Hæstiréttur íslands

Mál nr. 464/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Fjárnám
  • Aðfararheimild


Þriðjudaginn 24. september 2013.

Nr. 464/2013:

Íslandsbanki hf.

(Ágúst Stefánsson hdl.)

gegn

Sigríði Hrund Símonardóttur

(sjálf)

Kærumál. Aðför. Fjárnám. Aðfararheimild.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að aðför næði ekki fram að ganga og Í hf. því ekki heimilað að taka fjárnám í fasteign S. Krafa Í hf. byggði á skuldabréfi sem útgefið hafði verið af B ehf. til Í hf. Í bréfinu var kveðið á um heimild til gjaldfellingar skuldar við vanskil og að gera mætti aðför til fullnustu skuldinni samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför. B ehf. hafði einnig gefið út tryggingarbréf til Í hf. þar sem fasteign maka S að B í Mosfellsbæ var veðsett til tryggingar tilgreindum skuldum B ehf. Veðréttur var síðar fluttur af fasteigninni að B yfir á fasteign að A í sama bæ. Ritaði  S samþykki sitt undir tvö síðastgreindu skjölin. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að af þeim orðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 að aðför megi krefjast hjá þeim sem „skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar“ leiddi að skuldbinding eiganda veðs þyrfti að koma fram á skuldabréfinu sem leitað væri fullnustu á en svo háttaði ekki til í málinu. Þegar af þeirri ástæðu var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2013, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að aðför næði ekki fram að ganga í máli sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2012-08918. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að aðförin nái fram að ganga þannig að honum verði heimilað að gera fjárnám í fasteigninni Arkarholti 19, fastanúmer 208-2612, þinglýstri eign varnaraðila, fyrir skuld að fjárhæð 20.966.457 krónur ásamt dráttarvöxtum og öllum kostnaði af frekari fullnustuaðgerðum, ef til þeirra kemur, á grundvelli tryggingabréfs nr. 549-222 upphaflega að fjárhæð 10.000.000 krónur sem áhvílandi sé á 3. veðrétti fasteignarinnar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Hinn 22. mars 2005 gaf Byggingarfélagið Baula ehf., sem mun hafa verið í eigu maka varnaraðila, út skuldabréf til Íslandsbanka hf. Bréfinu er nánar lýst í hinum kærða úrskurði en í því var kveðið á um heimild til gjaldfellingar skuldar við vanskil á greiðslu afborgana, verðbóta eða vaxta. Var þar jafnframt kveðið á um að gera mætti aðför til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. laga nr. 90/1989. Þá er í hinum kærða úrskurði ítarlega rakið efni tryggingarbréfs 28. apríl 2003 um veðsetningu fasteignar maka varnaraðila að Brekkutanga 21 í Mosfellsbæ til tryggingar tilgreindum skuldum einkahlutafélagsins og yfirlýsingar 20. september 2004 um veðbandslausn fasteignarinnar og flutning veðréttar yfir á fasteignina Arkarholt 19 sama bæ. Ritaði varnaraðli samþykki sitt undir bæði síðastgreind skjöl. Málsástæðum aðilanna er lýst í hinum kærða úrskurði en eins og þar greinir reisir sóknaraðili kröfu sína um heimild til aðfarar á þeim skjölum sem hér um ræðir og vísar um það til 7. töluliðar 1. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989.

Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má gera fjárnám fyrir skuldabréfi ef það hefur að geyma þá skilmála sem koma fram í ákvæðinu og bréfið er vottað með tilgreindum hætti. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segir að aðfarar megi krefjast hjá þeim sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Þetta nær einnig til þeirra sem eiga verðmæti, er standa að veði til tryggingar kröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna, ef áskilnaði þess ákvæðis gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart eiganda veðsins. Af þeim orðum 1. mgr. 3. gr. laganna að „skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar“ leiðir að skuldbinding eiganda veðs þarf að koma fram í sjálfu skuldabréfinu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 30. apríl 2013 í máli nr. 268/2013 og 30. ágúst 2013 í máli nr. 527/2013. Svo háttar ekki til í þessu máli. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Eftir þessum úrslitum skal sóknaraðili greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, Sigríði Hrund Símonardóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2013.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. maí 2013.

Dómkröfur sóknaraðila, Íslandsbanka hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík eru að aðfarargerð í máli sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2012-08918 verði breytt á þann veg að gerðinni verði fram haldið og gerðarbeiðanda, Íslandsbanka hf., verði heimilað að taka fjárnám í fasteigninni Arkarholti 19, fastanr. 208-2612, þinglýstri eign varnaraðila, Sigríðar Hrundar Símonardóttur, kt. [...], fyrir skuld að fjárhæð 20.966.457 kr. auk áfallandi dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum, ef til þeirra kemur á grundvelli tryggingarbréfs nr. 549-222, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 226,7 stig, áhvílandi á 3. veðrétti fasteignarinnar.

Þá er og krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðili, Sigríður Hrund Símonardóttir, Arkarholti 19, Mosfellsbæ gerir þær dómkröfur að niðurstaða aðfaragerðar í máli sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2012-08918 verði staðfest með dómi og að aðför nái ekki fram að ganga.

Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.

I

Með bréfi sóknaraðila, Íslandsbanka hf., mótteknu í dóminum 16. janúar sl. krafðist sóknaraðili úrlausnar héraðsdómara, skv. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989, um aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2012-08918, sem fram fór 6. desember 2012.

Atvik að baki máli eru þau að með aðfararbeiðni, dags. 25.9.2012, óskaði sóknaraðili eftir því að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila, Sigríði Hrund Símonardóttur, til tryggingar skuld að fjárhæð 20.966.457 kr. auk áfallandi dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum. Krafa sóknaraðila byggir á skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 10.000.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs, með grunnvísitölu 239,7 stig, útgefnu af Byggingarfélaginu Baulu ehf. kt. 621297-4069 til Íslandsbanka hf. kt. 550500-3530. Skuldabréfið er í vanskilum frá 5. júní 2008.

                Skuldabréfið er tryggt með tryggingarbréfi, nr. 549-222, útgefnu af Byggingarfélaginu Baulu ehf. til Íslandsbanka hf. þann 28. apríl 2003 að fjárhæð 10.000.000 kr. bundið vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 226,7 stig. Tryggingarbréfið hvílir á 3. veðrétti í fasteign varnaraðila, Arkarholti 19, Mosfellsbæ.

                Byggingarfélagið Baula ehf., sem í dag er gjaldþrota, var í eigu Stefáns Gunnlaugssonar, eiginmanns varnaraðila.

Við fyrirtöku aðfararbeiðninnar þann 6. desember 2012 mótmælti lögmaður varnaraðila beiðninni á grundvelli þess að héraðsdómur Reykjavíkur hefði með úrskurði í máli nr. Y-5/2011 úrskurðað að aðför næði ekki fram að ganga og að ekkert nýtt væri komið fram af hálfu sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila krafðist þess að fjárnám yrði gert í fasteign gerðarþola Arkarholti 19, á grundvelli tryggingarbréfsins. Fulltrúi sýslumanns stöðvaði gerðina.

II

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, en varnaraðili hafi tekið ábyrgð á efndum Byggingarfélagsins Baulu ehf., með því að setja fasteign sína að veði fyrir skuldum félagsins við sóknaraðila. Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til laga nr. 90/1989 sé sérstaklega tekið fram að krefjast megi aðfarar hjá eiganda verðmætis sem sett hafi verið til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi, sama hvort veðsetningin hafi átt sér stað með skuldabréfi eða tryggingarbréfi, án þess að nauðungarsöluheimild sé í bréfinu sjálfu. Til að öðlast rétt til nauðungarsölu veðsins við þessar aðstæður verði kröfueigandi að gera fjárnám í veðinu.

Þessar aðstæður séu uppi í máli þessu. Byggingarfélagið Baula ehf. hafi gefið út skuldabréf til sóknaraðila sem sé tryggt með tryggingarbréfi með 3. veðrétti í fasteign varnaraðila og sé sóknaraðila nauðsynlegt að fá fjárnám í fasteigninni til þess að geta farið fram á nauðungarsölu á eigninni. Varnaraðila hafi verið birt greiðsluáskorun þar sem skorað hafi verið á hann að greiða skuld Byggingarfélagsins Baulu ehf. vegna tryggingarbréfsins. Varnaraðili hafi ekki orðið við áskoruninni og því hafi aðfararbeiðni verið send sýslumanni.

Sóknaraðili telji að sú ákvörðun sýslumanns að stöðva gerðina á þeim grundvelli að héraðsdómur hafi þegar fjallað um málið sé röng. Í máli Y-5/2011 hafi héraðsdómur staðfest ákvörðun sýslumanns um að stöðva fjárnámsgerðina þar sem tryggingarbréf það sem sóknaraðili reisir kröfu sína á var ekki lagt fram hjá sýslumanni. Sú niðurstaða héraðsdóms að staðfesta ákvörðun sýslumanns í málinu hafi ekki þau áhrif að sóknaraðili geti ekki bætt úr annmörkum þeim er á því voru og krafist aðfarar að nýju. Í máli þessu hafi frumrit skuldabréfs og frumrit tryggingarbréfs verið lögð fram hjá sýslumanni og aðfarar verið krafist hjá varnaraðila, sem veðsala, vegna skulda Byggingarfélagsins Baulu ehf. Því séu uppfyllt öll skilyrði fyrir því að aðför nái fram að ganga.

                Krafa sóknaraðila byggi á 1. mgr. 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Málskostnaðarkrafan byggi á 129. – 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.

III

Varnaraðili byggir á því að alvarlegir annmarkar séu á aðfaraheimild þeirri er sóknaraðili byggi á. Skuldabréf sóknaraðila sé dagsett þann 22.3.2005, en skuldabréf sem tilgreint sé á veðflutningi á tryggingarbréfi sem sóknaraðili byggi á sé hins vegar útgefið þann 28.4.2003 af Byggingarfélaginu Baulu ehf. Skuldabréfið sem sóknaraðili byggi aðfaraheimild sína á sé því ekki það skuldabréf sem tryggt sé með tryggingarbréfi áhvílandi á heimili varnaraðila, Arkarholti 19, Mosfellsbæ. Varnaraðili geti því ekki talist gerðarþoli í skilningi 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989 og skuldabréfið sem sóknaraðili byggir mál sitt á sé því ekki gild aðfaraheimild sbr. 7. tl. 1. gr. aðfararlaga.

Almenna reglan sé sú að skuldbinding ábyrgðarmanns eða veðsala þurfi að koma fram á aðfaraheimildinni sjálfri, en á skuldabréfinu sé ekki neinn tilgreindur sem ábyrgðarmaður og geti varnaraðili því ekki talist gerðaþoli í skilningi 3. gr. aðfararlaga.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um aðför sé kveðið á um hjá hverjum megi krefjast aðfaragerðar. Meginreglan sé að aðför megi gera hjá þeim sem skylda hvílir á samkvæmt skuldabréfi. Í ákvæðinu sé einnig tekið fram að krefjast megi aðfarar hjá þeim sem gengið hafi í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar samkvæmt skuldarbréfi samkvæmt 7. eða 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna og þeirra, sem eiga verðmæti, sem standa að veði til tryggingar kröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr., ef áskilnaði þessara ákvæða gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim.

Með þessu sé átt við að undirskrift ábyrgðarmanns eða veðeiganda á skuldabréfi verði að vera með réttum hætti, þ.e. áskilnaðar skv. 7. tl. 1. gr. verði að hafa verið gætt gagnvart þessum aðilum, m.a. þurfi undirritun þeirra að vera vottuð og undirskrift þeirra að koma fram í bréfinu sjálfu. Ákvæði skuldabréfsins um heimild til fjárnáms án undangengins dóms eða sáttar þurfi enn fremur berum orðum að ná til ábyrgðarmanns eða veðeiganda. Þó að ekki þurfi að koma fram bein nauðungarsöluheimild, sbr. greinargerð með lögunum, þá þurfi áskilnaður 7. tl. 1. gr. laganna sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna að vera uppfylltur gagnvart ábyrgðarmanni eða eiganda verðmætis sem sett hafi eign að veði. Í athugasemdum við 7. tl. 1. gr. segi að það skilyrði, sem mestu geti skipt í þessu tilliti, snúi að vottun undirskriftar ábyrgðarmanns eða veðeiganda. Varnaraðili sé ekki skrifaður sem ábyrgðarmaður né veðsali á skuldabréfi því sem sóknaraðili hafi lagt fram sem aðfaraheimild og því sé ekki heldur um vottun undirskriftar að ræða. Aðfararheimild sem sóknaraðili byggi mál sitt á sé því ekki gild aðfaraheimild þar sem hún uppfylli ekki ákvæði laga um aðför sbr. 7. tl. 1. gr. sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Ákvæði 10. gr. laga um aðför fjalli um efni aðfarabeiðni og þau gögn, sem henni þurfi að fylgja. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að skýrar upplýsingar þurfi að koma fram í beiðni um málsaðila og um þá heimild, sem hún styðjist við. Aðfarabeiðni sóknaraðila uppfylli ekki þá kröfu um skýrleika sem ákvæðið tilgreini þar sem aðfararbeiðni vísi í skuldabréf sem útgefið sé þann 22.03.2005 en tryggingarbréf sem lagt er fram til tryggingar skuldabréfinu sé hins vegar afmarkað með nýrri veðsetningu til tryggingar á öðru skuldabréfi útgefnu þann 28.4.2003.

Í 2. mgr. 10. gr. segi ennfremur að ef aðfarar er krafist til fullnustu kröfu skv. 7. eða 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna þá skuli frumrit viðskiptabréfs fylgja aðfararbeiðni. Þessa hafi ekki verið gætt við fyrirtöku aðfararmálsins þann 6. desember 2012.

Enn fremur megi benda á að skuldabréf þetta hafi verið gert til að standa sem trygging ef vanskil yrðu á öðrum skuldum hjá Byggingarfélaginu Baulu ehf. og hafi því ekki verið um eiginlegt skuldabréf að ræða. Skuldabréfið uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði skuldabréfs að þessu leyti í skilningi laganna, þar sem peningaskuld samkvæmt skuldabréfi þurfi að vera óskilyrt, en megi ekki vera háð því að skuld verði fyrst til ef tiltekið atvik ber að höndum (að Byggingarfélagið Baula ehf., standi ekki í skilum með skuldbindingar sínar) eins og eigi við um skuldabréfið. Það uppfylli því ekki það skilyrði að vera skuldabréf í skilningi 7. tl. 1. gr. laga um aðför og sé því ekki gild aðfararheimild.

Í ljósi þess að skuldabréf sem sóknaraðili byggi á hafi aðeins verið gefið út til tryggingar öðrum skuldum, og fjárhæð þess sé því ekki raunveruleg skuld útgefandans, skuli bréfið skoðast sem tryggingarbréf. Í ljósi þess að ekki sé heimilað lögum samkvæmt að leita aðfaragerðar á grundvelli tryggingarbréfs, leiði það því til þeirrar niðurstöðu að synja verði beiðni um framgang gerðarinnar.

Það verði að gera þá kröfu til sóknaraðila sem sé í almennri bankastarfsemi að gengið sé frá skjölum með þeim hætti að veðsali geti áttað sig á því hver heildarskuldbindingin sé sem standi á bak við það veð sem gefið hafi verið.

Almenna reglan sé sú að ekki sé hægt að opna heimild til aðfarar á hendur sér með því að gefa út skjal, vottað eftir reglum 7. tl. 1. mgr. 1. gr. afl., þar sem kveðið sé á um að tiltekinn kröfueigandi megi krefjast fjárnáms án undangengins dóms eða sáttar hjá útgefandanum fyrir sérhverri þeirri fjárhæð sem hann skuldar hverju sinni og skipti þá engu að hámarksfjárhæð slíkrar heimildar sé getið eins og á við um skuldabréf það sem sóknaraðili byggir á. Að þessu leyti sé því ljóst að aðfararheimild, sem sóknaraðili byggir beiðni sína um aðför á, sé ekki gild aðfaraheimild í skilningi 7. tl. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Við gerðina hafi lögmaður einnig bent á að skuldabréf sem gefið var út þann 28.4.2003 sé fyrnt og einnig skuldabréf er gefið var út þann 22.03.2005 sbr. 4. tl. 3. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda en Byggingarfélagið Baula hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 10.7.2008. En ákvæði laga nr. 14 frá 1905 gildi, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Krafan á hendur varnaraðila hafi því verið fyrnd þegar aðfarargerð fór fram þann 6. desember 2012 og því hafi verið rétt hjá sýslumanni að stöðva gerðina.

Meginreglan sé sú að leita verði úrlausnar dómstóla um réttindi áður en hægt sé að grípa til frekari aðgerða til að fá þeim fullnægt. Aðfarargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar sé því undantekning frá meginreglunni sem verði að skýra þröngt. Gerðabeiðandi verði því að hafa skýra og ótvíræða heimild til aðfarar á hendur gerðaþola svo að aðför geti farið fram án undangengis dóms eða réttarsáttar. Aðfararheimild sú er sóknaraðili byggi á, sé svo óljós eða tvíræð að ekki sé annað hægt en að hafna því að aðför fari fram. Sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að skuldabréf það sem hann byggir aðfararbeiðni sína á veiti honum nægilega skýra og ótvíræða heimild til aðfarar á hendur varnaraðila.

Ljóst sé að aðfararheimild sú er sóknaraðili byggir mál sitt á sé ekki gild aðfaraheimild í skilningi laga um aðför nr. 90/1989 og því beri að hafna því að aðför nái fram að ganga.

Málskostnaðarkröfu sína byggir varnaraðili á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Með aðfararbeiðni, dags. 25. september 2012, óskaði sóknaraðili eftir því að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 20.966.457 kr. Við fyrirtöku beiðnarinnar 6. desember 2012 mótmælti lögmaður varnaraðila því að gerðin næði fram að ganga og stöðvaði sýslumaður hana. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun.

Fyrir liggur að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 9. maí 2012, í máli nr. Y-5/2011: Íslandsbanki hf. gegn Sigríði Hrund Símonardóttur, var staðfest sú ákvörðun sýslumanns að stöðva fjárnámsgerðina þar sem ekki yrði séð að sóknaraðili hefði lagt fram tryggingabréfið sem hann grundvallaði beiðni sína á og reisir kröfu sína á þessu máli. Var það gert með vísan til þess að ekki yrði séð að sóknaraðili hefði lagt tryggingarbréfið fyrir sýslumann og að ekki verði séð að hann hafi hjá sýslumanni byggt á þeim rétti sem hann telji sig eiga samkvæmt því. Einungis hafi verið byggt á skuldabréfi sem ekki veitti sjálfstæða heimild til aðfarar hjá varnaraðila. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að héraðsdómur hafi þegar fjallað um málið.

Aðfararbeiðni sóknaraðila í máli þessu byggir á skuldabréfi, útgefnu 22.3.2005, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs, með grunnvísitölu 239,7 stig, útgefnu af Byggingarfélaginu Baulu ehf. til sóknaraðila. Uppfyllir skuldabréfið þannig áskilnað 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 98/1989 um að vera fyrir ákveðinni peningaupphæð. Þá er undirritun útgefanda vottuð í samræmi við ákvæði greinarinnar og sérstaklega tekið fram í ákvæðum þess að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar.

Skuld samkvæmt skuldabréfinu, sem ekki er fyrnd, sbr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, er hvorki tryggð með ábyrgð né veði. Skuldabréfið er hins vegar tryggt með tryggingarbréfi útgefnu af Byggingarfélaginu Baulu ehf. til sóknaraðila þann 28. apríl 2003 að fjárhæð 10.000.000 kr. bundið vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 226,7 stig. Með tryggingarbréfinu er fasteignin Brekkutangi 21, Mosfellsbæ sett að veði. Tryggingarbréfið er undirritað af varnaraðila sem maka þinglýsts eiganda.

Með veðflutningi, dags. 20.9.04, var veðréttur samkvæmt skuldabréfi upphaflega að fjárhæð 10.000.000 kr., útgefnu þann 28.4.2003, fluttur af fasteigninni Brekkutanga 21, Mosfellsbæ yfir á fasteignina Arkarholt 19, Mosfellsbæ.

Veðréttur samkvæmt því skuldabréfi, sem sóknaraðili byggir kröfu sína á, og útgefið er 22.3.2005, hefur því ekki verið fluttur á fasteign varnaraðila að Arkarholti 19, Mosfellsbæ. Tryggingarbréfið tryggir því ekki skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu 22.3.2005. Engu breytir þar um þó að mistök hafi valdið því að tilgreining útgáfudags skuldabréfs hafi í veðflutningi verið tilgreindur 28.4.2003 í stað 22.3.2005 eins og sóknaraðili heldur fram.

Varnaraðili getur því ekki talist gerðarþoli í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga um aðför nr. 90/1989 og skuldabréf það sem sóknaraðili byggir mál sitt á er því ekki gild aðfararheimild sbr. 7. tl. 1. gr. aðfaralaga.

Með hliðsjón af framanröktu verða dómkröfur varnaraðila teknar til greina og staðfest sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að stöðva aðfarargerðina.

Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Tekin er til greina krafa varnaraðila, Sigríðar Hrundar Símonardóttur, um að aðför nái ekki fram að ganga í máli sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2012-08918.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila 350.000 kr. í málskostnað.