Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-179
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 5. ágúst 2018 leitar Hlynur Eyjólfsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. júní sama ár í málinu nr. 93/2018: Ákæruvaldið gegn Hlyni Eyjólfssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.
Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið læri brotaþola og stungið fingri í leggöng hennar þar sem hún lá sofandi og gat ekki spornað við verknaðinum. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fullnustu 12 mánaða hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur. Einn dómari skilaði sératkvæði þar sem hann lýsti sig sammála niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms sem sýknaði leyfisbeiðanda af því að hafa stungið fingri í leggöng brotaþola en sakfelldi hann að öðru leyti fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu, einkum 4. málsliðar hennar. Vísar leyfisbeiðandi til þess að Landsréttur hafi fellt allan vafa í málinu á hann og reist sakfellingu eingöngu á framburði brotaþola án frekari sönnunargagna. Þá gagnrýnir hann þá niðurstöðu Landsréttar að ekki hafi verið tilefni til að ætla að lyfjanotkun brotaþola hafi haft nokkur áhrif á skynjun hennar þegar atvik málsins gerðust. Loks telur leyfisbeiðandi það ganga gegn rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar að tveir dómarar geti hnekkt mati fjögurra dómara á sönnunargildi framburðar hans og brotaþola.
Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að meðferð þess fyrir Landsrétti hafi í nokkru verið áfátt, en ekki eru efni til að telja varhugaverða þá niðurstöðu Landsréttar að læknisrannsókn á brotaþola og öflun fjarskiptagagna úr síma hennar hefði engu breytt um sakarmat. Eru því ekki efni til að beita heimild 3. og 4. málsliðar 4. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Breytir engu að einn dómenda Landsréttar hafi greitt sératkvæði í málinu og lýst sig þar sammála niðurstöðu þriggja dómenda í héraði um sakarmat. Er beiðninni því hafnað.