Hæstiréttur íslands
Mál nr. 378/2004
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Ráðningarsamningur
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
Nr. 378/2004. |
Heilbrigðisstofnun Austurlands (Bjarni G. Björgvinsson hdl.) gegn Þórhalli Þórhallssyni (Guðni Á. Haraldsson hrl.) og gagnsök |
Opinberir starfsmenn. Ráðningarsamningur.
Þ var ráðinn til starfa hjá H með ráðningarsamningi frá 1. ágúst 2003 þar sem kveðið var á um þriggja mánaða uppsagnarfrest en tekið fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi þó vera einn mánuður fyrstu þrjá mánuði í starfi. Þ var sagt upp starfi 15. október. Talið var með vísan til ráðningarsamningsins og fyrri dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum að H hafi verið uppsögnin heimil þar sem hún hafi átt sér stað á reynslutíma en á því tímabili sé hvorum aðila um sig, eðli máls samkvæmt, heimilt að segja upp samningi án þess að tilgreina ástæður. Breyti engu um þá niðurstöðu þótt H hafi tiltekið sérstakar ástæður fyrir uppsögninni, sem að loknum reynslutíma kynnu að hafa fallið undir ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996. Ekki hafi heldur verið skylt að gefa Þ kost á að tjá sig áður en til uppsagnar kom .
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2004 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 4. nóvember 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 1.205.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2004 til greiðsludags, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með skriflegum ráðningarsamningi á stöðluðu formi réði stjórn aðaláfrýjanda gagnáfrýjanda til starfa 11. júlí 2003 á tæknisviði stofnunarinnar og skyldi ráðningartíminn vera frá 1. ágúst sama árs. Í samningnum kom fram að um starfskjör færi eftir kjarasamningi Félags rafeindavirkja og að laun skyldu greidd samkvæmt launatöflu Rafiðnaðarsambands Íslands og fjármálaráðuneytisins. Þá sagði í samningnum: „Uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings er þrír mánuðir. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður fyrstu þrjá mánuði í starfi.“ Tekið var og fram að um réttindi og skyldur starfsmanns færi eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skyldu þau liggja til grundvallar gerð samningsins auk nefnds kjarasamnings. Í lok ráðningarsamningsins var sett sérákvæði um greiðslur til gagnáfrýjanda auk grunnlauna. Að síðustu var tekið fram að launaliður samningsins yrði tekinn til endurskoðunar eftir þriggja mánaða starf gagnáfrýjanda og að sérstakt samkomulag væri gert um flutningsstyrk.
Svo sem í héraðsdómi greinir sendi framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda gagnáfrýjanda bréf 15. október 2003 þar sem sagði að í ljós hefði komið að verkefni þau er starfinu fylgdu væru að verulegum hluta þess eðlis að þekking hans og starfsreynsla kæmu ekki að haldi. Því hefði verið ákveðið að framlengja ekki samning hans um fast starf er hefðbundnum reynslutíma, þremur mánuðum, lyki 31. október. Lögmaður gagnáfrýjanda svaraði bréfinu fyrir hans hönd 6. nóvember sama árs og taldi að um ólögmæta uppsögn úr starfi væri að ræða. Lýtur ágreiningur málsaðila að þessu. Heldur aðaláfrýjandi því fram að ákvæði 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi ekki þegar starfsmanni er sagt upp á reynslutíma samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 41. gr. laganna. Gagnáfrýjandi heldur því aftur á móti fram að sé starfsmanni sagt upp störfum vegna einhvers þess, er greinir í 21. gr. laganna, verði uppsögnin að fara eftir 44. gr. þeirra, hvort sem hann sé á reynslutíma eða ekki, eins og héraðsdómur hafi fallist á.
II.
Ákvæði VIII. og IX. kafla laga nr. 70/1996 fjalla um ráðningu í starf og starfslok. Í 41. gr. laganna segir að starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Skuli sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi.
Reynslutími er hvorki skilgreindur í lögunum né lögskýringargögnum. Í kjarasamningi þeim, sem vísað er til í ráðningarsamningi aðila, segir í 8. kafla að ráðningartími skuli að jafnaði hefjast með þriggja mánaða reynslutíma. Í tveimur dómum Hæstaréttar hefur á þetta hugtak reynt. Í dómi réttarins í máli nr. 296/1999, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4956, voru sambærileg ákvæði í ráðningarsamningi og hér um ræðir. Var því slegið föstu að starfsmanninum hafi mátt vera fyllilega ljóst að samningurinn gerði ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma. Ekki þótti sýnt fram á að ákvæði 44. gr. laga nr. 70/1996 ætti við og var því ekki talið að skylt hafi verið að veita starfsmanninum kost á að tjá sig áður en til uppsagnarinnar kom, sbr. síðari málslið 1. mgr. 44. gr. Bæri og að líta til þess að uppsögnin fór fram á reynslutíma, en samkvæmt eðli máls hljóti svigrúm aðila til uppsagnar að vera þá rýmra en ella. Var því talið að uppsögn starfsmannsins úr starfi á reynslutíma með eins mánaðar uppsagnarfresti, án annars rökstuðnings en þess að uppsögnin væri gerð á reynslutíma, væri lögmæt samkvæmt 43. gr. laganna. Í dómi réttarins í máli nr. 131/2001, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3756, voru og sambærileg ákvæði í ráðningarsamningi og hér koma til álita. Samkvæmt ráðningarsamningi átti gagnkvæmur uppsagnarfrestur að vera einn mánuður á þriggja mánaða reynslutíma starfsmannsins í starfi og skyldi uppsögn miðast við mánaðamót. Að þeim reynslutíma loknum átti uppsagnarfresturinn að vera þrír mánuðir. Því var slegið föstu að uppsögnin hefði farið fram innan þess tíma sem starfsmaðurinn var ráðinn til reynslu og var honum því réttilega sagt upp með eins mánaðar fyrirvara.
Með hliðsjón af þessum fordæmum og orðalagi ráðningarsamnings aðila er ljóst að hann gerði ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma. Þennan reynslutíma nota bæði vinnuveitandi og starfsmaður til þess að athuga alla þætti starfsins, faglega þætti sem aðra. Eðli máls samkvæmt er hvorum aðila um sig á reynslutíma heimilt að segja ráðningarsamningi upp með samningsbundnum uppsagnarfresti án þess að tilgreina ástæður. Uppsögn gagnáfrýjanda úr starfi fór fram á þeim tíma, með samningsbundnum uppsagnarfresti. Engu getur hér breytt að aðaláfrýjandi hafi tiltekið sérstakar ástæður fyrir uppsögninni, sem að loknum reynslutíma kynnu að hafa fallið undir ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996. Var heldur ekki skylt að gefa gagnáfrýjanda kost á að tjá sig áður en til uppsagnar kom, sbr. síðari málslið 1. mgr. 44. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu telst uppsögn gagnáfrýjanda úr starfi hafa verið lögmæt. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda, en rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Heilbrigðisstofnun Austurlands, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Þórhalls Þórhallssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 11. júní 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. maí sl., er höfðað 8. janúar 2004.
Stefnandi er Þórhallur Þórhallsson[...], Jöklafold 43, Reykjavík.
Stefndi er Heilbrigðisstofnun Austurlands, [...], Strandgötu 31, Eskifirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.205.385 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
I.
Í júní 2003 auglýsti stefndi laust starf rafeindavirkja með víðtæka þekkingu á Microsoft lausnum svo og þekkingu á Linux og routerum. Tekið var fram að starfsmaðurinn þyrfti að geta annast daglegan rekstur kerfisins, sinnt notendaþjónustu og kennslu en einnig hug- og vélbúnaðarviðhaldi ásamt viðgerðum á tækjum og tólum t.d. símkerfum.
Stefnandi sótti um starfið. Í ferilsskrá hans kemur m.a. fram að hann sé lærður símvirki og rafeindavirkjameistari. Þá hafi hann sótt hin ýmsu námskeið, þ.m.t. námskeið í UNIX á vegum Háskóla Íslands. Hann hafi unnið sem sölu- og þjónustustjóri hjá Kjaran skrifstofubúnaði árin 1980-1984 og sem deildarstjóri hjá tæknideild Pennans 1985-1987. Hann hafi verið framkvæmdastjóri Tölvuvara 1987-1989 og sölustjóri hjá ACO ehf. 1990-1992. Frá árinu 1992 til loka árs 2001 hafi hann starfaði hjá Heimilistækjum hf. þar sem hann hafi unnið m.a. við tölvukerfi Eignarhaldsfélags O. Johnson og Kaaber og 12 verslana víðs vegar um landið. Þá hafi hann einnig sinnt tölvuviðgerðum fyrir hin ýmsu fyrirtæki.
Með ráðningarsamningi dags. 11. júlí 2003 var stefnandi ráðinn til starfa á tæknisviði stefnda. Samkvæmt ráðningarsamningnum, sem er á stöðluðu eyðublaði, var stöðuhlutfallið 100% og ráðningin ótímabundin frá og með 1. ágúst 2003. Kveðið er á um að uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings sé þrír mánuðir. Þó skuli uppsagnarfrestur fyrstu þrjá mánuðina vera einn mánuður. Um réttindi og skyldur stefnanda skuli fara samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Í samningnum kemur fram að um starfskjör gildi kjarasamningur Félags rafeindavirkja og laun fari eftir kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og fjármálaráðherra. Stéttarfélag er tilgreint Rafiðnaðarsamband Íslands. Grunnlaun séu 200.966 á mánuði. Til viðbótar fái stefnandi greiddar 20 klukkustundir í fasta yfirvinnu á mánuði eða kr. 41.741. Þá fái stefnandi greiddar kr. 10.000 á mánuði í önnur laun. Einnig að hann skuli fá greidda dagpeninga kr. 61.600 á mánuði. Samtals námu mánaðarlaun kr. 314.307. Til viðbótar skuli greiðast 13.04% orlof ofan á laun og af launum greiðast 6% lífeyrisframlag.
Stefnandi flutti heimili sitt frá Reykjavík og hóf störf í byrjun ágúst 2003 en hann hafði íbúðaskipti við íbúðareiganda á Egilsstöðum.
Áður en stefnandi hóf störf starfaði hann um tíma, eða í eina viku í byrjun júlí, hjá stefnda. Framkvæmdastjóri stefnda kveður þá þegar hafa átt sér stað umræðu um hæfni stefnanda en að ráði hafi orðið að hann starfaði áfram á reynslutíma og látið yrði reyna á hæfni hans. Heldur stefndi því fram að fljótlega hafi komið í ljós að stefnandi réð ekki við alla þætti starfs þess sem hann hafði verið ráðinn til og að eftir nokkurra vikna starf hafi orðið ljóst að þekking stefnanda náði ekki yfir nema hluta þeirra verkefna sem í starfinu fólust og sóst hafði verið eftir. Gerð hafi verið ítarleg skilgreining á þeim verkefnum sem fyrir lágu og reyndur aðili fenginn til að fara yfir þann lista með stefnanda. Niðurstaðan hafi orðið að stefnanda brysti nauðsynlega þekkingu til að rækja starfann. Hafi stefnandi kvartað við framkvæmdastjóra stefnda yfir því að þekking hans væri sannreynd á þennan hátt.
Stefnandi kannast hins vegar ekki við að umræða hafi átt sér um hæfni hans. Honum hafi líkað starfið mjög vel og fundist hann komast betur og betur inn í kerfið. Hann hafi aldrei fengið kvörtun og ekki vitað annað en að starfsfólk væri mjög ánægt með hann.
Með bréfi dagsettu 15. október 2003 undirrituðu af framkvæmdastjóra stefnda, Einari Rafni Haraldssyni, sem afhent var stefnanda 17. október s.m., var honum sagt upp störfum. Í bréfinu segir m.a.: Í ljós hefur komið að verkefni þau er starfinu fylgja eru að verulegum hluta þess eðlis að þekking þín og starfsreynsla kemur ekki að haldi. Því hef ég ákveðið að framlengja ekki samning þinn um fast starf er hefðbundnum reynslutíma, þremur mánuðum, lýkur þann 31. október n.k. Ég vænti þess að þú sinnir störfum til þess tíma, en kjósir þú að láta strax af störfum mun ég leysa þig frá samningi”. Stefnandi kveðst hafa mótmælt uppsögninni og m.a. því að hann væri með tímabundinn ráðningarsamning. Hinn 6. nóvember s.á. sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem uppsögninni var mótmælt sem ólögmætri og m.a. vísað til þess að þar sem uppsögnin hafi átt rót sína að rekja til atriða sem um geti í 21. gr. laga nr. 70/1996 þá hafi stefnanda borið andmælaréttur. Stefnandi hafi átt rétt á að bæta ráð sitt og hann hafi auk þess átt rétt á áminningu. Óskað var eftir viðræðum um bætur til handa stefnanda.
Með bréfi framkvæmdastjóra stefnda dags. 17. nóvember 2003 var því mótmælt að um ólögmæta uppsögn væri að ræða. Stefnda hafi ekki verið sagt upp vegna ávirðinga í starfi og því hafi hann ekki fengið formlega áminningu. Í bréfinu segir: Fljótlega var ljóst að álitamál var hvort hann gæti sinnt þeim verkum, er starf það sem hann var ráðinn til, innifól. Þá er greint frá því að fram hafi farið úttekt á starfi stefnanda og niðurstaðan hafi orðið sú að hann hefði ekki þá þekkingu er þyrfti til þess að gegna starfinu.
Hinn 10. desember 2003 var stefnda send bótakrafa og skorað á hann að greiða kröfuna fyrir 20. desember sama ár. Kröfunni var hafnað.
Stefnandi gerir þannig grein fyrir endanlegri bótakröfu sinni að hann hafi hafið störf hjá Menntafélaginu ehf., 1. febrúar 2004. Laun hans fyrir febrúar og mars það ár hafi numið kr. 200.000 á mánuði en hafi hækkað í 304.000 1. apríl s.á. Þá hafi stefnandi fengið atvinnuleysisbætur í skamman tíma og séu þær dregnar frá bótakröfu hans. Að lokum hafi hann orðið af íbúð sinni í fimm mánuði sem hann hefði getað leigt út fyrir a.m.k. kr. 70.000 á mánuði.
Krafan sundurliðast þannig:
1. Töpuð laun fyrir des. 2003 kr. 314.307
2. Töpuð laun fyrir jan. 2004 kr. 314.307
3. Töpuð laun fyrir feb. 2004 kr. 114.307
4. Töpuð laun fyrir mars 2004 kr. 114.307
5. Greiddar atvinnuleysisbætur kr. 127.444
6. Töpuð afnot af íbúð kr. 350.000
7. Flutningskostnaður kr. 13.819
8. 13.04% orlof af 1.-4. tl. kr. 111.782
Samtals kr. 1.205.385
II.
Stefnandi byggir á að komist hafi á gildur og gagnkvæmur ótímabundinn ráðningarsamningur á milli hans og stefnda, sem sé ríkisstofnun, sbr. 18. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Stefnandi hafi að fullu staðið við samninginn með því að inna af hendi vinnuframlag sitt. Þá hafi hann haft þá þekkingu til starfsins er hann greindi stefnda frá í starfsumsókn sinni. Stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi 1. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og því hafi farið um réttindi hans og skyldur skv. þeim lögum, sbr. ákvæði í ráðningarsamningi þar um.
Stefnandi byggir einnig á að stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum vegna þess hvernig hann hafi gegnt starfi sínu, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Það að stefnandi hafi ekki gegnt starfinu með fullnægjandi hætti sé einungis mat forsvarsmanna stefnda og hafi stefnandi átt rétt á að tjá sig um málið áður en ákvörðun um uppsögn var tekin á þeim forsendum. Með því að stefnandi hafi ekki fengið að tjá sig hafi verið brotinn á honum andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hann því ekki fengið tækifæri til að tjá sig áður en svo íþyngjandi ákvörðun var tekin af stjórn stefnda. Þá hafi borið að veita stefnanda skriflega áminningu sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996 og gefa honum þannig kost á að bæta ráð sitt.
Þá hafi stefndi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að grípa ekki til þeirra vægustu úrræða sem hann átti kost á en stefndi hefði getað flutt stefnanda til í starfi í stað þess að reka hann. Sérstaklega hefði verið ástæða til þess í ljósi þess að stefnda var kunnugt um að stefnandi hafði flutt heimili sitt á Austurland til þess að geta gegnt starfi sínu.
Uppsögn stefnda samkvæmt framanröktu hafi verið ólögmæt og því eigi stefndi, með vísan til almennra reglna skaðabótaréttar innan samninga, að bæta honum tjón hans. Er um það einnig vísað til 32. gr. laga nr. 70/1996.
III.
Stefndi byggir á að stefnanda hafi ekki haft nægjanlega þekkingu til að rækja starf það sem hann hafði verið ráðinn til. Áminning á grundvelli 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 hafi ekki komið til greina þar sem að ekki hefði verið unnt að ráða bót á þekkingarskorti stefnanda með áminningu, enda eigi þær greinar ekki við í málinu. Þá hafi verið útilokað fyrir stefnanda að bæta úr þekkingarskorti sínum innan raunhæfra tímamarka. Ákvæði ráðningarsamninga um reynslutíma sé sprottið af þeirri nauðsyn að unnt sé að segja starfsmanni upp störfum á reynslutíma án sérstakra skýringa uppfylli hann ekki þær faglegu kröfur sem til hans eru gerðar eða ætla mátti að hann uppfyllti.
Stefndi mótmælir því að á hafi komist gildur og ótímabundinn ráðningarsamningur á milli stefnanda og stefnda. Ákvæði ráðningarsamningsins um að hann sé ótímabundinn komi ekki til framkvæmda fyrr en að þriggja mánaða reynslutíma loknum.
Í 41. gr. laga nr. 70/1996 sé lögfest að starfsmenn ríkisins skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti að loknum reynslutíma. Ekki sé tekið fram hversu langur reynslutími skuli vera heldur sé það eftirlátið forstöðumönnum ríkisstofnana að ákveða það. Það felist í ráðningu á reynslutíma að hvorum aðila um sig sé heimilt að segja samningnum upp með eins mánaðar fyrirvara og þurfi þá ekki að tilgreina ástæður uppsagnarinnar sérstaklega.
Í 43. gr. laga nr. 70/1996 sé forstöðumanni stofnunar veittur réttur til þess að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Ekki sé samkvæmt ákvæðinu skylda að tilgreina ástæður uppsagnarinnar, en fari starfsmaður fram á að fá þær þá beri forstöðumanni að gera grein fyrir þeim skv. ákvæðum 2. mgr. 44. gr. laganna. Stefnandi hafi ekki óskað eftir skriflegum rökstuðningi verði því að álíta að hann hafi metið ástæður forstöðumanns stefnda fyrir uppsögninni, sem honum hafi verið fullkunnugt um hverjar voru, nægar.
Stefndi mótmælir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin og vísar til ákvæða 43. gr. laga nr. 70/1996 og ráðningarsamnings um reynslutíma. Þá vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 296/1999 þar sem staðfest hafi verið að ekki væri þörf á að rökstyðja uppsögn á reynslutíma.
Samkvæmt framangreindu hafi skaðabótaskylda ekki orðið til þar sem enginn bótaskyldur verknaður hafi átt sér stað af stefnda hálfu og því beri að hafna öllum kröfum stefnanda.
Íbúðaskipti stefnanda við fasteignareiganda á Egilsstöðum sé stefnda óviðkomandi og geti stefnandi því ekki gert kröfur á hendur stefnda vegna afnotamissis. Því beri að sýkna stefnda af bótakröfu vegna afnotamissis þar sem bótagrundvöllur sé ekki fyrir hendi. En jafnvel þó bótagrundvöllur væri fyrir hendi bæri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. nr. 91/1991.
IV.
Auk stefnanda og Einars Rafn Haraldssonar framkvæmdastjóra stefnda gáfu skýrslur fyrir dóminum sem vitni Guðmundur Hólm Guðmundsson forveri stefnda í starfi, Kjartan Einarsson tæknistjóri sem var yfirmaður stefnanda og Einar Þór Einarsson, sem starfaði tímabundið við Heilbrigðisstofnunina og m.a. við að setja stefnanda inn í starfið, en tveir þeir síðarnefndu eru synir framkvæmdastjórans.
V.
Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda með ótímabundnum ráðningarsamningi frá og með 1. ágúst 2003. Um réttindi og skyldur stefnanda skyldi fara eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir en fyrstu þrjá mánuðina í starfi einn mánuður. Með bréfi dagsettu 15. október s.á. tilkynnti stefndi stefnanda að hann hefði ákveðið að framlengja ekki samning stefnanda um fast starf er hefðbundnum reynslutíma, þremur mánuðum, lyki þann 31. sama mánaðar. Ástæður eru tilgreindar þær að í ljós hafi komið að verkefni þau sem starfinu fylgdu væru að verulegum hluta þess eðlis að þekking stefnanda og starfsreynsla kæmi ekki að haldi. Fyrir liggur að stefnandi var ekki áminntur í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 áður en honum var sagt upp störfum.
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 segir að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum færi á að bæta ráð sitt, áður en honum er sagt upp störfum, ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Áður en áminning er veitt skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt. Ástæður þær sem 21. gr. laga nr. 70/1996 tilgreinir og leiða skulu til skriflegrar áminningar varða allar starfsmanninn sjálfan en þær eru m.a. óstundvísi eða önnur vanræksla, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns, vankunnátta eða óvandvirkni í starfi og að hafa ekki náð fullnægjandi árangri í starfi.
Samkvæmt orðalagi uppsagnarbréfsins er ljóst að stefndi sagði stefnanda upp störfum vegna þess að hann hafði ekki kunnáttu til að gegna verulegum hluta þeirra verkefna er heyrðu undir starfa þann sem hann hafði verið ráðinn til, þ.e. ástæða uppsagnarinnar var vankunnátta stefnanda. Uppsögnin átti því rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laga nr. 70/1996. Bar því samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 að veita stefnanda áminningu samkvæmt 21. gr. laganna áður en til uppsagnarinnar kom og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. En áður átti í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bein fyrirmæli 21. gr. laga nr. 70/1996 að veita stefnanda kost á að tjá sig um áminninguna, ef það var unnt. Engu breytir um þessa skyldu hvort stefnandi var í raun vanhæfur til að gegna verulegum hluta þeirra verkefna er undir starfann heyrðu. Stefnandi átti skýlausan rétt á að tjá sig og gæta þannig lögmætra hagsmuna sinna og hljóta síðan skriflega áminningu. En ekki er fallist á það með stefnda, að ákvæði 44. gr. laga nr. 70/1996 eigi ekki við, þegar starfsmaður er á svokölluðum reynslutíma, enda sér þess hvergi stoð í lögunum eða lögskýringargögnum.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að uppsögn stefnanda úr starfi hjá stefnda með bréfi dagsettu 15. október 2003 hafi verið ólögmæt og leiði til bótaábyrgðar stefnda.
Stefnandi mótmælir þeirri staðhæfingu framkvæmdastjóra stefnda að umræða um hæfni hans hafi átt sér stað áður en hann kom til starfa í ágústbyrjun og að ráði hafi orðið að látið yrði reyna á hæfni hans á reynslutíma. Þykir því verða við það að miða, þrátt fyrir gagnkvæman uppsagnarfrest, að stefnandi hafi mátt reikna með því að hann mundi gegna starfinu til lengri tíma enda flutti hann heimili sitt frá Reykjavík til Egilsstaða til að geta gegnt því.
Stefndi greidd stefnanda laun fyrir nóvembermánuð 2003 en stefnandi var án atvinnu og því launalaus desembermánuð það ár og janúar 2004 en fékk atvinnuleysisbætur. Þá voru laun hans í nýju starfi mánuðina febrúar og mars 2004 lægri en hann hefði haft hjá stefnda, en eftir það sambærileg. Kveður stefnandi tap sitt vegna uppsagnarinnar hafa verið 841.566 krónur sem er samtala launa þeirra sem hann hefði haft hjá stefnda í desember 2003 og janúar 2004 og mismunur launa þeirra sem hann fékk í nýju starfi í febrúar og mars 2004 og launa þeirra sem hann hefði fengið hjá stefnda að viðbættu orlofi en frádregnum atvinnuleysisbótum. Þá kveðst stefnandi hafa orðið fyrir tjóni vegna tapaðra afnota af íbúð en stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir beinu fjártjóni vegna þess. Þá þykir stefnandi ekki heldur hafa gert fullnægjandi grein fyrir því að hann hafi orðið fyrir tapi vegna flutnings en á það er að líta að í ráðningarsamningi aðila er vísað til þess að sérstakt samkomulag sé gert um flutningsstyrk. Þá kom krafan fyrst fram þegar stefnandi gerði breytingu á dómkröfum sínum eftir framlagningu greinargerðar stefnda.
Starf það sem stefnandi var ráðinn til var margþætt og flókið. Hefði því verið brýn ástæða fyrir stefnda að láta gera ítarlega starfslýsingu fyrir starfið áður en það var auglýst. Nákvæm starfslýsing var hins vegar ekki gerð fyrr en eftir að stefnandi hafði tekið við starfinu. Þykir það því ekki verða virt stefnda til málsbóta, sem leitt gætu til lækkunar bóta til stefnanda, að stefndi hafi eftir ráðningu komist að raun um að stefnandi var ekki eins vel til starfans fallinn og stefndi hafði talið.
Eftir atvikum þykir því rétt að miða bætur til stefnanda við laun þau er hann varð af vegna hinnar ólögmætu uppsagnar en ekki þykir unnt að taka jafnframt mið af töpuðum afnotum af íbúð og flutningskostnaði samanber það sem að framan greinir. Samkvæmt því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 841.566 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað. Hefur þá ekki verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Heilbrigðisstofnun Austurlands, greiði stefnanda, Þórhalli Þórhallssyni, 841.566 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.