Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Mánudaginn 13. apríl 2015. |
|
Nr. 225/2015.
|
Sigurjón Þorvaldur Árnason (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn LBI hf. (enginn) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um að dómari málsins viki sæti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigríður Hjaltested héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sína taka fyrir Hæstarétti.
Ekki liggja fyrir atvik eða aðstæður, sem valda því að héraðsdómarinn verði talin vanhæf til að fara með framangreint mál vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015.
Mál þetta var höfðað 27. apríl 2012 og dómtekið 17. mars 2015. Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, en stefndi er Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að staðfest verði riftun dagsett 30. ágúst 2011 á ráðstöfun sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. í séreignalífeyrissparnaðarsjóð í þágu stefnda 2. október 2008 samtals að fjárhæð 35.140.000 kr.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 35.140.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2011 til greiðsludags.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Með tölvubréfi lögmanns stefnda, sem var sent dómara kl. 21:38 í gærkvöld, var sett fram sú krafa að dómarinn viki sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Ástæða þess var tilgreind sú að skrifstofa Kristins Bjarnasonar hrl., sem skráður er í fyrirsvari fyrir mál þetta, er í sama húsi og skrifstofa eiginmanns dómarans að Lágmúla 7 í Reykjavík. Taldi lögmaðurinn að slíkar aðstæður væru til þess fallnar að draga mætti óhlutdrægni dómarans í efa. Lögmaður stefnanda mótmælti kröfunni.
Upplýst var fyrir dómi að Kristinn Bjarnason er einn fjögurra eigenda félags sem á og rekur fasteign að Lágmúla 7 á þremur hæðum. Félagið leigir yfir 20 lögfræðingum skrifstofur en hver og einn þeirra rekur sjálfstætt sína stofu og á eigin kennitölu. Í leigugjaldi er innifalinn aðgangur að kaffistofu á hverri hæð, auk símaþjónustu og sameiginlegum netþjóni. Að mati dómarans er ekkert fram komið sem gefur til kynna að tengsl á milli eiginmanns hans og Kristins Bjarnasonar séu þess eðlis að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa. Þeir hafa hvorki með höndum sameiginlegan rekstur né eiga sameiginlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Að mati dómarans þurfa að liggja fyrir röksemdir um að tengsl þeirra séu önnur og meiri en almennt eru á milli manna sem eru í sömu aðstöðu og eiginmaður dómarans að Lágmúla 7. Þær liggja hins vegar ekki fyrir.
Samkvæmt ofangreindu er hafnað kröfu stefnda um að dómari víki sæti í málinu.
Frá því að dómari málsins fékk málinu úthlutað í apríl 2013 var Kristinn Bjarnason hrl. skráður í fyrirsvari fyrir það, allt til 30. október 2013. Hann tók við málinu aftur 5. mars sl. af Herdísi Hallmarsdóttur hrl. en hún mun einnig hafa haft skrifstofu að Lágmúla 7 á þeim tíma. Af því sem rakið hefur verið verður að ætla að lögmaður stefnda hafi haft tök á því að setja fram kröfu sína um að dómari viki sæti mun fyrr og jafnvel í tengslum við flutning um frávísunarkröfu hans 26. september 2013. Eins og áður sagði gerði lögmaður stefnda kröfu um að dómarinn viki sæti vegna meints vanhæfis hans með tölvubréfi seint í gærkvöldi. Aðalmeðferð hafði þá verið ákveðin með löngum fyrirvara og átti að vera í dag kl. 9:30. Að mati dómsins er aðfinnsluvert að hafa ekki sett kröfu þessa fram fyrr.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu stefnda, Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar, um að dómari víki sæti í máli þessu er hafnað