Hæstiréttur íslands
Mál nr. 380/2005
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2006. |
|
Nr. 380/2005. |
Hinrik Jónsson(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Verðbréfaviðskipti. Skaðabætur.
H krafði bankann L hf. um skaðabætur vegna tjóns, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir, þegar hann keypti af bankanum hlutabréf í deCode Genetics fyrir tæpar fimm milljónir króna. Ekki var talið sannað að bréfin hefðu verið í eigu bankans eða að viðskiptin hefðu verið ólögmæt vegna þess að ekki hefði farið fram útboðslýsing samkvæmt þágildandi lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti áður en þau áttu sér stað. Upplýst var að H, sem öllum mátti vera ljóst að ekki var við fulla heilsu en var bæði sjálfráða og fjárráða, hafði sjálfur sett fram ósk um að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu. Þá lá fyrir að hann hafði áður keypt hlutabréf í því og selt með hagnaði. Talið var ósannað að á það hefði skort að H hefði fengið þá ráðgjöf, sem verðbréfafyrirtækjum var skylt að veita samkvæmt 1. mgr. 15. laga nr. 13/1996. Var ekki fallist á að bankinn hefði gerst sekur um ólögmæta og saknæma athöfn eða athafnaleysi þegar umrædd viðskipti áttu sér stað. Var L hf. því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. ágúst 2005. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 4.240.096 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. desember 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísun til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.
I
Mál þetta sem dómtekið var 30. maí sl. höfðaði Hinrik Jónsson, kt. 130661-5489, Nesbala 4, Seltjarnarnesi gegn Landsbanka Íslands hf. kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík með stefnu birtri 13. desember 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 4.240.096 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2000 frá 13. desember 2000 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, að dráttarvextir verði reiknaðir frá mánuði eftir þingfestingu stefnu og málskostnaður felldur niður.
II
Málssókn stefnanda er á því byggð stefndi hafi með því að selja stefnanda, hinn 25. febrúar árið 2000, hlutabréf í fyrirtækinu deCode Genetics fyrir kr. 4.948.548, sem stefnandi hafi selt hinn 25. mars 2002 fyrir kr. 708.452, valdið honum tjóni sem nemi mismun fjárhæðanna, eða kr. 4.240.096. Svofelld grein er gerð fyrir lagarökum í stefnu að því er skaðabótakröfuna varðar: „Um fébótaábyrgð stefnda á tjóni stefnanda er vísað til almennu skaðabótareglunnar um tjón utan samninga, sbr. og meginsjónarmiða um bótaskyldu innan samninga.“
Framangreind viðskipti átti stefnandi við fyrirtækið Landsbréf sem nú hefur verið sameinað stefnda.
III
Hinn 16. febrúar 1996 höfuðkúpubrotnaði stefnandi í umferðarslysi. Í málinu hefur verið lögð fram læknisfræðileg greinargerð Sigurlaugar Sveinbjörnsdóttur, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, dags. 1. apríl 1998. Segir þar m.a. í niðurstöðu að stefnandi hafi í kjölfar slyssins fengið fjölmörg einkenni um sálvefrænan (organiskan mental) skaða og hafi átt við höfuðverk, svefnleysi, einbeitingarskort, minnistruflanir og þunglyndi að stríða í vaxandi mæli. Ástand hans hafi heldur versnað með tímanum og valdið óvinnufærni, félagslegri einangrun, depurð með algjöru framtaksleysi og verulegum fjárhagserfiðleikum hjá fjölskyldu hans. Fyrir slysið hafi stefnandi sýnt heilmikla framtakssemi með því að bæta við sig menntun, hann hafi verið vinnusamur og byggt upp eigið húsnæði og sumarhús fyrir sig og fjölskyldu sína.
Stefnandi er kvæntur konu sem er tónlistarkennari og eiga þau saman eitt barn, en stefnandi á þrjú önnur börn.
Hinn 10. nóvember 1998 mat örorkunefnd varanlega örorku stefnanda 100%. Í álitsgerð nefndarinnar er haft eftir stefnanda að hann þjáist af miklum höfuðverk, úthaldsleysi og einbeitingarskorti. Hann sé svo gleyminn að hann marglesi sama hlutinn. Í áliti nefndarinnar segir að einkenni hjá stefnanda séu í stórum dráttum óbreytt frá 1. júlí 1998 og telur örokunefnd að stefnandi geti ekki vænst frekari bata.
Í málinu hefur verið lagt fram læknisvottorð Péturs Haukssonar, geðlæknis á Reykjalundi, dags. 26. maí 2003, sem um var beðið vegna viðskipta stefnanda við fjármálafyrirtæki í janúar og febrúar 2000. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi í tvígang dvalið á Reykjalundi til endurhæfingar á árunum 1997-1998. Stefnandi hafi í byrjun árs 2000 tekið lyf sem tilgreind eru og hafi heildarmagn lyfjanna verið talsvert mikið og hafi að vonum haft áhrif á vitsmunagetu og dómgreind hans, en á þessum tíma hafi stefnandi verið í reglubundnu eftirliti hjá vottorðsgjafa. Í vottorðinu segir m.a. orðrétt:
„Áberandi var og er að hann [stefnandi] gekk ekki heill til skógar og var skerðingin og vanlíðan hans svo mikil að þau hefðu mátt vera ljós hverjum þeim sem áttu viðskipti við hann á þessum tíma, að mati undirritaðs. ...
Spurt er um andlegt hæfi Hinriks til að standa í viðskiptum með hlutabréf á þessum tíma og hæfni hans til að meta fjárfestingarkosti sjálfstætt. Mat undirritaðs er eftirfarandi: Vegna heilaskaða, andlegrar vanlíðunar og aukaverkandi lyfja er ljóst að vitsmunageta hefur verið skert á þessum tíma, bæði einbeiting, minni, tjáning og almenn dómgreind. Jafnframt hefur andleg vanlíðan haft áhrif á röksemdafærslu hans og ákvarðanatöku. Þessi skerðing og vanlíðan hefur því haft mikil og slæm áhrif á hæfni hans til að standa í viðskiptum með hlutabréf, meta fjárfestingakosti og taka sjálfstæðar ákvarðanir á þessu sviði eins og öðrum.“
IV
Í desember 1998 fékk stefnandi greiddar rúmlega 31 milljón króna í örorkubætur frá tryggingafélagi þess sem slysinu olli. Stefnandi lýsti því fyrir dómi að hluta bótanna hefði hann notað til þess að kaupa fasteign en afganginn til annarra fjárfestinga.
Í málinu hefur verið lagður fram hreyfingalisti, sem svo er kallaður, fyrir tímabilið 1. janúar 1999 til 1. nóvember 2002, sem á að sýna viðskipti stefnanda við stefnda. Fyrstu færslurnar eru dagsettar 22. desember 1999 en þá kaupir stefnandi fyrirtækjabréf Landsbankans fyrir allháa fjárhæð og einnig í Íslenska hlutabréfasjóðnum hf. en fyrir lága fjárhæð. Hinn 7. janúar selur stefnandi húsbréf fyrir háa fjárhæð og kaupir sama dag peningabréf Landsbankans fyrir rúmlega sömu fjárhæð. Hinn 18. janúar 2000 eru peningabréf Landsbankans að fjárhæð kr. 6.366.103 innleyst og sama dag kaupir stefnandi hlutabréf í DeCode genetics á genginu 49,000 fyrir kr. 6.364.810 eða nær sömu fjárhæð. Þau hlutabréf selur stefnandi 21. febrúar 2000 á genginu 52,0000 og því með rúmlega 240 þúsund króna hagnaði. Hinn 25. s.m. kaupir stefnandi aftur hlutabréf í DeCode genetics á genginu 56,000 en nú fyrir kr. 4.948.548. Eru það kaupin sem skaðabótakröfa stefnanda er risin af. Nokkrar hreyfingar, kaup, sala og innlausnir, eru áfram á þessum lista á árunum 2000 og 2001, en engar á árinu 2002.
Um kaup stefnanda á hlutabréfum hinn 25. febrúar, sem stefnandi segist hafa gert símleiðis, hefur hann lagt fram í málinu „kvittun vegna verðbréfa“ og kemur þar fram að stefnandi keypti hlutabréf fyrir kr. 4.899.552 og greiddi fyrir það kr. 48.996 í þóknun. Miðlari hlutabréfanna er skráð Guðrún Aldís Jóhannsdóttir, starfsmaður stefnanda. Greiðsla stefnanda, kr. 4.948.548, var tekin út af reikningi stefnanda hjá stefnda.
Þá hefur stefnandi lagt fram viðskiptayfirlit yfir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2000 og er það dagsett 28. ágúst 2000. Þar kemur fram að gengi hlutabréfa stefnanda í DeCode genetics sé 24,0000 að verðmæti kr. 2.197.152.
Stefnandi hefur og lagt fram bréf frá stefnda til sín dags. 29. nóvember 2000. Þar er honum tjáð að almennu hlutafjárútboði DeCode Genetics hafi lokið í júlí sl. með skráningu félagsins á NASDAQ og EASDAQ og við það hafi áður útgefin hlutabréf í félaginu sem gengið hafi kaupum og sölum fyrir útboðið breyst úr „Preferred Series B“ í almenn hlutabréf. Hinn 15. janúar nk. verði hægt að selja bréfin sé þeim skipt úr „Preferred Series B“ í almenn hlutabréf.
Stefndi hefur lagt fram umsókn stefnanda um verðbréfareikning, sem hann hefur sjálfur fyllt út og undirritað 8. febrúar 2002. Þar kemur fram að stefnandi hafi takmarkaða fjárfestingarreynslu og þekkingu og sé öryrki. Þessi umsókn mun hafa verið gerð til þess að hægt væri að selja hlutabréfin, sem þá voru skráð á markaði í Bandaríkjunum. Það gerði stefnandi hinn 25. mars 2002 á genginu 5,9300 og mun verðið hafa svarað kr. 708.594. Áður, eða í febrúar 2002, kveðst stefnandi hafa haft samband við Landsbréf hf. sem hafi ráðlagt sér að selja ekki hlutabréfin.
Stefndi hefur lagt fram í málinu yfirlit um stöðu nafnverðseignar hlutabréfa stefnda í DeCode á tímabilinu frá 1. júní 1999 til 1. apríl 2000 og kemur þar m.a. fram að í febrúar 2000 átti stefndi minnst 379.783 en mest 412.735 hluti í DeCode. Hinn 25. febrúar 2000, eða þegar stefnandi keypti hlutabréf í DeCode í síðara skiptið, átti stefnandi 385.005 hluti.
V
Í málinu hefur verið lagt fram skjal, sem stafar frá Landsbanka Íslands og Fjárfestingabanka atvinnulífsins, dags. 15. júní 1999, um sölu hlutabréfa í DeCode genetics Inc. Skjalið er ekki stílað á neinn sérstakan aðila. Í skjalinu er greint frá því að fyrirtækið Íslensk erfðagreining hafi lagt á það áherslu að auka hlut íslenskra fjárfesta í hópi hluthafa í móðurfélaginu DeCode og hafi beitt sér fyrir því að bandarískir áhættufjárfestar, sem tekið hafi þátt í stofnun DeCode, selji hluta bréfa sinna til íslenskra fjárfesta. Landsbanki Íslands og Fjárfestingabanki atvinnulífsins (FBA) hafi tekið að sér milligöngu um þessi viðskipti. Fimm milljónir hluta verði boðnir með þessum hætti völdum íslenskum fagfjárfestum og fjármálafyrirtækjum og 40% af hlutunum hafi verið seld með því skilyrði að kaupendur endurseldu ekki bréfin fyrir 1. desember 1999 eða eftir skráningu félagsins á viðurkenndum verðbréfamarkaði erlendis yrði félagið skráð fyrir þann tíma. Þá er í skjalinu lýst söluskilmálum hlutabréfanna: Fjöldi hluta er 5.000.000 og lágmarkskaup 40.000 hlutir. Hlutabréfin séu í B-flokki en breytist úr honum í almenn hlutabréf við skráningu félagsins á almennan hlutabréfamarkað í hlutfallinu 1:1. Heimilt sé að kaupa og selja hluti í B-flokki innan Íslands, þ.e. milli íslenskra lögaðila, en hlutabréfin megi ekki selja bandarískum lögaðilum fyrr en 180 dögum eftir að félagið hafi verið skráð á viðurkenndan verðbréfamarkað í Bandaríkjunum. Þá segir að með fylgi ítarlegar upplýsingar um DeCode, sem m.a. lýsi viðskiptahugmyndinni að baki félaginu, rekstri þess, fjárhagslegri stöðu, samsetningu hlutafjár og helstu áhættuþáttum sem í rekstrinum felist. Þau gögn séu unnin af starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar og á ábyrgð þeirra. Þessar upplýsingar hafa ekki verið lagðar fram í málinu.
Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit af frétt í Morgunblaðinu 17. júní 1999 þar sem segir að daginn áður hafi verið undirritaður samningur FBA, Landsbankans, Búnaðarbankans og eignarhaldsfélagsins Hofs um hlutabréf í DeCode fyrir rúma sex milljarða króna og með þeim kaupum hafi eignarhlutur bankanna og eignarhaldsfélagsins Hofs orðið nálægt 17% af heildarverðmæti félagsins. Með þessum kaupum hafi Íslendingar eignast tæplega 70% hlut í félaginu. Forráðamenn þessara fyrirtækja eru sagðir hafa lýst því yfir á fréttamannafundi að lokinni undirritun samningsins að þeir ráðgerðu að selja hlutabréfin áfram í áföngum í lokuðu hlutafjárútboði til innlendra fjárfesta, samkvæmt sérstöku samkomulagi sem hafi verið gert samhliða kaupunum, m.a. um lágmarksverð. Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna Íslenskrar erfðagreiningar voru þetta stærstu einstöku hlutafjárkaup sem í landinu höfðu verið gerð til þessa.
Eftir bankastjóra Landsbankans er haft í sama blaði að hlutur bankans í kaupunum sé 20% eða kr. 1,2 milljarðar. Markmið bankans sé að þeir hlutir sem hann hafi keypt verði síðan í sem dreifðastri eign innlendra aðila.
Bankastjóri FBA kvaðst gera ráð fyrir því að verðbréfafyrirtæki sem keyptu hlutabréf myndu síðan selja þau áfram til viðskiptavina sinna.
Bankastjóri Landsbankans kvað það markmið bankans að þeir hlutir sem hann hefði keypt yrðu síðan í sem dreifðastri eign innlendra aðila. Bankastjórinn sagði jafnframt að samningurinn um kaupin á hlutabréfunum fæli í sér ánægjulegt viðskiptatækifæri sem fælist í því að koma að félaginu áður en það verði skráð á hlutabréfamarkað ytra. Á því stigi sé mest von um verðhækkanir í fyrirtækjum af þessu tagi og því sé þetta einstakt viðskiptatækifæri. Bankastjórinn segir að bankinn ætli sér að miðla hlutafénu til innlendra fjárfesta fram að skráningu félagsins, en um leið og ÍE verði skráð og komið á markað verði ákveðinn hluti seldur einstaklingum.
Bankastjóri Búnaðarbankans sagði að almenningi yrði gefinn kostur á að kaupa hlutabréf þegar búið yrði að skrá DeCode á verðbréfaþingi erlendis.
VI
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst vera húsasmíðameistari að mennt. Hann hefði fengið greiddar örorkubætur árið 1998 og í framhaldi af því keypt sér fasteign og selt aðra sem hann átti.
Stefnandi kvaðst hafa viljað ígrunda vel og vandlega hvernig hannn ávaxtaði það fé sem hann hafði til ráðstöfunar eftir fasteignakaupin. Hann hefði ekki rætt það við fjölskylduna sérstaklega en þau hjónin hefðu þó rætt saman um þetta. Sjálfur hefði hann tekið ákvörðunina. Stefnandi mundi ekki hvers vegna hann leitaði til fyrirtækisins Landsbréfa, en hann kvaðst hafa viljað fá aðstoð og ráðgjöf við að ávaxta peningana. Hann hefði enga reynslu haft af hlutabréfaviðskiptum nema þá að kaupa smáhlut í Búnaðarbankanum. Stefnandi kvaðst hafa farið til Landsbréfa án þess að panta tíma og þar hefði honum verið bent á að tala við ráðgjafa, Maríellu að nafni. Maríella hefði bent sér á fjölmarga fjárfestingakosti. Einhverjir hefðu skilað hagnaði, aðrir tapi. Ráðgjafinn hefði einskis spurt, hvorki um eignir né tekjur, og ekki hefði hann sagt henni neitt af sínum högum svo sem um reynslu af hlutabréfaviðskiptum. Stefnandi sagði síðar í yfirheyrslunni að hann hefði tjáð ráðgjafanum að hann hefði ekki reynslu af hlutabréfaviðskiptum. Ráðgjafinn hefði engin viðbrögð sýnt við því. Stefnandi kvaðst hafa komið til Landsbréfa miklu oftar en einu sinni en mundi ekki hvenær hann hefði komið í fyrsta skipti, en hélt að það hefði verið í desember 1999. Hann hefði ekki átt viðskipti við annan banka.
Stefnandi kvaðst hafa fengið áhuga á því að kaupa hlutabréf í DeCode vegna þess að hann hefði horft á fréttir í sjónvarpinu og séð umfjöllun um fyrirtækið. Það hafi hálfpartinn kveikt neistann hjá honum, ef svo mætti taka til orða, til að kanna möguleika á því hvernig væri að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Stefnandi kvaðst ekki hafa lesið sér neitt til um fyrirtækið. Hann hefði ekki vitað neitt um fyrirtækið en treyst á ráðgjöf stefnda. Stefnandi kvaðst hafa talið að DeCode væri vel rekið fyrirtæki, annars hefði hann ekki tekið þá ákvörðun að kaupa hlutabréf í því. Stefnandi kvaðst sjálfur hafa stungið upp á því við ráðgjafann að hann fjárfesti í DeCode en ráðgjafinn hefði ekkert sagt sér um fyrirtækið og hvorki ráðlagt af né á um kaupin. Hann hefði engin gögn fengið um fyrirtækið. Ráðgjafinn hefði ekkert sagt um áhættu sem fylgdi hlutabréfakaupum í DeCode og ekki rætt um verðið á þeim. Stefnandi kvaðst ekki hafa vitað að áhætta fylgdi því að kaupa hlutabréf í DeCode og ráðgjafinn hefði ekki ráðlagt sér að leita upplýsinga um fyrirtækið. Ráðgjafinn hefði ekki rætt um það að Landsbankinn eða starfsmenn Landsbréfa ættu sjálfir hlutabréf í DeCode. Ákveðið hafi verið í stuttu spjalli að hann keypti hlutabréfin. Stefnandi kvaðst sjálfur hafa ákveðið fyrir hve mikið hann keypti, þ.e. 6,9 milljónir, og ráðgjafinn ekkert sagt um það.
Mætti kvaðst hafa selt hlutabréfin í DeCode vegna þess að hann hafi verið farinn að verða svolítið smeykur um þetta og tekið þá ákvörðun að selja og gert það símleiðis. Stefnandi kvaðst reikna með því að sér hafi fundist ávöxtun DeCode bréfanna í einn mánuð hafa verið ásættanleg.
Þegar stefnandi keypti hlutabréf í DeCode á nýjan leik kvaðst hann hafa gert það í gegnum síma. Hann hefði viljað kaupa bréfin og samþykkt hefði verið að selja honum þau. Stefnandi kvaðst hafa spurt að því hvort starfsmaðurinn sæi einhverja meinbugi á kaupunum og hefði þá átt við það hvort einhver áhætta væri þeim samfara, en stefnandi kvaðst hafa skertan orðaforða eftir slysið. Starfsmaðurinn hefði eiginlega ekki svarað því beint. Stefnandi kvaðst ekki muna hvers vegna hann hefði keypt hlutabréf á nýjan leik í DeCode. Þau bréf hefði hann ekki keypt hefði hann vitað að þeim fylgdi mikil áhætta. Stefnandi kvaðst halda að hann hefði ekki áttað sig á því að gengi hlutabréfanna hafði hækkað frá því hann seldi þar til hann keypti á nýjan leik. Í rauninn hefði hann enga ástæðu haft til þess að óttast að verðið myndi lækka á hlutabréfunum, en þetta myndi hann óljóst.
Stefnandi sagði að í upphafi hafi sér verið boðið að stofna reikning hjá Landsbréfum þar sem hann gæti lagt inn peninga sem hann hafi gert og greiðslan fyrir hlutabréfakaupin hafi verið tekin út af þessum reikningi. Öll hlutabréfin hafi verið geymd í bankanum að ósk stefnanda. Stefnanda varð að skilja svo að Landsbréf hefðu ekki tekið að sér svokallaða fjárvörslu fyrir hann og vörslusamningur hafi því ekki verið gerður. Stefnandi kvaðst hafa farið í bankann eftir að hann hafi verið farinn að hafa áhyggjur af því hve hlutabréfin voru farin að hríðfalla mikið og gengið lágt og þá hafi sér verið ráðlagt að halda bréfunum. Stefnandi mundi ekki eftir því hvenær þetta var. Hann hefði sótt um E*trade reikning, en sér hefði verið sagt að þannig reikning yrði hann að stofna til þess að geta selt hlutabréfin, sem hann hefði gert. Sig hefði sárvantað peninga.
Stefnandi kvaðst hafa fengið yfirlit í pósti frá Landsbréfum, dags 28.8 2000, sem sýnir að verðmæti hlutabréfanna í DeCode er reiknað vera kr. 2.197.152. Stefnandi kvaðst ekki muna hvort hann hefði áttað sig á því að bréfin hefðu á þessum tíma lækkað í verði.
Stefnandi kvaðst fyrir ári síðan hafa skráð hús sitt á nafn eiginkonunnar því að hann hefði óttast að hann myndi spilla eigninni á einhvern hátt.
Vitnið Guðrún Aldís Jóhannsdóttir kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Landsbréfum frá því í byrjun febrúar 2000 til ársloka 2002. Vitnið kvaðst vera viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál. Starfssvið sitt hefði verið að selja sjóði Landsbréfa. Verðbréfamiðlurunum hefði ekki verið uppálagt að nefna sérstaklega hlutabréf í DeCode og þeir hefðu ekki mælt með hlutabréfum í óskráðum félögum, eins og þeim hafi verið fyrirskipað af yfirmönnum. Þeir hefðu bent á að því fylgdi gríðarleg áhætta að kaupa bréf í slíkum félögum og hefðu haft uppi varnaðarorð. Engar sérstakar upplýsingar hefðu verið veittar um DeCode af hálfu Landsbréfa en upplýsingar frá félaginu hefðu verið mjög litlar. Vitnið kvaðst nánast ekki neitt hafa munað eftir viðskiptunum við stefnanda 25. febrúar til að byrja með. Síðan hefði hún fengið upplýsingar um að stefnandi hefði gert kaup í erlendum sjóðum á sama tíma sem krafist hefðu mikillar pappírsvinnu. Þá hafi kaup stefnanda 25. febrúar rifjast upp fyrir sér. Vitnið kvaðst samt ekki muna eftir neinu sem þeim stefnanda hafi farið á milli. Á þessum tíma hafi verið gríðarleg eftirspurn eftir því að kaupa og selja í DeCode. Annað hvort hafi fólk komið eða hringt til að kaupa og selja. Það hafi verið aðilar af öllu tagi sem hafi verið að kaupa og selja hlutabréf og taldi vitnið að þátttaka almennings í viðskiptunum hefði verið mikil. Í sjálfu sér hafi alveg verið heimilt að selja og kaupa í DeCode þannig að hafi fólk haft áhuga á að kaupa eða selja hlutabréf þá hafi Landsbréf annast það.
Vitnið kvað sig ekki reka minni til þess að stefnandi hafi sagst vera öryrki. Vitnið kvaðst heldur ekki muna að Landsbréf hefðu neitað að eiga viðskipti við þá sem þeirra hefðu óskað.
VII
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi, Landsbankinn, hafi selt honum hlutbréf, sem að líkindum hafi verið í eigu bankans sjálfs. A.m.k. hafi ekkert annað komið í ljós. Hlutabréfin hafi verið óskráð á verðbréfamarkaði, en DeCode hafi verið skráð á markað í Bandaríkjunum í ágúst 2000 og hafi útboðsgengið verið 14 USD á hlut. Í útboðslýsingunni komi m.a. fram að lítill sem enginn opinber markaður hafi verið með hlutabréfin nema á Íslandi þar sem 10 milljónir hluta hafi skipt um hendur árið 1999 í um 7000 viðskiptum og frá janúar 2000 og fram að útgáfudegi útboðslýsingar hafi 1,1 milljón hluta skipt um hendur í um 2.700 viðskiptum.
Salan til stefnanda hafi farið fram án þess að stefndi uppfyllti ákvæði 20. gr., sbr. 4. tl. 2. gr. þágildandi laga um verðbréfastarfsemi, nr. 13/1996 um almennt útboð hlutabréfanna. Stefndi hafi og ekki staðið við yfirlýsingar frá því í júní 1999 að bréf hans yrðu aðeins seld fagfjárfestum. Sala hlutabréfa til bankastarfsmanna hafi hleypt af stað sölu til einstaklinga og hafi þau viðskipti verið umfangsmikil. Þessir bankastarfsmenn hafi því átt þeirra hagsmuna að gæta að verð á bréfunum væri sem hæst.
Til þess að þessi sala væri heimil hefði þurft að liggja fyrir útboðslýsing í skilningi 1. gr. reglugerðar nr. 505/1993 um almennt útboð verðbréfa, en þar sé kveðið á um að almennt útboð teljist vera útboð samkynja verðbréfa sem almenningi séu boðin til kaups með almennri eða opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna megi til opinberrar auglýsingar. Ummæli bankastjóra stefnda um hlutabréfin í DeCode verði að jafna til almennrar auglýsingar á þeim hlutabréfum, en útboð þeirra hafi hins vegar ekki farið fram. Með þessum hætti hafi stefndi brotið lög.
Stefnandi hafi fengið upplýsingar í fjölmiðlum um hlutabréfin í DeCode, en engar upplýsingar frá stefnda eða öðrum aðilum. Verðlagning á hlutabréfunum hafi verið algerlega óraunhæf og kaup á þeim afar áhættusöm og engan veginn hentað sem fjárfesting fyrir einstakling, ekki síst þegar um hafi verið að ræða öryrkja sem stefnanda. Stefndi hafi hins vegar aldrei hirt um að kynna stefnanda þá áhættu sem hlutabréfakaupunum fylgdi, svo og það að stefndi ætti verulegra hagsmuna að gæta varðandi verð á hlutabréfum í DeCode. Þannig hafi stefndi brotið ákvæði 15. gr. laga nr. 13/1996.
Stefndi hafi heldur ekki hirt um að kynna sér aðstæður og ásigkomulag stefnanda sem engum hafi getað dulist að var bágborið. Óhæfni stefnanda til þess að taka ákvarðanir um fjárfestingar hafi því verið starfsmönnum stefnda ljós eða átt að vera það. Til marks um þetta megi hafa að stefnandi hafi selt hlutabréf sín í DeDode hinn 21. febrúar 2000 en keypt hlutabréf aftur fjórum dögum seinna á hærra gengi. Þá hafi stefnandi ekki verið í stakk búinn til þess að skilja upplýsingar sem sé að finna á þeim viðskiptayfirlitum sem stefndi hafi sent honum. Samkvæmt ólögfestri meginreglu, sem síðar hafi orðið að 27. gr. laga nr. 13/1996, hafi stefnanda borið að leggja mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu stefnanda þar sem hann hafi ekki verið fagfjárfestir og ekki hafi verið um almennt útboð að ræða. Sala hlutabréfanna hafi farið fram símleiðis og hafi stefndi ekki hirt um að fullnægja þessari lagaskyldu sinni. Stefndi hafi því brotið þetta lagaákvæði.
Þá hafi stefndi ekki uppfyllt þá skyldu sína gagnvart stefnanda að gera samning við hann um viðskiptin samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 13/1996.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með athafnaleysi sínu og athöfnum, sem hafi verið saknæmar og ólögmætar, valdið sér bótaskyldu tjóni. Tjónið sé munurinn á því verði hlutabréfanna sem stefnandi keypti í DeCode 25. febrúar 2002 og því verði sem hann seldi þau á 25. mars 2002 og reiknar stefnandi tjónið nema kr. 4.240.096.
Af hálfu stefnda er því andmælt að hann hafi selt stefnanda bréf sem hann sjálfur átti. Af þeim bréfum sem hann hafi keypt í DeCode fyrir skráningu fyrirtækisins á markað hafi hann haldið um 380 þúsund hlutum en selt fagfjárfestum aðra hluti. Stefndi hafi lagt fram í málinu yfirlit um stöðu nafnverðseignar stefnda á tímabilinu frá 1. júní 1999 til 1. apríl 2000 sem sýni þetta, en nákvæmari upplýsingar geti hann ekki lagt fram vegna bankaleyndar. Þannig fái það ekki staðist sem stefnandi haldi fram að stefndi hafi verið að selja honum eigin hluti. Stefndi hafi staðið við þá yfirlýsingu sína að selja ekki öðrum en fagfjárfestum hlutabréf í DeCode fyrr en félagið hefði verið skráð á markað. Stefndi hafi aldrei kynnt hlutabréfin í söluskyni enda þótt bankastjóri stefnda hafi fjallað um þau á opinberum vettvangi. Stefnandi hafi þannig starfað innan ramma gildandi laga um þessi viðskipti og geti stefnandi engan rétt byggt að því að stefndi hafi brotið lög.
Stefndi hafi hins vegar ekki getað ráðið því hvað aðrir gerðu við hlutabréf sín og víst sé að með hlutabréf í DeCode hafi skapast svokallaður eftir á markaður, sem líka sé kallaður grár markaður, þar sem ekki hafi verið um að ræða viðskipti á skipulögðum verðbréfamarkaði. Þessi viðskipti hafi verið heimil að lögum á þessum tíma en fyrir þau tekið að mestu í lögum nr. 163/2000 sem hafi tekið gildi 1. janúar 2001. Lagatilvísanir stefnanda séu allar til þessara laga og eigi því ekki við í málinu. Á þessum eftirmarkaði hafi hlutabréf í DeCode gengið kaupum og sölum manna á milli í ríkum mæli. Óhætt sé að kalla þennan tíma gullæði þar sem allir hafi viljað hagnast stórlega. Stefnandi hafi tekið þátt í að miðla þessum hlutabréfum í þjónustuskyni við viðskiptamenn sína, sem hafi ætíð verið tjáð að um óskráð hlutabréf væri að ræða og kaupum þeirra fylgdi áhætta. Verð á bréfunum hafi einvörðungu ráðist af framboði og eftirspurn. Stefndi hafi ekki boðið hlutabréf í DeCode til sölu. Hins vegar hafi engum verið meinað að kaupa bréfin óskuðu þeir þess. Stefndi hafi engan hagnað haft af þessum viðskiptum heldur einungis tekið þóknum fyrir þjónustuna. Þeir starfsmenn stefnda, sem hafi fengið að kaupa hlutabréf, hafi ekki mátt selja hlutabréf sín fyrr en eftir langan tíma og því hafi þeir ekki getað stundað spákaupmennsku með bréfin.
Stefnandi hafi keypt hlutabréf í DeCode á þessum eftirmarkaði. Hann hafi leitað til Landsbréfa hf., líklega í desember 1999, og átt ýmis fjármálaviðskipti eins og framlögð yfirlit um viðskipti hans sýni. Þessi yfirlit sýni líka góða dreifingu á fjármunum stefnanda, viðskipti hans lúti ekki einvörðungu að kaupum hlutabréfa í DeCode. Þetta bendi til þess að stefndi hafi fengið upplýsingar um ýmsa fjárfestingakosti. Á yfirlitinu komi fram að stefnandi hafi keypt hlutabréf í DeCode 18. janúar 2000 og selt sömu bréf 21. febrúar s.á. með góðum hagnaði. Hann hafi síðan keypt hlutabréf í DeCode að nýju 25. febrúar fyrir lægri fjárhæð og þannig dregið úr áhættu sem hlutabréfakaupunum fylgdu. Af yfirlitunum verði ekki annað séð en viðskipti stefnanda hafi öll verið með eðlilegum hætti. Starfsmenn stefndi hafa þannig ekki haft neina ástæðu til þess að ætla að stefnandi, sem bæði sé fjárráða og sjálfráða, hafi ekki haft fullt vald á aðgerðum sínum í fjármálum. Sé svo, eins og komið hafi fram hjá stefnanda undir rekstri málsins, að hann hafi ekki skilið þau yfirlit sem stefndi hafi sent honum, hafi verið útilokað fyrir starfsmenn stefnda að átta sig á því. Stefndi og stefnandi hafi hins vegar ekki gert fjárvörslusamning enda hafi stefnandi ekki farið fram á það. Það hafi ekki verið skylt að lögum 17. gr. laga nr. 13/1996, þar sem ekki hafi verið um svo viðamikil viðskipti að ræða.
Þau hlutabréf sem mál þetta snúist um hafi stefnandi keypt símleiðis að eigin ósk en ekki að tilhlutan stefnda. Við þetta hafi starfsmaður stefnda ekkert séð eða fundið athugavert og orðið við óskum stefnanda. Stefnanda hafi verið tjáð sem öðrum að um áhættuviðskipti væri að ræða en hafi keypt hlutabréfin þrátt fyrir það.
Stefndi hafi þannig á engan hátt gert neitt rangt í viðskiptum sínum við stefnanda sem leitt geti til skaðabótaskyldu.
Stefndi kveðst byggja varakröfu sína á þeirri almennu reglu að tjónþola beri að takmarka tjón sitt. Stefnandi hafi átt þess kost hvenær sem var að selja hlutabréf sín með hagnaði eða a.m.k. minna tapi en hann hafi gert.
VIII
Eins og frá er greint í II. kafla dómsins byggir stefnandi bótaábyrgð stefnda á tjóni sínu á almennu skaðabótareglunni en vísar jafnframt til „meginsjónarmiða um bótaskyldu innan samninga.“ Tilvísun stefnanda til þessara meginsjónarmiða var hvorki útskýrð í stefnu málsins né reifuð í munnlegum málflutningi af lögmanni hans. Er því óupplýst, óvíst og vandséð við hvað er átt með henni. Verður því að miða við, eins og málflutningi stefnanda var hagað, að skaðabótakrafa stefnanda sé byggð á almennu skaðabótareglunni.
Heimfærsla stefnanda til almennu skaðabótareglunnar er að hluta byggð á því að stefndi hafi brotið lög með sölu hutabréfa í DeCode genetics til stefnanda þann 25. febrúar 2000 þar sem honum hafi ekki verið heimilt að selja hlutabréf þessi. Stefnandi heldur því fram að þau hlutabréf sem hann keypti hafi að líkindum verið í eigu stefnda sjálfs og á einum stað í stefnu fullyrðir stefnandi að svo hafi verið. Stefnandi vísar til 4. tl. 2. gr. og 20. gr. þágildandi laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti og heldur því fram að verðbréf, sem boðin séu almenningi til kaups í fyrsta sinn, eigi að selja samkvæmt almennu útboði samkvæmt þeim lagagreinum, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 505/1993 um almennt útboð verðbréfa. Almennt útboð eigi að fara fram með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu sem megi jafna til hennar, enda séu verðbréf í sama flokki ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, en það hafi hlutabréfin í DeCode ekki verið. Í stefnu vísar stefnandi hér um til 25. gr. og 29. gr. laganna sem ekki verður séð að hér eigi við. Tilvísun til þeirra lagagreina á sýnilega við lögin eins og þau urðu við breytingu á þeim með lögum nr. 163/2000 sem tóku gildi 1. janúar 2001. Þessi ónákvæmni í málatilbúnaði stefnanda var til baga þar til hann var leiðréttur við munnlegan flutning málsins. Í 25. gr. laganna, eins og þeim var breytt, er kveðið á um það að almennt útboð verðbréfa, hvort heldur er í upphaflegri sölu eða síðari sölu sé háð því að útboðslýsing hafi verið gefin út í samræmi við ákvæði laganna.
Þessi málsástæða stefnanda sýnist ná til þess að stefnanda hefði verið forðað frá tjóni með því að hlutabréfin hefðu ekki verið til sölu eða þó öllu heldur að stefnanda hefði verið forðað frá tjóni hefðu hlutabréfin verið seld í almennu útboði með þeirri kynningu sem slíku útboði átti að fylgja. Sú kynning hefði gert stefnanda kleift að meta áhættu hlutabréfakaupunum samfara sem leitt hefði til þess að hann hefði ekki keypt hlutabréfin.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að þau bréf sem hann seldi stefnanda hafi ekki verið í eigu bankans sjálfs. Því hafi ekki verið um upphaflega sölu hlutabréfa að ræða af bankans hálfu og útboðsskylda því ekki samfara sölunni. Þessu til sönnunar hefur stefndi lagt fram yfirlit tímabilinu frá 1. júní 1999 til 1. apríl 2000 yfir stöðu nafnverðseignar hlutabréfa stefnda í DeCode og kemur þar m.a. fram að hún er nokkuð svipuð á þessu tímabili, en í febrúar 2000 átti stefndi minnst 379.783 en mest 412.735 hluti í DeCode.
Stefndi heldur því fram að hlutabréf þau sem stefnandi keypti hafi verið seld á svokölluðum eftirmarkaði sem hafi orðið til þegar fagfjárfestar, sem keypt höfðu hlutabréf, hefðu selt þau aftur. Stefndi hafi í þjónustuskyni við viðskiptamenn, þ.á m. stefnanda, haft þessi hlutabréf til sölu. Viðskipti af þessu tagi hafi verið heimil á þessum tíma. Það sé fyrst með breytingalögum nr. 163/2000 við lög nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti sem viðskipti með óskráð hlutabréf án útboðs hafi verið óheimiluð, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 8. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti eru nú sérstök ákvæði um sölu óskráðra verðbréfa til annarra en fagfjárfesta.
Því er lýst í stefnu málsins, og hefur ekki verið dregið í efa af stefnda, að í útboðslýsingu, sem gerð var þegar DeCode var skráð á verðbréfamarkað í Bandaríkjunum, hafi komið fram að lítill sem enginn opinber markaður hafi verið með hlutabréf í fyrirtækinu að öðru leyti en því að á Íslandi hafi 11,1 milljón hluta skipt um hendur árið 1999 og á árinu 2000 til útgáfudags útboðslýsingar í ágúst, í u.þ.b. 9.700 viðskiptum samtals. Þótt hér skorti önnur viðmið en tölurnar sjálfar hafa að geyma geta þær varla sýnt annað en að viðskipti með hlutabréf í DeCode hafa a.m.k. verið nokkuð lífleg.
Stefnandi hefur að nokkru byggt málatilbúnað sinn á fréttum Morgunblaðsins. Þykir því rétt að geta þess að í blaðinu kemur fram hinn 17. júní 1999 að eftir kaup bankanna þriggja og eignarhaldsfélagins Hofs á 17% hlut í DeCode er sagt að með þessum kaupum hafi Íslendingar eignast tæplega 70% hlut í fyrirtækinu.
Þegar litið er til þeirra upplýsinga sem stefndi hefur gefið um hlutabréfaeign sjálfs sín í DeCode á þeim tíma sem stefnandi keypti hlutabréf í því fyrirtæki, upplýsinga stefnda um viðskipti með hlutabréf í fyrirtækinu hér á landi áður en það var skráð á markað og upplýsinga um hlutabréfaeign Íslendinga í DeCode áður en fyrirtækið var skráð á markaði, verður talið ósannað að stefndi hafi selt stefnanda hlutabréf sem voru í eigu stefnda. Verður samkvæmt þessu byggt á því að stefndi hafi selt stefnanda hlutabréf sem voru í eigu annars en hans sjálfs.
Ekki verður séð að ljóst sé af lögum nr. 13/1996, sem í gildi voru um verðbréfaviðskipti á þessum tíma, að þau hafi einungis heimilað viðskipti af þessu tagi að undangenginni útboðslýsingu með tilheyrandi opinberum auglýsingum. Í því sambandi verður að líta til þess að með breytingalögum nr. 163/2000, sem gildi tóku 1. janúar 2001, er kveðið á um það að almennt útboð verðbréfa, hvort heldur í upphaflegri sölu eða síðari sölu, sé háð því að útboðslýsing hafi verið gefin út í samræmi við ákvæði laganna. Í greinargerð með lagafrumvapinu kemur fram að ætlun löggjafans er að eyða vafa á þessu sviði og tryggja m.a. það að útboðslýsing liggi fyrir í þeim tilvikum þegar hlutabréf sem fagfjárfestar kaupa í frumsölu eru síðan seld almenningi. Á þessu sýnist hafa leikið vafi sem eytt var með breytingalögunum nr. 163/2000.
Líta verður til þess að stefnandi byggir kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni og málsástæða hans er sú að stefnandi myndi ekki hafa keypt hlutabréfin, eða þá gefið lægra verð fyrir þau, og þar af leiðandi ekki orðið fyrir tjóni, hefði útboð farið fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1996. Um hvorugt er að sjálfsögðu ekkert hægt að fullyrða.
Þótt sala stefnda til almennings á hlutabréfum í DeCode hafi farið fram án útboðslýsingar samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1996 þykir ekki hægt að fallast á það, eins og staðan var á verðbréfamarkaði á þessum tíma, að sú sala teljist vera ólögmætur og saknæmur verknaður í skilningi almennu skaðabótareglunnar sem leitt hafi til tjóns stefnanda. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnanda.
Stefnandi er fatlaður maður og fötlun hans er af því tagi að hún hlýtur að skerða möguleika hans á að gera sér fulla grein fyrir aðstæðum á hverjum tíma. Aftur á móti er ekki ljóst hve mikil áhrif þessi skerðing getur haft á hæfileika hans til að taka skynsamlegar ákvarðanir enda verður slíkt mat ætíð bundið huglægum atriðum. Við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi mátti af og til heyra á mæli hans að hann gengur ekki heill til skógar. Frásögn hans var þó í fullu samhengi, þótt hann myndi eftir sumu en öðru ekki. Við yfirheyrslur kom ekkert fram sem benti til þess að vitsmunir stefnanda væru brenglaðir þótt þeir séu án efa skertir. Það má engu að síður telja að ljóst ætti að vera öllum sem samskipti eiga við stefnanda að hann er ekki með fulla heilsu og ástæða var fyrir starfsmenn stefnda að taka mið af því við ráðgjöf sína. Það er óupplýst hvort svo var gert eða ekki. Stefnandi lýsti því sjálfur fyrir dóminum að hann hafi viljað ígrunda vel og vandlega hvernig hann ávaxtaði það fé sem hann hafði til ráðstöfunar eftir fasteignakaupin. Upplýst í málinu að stefnandi dreifði fjárfestingum sínum nokkuð, hvort sem hann hefur gert það samkvæmt ráðgjöf stefnda eða að eigin hyggjuviti. Ekki er í sjálfu sér neitt óeðlilegt að sjá við þessar fjárfestingar. Þrátt fyrir fötlun stefnanda hlaut honum að vera ljóst sem öðrum að verðbréfaviðskipti eru þess eðlis að þau geta haft tap í för með sér jafnt sem ávinning. Víst er að það hafa margir þeir fengið að reyna, sem keyptu hlutabréf í DeCode á svipuðum tíma og stefnandi. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að ástæða þess að hann seldi hlutabréf sín í DeCode 25. febrúar hafi verið sú að hann hafi verið á þeim tíma smeykur og varð að skilja hann svo að hann væri hræddur um að hlutabréfin myndu lækka í verði. Má því telja að stefnanda hafi verið ljóst a.m.k. að einhver áhætta fylgdi hlutabréfakaupunum.
Stefnandi er þrátt fyrir fötlun sína bæði sjálfráða og fjárráða og ekkert liggur fyrir um að hann né aðrir hafi óskað breytinga á því eða telji þörf á að taka af honum þetta forræði. Það er upplýst að stefnandi átti í fasteignaviðskiptum eftir að hann varð fyrir því slysi sem leiddi til fötlunar hans. Ekki er upplýst hvort hann stóð einn í þeim viðskiptum eða naut aðstoðar við þau, en stefnandi er fjölskyldumaður eins og fyrr er greint frá. Bæði fyrir og eftir að stefnandi keypti hlutabréfin í DeCode 25. febrúar 2000 átti hann í nokkrum verðbréfaviðskiptum, þó ekki miklum, samkvæmt viðskiptayfirliti sem stafar frá stefnda. Þessi viðskipti verða ekki talin hafa verið það mikil að aðilar málsins skyldu gera með sér samning samkvæmt 17. gr. laga nr. 13/1996, sbr. og 6. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ekki er annað að sjá en þessi viðskipti hafi verið með eðlilegum hætti og ástæðulaust hafi verið fyrir stefnda að ráða frá þeim eða koma í veg fyrir þau, enda öðru ekki haldið fram af stefnanda.
Stefnandi hefur ekki getað upplýst hverjar upplýsingar og ráðgjöf hann fékk við þessi viðskipti. Hann nefndi þó nafn starfsmanns, en stefndi kveðst ekki hafa getað séð að starfsmaður með því nafni hafi unnið á sínum vegum. Ekki verður séð af þeim viðskiptum sem fram fóru fyrir og eftir hin umdeildu hlutabréfakaup að sérstaklega hafi skort á að stefndi fullnægði ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1996 um að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu beri að veita viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra, greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
Því er fyrr lýst að stefnandi keypti hinn 18. janúar 2000 hlutabréf í DeCode á genginu 49,000 fyrir kr. 6.364.810. Þau hlutabréf seldi stefnandi rúmlega mánuði seinna eða 21. febrúar 2000 á genginu 52,0000 fyrir kr. 6.608.314 og því með rúmlega 240 þúsund króna hagnaði eða um 6% á rúmum mánuði. Verður því ekki annað sagt en þessi viðskipti ein og sér hafi verið stefnanda hagstæð.
Ekki er upplýst hvers vegna stefnandi keypti síðan hlutabréf í sama fyrirtæki fjórum dögum seinna á hærra gengi eða á genginu 56,0000 fyrir kr. 4.948.548, en það eru kaupin sem skaðabótakrafa stefnanda er risin af. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði viljað kaupa hlutabréf í DeCode en kvaðst ekki muna hvers vegna vilji hans stóð til þess. Óumdeilt er að kaupin fóru fram símleiðis og segist stefnandi hafa spurt að því hvort nokkrir meinbugir væru á því að hann keypti hlutabréfin og þá átt við hvort því væri áhætta samfara. Sá starfsmaður stefnda sem varð fyrir svörum mundi ekki sérstaklega eftir samtalinu við stefnanda en kveðst munu hafa tjáð honum eins og öðrum að hér væri um áhættufjárfestingu að ræða.
Viðskipti þessi fara því þannig fram að stefnandi óskar ekki eftir ráðgjöf um það hvaða verðbréf hann skuli kaupa heldur setur fram ósk um að kaupa hlutabréf í ákveðnu fyrirtæki sem hann áður hafði keypt hlutabréf í. Með vísan til þess sem fyrr er sagt í dóminum um sölu sams konar hlutabréfa, á þeim tíma sem hún fór fram, verður ekki á það fallist að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta og saknæma athöfn eða athafnaleysi með sölu hlutabréfa í DeCode til stefnanda 25. febrúar 2000. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt leyfi frá 9. mars 2004. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hans, Hróbjarts Jónatanssonar hrl., kr. 430.000 auk virðisaukaskatts.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndi, Landsbanki Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hinriks Jónssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hans, kr. 430.000, auk virðisaukaskatts.