Print

Mál nr. 220/2007

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur

         

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008.

Nr. 220/2007.

Þráinn Hafsteinsson

(Guðmundur Ó. Björgvinsson hrl.)

gegn

Icelandair ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

Deilt var um lögmæti þess að I sagði upp flugmanninum Þ. Í málinu hélt I því fram að Þ hefði mistekist að sýna fram á að hann hefði ná varanlegri lausn á áfengisvanda sínum, en slíkt hefði verið forsenda samkomulags er aðilar gerðu sín í milli. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að skoða yrði samkomulag aðila í ljósi þess að Þ hefði áður fengið áminningu í tilefni af áfengisvanda sínum. Hefði Þ þá gengist undir meðferð vegna hans en tekið síðan aftur til starfa með því skilyrði að hann hefði náð fullum tökum á vandamálinu og ef annað kæmi á daginn myndi Þ fyrirgera starfi sínu hjá I. Þegar samkomulag aðila var gert átti I því völ á að segja Þ þegar upp störfum en samþykkti þess í stað að fresta þeirri ráðstöfun. I áskildi sér jafnframt í samkomulaginu að það yrði í þess höndum að meta hvort Þ gæti sýnt fram á að hann hefði að liðnu ári náð varanlegum tökum á nefndum vanda. Var það mat forráðamanna I að þetta hefði Þ ekki tekist. Var I sýknað af kröfum Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. febrúar 2007, en ekki varð af þingfestingu þess 28. mars 2007 og var áfrýjað öðru sinni 25. apríl sama ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 144.284.213 krónur, til vara 55.615.275 krónur, en að því frágengnu aðra lægri fjárhæð, með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2005 til 25. apríl 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi var samkomulag aðila 12. desember 2003 um að áfrýjandi færi í 12 mánaða launalaust leyfi reist á þeirri forsendu að áfrýjandi „vinni í sínum málum og sýni fram á að hann hafi náð varanlegri lausn á áfengisvanda sínum.“ Ennfremur, að yrði mat forráðamanna stefnda að þessum tíma liðnum að áfrýjandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði náð varanlegri lausn á þessum vanda hefði hann fyrirgert starfi sínu sem flugmaður hjá félaginu. Þetta samkomulag verður að skoða í ljósi þess að áfrýjandi hafði samkvæmt bréfi stefnda 14. mars 2001 fengið áminningu í tilefni af áfengisvanda og gengist undir meðferð vegna hans, en tekið síðan aftur til starfa með því skilyrði stefnda að áfrýjandi hafi náð „fullum tökum á vandamálinu.“ Í bréfinu sagði einnig að kæmi annað á daginn myndi áfrýjandi fyrirgera starfi hjá stefnda og yrði litið á það sem tafarlausa uppsögn af hans hálfu. Þegar samkomulagið var gert 12. desember 2003 átti stefndi af þessum sökum völ á að segja áfrýjanda þegar upp störfum, en samþykkti með því þess í stað að fresta þeirri ráðstöfun og gefa áfrýjanda enn tækifæri til að bæta ráð sitt. Um leið áskildi stefndi að í hans höndum yrði að meta hvort áfrýjandi gæti sýnt fram á að hann hefði að liðnu ári náð varanlegum tökum á nefndum vanda. Þegar sá tími kom var það mat forráðamanna stefnda að þetta hafi áfrýjanda ekki tekist. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2006.

I

Mál þetta sem dómtekið var hinn 24. október 2006 var höfðað 18. apríl 2006. Stefnandi er Þráinn Hafsteinsson, Andrésbrunni 16, Reykjavík, en stefndi er Icelandair ehf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega:

a) að uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda samkvæmt bréfi stefnda, dagsettu 14. janúar 2005, verði dæmd ólögmæt,

b) að stefnda verði dæmt skylt að ráða stefnanda til starfa að nýju hjá Icelandair ehf.

c) að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.178.013 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2005 til þingfestingardags hinn 25. apríl 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara undir þessum lið gerir stefnandi þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.588.650 krónur með  vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2005 til þingfestingardags hinn 25. apríl 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess:

a) að uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda samkvæmt bréfi stefnda, dagsettu 14. janúar 2005, verði dæmd ólögmæt,

b) að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 192.978.616 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2005 til þingfestingardags hinn 25. apríl 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.

Til þrautarvara krefst stefnandi þess:

a) að uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda samkvæmt bréfi stefnda, dagsettu 14. janúar 2005, verði dæmd ólögmæt,

b) að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðra lægri fjárhæð að álitum héraðsdóms með sömu vöxtum og greinir undir varakröfu.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda en til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst hann þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

II

Málavextir eru þeir að stefnandi var hinn 22. apríl 1996 fastráðinn sem flugmaður hjá Flugleiðum, nú stefnda Icelandair ehf. Óumdeilt er að stefnandi hefur átt við áfengisvandamál að stríða og samkvæmt gögnum málsins gaf stefndi honum kost á að leita sér aðstoðar við áfengisvandanum á árinu 2001.  Voru honum greidd veikinda­laun þann tíma sem áfengismeðferð varði.  Með bréfi stefnda til stefnanda 14. mars 2001 kemur fram að samkvæmt starfsmannastefnu stefnda gefist starfsmanni sem eigi við áfengissýki að stríða eitt tækifæri til þess að leita sér aðstoðar við vandanum og í því ljósi hafi stefnanda verið gefinn kostur á að gangast undir áfengismeðferð.  Í bréfinu var stefnanda gert ljóst að forsendan fyrir því að hann héldi starfi sínu sem flugmaður hjá félaginu væri að hann hefði náð tökum á áfengisvanda sínum.  Þá er í bréfinu áréttað að komi annað á daginn hafi stefnandi fyrirgert starfi sínu hjá félaginu og verði litið á það sem tafarlausa uppsögn af hans hálfu.

Í desemberbyrjun árið 2003 var stefnandi undir áhrifum áfengis á starfsmannafagnaði hjá stefnda.  Í kjölfar þess atburðar var stefnandi boðaður til fundar við stefnda og var niðurstaðan sú að aðilar gerðu með sér samkomulag.  Samkomulag þetta er dagsett 12. desember 2003 og undir það rituðu stefnandi og fyrrverandi flugrekstrarstjóri stefnda, Jens Bjarnason.  Samkomulagið er þess efnis að stefnandi fari í 12 mánaða launalaust leyfi frá og með 15. desember 2003 og að forsenda samkomulagsins sé sú að stefnandi vinni í sínum málum og sýni fram á að hann hafi náð varanlegri lausn á áfengisvanda sínum.  Þá segir í samkomulaginu að verði mat forráðamanna fyrirtækisins að þessum tíma liðnum það að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi náð varanlegri lausn á þessum vanda hafi hann fyrirgert starfi sínu hjá félaginu. 

Stefndi heldur því fram að upplýsingar hafi borist árið 2003 bæði frá farþega og áhöfnum um að áfengisvandi stefnanda hafi þróast til verri vegar og hafi það, auk þess sem gerst hafi á fyrrgreindum starfsmannafagnaði, verið nægt tilefni til brottvikningar stefnanda á grundvelli áminningar þeirrar sem fram hafi komið í fyrrgreindu bréfi stefnda til stefnanda 14. mars 2001.  Stefndi hafi hins vegar ákveðið að gefa stefnanda enn á ný tækifæri til að sigrast á áfengisvanda sínum án þess að fyrirgera flugmanns­starfi sínu hjá stefnda og því hafi hann gert umrætt samkomulag við stefnanda.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var stefnandi í daglegum stuðningi á göngudeild SÁÁ tímabilið 2. janúar 2004 til 26. janúar sama ár. Mætti hann jafnframt í stök ráðgjafaviðtöl og fræðslufundi á göngudeildinni í febrúar 2004.  Stefnandi fór síðan í meðferð á Vog þann 11. apríl 2004 og lauk þeirri meðferð.  Kemur fram í vottorði Þengils Oddsonar yfirlæknis hjá Flugmálastjórn að sú meðferð muni hafa verið þriðja áfengismeðferð stefnanda.  Í framhaldi meðferðar­innar fór stefnandi hinn 23. apríl 2004 í fjögurra vikna eftirmeðferð á meðferðar­heimilinu Staðarfelli.  Þá sótti hann AA-fundi reglulega árið 2004 og naut stuðnings fulltrúa stoðnefndar FÍA sem hefur það hlutverk að aðstoða flugmenn varðandi áfengisvanda og önnur veikindi.  Þá liggur fyrir að stefnandi jók við flugréttindi sín í hinu launalausa leyfi. 

Stefndi kveður tvo aðila hafa staðfest að stefnandi hafi neytt áfengis þegar hann dvaldi í Bretlandi í mars 2004 við þjálfun á vegum Atlanta flugfélagsins.  Þetta kveður stefnandi vera ósatt.

Hinn 10. desember 2004 sendi flugrekstrarstjóri stefnda bréf til starfsráðs FÍA (Félags íslenskra atvinnuflugmanna) og Flugleiða/Icelandair ehf.  Í upphafi bréfsins er vísað í samkomulag stefnda og stefnanda frá 12. desember 2003 varðandi launalaust leyfi hans frá störfum.  Í niðurlagi bréfsins kemur fram að það sé niðurstaða forráðamanna stefnda að stefnandi hafi ekki tekist að sýna fram á varanlega lausn síns vanda og muni hann því ekki koma til starfa á ný.  Í samræmi við 11. gr. starfsaldursreglna kjarasamnings FÍA og stefnda sé málinu vísað til starfsráðs til umsagnar. 

Starfsráðið gaf umsögn sína hinn 12. janúar 2005.  Segir þar að það sé mat starfsráðsins að með framlagningu vottorða af hálfu stefnanda hafi honum tekist að sýna fram á að hann hafi uppfyllt skilyrði samkomulagsins sem hann gerði við stefnda 12. desember 2003.   Telji starfsráðið því að stefnandi hafi ekki fyrirgert starfi sínu hjá stefnda.  Stefndi lét bóka andmæli sín við niðurstöðu umsagnar starfsráðsins.

Stefnanda var svo, eins og fram er komið, sagt upp störfum hjá stefnda hinn 14. janúar 2005 með samnings­bundnum þriggja mánaða fyrirvara og var stefnandi leystur undan vinnu­skyldu á uppsagnarfresti.  Í kjölfarið leitaði stefnandi til stéttarfélags síns FÍA og mótmælti lögmaður félagsins uppsögninni sem ólögmætri með bréfi til stefnda 1. júní 2005 og krafðist endurráðningar en að öðrum kosti skaðabóta.  Stefndi hafnaði kröfum stefnanda með bréfi hinn 21. júlí 2005.

Lýtur meginágreiningur aðila að því hvort umrædd uppsögn hafi verið ólögmæt sem leiði til þess að stefnda sé skylt að ráða stefnanda til starfa að nýju og greiða stefnanda skaðabætur.

III

Kröfu sína byggir stefnandi á því að uppsögn stefnda hafi verið óheimil og ólögmæt, hvernig sem á hana sé litið.  Með henni hafi stefndi fullkomlega vanefnt samkomulag aðila frá 12. desember 2003 en stefnandi hafi sannanlega uppfyllt allar forsendur þess og gott betur.  Stefndi hafi sjálfur staðfest að hann hafi gefið stefnanda tækifæri á ný í desember 2003 til að sigrast á áfengisvanda sínum án þess að fyrirgera flugmannsstarfi sínu, sbr. greinargerð stefnda til starfsráðs 21. desember 2004.  Hafi umsögn starfsráðs staðfest það að stefnandi hafi sigrast á áfengisvandanum og í ljósi umsagnarinnar, fyrirliggjandi gagna og atvika málsins í heild sinni, sé á því byggt að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að honum hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum.  Verði að túlka allan vafa stefnanda í hag.  Í ljósi samkomulags aðila og gildandi kjarasamnings hafi stefndi ekki getað beitt geðþótta við mat sitt á því hvort stefnandi hefði uppfyllt skilyrði samkomulagsins þvert á staðreyndir málsins.  Forsendur og skilyrði samkomulagsins hafi verið skýr og hafi stefndi verið bundinn við að beita málefnalegu mati á grundvelli þeirra.  Málsskot stefnda til starfsráðs staðfesti einnig framanritaðar röksemdir og telur stefnandi sannað að mat stefnda hafi verið rangt.

Þá styðjist kröfugerð stefnanda við þau rök að með uppsögninni hafi stefndi brotið gegn gildandi kjarasamningi við FÍA, kjarasamningi sem gilt hafi um ráðningarkjör stefnanda.  Í grein 03-1 í kjarasamningnum sé tekið fram að reglur um starfsaldur séu hluti af samningnum.  Þegar uppsögnin hafi átt sér stað hafi stefnandi verið nr. 119 á starfsaldurslista af 241 flugmanni sem störfuðu hjá stefnda.  Hafi stefnda borið að taka ákvörðun um uppsögn í samræmi við starfsaldursreglurnar, sbr. meðal annars 1., 3. og 5. gr. reglnanna.  Frá þessum reglum um uppsagnir megi aldrei víkja, nema annað sé tilskilið í þeim.  Í 5. gr. starfsaldursreglnanna segi beinlínis að þær gildi um stöðu­hækkun eða lækkun, fjölgun eða fækkun og endurráðningu.  Verði flugmanni ekki sagt upp störfum á undan öðrum neðar á starfsaldurslista nema hann hafi vanrækt skyldur sínar eða gerst sekur um aðrar misfellur í starfi, eða stórfelldar ávirðingar utan starfs og stjórn eða forstjóri telji ástæðu til þess, sbr. 11. gr. starfsaldursreglnanna.  Hvorki stjórn stefnda né forstjóri hafi fjallað um málið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.  Þær ávirðingar sem stefndi hafi talið að stefnandi hefði orðið uppvís að hafi varðað atvik utan starfs og hafi stefndi kosið að bregðast við þeim með viðvörun, 12 mánaða launalausu leyfi og skilyrðum samkvæmt sérstöku samkomulagi.  Ávirðing­arnar hafi ekki verið svo stórfelldar að stefndi sæi ástæðu til uppsagnar í desember 2003.  Stefnandi hafi farið að viðvörun stefnda, lagt sig allan fram og uppfyllt allar forsendur samkomulags aðila frá 12. desember 2003 og þannig efnt það að öllu leyti. Uppsögn stefnda í kjölfar umsagnar starfsráðs með þriggja mánaða uppsagnarfresti hafi því verið fullkomlega tilefnislaus og ólögmæt og verði alls ekki réttlætt með þröngu undantekningarákvæði 11. gr. starfsaldursreglnanna.  Öllum réttlætingum stefnda eftir á sé mótmælt sem röngum, ósönnuðum og þýðingarlausum fyrir úrslit málsins.  Með uppsögninni hafi stefndi virt nefndan kjarasamning, þar með taldar starfsaldursreglurnar, að vettugi og brotið alvarlega á rétti stefnanda.  Með hliðsjón af framan­rituðu eigi stefnandi skýlausan rétt á endurráðningu og verði uppsögnin að teljast markleysa og að engu hafandi.  Þá sé rétt að það komi fram að faglegur ferill stefnanda sem flugmanns stefnda sé aðfinnslu- og hnökralaus.  Stefnandi hafi staðið sig mjög vel í starfi og staðist öll hæfnispróf með sóma.  Hann hafi mætt vel og samviskusamlega til starfa og sýnt mikinn sveigjanleika og skilning á hagsmunum stefnda meðal annars með því að gefa kost á sér í flug sem hann hafi ekki verið skráður til, vegna forfalla annarra flugmanna eða annarra atvika.   

Meginreglur kjarasamnings FÍA og stefnda feli það í sér að starfsöryggi fastráðinna flugmanna sé afar vel tryggt og hvorki heimild né svigrúm fyrir stefnda til að segja flugmönnum upp störfum nema að uppfylltum ströngum skilyrðum.  Við fastráðningu sé gengið út frá því að um æviráðningu sé að ræða svo fremi að viðkomandi flugmaður viðhaldi starfsréttindum sínum, hafi gilt flugskírteini, heilbrigðisvottorð og gerist ekki sekur um alvarleg brot í starfi eða alvarlegar ávirðingar utan starfs.  Þessar reglur hafi það í för með sér að stefndi geti alls ekki sagt flugmönnum upp störfum að geðþótta, án rökstuðnings og án heimildar í ákvæðum kjarasamnings, þar með taldar starfsaldursreglur, eins og raunin hafi verið í tilviki stefnanda.  Uppsögnin sé með öllu órökstudd í uppsagnarbréfi stefnda, dagsettu 14. janúar 2005, og andstæð kjarasamningi.  Í samræmi við þessar meginreglur sé gert ráð fyrir að umsögn starfsráðs liggi fyrir.  Í máli stefnanda hafi það verið niðurstaða starfsráðs að ekki væru skilyrði til uppsagnar.  Í ljósi þess og annarra málsatvika og röksemda blasi það við að stefndi hafi fyrir fram ákveðið að stefnanda yrði sagt upp störfum burtséð frá samkomulagi aðila og niðurstöðu starfsráðs.  Með því að ganga gegn samkomulagi aðila, gildandi kjarasamningi og niðurstöðu starfsráðs hunsi stefndi þær málsmeðferðarreglur sem hann hafi samið um við FÍA að gildi við uppsagnir og hafi stefndi þannig orðið uppvís að ólögmætri geðþóttauppsögn og bakað sér skaðabótaskyldu. 

Enn fremur sé á því byggt að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis við uppsögnina og ekki farið að starfsmannastefnu sinni gagnvart starfsmönnum sem hafi átt við áfengis­vanda­mál að stríða.  Stefndi hafi ekki sagt upp flugmönnum sem staðið hafi í sömu sporum og stefnandi.  Starfsmannastefna stefnda sé hluti af ráðningakjörum flug­manna sem hjá honum starfi.

Sérstaklega sé byggt á því að stefndi hafi með háttsemi sinni valdið stefnanda ólögmætri meingerð á æru hans og persónu og beri af þeim sökum að greiða stefnanda miskabætur.  Stefndi hafi haft stefnanda fyrir rangri sök, borið út óhróður um hann og stuðst við óstaðfest slúður ónafngreindra aðila um meinta áfengisneyslu stefnanda máli sínu til stuðnings, sbr. meðal annars greinargerð stefnda til starfsráðs.  Háttsemi stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki getað nýtt sér stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi sín hjá íslenskum og fjölda erlendra flugrekenda og hafi hann því þurft að glíma við margvíslega aðra afleidda erfiðleika.  Með svarbréfi stefnda 21. júlí 2005 sé fullyrt eftir á að stefnandi hafi brugðist trausti og loforðum þrátt fyrir eindregna umsögn starfsráðs og ótvíræð gögn sem sanni hið gagnstæða.  Þessum fullyrðingum sé eindregið mótmælt.  Ærumeiðandi geðþótti ráði för hjá stefnda en ekki málefnaleg rök og staðreyndir.  Telji stefnandi að persónuleg afstaða hafi ráðið för en ekki faglegt mat.

Til enn frekari stuðnings kröfum stefnanda sé bent á þá staðreynd að stefnandi hafi haft og hafi enn fullgild starfsskírteini útgefin af Flugmálastjórn, allt í samræmi við reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999.  Í reglugerðinni, sbr. JAR-FCL 3.205, Geðfræðilegar kröfur, segi beinlínis að umsækjandi um eða handhafi I. flokks heilbrigðisvottorðs skuli ekki hafa staðfesta sjúkrasögu, svo sem um óreglu, sem líklegt sé að komi í veg fyrir að hann geti neytt viðeigandi réttinda með öruggum hætti.  Segi enn fremur í ákvæðinu að sérstakri athygli skuli meðal annars beint að alkóhólisma.  Staðfest sé af yfirlækni Flugmálastjórnar að þetta ákvæði reglugerðar nr. 419/1999 standi ekki í vegi fyrir endurnýjun á heilbrigðisvottorði stefnanda fremur en önnur ákvæði reglugerðarinnar.  Með fullgildum starfsréttindum hafi stefnandi uppfyllt skyldur um menntun og réttindi samkvæmt grein 02-1 í kjarasamningi FÍA og stefnda.  Stefndi geti ekki gert frekari kröfur en lög og kjarasamningur kveði á um og alls ekki réttlætt uppsögnina með áfengisvandamálum stefnanda, sem hann hafi náð fullum tökum á, eða öðrum geðþótta.  Með hliðsjón af fullgildum starfsskírteinum stefnanda eigi hann ekki rétt til greiðslu tryggingabóta samkvæmt 8. kafla kjarasamnings FÍA og stefnda.  Taki allar framanritaðar röksemdir af öll tvímæli um að uppsögnin hafi verið ólögmæt og að fallast beri á aðalkröfur eða varakröfur stefnanda.

Aðalkrafa stefnanda sé sett fram í þremur liðum. Í fyrsta lagi sé þess krafist að uppsögn stefnda verði dæmd ólögmæt.  Í öðru lagi sé þess samhliða krafist að stefndi ráði stefnanda til starfa á nýjan leik og byggi krafan á sérreglum sem gildi um flugmenn stefnda samkvæmt kjarasamningi stefnda við FÍA.  Í þriðja lagi sé samhliða einnig krafist skaðabóta er jafngildi launum stefnanda frá 1. maí 2005, er launagreiðslur frá stefnda til stefnanda féllu niður, til 1. desember 2007.  Krafan byggi á því að fallist verði á b) lið aðalkröfu um endurráðningu og að málsúrslit ráðist ekki fyrr en með dómi Hæstaréttar sem áætlað sé að verði í árslok 2007.  Fjárhæðin miðist við útreikninga Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingafræðings 23. febrúar 2006 á eingreiðsluverðmæti heildarlauna stefnanda sem flugstjóra samkvæmt umsömdum launatöflum og öðrum ákvæðum gildandi kjarasamnings, núvirtu miðað við 1. maí 2005 eða 25.518.934 krónur.  Miðað við starfsaldur hafi stefnandi átt rétt til flugstjórastarfs 1. maí 2004 og reiknist heildarkrafan út frá föstum launum umrætt tímabil ásamt desemberuppbót og að teknu tilliti til kjarasamnings- og aldursbundinna launaflokkahækkana og sé reiknað með lífeyrisframlagi stefnda í sameignar- og séreignarlífeyrissjóð stefnanda.  Þá sé krafist miskabóta sem teljist hæfilega metnar 3.500.000 krónur.  Laun stefnanda á tímabilinu dragist frá en þau séu að fjárhæð 3.840.921 króna sem sundurliðist svo:

Laun erlendis 2005, 16.000 evrur x 86,24

1.379.840

Laun erlendis 2006, 8.000 pund x 128,33

1.026.640

Laun frá Landsflugi 2006

1.024.503

Reiknuð laun frá sama í október 2006

    409.938

Frádráttur samtals

3.840.921

 

Fjárkrafa samkvæmt c-lið aðalkröfu, samtals að fjárhæð 25.178.013 krónur  sundurliðist því svo:

Laun 1. maí 2005 til desember 2007  

25.518.934

Miskabætur

3.500.000

Laun stefnanda á tímabilinu 

-3.840.921

Samtals

25.178.013

 

Undir þessum c-lið aðalkröfunnar kveðst stefnandi gera varakröfu að fjárhæð 13.588.650 krónur sem sé byggð á sömu forsendum og aðalkrafan samkvæmt fyrrgreindum útreikningum Vigfúsar Ásgeirs­sonar. Krafan sé vegna launa fyrir tímabilið byrjun maí 2005 til loka október 2006 og sundurliðist svo:

 

Laun frá 1. maí 2005 til 31. október 2006

13.929.751

Miskabætur

3.500.000

Frádráttur vegna launa

-3.840.921

Samtals

13.588.650

 

                                                                                                                                          

Fjárhæð varakröfunnar, samtals að fjárhæð 192.978.616 krónur sundurliðist svo:

 

Laun frá 1. maí 2005 til október 2027

189.819.537

Miskabætur

  7.000.000

Frádráttur vegna launa

-3.840.921

Samtals

192.978.616

 

Varakrafa stefnanda sé miðuð við að ekki verði fallist á b) lið aðalkröfu stefnanda um endurráðningu.  Komi varakrafan þá í stað c) liðar aðalkröfu og miðist við jafngildi launa sem stefnandi hefði átt rétt á úr hendi stefnda frá 1. maí 2005 til starfsloka stefnanda hjá stefnda við fullnaðan 65 ára aldur í október árið 2027.  Enn sé miðað við núvirt eingreiðsluverðmæti miðað við 1. maí 2005.  Krafan sé reiknuð út frá sömu forsendum og fjárkrafa undir c) lið aðalkröfu.

Þrautavarakrafa stefnanda lúti að því að fjártjón hans verði metið af dóminum að álitum út frá heildarmati á öllum atvikum og aðstæðum og áætluðum framtíðartekjum stefnanda. 

Um lagarök sé vísað til meginreglna samningaréttar og vinnuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi samninga, efndabætur, réttaráhrif kjara- og ráðningarsamninga,  stjórnunarrétt atvinnurekenda, uppsagnir ráðningarsamninga og vanefndaúrræði vegna ólögmætra uppsagna. Jafnframt til meginreglna kröfuréttar og skaðabótaréttar, einkum um lögfylgjur ólögmætra uppsagna, skaðabætur og miskabætur.  Sérstaklega sé vísað til gildandi kjarasamnings FÍA og stefnda, sem ráðningarkjör stefnanda hafi miðast við, einnig samkomulag stefnanda og stefnda frá 12. desember 2003.  Þá byggi stefnandi á almennu skaðabótareglunni og vísi einnig til 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Um miskabætur sé einnig vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vaxtakröfur stefnanda byggi á II. og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, málskostnaðarkrafa stefnanda á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

IV

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að félaginu hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum.  Hvorki kjarasamningar, lög né samkomulag aðila hafi staðið því í vegi.  Samkomulag aðila frá 12. desember 2003 leggi það auk þess alfarið undir mat stefnda hvort stefnandi hafi fyrirgert starfi sínu hjá félaginu.

Hafi stefnandi áður fengið áminningu þess efnis og félagið hafi treyst því að hann hafi að aflokinni áfengismeðferð náð fullum tökum á áfengisvanda sínum.  Kæmi annað á daginn hefði hann fyrirgert starfi sínu hjá félaginu og yrði litið á það sem tafarlausa uppsögn af hans hálfu.

Óumdeilt sé að stefnandi hafi nokkru síðar enn á ný átt við áfengisvandamál að stríða og því ljóst að hann hafði ekki náð varanlegum tökum á áfengisvanda sínum.  Skilyrði hafi því ekki verið til áframhaldandi ráðningar og félaginu heimilt að segja honum upp störfum með vísan til fyrrgreindrar áminningar og hafi þeim rétti stefnda hingað til ekki verið mótmælt.  Réttur félagsins til að skilyrða áframhaldandi ráðningu með ofangreindum hætti hafi verið óumdeildur.  Vísist í því sambandi til greinargerðar fulltrúa Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem liggi fyrir í gögnum málsins.

Stefndi hafi því verið í fullum rétti til að segja stefnanda þá þegar upp störfum með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt gr. 3-2 í kjarasamningi FÍA og Icelandair, sbr. 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda.  Samkomulagið frá 12. desember 2003 hafi falið í sér frestun á þeirri ákvörðun og jafnframt möguleika fyrir stefnanda að fá enn eitt tækifæri til að ná varanlegri lausn á áfengisvanda sínum. Samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi aðila hafi það þó alfarið verið lagt á mat forráðamanna stefnda hvort stefnandi hefði náð varanlegri lausn á vanda sínum. Stefnandi hafi undirgengist þetta skilyrði og því sé hann bundinn af niðurstöðu stefnda hvað varði þetta mat.

Í niðurstöðu meirihluta starfsráðs komi ekkert það fram sem vefengi rétt stefnda til að taka sjálfstæða ákvörðun um uppsögn stefnanda heldur sé sá réttur þvert á móti viðurkenndur.  Feli umsögnin einungis í sér það mat meirihluta starfsráðs að miðað við fyrirliggjandi gögn hafi stefnandi uppfyllt skilyrði samkomulagsins frá 12. desember 2003.  Þessu sé stefndi ósammála enda hafi ákvörðun stefnda meðal annars byggst á upplýsingum sem, eðli málsins samkvæmt, hafi ekki verið mögulegt að leggja fyrir ráðið.

Með samkomulagi aðila frá 12. desember 2003 hafi stefndi gengið lengra en honum hafi borið skylda til og hafi stefndi gefið stefnanda enn eitt tækifæri til að ná tökum á vanda sínum og vinna sér traust á ný.  Samkomulagið hafi byggst á gagnkvæmu trausti og loforðum sem stefnandi hafi ekki staðið við.  Í því ljósi hafi myndast trúnaðarbrestur milli aðila og stefndi hafi því ekki treyst stefnanda til að axla þá ábyrgð sem felist í flugmannsstarfi hjá félaginu.

Miklar kröfur séu gerðar til flugmanna eðli máls samkvæmt.  Verði stefndi að geta treyst því að flugmenn félagsins eigi ekki við áfengisvandamál að stríða.  Félagið geri því þá kröfu að menn taki tafarlaust á sínum málum en fyrirgeri starfi sínu komi til endurtekningar.  Að mati stefnda verði að gera skýran greinarmun á útgáfu heil­brigðis­­vottorðs Flugmálastjórnar annars vegar og meðhöndlun agamála og fram­kvæmd starfsmannastefnu hins vegar.  Með vísan til þess sé því mótmælt að heilbrigðis­vottorð stefnda hafi þýðingu hvað þetta varði.

Með vísan til framanritaðs hafi stefnandi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnda og hafi stefnda því verið heimilt að segja honum upp störfum, sbr. 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda.

Stefndi kveðst mótmæla því sem röngu að í starfsaldursreglunum felist æviráðning. Starfsaldursreglurnar feli fyrst og síðast í sér ákvæði varðandi rétt flugmanna til framgangs í starfi, þ.e. til starfa á mismunandi flugvélategundum og til flugstjóra­starfa, svo og ákvæði sem beri að vinna eftir við fækkun flugmanna vegna samdráttar.  Vísist í þessu sambandi til ákvæða gr. 03-2 í kjarasamningi FÍA og stefnda og 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda.

Það sé einnig meginregla samkvæmt íslenskum vinnurétti að vinnuveitandi verði ekki skyldaður til að hafa þá menn í vinnu sem hann vilji ekki hafa.  Engin undantekning sé gerð frá þeirri reglu, hvorki í lögum né kjarasamningi FÍA og stefnda.

Kveður stefndi niðurstöðu starfsráðs vera umsögn sem sé ekki skuldbindandi fyrir aðila, sbr. 13. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda.  Aðdróttunum stefnanda, um að stefndi virði ekki umsamdar málsmeðferðarreglur, sé einnig mótmælt.

Ítrekað skuli að stefndi hafi verið í fullum rétti að segja stefnanda upp störfum strax og ljóst hafi verið að hann hefði ekki náð tökum á áfengisvanda sínum þrátt fyrir áminningu. Um það hafi ekki verið deilt.  Stefndi hafi ítrekað fengið tækifæri til að takast á við vandamál sín og vinna traust stefnda.  Fyrst við ráðningu til félagsins þar sem vitað var að hann hafði áður farið í áfengismeðferð.  Hann hafi síðan fengið ekki aðeins eitt tækifæri, eins og starfsmannastefna stefnda geri ráð fyrir, heldur tvö.  Með vísan til þess mótmæli stefndi því að ekki hafi verið gætt eðlilegra sjónarmiða við uppsögn stefnanda.

Stefndi telur ekki lagaskilyrði vera fyrir miskabótakröfu stefnanda.  Kveðst hann mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi haft stefnanda fyrir rangri sök, borið út óhróður um hann og valdið því að hann hafi ekki getað fengið flugmannsstarf hjá öðrum flugrekendum.  Umfjöllun stefnda hafi ekki verið umfram það sem eðlilegt sé með tilliti til aðstæðna.

Varðandi varakröfu sína kveður stefndi fjárkröfur stefnanda allt of háar.  Séu engin fordæmi fyrir því að starfsmönnum hafi verið dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar umfram það sem samsvari launum á uppsagnarfresti.  Forsenda þess að vikið sé frá meginreglum íslensks vinnuréttar sé að skýr ákvæði laga eða kjara­samninga leiði til þeirrar niðurstöðu.  Hvorki sé slík ákvæði að finna í kjarasamningi FÍA né verði slík regla leidd af öðrum ákvæðum hans.

Þá bendi stefndi á að atvinnumöguleikar flugmanna hafi verið góðir á þeim tíma sem liðinn sé frá því að stefnandi lét af störfum hjá stefnda enda liggi fyrir að stefnandi hafi verið í flugmannsstarfi eftir að hann lét þar af störfum.

Stefndi kveður stefnanda aldrei hafa gegnt stöðu flugstjóra hjá stefnda og verði krafa hans því ekki byggð á flugstjóralaunum.  Kröfu um reiknað lífeyrisframlag stefnda sé mótmælt með vísan til þess að stefnandi eigi ekki forræði á þeirri kröfu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 204/2004.

V

Eins og rakið hefur verið snýst meginágreiningur máls þessa um réttmæti þeirrar ákvörðunar stefnda að segja stefnanda upp störfum frá og með 14. janúar 2005.  Telur stefnandi uppsögnina ólögmæta þar sem með henni hafi stefndi vanefnt samkomulag aðila frá 12. desember 2003 en stefnandi hafi að öllu leyti staðið við það samkomulag. 

Aðdragandi umrædds samkomulags var sá að stefnandi hafði átt við áfengisvandamál að stríða og gaf stefndi honum kost á að leita sér hjálpar við þeim vanda snemma á árinu 2001.  Samþykkti stefndi að stefnandi færi í veikindaleyfi á launum á meðan hann gengist undir áfengismeðferð.  Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að það er yfirlýst starfsmanna­stefna hjá stefnda að gefa starfsmanni sem á við áfengisvandamál að etja eitt tækifæri til að leita sér aðstoðar. 

Með bréfi 14. mars 2001 var stefnanda gerð grein fyrir því að þegar hann kæmi til starfa á ný eftir áfengismeðferð treysti stefndi því að hann hefði náð fullum tökum á vandamálinu.  Kæmi annað á daginn hefði hann fyrirgert starfi sínu hjá stefnda og yrði litið á slíkt sem tafarlausa uppsögn af hans hálfu.  Stefnandi hóf svo störf að nýju eftir að áfengismeðferðinni lauk.

Með hliðsjón af þeirri miklu ábyrgð sem fylgir flugmannsstarfi verða framangreind skilyrði sem stefndi setti stefnanda fyrir áframhaldandi starfi að teljast eðlileg og er augljóst að stefndi verður að geta treyst því að flugmenn félagsins eigi ekki við áfengisvandamál að stríða.

Á starfsmannafagnaði stefnda, sem haldinn var í desember 2003, var stefnandi undir áhrifum áfengis og því ljóst að hann hafði ekki náð fullum tökum á áfengisvanda sínum sem stefndi setti sem skilyrði fyrir því að hann héldi áfram starfi sínu í kjölfar áfengismeðferðarinnar árið 2001.  Þrátt fyrir að stefnandi hefði með fyrrgreindri háttsemi fyrirgert starfi sínu hjá stefnda reyndi ekki á það í þetta sinn þar sem stefndi ákvað að gefa stefnanda enn eitt tækifæri þótt hann teldi það umfram skyldu sína.  Í kjölfarið gerðu aðilar með sér samkomulag hinn 12. desember 2003.  Verður því ekki fallist á það með stefnanda að framangreind ákvörðun stefnda hafi þýtt að stefndi teldi ekki að háttsemi stefnanda hefði falið í sér stórfelldar ávirðingar heldur þvert á móti.  Ber samkomulag aðila frá 12. desember 2003 það glögglega með sér að stefndi leit það alvarlegum augum að stefnandi hefði ekki staðið við það skilyrði fyrir áframhaldandi starfi hjá stefnda að hann næði fullum tökum á áfengisvanda sínum og stefnandi gekkst við því með undirritun sinni.  Verða atvik í kjölfar framangreindrar háttsemi stefnanda ekki túlkuð á annan veg en að báðir aðilar hafi litið svo á að með háttsemi sinni hafi stefnandi gerst sekur um stórfelldar ávirðingar utan starfs sem veitti stefnda heimild til uppsagnar hans.   Umrætt sam­komu­lag aðila hljóðar svo:

Þráinn fer í 12 mánaða launalaust leyfi frá og með 15. desember 2003.  Allar samningsbundnar tryggingar í kjarasamningi FÍA og Flugleiða/Icelandair falla niður frá sama tíma og gilda ekki yfir launalausa tímabilið.  Forsenda samkomulagsins er að Þráinn vinni í sínum málum og sýni fram á að hann hafi náð varanlegri lausn á áfengisvanda sínum.  Verði mat forráðamanna fyrirtækisins að þessum tíma liðnum að Þráinn hafi ekki sýnt fram á að hann hafi náð varanlegri lausn á þessum vanda hefur hann fyrirgert starfi sínu hjá fyrirtækinu.

Með undirritun sinni á samkomulagið gekkst stefnandi undir þá afarkosti að fara í launalaust leyfi í heilt ár.  Eins og fram kemur í samkomulaginu var forsenda þess sú að stefnanda voru lagðar þær skyldur á herðar, annars vegar að vinna í sínum málum, og hins vegar sýna fram á það að loknu því ári, sem hann var í launalausu leyfi, að hann hefði náð varanlegum tökum á áfengisvanda sínum.  Ekki er nánar útfært í samkomulaginu í hverju sú vinna skyldi fólgin eða hvernig árangur skyldi metinn að ári liðnu.  Hins vegar er ljóst að samkvæmt orðanna hljóðan samkomu­lagsins var það alfarið lagt í hendur forráðamanna stefnda að meta að ári liðnu hvort stefnanda hefði tekist að ná varanlegri lausn á áfengisvanda sínum. 

Samkvæmt 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna hjá stefnda, sem eru hluti af kjarasamningi Félags íslenskra flugmanna og stefnda, segir að ef flugmaður vanrækir skyldur sínar eða gerist sekur um aðrar misfellur í starfi, eða stórfelldar ávirðingar  utan starfs, svo stjórn eða forstjóri félagsins telji ástæðu til aðvörunar, starfsbanns um stundarsakir, stöðulækkunar eða uppsagnar, geti hvor aðili fyrir sig, flugmaður (eða FÍA fyrir hans hönd) eða félagið fyrir hans hönd skotið þeirri ákvörðun félagsins til umsagnar starfsráðs.  Ekki er heimilt að segja flugmanni upp starfi fyrr en umsögn starfsráðs liggur fyrir. 

Framangreind tilgreining um aðkomu stjórnar eða forstjóra félagsins að þeim ákvörðunum sem þar eru nefndar verður ekki skilin á þann veg að þeir aðilar geti ekki veitt starfsmönnum félagsins umboð til að taka ákvarðanir samkvæmt ákvæðinu.  Í skýrslu fyrir dómi kom fram hjá fyrrverandi rekstrarstjóra stefnda, Jens Bjarnasyni, sem undirritaði umdeilt samkomulag við stefnanda að hann hefði samkvæmt starfslýsingu heimild til þeirrar ráðstöfunar og hefur því ekki verið hnekkt.

Það orðalag samkomulagsins að stefnanda bæri að vinna í sínum málum verður, með hliðsjón af atvikum öllum,  ekki skilið á annan veg en að með því hafi verið átt við að stefnandi færi í áfengismeðferð.  Í samkomulaginu er ekkert tekið fram um hvenær stefnandi þyrfti að hefja meðferð eða hvers konar meðferðarúrræði stefnandi þyrfti að nýta sér.  Stefnandi hóf strax eftir áramótin göngudeildarmeðferð hjá SÁÁ eða á tímabilinu 2. janúar 2004 til 26. janúar 2004.  Þá liggur fyrir að hann fór í áfengis­meðferð á Vogi og í framhaldsmeðferð á Staðarfelli og eftir það hélt hann áfram göngudeildarmeðferð hjá SÁÁ.  Þá sótti stefnandi á þessum tíma fundi hjá AA sam­tökunum.  Þykja gögn þessi styðja, svo ekki verði um villst, að stefnandi uppfyllti það skilyrði samkomulagsins að hann ynni í sínum málum.

Undir lok þess tímabils sem stefnandi var í launalausu leyfi frá stefnda var það mat forráðamanna stefnda að stefnanda hefði ekki tekist að sýna fram á varanlega lausn á vanda sínum og hefði hann því fyrirgert starfi sínu hjá félaginu.  Í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 11. gr. starfsreglnanna óskaði stefndi eftir umsögn starfsráðs FÍA og Flugleiða/Icelandair með bréfi 10. desember 2004.  Í bréfinu kemur meðal annars fram að það sé niðurstaða forráðamanna stefnda, að vandlega athuguðu máli, að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á varanlega lausn síns vanda, svo sem greinir í samkomulagi aðila, og muni hann því ekki koma til starfa hjá stefnda á ný. 

Í umsögn starfsráðs, hinn 12. janúar 2005, er það mat meiri hluta ráðsins að stefnandi hafi með framlagningu vottorða sýnt fram á að hann hafi uppfyllt skilyrði samkomu­lags aðila frá 12. desember 2003 og því hafi hann ekki fyrirgert starfi sínu hjá stefnda.

Samkvæmt 13. gr. c-lið í umræddum starfsaldursreglum eru úrskurðir starfsráðs endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og verður þeim ekki skotið til dómstóla nema að því er varðar umsagnir sem það gefur samkvæmt 11. gr. reglnanna og samkvæmt því var stefndi ekki bundinn af niðurstöðu starfsráðs.  Verður því ekki fallist á það með stefnanda að sú ákvörðun stefnda að fara ekki eftir mati starfsráðs þýði að stefndi hafi fyrir fram ákveðið að stefnanda skyldi sagt upp burtséð frá samkomulagi aðila og niðurstöðu starfsráðs.

Stefnandi hefur lagt fram vottorð um þau meðferðarúrræði sem hann gekkst undir á því tímabili sem hér um ræðir.  Þau staðfesta að hann hafi sinnt meðferð á tilgreindum tímabilum hjá Vogi, Staðarfelli og göngudeild SÁÁ.  Þá eru fyrirliggjandi vottorð um að stefnandi hafi stundað AA fundi á tímabilinu.  Var framangreind niðurstaða starfs­ráðs byggð á þessum vottorðum auk þess sem byggt var á því að stefnandi hafi fengið útgefið heilbrigðisvottorð og flugliðaskírteini af Flugmálastjórn og að í vottorði yfirlæknis Flugmálastjórnar 6. ágúst 2004 komi fram að stefnandi hafi farið í viðtöl hjá yfirlækninum og í úttekt hjá sálfræðingi áður en vottorðin voru gefin út.  Hafi það meðal annars verið gert vegna þeirrar áfengissýki sem stefnandi eigi við að stríða. 

Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafði full starfsréttindi í launalausa leyfinu og hafði þannig bæði gild flugskírteini og heilbrigðisvottorð fyrir utan þrjá mánuði þar sem vantaði endurnýjun á heilbrigðisvottorði.  Þrátt fyrir það var stefnandi í áfengis­meðferð á sama tíma og hann hafði gilt heilbrigðisvottorð. Verður því að fallast á það með stefnda að rétt sé að gera skýran greinarmun á útgáfu heilbrigðisvottorðs annars vegar og agamála og framkvæmdar starfsmannastefnu stefnda hins vegar.  Þótt stefnandi hafi haft gilt heilbrigðis­vottorð var það því ekki óyggjandi sönnunargagn um að hann hefði náð varanlegri lausn á áfengisvanda sínum.  Þá bera framlögð vottorð um meðferð stefnanda ekki með sér annað en að stefnandi hafi stundað meðferð á þeim tíma sem í þeim greinir.  Af vottorðum þessum verður hins vegar ekki ráðið með vissu hvort stefnandi hafi með þeirri meðferð náð varanlegum tökum á áfengisvanda sínum, en hann hafði áður farið í áfengismeðferðir án þess að þær leiddu til varanlegrar lausnar á áfengisvanda stefnanda.  Er því ekki fallist á þá niðurstöðu starfsráðs að stefnandi hafi með framlagningu framangreindra vottorða sýnt fram á að hann hafi uppfyllt það skilyrði samkomulagsins að hann hafi náð varanlegri lausn á áfengis­vanda sínum.

Eins og fram er komið var í samkomulagi aðila alfarið lagt í hendur stefnda að meta hvort stefnandi gæti sýnt fram á það að liðnu ári hvort hann hefði náð varanlegum tökum á áfengisvanda sínum.  Var það mat stefnda að liðnu því ári að það hafi stefnanda ekki tekist og byggði hann það mat sitt meðal annars á upplýsingum sem hann hafði um áfengisneyslu stefnanda á umræddu tímabili frá ónafngreindum aðilum.  Enda þótt stefndi hafi kosið að leggja þau gögn ekki fram í málinu verður við það að miða að stefndi mat það svo að stefnandi hefði ekki, þrátt fyrir fyrrgreindar meðferðir á umræddu tímabili, sýnt fram á að hann hefði náð varanlegum tökum á áfengisvanda sínum.  Þykja framagreind gögn, sem starfsráð byggði niðurstöður sínar á, ekki til þess fallin að hnekkja því mati stefnda.  Þá þykja yfirlýsingar aðila sem voru í samskiptum við stefnanda á því tímabili sem hér um ræðir um að þeir hafi ekki orðið varir við áfengisneyslu stefnanda heldur ekki vera til þess fallnar að hnekkja þessu mati stefnda.  Með hliðsjón af orðalagi samkomulagsins, um að stefndi ætti mat á því hvort stefnda hafi tekist að sýna fram á að hann hefði náð varanlegri lausn á vandanum, sem stefnandi gekkst undir, er hann bundinn af niðurstöðu forráðamanna stefnda hvað varðar þetta mat.  Hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á að mat stefnda að þessu leyti hafi verið rangt.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis við uppsögn stefnanda og ekki farið að starfsmannastefnu sinni gagnvart öðrum starfsmönnum sem staðið hafi í sömu sporum og stefnandi.  Stefnandi hefur engin haldbær gögn lagt fram þessum fullyrðingum til stuðnings og verður hann að bera hallann af því.

Ekki er ágreiningur um það að reglur um starfsaldur séu hluti af gildandi kjarasamningi FÍA og stefnda og að sá kjarasamningur hafi gilt um starfskjör stefnda.  Þá er ekki um það deilt að flugmanni hjá stefnda verður ekki sagt upp störfum á undan öðrum sem er neðar á starfsaldurslista nema hann hafi vanrækt skyldur sínar eða gerst sekur um aðrar misfellur í starfi eða stórfelldar ávirðingar utan starfs.  Eins og að framan er rakið var stefnanda sagt upp störfum eftir að stefndi mat það svo að hann hefði ekki fullnægt skilyrðum samkomulags aðila sem gert var í kjölfar þess að stefnandi hafði gerst sekur um stórfelldar ávirðingar utan starfs og þar með fyrirgert starfi sínu hjá stefnda.  Var því ekki um það að ræða að stefndi hafi virt kjarasamning aðila og starfsaldursreglur hans að vettugi með uppsögninni. 

Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á það svo óyggjandi sé að stefndi hafi haft stefnanda fyrir rangri sök, borið út óhróður um hann og stuðst við óstaðfest slúður um áfengisneyslu hans.  Þá verður ekki séð á hvern hátt stefndi braut 75. gr. stjórnarskrár­innar þegar hann sagði stefnanda upp störfum en þar segir að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi, en uppsögn stefnda takmarkaði ekki þann rétt stefnanda.

Ekki er í uppsagnarbréfi til stefnanda tilgreint hver sé ástæða uppsagnarinnar.  Hins var aðdragandinn með þeim hætti að stefnanda mátti vera það fullljóst að hverju stefndi enda var um málið fjallað í starfsráði og settu fulltrúar FÍA þar fram sjónarmið stefnanda í málinu.  Enda þótt uppsagnarbréf stefnda hefði mátt vera ítarlegra og beri ekki vott um vönduð vinnubrögð verður ekki séð á hvern hátt uppsögnin var andstæð kjarasamningi.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið gekk stefndi hvorki gegn samkomulagi aðila né kjarasamningi aðila þegar hann tók þá ákvörðun að segja stefnanda upp starfi sínu.  Hann bar álitaefnið undir starfsráð í samræmi við skyldur sínar þar að lútandi og var hann ekki bundinn af niðurstöðu ráðsins.  Verður því ekki séð að stefnandi hafi virt  málsmeðferðarreglur kjarasamnings aðila að vettugi eða að hann hafi orðið uppvís að ærumeiðandi geðþóttauppsögn.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda, samkvæmt bréfi 14. janúar 2005, lögmæt og þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að fjalla um aðrar kröfur stefnanda sem byggjast á því að hún hafi verið ólögmæt.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir atvikum þykir þó rétt að fella málskostnað niður.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Atli Gíslason hrl., en af hálfu stefnda flutti málið Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Icelandair ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þráins Hafsteinssonar.

Málskostnaður fellur niður