Hæstiréttur íslands
Mál nr. 144/2005
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Galli
- Afsláttur
- Matsgerð
- Stöðvunarréttur
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 144/2005. |
Húsasmiðjan hf. (Tómas Jónsson hrl.) gegn Róbert Grétari Gunnarssyni og Ester Christinu Gunnarsson (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Fasteignakaup. Galli. Afsláttur. Matsgerð. Stöðvunarréttur.
R og E keyptu íbúð af H sem H hafði leyst til sín vegna vanskila verktaka. R skoðaði íbúðina tvisvar fyrir kaupin en ekki hafði verið búið í íbúðinni. H krafði R og E um greiðslu eftirstöðva kaupverðs en þau kröfðust sýknu þar sem þau töldu sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar á grundvelli matsgerðar vegna galla á íbúðinni. Var ekki talið að boðun til matsfundar hafi verið í andstöðu við 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála, þannig að ekki yrði á matsgerðinni byggt, líkt og H hélt fram. Þá var ekki talið að H hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína og var fallist á með héraðsdómi að ekki væru skilyrði til að leggja á H skaðabótaábyrgð vegna galla á hinni seldu eign. R og E voru hins vegar talin eiga rétt á afslætti vegna rispaðra innréttinga og hurða og galla í lakkáferð, en öðrum afsláttarkröfum þeirra var hafnað. Þar sem þessi gagnkrafa R og E var hærri en aðalkrafa H og ekki urðu reiknaðir dráttarvextir af aðalkröfunni samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, var héraðsdómur staðfestur um sýknu R og E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2005. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 618.966 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndu keyptu íbúð í fjöleignarhúsinu Básbryggju 19 í Reykjavík af áfrýjanda með kaupsamningi 6. maí 2002. Í söluyfirliti kemur fram að húsið hafi verið byggt á árinu 2000. Þá verður ráðið af gögnum málsins að umrædd íbúð komst í eigu áfrýjanda við það að hann leysti hana til sín í ársbyrjun 2001 vegna vanskila verktaka þess er húsið reisti. Hafði áfrýjandi áður selt íbúðina öðrum en stefndu en þau kaup gengu til baka. Íbúðin mun hafa verið seld fullbúin en án gólfefna. Ágreiningslaust er að ekki hafði verið búið í íbúðinni fyrir kaup aðila. Stefndi Róbert Grétar mun hafa skoðað íbúðina tvisvar áður en kaupsamningur var undirritaður.
Kaupverð íbúðarinnar var 16.400.000 krónur. Skyldu 7.118.966 krónur af því greiddar í peningum með fjórum afborgunum, hinni síðustu 1. nóvember 2002 að fjárhæð 1.118.966 krónur. Stefndu greiddu 500.000 krónur upp í þá afborgun 22. janúar 2003. Höfðaði áfrýjandi mál þetta til greiðslu eftirstöðvanna með stefnu 24. september 2003. Ekki er ágreiningur um að þessi hluti kaupverðsins hefur ekki verið greiddur en stefndu krefjast sýknu þar sem þau telja sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar er nemi að minnsta kosti stefnufjárhæðinni. Telja þau sig eiga kröfu til skaðabóta eða afsláttar úr hendi áfrýjanda vegna galla á íbúðinni og reisa þau kröfu sína á matsgerð dómkvadds manns 19. mars 2004.
II.
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi ekki tekist að leiða í ljós að neinir þeir gallar hafi verið á hinni seldu eign er gefi tilefni til skaðabóta eða afsláttar af kaupverði hennar. Telur hann að slíkir hnökrar séu á framkvæmd mats hins dómkvadda manns að ekki verði byggt á matsgerðinni. Í henni kemur fram að matsfundur hafi verið haldinn á hinni seldu eign 4. mars 2004 að viðstöddum lögmönnum málsaðila og hafi vettvangsskoðun farið fram í lok fundarins. Þá segir í matsgerðinni að matsmaður hafi aftur farið á vettvang 10. mars 2004 ásamt nafngreindum fulltrúa matsbeiðanda. Hafi lögmönnum málaðila verið tilkynnt um það áður en þeir ekki óskað eftir að vera viðstaddir vettvangsskoðunina. Áfrýjandi telur að boðun til þessa matsfundar hafi verið ófullnægjandi. Þáverandi lögmaður hans hafi að vísu fengið óljós skilaboð um fundinn en tölvubréfi hans 10. mars 2004, sem að fyrirhuguðum fundi laut, hafi ekki verið svarað af hálfu matsmanns. Umrætt tölvubréf er svohljóðandi: „Ætlar þú að skoða Básbryggjuna á eftir? Mín ætlun er að fá bókað að matsmaður meti hvort hinir meintu gallar hafi verið sýnilegir við skoðun kaupenda. Ef þú ert samþykkur að bóka slíkt og meta samfara matsgerðinni þá samþykki ég skoðun í dag án þess að ég sé viðstaddur.“ Af tölvubréfi þessu er ljóst að lögmaðurinn hefur fengið boð um fundinn. Í bréfinu spurði hann matsmann ekki beint um tímasetningu fundarins, sem eðlilegt hefði verið ef það atriði var óljóst í fyrra fundarboði eins og áfrýjandi heldur fram, heldur hafði uppi ráðagerðir um bókun varðandi umfang matsins. Þegar þetta er virt verður ekki talið að boðun til matsfundar hafi verið í andstöðu við 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að ekki verði á matsgerðinni byggt.
Ekki verður talið að áfrýjandi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína og er fallist á það með héraðsdómi að ekki séu skilyrði til að leggja á hann skaðabótaábyrgð vegna galla á hinni seldu eign, enda urðu kaup aðila áður en lög nr. 40/2002 um fasteignakaup öðluðust gildi, sbr. 62. gr. laganna. Verður kröfu stefndu um greiðslu ætlaðs kostnaðar við hreingerningu íbúðarinnar hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Kemur þá til athugunar hvort stefndu eigi rétt á afslætti af kaupverði íbúðarinnar. Í ýmsum liðum matsgerðar kemur fram að matsmaður hafi staðreynt rispur og galla á lökkun innréttinga og hurða íbúðarinnar. Fyrir héraðsdómi bar matsmaður að þetta sæist vel „þegar maður fer að skoða þetta nánar, þetta blasir kannski ekki alveg við ef maður labbar um svona og horfir í kringum sig“. Einnig sagði hann: „...maður þarf að aðgæta nokkuð vel til þess að sjá það en strax og þú kemur að þessu og ert svona að horfa á flötinn þá sérðu þetta strax. En ekki þó að þú gangir um svona lauslega um íbúðina þá blasir þetta ekkert við þannig.“ Þegar þessi framburður matsmannsins er virtur, ásamt því að íbúðin var mjög óhrein og rykug þegar hún var sýnd og að hún var ný í þeim skilningi að aldrei hafði verið búið í henni verður að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að stefndu hafi ekki vanrækt skoðunarskyldu sína þótt þau yrðu ekki vör við þessa missmíð. Verður þá einnig að hafa í huga að fram kom í skýrslu forsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi að af hans hálfu hafi íbúðin aldrei verið skoðuð áður en kaup aðila gerðust. Er hann því ekki í stöðu til að draga í efa fullyrðingar stefndu um það að umræddir gallar hafi leynst við venjulega skoðun eins og íbúðin leit út áður en kaupin voru gerð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að stefndu eigi hvorki kröfu til afsláttar vegna staðsetningar tengla né vegna sprungna í austurvegg gangs íbúðarinnar.
Í matsgerðinni er einnig metinn kostnaður við að lagfæra hlykki á suðurvegg stofu, setja hitastilli á ofn þar, lækka niðurfall í þvottahúsi, skipta um falslista í geymslu og hurðarblað á stigagangi og loks lagfæra einangrun á svölum. Stefndu krefjast afsláttar vegna þessa. Ekkert í gögnum málsins gefur vísbendingu um hvort kaupendur hefðu átt að verða þessarar missmíðar vör við venjulega skoðun. Verða stefndu að bera hallann af því og verður afsláttarkröfu þeirra því hafnað að þessu leyti.
Samkvæmt framansögðu eiga stefndu rétt á afslætti vegna þess að innréttingar og hurðir íbúðarinnar voru rispaðar og lakkáferð gölluð. Samkvæmt matsgerð nemur viðgerðarkostnaður vegna þessara liða samtals 796.700 krónum. Þar af er áætlað að kostnaður af vinnu á byggingarstað verði 288.200 krónur, en krefjast má endurgreiðslu 60% af virðisaukaskatti af honum sem nemur 34.028 krónum. Þykir mega leggja mismuninn eða rúmar 762.000 krónur til grundvallar við ákvörðun afsláttar til stefndu. Þar sem þessi gagnkrafa er hærri en aðalkrafa áfrýjanda og ekki verða reiknaðir dráttarvextir af aðalkröfunni samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Húsasmiðjan hf., greiði stefndu, Róbert Grétari Gunnarssyni og Ester Christinu Gunnarsson, samtals 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2005.
Mál þetta var höfðað 13. nóvember 2003 og var dómtekið 17. desember sl.
Málið var tekið til endurflutnings 8. mars og dómtekið á ný.
Stefnandi er Húsasmiðjan hf., Súðarvogi 3-5, 104 Reykjavík.
Stefndu eru Róbert Grétar Gunnarsson, Þjórsárgötu 9a, Reykjavík og Ester Christina Gunnarsson, Þjórsárgötu 9a, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 618.966 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. janúar 2003 til greiðsludags.
Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxtanna.
Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati réttarins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til hans kemur.
Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda.
Til vara að stefnukröfur
stefnanda verði lækkaðar vegna gagnkröfu stefnda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað samkvæmt
gjaldskrá
Löggarðs ehf.
Málavextir
Málavextir eru þeir að með kaupsamningi, dags. 6. maí 2002, keyptu stefndu 147.4 fm íbúð að Básabryggju 19, Reykjavík, af stefnanda. Íbúðin var seld sem ný og ónotuð. Innréttingar höfðu verið settar upp af seljanda.
Kaupendur voru búsett á þessum tíma á Írlandi og sáu íbúðina auglýsta á vefnum. Þau hringdu í fasteignasöluna Skeifuna og var þeim tjáð að Húsasmiðjan hf. væri eigandi eignarinnar og að eignin yrði seld með innréttingum en án gólfefna. Stefnendur halda því fram að þau hafi spurt sérstaklega eftir því hvort innréttingar kæmu frá Húsasmiðjunni hf. og hvort hún sæi um að setja þær upp og hafi starfsmaður Skeifunnar sagt þeim að svo væri. Stefndi, Róbert, skoðaði síðan íbúðina í apríl 2002 er hann átti erindi til landsins. Þá var hún óhreingerð og að mati stefndu illmögulegt að gera sér grein fyrir skemmdum er síðar hafi komið í ljós á lakki á innréttingu.
Eftir afhendingu í íbúðarinnar, sem fór í maí 2002, var athygli kaupenda vakin á því að rafmagnstenglar í veggjum væru misháir og næðu upp á miðja veggi. Þá komu, að þeirra sögn, í ljós rispur og lakkskemmdir á innréttingum, bæði hurðum og skápum, auk annarra galla.
Stefndu fengu Línuhönnun hf. til þess að taka út íbúðina. Sú úttekt lá fyrir 22. maí 2002. Henni var komið til fulltrúa seljenda. Við lokagreiðslu hinn 1. nóvember 2002 skyldu stefndu greiða 1.118.966 krónur. Þau greiddu hins vegar 500.000 krónur og óskuðu síðan eftir viðræðum við seljendur um uppgjör skaðabóta og eða afsláttar þeim til handa.
Hinn 12. mars 2003 sendi lögmaður stefndu bréf til stefnanda og óskaði eftir samkomulagi um afslátt af hinni seldu eign. Slíkt samkomulag náðist ekki. Hinn 8. desember 2003 var óskað dómkvaðningar matsmanna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hinn 9. janúar 2004 var dómkvaddur Freyr Jóhannesson tæknifræðingur til þess að meta meinta galla á hinni seldu eign. Er matsgerð hans dags. 19. mars 2004.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður kröfu sína tilkomna vegna kaupsamnings sem aðilar gerðu um fasteignina Básabryggja 19, Reykjavík, 5. herb. íbúð á 2. hæð m.m. sbr. nánari lýsing í kaupsamningi aðila, sem dagsettur sé þann 6. maí 2002. Stefndu hafi greitt kaupsamningsgreiðslur eins og kaupsamningur sagði til um, nema lokagreiðsluna sem nemi 1.118.966 krónum, sem greiða átti þann 1. nóvember 2002. Greitt hafi verið inn á þá greiðslu þann 22. janúar 2003, 500.000 krónur, og hafi eftirstöðvar kaupsamningsins þá numið 618.966 krónum sem sé stefnufjárhæðin. Innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur.
Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, sbr. lög nr. 39/1922. Kröfur sínar um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Málið er rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á heimilisvarnarþingi stefndu. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Af hálfu stefndu er á því byggt að hin selda eign að Básabryggju 19, Reykjavík, hafi verið haldin göllum við afhendingu. Þannig hafi hún hvorki haft þá kosti sem nýjar íbúðir almennt hafi og kaupendur hafi mátt treysta að hún hefði, né hafi hún haft þá kosti sem stefnandi hafi lofað að hún hefði. Stefnanda, sem sérfróðum aðila í byggingariðnaði, og þeim sem innréttaði hina seldu eign, hafi borið að vekja athygli á þessu í söluyfirliti yfir hina seldu eign. Staðsetning á rafmagnstenglum sé auk þess ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þá hafi íbúðinni ekki verið skilað hreingerðri eins og samningur aðila geri ráð fyrir.
Þannig krefjast stefndu staðfestingar héraðsdóms á því að hin selda eign hafi verið haldin göllum við afhendingu og að þau eigi rétt á skaðabótum. Stefnandi, sem sérfróður aðili og sá er innréttaði hina seldu eign, hafi vitað um galla þá er um ræðir en ekki upplýst um þá í söluyfirliti eða við sýningu eignarinnar. Til vara er þess krafist að viðurkennd verði krafa um afslátt þar sem eignin hafi ekki uppfyllt almennar kröfur sem gera megi til nýrra eigna.
Þá krefjast stefndu skuldajafnaðar vegna kröfu sem þau hafi greitt, skuld stefnanda við hússjóð að fjárhæð 10.866 krónur.
Stefndu krefjast skuldajafnaðar á kröfu sinni samkvæmt mati dómkvadds matsmanns við kröfu stefnanda. Þannig krefjast þau sýknu af kröfu stefnanda en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Þá áskilja stefndu sér jafnframt rétt til þess að höfða gagnsakarmál.
Um umfang og lýsingu á göllum þeim er um ræðir vísa stefndu til úttektar Línuhönnunar hf. frá 22. maí 2002 og til matsgerðar hins dómkvadda matsmanns.
Af hálfu stefndu er vísað til almennra reglna kröfuréttar um galla og afslátt eða skaðabætur af seldri fasteign. Þá er um gagnkröfu þeirra vísað til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 og um áskilnað til gagnstefnu vísa þau til 3. mgr. sömu greinar.
Niðurstaða
Stefnandi krefur stefndu í máli þessu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs íbúðar að Básabryggju 19, Reykjavík. Stefndu mótmæla ekki kröfu stefnanda sem slíkri en krefjast sýknu á grundvelli skuldajafnaðar þar sem íbúðin hafi verið haldinn göllum við afhendingu og þau eigi því tilkall til skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda sem nemi að minnsta kosti stefnufjárhæð. Byggja þau þá kröfu á matsgerð dómkvadds matsmanns.
Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, sem í gildi voru á þeim tíma er umrædd kaup áttu sér stað, og beitt var með lögjöfnun um fasteignakaup, öðlast kaupandi fasteignar rétt til skaðabóta eða afsláttar, skorti söluhlut einhverja þá kosti, sem ætla má, að áskildir væru.
Til skoðunar kemur því í málinu hvort íbúðina, sem stefndu keyptu, hafi skort einhverja þá kosti sem stefndu hafi mátt ætla að íbúðin hefði og jafnframt hvort stefnandi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína.
Stefndu halda því fram að stefnandi, sem sérfróður aðili, hafi vitað um þá galla, sem séu tilefni málssóknarinnar, en hafi ekki upplýst um þá, hvorki í söluyfirliti né við skoðun íbúðarinnar.
Stefndi, Róbert, skoðaði eignina tvisvar áður en kaupsamningur var undirritaður. Fram hefur komið að stefndi var ekki upplýstur sérstaklega um ástand íbúðarinnar og ekkert þykir fram komið í málinu er styðji það að um saknæma háttsemi sé að ræða af hálfu stefnanda þannig að skaðabótaábyrgð varði.
Kemur þá til álita hvort stefndu beri að fá afslátt af kaupverði.
Fram er komið að íbúðin að Básabryggju 19, Reykjavík var seld sem ný íbúð. Var hún seld án gólfefna en með nýjum innréttingum. Kaupsamningur var gerður 6. maí 2002 og var íbúðin afhent þann sama dag.
Stefndi, Róbert, bar fyrir dómi að hann hefði skoðað íbúðina í byrjun febrúar og í byrjun maí 2002. Hafði íbúðin ekki verið þrifin er hann skoðaði hana og bar Róbert að hún hefði verið mjög skítug við skoðun. Stefndi, Róbert, sá sjálfur um þrif á íbúðinni. Bar hann fyrir dómi að við þrifin hafi komið í ljós gallar á íbúðinni sem hann hafi ekki gert sér grein fyrir við skoðun hennar, m.a. rispur í lakki á hurðum og innréttingum.
Að beiðni stefndu gerði starfsmaður Línuhönnunar hf. úttekt á íbúðinni. Segir þar að almennt séu helstu gallar á spónlögðum skápum og innihurðum en mikið sé um rispur og mismunandi áferð sé á lakki en það sé eins og sumir spónlagðir fletir séu með þykkari lakkfilmu en aðrir. Þá er gerð athugasemd að tenglar séu í mismunandi hæð og fundið að innréttingu í eldhúsi.
Af hálfu stefndu var dómkvaddur matsmaður, Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur, til þess að skoða og meta kostnað við úrbætur á þeim ágöllum er stefndu töldu vera á íbúðinni. Er matsgerðin dags. í mars 2004.
Við munnlegan málflutning vék lögmaður stefnanda að því að þáverandi lögmaður stefnanda hefði ekki verið boðaður til vettvangsgöngu matsmanns. Kemur það einnig fram í bréfi lögmannsins frá 12. maí 2004 til lögmanns stefndu. Þar mótmælir hann framkominni matsgerð þar sem hann telji hana vanreifaða þar sem matsþola hafi ekki gefist kostur á því að koma athugasemdum sínum á framfæri. Hafi hann haft í hyggju að fá bókað að matsmaður meti hvort hinir meintu gallar hafi verið sýnilegir við skoðun kaupenda.
Var matsmaður spurður um þetta fyrir dómi og bar hann að lögmaður stefnanda hefði verið boðaður til vettvangsgöngu. Þykir tölvubréf á dskj. nr. 13 styðja þann framburð matsmannsins. Þá bar matsmaður einnig að hann gæti ekki borið um hvað hefði verið sýnilegt við skoðun á íbúðinni tveimur árum fyrr við skoðun kaupenda. Hefur skilyrði lögmanns stefnanda sem hann setur fram í fyrrgreindum tölvupósti því enga þýðingu í málinu. Fyrir liggur að lögmaður stefnanda sat matsfund 4. mars 2004 og hefði því haft tækifæri til að koma þar að athugasemdum sínum varðandi matið. Verður því ekki séð að þetta hafi nein áhrif á sönnunargildi matsgerðarinnar í málinu.
Samkvæmt beiðni stefndu skyldi matsmanni gert að meta kostnað við lagfæringu á 15 atriðum sem tilgreind eru nánar í beiðninni.
Matsgerðin er í 15 liðum. Heildarkostnaður við úrbætur nemur að mati matsmanns 1.303.700 krónum. Af heildarmatsfjárhæð nemur virðisaukaskattur 217.194 krónum. Virðisaukaskattur af vinnu á vinnustað er 105.616 krónur en 60% virðisaukaskattur af vinnu er 63.370 krónur.
Í matslið 1 er metinn kostnaður við hreingerningu á íbúðinni. Telur matsmaður þann kostnað nema 106.000 krónum.
Fyrir liggur að íbúðin hafði ekki verið hreingerð þegar stefndu tóku við henni og sáu þau um þrif á henni. Smári Hilmarsson hdl. bar fyrir dómi að stefndi Róbert hefði, við undirritun kaupsamnings, kvartað yfir því að íbúðin væri óhreingerð. Hafi verið gert samkomulag við hann um að hann tæki við íbúðinni eins og hún var og að hann fengi í staðinn góðan afslátt á parketi hjá stefnanda. Samkvæmt framburði fjármálastjóra stefnanda, Sigrúnar Sigurjónsdóttur, liggur fyrir að stefndu fengu talsverðan afslátt af parketi sem þau keyptu hjá stefnanda. Stefndi, Róbert, bar fyrir dómi að afsláttur á parketi hefði verið veittur vegna litamismunar á parketinu en ekki vegna þess að íbúðin hefði verið afhent óhreingerð.
Telja verður ósannað að stefndu hafi fengið afslátt af parketi vegna þess að íbúðin var óhreingerð. Fyrir liggur hins vegar að stefndu gerðu engar athugasemdir um ástand íbúðarinnar þar að lútandi eftir afhendingu hennar og önnuðust sjálf hreingerningu íbúðarinnar. Verður að líta svo á að þau hafi þar með sætt sig við ástand hennar að þessu leyti enda hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi skuldbundið sig gagnvart stefndu til þess að hreingera íbúðina fyrir afhendingu. Er því ekki fallist á að stefndu eigi kröfu á hendur stefnanda vegna hreingerningar á íbúðinni.
Í matslið 2 í matsgerð segir að matsmaður hafi staðreynt rispur og galla á lökkun innréttinga og hurða. Í sundurliðaðri kostnaðaráætlun hans sé miðað við að taka niður hurðir og hluta innréttinga sem þarfnist lagfæringa, fara með á verkstæði, gera við og lakka og setja síðan upp aftur. Vinnuliður í sundurliðunarskrá sé sú vinna sem áætlað er að þurfi að vinna að Básabryggju 19, en vinna á verkstæði flokkist undir efniskostnað og akstur. Fyrir dómi bar matsmaður að lakk hefði víða runnið til og væri misþykkt. Þá væri að finna rispur á hurðum. Bar hann að þessir ágallar sæjust þegar farið væri að skoða þá nánar. Hins vegar bæri ekki á þeim við lauslega skoðun. Þá væri fyrir að fara missmíð á hurðum. Væri ekki um vandaða innréttingu að ræða.
Í ljósi þess að stefndu voru að kaupa nýja íbúð, í þeim skilningi að ekki hafði verið búið í henni, og með nýjum innréttingum, verður að telja að þau hafi mátt vænta þess að ekki væri um að ræða missmíð á innréttingu í eldhúsi eða hurðum eða að misfellur eða rispur væru í lakki, sem, samkvæmt framansögðu, var staðfest af matsmanni að hefðu verið til staðar. Þá liggur fyrir að íbúðin hafði ekki verið hreingerð fyrir skoðun og því erfiðara um vik að gera sér grein fyrir því sem miður fór. Ber því að fallast á að stefndu beri að fá afslátt af kaupverði vegna þessa og ber, við ákvörðun hans, að líta til þeirra liða matsgerðar þar sem fjallað er um viðgerð á innréttingu í eldhúsi og lökkun á hurðum og innréttingum enda hefur matsgerð þessari ekki verið hnekkt að þessu leyti. Samkvæmt matsgerðinni nemur kostnaður við lagfæringu á þessum atriðum samtals 796.700 krónur.
Í matsgerð kemur fram að í 4 herbergjum séu tenglar misháir og sé um sjónrænan galla að ræða þar sem um sé að ræða nýja íbúð og víða sé þessi galli á mjög áberandi stöðum í íbúðinni. Telja verður að stefndu hafi mátt gera sér grein fyrir staðsetningu tengla í íbúðinni við venjulega skoðun. Enda þótt staðsetning tengla í umræddri íbúð sé ekki að öllu leyti í samræmi við góðar fagvenjur að mati matsmanns þykir stefnanda ekki verða gert að veita stefndu afslátt af því tilefni enda verður að líta svo á að stefndu hafi sætt sig við staðsetningu þeirra þar sem þau gerðu engar athugasemdir þar að lútandi við undirritun kaupsamningsins.
Í matslið 6 í matsgerð segir að verulegar sprungur séu í vesturvegg gangs. Ástæðan sé að þenslurauf milli húshluta liggi þar um eins og sjá megi að byggingarnefndarteikningu. Þegar húsið hafi verið innréttað hafi ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að taka upp þær hreyfingar sem þarna verði. Þennan byggingargalla megi lagfæra með því að setja þenslustykki á samskeytum þessara húshluta og sé miðað við það í matinu. Þessi aðgerð hafi það í för með sér að mála verði veggi og loft gangsins á eftir.
Fyrir liggur að stefndi, Róbert, hafði gert sér grein fyrir þessum ágalla á byggingunni við skoðun. Var kaupsamningur undirritaður af hálfu stefndu án þess að gerðar væru athugasemdir af þeirra hálfu varðandi þetta atriði eða samið við stefnanda um úrbætur. Þykir ekki hafa verið sýnt fram á af hálfu stefndu að þeim beri að fá afslátt af kaupverði vegna þessa.
Auk þeirra atriða sem þegar er getið segir í matslið 4 í matsgerð að suðurveggur í stofu sé hlykkjóttur. Miðar matsmaður við að veggurinn verði réttur af með spartli þegar hann verður málaður næst. Þá kemur fram að hitastilli vantar á ofn. Samkvæmt matsliðum 10 -13 er niðurfall í gólfi þvottahúss of hátt, falslisti á hurð í geymslu er of stuttur, hurð út á stigagang er undin og telur matsmaður nauðsynlegt að skipta um hurðarblaðið til þess að bæta úr þeim ágalla, einangrun útveggja öðrum megin svalahurðar sé illa frágengin. Metur matsmaður kostnað við þessar úrbætur 139.300 krónur.
Það er álit dómsins varðandi síðasttalin atriði að um sé að ræða galla sem ekki séu augljósir við venjulega skoðun. Er því fallist á að stefndu beri afsláttur af kaupverði vegna þeirra, og er þá haft í huga að um nýja íbúð er að ræða, eins og áður segir.
Stefndu hafa lagt fram í málinu matsgerð sem hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda. Samkvæmt henni þykir sýnt fram á að umrædd íbúð hafi verið haldin göllum sem stefndi hafi ekki mátt reikna með við kaup á nýrri íbúð, sbr. það sem áður er rakið. Er því fallist á að stefndu beri að fá afslátt af kaupverði og er við ákvörðun tekið mið af niðurstöðum matsgerðar. Þykir hæfilegur afsláttur af kaupverði vera 880.000 krónur og er þá tekið mið af því að stefndu geta væntanlega fengið endurgreidd 60% af virðisaukaskatti af vinnu við endurbætur.
Kröfu stefndu um greiðslu í hússjóð að fjárhæð 10. 866 krónur er hafnað enda liggja engin gögn fyrir í málinu til stuðnings kröfunni.
Krafist er dráttarvaxta af stefnufjárhæð frá 22. janúar 2003 og er vaxtakröfu ekki mótmælt. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er dags. 19. mars 2004. Telja verður að kröfur málsaðila hafi verið hæfar til að mætast mánuði eftir dagsetningu matsgerðar. Samkvæmt því er ljóst að gagnkrafa stefndu til skuldajafnaðar nemur hærri fjárhæð en nemur stefnufjárhæð með dráttarvöxtum til 19. apríl 2000. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og er þá tekið tillit til matskostnaðar.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Birni Björnssyni húsasmíðameistara og Ragnari G. Ingimarssyni verkfræðingi.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Róbert Grétar Gunnarsson og Ester Christina Gunnarsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Húsasmiðjunnar hf.
Stefnandi greiði stefndu 600.000 krónur í málskostnað.