Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 11. apríl 2012. |
|
Nr. 225/2012. |
A (Hjálmar Blöndal hdl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
A var svipt sjálfræði í sex ár á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2012, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tíu ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili þóknunar í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns síns.
Í vottorði Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis 7. mars 2012, sem hann staðfesti fyrir héraðsdómi, kemur meðal annars fram að lögræðissvipting til langs tíma sé nauðsynleg til að beita megi úrræðum í því skyni að draga úr versnandi sjúkdómseinkennum sóknaraðila. Með vísan til þessa og einnig þess að sóknaraðili hefur endurtekið verið svipt sjálfræði undanfarin ár, oftast til tveggja ára í senn, þykir mega með hliðsjón af velferð sóknaraðila fallast á með varnaraðila að lögræðissvipting til lengri tíma en fyrr sé nú nauðsynleg til að auðvelda læknishjálp við hana. Er þá meðal annars haft í huga að sóknaraðili á þess kost á komandi árum að krefjast niðurfellingar á lögræðissviptingunni samkvæmt 15. gr. lögræðislaga.
Með hliðsjón af því sem að framan segir, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður lögræðissvipting sóknaraðila staðfest þann tíma sem í dómsorði greinir.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um kostnað af málinu í héraði verður staðfest með þeirri breytingu á þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem fram kemur í dómsorði.
Kostnaður af meðferð málsins fyrir Hæstarétti greiðist samkvæmt 17. gr. lögræðislaga úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, sem ákveðin verður í einu lagi vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Gögn málsins bera ekki með sér að varnaraðila hafi verið skipaður talsmaður, sbr. niðurlag 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Eru því ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um greiðslu þóknunar talsmanns úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Sóknaraðili, A, er svipt sjálfræði í sex ár frá 19. mars 2012 að telja.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um kostnað af málinu er staðfest að undanskilinni þóknun verjanda sóknaraðila.
Allur kostnaður af meðferð málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hjálmars Blöndal héraðsdómslögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samtals 250.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2012.
Með kröfu, sem dagsett er 14. þ.m. og þingfest í dag, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar farið þess á leit að [A], [...], til heimilis [...], Reykjavík, verði svipt sjálfræði í 10 ár þar sem hún sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Kröfunni er mótmælt.
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis þar sem segir að varnaraðili hafi verið haldin geðhvarfageðklofa í 20 ár. Sé hún nú í sturlunarástandi með maníu og aðsóknarhugmyndir. Fyrir liggur að varnaraðili hefur áður verið nauðungarvistuð og svipt sjálfræði margsinnis vegna þessa sjúkdóms og sætir hún nú nauðungarvistun. Álítur læknirinn að þörf sé á því að hún verði nú svipt sjálfræði í mörg ár.
Með vísan til þess sem að framan er rakið álítur dómurinn að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðveiki og að skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga séu fyrir hendi til þess að svipta hana sjálfræði. Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði í 10 ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða málskostnað, þar með talda þóknun til skipaðs talsmanns varnaraðila, Hjálmars Blöndal Guðjónssonar hdl. 50.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og kostnað vegna læknisvottorðs, 55.000 krónur, úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, [A], er svipt sjálfræði í 10 ár.
Þóknun talsmanns varnaraðila, Hjálmars Blöndal Guðjónssonar hdl., 50.000 krónur, og annar kostnaður, 55.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.