Hæstiréttur íslands

Mál nr. 397/1998


Lykilorð

  • Vátrygging


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. mars 1999.

Nr. 397/1998.

Sædís ehf.

(Baldur Guðlaugsson hrl.)

gegn

Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

Vátrygging.

S keypti vátryggingu hjá Í vegna skipsins Ó og var m.a. vátryggt fyrir tjóni á frystum fiski vegna bilunar frystitækja. Tveimur dögum eftir að Ó kom úr veiðiferð á rækju kom í ljós að frystipressa hafði stöðvast og hitastig í lest skipsins hafði hækkað verulega. Ekki var ljóst hvað olli því að frystivélin drap á sér, en engrar viðgerðar var þörf áður en hún var ræst að nýju. S taldi að fengist hafi lægra verð fyrir rækjuna en ella vegna útlitsgalla sem rekja mátti til hækkunar hitastigs í lestinni og krafðist vátryggingabóta úr hendi Í. Ekki var talið sannað að tjónið hafi orðið af völdum bilunar og var héraðsdómur um sýknu Í af kröfum S staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.597.802 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. maí 1993 til 16. ágúst sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Skilmálar vátryggingar þeirrar, sem áfrýjandi keypti hjá stefnda, bera fyrirsögnina „Afla- og veiðarfæratrygging“. Með þeirri vátryggingu skyldi meðal annars bætt tjón á frystum fiski vegna bilunar frystitækja. Héraðsdómur, sem meðal annars var skipaður vélfróðum meðdómsmanni, komst að þeirri niðurstöðu að ekki lægju fyrir hvaða ástæður leiddu til þess að frystipressa í fiskiskipi áfrýjanda, Sigurfara ÓF 30, stöðvaðist þegar skipið lá við bryggju í Ólafsfirði 16. til 18. apríl 1993. Engu að síður sé það ljóst að hún hafi ofhitnað, annað hvort vegna þess að kæling hafi verið ófullnægjandi eða af öðrum ástæðum.

Þótt frystipressan hafi stöðvast og tjón hlotist af er ekki í ljós leitt að það hafi verið af völdum bilunar, en engrar viðgerðar var þörf áður en hún var ræst að nýju. Verður ekki fallist á með áfrýjanda að óútskýrð truflun á gangi vélarinnar nægi til að fella atvikið undir gildissvið vátryggingarinnar. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest um annað en málskostnað. Verður áfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Sædís ehf., greiði stefnda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

                                                                                 

Héraðdómur Reykjavíkur 1. júlí 1998.

                Mál þetta sem dómtekið var þann 15. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með stefnu birtri 5. desember sl. af Sædísi ehf., kt. 590881-0829, Kirkjuvegi 3, Ólafsfirði, á hendur Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, kt. 540269-0179, Lágmúla 9, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 1.597.802 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. maí 1993 til 16. ágúst 1993 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

                Af hálfu stefnda er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi að skaðlausu, þ.m.t. virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni.

                Málsatvik eru þau að stefnandi keypti vátryggingu hjá stefnda þann 1. febrúar 1993 vegna skipsins Sigurfara ÓF-30. Í vátryggingarskilmálum sem dagsettir eru sama dag kemur fram að vátryggt var m.a. fyrir tjóni á frystum fiski vegna bilunar frystitækja.

                Skipið kom að landi úr veiðiferð á Ólafsfirði með rækju þann 16. apríl 1993 nálægt miðnætti. Að morgni 18. apríl kom yfirvélstjóri um borð í eftirlit. Hafði þá frystipressa stöðvast og var hitastig í lestinni -5° C en átti að vera -32° C. Vélstjórinn ræsti aðra frystipressu og fór hitastig aftur í -32° C.

                Stefnandi seldi rækju til Japans. Hann telur að hann hafi fengið lægra verð fyrir hana en ella vegna útlitsgalla sem fram kom á henni við það að hitastig hafði hækkað í lestinni. Í málinu krefst stefnandi vátryggingabóta úr hendi stefnda vegna þessa.

                Af hálfu stefnda er greiðsluskyldu mótmælt. Byggir stefndi það aðallega á því að ekki hafi verið um bilun að ræða á frystibúnaði skipsins og taki vátryggingin þar með ekki til atviksins. Einnig er deilt um fjárhæðir og vexti.  

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að þann 16. apríl 1993 hafi skip hans, Sigurfari ÓF-30, komið úr veiðiferð og hafi það lagst að bryggju í Ólafsfirði. Um kvöldið hafi verið gengið frá búnaði skipsins og m.a. gætt að því að lestarfrysting væri í lagi, enda hafi ekki verið unnt að landa úr skipinu fyrr en nokkrum dögum seinna. Ekki hafi verið sérstök vakt með lestarfrystingunni en vélstjórar hafi litið um borð af og til meðan beðið var löndunar til að aðgæta hvort ekki væri í lagi með búnað skipsins.

                Er yfirvélstjóri skipsins, Smári Jónatansson, hafi litið eftir skipinu þann 18. apríl hafi hann orðið var við að frystivéladæla hafði stöðvast og hefði lofthiti í lestinni hækkað úr -32° C í -5° C. Hann hafi þegar ræst aðra frystivéladælu og hafi frost í lestinni farið aftur í -32° C. Er landað hafi verið úr skipinu daganna 20.-21. apríl hafi komið í ljós að frost í rækjunni hafi aðeins verið -18° C. Vegna þessa hafi gæði rækjunnar orðið nokkuð lakari en ella. Skemmdir á rækjunni hafi lýst sér í hvítum flekkjum á yfirborði hennar.

                Stefnandi hafi fyrir veiðiferðina keypt af stefnda afla- og veiðifæratryggingu fyrir tjóni allt að 15.000.000 króna. Hafi stefnandi sérstaklega keypt tryggingu fyrir tjóni á afla vegna bilunar í frystitækjum, sbr. 5. tl. skilmála félagins um afla- og veiðifæratryggingu.

                Viðskipti stefnanda við stefnda hafi farið í gegnum umboðsaðila stefnda á Akureyri, Vélbátatryggingu Eyjafjarðar. Er bilunarinnar hafi orðið vart hafi stefnandi tilkynnt tjónið til umboðsaðila stefnda símleiðis, sem hafi þegar tilkynnt tjónið til stefnda.

                Ekki hafi verið ljóst hvað hafi nákvæmlega valdið því að nefnd frystivél drap á sér, en óumdeilt sé að einhverskonar bilun hafi valdið því. Er farið var yfir umrædda frystivél og hún ræst, hafi hún gengið eðlilega. Vélstjórar skipsins hafi enga ótvíræða skýringu fundið á því hvers vegna vélin drap á sér, en þeir hafi talið líklegustu skýringuna vera þá að óhreinindi úr höfninni hefðu lagst fyrir sjóinntak sjódælu fyrir frystivélina með þeim afleiðingum að vélin hafi ofhitnað og slegið út.

                Eftir umræður við umboðsmann stefnda hafi það verið sameiginleg niðurstaða aðila að mat á skemmdum rækjunnar væri ómögulegt og að best væri að meta það út frá þeim verðum sem fengjust fyrir hana á Japansmarkaði, þar sem til hafi staðið að selja hana.

                Rækjan hafi verið seld fyrir milligöngu Íspóla hf. í Reykjavík til Japans, en vegna of lítillar kælingar hafi ekki fengist fullt verð fyrir hana. Í bréfum Íspóla frá 16. júlí 1993 komi hvort tveggja fram það verð sem fékkst fyrir rækjuna á Japansmarkaði og verð á óskemmdri rækju á sama markaði á sama tíma. Hafi verð hennar reynst um 15-25% lægra en almennt verð á þeim tíma fyrir óskemmda rækju. Er tjón stefnanda hafi verið ljóst hafi hann komið upplýsingum um það áleiðis til umboðsmanns stefnda með bréfi dags. 16. júlí 1993.

                Með bréfi dags. 16. september 1993 hafi stefndi hafnað bótaskyldu á tjóni stefnanda með vísan til eigin sakar og 52. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, þ.e. með vísan til þess að stefnandi hafi ekki takmarkað tjón sitt sem skyldi. Aðilar hafa síðan deilt um bótaskyldu stefnda á tjóninu og hafi krafa stefnanda á hendur stefnda verið ítrekuð með bréfi lögmanns stefnanda dags. 27. september 1996. Þar hafi verið óskað nánari skýringa á því hvað stefndi ætti við með því að stefnandi hafi ekki takmarkað tjón sitt sem skyldi.

                Með bréfi lögmanns stefnda dags. 24. október 1996 hafi bótaábyrgð stefnda verið hafnað. Í bréfinu hafi verið borið við ýmsum nýjum málsástæðum gagnvart stefnanda sem ekki hefðu komið fram áður, m.a. hafi verið bornar brigður á að tjón stefnanda hafi mátt rekja til bilunar í frystibúnaði og að tjónið hafi ekki verið tilkynnt án tafar. Stefnandi kveðst hafna þessum málavöxtum sem röngum, m.a. með vísan til bréfs fyrrverandi umboðsmanns stefnda, dags. 6. febrúar 1997.

                Stefnandi byggir kröfuna á hendur stefnda á vátryggingarsamningi aðila dags. 1. febrúar 1993 þar sem stefnandi hafi keypt af stefnda afla- og veiðifæratryggingu vegna skips félagins Sigurfara ÓF-30 fyrir tjóni allt að 15.000.000 króna. Hafi sérstaklega verið samið um tryggingu vegna tjóns á frystum fiski vegna bilunar í frystitækjum. Um skilmálana hafi að öðru leyti gilt lög nr. 20/1954, sbr. 1. og 3. gr. laganna.

                Samkvæmt skilagrein Íspóla hf. til stefnanda, dags. 21. maí 1993, vegna nefndrar rækjusölu sé tjón stefnanda þannig sundurliðað:

Tegund

Kassar

Kg.

Eðlilegt verð (JPY/Kg)

Söluverð (JPY/Kg)

Tjón (JPY)

LL

204

2.448

2.450

1.800

1.591.200

L

350

4.200

970

800

741.000

M

490

5.880

530

450

470.400

Samtals

2.775.600

                Samkvæmt þessu hafi tjón stefnanda vegna skemmda á rækjunni numið 2.775.600 japönskum jenum eða 1.597.802 krónum miðað við gengi japanska jensins á greiðsludegi þann 21. maí 1993, þ.e. 0,57566 ísl. krónur fyrir japanskt jen. Til samanburðar varðandi verð á þessum tíma á Japansmarkaði hafi stefnandi lagt fram skilagrein frá Íspólum hf., dags. 14. apríl 1993, vegna næstu veiðiferðar á undan.

                Í samræmi við áskilnað 21. gr. laga nr. 20/1954 hafi fyrirsvarsmaður stefnanda þegar tilkynnt umboðsmanni stefnda símleiðis um bilunina. Hafi það verið í samráði við umboðsmann stefnda að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi frestað löndun rækjunnar meðan frost hafi verið keyrt upp í lestinni að nýju og eins hafi það verið sameiginleg niðurstaða þeirra að mat á tjóni vegna þessa væri vart framkvæmanlegt með öðrum hætti en að sjá hvaða verð stefnandi fengi fyrir rækjuna á markaði í Japan, þar sem til hafi staðið að selja rækjuna.

                Umboðsmaður stefnda hafi þegar tilkynnt stefnda um tjónið eftir að hafa fengið tilkynningu stefnanda. Af hálfu stefnda hafi hvorki verið gerðar athugasemdir við tilkynningu stefnanda um orsök eða ástæður tjónsins né hafi stefndi óskað eftir rannsókn eða mati á skemmdum. Stefndi hafi heldur ekki framkvæmt slíka rannsókn eða mat, svo sem honum hafi verið í sjálfsvald sett. Stefnandi byggir á því að stefndi verði að bera hallann af vafa um orsök tjónsins og að það hafi alfarið verið á ábyrgð stefnda að eftir tilkynningu um tjónið hafi hvorki verið framkvæmdar þær rannsóknir né athuganir, sem stefndi hafi síðar talið nauðsynlegar. Þá verði að telja of seint fyrir stefnda að véfengja nú skýringar stefnanda á orsökum tjónsins eða fara fram á rannsókn eða öflun sönnunargagna af hans hálfu, eða hafna nú bótagreiðslu á þeim forsendum, enda ljóst að stefnandi eigi enga möguleika á því að færa fram frekari sönnur fyrir orsökum tjónsins nú, 4 árum eftir að það hafi átt sér stað.

                Í bréfi lögmanns stefnda dags. 24. október 1996 sé því haldið fram að tilkynning stefnanda til umboðsmanns stefnda um tjónsatburðinn hafi ekki verið fullnægjandi tilkynning, samkvæmt 21. gr. laga nr. 20/1954 og að „engum hafi verið það ljóst að til stæði að hafa uppi bótakröfur vegna þessa, enda var ekkert sem benti til þess að frystitæki skipsins væri biluð.” Af hálfu stefnanda er þessari málsástæðu stefnda mótmælt. Stefnandi heldur því fram að umboðsmaður stefnda hafi ekki verið í neinum vafa um það hver tilgangur tilkynningarinnar um tjón hafi verið. Að öðru leyti kunni stefnandi ekki skýringar á því hvernig starfsmenn stefnda hafi misskilið umboðsmann sinn svo eða ástæður tjónatilkynningar stefnanda.

                Stefnandi bendir á að í bréfi fyrirsvarsmanns stefnda, dags. 16. september 1993, hafi ekki verið fundið að tilkynningu um tjónið og að í bréfinu felist viðurkenning stefnda á því að um bótaskylt tjón hafi verið að ræða, enda komi sjónarmið um bótalækkun eða niðurfellinu vegna eigin sakar eða athafnarleysis samkvæmt 52. gr. laga nr. 20/1954 ekki til skoðunar nema bótaskylda sé fyrir hendi.

                Af hálfu stefnanda er þeirri málsástæðu stefnda mótmælt að bótaskylda hans hafi fallið niður fyrir tómlæti, enda sé hún í andstöðu við 29. og 30. gr. laga nr. 20/1954.

                Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. maí 1993 en þann dag hafi stefnandi fengið uppgert frá Pólum hf. og dráttarvaxta frá 16. ágúst 1993 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi hefði lagt fram kröfu, studda nauðsynlegum gögnum, á hendur stefnda, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 25/1987. 

                Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Af hálfu stefnda hefur komið fram að stefnandi sæki á hendur stefnda í máli þessu um vátryggingabætur vegna skemmda á rækjufarmi, sem stefnandi telji að hafi orðið um borð í skipi sínu Sigurfara ÓF-30 við bryggju á Ólafsfirði, eftir að skipið kom úr veiðiferð 16. apríl 1993. Telji stefnandi að frystivél skipsins hafi bilað og þess vegna hafi hitastig í lest skipsins hækkað og hafi það valdið hinum meintu skemmdum á rækjufarminum sem í lestinni var. Óumdeilt sé að stefnandi hafi keypt aflatryggingu hjá stefnda með þeim skilmálum sem greinir á dskj. nr. 3, þ.m.t. að tryggt væri fyrir tjóni á frystum fiski vegna bilunar frystitækja.            

                Stefndi styður kröfur sínar í málinu eftirfarandi rökum:

                Svo sem fram komi í skilmálum tryggingarinnar á dskj. nr. 3 hafi verið vátryggt fyrir tjóni vegna bilunar frystitækja. Ekkert hafi komið fram í málinu, sem bendi til þess að frystitæki skipsins hafi bilað. Þvert á móti liggi fyrir og sé raunar óumdeilt, að ekkert hafi verið athugavert við frystivélina sem sagt er að gangsett hafi verið við komu skipsins til hafnar 16. apríl 1993. Komi m.a. fram í skýrslu yfirvélstjórans á dskj. nr. 12 að vélin hafi verið gangsett að nýju eftir tjónsatburðinn án þess að nokkur viðgerð hafi farið fram á henni og allt verið í lagi með hana. Eins og málið liggi fyrir sé líklegast að skipverjar hafi hreinlega gleymt að ræsa vélina þegar þeir fóru frá borði 16. apríl 1993. Af hálfu stefnanda hafi komið fram sú tilgáta að sjóinntak sjódælu fyrir frystivélarnar hafi stíflast og það hafi valdið því að vélin sem um ræðir hafi drepið á sér. Þessi tilgáta sé í sjálfu sér ótrúverðug, enda hafi vélin farið í gang að nýju án þess að þyrfti að losa nokkra stíflu. Að auki er í því sambandi á það bent að sú hækkun á hitastigi í lestinni sem stefnandi segi að hafi orðið, frá því menn fóru frá borði og þar til yfirvélstjórinn hafi uppgötvað að vélin hafi ekki verið í gangi rúmum sólarhring síðar, hafi verið það mikil að líklegast sé að dautt hafi verið á vélinni allan þennan tíma. Útreikningar sem stefndi hafi látið Útgerðartækni hf. gera á varmastreymi í lest Sigurfara ÓF 30 við þær aðstæður sem stefnandi segi að verið hafi dagana 16.-18. apríl 1993 bendi eindregið til þess að engin frystivél hafi verið í gangi í lestinni allan þennan tíma og þar með að hreinlega hafi gleymst að ræsa vélina, þegar menn hafi farið frá borði 16. apríl. En jafnvel þó að tilgáta stefnanda um tjónsorsökina væri rétt er af hálfu stefnda talið ljóst að það geti aldrei talist bilun í frystitækjum, sem falli undir skilmála vátryggingarinnar. Óhreinindi sem leggist fyrir sjóinntak geti ekki talist bilun í vél ef stuðst sé við eðlilega merkingu orða í tungumálinu. Sönnunarbyrði um að tjónið verði rakið til bilunar frystitækja hvíli að sjálfsögðu á stefnanda. Leiði þetta strax til sýknu.      

                Fari svo að dómurinn hafni þessum sýknuástæðum er á því byggt að óforsvaranleg varsla og eftirlit hafi verið um borð í skipinu þann tíma sem liðið hafi frá því farið var frá borði 16. apríl og þar til það hafi uppgötvast 18. apríl að frystivél hafi ekki verið í gangi. Hafi rík ástæða verið til að hafa slíkt eftirlit, ekki síst vegna þess sem stefnandi hafi sagt, að ný frystivél hafi verið gangsett við komu skipsins til hafnar. Í skýrslu yfirvélstjórans á dskj. nr. 12 komi fram að vélstjórar skipsins hafi litið um borð af og til þó að þeir hafi verið í fríi. Hann segi jafnframt í skýrslunni að um leið og pressan stöðvist kvikni aðvörunarljós í frystivélarrými sem logi meðan pressan gangi ekki. Af þessu sé ljóst að annað hvort hafa vélstjórar skipsins alls ekki komið um borð til eftirlits á umræddu tímabili eða þeir hafa ekki athugað hvort aðvörunarljósið hafi logað.  Í báðum tilvikum sé ljóst að eftirliti hafi verið verulega áfátt. Byggir stefndi á því að þetta hljóti að teljast falla undir stórkostlegt gáleysi eins og hér hafi staðið á, sem leiði til lausnar frá ábyrgð samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga.

                Af hálfu stefnda er á því byggt, hvað sem öllu framangreindu líði, að stefnandi hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt  21. gr. laga nr. 20/1954 um að skýra stefnda þegar í stað frá því að hann ætlaði að hafa uppi kröfur um vátryggingabætur vegna skemmda á rækjufarminum. Það sé að vísu ljóst að umboðsmanni stefnda hafi verið skýrt frá atvikinu eftir að tjónið hafi uppgötvast. Hins vegar hafi ekkert bent til þess að frystitæki skipsins væru biluð. Engin bein tilkynning hafi verið gefin strax í kjölfar atviksins um að til stæði að hafa uppi kröfur vegna þess. Stefndi hafi því aldrei haft tilefni til að láta fara fram rannsókn á orsökum þess að frost féll í lestinni og á ástandi farmsins. Stefnandi hafi ekkert frumkvæði haft að því að láta slíka rannsókn fara fram, eins og honum hafi borið að gera hefði hann haft í hyggju að hafa uppi kröfur um vátryggingabætur. Af þessu hljóti hann að bera hallann.     

                Með bréfinu frá 16. september 1993 á dskj. nr. 11 hafi stefndi synjað bótaskyldu. Eftir það hafi ekkert heyrst frá stefnanda um málið í þrjú ár eða til 27. september 1996, er hann hafi sent bréfið á dskj. nr. 13. Af hálfu stefnda er á því byggt, hvað sem öðru líði, að með þessu aðgerðarleysi um svo langan tíma teljist stefnandi hafa samþykkt synjun stefnda á skyldunni til greiðslu vátryggingabóta.

                Af hálfu stefnda er fjárhæð dómkröfu stefnanda sérstaklega mótmælt. Svo sem fram komi í stefnu byggi stefnandi fjárhæð kröfunnar á meintum mismun á því verði sem hann kveðst hafa fengið fyrir rækjuna á Japansmarkaði er hann seldi hana í maí 1993, sbr. dskj. nr. 6 og 7, og því verði sem hann telji sig hafa getað fengið fyrir hana óskemmda, sbr. dskj. nr. 7. Í tilefni af þessu hafi stefndi aflað upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun um eðlilegt verð á rækju í japönskum jenum í maí 1993 miðað við þá stærðarflokka sem stefnandi hafi gefið upp á hinni skemmdu rækju. Í bréfi Þjóðhagsstofnunar á dskj. nr. 21 komi fram að verðið á óskemmdri rækju hafi verið mun lægra fyrir stærðarflokkana 50/70 og 70/90 heldur en stefnandi miði kröfugerð sína við. Séu verð Þjóðhagsstofnunar fyrir þessa stærðarflokka sett inn í töflu stefnanda á stefnunni fáist sú niðurstaða að meint tjón hans hafi numið 1.250.400 japönskum jenum en ekki 2.775.600, eins og hann miði kröfugerð sína við. Með því gengi sem stefnandi miði við sé fjárhæðin í íslensum krónum 719.805,- í stað stefnufjárhæðarinnar 1.597.802 króna.

                Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt og færð fyrir því eftirfarandi rök:

                Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist vaxtakröfur á 4 árum. Eldri vextir en frá 11. desember 1993 séu því fyrndir, en málið hafi verið þingfest 11. desember 1997. Af hálfu stefnda er krafist sýknu af fyrndum vöxtum. Þá er mótmælt upphafstíma dráttarvaxtakröfu. Ekki komi til greina að kröfuhafi geti haldið að sér höndum um lögsókn fyrir umdeildri kröfu um svo langan tíma sem hér um ræði og krafist dráttarvaxta af henni allan þann tíma. Er í því sambandi bent á að stefnandi hafi þegar á árinu 1993 undir höndum allar þær upplýsingar sem hann nú byggi kröfu sína á. Verði fallist á kröfur hans að einhverju leyti geti ekki verið rétt að dæma honum dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá þingfestingu 11. desember 1997. Er vísað til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sem beita beri með lögjöfnun sé ákvæðið ekki talið eiga beint við.

                Um málskostnaðarkröfu er af hálfu stefnda vísað til ákvæða í 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstöður.

                Samkvæmt 5. lið vátryggingaskilmálanna, sem stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á, ber stefnda að bæta tjón stefnanda á frystum fiski vegna bilunar frystitækja í skipinu Sigurfara ÓF-30. 

                Samkvæmt framburði yfirvélstjóra skipins fyrir dóminum gangsetti hann aðra af tveimur frystipressum í vélarrúmi skipsins að kvöldi 16. apríl 1993 áður en hann fór frá borði. Þegar hann kom aftur um borð að morgni 18. apríl s.á. til eftirlits hafði frystipressan stöðvast en aðvörunarljós hafði kviknað til merkis um það. Yfirvélstjórinn gangsetti strax hina frystipressuna. Þrátt fyrir það hafði hitastig hækkað í lestinni og komu síðar fram skemmdir eða útlitsgallar á rækjunni vegna þess. Þá liggur fyrir að dagana sem skipið var í höfn var ekki stöðugt eftirlit með frystikerfinu heldur fóru vélstjórar öðru hvoru um borð til eftirlits og þá í frítíma sínum.

                Ekki liggur fyrir hverjar ástæður voru fyrir því að frystipressan stöðvaðist. Þó er ljóst að pressan hefur ofhitnað annað hvort vegna þess að kæling hefur verið ófullnægjandi eða af öðrum ástæðum. Enn fremur hefur komið fram að frystipressan virkaði eðlilega þegar hún var gangsett síðar án þess að nokkur viðgerð færi fram á henni. Gera verður ráð fyrir því að við ofhitnun hafi myndast of mikill þrýsingur í búnaði frystipressunnar en afleiðing þess hefur orðið sú að kerfið hefur slegið út. Ekkert bendir þó til að atvik þessi sé unnt að rekja til bilunar á frystibúnaðinum sjálfum heldur hafi hann virkað eðlilega þegar búnaðurinn slökkti á frystipressunni vegna yfirþrýstings. Verður að telja með vísan til þessa og þeirra málsatvika sem tekist hefur að upplýsa í málinu að varnarbúnaður frystipressunnar hafi unnið eðlilega þegar hún ofhitnaði og stöðvaðist.  

                Að þessu virtu verður að telja ósannað að stöðvun frystipressunnar verði rakin til bilunar í frystitækjum. Samkvæmt því verður 5. liður vátryggingaskilmálanna ekki talinn eiga við um atvikin er leiddu til tjónsins sem stefnandi varð fyrir er hitastig hækkaði í lestum skipsins þar sem rækjan var geymd. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

                Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.    

                Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Ásgeiri Guðnasyni vélfræðingi og Magnúsi Helga Árnasyni héraðsdómslögmanni.

Dómsorð:

                Stefndi, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Sædísar ehf., í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.