Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Föstudaginn 8. febrúar 2002. |
|
Nr. 46/2002. |
X(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Y og (Svala Thorlacius hrl.) Z(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Frestun.
Með dómi bæjarþings Reykjavíkur 4. nóvember 1971 var X dæmdur faðir Z sem var fædd á árinu 1970. Á árinu 2000 létu X og Z í té blóðsýni, sem að frumkvæði þess fyrrnefnda voru tekin til DNA rannsóknar á erlendri rannsóknarstofu. Samkvæmt niðurstöðu hennar 1. september 2000 gat X ekki verið faðir Z. Að fenginni heimild Hæstaréttar var málið endurupptekið í héraði 21. desember 2000. Af hálfu Z var óskað eftir því að héraðsdómari hlutaðist til um að afla nýrrar DNA rannsóknar og var þeirri ósk ekki andmælt af öðrum. Þann 9. maí 2001 var ákveðið að sérfræðingur við Retsmedisinsk Institut í Kaupmannahöfn myndi annast rannsóknina. Var málinu frestað þar til niðurstaða hennar lægi fyrir, en þó ekki lengur en til 15. janúar 2002. Þegar málið var tekið fyrir síðastagreindan dag greindi dómarinn frá því að ákveðið hefði verið að endurtaka DNA rannsóknina, sem myndi taka 4 til 6 vikur, en að því búnu yrði niðurstaða hennar send dóminum. Ákvað héraðsdómari að fresta málinu um ótiltekinn tíma af þessum sökum. X skaut úrskurði héraðsdóms um þetta til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar segir að réttur hvers manns til að fá skorið úr faðerni sínu sé meðal mikilvægustu og helgustu réttinda hans. Í ljósi þeirra hagsmuna, sem Z hafi fremur öðrum aðilum að málinu af niðurstöðu þess, geti engu varðar fyrir sóknaraðila þótt það verði nú enn að hvíla um nokkurra vikna skeið. Taldi Hæstiréttur rétt að málinu yrði frestað þó ekki lengur en til þingshalds, sem héraðsdómari tæki ákvörðun um og yrði háð í síðasta lagi 1. mars 2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2002, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var frestað þar til niðurstaða nánar tiltekinnar DNA rannsóknar lægi fyrir. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um frestun málsins, en til vara að fresturinn verði bundinn við tiltekinn dag. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaðar.
I.
Með dómi bæjarþings Reykjavíkur 4. nóvember 1971 var sóknaraðili dæmdur faðir varnaraðilans Z, fæddrar [...] 1970, sem er dóttir varnaraðila Y. Á árinu 2000 létu sóknaraðili og varnaraðilinn Z í té blóðsýni, sem að frumkvæði þess fyrrnefnda voru tekin til DNA rannsóknar á erlendri rannsóknarstofu. Samkvæmt niðurstöðu hennar 1. september 2000 getur sóknaraðili ekki verið faðir varnaraðilans Z. Að þessu fengnu leitaði sóknaraðili 27. september 2000 heimildar Hæstaréttar til að málið yrði tekið upp fyrir héraðsdómi og var hún veitt 15. nóvember sama árs.
Í samræmi við framangreint var málið endurupptekið í héraðsdómi Reykjavíkur 21. desember 2000 og gerðist þá varnaraðilinn Z aðili að því með samþykki upphaflegra aðila. Þegar málið var næst tekið fyrir 19. janúar 2001 lýsti varnaraðilinn Y því yfir að hún héldi við upphaflega kröfu sína um að sóknaraðili yrði dæmdur faðir dóttur hennar, en hann lýsti þá yfir að hann krefðist sýknu af þeirri kröfu. Af hálfu varnaraðilans Z var óskað eftir að héraðsdómari hlutaðist til um að afla nýrrar DNA rannsóknar og var þeirri ósk ekki andmælt af öðrum. Var fært til bókar að lögmenn varnaraðilanna legðu til að sú rannsókn yrði framkvæmd af nafngreindri stofnun í Bandaríkjunum, sem sérhæfi sig í rannsóknum vegna faðernismála, en það yrði þó lagt í mat sérfræðinga, sem héraðsdómari myndi leita til hér á landi, hvort þetta væri fullnægjandi kostur. Skyldi dómarinn hlutast til um að rannsóknin færi fram. Var málinu síðan frestað um ótiltekinn tíma uns niðurstaða hennar lægi fyrir. Með bréfi 22. janúar 2001 lýsti sóknaraðili því áliti að óheppilegt væri að umrædd stofnun annaðist rannsóknina, þar sem varnaraðilinn Z hafi um nokkra hríð verið í sambandi við forstöðumann hennar. Að fenginni þessari athugasemd fór héraðsdómari þess á leit 24. sama mánaðar við Gunnlaug Geirsson, prófessor í réttarlæknisfræði, að hann sæi um að DNA rannsóknin yrði gerð. Hann féllst á þá beiðni með bréfi 30. janúar 2001 og lýsti um leið þeirri skoðun sinni að rétt væri að taka blóðsýni á ný frá sóknaraðila og báðum varnaraðilum í þágu rannsóknarinnar. Tilgreindi hann í bréfinu þrjá sérfræðinga, sem hann kvaðst treysta til að annast rannsóknina, en mælti með þeim kosti að hún yrði falin þargreindum sérfræðingi við Retsmedisinsk Institut í Kaupmannahöfn. Héraðsdómari féllst 9. maí 2001 á að þessi sérfræðingur yrði fyrir valinu. Þetta tilkynnti dómarinn lögmönnum aðilanna sama dag og óskaði þá eftir að lögmennirnir hefðu milligöngu um að sóknaraðili og varnaraðilinn Y mættu til blóðsýnatöku hér á landi, en varnaraðilinn Z, sem þá var búsett á Englandi, fengi leiðbeiningar um þetta efni fyrir sitt leyti frá Gunnlaugi Geirssyni. Hann sendi henni umræddar leiðbeiningar 17. maí 2001.
Þegar málið var þessu næst tekið fyrir í héraði 6. nóvember 2001 hafði varnaraðilinn Z ekki enn látið í té blóðsýni samkvæmt áðursögðu, en lögmaður hennar greindi frá því að hún myndi gera það næsta dag og sýnið berast dönsku rannsóknarstofunni 12. sama mánaðar. Að ósk sóknaraðila var þá fært í þingbók að hann myndi aðeins fallast á að varnaraðilanum yrði veittur einn frestur til að afla þessara gagna, sem hún hafi sjálf óskað eftir. Héraðsdómari lýsti engri afstöðu til þessarar yfirlýsingar sóknaraðila, heldur frestaði hann málinu án nánari skýringar til 4. desember 2001. Í þinghaldi þann dag var upplýst að blóðsýni úr varnaraðilanum Z hafi borist dönsku rannsóknarstofunni og að talið væri að niðurstaða hennar myndi liggja fyrir eftir um 3 eða 4 vikur. Sóknaraðili mótmælti því að málinu yrði frestað frekar af þessum sökum og tók héraðsdómari afstöðu til ágreinings aðilanna um það efni með úrskurði, sem kveðinn var upp í sama þinghaldi. Með úrskurðinum var fallist á að málinu yrði frestað þar til niðurstaða rannsóknarinnar lægi fyrir, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. janúar 2002. Þeim úrskurði var ekki skotið til Hæstaréttar.
Þegar málið var enn tekið fyrir í héraði síðastnefndan dag greindi dómarinn frá því að samkvæmt upplýsingum Gunnlaugs Geirssonar hafi verið ákveðið að endurtaka DNA rannsóknina, sem myndi taka 4 til 6 vikur, en að því búnu yrði niðurstaða hennar send dóminum. Varnaraðilar kröfðust þess að málinu yrði enn frestað af þessum sökum, en því mótmælti sóknaraðili. Héraðsdómari kvað þá upp hinn kærða úrskurð, þar sem hann féllst á að fresta málinu um ótiltekinn tíma þar til niðurstaða rannsóknarinnar lægi fyrir.
II.
Eins og að framan greinir var sóknaraðili dæmdur faðir varnaraðilans Z með dómi bæjarþings Reykjavíkur 4. nóvember 1971. Hann hefur því verið faðir hennar að lögum í meira en 30 ár. Réttur hvers manns til að fá skorið úr faðerni sínu er meðal mikilvægustu og helgustu réttinda hans. Í ljósi þeirra hagsmuna, sem varnaraðilinn Z hefur fremur öðrum aðilum að málinu af niðurstöðu þess, getur engu varðað fyrir sóknaraðila þótt það verði nú enn að hvíla um nokkurra vikna skeið meðan beðið er niðurstöðu DNA rannsóknar, sem mun vera komin á lokastig. Að þessu virtu verður að fallast á niðurstöðu héraðsdómara um að taka til greina beiðni varnaraðila um frestun málsins. Þegar litið er á hinn bóginn til þeirra tafa, sem þegar hafa orðið á rekstri málsins og sóknaraðila verður að engu leyti kennt um, er óviðunandi annað en að frestinum sé markaður ákveðinn tími. Verður því fallist á varakröfu sóknaraðila þannig að málinu verði ekki frestað lengur en til þinghalds, sem héraðsdómari taki ákvörðun um og háð verði í síðasta lagi föstudaginn 1. mars nk.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur með þeirri breytingu að héraðsdómara ber að taka málið fyrir á dómþingi ekki síðar en föstudaginn 1. mars 2002.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2002.
Með úskurði uppkveðnum 4. desember sl. var fallist á að fresta máli þessu til dagsins í dag meðan beðið væri niðurstöðu DNA rannsóknar að beiðni sóknaraðilans Y. Þær upplýsingar hafa nú borist dóminum að rannsókn hefði verið framkvæmd einu sinni, en ákveðið hefði verið að endurtaka þá rannsókn af hálfu rannsóknaraðilans. Ekki liggja fyrir sérstakar skýringar um ástæður þessa. Upplýst er að viðbótar rannsókn muni taka 4-6 vikur. Þar sem niðurstaða þessarar DNA rannsóknar kann að hafa þýðingu fyrir úrslit málsins er það niðurstaða dómsins að veita umbeðinn frest þar til sú rannsóknar niðurstaða liggur fyrir.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er frestað þar til niðurstaða framangreindrar DNA rannsóknar liggur fyrir.