Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 2016. |
|
Nr. 38/2016.
|
Hörður Hjartarson (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn handhafa veðskuldabréfs (enginn) |
Kærumál. Varnarþing.
H kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem ógildingarmáli hans gegn handhafa veðskuldabréfs var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að mál til ógildingar á veðskuldabréfi skyldi höfða í þeirri þinghá þar sem bréfinu var eða yrði þinglýst, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991. Bréfinu hafði upphaflega verið þinglýst á eign í Reykjavík árið 1988, en flutt yfir á fasteign í Garðabæ tveimur árum síðar. Samkvæmt þessu bar að höfða málið í þinghá Héraðsdóms Reykjaness, en í henni væri eignin sem veðskuldabréfið var þinglýst á. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá héraðsdómi því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2009, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur handhafa veðskuldabréfs var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Í kæru kemur fram að lögmanni sóknaraðila hafi borist vitneskja um hinn kærða úrskurð 28. desember 2015 og eru ekki efni til að miða við annað en að svo hafi verið. Barst kæran því innan lögbundins kærufrests, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991 skal höfða mál til ógildingar á veðskuldabréfi í þeirri þinghá þar sem því var eða yrði þinglýst. Veðskuldabréfi því, sem um ræðir í málinu, var þinglýst 26. júlí 1988 hjá Borgarfógetaembættinu í Reykjavík á tilgreinda fasteign að Stigahlíð 35 í Reykjavík. Hinn 23. október 1990 var bréfinu síðan þinglýst á fasteignina Naustahlein 7 í Garðabæ og fyrrnefnda fasteignin jafnframt leyst undan veðbandi. Samkvæmt þessu ber að höfða málið í þinghá Héraðsdóms Reykjaness, en í henni er eignin sem veðskuldabréfinu var þinglýst á svo sem rakið hefur verið, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og reglugerð nr. 395/1998 um dómþinghár og þingstaði, eins og henni var breytt með með reglugerð nr. 1109/2010. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2015.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. nóvember sl. er höfðað af Herði Hjartarsyni, Hraunvangi 7, Hafnarfirði gegn handhafa veðskuldabréfs með stefnu útgefinni 2. október 2015. Stefnan var birt í Lögbirtingarblaðinu 12. október sl.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi veðskuldabréf upphaflega að fjárhæð 850.000 krónur sem útgefið var af Herði Harðarsyni til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 25. júlí 1988.
Stefnandi segir að veðskuldabréfið upphaflega hafa hvílt á 2. veðrétti með uppfærslurétti á fasteigninni nr. 7 við Nautahlein í Garðabæ, fastanúmer 207-1960 sem sé þinglýst eign hans. Lánið sem átt hafi að endurgreiða með 48 afborgunum á eins mánaða fresti í fyrsta sinn 5. september 1988 sé að fullu greitt. Bréfið hafi í kjölfarið verið afhent skuldara en það hafi týnst og ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit. Þar sem ekki sé mögulegt að fá veðskuldabréfið afmáð af fasteign þeirri sem það hvílir á án frumrits þess eða ógildingardóms sé honum nauðsynlegt að fá bréfið ógilt með dómi.
Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til 120. gr., og 121. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um stefnufrest vísast til 3. mgr. 91. gr. sömu laga.
II
Ljósrit af veðskuldabréfi því sem lýst er í dómkröfum málsins var lagt fram við þingfestingu. Af gögnum málsins má ráða að bréfið hvíldi upphaflega á fasteigninni nr. 35 við Stigahlíð í Reykjavík en var flutt þaðan á árinu 1990 yfir á nefnda fasteign við Naustahlein í Garðabæ. Stefna hefur verið gefin út og birt í Lögbirtingablaðinu skv. ákvæðum 3. mgr. 121. gr. laga nr. 91/1991. Enginn sótti þing til að mótmæla ógildingarkröfum stefnanda og ber því með vísan til 4. mgr. nefndrar 121. gr., að taka kröfu stefnanda til greina nema gallar á málatilbúnaði stefnanda leiði til frávísunar málsins.
Að framan er þess getið að veðskuldabréf það sem stefnandi krefst ógildingar á hvílir nú á 2. veðrétti með uppfærslurétti á fasteigninni nr. 7 við Naustahlein í Garðabæ.
Í 2. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að mál til ógildingar á veðskuldabréfi skuli höfðað í þeirri þinghá þar sem því var eða yrði þinglýst. Garðabær er í umdæmi Héraðsdóms Reykjaness og skal því höfða mál til ógildingar á veðskuldabréfi sem hvílir á fasteign í því bæjarfélagi fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Samkvæmt framanrituðu er mál þetta höfðað á röngu varnarþingi og ber að vísa því frá dómi.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.