Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2005

A, B og C (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Lögráðamaður
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldseftirlit


Fimmtudaginn 13
 

D var árið 1993 svipt fjárræði vegna ellisljóleika og nafngreindur maður skipaður lögráðamaður hennar af sýslumanni. D lést árið 2000 og lauk skiptum á búi hennar ári síðar. Lögráðamaður hennar var árið 2002 dæmdur sekur um að hafa dregið sér tiltekna fjárhæð af fjármunum D á meðan hann var skipaður lögráðamaður hennar. Kröfðu erfingjar hennar að íslenska ríkið greiddi þeim bætur fyrir það tjón sem hlaust af skipun lögráðamannsins svo og ófullnægjandi eftirlits með störfum hans. Ekki var á það fallist að skort hefði á að formleg skilyrði hefðu verið uppfyllt til að skipa lögráðamanninn til starfans. Þá var ekki í ljós leitt að sýslumaður hefði mátt ætla að lögráðamaðurinn myndi misfara með fjárhaldið. Eftir gildistöku lögræðislaga nr. 71/1997, sem kváðu skýrar en áður á um störf lögráðamanna, skýrslugjöf og eftirlit með störfum þeirra, höfðu starfsmenn sýslumannsembættisins ítrekað leitað eftir því við lögráðamanninn að hann sinnti lagaskyldu sinni um skýrslugjöf án þess að það bæri árangur. Ekki þótti upplýst að sýslumaður eða starfsmenn hans hefðu brotið gegn starfsskyldum sínum og fellt með því skaðabótaábyrgð á íslenska ríkið gagnvart erfingjum D.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 11. apríl 2005. Þau krefjast þess að stefndi greiði 11.359.837 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. apríl 2000 til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 2. maí 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur áfrýjenda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

A situr í óskiptu búi eftir konu sína E, sem var aðili ásamt systkinum sínum í héraði og hefur hann tekið við aðild málsins.

I.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Áfrýjendur telja sig hafa orðið fyrir tjóni, sem rakið verði til þess að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi sem yfirlögráðandi 20. júlí 1992 skipað nafngreindan mann lögráðamann D, sem vegna ellisljóleika var svipt fjárræði 17. sama mánaðar. Áfrýjendur eru erfingjar D, en hún lést […] febrúar 2000. Fengu þeir leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 14. apríl 2000 og lauk skiptum á búinu í september 2001. Áfrýjendur halda því fram að lögráðamaðurinn hafi ekki uppfyllt lagaskilyrði til að verða skipaður, en hann hafi dregið sér fjármuni sem vantaði í dánarbúið þegar því var skipt. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness […] 2002 var lögráðamaðurinn dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér 7.908.934 krónur af fé D á árunum 1993 til 2000. Áfrýjendur halda því einnig fram að sýslumaður hafi ekki fylgst með fjárhaldinu svo sem embættisskyldur bjóði. Hefði hann sinnt því hefði komið í ljós að lögráðamaðurinn var ófær um að gegna skyldum sínum og hefði þá mátt afstýra tjóni í tíma.

Af hálfu stefnda er bótaskyldu hafnað og talið að sýslumaður hafi hvorki valdið áfrýjendum tjóni né að til sé að dreifa saknæmri og ólögmætri háttsemi af hans hálfu. Er því mótmælt að ekki hafi mátt skipa lögráðamanninn eða að reglur um eftirlit hafi verið brotnar. Skipun hans til starfans hafi ekki leitt til tjóns heldur athafnir hans sjálfs. Þá sé ekki um að ræða hlutlæga ábyrgð íslenska ríkisins á störfum starfsmanna sinna.

II.

Fallist er á það með héraðsdómi að til þess að stefnda verði dæmt til þess að bera ábyrgð á tjóni áfrýjenda af völdum lögráðamannsins verði að sýna fram á að vanrækslu starfsmanna þess sé um að kenna. Aðstæður þær er leiddu til skipunar lögráðamannsins eru ekki að fullu ljósar, en þó virðist fram komið að sá er skipaður var lögráðamaður hafi haft frumkvæði að því að arfláta var svipt fjárræði, til þess hafi verið tilefni og samráð þar um hafi verið haft við móður áfrýjendanna, B og C, sem nú er látin, en var þá eini erfingi D. Þegar lögráðamaðurinn var skipaður var bú hlutafélags, sem hann var forráðamaður fyrir, til gjaldþrotaskipta og dómur hafði fallið á hann í sakadómi Hafnarfjarðar og Garða fyrir að hafa ekki staðið skil á fjármunum sem félagið innheimti af starfsfólki sínu. Hins vegar liggur ekki annað fyrir en hann hafi sjálfur verið fjár síns ráðandi og að öðru leyti uppfyllt að formi til skilyrði til þess að verða skipaður lögráðamaður samkvæmt 29. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984. Er ekki í ljós leitt að sýslumaður hafi mátt ætla að hann myndi misfara með fjárhaldið. Með lögræðislögum nr. 71/1997 urðu miklar breytingar á lagaákvæðum og framkvæmd um skýrslugjöf lögráðamanna og eftirlit með starfa þeirra. Ítrekaðar tilraunir starfsmanna sýslumanns til þess að fá lögráðamanninn til að sinna lagaskyldum sínum um skýrslugjöf samkvæmt 3. mgr. 63. gr. þeirra laga strax á fyrri hluta árs 1998 báru ekki árangur. Má ætla af dómi Héraðsdóms Reykjaness […] 2002 að skaðinn hafi þá að mestu verið skeður. Af framangreindu leiðir að þótt lagaframkvæmd sýslumannsembættisins hefði mátt vera skilvirkari er ekki fram komið að sýslumaður eða starfsmenn hans hafi brotið gegn starfskyldum sínum og fellt með því skaðabótaábyrgð á stefnda. Með þessum athugasemdum ber að staðfesta héraðsdóm.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2005.

         Mál þetta, sem dómtekið var 22. desember sl., er höfðað 2. apríl sl. af E, […], B, […], og C, […], en til vara af dánarbúi D á hendur sýslu­manninum í Reykjavík, Skógarhlíð 6, og íslenska ríkinu, Arnarhvoli, báðum í Reykja­vík, en til vara dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.        

         Stefnendur krefjast þess að stefndu verði in solidum gert að greiða þeim 11.359.837 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 2. maí 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist að skaðabótavextir höfuðstóls færist á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 14. apríl 2001. Krafist er og málskostnaðar að skaðlausu.

       Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefn­endum verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er krafist að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar og að máls­kostnaður verði látinn falla niður.

         Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnendur hafa höfðað málið vegna skaðabótakröfu sem þeir telja sig eiga á hendur stefndu vegna tjóns sem verði rakið til þess að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi sem yfirlögráðandi 20. júlí 1992 skipað F lögráðamann D sem svipt var fjárræði 17. júlí sama ár. Stefnendur eru erfingjar D en hún lést […] febrúar 2000. Stefnendur fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 14. apríl 2000 og lauk skiptum á búinu í septem­ber 2001.

Stefnendur telja að F hafi ekki uppfyllt lagaskilyrði til að vera skip­aður lögráðamaður D en tjónið verði rakið til þess að hann hafi dregið sér hluta af fé hennar, sem hann hafi haft í sínum vörslum sem lögráðamaður hennar, og hafi þessa fjármuni vantað í dánarbúið þegar því hafi verið skipt. Með dómi Héraðs­dóms Reykjaness […] 2002 var lögráðamaðurinn dæmdur til 18 mánaða fangelsis­­refsingar fyrir að hafa dregið sér af fé D 7.908.934 krónur á árunum 1993 til 2000. Þá telja stefnendur að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi ekki fylgst með lögráðamanninum og hafi hann því ekki gegnt embættisskyldum sínum með full­nægjandi hætti. Hefði stefndi fylgst með lögráðamanninum í samræmi við góðar embættis­skyldur hefði komið í ljós að hann hefði verið ófær um að gegna skyldum sínum sem lögráðamaður og hefði þá mátt afstýra tjóni í tíma.

       Stefndu hafna bótaábyrgð en þeir telja engin viðhlítandi rök fyrir henni. Stefndu hafi hvorki valdið stefnendum tjóni né sé til að dreifa saknæmri eða ólögmætri háttsemi af þeirra hálfu. Stefndu mótmæla því að óheimilt hafi verið að skipa þann lögráðamann sem skipaður var. Engar reglur hafi verið brotnar, hvorki í því sambandi né í sambandi við eftirlit með lögráðamanninum eftir að hann var skipaður. Tjónið, sem D hafi orðið fyrir, hafi ekki verið starfsmönnum stefndu að kenna. Skipan lögráðamannsins hafi því ekki verið athöfn, sem leitt hafi til tjóns, heldur athafnir lög­ráða­mannsins sjálfs. Stefndu mótmæla enn fremur bótaábyrgð á hlutlægum grundvelli. Þá skorti allt orsakasamband til stofnunar bótaskyldu gagnvart stefnendum. Ekki sé heldur um að ræða lögvarða hagsmuni eða lög­varðar kröfur stefnenda. Stefnendur geti ekki átt þá kröfu sem þeir hafi uppi í málinu og hvorki stefnendur né dánarbú D geti átt aðild að málinu. Hafi stefnendur hins vegar átt kröfuna sé hún fallin niður fyrir tómlæti eða fyrningu. Enn fremur sé ætlað tjón ósannað. Stefndu gera athugasemdir við málatilbúnað stefnenda en þeir telja að vísa beri málinu frá dómi þar sem aðild að því sé óljós og illa skilgreind, reifun skorti um málssóknarheimild stefnenda eða dánarbúsins og á hvaða grundvelli stefnendur telji að réttarsamband hafi stofnast með þeim hætti að unnt sé að beina skaðabótakröfu að stefndu.

         Málsástæður og lagarök stefnenda

         Stefnendur lýsa málsatvikum þannig að þeir hafi höfðað málið sem erfingjar D, en stefnendur kalli til arfs samkvæmt erfðaskrá hennar frá 8. júní 1971. Í erfðaskránni sé móðir þeirra, G, arf­leidd að helmingi eigna D á móti bróður hennar, H, en að honum látnum skyldi G erfa allt. D hafi lifað bróður sinn sem hafi látist […] febrúar 1990 og hafi hún erft umtalsverðar upphæðir eftir hann. G hafi andast […] október 1997 og samkvæmt ákvæðum erfða­skrárinnar skyldu eigur hennar þá renna til barna hennar, stefnenda þessa máls. D hafi verið gift I, sem hafi átt þrjú börn frá fyrra hjónabandi, þ.m.t. J, en hann hafi verið eiginmaður G. Hún hafi hins vegar verið orðin ekkja þegar erfðaskráin var gerð.

         D hafi verið vistuð á […] í […] 24. september 1991. Henni hefði hrakað andlega og hafi hún verið ófær um að sjá um sig sjálf. Vegna andlegs ástands síns hafi hún ekki getað stjórnað fé sínu. Það ástand hafi verið misnotað og […] 1993 hafi K hrl., L og M verið dæmd fyrir að hafa dregið sér fé hennar, samanlagt 9.792.887,80 krónur. Sakarefni þetta sé utan við grundvöll málsins en dómurinn hafi lögbundið sönnunargildi um þau atriði sem þar komi fram samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 1992 hafi D verið svipt fjárræði samkvæmt beiðni G og 20. júlí sama ár hafi F verið skipaður lögráðamaður D. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984 skyldi yfirlög­ráðandi skipa lögráðamanninn. Í 29. gr. segi að skipaður lögráðamaður skuli vera lög­ráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildarsamur og að öðru leyti vel til starfans fallinn. Ekki hafi háttað svo til með F samkvæmt því sem hér verði rakið.

         F hafi verið í fyrirsvari fyrir N hf. og hefði fjöldi fjárnáma verið gerður hjá því fyrirtæki einmitt fyrir atbeina stefnda sjálfs. Bú N hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. júlí 1989. Stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi sem skiptaráðandi annast búskiptin sem fulltrúi hafi farið með í nafni stefnda. Af kröfuskránni megi ráða að vörslufé hafi ekki verið skilað, en kröfurnar nemi samanlagt 25.234.209 krónum. Ekkert af þessu hafi getað farið fram hjá stefnda þar sem hann hafi sjálfur skipt búi N.

         F hafi verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt […] 1990. Af þessu virtist mega draga þá ályktun að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi ekki kynnt sér sakarskrá F eða beðið um sakavottorð hans.

         Fjárhagur F hafi verið í megnasta ólestri. Svo virtist sem stefndi sýslu­maðurinn í Reykjavík hafi ekki haft fyrir því að kanna hvort mál af þessu tagi hefðu borist á borð bæjarfógetans í Garðabæ, en á þeim tíma hefðu bæði dómsmál og fullnustu­­mál farið um það embætti og hafi verið hægur vandi að nálgast upplýs­ing­arnar. Í gögnum málsins komi fram að nokkur árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð hjá F og m.a. komið fram kröfur út af hundruðum milljóna króna. Svo virtist sem embætti stefnda sýslumannsins í Reykjavík hafi heldur ekki kannað vanskilaskrá en hún hafi á þeim tíma verið gefin út af Reiknistofunni hf. 

         Bú F hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 10. mars 1995. Engar eignir hafi fundist í búinu og hafi ekkert komið upp í lýstar kröfur að fjárhæð 98.034.955 krónur. Ekki virtust þessi tíðindi hafa haft neitt að segja með áframhaldandi ráðsmennsku F. Frá 17. mars 1998 og a.m.k. fram í júní 2000 hafi stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík reynt að fá F til að gera skilagrein með bréfum en hann virtist ekki hafa sinnt þeim og málinu virtist ekki hafa verið fylgt eftir. 

         Stefnendur hafi fengið leyfi til einkaskipta á búi D 14. apríl 2000 og 25. október sama ár hafi verið beðið um kyrrsetningu í eigum F jafnframt því sem hann hafi sama dag verið kærður fyrir fjárdrátt. Við fyrirtöku kyrrsetningar 6. nóvem­ber hafi engar eignir fundist til að kyrrsetja og hafi gerðin því verið árangurs­laus. Kveðinn hafi verið upp dómur í máli ákæruvaldsins gegn honum […] 2002 þar sem hann hafi verið fundinn sekur um að hafa dregið sér samtals 7.908.934 krónur og hafi hann verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi óskilorðsbundið. 

         Máli þessu hafi fyrst verið stefnt 16. júlí 2002 er stefna hafi verið birt fyrir ríkis­lögmanni. Málið hafi verið þingfest 5. september s.á. en fellt niður af hálfu stefnenda 3. október s.á. Ríkislögmaður hafi framlengt málshöfðunar­frestinn 2. apríl 2003 til 3. júní það ár og 2. júní s.á. hafi hann framlengt frestinn til 3. júlí s.á. en 2. júlí s.á. til 1. september 2003. Þann dag hafi ríkislögmaður framlengt málshöfðunarfrestinn til 15. september s.á. en 10. september s.á. hafi ný stefna verið birt fyrir ríkislögmanni og málið þingfest 18. sama mánaðar. Málið hafi verið fellt niður af hálfu stefnanda 2. október s.á. og sé málshöfðunarfrestur því til 2. apríl 2004.

         Samkvæmt héraðsdómi […] 2002 hafi F verið fundinn sekur um að hafa dregið sér eftirgreinda fjármuni:

 

A.                   Af greiðslum frá K hrl., sem voru hluti af arfi eftir

                    bróður D sem lést í […] á árinu 1990, og ákærði móttók:

                           18.02.93 Canada $ 30.000,- þá jafnvirði                           533.120 kr.

                          18.02.93                                                                                   500.000 kr.

                           árið 2000                                                                                 100.000 kr.                                   2.133.120 kr.

           B.            Af skilum O hrl. til ákærða á skaðabótum, sem

                           D voru dæmdar með dómi […] 1993:

                           15.11.94                                                                  7.000.000 kr.

                          23.11.94                                                                      100.000 kr.                           7.100.000 kr.

         C.             Úttektir ákærða af sparisjóðsbók nr. 8428 í Landsbanka Íslands:

                           30.10.95                                                                         58.800 kr.

                            03.11.95                                                                        25.000 kr.                                 83.800 kr.

                           08.01.-22.11.1996                                                     150.000 kr.

                           26.03.-18.04.1997                                                       33.000 kr.

                           10.02.-22.10.1999                                                     233.140 kr.                              499.940 kr.

                                                                                                                        samtals                               9.733.060 kr.

 

         Frá fjárdrættinum hafi verið dregnar eftirtaldar greiðslur:

        1.     Viðhald fasteignarinnar […], Rvík 1993                                        1.283.399 kr.

        2.     Reikn. fyrir málningu 14.6.1995                                                      133.914 “

        3.     G skv. kvittun 22.11.96                                                                         100.000 “

        4.     Reikningur vegna pípulagnar                                                               8.816 “

        5.     Rafmagns- og hitareikningar 1992-2000                                         155.303 “

        6.     Fasteignagjöld 1995, 1997-1999                                                     107.000 “

        7.     Iðgjöld vegna innbústryggingar 1992-1995 og

                brunatryggingar 1997-1999                                                               35.694 “          824.126 kr.

 

         Samtals hafi verið talið að hann hafi dregið sér 7.908.934 krónur.

         Stefnendur vísi til yfirlits yfir fjárdrátt og innborganir en dagsetningar þar séu eingöngu til að raða saman fjárdrætti og “innborgunum” til að fá saldó sem gert sé ráð fyrir að verði ávaxtað frá tilteknum degi. Samkvæmt yfirlitinu sé gert ráð fyrir að ávaxtaðar hafi verið 549.908 krónur frá 18. febrúar 1993 og 6.759.086 krónur frá 23. nóvember 1994, allt til þess dags er einkaskiptaleyfi hafi verið veitt 14. apríl 2000. Í raun sé erfitt að finna eina rétta leið en af skjali þessu megi sjá að tjónið sé varlega áætlað. Lagður hafi verið fram útreikningur frá Íslandsbanka en þar sé tjónið reiknað út frá raunhæfum væntingum um ávöxtun fjármuna D. Sé miðað við hæstu ávöxtun þar sem engin áhætta sé tekin og binding lítil. Miðað sé við “Sjóð 5” hjá Íslandsbanka en hann sé óbundinn og ávaxtist í samræmi við gengisbreytingar eignasafns ríkisbréfa en bankinn taki umsýslugjald af sjóðnum.

         Kröfur stefnanda séu reistar á því að stefndu hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart D. Þar sem skiptum á búi hennar sé lokið séu stefnendur persónulega orðnir eigendur kröfu þessarar enda hafi þeir sammælst um að eiga hana in solidum. Til öryggis sé bú hennar látið hafa varaaðild í málinu verði ekki fallist á framangreind rök fyrir aðild stefnenda. Stefna beri sýslumanninum í Reykjavík í málinu, en verði talið að stefna eigi æðra stjórnvaldi komi aðeins dómsmálaráðherra til greina.

         Stefnendur byggi aðallega á því að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi skipað mann sem óheimilt hafi verið að skipa, sbr. 29. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984, og að stefnda íslenska ríkið beri ábyrgð á slíku án sakar. Stefnendur telji þessa reglu leiða af eðli máls þar sem íslenska ríkið hafi tekið af D ein hin helgustu réttinda sem maður hafi auk þess sem það beri ábyrgð á þeim lögráðamanni sem hann skipi, enda sé hann á vegum yfirlögráðanda. Ábyrgð án sakar leiði einnig af 8. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Inngrip ríkisins í einkalíf D, sem felist í að skipa henni lögráða­mann af þessu tagi, sé stærra en sáttmálinn heimili. Á því sé byggt að fyrir lögfestingu hans hafi þessi regla efnislega gilt hér á landi, m.a. vegna eðli máls og alþjóðlegra skuldbindinga ríkisins en landsréttur sé skýrður til samræmis við þær þegar tök séu á.

         Til vara byggi stefnendur á sakarábyrgð. Í fyrsta lagi hafi stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík haft fulla vitneskju um að fjármál N hf. hefðu verið í ólestri undir stjórn F og að hann hafi aldrei getað verið til þess fallinn í skilningi 29. gr. þágildandi lögræðislaga að vera lögráðamaður konu sem ekki gat spornað við neinu í fjármálum sínum eins og dæmin hafi sannað. Stefndi hefði, sem skiptaráðandi í búi N hf., haft beina vitneskju um það gjaldþrot og að vörslufé hefði ekki verið skilað. Þessi beina vit­neskja hafi gert það að verkum að aldrei hafi mátt skipa F lögráðamann. Einnig hafi þessi beina vitneskja gefið tilefni til sérstakrar skoðunar á málefnum mannsins áður en hann yrði skipaður lög­ráða­maður. Slík skoðun hefði vafalaust leitt í ljós að F hafi verið óhæfur til starfans.

         Í öðru lagi hafi stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík ekki kannað hvort F hafi verið til starfans fallinn í skilningi 29. gr. þágildandi lögræðislaga. Hæg heimatökin hafi verið að kanna sakaskrá, vanskilaskrá og hvort mál á hendur honum hafi verið rekin vegna skulda hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, sérstaklega þar sem upplýsingar um dómsmál og fullnustugerðir á hendur F hafi verið þar á einum stað. Stefndi hafi brotið reglur um góða stjórnsýsluhætti, þ.m.t. rannsóknarregluna, sem gilt hafi á þeim tíma þótt ólögfest væri, og einnig þá reglu að honum bæri sem embættis­manni að gæta að þeim hagsmunum sem honum hafi verið í hendur faldir í embætti sínu. Honum hafi borið að vinna af trúmennsku og sinna embættisskyldum með fullnægj­andi hætti, en það hafi brugðist. Beint orsakasamband sé milli þess sem að framan hafi verið rakið og þess tjóns sem stefnt sé út af. 

         Til viðbótar framangreindu sé á því byggt að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi ekki fylgst með lögráðamanninum sem hann hafi skipað og hafi hann því ekki gegnt embættisskyldum sínum með fullnægjandi hætti. Í skaðabótarétti sé athafnaleysi í tengslum við athafnir tjónvalds jafnað til beinna athafna. Í þessu tilvirki hafi íslenska ríkið svipt D fjárræði en hafi vanrækt þær athafnaskyldur sem því hafi borið að sinna í framhaldinu. Hefði stefndi fylgst með F í samræmi við góðar embættis­skyldur, hefði hann orðið var við að maðurinn hafi verið öldungis ófær um að gegna starfinu og hefði þá mátt afstýra tjóni í tíma. Almennar sönnunar­reglur í skaða­bóta­rétti leiði reyndar til þess að orsakasamband teljist sannað ef umrædd athöfn sé líkleg til að valda því tjóni sem krafið sé um, sbr. t.d. Hrd. 1992:2122 og Hrd. 1999:3196.

         Um vaxtakröfuna sé vísað til þess að höfuðstóll kröfu miðist við tjónið þann dag sem leyfi hafi verið veitt til einkaskipta. Fram að andlátsdegi hafi D verið skjólstæðingur stefnda sem yfirlögráðanda og síðan dánarbú hennar á vegum stefnda sem sýslumanns en eftir það hafi stefnendur haft með það að gera. Frá þeim degi sé krafist skaðabótavaxta þar til mánuður hafi verið liðinn frá því töluleg kröfugerð hafi verið endanlega sett fram með birtingu stefnu. Óþarft hafi verið að krefjast vaxtavaxta sérstaklega því krafa um þá felist í tilvísun til laga, en það hafi hins vegar verið gert til að taka af allan vafa. Almennir vextir gjaldfalli með höfuðstól við upphafsdag dráttar­vaxta og falli dráttarvextir á þá einnig frá þeim degi að telja.

         Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

         Málsástæður og lagarök stefndu

         Stefndu vísi til þess að málið varði skipun F 20. júlí 1992 sem lögráða­manns D, en hún hafi látist […] 2000. Eins og fram komi í bréfi stefnda sýslumannsins í Reykjavík 27. maí 2004 liggi ekki fyrir gögn hjá embættinu um aðdraganda skipunar F og sé talið líklegast að hann hafi gefið sig fram sjálfur til starfans. Á hinn bóginn liggi fyrir minnisblöð og skýrslur frá dóms- og kirkju­málaráðuneyti um aðdraganda þess að til fjárræðissviptingar kom og að skipa þyrfti fjárhaldsmann. Umrædd gögn um forsögu lögræðissviptingarinnar hafi þó ekki verið meðal skjala yfirlögráðanda vegna þess máls sem laut að skipun lögráðamanns. Ekki sé þó af þeim gögnum að ráða nokkuð óeðlilegt við það að F hafi verið skipaður lögráðamaður hefði sýslumanni verið kunnugt um þessa forsögu lög­ræðis­sviptingar­málsins.

         Engin ástæða sé til að ætla að sýslumaður sjálfur, sem hafi skipað F sem lögráðamann D, hafi getað gert sér grein fyrir að fjárhagur hans væri með þeim hætti að ástæða hafi verið til að efast um hæfni hans til starfans. Í greinargerð sýslumannsembættisins í Reykjavík vegna máls þessa komi fram að á þeim tíma sem F var skipaður lögráðamaður hafi málaskrá embættisins ekki verið með þeim hætti sem hún sé í dag. Hugsanlega hafi einhverjir starfsmenn embættisins, sem sýslað hafi með aðfarargerðir og gjaldþrotaskipti, vitað árið 1992 að F hafi verið í forsvari fyrir N. Á hinn bóginn bendi ekkert til þess að sýslu­maður hafi haft einhverjar upplýsingar um F sem hefðu átt að koma í veg fyrir skipun hans. Þá liggi ekkert fyrir um að sýslumaður hafi vitað um þær ráð­stafanir lög­ráða­mannsins sem séu kveikjan að málsókn stefnenda nú. F hafi verið send bréf um að skila skýrslum um fjárhaldið, svo sem lög hafi boðið frá 1. janúar 1998. Erfingjar hafi verið í forsvari fyrir hagsmuni búsins meðan það hafi verið við lýði og hafi lögráðamálinu verið lokið eins og talið hafi verið eðlilegt. Erfingjar hafi gefið sig fram við fulltrúa sýslumanns sumarið 2000 þar sem þeir hafi talið lögráðamanninn hafa tekið við arfi D eftir bróður sinn og hafi þeir leitað úrræða til að ná þeim fjármunum aftur. Engar kvartanir hefðu annars borist embættinu vegna fjárhalds F né heldur upplýsingar eða ábendingar um að eitthvað hefði farið úrskeiðis, fyrr en erfingjar hafi gefið það til kynna sumarið 2000. Skattframtöl D heitinnar hafi ekki gefið til kynna að eitthvað gæti verið að fjárhaldinu.

         Stefndu geri þær athugasemdir við málatilbúnað stefnenda að engin lagaheimild eða réttarfarsleg stoð sé fyrir því að einhver geti verið sóknaraðili að dómsmáli til vara. Komi því ekki til álita að dánarbú D geti átt aðild að málinu. Auk þess sé búið ekki lengur til þar sem skiptum á því sé löngu lokið. Beri því að vísa sjálfkrafa öllum kröfum dánarbúsins frá dómi, sbr. ákvæði 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá verði ekki séð hvernig það geti talist raunhæft eða í samræmi við 2. mgr. 19. gr. sömu laga að stefna aðila, sem í raun sé hinn sami, bæði aðallega og til vara. Bæði sóknaraðild málsins og varnaraðild sé þannig svo illa skilgreind og óljós að varðað geti frávísunar málsins í heild.

         Stefnendur byggi aðild sína að málinu á því að vera bréferfingjar D sam­kvæmt erfðaskrá frá 8. júní 1971. Erfingjarnir hafi fengið leyfi til einkaskipta 14. apríl 2000 og hafi skiptum verið lokið í septembermánuði 2001. Tjónið sem stefnendur telji sig hafa orðið fyrir hafi allt verið vegna ráðstafana, sem allar hafi komið til fyrir andlát D. Stefnendur geti því á engan hátt talist eigendur krafna, sem þeir reki til tjóns, sem D hafi verið valdið í lifanda lífi. Breyti engu svokölluð varaaðild dánarbús hennar í þessu efni. Dánarbúið sé þar að auki liðið undir lok þar sem skiptum á því sé lokið. Skorti stefnendur þannig heimild til að reka málið fyrir hönd búsins. Engri kröfu á hendur stefnda vegna skipunar eða ráðstafana lögráðamanns hafi verið haldið uppi eða lýst, hvorki af hálfu D heitinnar né dánarbús hennar og því einsýnt að engin slík krafa hafi getað færst yfir til bréferfingja hennar. Af efni erfða­skrárinnar sé ljóst að arfstilkallið hafi ekki náð til annars en eigna þeirra sem D hafi látið eftir sig. Hverjar ástæður hafi legið til þess að eignir hennar rýrnuðu síðustu æviár hennar breyti engu um það að réttur stefnenda hafi eingöngu staðið til arfsins, þ.e. þeirra eigna sem hún hafi látið eftir sig samkvæmt erfðaskránni.

         Stefnendur hafi aldrei átt rétt á fjármunum D meðan hún lifði og hafi þeir ekki getað ráðstafað þeim. Ekki hafi verið höfð uppi bótakrafa á hendur stefndu meðan D lifði vegna ráðstafana lögráðamannsins og hafi slíkri kröfu í engu verið hreyft eða lýst við meðferð dánarbús hennar. Í erfðafjárskýrslu, sem sýslumaður hafi undirritað, sé getið um „óvissar kröfur“ á hendur F, en kröfum á hendur stefnda vegna ráðstafana lögráðamannsins sé í engu getið og hafi á engum stigum verið lýst af hálfu dánarbúsins. Við skiptalokin hafi verið gerður upp erfðafjárskattur og dánarbúið liðið undir lok, svo og hagsmunagæsla erfingja fyrir þess hönd. Þau réttindi, sem ekki hafi verið haldið uppi af hálfu dánarbúsins, hafi því ekki færst til bréferfingja hinnar látnu og standist ekki að stefnendur geti verið persónulega eigendur þeirra krafna sem hafðar séu uppi nú. Bresti af framansögðu algerlega stoð fyrir aðild stefnenda eða dánarbúsins til að gera þær dómkröfur gagnvart stefndu sem hafðar séu uppi. Eftir að skiptum lauk hafi erfingjar ekki haft heimild til að ráðstafa hagsmunum sem komið hefðu til álita við skipti en gerðu ekki.

         Með vísan til ofangreinds sé á því byggt að hvorki stefnendur né dánarbú D, sem ekki sé lengur við lýði, geti átt aðild að málinu. Þá sé einnig á því byggt í þessu ljósi að öll skilyrði skorti fyrir því að stofnast hafi bótaskylda gagnvart stefnendum. Í fyrsta lagi hafi stefnendum aldrei verið valdið tjóni, hvorki af hálfu þess lögráðamanns sem skipaður var né stefnda. Á sama hátt hafi engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi verið til að dreifa af hálfu þessara sömu gagnvart stefnendum. Í öðru lagi skorti allt orsakasamband til stofnunar bótaskyldu gagnvart stefnendum, sem engin réttindi hafi átt í fjármunum eða eignum D meðan hún lifði, sbr. til hliðsjónar meginreglu 27. gr. erfðalaga. Í þriðja lagi sé ekki um að ræða lögvarða hagsmuni eða lögvarðar kröfur stefnenda sem sprottið hafi af fjársýslu vegna hinnar látnu þegar á framangreint sé litið.

         Um frekari lagarök fyrir ofangreindu sé vísað til meginreglna erfðaréttar og ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 2. gr., 85. gr. og 90. gr. auk ákvæða XIII. kafla laganna. Einnig vísist til 125. gr. laganna, en skilyrði hennar geti ekki átt við í málinu þar sem dánarbúið sé liðið undir lok, stefndi sé ekki samþykkur málsókninni og málið hafi ekki verið borið upp á grundvelli þessa ákvæðis. Af ofangreindum ástæðum standi rök til þess að málinu verði vísað frá dómi, þar sem aðild málsins sé óljós og illa skilgreind, reifun skorti um málsóknarheimild stefnenda eða dánarbúsins og á hvaða grundvelli stefnendur telji að réttarsamband hafi stofnast með þeim hætti að unnt sé að beina bótakröfu að stefndu. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé krafist sýknu á grundvelli framangreindra málsástæðna, meðal annars aðildarskorts stefnenda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en einnig vegna vanlýsingar og tómlætis.

         Engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa er stofnað gæti til bóta­skyldu stefndu. Því sé mótmælt að óheimilt hafi verið að skipa F lögráðamann samkvæmt 29. gr. eldri lögræðislaga. Hvergi liggi fyrir að sýslumaður hafi vitað eða mátt vita um ráðstafanir lögráðamannsins sem hafi verið svo andstæðar hagsmunum D sem raun beri vitni. Um eftirlits­skyldu yfirlögráðanda sé að líta til þess að allnokkur breyting hafi orðið á reglum þar að lútandi með lögræðislögum nr. 71/1997, sem hafi tekið gildi 1. janúar 1998. Þannig hafi ekki verið í lögræðislögum nr. 68/1984 sérstök ákvæði um eftirlitsskyldur yfirlögráðanda gagnvart lögráðamanni og engin ákvæði um bótaskyldu vegna athafna eða athafna­leysis yfirlögráðanda, heldur aðeins bótaskyldu lögráðamanns, sbr. 33. gr. Þar sem engri bótareglu sé til að dreifa í lögum eða öðrum réttarreglum varðandi sakarefnið mótmæli stefndu bótaábyrgð á hlutlægum grundvelli. Slík bótaábyrgð eigi sér ekki stoð í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

         Kröfur stefnenda séu fyrndar þar sem málsókn þessi hafi komið til að þeim frestum liðnum sem ríkis­lögmaður hafi gefið vegna fyrri málsókna og verði ekki miðað við fresti samkvæmt 11. gr. fyrningarlaga að liðnum framlengingum þeirra fresta. Í þessu sambandi sé á því byggt að dánarbúið hafi ekki verið til sóknar í fyrri máls­höfðunum.

         Fullvíst sé að yfirlögráðandi eða starfsmenn stefndu hafi ekki vitað um það hvernig lögráða­maðurinn fór með fé D heitinnar. Engar líkur séu á því að starfsmenn stefndu, sem hafi haft með málið að gera, hafi vitað um þær ráðstafanir. Ráðstöfunum sem hafi gengið gegn hagsmunum D hafi augljóslega verið haldið leyndum fyrir yfirlögráðanda og starfsmönnum hans. Tjónið, sem D hafi orðið fyrir, hafi því ekki verið starfsmönnum stefndu að kenna. Skipan F sem lögráðamanns hafi því ekki verið athöfn, sem leitt hafi til tjóns, heldur athafnir lög­ráða­mannsins sjálfs. Breyti þar engu þótt lögráðamaðurinn hafi persónulega eða sem forsvarsmaður tengst gerðum þar sem leitað hafi verið fullnustu krafna, sem hafi verið máli þessu óviðkomandi eða hlotið refsidóma af öðrum ástæðum, sem hvergi hafi verið kynntir yfirlögráðanda. Stefndu mótmæli því að tjónið sé að rekja til saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi yfirlögráðanda eða annarra starfsmanna stefnda. Þá mótmæli stefndu því líka að bótaábyrgð verði reist á vanrækslu yfirlögráðanda á eftirliti með lögráðamanni þar sem ekki hafi verið að finna ákvæði um slíka eftirlitsskyldu í lögum sem gilt hafi á þeim tíma er athafnir lögráðamannsins komu til og yfirlögráðandi hafi engar hugmyndir haft um þær athafnir lögráðamannsins sem leitt hafi til rýrnunar á fjármunum D.

         Engin vitneskja hafi verið uppi hjá yfirlögráðanda sem hefði komið í veg fyrir að F yrði skipaður lögráðamaður og sé því mótmælt að óheimilt hafi verið að skipa hann. Yfirlögráðandi hafi augljóslega talið að ekkert stæði í vegi fyrir skipuninni og löglíkur séu fyrir því að það hafi verið kannað á grundvelli þeirra laga sem hafi gilt. Mótmælt sé þeirri málsástæðu að rannsóknarregla hafi verið brotin, en ekki hafi verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga eða stjórnsýsluréttar sem stefnendur geti byggt á. Sýslumaður hafi haft það eftirlit með lögráðamanninum sem lög hafi boðið.

         Eftir að ný lögræðislög nr. 71/1997 tóku gildi hafi lögráðamanninum verið sendar beiðnir um skýrslu vegna fjárhalds og eignaumsýslu, sbr. bréf embættisins frá 17. mars 1998 og síðar. Vanhöld á skýrslum hafi raunar verið tíð fyrst í stað eftir gildistöku laganna, eins og sýslumannsembættið hafi lýst, en í lögum hafi ekki verið mælt fyrir um það hvernig bregðast skyldi við ef lögráðamaður skilaði ekki skýrslu. Sé því engu saknæmu eða ólögmætu athafnaleysi til að dreifa af hálfu stefndu eða starfsmanna stefndu. Starfsmönnum stefndu verði ekki kennt um ætlað tjón og engri frumkvæðisskyldu hafi verið til að dreifa um öflun upplýsinga á borð við þá sem stefnendur haldi fram. Skylda lögráðamanns til að skila skýrslu hafi fyrst orðið til eftir 1. janúar 1998. Þær ráðstafanir lögráðamannsins, sem mál þetta sé risið af, hafi þá verið um garð gengnar, en fjárdrátturinn virtist hafa verið umfangsmestur á árunum 1993 og 1994. Aðeins eitt tilvik hafi komið til eftir 1. janúar 1998. Af þessu sjáist að þótt lögráðamaðurinn hefði svarað bréfum sýslumanns skilmerkilega eftir það hefði það engu breytt. Engu hefði heldur breytt þótt sýslumaður hefði gengið frekar eftir skýrslum eða kannað nánar umsýslu lögráðamannsins. Þannig sé ljóst að ætlað tjón sé ekki afleiðing af ætluðum eftirlitsskorti starfsmanna stefndu heldur sé það vegna ráðstafana lög­ráða­mannsins og annarra. Ekkert liggi fyrir um það að lögráða­maðurinn fyrrverandi sé ófær um að greiða þá kröfu sem stefnendur hafa uppi nú, en utan árangurslausrar kyrrsetningargerðar, sem sé bráða­birgða­gerð, liggi ekki fyrir að fullreynd hafi verið innheimta á hendur honum, hvorki með málshöfðun né fullnustugerð. Af þessum ástæðum sé ætlað tjón ósannað og enginn grundvöllur til þess að beina kröfu að stefndu.

         Stefndu byggi einnig á því að D hafi orðið fyrir tjóninu, sem krafið sé bóta fyrir í málinu, meðan hún lifði. Fjármunum þeim hefði allt eins getað verið varið með öðrum hætti og engan veginn unnt að gefa sér að þeir hefðu staðið óhreyfðir við andlát hennar, komið til skipta og þaðan í hlut stefnenda sem erfingja. Af þessum ástæðum sé ætluðu tjóni einnig mótmælt sem ósönnuðu. Ekkert orsakasamband sé því fyrir hendi er stutt gæti bótakröfu stefnenda og ólíklegt að yfirlögráðandi hefði haft ástæðu til að koma í veg fyrir eða getað komið í veg fyrir ráðstafanir lögráðamannsins gagnvart D, t.d. þær sem hafi falið í sér fjárdrátt og hafi numið stærstu fjárhæðunum undir liðum A og B í stefnu frá árunum 1993 og 1994. Stefndu mótmæli einnig kröfum um jafngildi ávöxtunar, sem höfð sé uppi í málinu, sem röngum og óraunhæfum. Hvorki sé lagastoð er fyrir þessum kröfulið né verði hann reistur á reglum skaðabótaréttar.

         Til stuðnings kröfu um stórfellda lækkun sé vísað til allra ofangreindra máls­ástæðna. Sú framsetning á fjárkröfum og sundurliðun í stefnu sé algerlega óraunhæf og geti undir engum kringumstæðum skoðast sem tjón stefnenda. Ekki beri að taka til greina aðra liði en þá sem fullvíst megi telja að stafi af eftirlitsskorti yfirlögráðanda yrði bótaskylda lögð á stefndu. Meirihluti þessara krafna sem bótakrafna sé þar að auki liðinn undir lok fyrir tómælti og fyrningu. Ráðstafanir þær sem fram hafi farið á árinu 1995 og síðar, þ.e. eftir að bú F var tekið til skipta, hafi aðeins numið fjárhæðum sem séu lægri en nemi frádrætti í stefnu miðað við sama tímabil. Ljóst sé því að ætlað tjón, ef miðað yrði við það tímamark, væri hverfandi. Þá sé vaxtakröfum mótmælt sem og dráttarvaxtakröfum, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað sé í öllum tilvikum vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Niðurstaða

         Málatilbúnaður stefnenda þykir ekki þeim annmörkum háður, svo sem stefndu vísa til, að sóknar- og varnaraðild málsins sé svo illa skilgreind og óljós að málið geti ekki fengið efnislega meðferð og verði því að sæta frávísun. Ekki kemur til álita að dánarbú D geti átt aðild að málinu, enda lauk skiptum á því í september 2001. Ekki verður séð að þörf sé á aðild dómsmálaráðherra að málinu. Stefnendur fara saman með málssóknina, en þeir eru einu erfingjar eigna D heitinnar. Krafa stefnenda er skaðabótakrafa vegna tjóns er þeir telja stefndu bera ábyrgð á vegna háttsemi stefnda sýslumannsins í Reykjavík vegna skipunar hans á lögráðamanni D heitinnar í tilefni af fjárræðissviptingu hennar á árinu 1992 og eftirlitsleysis með störfum hans í því sambandi. Aðild málsins verður því að skilgreina á þann hátt sem stefnendur hafa gert án þess að varaaðild, sem stefnendur hafi tilgreint sóknar- og varnarmegin, komi þar til álita eða meðferðar við úrlausn málsins.

         Stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafði sem yfirlögráðandi skipað F lögráðamann D heitinnar […] 20. júlí 1992, eins og hér að framan er rakið, en hún hafði verið svipt fjárræði með úrskurði dómsins 17. sama mánaðar. Skipun lögráðamannsins fór fram samkvæmt þágildandi 27. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. sömu laga skyldi skipaður lögráðamaður vera lögráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildarsamur og að öðru leyti vel til starfans fallinn.

         Stefnendur telja að stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík hafi skipað D heitinni lögráðamann sem óheimilt hafi verið að skipa samkvæmt framangreindu lagaákvæði og beri stefndu ábyrgð á því án sakar. Á þetta verður ekki fallist enda eru hvorki í lögum fyrirmæli um slíka ábyrgð né þykja vera rök fyrir því að telja hana vera fyrir hendi. Engar af þeim heimildum sem stefnendur vísa til leiða til þess að talið verði að hér gildi reglur um hlutlæga bótaábyrgð stefndu.

         Til vara byggja stefnendur bótakröfuna á hendur stefndu á almennu sakarreglunni. Sýslumaðurinn hafi haft fulla vitneskju um að fjármál N hf. hafi verið í ólestri undir stjórn F og að vörslufé hefði ekki verið skilað. Ekki hafi því mátt skipa hann sem lögráðamann og tilefni hafi verið til að skoða mál hans sérstaklega sem hefði leitt í ljós að hann hefði verið óhæfur til starfans. Ekki hafi verið aflað sakavottorðs og upplýsinga úr vanskilaskrá. Stefndi hafi með þessu brotið reglur góðra stjórnsýsluhátta, þar með talið rannsóknarregluna. Þá hafi stefndi sýslumaðurinn í Reykjavík ekki fylgst með lögráðamanninum og leiði það athafnaleysi til bótaskyldu stefndu gagnvart stefnendum.

         Engar skráðar reglur voru á þeim tíma sem hér um ræðir um það hverra gagna, staðfestinga eða upplýsinga yfirlögráðandi ætti að afla við mat á því hvort sá sem til greina kæmi að skipa sem lögráðamann uppfylli skilyrði lagaákvæðisins um ráðvendni og ráðdeildar­semi. Er því ekki um að ræða að slíkar reglur hafi verið brotnar við skipun lögráðamannsins í tilefni af fjárræðissviptingu D heitinnar á árinu 1992. Hins vegar verður að gera ráð fyrir að nauðsynlegt hafi verið að afla viðeigandi upplýsinga um viðkomandi til að unnt væri að meta réttilega hvort hann uppfylli þær kröfur sem gerðar voru samkvæmt lögum sem þá giltu, sbr. 1. mgr. 29. gr. þágildandi lögræðislaga. Það atriði ræður þó ekki úrslitum í þessu máli þar sem önnur skilyrði þurfa jafnframt að vera fyrir hendi til að bótaábyrgð verði lögð á stefndu samkvæmt almennu sakarreglunni. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 skyldi lögráðamaður gera yfirlögráðanda grein fyrir fjárhaldi sem hann hefði með höndum sem lögráðamaður og ráðstöfunum í því sambandi hvenær sem yfirlögráðandi krefðist þess. Með gildistöku lögræðislaga nr. 71/1997 hinn 1. júlí 1998 hafa gilt ákvæði 63. gr. þeirra laga um skýrslugjöf lögráðamanna. Þær reglur eru ítarlegri en reglur sem áður giltu. Ekki verður á það fallist að tilvitnaðar reglur hafi verið brotnar af hálfu stefnda sýslumannsins í Reykjavík. Um eftirlitsskyldur yfirlögráðanda á þessum tíma voru ekki sérstök fyrir­mæli í lögum sem hér geta átt við. 

         Tjónið sem stefnendur urðu fyrir varð vegna fjárdráttar­ins á árunum 1993 til 2000 sem lögráðamaðurinn var dæmdur fyrir í Héraðsdómi Reykjaness […] 2002. Við refsimat í því máli segir í dóminum að líta beri til þess að brot hans nái yfir langt tímabil og hafi hann með því valdið miklu fjárhagslegu tjóni með því að svipta erfingja D verulegum hluta arfs þeirra eftir hana, en hann hafi engin samráð haft við þá um meðferð fjárins og einnig hafi hann brotið gegn skyldu sinni sem lögráðamáður eins og rakið er í dóminum. Einnig var að einhverju leyti haft til hliðsjónar við refsiákvörðun að lögráðamaðurinn hafði að eigin frumkvæði gert gang­skör að því að rétta hlut D þannig að bróðurarfur hennar færi ekki forgörðum og hafi hann gert viðhlítandi ráðstafanir til að innheimta hann. Hin meinta vanræksla stefnda sýslumannsins í Reykjavík, er hann skipaði D heitinni lögráðamann, verður hins vegar ekki talin standa í nægum tengslum við fjárdrátt lögráðamannsins þannig að tjónið verði talið sennileg afleiðing af hinni ófullnægjandi athugun stefnda sýslu­mannsins á því hvort lögráða­maðurinn væri ráðvandur og ráðdeildarsamur og uppfyllti þar með skilyrði laga­ákvæðisins. Bótaábyrgð stefndu á tjóni stefnenda verður því ekki talin vera fyrir hendi samkvæmt almennu sakarreglunni.

         Með vísan til þessa verða stefndu sýknuð af bótakröfu stefn­enda í málinu. 

         Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður.

         Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

         Stefndu, sýslumaðurinn í Reykjavík og íslenska ríkið, skulu sýkn vera af kröfum stefnenda, E, B og C, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.