Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Fjárræði


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. júlí 2009.

Nr. 359/2009.

A

(Hreinn Pálsson hrl.)

gegn

B

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Kærumál. Lögræði. Fjárræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms  um að A yrði sviptur fjárræði til 17. apríl 2010 á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júní 2009, þar sem sóknaraðili var sviptur fjárræði til 17. apríl 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að svipting fjárræðis verði takmörkuð við sex mánuði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 23. júní 2009 og krefst þess aðallega að sóknaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 120.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júní 2009.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, er komið til dómsins með bréfi  sóknaraðila, B, kt. [...],[...], Akureyri, dagsettu og mótteknu 25. maí 2009, þar sem hann krefst þess að varnaraðili, A, sonur sinn, kt. [...], [...], Akureyri, verði ótímabundið sviptur fjárræði.

Varnaraðili krefst þess að beiðninni verði hafnað en til vara að svipting fjárræðis verði takmörkuð við sex mánuði.

Talsmaður sóknaraðila og verjandi varnaraðila krefjast báðir þóknunar úr ríkissjóði.

Með úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra, sem upp var kveðinn hinn 17. apríl 2009, var varnaraðili sviptur sjálfræði í eitt ár.  Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 213/2009 var sá úrskurður staðfestur.

Í bréfi sóknaraðila segir að með hagsmuni varnaraðila í huga sé nauðsynlegt að svipta hann fjárræði, en varnaraðili geti ekki haft stjórn á fjármálum sínum.  Hann sé skráður eigandi íbúðarinnar [...] á Akureyri, en þá íbúð hafi foreldrar hans keypt og fjármagnað fyrir hann. Varnaraðili geti hins vegar sem skráður eigandi hennar selt hana eða veðsett fyrir lánum og þannig orðið sér úti um fé, sem hann svo aftur hefði enga stjórn á hvað yrði um.  Hafi hann þegar steypt sér í skuldir sem hann ráði ekki við að greiða.  Kveður sóknaraðili beiðni sína byggða á bæði a og d lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

II

Varnaraðili kom sjálfur fyrir dóminn og kvaðst þar hafna beiðninni.  Kvað hann ekki um miklar upphæðir að tefla í sínum fjármálum og hefði sér gengið vel að stjórna sínum málum.  Fjárræði gæfi sér frelsi til að ferðast, svo sem suður til Reykjavíkur eða annarra landa, og væri það til þess fallið að auka lífshamingju sína.

III

Í málinu liggur fyrir álitsgerð Lárusar J. Karlssonar, geðlæknis við geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, dagsett 19. maí 2009.  Í vottorðinu segir læknirinn að varnaraðili hafi frá 16 ára aldri glímt við alvarlegan geðsjúkdóm, aðsóknargeðklofa, og sé hann öryrki vegna hans. Illa hafi gengið að halda meðferðarsambandi við varnaraðila svo að bata hafi skilað.  Regluleg meðferð með geðrofalyfi hafi hafizt eftir veikindi í marz 2002, en á síðasta ári hafi gengið erfiðlega að fá varnaraðila til samvinnu um geðlyfjameðferð og hafi reynzt nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði til að tryggja meðferðarstjórn og að nauðsynlegu og þéttu eftirliti yrði við komið.  Undanfarið hafi varnaraðili ekki getað staðið skil á kröfum frá lánastofnunum, greiðslukortafyrirtækjum, símafyrirtæki, tryggingafélagi og innheimtustofnun.

Í lok álitsgerðar sinnar dregur læknirinn álit sitt saman með þessum hætti:  „Ljóst er að A hefur átt við alvarlega geðröskun að stríða sem leitt hefur við dómgreindarbrests í fjárhagslegu tilliti.  Ráðgerð endurhæfing er nú að hefjast og brýnt er að bæði meðferðarstjórn og stjórn fjármála verði tryggð með sem bestu móti.  Hann mun þarfnast aðhalds, hjálpar og leiðbeiningar í tengslum við meðferð fjármuna.  Þar eð sýnt er að hann hafi ekki verið fær um að annast fjármál sín sjálfur telur undirritaður geðlæknir að hagsmunum sjúklings verði best borgið með því að aðrir stýri fjárreiðum hans og að honum verði skipaður fjárhaldsmaður.“

IV

Lárus J. Karlsson geðlæknir bar vitni við meðferð málsins.  Staðfesti hann fyrrgreinda álitsgerð sína.  Kvað hann ekkert hafa breytzt í högum varnaraðila síðan álitsgerðin hefði verið skrifuð enda væri meðferð hans langtímaverkefni.  Væri mikilvægt að fjármálastjórn varnaraðila væri tryggð þann tíma ásamt meðferðarstjórn.  Vitnið var spurt hvort ástæða væri til að fjárræðissviptingin stæði lengur en sjálfræðissvipting sú er varnaraðili nú sætti, og taldi vitnið ástæðu til þess, þar eð varnaraðili stríddi við langvinn veikindi og ef meðferðin færi úr böndunum eftir árið væri mikil hætta á að aftur sækti í sama farið.  Væri það sitt mat að vegna sjúkdóms síns væri varnaraðili ekki fær um að hafa stjórn á sínum fjármálum og ekki miklar líkur á að það breyttist verulega.

Ólafur H. Oddsson geðlæknir bar vitni fyrir dóminum.  Kvaðst vitnið nú vera læknir varnaraðila vegna sumarleyfis Lárusar J. Karlssonar.  Vitnið lýsti sig alfarið samþykkt áðurrakinni álitsgerð Lárusar og hafa engu við hana að bæta.  Væri vitnið sammála því að svipta bæri varnaraðila fjárræði.

Vitnið sagði að nokkuð löng saga tengdist fjármálum varnaraðila.  Varnaraðili væri heiðvirður og traustur maður en svo virtist sem hann hefði ekki yfirsýn um fjármál sín og hefði ekki alltaf stjórn á innkaupum sínum.  Því fylgdi angist þegar á daginn kæmi að hann væri ekki borgunarmaður fyrir því sem hann hefði fest kaup á.  Væri hæfilega stífur rammi utan um fjármál hans „mjög dýrmætur liður í meðhöndluninni við hans sjúkdómi“.

Vitnið kvaðst telja að svipting fjárræðis yrði að minnsta kosti að vara jafn lengi og svipting sjálfræðis.

V

Dómurinn álítur sannað, með álitsgerð Lárusar J. Karlssonar geðlæknis, sem læknirinn staðfesti fyrir dómi, og framburði læknisins að öðru leyti, sem og framburði Ólafs H. Oddssonar geðlæknis fyrir dómi, að varnaraðili sé haldinn geðsjúkdómi sem geri honum ófært að annast fjármál sín.  Þá fellst dómurinn á það mat geðlæknanna Lárusar og Ólafs að mikilvægt sé að fjármál varnaraðila séu undir öruggri stjórn meðan læknismeðferð hans fer fram.  Er það álit dómsins að hagsmunum varnaraðila sé bezt borgið með því að krafa sóknaraðila um sviptingu fjárræðis nái fram að ganga.

Fjárræði er meðal mikilvægustu réttinda hvers manns og kom skýrt fram hjá varnaraðila fyrir dómi að hann vill ekki sjá af sínu.  Má svipting fjárræðis ekki standa lengur en nauðsyn krefur hverju sinni.  Eins og áður er rakið hefur varnaraðili verið sviptur sjálfræði í eitt ár, frá 17. apríl 2009 að telja, og er hann nú til læknismeðferðar á vegum geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.  Er það mat dómsins að rétt sé að varnaraðili verði sviptur fjárræði um sama tímabil, með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Með vísan til 17. gr. sömu laga verður ákveðið að þóknun hæstaréttarlögmannanna Gunnars Sólness, skipaðs talsmanns sóknaraðila, og Hreins Pálssonar, skipaðs verjanda varnaraðila, greiðist úr ríkissjóði, 124.500 krónur til hvors, og hefur þá verið litið til reglna um virðisaukaskatt.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðili, A, er sviptur fjárræði til 17. apríl 2010.

Málskostnaður greiðist allur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns sóknaraðila, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, og verjanda varnaraðila, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur til hvors.