðbótar við framangreint bendi stefnda á að í kjölfar endurfjármögnunarerfiðleika stefnanda, sem endað hafi með ógjaldfærni hans, og aðgerða stjórnvalda í kjölfarið, veiktist gengi íslensku krónunnar verulega, auk þess sem þær vísitölur sem mynda grunn verðtryggingar hafi hækkað verulega með þeim áhrifum á fjárhæð skulda í íslenskum krónum sem óumdeild séu. Þessi veiking krónunnar sé bein afleiðing af hátterni stefnanda. Það geti í ljósi ábyrgðar stefnanda að þessari atburðarrás ekki talist eðlilegt að stefnda beri ein ábyrgð á henni í samningssambandi stefndu og stefnanda.

Kaup stefndu á hlutabréfum í stefnanda og þau lán sem veitt hafi verið í tengslum við þau kaup hafi verið hluti af starfskjarastefnu stefnanda. Kaup stefndu á hlutabréfum í stefnanda með lánum frá stefnanda hafi verið hluti af umsömdum starfskjörum stefndu og verið ætlað að vera endurgjald fyrir vinnu. Það sé grundvallarregla vinnuréttar að starfsmenn skuli fá greitt fyrir vinnuframlag sitt. Ef krafa stefnanda nái fram að ganga verði niðurstaðan sú að stefnda hafi engin laun fengið fyrir vinnuframlag sitt fyrir stefnanda frá því á árinu 2003 þegar stefnda hóf þátttöku í hvatakerfi stefnanda. Tap stefndu vegna þátttöku sinnar í hvatakerfinu nemi þá hærri fjárhæðum en samanlögð útgreidd laun og bónusar á öllu tímabilinu. Stefnda byggi einnig á þeirri grundvallarreglu vinnuréttar að starfsmenn skuli fá greitt fyrir vinnuframlag sitt og að enginn hluti slíkra greiðslna geti eðli málsins samkvæmt skapað skyldu launþega til að greiða launagreiðanda fjármuni. Það hafi því verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda sem launagreiðanda stefndu að innheimta fjárkröfur sínar að fullu á hendur stefndu og forsendur stefndu fyrir lántökunni séu brostnar. Að lokum byggi stefnda á að atvik sem gerðust 6. október 2008 hafi leitt til forsendubrests hjá stefndu og til þess að ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju hafi verið fyrir stefnanda að innheimta fjárkröfur sínar á hendur stefndu. Þá hafi tekið gildi lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þann 9. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið að skipa skilanefnd fyrir stefnanda á grundvelli 5. gr. neyðarlaganna. Í ákvörðun FME segi að stjórn stefnanda hafi sent eftirlitinu erindi, þar sem fram komi að stjórnin hafi sagt af sér og óski eftir því að FME taki yfir vald hluthafafundar í samræmi við 5. gr. neyðarlaganna. Þá sé sérstaklega tekið fram í ákvörðuninni að stofnunin telji að skilyrði 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki séu uppfyllt. Í ákvörðuninni segir orðrétt: „…í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Kaupþings banka hf., kerfislegs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið, enda telur Fjármálaeftirlitið önnur úrræði þess ekki líkleg til að bera árangur.“

Þann 21. október 2008 hafi tekið gildi ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til nýs banka. Ákvörðun þessi hafi verið grundvölluð á 5. gr. neyðarlaganna. Ákvörðunin hafi haft það í för með sér að hinn nýi banki hafi tekið yfir megnið af innlendum eignum stefnanda, en alþjóðleg starfsemi hafi að stærstum hluta verið skilin eftir í stefnanda. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að neyðarlögunum segi að lagt sé til að FME verði heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Af þessu leiði að FME hafi, á grundvelli afar sérstakra aðstæðna, gripið til framangreindra ráðstafana gagnvart stefnanda, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Afleiðingin af þessu inngripi FME sé meðal annars sú að hlutabréf stefndu í stefnanda eru nú verðlaus, enda veita þau engan þann rétt sem slíkum bréfum fylgi lögum samkvæmt. Enn fremur hafi eignum stefnanda verið ráðstafað með þeim hætti að segja má að bankinn hafi verið þjóðnýttur. Stefnda byggi á að afar ósanngjarnt sé að hún beri ábyrgð á þessu verðfalli bréfanna, enda ljóst að svo „afar sérstakar aðstæður“ falli ekki innan þeirrar áhættu sem hún hafi mátt gera ráð fyrir að bera við undirritun lánssamninganna. Stefnda byggi á að inngrip FME sé í raun óviðráðanlegt ytri atvik (force majure). Ljóst sé að hvorugur samningsaðila réði neinu um þessar ófyrirséðu breytingar, sem leiði augljóslega til þeirrar niðurstöðu að engir hagsmunir séu tengdir eignarhaldi umræddra hlutabréfa. Forsendur fyrir samningunum hafi því verið brostnar og þeir ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir stefndu með vísan til 36. gr. samningalaga.

Stefnda kveðst hafa treyst í einu og öllu á ráðgjöf stefnanda við kaup á hlutabréfum í stefnanda. Kynning stefnanda á fjárfestingunni hafi meðal annars farið fram með þeim hætti sem lýst sé hér að framan varðandi loforð stefnanda um skaðleysi stefndu af viðskiptunum. Stefnda, eins og margir aðrir starfsmenn stefnanda, hefði aldrei tekið umrædd lán ef ekki hefði verið fyrir fullyrðingar um skaðleysi starfsmanna af viðskiptunum. Stefnda telji því að ógilda beri lánssamningana á grundvelli reglna um brostnar forsendur. Það sé ljóst að stefnda hefði ekki stofnað til lánssamninganna ef hún hefði séð, eða mátt sjá fyrir, að stefnandi gæti haft uppi þá kröfu sem hér um ræðir. Hér sé um verulegar forsendur að ræða sem jafnframt sé ljóst að stefnandi mátti vita af. Verði talið að stefnda hafi skuldbundið sig til að greiða lánssamningana til baka og að stefnandi sem lánveitandi hafi ekki gefið eftir rétt sinn til að leita fullnustu á þeirri skyldu hjá stefndu persónulega með loforðum um skaðleysi verður í ljósi þess sem að framan greinir að ætla að stefnda hafi skrifað undir lánssamningana á röngum forsendum um skyldur sínar. Stefnandi hafi verið seljandi þeirra hlutabréfa í stefnanda sem stefnda hafi keypt og falli sala þeirra því undir lög nr. 108/2007, sbr. 3. og 5. tl. 1. mgr. og 2. tl. 2. mgr. 1. gr. laganna. Stefnanda hafi samkvæmt þessu meðal annars borið að fylgja almennri reglu 5. gr. laganna sem leggi þá skyldu á fjármálafyrirtæki að það starfi í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Því verði að telja að stefnanda hafi borið samkvæmt 14. gr. laganna að veita stefndu m.a. greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem viðskiptunum hafi fylgt og hafi þær orðið að vera skýrar og sanngjarnar og máttu ekki vera villandi þannig að stefnda gæti tekið „upplýsta fjárfestingarákvörðun.“

Þá kveðst stefnda enn fremur byggja á því að stefnandi hafi ekki gætt skyldu sinnar samkvæmt þessu ákvæði þannig að stefnda fengi nægilega greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem hafi falist í að taka lán til kaupa á hlutabréfum í stefnanda sem námu þeirri upphæð sem um ræði. Í þessu samhengi sé sérstaklega litið til þess að í engu hafi verið greint frá þeirri áhættu sem fólst í að stefnandi hafi einn ákvörðunarvald um það hvort hlutabréfin yrðu seld til uppgjörs skuldar stefnda þegar farið var undir 120% veðþekju og að ekki hafi verið minnst á þann hagsmunaárekstur sem upp kom hjá stefnanda við töku þeirrar ákvörðunar, þar sem sala hlutabréfanna hafi leitt til frekari lækkunar hlutabréfa í stefnanda þvert á hagsmuni hans. Þá verði að hafa í huga að stefnandi hafi átt allt frumkvæði að viðskiptunum og að ekki hafi farið fram sérstök athugun á því hvort stefnda uppfyllti almenn lánaskilyrði stefnanda. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að stefnda hafi, vegna villandi ráðgjafar, samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hennar takmarkaðist við verðmæti hlutabréfa sinna í stefnanda. Þá verði að telja að stefnandi hafi sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefndu með því að upplýsa hana ekki um þá áhættu sem hafi falist í lántökunni og mögulega hagsmuni stefnanda af því að nýta ekki heimild sína til að greiða upp lánin með sölu hlutabréfanna er veðþekja færi undir 120%.

Við mat á því hvort lánssamningarnir hafi notið réttarverndar, verið skuldbindandi fyrir stefndu, lögmætir og krafa samkvæmt þeim innheimtanleg verði að líta heildstætt til allra þeirra atvika sem tíunduð séu hér að framan. Þá verði einnig að líta til þess að 36. gr. c. samningalaga gildi um réttarsamband stefndu og stefnanda enda sé um staðlaða samninga að ræða sem gerðir hafi verið með sama hætti við starfsmenn stefnanda. Í 36. gr. c. samningalaga sé mælt fyrir um að samningur teljist ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Stefnda byggi á að ákvæði þetta eigi við allar framangreindar málsástæður enda sé hún neytandi í skilningi ákvæðisins, áhætta stefnanda af gerð lánssamningsins hafi engin verið þar sem stefnandi hafi enga fjármuni látið af hendi og að nú sé ljóst að áhætta stefndu, neytandans, hafi hins vegar verið gríðarleg, ekki síst í ljósi þess að stefnanda hafi verið unnt að koma í veg fyrir að stefnda takmarkaði áhættu sína með sölu á hlutabréfum í stefnanda.

Skilyrði riftunar.

Hvað varðar skilyrði riftunar kveðst stefnda byggja á því að skilyrði XX. kafla gjaldþrotalaga fyrir því að dómkröfur stefnanda nái fram að ganga séu ekki uppfyllt og að stefnandi hafi ekki rétt til að rifta þeim ráðstöfunum sem krafist er riftunar á. Stefnandi byggi riftunarkröfur sínar á ákvæðum XX. kafla gjaldþrotalaga. Réttur til beitingar þeirra heimilda sem um sé fjallað í XX. kafla gjaldþrotalaga sé bundinn við þrotabú. Stefnda byggi á því að réttur stefnanda til beitingar reglna XX. kafla gjaldþrotalaga verði að hafa verið orðinn virkur á meðan stefnandi var enn eigandi þeirra hagsmuna sem riftunarkröfurnar varða. Við framsal þeirra lánssamninga sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda til Arion banka hf., með ákvörðun fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Arion banka hf., hafi Arion banki hf. öðlast öll réttindi stefnanda til greiðslna samkvæmt umræddum lánssamningum. Eftir þann tímapunkt geti stefnandi engan rétt byggt á umræddum lánssamningum og réttindi sem hann hafi síðar öðlast á grundvelli réttarsambands síns við stefndu en framsalshafi geti ekki öðlast tapast þar af leiðandi. Þar sem stefnandi hafi, er framsalið átti sér stað, ekki verið undir gjaldþrotaskiptum eða í öðru því ferli sem veiti aðila heimild til að rifta ráðstöfunum samkvæmt XX. kafla gjaldþrotalaga hafi hann ekki öðlast riftunarheimildir fyrr en eftir að réttarsambandi hans og stefndu var lokið. Riftunarréttur sé því ekki til staðar varðandi ráðstafanir sem byggja á þeim lánssamningum sem tilteknir eru í stefnu. Því beri að sýkna stefndu.

Skilyrði riftunar samkvæmt 131. gr. gjaldþrotalaga sé þríþætt. Gjöfin verði að rýra eignir skuldara, gjöfin verði að leiða til eignaaukningar hjá móttakanda hennar og tilgangur gerningsins verður að vera að gefa. Stefnda byggi á að því að efnislegum skilyrðum 131. gr., um að gjöfin hafi rýrt eignir skuldara, leitt til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn hafi verið að gefa, sé ekki fullnægt.

Mat á því hvort um örlætisgerning hafi verið að ræða í þessu tilviki fléttist saman við mat á því hver lögmæt fjárkrafa stefnanda hafi verið áður en þær ráðstafanir sem krafist er riftunar á voru framkvæmdar. Ástæða þess að máli geti skipt hverja stefnandi taldi hina lögmætu kröfu vera þegar ákvörðun um niðurfellinguna hafi verið tekin sé sú að ekki sé um örlætisgerning að ræða ef stefnandi taldi sig ekki eiga raunhæfa möguleika á því að innheimta kröfu samkvæmt lánssamningunum úr hendi stefndu. Þá sé einnig ljóst að eignir stefnanda hafi ekki rýrnað ef krafan sé ólögmæt og að stefnda hafi ekki auðgast ef krafan á hendur henni hafi verið  ólögmæt. Stefnda byggi á að stefnandi hafi ekki talið sér stætt á að innheimta persónulega ábyrgð stefndu á umræddum lánssamningum. Ástæður þessa hafi fyrst og fremst legið í ítrekuðum loforðum stefnanda um skaðleysi starfsmanna af þátttöku í hvatakerfi stefnanda og hlutabréfakaupum starfsmanna stefnanda í stefnanda. Auk ítrekaðra skuldbindandi loforða hafi þetta mat forsvarsmanna stefnanda stuðst við 36. gr. samningalaga, enda nær augljóst að ósanngjarnt hafi verið að innheimta þessar kröfur í ljósi þess með hvaða hætti þær urðu til. Þá hljóti mat stefnanda einnig að hafa byggst á því að honum hafi verið ljóst að krafa hans væri ólögmæt vegna þess að hún hafi verið hluti af umfangsmikilli markaðsmisnotkun stefnanda og þar sem stefnandi hafi veitt stefndu rangar upplýsingar við kaup stefndu á hlutabréfum í stefnanda. Stefnda telji það nokkuð sérstakt að stefnandi kjósi að höfða þetta mál enda sé um innheimtu kröfu sem tilkomin er vegna nokkurs sem stefnandi sjálfur telji fela í sér markaðsmisnotkun. Síðast en ekki síst hafi stefnanda verið ljóst að krafa hans væri ólögmæt þar sem innheimta hennar myndi brjóta gegn grundvallarreglum vinnuréttar.

Stefnda kveðst einnig byggja á því að það hafi verið mat forsvarsmanna stefnanda á þeim tíma sem ákveðið hafi verið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna stefnanda að slíkt væri hagkvæmt fyrir stefnanda. Niðurfelling persónulegra ábyrgða hafi ekki verið gjafagerningur heldur hluti af tilraunum stefnanda til að bjarga sér frá greiðsluþroti, og síðar hluti af tilraunum stefnanda til að hámarka endurheimtur kröfuhafa. Það hafi verið hagsmunir stefnanda sem hafðir hafi verið í huga þegar ákvörðun um ráðstöfunina hafi verið tekin en ekki vilji stefnanda til að gefa stefndu fjármuni. Stefnandi hafi haft af því mikla hagsmuni að starfsmenn stefnanda myndu ekki selja hlutabréf sín í stefnanda. Augljóst sé hvaða áhrif stórfelld sala starfsmanna stefnanda á hlutabréfum sínum í stefnanda hefði haft á tiltrú markaða á rekstri stefnanda. Forsvarsmenn stefnanda hafi því metið stöðu stefnanda þannig að hagsmunum stefnanda væri betur borgið með því að tryggja að starfsmenn stefnanda þyrftu ekki að bregðast við lækkandi verði hlutabréfa í stefnanda með því að selja hlutabréf sín og greiða niður lán þau sem veitt hafi verið til hlutabréfakaupanna. Starfsmenn hafi því enn á ný, og í þetta sinn með formlegum hætti, verið fullvissaðir um að þeir bæru ekki fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Framangreind ráðstöfun hafi verið framkvæmd á tíma þar sem mikið hafi mætt á starfsmönnum stefnanda og afar mikilvægt hafi verið fyrir stefnanda að lykilstarfsmenn hans gætu einbeitt sér að málefnum félagsins. Það hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að halda góðum vinnufriði á þessum tímum, þegar framtíð stefnanda og milljarða hagsmunir eigenda stefnanda og þjóðarbúsins alls hafi verið í mikilli hættu. Starfsmenn stefnanda hafi á þessum tíma unnið hörðum höndum að því að bjarga stefnanda frá gjaldþroti, og síðar að því að hámarka endurheimtur kröfuhafa stefnanda.

Forsvarsmenn stefnanda hafi einnig verið meðvitaðir um að stefnandi hafi ekki með góðu móti getað komið í veg fyrir að einstaklingar sem hafi tekið þátt í hvatakerfi stefnanda gætu selt hlutabréf sín í stefnanda ef þeir létu af störfum fyrir stefnanda. Við starfslok myndi stefnandi missa það boðvald sem hann hafi haft yfir þeim og synjanir á formlegum beiðnum fyrrum starfsmanna um heimild til sölu á hlutabréfum í stefnanda hafi getað orðið vitneskja á markaði sem hefði sömu áhrif á hlutabréfaverð í stefnanda og sala lykilstarfsmanna á hlutabréfum sínum. Hvað þetta varði vísi stefnda einnig til þess sem fram komi í stefnu, að lánssamningana hafi átt að greiða fyrir umsamda lokagjalddaga ef til starfsloka kæmi og augljóst sé að við slíka gjaldfellingu hefði stefnandi orðið að heimila stefndu sölu veðsettra bréfa sinna. Stefnandi hafi því metið það svo að hagsmunum hans yrði betur borgið með því að fullvissa stefndu enn og aftur um að hún yrði skaðlaus af þátttöku sinni í hvatakerfinu. Með þeim hætti hafi stefnandi tryggt að stefnda seldi ekki hlutabréf sín í stefnanda með þeim afleiðingum sem það hefði haft og tryggði sér verðmæta starfskrafta stefndu á tímum þar sem lykilstarfsmenn stefnanda hafi verið mikilvægari en nokkurn tíma fyrr.

Stefnda hafi látið af höndum visst gagngjald og því sé ekki um gjafagerning að ræða auk þess sem eignaaukning stefndu hafi ekki orðið sú sem stefnandi haldi fram í stefnu. Gagngjald stefndu hafi falist í því að hún seldi ekki hlutabréf sín í stefnanda eins og henni hefði verið réttast að gera til að verja persónulega hagsmuni sína í stað þess að fá niðurfellda persónulega ábyrgð. Dagslokaverð hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008 hafi verið 755 krónur á hlut, en sama dag hafi stefnda veðsett stefnanda 81.243 hluti í stefnanda sem hafi því alls verið að verðmæti 61.338.465 krónur. Framangreindar fjárhæðir verði að teljast gagngjald stefndu enda hafi ráðstöfuninni verið ætlað að koma í veg fyrir að hún nýtti þessi verðmæti til lækkunar á skuldum við stefnanda.

Stefnda byggi á því að hvert framangreindra atriða fyrir sig dugi til þess að ekki sé unnt að líta á ráðstafanir þær sem riftunar sé krafist á sem gjafagerninga. Stefnda leggi þó áherslu á að meta verði aðstæður heildstætt. Stefnandi hafi ekki talið sig hafa mikla möguleika til að innheimta persónulegar ábyrgðir starfsmanna sinna á lánum sem tekin hafi verið til hlutabréfakaupa í stefnanda vegna ítrekaðra loforða um annað. Stefnanda hafi verið mikilvægt að halda starfsfrið og einbeitingu starfsmanna og hafi verið nauðsynlegt að þeir segðu ekki upp störfum bæði sökum þess að stefnanda hafi verið starfskraftar þeirra nauðsynlegir og sökum þess að við slíkt myndi staða þeirra til að knýja stefnanda til að heimila þeim sölu veðsettra hlutabréfa sinna í stefnanda batna til muna. Stefnandi hafi því fellt ábyrgðir starfsmanna sinna niður. Gagngjaldið hafi verið sanngjarnt. Starfsmennirnir hafi þá ekki selt hlutabréf sín í stefnanda en slík aðgerð starfsmanna hefði annars aflað þeim tekna sem hefðu greitt upp eða farið langleiðina með að greiða skuld þeirra við stefnanda. Gagngjald þetta hafi verið stefnanda afar dýrmætt enda ljóst að við slíka aðgerð hefðu markaðir endanlega misst alla tiltrú á starfsemi stefnanda og stefnandi hafi vegna þeirrar ráðstöfunar sem nú sé krafist riftunar á getað haldið áfram að vinna að því að bjarga sér frá falli eða að minnsta kosti reyna að hámarka endurheimtur kröfuhafa. Þegar allt framangreint auk stöðu stefnanda sem vinnuveitanda og launagreiðanda stefndu sé virt sé ljóst að það hafi ekki verið vilji stefnanda til að gefa stefndu sem hafi legið til grundvallar þeim ráðstöfunum sem krafist sé riftunar á heldur hagsmunir stefnanda sjálfs og að önnur skilyrði beitingar 131 gr. gjaldþrotalaga séu ekki til staðar.

Stefnda kveður að skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. gjaldþrotalaga séu að ráðstöfun hafi verið með einhverjum hætti ótilhlýðileg og að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Þá sé einnig skilyrði að sá sem hafi haft hag af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiða til þess að ráðstöfun geti talist ótilhlýðileg. Stefnda byggi á því að ekkert af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt í máli þessu og því sé ekki unnt að byggja riftun ráðstöfunarinnar í máli þessu á 141. gr. gjaldþrotalaga. Á því sé byggt í stefnu að ótilhlýðileiki ráðstöfunarinnar felist í því að hún hafi ekki verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Þessum málatilbúnaði sé hafnað með vísan til þess sem að framan greini um markmið ráðstöfunarinnar og þá gríðarlegu hagsmuni sem stefnandi hafi haft af þeim og með vísan til ólögmætis krafna stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Stefnda byggi því á að engin þau sjónarmið sem byggt sé á í stefnu geti leitt til þess að ráðstöfunin geti talist ótilhlýðileg og því verði að sýkna stefndu af kröfum sem reistar séu á 141. gr. gjaldþrotalaga.

Stefnda hafi allt frá upphafi verið fullvissuð um að hún bæri ekki fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda. Þá hafi stefnda einnig verið meðvituð um að stefnandi hafi haft af því mikla hagsmuni að hún myndi ekki selja hlutabréf sín í stefnanda á almennum markaði. Stefnda hafi því enga ástæðu til að ætla annað en að ákvörðun stefnanda hefði verið skjalfesting veittra loforða og framkvæmd sökum hagsmuna stefnanda. Stefnda byggi á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd. Engin gögn séu lögð fram til stuðnings þessari fullyrðingu stefnanda og engin rök færð fyrir henni önnur en þau að stefnandi hafi verið greiðsluþrota stuttu síðar og honum skipuð skilanefnd. Ógjaldfærni stefnanda stuttu eftir ráðstöfunina sé ekki sönnun um ógjaldfærni þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað.

Þá kveðst stefnda ekki hafa haft nokkrar forsendur til að ætla að ítrekaðar yfirlýsingar forsvarsmanna stefnanda um stöðu hans væru rangar. Í ljósi þeirra upplýsinga sem opinberar voru sé það alfarið stefnanda að sanna grandsemi stefndu. Hafi slík sönnun ekki tekist. Stefnda byggi einnig á því að ekki sé nægjanlegt að stefnandi sanni að grunur hafi verið til staðar um möguleika á ógjaldfærni stefnanda á einhverjum síðari tímapunkti eða um óljósa stöðu hans heldur verði stefnandi að sanna að umræddur grunur hafi staðið til þess að stefnandi hafi í raun og veru verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin átti sér stað. Athygli sé vakin á því að stefnda hafi ekki komið nálægt lánveitingu, fjármögnun, fjárfestingum né eigin viðskiptum stefnanda í starfi sínu fyrir stefnanda.

Fjárkrafa stefnanda.

Stefnandi byggi fjárkröfu sína á endurgreiðslureglu 1. málsliðar 1. mgr. 142. gr., verði riftun byggð á 131. gr. gjaldþrotalaga, en á 3. mgr. 142 gr. gjaldþrotalaga verði riftun byggð á 141. gr. laganna. Geri stefnandi ekki kröfu um skaðabætur á grundvelli 3. málsliðar 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga verði riftun byggð á 131. gr. gjaldþrotalaga. Þar sem útreikningur réttmætrar fjárkröfu þrotabús í kjölfar riftunar ráðstöfunar sé afar mismunandi eftir því hvort fjárkrafa byggist á reglum um endurgreiðslu auðgunar eða skaðabótum verður að fjalla sérstaklega um hvora grein fyrir sig. Útreikningur réttmætrar fjárkröfu stefnanda taki þó í öllum tilvikum mið af því hversu há fjárkrafa stefnanda samkvæmt lánssamningnum hafi verið áður en ráðstöfunin hafi verið framkvæmd.

Að framan sé á því byggt að sýkna verði stefndu af öllum kröfum stefnanda sökum þess að stefnandi hafi ekki átt réttmæta, lögmæta né innheimtanlega kröfu á hendur stefndu á grundvelli þeirra lánssamninga sem tilteknir eru í dómkröfum stefnanda þegar sú ráðstöfun sem krafist sé riftunar á hafi verið framkvæmd. Verði ekki fallist á að málsástæður þessar leiði til sýknu byggi stefnda á að sömu sjónarmið leiði til þess að breyta eigi efni lánssamninganna með heimild í 36. gr. samningalaga þannig að jafnvægi myndist í réttarsambandi aðila. Sanngjarnar og eðlilegar kröfur stefnanda samkvæmt lánssamningunum séu í öllu falli miklu mun lægri en byggt sé á í stefnu. Stefnda byggi einnig á því að annar þeirra lánssamninga sem tilteknir séu í stefnu feli í sér lán í íslenskum krónum sem bundin séu með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Lánssamningur dagsettur 1. mars 2007 feli í sér lánveitingu sem veitt hafi verið til kaupa á hlutabréfum sem skráð hafi verið í Kauphöll Íslands og hafi gengið kaupum og sölum fyrir íslenskar krónur. Stefnda hafi ekki fengið neina fjármuni afhenta en andvirði lánsins hafi farið til kaupa á umræddum hlutabréfum. Í lánssamningunum sé fjárhæð lánsins gefin upp sem jafnvirði tiltekinnar krónutölu í erlendum myntum. Þá sé fjárhæð skuldar stefndu tiltekin í krónum á framlögðu skjali sem stafar frá stefnanda, og reyndar einnig í stefnu.

Í lánssamningnum öllum sé tiltekið hvaða vexti lánsfjárhæðir í íslenskum krónum skuli bera og því eigi málsástæður stefnanda um forsendubrest fyrir vaxtaákvæðum ekki við. Verði komist að þeirri niðurstöðu að lánið sé í raun lán á íslenskum krónum beri það að sjálfsögðu þá vexti sem um hafi verið samið að lán í íslenskum krónum skyldu bera. Í 3. gr. lánssamningsins sé kveðið á um að lánshlutar í öðrum myntum en evrum skuli bera vexti sem jafngildi LIBOR vöxtum auk 1,75% álags og að í stað LIBOR skuli miða við vexti á millibankamarkaði komi viðkomandi gjaldmiðill ekki fram á tiltekinni vaxtatöflu. Eigi það við um íslenskar krónur og séu umsamdir vextir af lánshlutum í íslenskum krónum því jafnir millibankavöxtum. Skorað sé á stefnanda að leggja fram útreikning á uppgreiðsluverðmæti lánssamnings þessa miðað við umsamda vexti af lánum í íslenskum krónum.

Gegn kröfu stefnanda um greiðslu meintrar auðgunar stefndu sem stefnandi byggi á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga byggi stefnda á að gagngjald sitt verði að koma til frádráttar enda mæli 1. mgr. 142. gr. fyrir um greiðslu fjármuna sem svara til þess sem greiðsla þrotamanns kom riftunarþola að notum. Ráðstöfunin hafi eingöngu komið stefndu að notum að svo miklu leyti sem hún hafi borið persónulega ábyrgð á greiðslum krafna stefnanda samkvæmt lánssamningunum eftir að búið sé að draga verðmæti hlutabréfa hennar í stefnanda frá. Hafi stefndu ekki verið lofað skaðleysi og því skriflega lýst yfir við hana að hún bæri ekki persónulega ábyrgð á greiðslu þeirra lánssamninga sem tilteknir eru í dómkröfum stefnanda hefði hún getað selt hlutabréf sín í stefnanda sama dag á 61.338.465 krónur. Staða skuldar stefndu við stefnanda samkvæmt umræddum lánssamningum liggi ekki fyrir í máli þessu, enda um ólögmæta gengistryggingu að ræða í dómkröfum stefnanda. Skorað sé á stefnanda að breyta dómkröfum sínum og upplýsa um stöðu lána miðað við 25. september 2008. Í öllu falli sé þó ljóst að auðgun stefndu hafi engin verið og hún hafi í raun tapað háum fjárhæðum af því að hafa ekki fengið að selja hlutabréf sín í stefnanda þegar enn hafi verið verðmæti í þeim. Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga skuli sá sem hag á að hafa haft af riftanlegri ráðstöfun ekki greiða hærri fjárhæð „en sem nemur tjóni þrotabúsins.“ Um hæstu mögulegu fjárkröfu stefnanda á grundvelli 1. mgr. 142. gr. vísist því til umfjöllunar hér á eftir um fjárhæð skaðabóta.

Gegn kröfu stefnanda um skaðabætur samkvæmt 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga byggi stefnda á að henni hafi ekki verið kunnugt um riftanleika ráðstafana þeirra sem krafist sé riftunar á í máli þessu. Hafi stefndu grunað að ráðstöfunin væri riftanleg hefði hún aldrei látið sannfæra sig um að fjárhagslegum hagsmunum sínum væri borgið án þess að hún seldi hlutabréf sín í stefnanda. Um slíka fjármuni sé að ræða að stefnda hefði aldrei tekið áhættu af því að krafa sökum þeirra félli á hana þegar hún hafi átt möguleika á að þurfa ekki að taka nokkra áhættu með því einfaldlega að selja hlutabréf sín í stefnanda. Málavextir beri þvert á móti með sér að stefnda hafi verið sannfærð um að hagsmunum sínum væri borgið. Þá hafi stefnda eins og áður sé rökstutt enga ástæðu til að ætla að stefnandi væri ógjaldfær þegar ráðstöfunin átti sér stað. Stefnda kveðst byggja á því að það sé stefnanda að sanna að stefndu hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstafana þeirra sem krafist sé riftunar á og að slík sönnun hafi ekki tekist. Stefnda byggi á að ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við ráðstafanir þær sem krafist sé riftunar á. Stefnda vísi hvað þetta varði til þess gagngjalds sem reitt var af hendi og til þeirra gríðarlegu hagsmuna sem stefnandi hafi haft af því að stefnda myndi ekki selja hlutabréf sín í stefnanda þegar ráðstafanirnar hafi verið framkvæmdar.

Þá vísi stefnda einnig til þess að einungis annar þeirra lánssamninga sem um ræði hafi verið kominn á gjalddaga við höfðun máls þessa og því sé með öllu ósannað að krafa núverandi kröfuhafa, Arion Banka hf. samkvæmt hinum lánssamningnum fáist ekki greidd á gjalddaga. Þá byggi stefnda á því að tjón stefnanda geti í öllu falli ekki numið hærri fjárhæð en sem samsvari persónulegri ábyrgð stefndu á greiðslum krafna stefnanda samkvæmt lánssamningunum eftir að búið sé að draga verðmæti hlutabréfa hennar í stefnanda frá enda hefði stefnandi aldrei fengið hærri fjárhæð greidda frá stefndu þó ekki hefði komið til þeirrar ráðstöfunar sem krafist sé riftunar á. Líkt og fram komi í stefnu hafi lánssamningur stefnanda og stefndu verið framseldur til Arion banka hf. og hafi mat þeirra í stofnefnahagsreikningi bankans 21. október 2008 verið 0 krónur samkvæmt yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers hf.

Stefnda byggi á því að stefnandi hefði ekki fengið hærra verð fyrir kröfuna við framsal hennar þó hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi ekki átt sér stað. Sambærilegar eignir stefnanda, þ.e. lán sem veitt hafi verið á móti hlutabréfum sem urðu verðlaus við bankahrun í október 2008 voru metin á 0 krónur við framsal yfir til Arion banka hf. Það liggi fyrir að hvort sem hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað eður ei hafi þeir lánssamningar er ráðstöfunin varðar verið framseldir til Arion banka hf. 21. október 2008. Þá hafi stefnandi samkvæmt framangreindu enga greiðslu fengið fyrir framsal umrædds lánssamnings hvort sem ráðstafanirnar hafi verið framkvæmdar eður ei. Með vísan til þessa liggi fyrir að tjón stefnanda vegna hinna meintu riftanlegu ráðstafana hafi ekkert verið. Til að varpa frekara ljósi á framangreint sé skorað á stefnanda að leggja fram gögn um mat sams konar eigna stefnanda í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf.

Stefnda byggir enn fremur á því að meta verði það til eigin sakar stefnanda að hafa ekki beitt úrræðum samkvæmt lánssamningi og handveðsyfirlýsingu, en með því að beita skýrum heimildum lánssamnings og handveðsyfirlýsingar hafi mátt koma í veg fyrir meint tjón stefnanda, sem málsókn þessi sé reist á. Til vara lýsi stefnda yfir skuldajöfnuði til greiðslu skaðabótakröfu stefnanda. Krafa stefndu á hendur stefnanda sem nýtt sé til skuldajafnaðar sé  skaðabótakrafa hennar á hendur stefnanda fyrir að hafa með saknæmum og ólögmætum hætti komið í veg fyrir að hún seldi hlutabréf sín í stefnanda á almennum markaði áður en þau hafi orðið verðlaus vegna atvika er snerti eingöngu stefnanda. Tjón stefndu vegna hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnanda nemi verðmæti hlutabréfa hans í stefnanda 25. september 2008, 61.338.465 krónum. Þess sé krafist að fjárhæð þessi komi til lækkunar hverjum þeim skaðabótum sem komist verði að niðurstöðu um að stefndu beri að greiða stefnanda á grundvelli 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga og í raun til lækkunar á auðgunarkröfu samkvæmt 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Skaðabótakrafa stefndu byggi á hinni almennu sakarreglu. Verði ráðstöfun stefnanda rift sé ljóst að til hennar hafi verið stofnað með ólögmætum hætti. Þá sé einnig ljóst að stefnandi hafi með saknæmum hætti komið því til leiðar að stefnda taldi að engir starfsmenn stefnanda bæru persónulega ábyrgð á greiðslu lánssamninga sem tengdust hlutabréfakaupum þeirra í stefnanda. Með þessu hafi stefnandi komið í veg fyrir að stefnda seldi hlutabréf sín í stefnanda á meðan enn hafi verið verðmæti í þeim.

Krafa stefndu á hendur stefnanda sé af sömu rót runnin og dómkröfur stefnanda í máli þessu. Þá séu báðar kröfur gjaldkræfar verði stefnda dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur. Þá sé augljóst að um gagnkvæmar kröfur sé að ræða. Að lokum sé öllum skilyrðum 100. gr. gjaldþrotalaga fullnægt. Lýsi stefnda jafnframt yfir skuldajöfnuði, með vísan til sömu sjónarmiða og fram komi hér að framan, fari svo ólíklega að ríkisskattstjóri muni með endanlegum hætti endurákvarða opinber gjöld fyrir stefndu, vegna meintra tekna sem séu tilkomin vegna hvatakerfis sem hannað hafi verið af stefnanda fyrir starfsmenn hans. Leiði hvatakerfið, sem tryggja átti stefndu skaðleysi samkvæmt skýrum yfirlýsingum og markmiðum stjórnar stefnanda, til tjóns fyrir stefndu, er ljóst að stefnda á skaðabótakröfu á hendur stefnanda og sé því lýst yfir skuldajöfnuði vegna þess. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til þess að hvatakerfi stefnanda hafi verið breytt einhliða af stefnanda og eingöngu með það að markmiði að tryggja hagsmuni stefnanda.

Þá sé einnig á því byggt að ef svo fari að ríkisskattstjóri endurákvarði opinber gjöld fyrir stefndu hafi stefnanda borið sem launagreiðanda stefndu að halda eftir opinberum gjöldum vegna þessa samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar sem stefnandi hafi ekki gert það kunni stefnda að bera ábyrgð á umræddum gjöldum vegna ákvæðis 3. málsliðar 1. mgr. 22. gr. laganna sem kveði á um óskipta ábyrgð launagreiðanda og launamanns á vanteknum opinberum gjöldum. Með því að halda ekki eftir fyrrgreindum opinberum gjöldum kunni stefnda því að verða fyrir tjóni. Sé lýst yfir skuldajöfnuði vegna þessa, sem og alls þess tjóns sem fyrrgreind skattkrafa kunni að valda stefndu og stangist á við áðurgreind loforð og yfirlýsta stefnu stefnanda um að tryggja skaðleysi stefndu vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Um heimild til að koma fram með skuldajafnaðarkröfu í greinargerð vísist til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Lánssamningar þeir sem krafa stefnanda byggi á séu tilkomnir vegna endurgjalds stefnanda til stefndu fyrir vinnuframlag stefndu til stefnanda sem launþega. Stefnda hafi sem launþegi á almennum vinnumarkaði fengið greidd umsamin laun frá stefnanda, sem hafi verið föst laun, árangurstengdar bónusgreiðslur og hlutabréf í stefnanda sem fjármögnuð hafi verið með sérstökum lánum frá stefnanda. Líta verði með heildstæðum hætti á öll framangreind fjárhagsleg gæði og samanlagt peningaverð þessara gæða myndi það endurgjald sem stefnandi hafi greitt stefndu fyrir vinnu sína.

Í lögum þeim sem gildi á vinnumarkaði og í kjarasamningum sé stefndu sem starfsmanni stefnanda tryggð tiltekið lágmarks endurgjald fyrir vinnu sína. Þrátt fyrir að almennt gildi samningsfrelsi aðila á almennum vinnumarkaði séu allir þeir samningar sem fela í sér lakari rétt launþega til endurgjalds fyrir vinnuframlag sitt en mælt sé fyrir um í lögum og kjarasamningum ógildir og að vettugi virðandi. Verði niðurstaða máls þessa sú að stefndu beri að greiða stefnanda að fullu uppgreiðsluverðmæti lánssamninga þeirra sem gerðir hafi verið vegna hlutabréfakaupa stefndu í stefnanda hafi stefnda ekki fengið lög- og kjarasamningsbundið lágmarks endurgjald fyrir vinnu sína fyrir stefnanda. Af þessum sökum verði að sýkna stefndu af kröfum stefnanda eða til vara að lækka kröfu stefnanda þannig að stefndu sé tryggt lög- og kjarasamningsbundið lágmarks endurgjald fyrir vinnu sína. Þá byggi stefnda á að lög á vinnumarkaði og kjarasamningar komi í veg fyrir að stefnandi geti greitt launþegum sínum fyrir vinnuframlag sitt með löggerningum sem baka launþeganum tjón.

Verði niðurstaðan sú að fallist verði á einhverja riftunarkröfu stefnanda og að stefndu verði þrátt fyrir þær varnir gegn fjárhæð stefnukrafna sem fram eru færðar að ofan engu að síður skylt að greiða stefnanda einhverja fjárhæð byggir stefnda á því að lækka beri þær fjárhæðir af sanngirnisástæðum. sbr. 145. gr. gjaldþrotalaga. Skilyrði beitingar reglunnar séu tvö. Í fyrsta lagi þurfi endurgreiðsla að vera bundin svo miklum erfiðleikum að ósanngjarnt megi teljast. Í öðru lagi þurfi önnur atvik að leiða til hins sama. Þær fjárhæðir sem krafist sé greiðslu á í máli þessu séu það háar að ósanngjarnt sé að krefja nokkurn einstakling um greiðslu þeirra, sér í lagi þegar eignir þær sem standa hafi átt til fullnustu kröfunnar séu nú verðlausar og ástæður þess liggi hjá stefnanda. Eignir stefndu standi engan veginn undir greiðslu dómkrafna stefnanda og nái þær fram að ganga sé gjaldþrot stefndu óumflýjanlegt.

Þá liggi fyrir í málinu að það hafi aldrei verið tilætlan samningsaðila þegar gengið hafi verið til þeirra viðskipta sem lánssamningarnir séu hluti af að stefnandi eignaðist fjárkröfu á hendur stefndu. Um hluta af launakjörum stefndu hafi verið að ræða. Launakjör þessi hafi verið í samræmi við starfskjarastefnu stefnanda. Stefnda eigi þá skýlausan rétt á því að fá greidd laun vegna starfa sinna fyrir stefnanda en nái krafa stefnanda fram að ganga sé ljóst að hún hafi engin eða lítil laun fengið fyrir störf sín síðan hún hóf störf hjá stefnanda. Þá hafi stefndu ítrekað verið lofað að hún myndi ekki bera af því fjárhagslega áhættu að taka þátt í starfskjarastefnu stefnanda. Þá beri einnig að minnast þess að stefnandi þessa máls hafi verið vinnuveitandi stefndu og hafi sem slíkur verið í mun sterkari stöðu jafnt við samningsgerð og síðar við umræðu um sölu hlutabréfa stefndu eða annarra ráðstafana til að takmarka áhættu hennar. Að auki, samanber umfjöllun hér að framan, þá hefði stefnandi ekki fengið neitt greitt fyrir lánssamning við stefndu hvort sem niðurfelling ábyrgðar skuldara lánssamninganna hefði farið fram eður ei. Síðast en ekki síst þá hafi stefndu með banni og loforðum um skaðleysi verið haldið frá því að selja hlutabréf sín í stefnanda á almennum markaði þegar þau hefðu enn dugað til fullrar greiðslu lánssamninganna. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af öllum vörnum stefndu í máli þessu verði að telja að atvik málsins séu þannig að ósanngjarnt megi teljast að stefnda þurfi að greiða stefnanda umstefndar fjárhæðir. Þá verði einnig að telja að ekki sé unnt að meta hagsmuni kröfuhafa stefnanda sem séu að mestu leyti fjármálafyrirtæki, eða jafnvel ríki og stofnanir, af því að krafa þessi verði greidd, til jafns við hagsmuni stefndu af því að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu og því að fjárhagslegum stoðum verði ekki kippt undan heimilishaldi hennar og fjölskyldu. Þá beri að minnast þess að stefnda hafi aldrei fengið þá fjármuni í hendur sem lánaðir hafi verið samkvæmt lánssamningnum heldur hafi hún fengið hlutabréf í stefnanda sem stefnandi hafi gert verðlaus með glæpsamlegum athöfnum sínum.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda.

Stefnda kveðst mótmæla dráttarvaxtakröfum stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 geti kröfuhafi krafist dráttarvaxta frá gjalddaga að greiðsludegi, ef um sé að ræða kröfu með fyrirfram ákveðnum gjalddaga. Lánssamningar þeir sem tilteknir séu í dómkröfum stefnanda séu báðir með fyrirfram ákveðnum gjalddaga en séu ekki enn fallnir í gjalddaga. Sú aðgerð stefnanda að krefjast riftunar á skuldskeytingu eða niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar á lánssamningunum leiði ekki sjálfkrafa til þess að lánssamningarnir teljist hafa fallið í gjalddaga sama dag. Verði skaðabótakrafa stefnanda tekin til greina geti stefnandi fyrst krafist dráttarvaxta að liðnum mánuði frá þeim degi er sannanlega voru lagðar fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Stefnda byggi á því að ósannað sé að sá dagur sé 25. september 2008. Stefnda mótmæli því að til sé réttarvenja sem leiði til þess að upphaf dráttarvaxta beri að miða við þann dag er ráðstöfun eigi sér stað. Dráttarvaxtakröfur stefnanda séu svo óskýrar og illa rökstuddar að telja verði ósannað að stefnandi eigi nokkurn rétt til dráttarvaxta úr hendi stefndu.

Hvað lagarök varðar byggir stefnda kröfur sínar og málsástæður meðal annars á meginreglum skaðabóta- vinnu- samninga- og kröfuréttar, lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, lögum um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Skuldajafnaðarkröfur stefndu byggja auk framangreinds á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

IV

Niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi að rift verði þeirri ráðstöfun Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefndu á greiðslu tveggja lánssamninga, annars vegar lánssamnings númer 2894, sem dagsettur er 1. desember 2005 og hins vegar samningur númer 4643, dagsettur 1. mars 2007. Samkvæmt hinum fyrrnefnda samningi, sem kom í stað lánssamnings frá 9. desember 2003, tók stefnda að láni hjá stefnanda 18.240.906 íslenskar krónur til að fjármagna hlutafjárkaup og heimilaði stefnda bankanum að ráðstafa láninu til greiðslu og uppgjörs hlutafjárkaupa samkvæmt tilteknum forsendum sem eru hluti samningsins. Þá segir að veðhlutfall samningsins skuli á hverjum tíma vera að lágmarki 150%, en færi veðhlutfall niður fyrir 120% í a.m.k. fimm bankadaga skyldi lántaki að fenginni tilkynningu leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið nái aftur 150%. Til tryggingar greiðslu skuldar samkvæmt samningnum setti stefnda að handveði 79.503 eigin hluti í bankanum. Lánið skyldi endurgreiða með einni greiðslu ásamt áföllnum vöxtum 1. desember 2010. Í lánssamningnum segir enn fremur að ábyrgð stefndu á skuldinni takmarkist við andvirði handveðsins og viðbótartrygginga, en auk þess geti stefnandi innheimt 10% skuldarinnar með því að leita fullnustu í öðrum eignum. Samkvæmt síðarnefnda samningnum tók stefnda að láni til hlutafjárkaupa jafnvirði 3.024.472 króna. Um var að ræða lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum sem skyldi endurgreiða með einni greiðslu 15. maí 2009 í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af. Við undirritun lánssamningsins keypti stefnda 5.000 hluti í Kaupþingi banka hf. sem hún setti að handveði til tryggingar greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningnum. Þá var svo um samið milli aðila að stefndu væri óheimilt, meðan skuldbindingar þær sem veðandlagið á að tryggja séu ekki að fullu greiddar, að ráðstafa veðandlaginu án skriflegs leyfis veðhafa, enda gangi andvirðið til lækkunar á þeim skuldbindingum sem veðandlagið á að tryggja.

                Á fundi stjórnar stefnanda 27. mars 2004 var samþykkt tillaga um að starfsmönnum skyldi veittur réttur til að kaupa hlutabréf í bankanum. Var stjórninni falið að veita lán til hlutabréfakaupa. Markmiðið var að tengja saman hagsmuni starfsmanna við hagsmuni hluthafa bankans með beinum hætti. Á stjórnarfundi stefnanda 28. september 2005 var samþykkt stefna um hlutabréfakaup svonefndra lykilstarfsmanna. Skyldi framkvæmdin vera í samræmi við almenna starfskjarastefnu bankans eins og hún hafði verið ákveðin af launanefnd. Tekið var fram að kaupin skuli fjármögnuð með lánum frá bankanum. Þá var einnig tekið fram að stjórnin óski eftir því að hugað yrði að ráðstöfunum til að takmarka áhættu lykilstarfsmanna vegna hugsanlegrar lækkunar hlutabréfaverðs. Á árinu 2005 var söluréttur starfsmanna á hlutabréfum í stefnanda afnuminn vegna nýrra reglna um útreikning stefnanda á eiginfjárhlutfalli. Í staðinn kom ákvörðun um að starfsmenn bæru 10% ábyrgð á greiðslu lánssamninga og tiltekið veðhlutfall í þeim tilgangi að tryggja veðkall við breytingu á virði hlutabréfa í stefnanda.

                Stefnda bar fyrir dómi að hún hefði keypt hlutabréf í bankanum samkvæmt boði þar um. Það hefði alltaf verið skilningur stefndu að hún gæti ekki farið illa út úr viðskiptunum. Bannað hafi verið að selja þessa hluti í þrjú ár, en bankinn hafi ætlað að kaupa hlutina á ný að þeim tíma liðnum. Stefnda kvað þá breytingu hafa orðið á árinu 2005 að söluréttur að hlutum var hafi verið afnuminn en á móti hafi ábyrgð stefndu á greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi verið takmörkuð við 10%. Stefnda bar að hún hefði gengið út frá skaðleysi sínu af þessum viðskiptum vegna þess að bankinn hafi átt að tryggja sig frekar eða ganga að bréfunum enda hafi stefndu ekki verið heimilt að selja bréfin. Stefnda kvaðst þó hafa selt þau bréf sem hún keypti í almennu útboði og fengið til þess leyfi.

                Í greinargerð frá Starfskjaranefnd stefnanda til stjórnar, dagsettri í september 2008 er lýst áhyggjum nefndarinnar af því að ýmsir háttsettir stjórnunarstarfsmenn í bankanum eigi í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna verðfalls á hlutabréfum. Lýsir nefndin þeirri skoðun sinni að taka ætti skref til úrbóta og að megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmenn hans geti einbeitt sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum. Á fundi stjórnar stefnanda dagana 25. og 26. september 2008 var greinargerð starfskjaranefndar til umfjöllunar. Var ákveðið að veita Hreiðari Má Sigurðssyni þáverandi forstjóra bankans heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við lán starfsmanna til hlutafjárkaupa í Kaupþingi. Var það gert til að gera starfsmönnunum kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt skriflegri yfirlýsingu Hreiðars Más, dagsettri 25. september 2008, er staðfest að Kaupþing banki hf. hefði ákveðið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð stefndu vegna lána til hlutafjárkaupa í stefnanda. Tekið er fram að ábyrgð stefndu takmarkist við hlutabréf sem sett hafi verið sem veð. Krefst stefnandi þess, auk riftunar þessarar ráðstöfunar, aðallega á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að stefnda greiði stefnanda það fé sem svarar til þess sem greiðsla hefur orðið henni að notum, sbr. 1. mgr. 142. gr. laganna. 

                Krafa stefndu um sýknu er meðal annars byggð á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggt er á því að til kröfu þeirrar sem stefnandi krefjist greiðslu á hafi verið stofnað fyrir 21. október 2008 og því hafi stefnandi framselt kröfuna til Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf. Framangreint framsal sé víðtækt og nái til kröfuréttinda.

                Fyrir liggur að lánssamningar aðila málsins voru framseldir til Arion banka en mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþings banka hf., sem útbúinn var af Fjármálaeftirlitinu, var 0 krónur vegna þess að persónuleg ábyrgð var ekki lengur til staðar. Í yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers, dagsettri 4. maí 2010, sem Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi, staðfesti fyrir dómi, kemur hins vegar fram að bókfært verð útlánasafns hafi verið 55.360.430.370 krónur.

                Stefnandi byggir aðild sína að máli þessu á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Þar segir að við slit fjármálafyrirtækis ráðstafi slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti. Sé ekki sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti. Kaupþingi banka hf. var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Aðdragandi að því var að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans og vék félagsstjórn frá störfum. Var þetta gert á grundvelli auglýsingar frá 9. október 2008. Jafnframt skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Var skilanefnd gert að fara með öll málefni bankans, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna bankans og annast rekstur hans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., dagsettri 21. október 2008, var öllum eignum stefnanda, hverju nafni sem nefnast, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., þar með töldum kröfuréttindum. Þann 30. júní 2009 var lýst eftir kröfum í stefnanda með fresti til 31. desember 2009.

                Með ákvæði III til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er kveðið á um að frestdagur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti sé 15. nóvember 2008, þegar lög nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tóku gildi. Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2002, 7. gr., skal höfða mál til að koma fram riftun áður en tvö ár eru liðin frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Slíkur frestur byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði framannefndra laga um fresti til málshöfðunar, en stefnandi höfðaði mál þetta 28. júní 2010.

                Ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafa það markmið að endurheimta verðmæti sem glatast í aðdraganda gjaldþrots. Þann 25. september 2008 voru lánssamningar aðila málsins eign stefnanda sem freistar þess með málssókn þessari að endurheimta þau sömu verðmæti og stefnandi gaf eftir með umdeildri ákvörðun sinni. Að þessu gættu verður ekki talið að framsal kröfuréttinda til Nýja Kaupþings banka hf., með áðurnefndri ákvörðun  Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 sem átti sér stað eftir að réttindin voru gefin eftir, standi því í vegi að stefnandi beini kröfum að stefndu í málinu, þar á meðal kröfu um endurgreiðslu auðgunar af umdeildri ákvörðun stjórnar stefnanda. Verður samkvæmt þessu að hafna kröfu stefndu um sýknu af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts.

                Af hálfu stefndu er á því byggt að með ítrekuðum yfirlýsingum stefnanda og forsvarsmanna stefnanda um að starfsmenn skyldu vera skaðlausir af hlutabréfaviðskiptum sem hafi verið hluti af hvatakerfi stefnanda. Vísar stefnda til þess að hún hafi fengið skuldbindandi loforð um að stefnandi myndi ekki eignast fjárkröfu á hendur henni á grundvelli þeirra lánssamninga sem séu tilgreindir í dómkröfum stefnanda. Tilgreinir stefnda, eins og fram er komið, að slíkt loforð hafi yfirmenn stefndu gefið henni persónulega um að hún myndi ekki bera fjárhagslega áhættu af þátttöku í hvatakerfi bankans. Þá hafi það verið almenn stefna bankans að tryggja ætti að starfsmenn bankans þyrftu ekki að bera fjárhagslega áhættu af þátttöku sinni í hvatakerfi stefnanda.

                Að framan er lýst samþykkt aðalfundar stefnanda 27. mars 2004 um kaup starfsmanna á hlutum í stefnanda. Á þeim fundi var staðfest að kaup- og söluréttur til starfsmanna geti á hverjum tíma numið 9% af heildar hlutum í félaginu. Í ræðu formanns launarnefndar stjórnar stefnanda, sem flutt var á fundinum, kemur fram að það hafi verið hluti af launastefnu bankans að stjórnendur og lykilstarfsmenn geti unnið sér inn kauprétt að hlutabréfum. Enn fremur segir að á sama tíma og stefnandi vilji gefa lykilstarfsmönnum kost á að njóta talsverðs ávinnings til samræmis við aðra hluthafa geri stefnandi þá kröfu að lykilstarfsmenn taki ekki sjálfir óásættanlega fjárhagslega áhættu ef svo færi að gengið lækkaði. Bankinn hafi ekki áhyggjur af því að lykilstarfsmenn, sem geti hagnast á hækkun hlutabréfaverðs, freistist til að taka aukna áhættu í ákvarðanatöku fyrir hönd bankans, það sé hluti af daglegu starfi að meta áhættu. Telji stjórn bankans mikilvægt að söluréttir séu til staðar ef svo færi að gengi bréfa lækkaði. Söluréttur sé það hugtak sem sé notað og merki að aðilar valréttarsamnings geti selt stefnanda bréfin aftur ef gengi þeirra lækki niður fyrir kaupgengið að viðbættum vaxtakostnaði. Þannig séu þeir varðir gegn persónulegu tjóni. Sé slíkt öryggisnet ekki fyrir hendi sé fjárhagsleg áhætta viðkomandi aðila mikil. Á fundi stjórnar stefnanda 28. september 2005 var fjallað um launatengd mál og þar kynnt skýrsla launanefndar. Á fundinum voru kynntir núverandi valréttarsamningar og hlutabréfakaup starfsmanna. Í fundargerð er tekið fram að stjórnin líti jákvæðum augum á kaup starfsmanna á hlutabréfum í bankanum. Enn fremur að starfsmenn, forstjóri og stjórnarformaður skuli fjármagna kaup á hlutabréfum með lánum frá stefnanda með sambærilegum skilmálum og bankinn býður bestu viðskiptavinum sínum. Þá er tekið fram að stjórn óski eftir því að hugað yrði að ráðstöfunum til að takmarka áhættu lykilstarfsmann vegna hugsanlegrar lækkunar hlutabréfaverðs.

                Meðal málsgagna er hluti af tillögum KPMG ehf. fyrir stjórn stefnanda, dagsett í febrúar 2008, þar sem tilgreint er að lán til starfsmanna, bæði almennra starfsmanna og lykilstarfsmanna hafi hækkað og verið orðin hærri en virði veða sem hafi verið sett til tryggingar lánunum í lok árs 2007. Stjórn stefnanda hafi samþykkt að hún muni hvorki fara fram á að viðkomandi starfsmenn veiti viðbótartryggingar né neyði þá til að selja bréfin. Er talið mikilvægt að stjórn bankans setji reglur um hvernig bregðast skuli við slíkum málum. Þá liggur fyrir samkvæmt fundargerð frá stjórnarfundi stefnanda, sem haldinn var dagana 25. og 26. september 2008, að fjallað var um lán til starfsmanna til hlutafjárkaupa í bankanum. Fram er tekið að staðan varðandi stjórnarformann og forstjóra væri í góðu lagi en vitað sé af vanda og að gripið hafi verið til aðgerða til að bregðast við neikvæðri stöðu starfsmanna og hafi starfsmenn verið fullvissaðir um að lausnir yrðu fundnar. Sú staðreynd að stefnandi hafi lagt áherslu á langtíma hlutabréfaeign lykilstarfsmanna hafi í raun takmarkað möguleika þeirra til að selja hluti til þess að takmarka áhættu sína. Þá er tekið fram að samkvæmt tillögu starfskjaranefndar hafi stjórn samþykkt að veita Hreiðari Má Sigurðssyni heimild til að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna í tengslum við öll hlutafjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hafa hluti í bankanum  með það að markmiði að stuðla að því að gera þeim kleift að einbeita sér að störfum sínum fyrir stefnanda. Skyldi ábyrgð starfsmanna takmarkast við hlutabréfin sem sett hafi verið að veði.

                Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ljóst að engar skjallegar heimildir liggja fyrir um það að stefnda skuli vera skaðlaus af kaupum á hlutabréfum í stefnanda, færi svo að verðfall yrði á hlutabréfunum. Framburðir stjórnarmanna og starfsmanna stefnanda fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins breyta ekki þessu mati. En samkvæmt framburðum þeirra, sem eru svo til á einn veg, og gögnum málsins var kaupréttarkerfi stefnanda byggt upp þannig að ýmsir starfsmenn stefnanda gátu keypt hlutabréf sem fjármögnuð voru með láni frá stefnanda. Á það var bent að starfsmenn skyldu vera skaðlausir af þessum viðskiptum og að það hafi verið tryggt með svonefndum sölurétti sem felur það í sér að starfsmenn gátu farið fram á að stefnandi keypti bréfin á ný. Við afnám söluréttarins voru ekki gerðar aðrar ráðstafanir af stefnanda en þær að taka upp veðþekju og takmarka ábyrgð starfsmanna í einhverjum tilvika við 10% af skuld samkvæmt lánssamningi. Er samningur stefndu, dagsettur 1. mars 2007, dæmi um slíka takmörkun. Á þessu verður sú breyting í lok september 2008, sem lýst hefur verið og laut að því að nema úr gildi persónulega ábyrgð starfsmanna á greiðslu lána samkvæmt lánssamningum, eða „ …að fullnusta ekki persónulega ábyrgð...“ eins og það er orðað í yfirlýsingu forstjóra stefnanda, dagsettri 25. september 2008. Þótt svo kunni að vera að skaðleysi starfsmanna af hlutafjárkaupum hafi verið inntak starfskjarastefnu bankans er það mat dómsins að stefnda hafi ekki sýnt fram á að henni hafi verið lofað skaðleysi af kaupum hennar á hlutum í stefnanda og verður sýknukrafa hennar á þeim grundvelli ekki tekin til greina.

                Krafa stefndu um sýknu af kröfum stefnanda er einnig á því reist að áður en umþrætt ráðstöfun hafi átt sér stað hafi lánssamningar þeir sem um ræðir verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir stefndu á grundvelli sjónarmiða um brostnar forsendur og á grundvelli 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Andmælir stefnandi öllum sjónarmiðum stefndu í þessa átt. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 er heimilt að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Ber að líta til efni samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem komu síðar til. Þá segir í 3. mgr. 36. gr. c að samningur teljist ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila, neytanda í óhag.

                Samkvæmt handveðssamningi dagsettum 1. mars 2007 var stefndu heimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda að fengnu skriflegu samþykki stefnanda. Fyrir liggur að stefnda fékk heimild stefnanda til að selja þau hlutabréf sem hún vildi selja. Þá liggur enn fremur fyrir að stefnda fékk greiddan arð af hlutabréfunum. Um þessi atriði er ekki deilt í málinu. Lánssamningar stefndu við stefnanda, þeir sem um ræðir í málinu, hafa báðir að geyma heimild fyrir stefnanda til að segja samningnum upp, meðal annars vegna ónógra tryggingar. Þá er fram komið að persónuleg ábyrgð stefndu á greiðslu skuldar samkvæmt öðrum samningnum er takmörkuð við 10% af uppgreiðsluverði samningsins. Þá liggur fyrir að stefnda hefur umtalsvert langa reynslu af störfum í fjármálastofnunum og reynslu af viðskiptum með hlutabréf þótt hún hafi ekki starfað við það hjá stefnanda. Að þessu gættu og því sem áður er fram komið um ætlað skaðleysi stefndu af kaupum á hlutum í stefnanda, verður ekki fallist á að efni þeirra samninga sem um ræðir, staða aðila eða atvik fyrir eða eftir samningsgerðina séu þess eðlis að skilyrði séu til að víkja samningum þessum til hliðar að hluta eða í heild, eða að andstætt sé góðri viðskiptavenju að beina fjárkröfu til stefndu eins og gert er í máli þessu. Önnur rök stefndu um þetta breyta ekki þessari niðurstöðu dómsins.   

                Riftunarkrafa stefnanda er aðallega á því byggð að eftirgjöf persónulegrar ábyrgðar sé gjöf og því riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sýknukrafa stefndu er á því byggð að skilyrði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til að dómkröfur stefnanda nái fram að ganga séu ekki uppfyllt og því hafi stefnandi ekki rétt til að rifta þeim ráðstöfunum sem hann krefst riftunar á. Þá byggir stefnda á því að hún hafi látið af hendi visst gagngjald og því sé ekki um gjafagerning að ræða auk þess sem eignaaukning stefndu hafi ekki orðið sú sem stefnandi heldur fram. Hafi gagngjaldið falist í því að stefnda seldi ekki hlutabréf sín í stefnanda eins og henni hefði þó verið réttast að gera til að verja persónulega hagsmuni sína í stað þess að fá fellda niður persónulega ábyrgð.

                Svo sem fram er komið liggja tveir lánssamningar að baki kröfum stefnanda í málinu. Samkvæmt samningi dagsettum 1. desember 2005 er ábyrgð stefndu takmörkuð við 10% af skuldinni, en samkvæmt lánssamningi dagsettum 1. mars 2007 er ábyrgð stefndu sjálfrar á því að greiða skuldina til baka á tilgreindum tíma ekki takmörkuð að neinu leyti. Þá liggur fyrir að stefndu var heimilt að selja hlutabréf sín í bankanum fengi hún til þess heimild stefnanda. Verður þetta ráðið af efni þeirra handveðssamninga sem liggja fyrir í málinu, dagsettir 1. desember 2005 og 1. mars 2007. Ekki liggur fyrir að stefnda hafi leitað heimildar hjá stefnanda til að mæta lækkun á virði hlutabréfa hennar í stefnanda með sölu bréfanna að hluta eða í heild, en stefnda greindi frá því fyrir dómi að hún hefði selt óverulegt magn hluta til að mæta útgjöldum hjá fjölskyldunni og fengið til þess samþykki stefnanda. Samkvæmt framlögðu yfirliti PricewaterhouseCoopers um stöðu lánssamninga stefndu við stefnanda 25. september 2008 miðað við skráð gengi á viðkomandi gjaldmiðli nam uppgreiðsluverðmæti lánanna, að teknu tilliti til takmarkaðrar ábyrgðar lánssamnings frá 1. desember 2005, samtals 7.505.373 krónum, eða 6.567.948 krónum, eftir því hvort miðað er við aðal- eða varakröfu stefnanda. Bar stefnda persónulega ábyrgð á greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningunum, en með yfirlýsingu þáverandi forstjóra stefnanda dagsettri 25. september 2008 var sú ábyrgð felld niður. Fallist er á það að eign stefnanda hafi rýrnað sem nemur uppgreiðsluverðmæti lánanna og enn fremur að stefnda hafi að sama skapi auðgast um þá fjárhæð. 

                Að mati dómsins verður ekki fram hjá því litið að ákvörðun stjórnar stefnanda um niðurfellingu ábyrgðar stefndu á greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningunum var ráðstöfun sem hafði þann eina tilgang að létta fjárhagslegum byrðum af stefndu á kostnað stefnanda vegna kaupa á hlutum í stefnanda án þess að fyrir því væri nokkur samningsskuldbinding. Eftirgjöf persónulegrar ábyrgðar samkvæmt yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008 fellur að mati dómsins innan gjafahugtaks 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og er riftanleg ráðstöfun. Samkvæmt þessu er fallist á að uppfyllt séu skilyrði 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að taka til greina kröfu stefnanda um að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun Kaupþings banka hf. að fella niður persónulega ábyrgð stefndu á greiðslu lánssamninga, sem dagsettir eru 1. desember 2005 og 1. mars 2007, eins og greinir í dómsorði.

                Stefnandi gerir þá kröfu, með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að stefnda verði dæmd til að endurgreiða stefnanda fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið henni að notum við niðurfellingu hinnar persónulegu ábyrgðar. Stefnda hefur andmælt þeirri kröfu og vísar til þess að auðgun stefndu hafi ekki orðið sú sem stefnandi haldi fram. Hafi dagslokaverð hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008 verið 755 krónur á hlut og sama dag hafi stefnda veðsett stefnanda 81.243 hluti sem hafi því verið að verðmæti 61.338.465 krónur.

                Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Fram er komið að fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu 25. september 2008 nam 7.505.373 krónum, eða 6.567.948 krónum, eftir því hvort miðað er við aðal- eða varakröfu stefnanda.

                Í þinghaldi málsins 25. mars 2011 lagði stefnandi fram varakröfu til lækkunar á fyrri dómkröfu, byggða á útreikningi PricewaterhouseCoopers, yrði lánssamningur aðila númer 4643 talinn fela í sér skuldbindingu í íslenskum krónum með viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnda tók að láni hjá stefnanda samkvæmt samningnum jafnvirði 3.024.472 íslenskra króna sem voru að hálfu tryggðar gengi svissneskra franka og að hálfu í japönskum jenum. Um þetta vitna skýr ákvæði lánssamnings aðila frá 1. mars 2007. Felur sá samningur þannig í sér skuldbindingu í íslenskum krónum, en miðar fjárhæðir við gengi framangreindra gjaldmiðla, sbr. 2. gr. um lánsfjárhæð, útborgun og endurgreiðslu, svo og vexti. Slík gengistrygging er andstæð ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2010. Hefur stefnandi reiknað varakröfu í málinu til lækkunar á þessum grundvelli og vaxtahæð samkvæmt fordæmi Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 og gerir stefnda ekki athugasemd við þann útreikning. Samkvæmt varakröfu stefnanda nam uppgreiðsluverðmæti lána númer 2894 og 4643 25. september 2008 samtals 6. 567.948 krónum.

                Fallist er á að fjárhæðin 6.567.948 krónur hefði orðið stefndu að notum ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar stefndu á greiðslu skuldarinnar, þ.e. sú ráðstöfun sem nú hefur verið rift. Stefnda vísar á hinn bóginn til þess að ráðstöfunin hafi eingöngu komið henni að notum að svo miklu leyti sem hún beri persónulega ábyrgð á greiðslu krafna stefnanda samkvæmt lánssamningum eftir að búið sé að draga verðmæti hlutabréfa hennar í stefnanda frá. Stefnda hefur sjálf reiknað út eigin virði hlutabréfa sinna í stefnanda. Verður stefnda ekki talin hafa með því einu sýnt fram á raunverulegt verðmæti bréfanna þannig að unnt sé að taka til greina sjónarmið hennar að þessu leyti. Þá er ekki fallist á það með stefndu að sú staðreynd að hún seldi ekki hlutabréf sín í bankanum geti falið í sér gagngjald sem komi til frádráttar. Stefndu var heimilt að selja bréfin, en gerði ekki og leitaði ekki eftir heimild til þess. Hún var því eigandi bréfanna 25. september 2008.

                Fjárkrafa stefnanda, sem miðuð er við óskerta ábyrgð stefndu á greiðslu lánssamnings númer 4643 og takmarkaða ábyrgð á samningi númer 2894, svarar til tjóns þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, í þessu tilviki fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Ekki þykja nein efni vera til að lækka kröfu stefnanda eða fella hana niður samkvæmt heimild í 145. gr. laganna, eins og stefnda hefur krafist. Engin gögn málsins styðja sjónarmið stefndu eða kröfur um beitingu heimildarinnar. Kröfur stefndu um skuldajöfnuð vegna skaðabóta, greiðslu opinberra gjalda, eða vegna sjónarmiða um sýknu af þeim sökum að stefnda hafi ekki fengið lög- og kjarasamningsbundið lágmarksendurgjald fyrir vinnu sína fyrir stefnanda eru ekki studd viðhlítandi gögnum eða rökum og koma því ekki til álita og er hafnað. 

Samkvæmt öllu framangreindu verður stefnda dæmd til að endurgreiða stefnanda 6.567.948 krónur. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. september 2008 til greiðsludags, með vísan til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi að hin riftanlega ráðstöfun fór fram. Á það verður ekki fallist eins og á stendur. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þykir rétt að stefnda greiði stefnanda dráttarvexti á framangreinda fjárhæð frá 28. júní 2010, þegar mál þetta var höfðað.  

Með vísan til atvika málsins þykir rétt að hvor aðila fyrir sig beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari sem falin var meðferð málsins 21. febrúar 2011. 

Dómsorð:

Rift er þeirri ráðstöfun stefnanda, Kaupþings banka hf., frá 25. september 2008, að fella niður persónulega ábyrgð stefndu, Deliu Kristínar Howser, á greiðslu lánssamninga aðila númer 2894, dagsettum 1. desember 2005 og númer 4643, dagsettum 1. mars 2007.

Stefnda greiði stefnanda 6.567.948 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2010 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.