Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/2003
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 2004. |
|
Nr. 476/2003. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Róbert Wesley Feher (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
R var sakfelldur fyrir líkamsárásir samkvæmt 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa að tilefnislausu gengið í skrokk á A, B og C og veitt þeim áverka, sem sumir reyndust alvarlegir. Refsing hans, að teknu tilliti til 77. gr. laganna, var ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en hluti refsivistarinnar var skilorðsbundinn. R var og dæmdur til greiðslu bóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. desember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Að því frágengnu krefst hann að refsing verði felld niður, en verði ekki á það fallist að hún verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti. Í öllum tilvikum krefst ákærði frávísunar bótakrafna, en ella að þær verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um vexti af dæmdum fjárhæðum fer eftir 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2002 til 11. apríl 2003, en eftir 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Róbert Wesley Feher, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31.október 2003.
Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 16. júní 2003 2003 á hendur: ,,Róbert Wesley Feher, [...], fyrir eftirgreindar líkamsárásir á Laugavegi í Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 21. apríl 2002.
I.
Gegn A, kt. [ ], með því að hafa ýtt harkalega við henni en við það féll hún utan í stöðumæli og síðan í götuna og stuttu síðar slegið hana hnefahögg í andlitið svo hún féll aftur í götuna, allt með þeim afleiðingum að hún spjaldhryggsbrotnaði, hlaut sár á neðri vör og bólgnaði í andliti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
II.
Gegn B, kt. [ ], með því að hafa tekið hana hálstaki, slegið hana hnefahögg í andlitið, dregið hana á hárinu eftir götunni og skellt höfði hennar í götuna, allt með þeim afleiðingum að hún tognaði á hálsi og marðist á höfði, hálsi, hægri olnboga og stórutá.
III.
Gegn C, kt. [ ], með því að hafa rifið í hár hennar og dregið hana á hárinu niður í götuna og slegið hana hnefahögg í andlitið, allt með þeim afleiðingum að hún marðist utanvert á vinstri augabrún, hlaut roða fyrir neðan neðri vör og eymsl í hálsi og hársverði og tognaði á mjóbaki.
Teljast brotin í liðum II og III varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá hafa eftirgreindar bótakröfur verið gerðar á hendur ákærða.
A krefst bóta að fjárhæð 576.182 kr.
B krefst bóta að fjárhæð 322.707 kr.
C krefst bóta að fjárhæð 347.533 kr.
Í öllum tilvikum er krafist vaxta skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 21. apríl 2002 til 21. maí 2002 en síðan dráttarvaxta skv. sömu lögum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er í öllum tilvikum krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.”
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar. Verði dæmd refsivist er þess krafist að hún verði skilorðsbundin. Þess er krafist að öllum skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Krafist er réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 21. apríl 2002 var lögreglan kvödd að Laugavegi 7 kl. 03.41 þessa nótt. Er lögreglan kom á staðinn tóku stúlkurnar, C, B og A, á móti lögreglunni. Samkvæmt skýrslunni greindu stúlkurnar svo frá að ákærði, sem þær þekktu ekki, hafi komið að þeim og þuklað á C. Þær hefðu ýtt honum í burtu og þá hófst rifrildi sem endaði með því að ákærði hefði kýlt þær allar. C kvaðst aum í hársverðinum vegna þess að ákærði hefði dregið hana á hárinu. Hún hafi verið bólgin í andliti og á vörum og kvað hún þá áverka vera af völdum hnefahöggs frá ákærða. Þá segir í skýrslunni að B hefði verið með kúlu á höfðinu og aum í andliti og það hafi verið eftir ákærða, sem hafi hrint henni í götuna og kýlt hana í andlitið, en auk þess hafi jakki hennar verið rifinn og hálsmen slitið. A kvaðst vera aum í rófubeini og í baki eftir að ákærði kastaði henni á stöðumæli. Í skýrslunni segir að hún hafi verið bólgin í andliti og á vör.
Ákærði sem var nokkuð ölvaður, eins og í skýrslunni greinir, var handtekinn og vísaði ásökunum á bug. Hann kvaðst hafa orðið fyrir tilefnislausri árás af hálfu stúknanna og einhverra karlmanna sem voru með þeim í för. Hann kvaðst ekki finna til eymsla og engir áverkar hafi verið sjáanlegir á honum. Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni daginn eftir, þar sem hann neitaði því að hafa ráðist á stúlkurnar eins og lýst er í ákærunni.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Eins og samhengi milli ákæruliða er háttað er eðlilegt að rekja málavexti saman um þá alla.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á gangi niður Laugaveginn á þessum tíma er hann kom að þremur stúlkum, sem hann þekkti ekki. Hann kvað sér hafa virst þær eiga í rifrildi. Hann kvaðst í gríni hafa klappað á rassinn á einni þeirra, sem hafi brugðist ókvæða við og ráðist á ákærða sem kvaðst hafa varið sig. Hann kvað stúlkurnar hafa ráðist á sig tvær í einu, en allar hafi tekið þátt í því, sparkað í punginn á honum, en hann hafi varð sig og ýtt þeim frá sér og ekki vitað hvort þær duttu við þetta. Hann neitaði því að hafa veist að stúlkunum eins og lýst er í ákærunni. Hann kvaðst eingöngu hafa varið sig og ýtt stúlkunum frá sér, en aðspurður kvað hann sér hafa staðið ógn af þeim. Hann kvaðst hafa forðað sér og inn á skemmtistað í nágrenninu og skömmu síðar hafi veist að sér piltar, sem hann þekkti ekki, en stúkurnar þrjár hafi þá ekki verið þar nærri.
Vitnið, A, kvað stúkurnar þrjár hafa staðið fyrir utan skemmtistaðinn [ ] er ákærði sló C í rassinn svo hún meiddi sig. D, kunningi þeirra, hafi þá gengið að ákærða og sagt að hann hefði meitt stúlkuna og hafi hann beðið ákærða um að biðjast afsökunar. Þá byrjuðu leiðindi og stúkurnar hafi þá komið og talað við ákærða, sem hafi sýnt stæla og hroka. Þar sem þær stóðu og ræddu við ákærða hafi hann hrint vitninu svo hún lenti á stöðumæli og í götuna, en hún hafi ekki staðið strax á fætur. Hún kvaðst hafa meitt sig við þetta, brotnað og orðið ringluð. Þegar hún leit upp hafi hún séð ákærða draga C á hárinu yfir götuna. Þá kvaðst A hafa staðið á fætur, en B hafi setið upp við vegg, að hana minnti. Hún kvað tvo menn hafa komið að er verið var að losa ákærða, sem flæktist í hárinu á C. Mennirnir hafi strax farið í burtu. Þegar þær B hafi ætlað að fá ákærða til að sleppa C hafi hann tekið B hálstaki og kýlt hana margsinnis. A kvaðst hafa orðið mjög hrædd við þetta, gengið að ákærða og reynt að ýta honum svo hann sleppti B. Þá hafi hann slegið hana í andlitið svo hún féll við. Síðan hafi ákærði sleppt takinu á B og kastað henni frá sér svo hún lenti utan í tröppum, en hún kvað C hafa fengið eitt högg frá ákærða í þessari atburðarrás. Eftir að þessu lauk hafi ákærði stöðugt gengið nær B og endaði þetta með því að þær vinkonurnar komu ákærða í götuna. Hún kvað þá fólk hafa komið þarna að, en þær hafi haldið í burtu.
A kvaðst hafa spjaldhryggsbrotnað við þetta og lýsti hún meiðslum sínum og læknismeðferð sem hún hefur hlotið vegna þeirra. Þá kvað hún hafa komið í ljós að hún hefði einnig rófubeinsbrotnað, en ekki er vikið að því í ákærunni. Auk þessa hafi hún hlotið sár á neðri vör og bólgnað í andliti.
Vitnið, C, kvaðst ásamt þeim A og B hafa beðið þess að verða sótt fyrir utan veitingastað á Laugavegi á þessum tíma. Skyndilega hafi hún verið slegin svo fast í rassinn að hún hafi nærri brostið í grát. Er hún leit við hafi hún séð að ákærði var þarna að verki. Hún kvaðst hafa reynt að fá hann til þess að biðjast fyrirgefningar, þar sem henni hafi þótt háttsemi hans vanvirða og ókurteisi. Þá hafi A komið og spurt ákærða hvers vegna hann hefði viðhaft þennan dónaskap. Ákærði hafi þá skyndilega hrint A svo hún lenti á stöðumæli. C kvað þær B þá hafa komið að ákærða og hrint honum frá og spurt hvernig honum dytti svona háttsemi í hug. Hann hafi þá kýlt sig í andlitið svo hún féll í götuna. Þá hafi hann gripið í hár hennar og kippt henni niður og dregið hana eftir götunni. Hún hafi fengið högg við þetta og fengið illt í bakið, sem hún hafi átt í síðan og lýsti hún því. A og B hafi þá komið þarna að ásamt fleirum, en ákærði hafi flækt sig í hári hennar. Eftir að ákærði var losaður frá henni hafi hann tekið B hálstaki og kýlt hana í andlitið. C kvaðst þá hafa hlaupið til og ætlaði að aðstoða B, en þá hafi ákærði slegið hana í andlitið, á gagnaugað, svo af hlaust kúla. Eftir þetta hafi ákærði dregið B á hárinu yfir götuna uns hún lenti á tröppum. Við þetta hafi jakki hennar rifnað og hálsmen slitnað. Þessi atburðarrás hafi endað með því að stúlkunum hafi tekist að ná ákærða í götuna og eftir það hafi þau rifist uns fólk kom að, sem veitti þeim aðstoð, en hún kvaðst telja að fólkið hefði átt að veita þeim stúlkunum aðstoð fyrr. Hún lýsti síðan atburðum sem gerðust eftir þetta, en þá hafi einhver gengið í skrokk á ákærða. Stúlkurnar hafi þar ekki átt hlut að máli og sá atburður sé þeim óviðkomandi.
Vitnið, B, kvað þær vinkonurnar hafa staðið fyrir utan skemmtistaðinn [ ] er ákærði lamdi C í rassinn, en þær hafi verið að koma úr bíó og engin þeirra verið undir áhrifum áfengis. Þær hafi spurt ákærða hvort hann ætlaði ekki að biðjast fyrirgefningar, en hann hafi verið með hroka. Hún kvaðD, kunningja þeirra, hafa rætt við ákærða og hafi A farið til þeirra en ákærði hafi þá hrint henni á stöðumæli. Þær C urðu þá mjög reiðar, en ákærði byrjaði þá að ýta í C og draga hana á hárinu. B kvaðst hafa reynt að stöðva ákærða. Næsta sem hún mundi var er ákærði tók um háls henni og kýldi hana nokkrum sinnum í andlitið en C hafi orðið fyrir einu högginu. Næst hafi ákærði dregið hana á hárinu yfir Laugaveginn, þannig að hún hafi lent með höfuðið á tröppum handan götunnar og hafi hún tognað á hálsi og marist á höfði við þetta. Hún hafi farið í nudd til reyna að fá bót meina sinna, en hafi ekki náð sér að fullu. Eftir þetta hafi verið farið að rífast, en hún mundi ekki hvað gerðist eftir það. Hún kvað þær vinkonurnar hafa látið höggin dynja á ákærða eftir að hann hefði gengið í skrokk á þeim eins og lýst hefur verið. Ákærði hélt síðan á brott og einhver á eftir honum, en aðspurð kvaðst hún ekki hafa beðið um að ákærði yrði eltur.
Vitnið, D, kvaðst hafa hitt stúlkurnar inni á veitingastaðnum [ ] þessa nótt. Er þau komu þaðan út hafi ákærði gripið í ,,afturendann” á C, sem ekki hafi verið sátt við þetta. Af þessu hafi orðið ósætti og næsta sem hann vissi var að maðurinn hrinti A utan í stöðumæli. Næst hafi hann heyrt öskur í C og þá séð sama mann draga hana á hárinu. Er hann fór að huga að C hafi hann heyrt öskur í Ben þá var verið að slá hana hnefahöggum í höfuðið. Hann hafi þá farið og losað manninn ofan af B sem lá í götunni. Á þessum tíma hafi A setið blóðug í andliti fyrir utan veitingastaðinn [ ]. Dyravörður á [ ] hafi komið og eftir það hafi árásarmaðurinn haldið á brott. Hann kvaðst hafa hringt í lögregluna eftir þetta.
Einnig komu fyrir dóminn sem vitni Sveinn Bjarki Sigurðsson lögreglufulltrúi og Sigurbjörn Jónsson varðstjóri. Báðir lýstu því er þeir komu á vettvang, en vitnisburður þeirra varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn hér.
Niðurstaða
Meðal gagna málsins eru læknisvottorð stúlknanna, sem í öllum ákæruliðum greinir. Fram kemur í læknisvottorðunum að þær leituðu allar á slysadeild aðfaranótt 21. apríl 2002 eftir atburðinn sem lýst er í ákærunni. Í læknisvottorði hverrar um sig er því lýst að viðkomandi hafi við læknisskoðun haft þá áverka, sem lýst er í einstökum ákæruliðum.
Ákærði neitar sök. Framburður hans um að honum hafi staðið ógn af stúlkunum er fjarstæðukenndur. Þá er framburður hans um það að stúkurnar, sem allar voru 17 ára gamlar, hafi gengið í skrokk á honum mjög ótrúverðugur og ekkert sem styður hann. Ákærði var ölvaður er þessir atburðir urðu. Stúlkurnar voru ekki undir áhrifum áfengis. Áverkar sem stúlkurnar hlutu og lýst er í ákærunni og einnig læknisvottorðum hverrar um sig sýni að gengið var harkalega í skrokk á þeim. Stúlkurnar greindu lögreglu frá því á vettvangi hverning ákærði gekk í skrokk á þeim en frumskýrsla lögregluna um þetta var rakin í upphafi. Í skýrslunni er einnig lýst sýnilegum áverkum á stúlkunum.
Með vísan til alls ofanritaðs telur dómurinn sannað með einshljóða vitnisburði A, B og C, en vitnisburður þeirra allra er heilsteyptur og trúverðugur, og með vitnisburði D, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í öllum ákæruliðunum greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða, enda afleiðingar háttsemi ákærða sannaðar með læknisvottorðum og öðrum gögnum málsins.
Ákærði á að baki nokkurn sakarferil. Frá árinu 1989 hefur hann gengist undir sex dómsáttir fyrir eignaspjöll, áfengislagabrot og líkamsárás. Hann hlaut dóm fyrir umferðarlagabrot á árinu 1996 og aftur á árinu 2001, sektardóm fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.
Stúlkurnar voru að koma úr bíó og biðu þess að verða sóttar er ákærði, sem þær þekktu ekki, veittist algjörlega að tilefnislausu að þeim, gekk í skrokk á þeim og veitti þeim áverka, sem sumir reyndust alvarlegir eins og fram kemur í ákærunni og í læknisvottorðum.
Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.
Nokkur tími er liðinn frá framningu brotanna. Hins vegar þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur og kemur því ekki til álita að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti. Þykir samkvæmt þessu eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 4 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er skaðabótaskyldur gagnvart öllum stúlkunum.
Skaðabótakrafa A samanstendur af miskabótakröfu að fjárhæð 500.000, lækniskostnað að fjárhæð 32.599 krónur, lyfjakostnað 613 krónur, sjúkraþjálfun 22.970 krónur og 20.000 króna krafa vegna skemmda á fatnaði. Síðastgreinda krafan vegna skemmda á fatnaði er órökstudd. Henni fylgja engin gögn og er henni vísað frá dómi.
Kröfuliðirnir fyrir lækniskostnað, lyfjakostnað og sjúkraþjálfun er studdur gögnum og er ákærði dæmdur til greiðslu þeirra allra.
A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur.
Ákærði er þannig dæmdur til að greiða A 256.182 krónur í miska- og skaðabætur auk vaxta eins og í dómsorði greinir.
Skaðabótakrafa B er þannig saman sett, að krafist er miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur, 2.407 krónur vegna lækniskostnaðar og 20.000 krónur vegna skemmda á fatnaði. Síðast greinda krafan er órökstudd. Henni fylgja engin gögn og er henni vísað frá dómi.
B á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 50.000 krónur og ákærði greiði einnig kröfuliðinn fyrir lækniskostnað, en honum fylgja viðeigandi reikningar. Ákærði er þannig dæmdur til að greiða B 52.407 krónur auk vaxta eins og nánar greinir í dómsorði.
Skaðabótakrafa C samanstendur af 300.000 króna miskabótakröfu, kröfu vegna lækniskostnaðar 3.624 krónur, vegna lyfjakostnaðar 458 krónur, vegna sjúkraþjálfunar 9.590 krónur og vegna ónýts síma 13.881 króna og vegna skemmda á fatnaði 20.000 krónur. Kröfuliðirnir vegna skemmda á fatnaði og vegna ónýts síma eru órökstuddir. Þeim fylgja ekki viðeigandi gögn og er þeim vísað frá dómi. Aðrir kröfuliðir, þ.e. fyrir sjúkraþjálfun, lyfjakostnað og lækniskostnað eru rökstuddir með viðeigandi gögnum og er ákærði dæmdur til að greiða þær kröfur. C á einnig rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 50.000 krónur.
Ákærði er þannig dæmdur til að greiða C samtals 63.672 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði.
Vaxtakröfum hefur ekki verið andmælt og er ákærði dæmdur til greiðslu vaxta eins og krafist er utan dráttarvextir reiknast frá 11. apríl 2003 en þá var mánuður liðinn frá því ákærða voru birtar kröfurnar.
Í öllum tilvikum er krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram. Sami lögmaðurinn, Guðmundur St. Ragnarsson héraðsdómslögmaður, gerir bótakröfuna fyrir hönd allra bótakrefjenda.
Er ákærði dæmdur til að greiða hverjum bótakrefjanda um sig 15.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.
Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Róbert Wesley Feher, sæti fangelsi í 6 mánuði, en frestað skal fullnustu 4 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði eftirtöldum aðilum miska- og skaðabætur: A 256.182 krónur, B 52.407 krónur og C 73.672 krónur.
Í öllum tilvikum greiði ákærði vexti skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 21. apríl 2002 til 11. mars 2003, en síðan dráttarvexti skv. sömu lögum frá þeim degi til greiðsludags.
Auk þessa greiði ákærði hverri stúlku um sig 15.000 krónur vegna lögmannsþóknunar við að halda kröfunni fram.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.