Hæstiréttur íslands

Mál nr. 334/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Laun


Þriðjudaginn 21. júní 2011.

Nr. 334/2011.

Arnar Arnarsson

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Slit. Réttindaröð. Laun.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sem hann hafði lýst við slit L hf. A hóf störf hjá L hf. vorið 2003 sem verðbréfamiðlari og starfaði þar þar til honum var sagt upp 24. október 2008. Krafa A byggði á kaupréttarsamningi milli hans og L hf. frá 11. febrúar 2004. Í úrskurði héraðsdóms var talið að ekki yrði annað ráðið af ákvæðum kaupréttarsamningsins en að A hefði eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi og gegn ákveðnu endurgjaldi á ákveðnu tímamarki. L hf. hefði því einungis verið skuldbundinn til þess að afhenda A hlutabréf gegn greiðslu frá honum. Krafa A væri fjárkrafa en af samningnum sjálfum og vætti framkvæmdastjóra starfsmannasviðs L hf. yrði skýrlega ráðið að um hlutabréfaviðskipti hefði verið að ræða. Hvorki væri kveðið svo á um í kaupréttarsamningnum né ráðningarsamningi A að hann ætti fjárkröfu á hendur L hf. Væri því ekki í ljós leitt að A hefði á grundvelli kaupréttarsamningsins eignast fjárkröfu á hendur L hf. og var kröfu á grundvelli samningsins því hafnað. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans og dóms Hæstaréttar 5. apríl 2011 í máli nr. 122/2011.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson  og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 17. maí 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2011 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila sem hann lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 16. september 2009 að höfuðstól 46.575.000 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 17.621.058 krónur verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að framangreindri kröfu verði skipað í flokk almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og að sóknaraðili geti dregið skuld sína við varnaraðila frá kröfu sinni á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. apríl 2011 í máli nr. 122/2011, verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Arnar Arnarsson, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2011.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 6. apríl sl., var þingfest 28. júní 2010.

Sóknaraðili er Arnar Arnarsson, Reykjavík.

Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 46.575.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. desember 2007 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 17.621.058 krónur verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að sóknaraðili geti dregið skuld sína við varnaraðila frá kröfu sinni á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Málsatvik

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila vorið 2003 og starfaði hjá honum þar til honum var sagt upp með uppsagnarbréfi 24. október 2008.

Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi varnaraðila 7. október 2008 samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Nýi Landsbanki Íslands hf. (nú NBI hf.) var stofnaður og voru innlendar eignir varnaraðila og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.

Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila sem móttekin var 2. október 2009 af slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti kröfunni sem forgangskröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Kröfuhafafundur var haldinn 24. febrúar 2010 um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar varnaraðila til viðurkenningar þeirra. Krafa sóknaraðila er nr. 1373 á kröfuskránni. Slitastjórn hafnaði kröfu sóknaraðila með öllu. Af hálfu sóknaraðila var afstöðu slitastjórnar mótmælt á kröfuhafafundum. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 5. maí 2010 og mótteknu 25. maí s.á., var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Krafa sóknaraðila byggir á kaupréttarsamningi milli sóknaraðila og varnaraðila, dagsettum 11. febrúar 2004.

Í kaupréttarsamningnum segir m.a. eftirfarandi:

Kaupréttarsamningur þessi, hér eftir nefndur ,,samningurinn“ er gerður þann 11. febrúar 2004 á milli Landsbanka Íslands hf. kt. 540291-2259, Austurstræti 5, Reykjavík, hér eftir nefnt ,,félagið“ og Arnars Arnarssonar, kt. 040374-5749, hér eftir nefndur ,,starfsmaður“ og er hluti af ráðningarsamningi við starfsmanninn.

Í 1. gr. kaupréttarsamningsins, þar sem kveðið er almennt á um kauprétt starfsmanns segir m.a: Félagið skuldbindur sig til þess að afhenda starfsmanni kauprétt til þess að kaupa þau hlutabréf sem honum standa til boða og koma fram í 2. gr. samningsins á því verði er fram koma í 2. gr. samningsins. Kauprétturinn telst ekki hafa verið afhentur né verður nýtanlegur hafi starfsmaður ekki undirritað þennan kaupréttarsamning og afhent félaginu afrit af honum. Eftir slíka undirritun og afhendingu verður starfsmanni heimilt að nýta kauprétt sinn á kaupréttartímabili því sem fram kemur í 2. gr. samningsins.

Í 2. gr. samningsins, þar sem kveðið er á um kauprétt, tímamörk og nýtingu kaupréttar, segir m.a: Heildarkaupréttur samkvæmt samningi þessum eru 2.500.000 hlutir í Landsbanka Íslands hf. og ákvarðast kaupverð samkvæmt samningnum kr. 7,0 pr. hlut miðað við dagsetningu samningsins. Kaupverð á kaupdegi ákvarðast sem kaupverð samkvæmt samningnum að teknu tilliti til útgreidds arðs félagsins frá því að samningur er gerður og þar til af kaupum verður á þann hátt að hvert prósent nafnverðs sem greitt er út í arð kemur til lækkunar á kaupverði sem nemur 0,01 kr. pr. hlut.

Áunninn kaupréttur starfsmanns samkvæmt samningi þessum er sem hér segir:

1. desember 2004: 1.000.000 hlutir að kaupverði kr. 7.000.000 m.v. samningsdag (40%)

1. desember 2005: 500.000 hlutir að kaupverði kr. 3.500.000 m.v. samningsdag (20%)

1. desember 2006: 500.000 hlutir að kaupverði kr. 3.500.000 m.v. samningsdag (20%)

1. desember 2007: 500.000 hlutir að kaupverði kr. 3.500.000 m.v. samningsdag (20%)

…

Þann 1. desember 2007, þegar heildarkaupréttur samkvæmt samningi þessum er orðinn áunninn, er starfsmanni heimilt að nýta sér 60% af kauprétti sínum. Það sem eftir er af áunnum kauprétti skal starfsmanni vera heimilt að nýta sér 1. desember 2008 og 1. desember 2009 og er heimil nýting 20% af heildarkauprétti í hvort sinn.

Starfsmaður nýtir sér kauprétt sinn með því að tilkynna félaginu um hve mikinn kauprétt hann vill nýta. Á þeim degi er starfsmaður hefur heimild til nýtingar kaupréttar hefur hann 90 daga til þess að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu þess kaupréttar sem hann hefur áunnið sér og hann má nýta. Með tilkynningu um nýtingu kaupréttar skal fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa. Starfsmanni er heimilt að greiða innlausnarverðið með peningum, með veðskuldabréfi til 3ja ára. Tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupréttar innan 90 daga frestsins telst heimild til nýtingar á kauprétti fallin niður og áunninn kaupréttur sem nemur sömu fjárhæð telst einnig fallinn niður…

Að öðru leyti en ofan greinir eru málsatvik umdeild. Sóknaraðili kveðst hafa tilkynnt Atla Atlasyni, starfsmannastjóra varnaraðila, munnlega í desember 2007 að hann hygðist nýta kauprétt sinn. Í framhaldi af því hafi sóknaraðili rætt við Atla um frágang á uppgjöri. Atli hafi reiknað út verðmæti kaupréttar sóknaraðila og hafi hann miðað við gengi hluta í varnaraðila 3. desember 2007. Samkvæmt útreikningi Atla væri kaupauki sóknaraðila 46.575.000 krónur.

Sóknaraðili kveður uppgjör kauprétta af hálfu varnaraðila almennt hafa gengið greiðlega fyrir sig og hafi farið fram með þeim hætti að varnaraðili hafi leyst hluti kaupréttarhafa til sín gegn greiðslu reiðufjár sem hafi svarað til mismunar á gangverði hlutanna annars vegar og grunnverði þeirra á uppgjörsdegi hins vegar. Þessi mismunur hafi verið meðhöndlaður sem laun og greiddur af honum tekjuskattur og önnur launatengd gjöld.

Varnaraðili hafi sífellt frestað uppgjöri á kauprétti sóknaraðila, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi ítrekað krafist þess við yfirmann sinn, forstöðumann verðbréfasviðs, sem hafi komið því á framfæri við Atla Atlason.

Sóknaraðili kveðst hafa verið í skuld við varnaraðila sem hafi að mestu svarað til kaupaukans sem gera hafi átt upp með honum. 

Sóknaraðili hafi náð samkomulagi við varnaraðila 25. september 2008 um að varnaraðili greiddi honum 36.297.170 krónur fyrir áunninn en óinnleystan kauprétt 1. desember 2007 í stað 46.575.000 króna. Fjárhæðina skyldi greiða sem laun innan 30 daga frá undirritun og draga frá henni skatta og framlag í lífeyrissjóð. Skömmu síðar hafi Atli Atlason haft samband við sóknaraðila og sagst vilja hækka viðmiðunargengi kaupanna úr 31,75 krónu á hlut í 34,65 krónur á hlut og fresta greiðslu til 1. janúar 2009. Sóknaraðili hafi fallist á þessa breytingu, en hún hafi verið í samræmi við aðra samninga varnaraðila um uppgjör kaupréttar til starfsmanna sinna. Sóknaraðili kveðst ekki vera bundinn af þeirri eftirgjöf á kaupaukanum sem felist í þessum samningum, enda hafi varnaraðili ekki staðið við þá.

Varnaraðili mótmælir málsatvikalýsingu sóknaraðila. Varnaraðili mótmælir því í fyrsta lagi að sóknaraðili hafi tilkynnt þáverandi starfsmannastjóra varnaraðila um nýtingu kaupréttar í desember 2007 og/eða að slík tilkynning hafi verið í samræmi við 5. mgr. 2. gr. kaupréttarsamnings aðila. Þá er því mótmælt sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi í framhaldi meintrar tilkynningar sinnar rætt við starfsmannastjórann um frágang á uppgjöri.

Í öðru lagi mótmælir varnaraðili meintum útreikningum fyrrverandi starfsmannastjóra varnaraðila á meintu verðmæti kaupréttar sóknaraðila. Skjalið sé óundirritað, ódagsett og án allra forsendna sem slitastjórn varnaraðila kynni að geta stuðst við til að staðreyna réttmæti fjárhæðarinnar og þar með útreikninga sem sóknaraðili byggi kröfu sína á.

Í þriðja lagi er því mótmælt að varnaraðili hafi almennt gert upp kauprétti með því að leysa hluti kaupréttarhafa til sín gegn greiðslu reiðufjár sem svarað hafi til mismunar á gangverði hlutanna annars vegar og grunnverði þeirra á uppgjörsdegi hins vegar. Í kaupréttarsamningum sem varnaraðili hafi verið aðili að, hafi komið skýrt fram með hvaða hætti væri unnt að nýta umsaminn kauprétt og hvernig viðsemjendum bæri að greiða fyrir þau hlutabréf sem þeir hafi viljað kaupa á grundvelli samninganna. Í tilviki sóknaraðila séu ákvæði um uppgjör áunnins og nýtanlegs kaupréttar í 5. mgr. 2. gr. samningsins. Þar komi skýrt fram að með tilkynningu starfsmanns um nýtingu kaupréttar skuli fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem hann vilji kaupa og að heimilt sé að greiða innlausnarverðið með peningum eða með veðskuldabréfi til þriggja ára. Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi átt fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli kaupréttarsamnings aðila.

Í fjórða lagi mótmælir varnaraðili því að samkomulag aðila frá 25. september 2008 hafi þýðingu varðandi efni og uppgjör kaupréttarsamnings aðila. Þá er því mótmælt að samkomulagið sanni hvernig varnaraðili hafi staðið að uppgjöri kaupréttar. Varnaraðili kveður að kaupréttarsamningur aðila sé tvíhliða samningur og kveði á um réttindi og skyldur bæði varnaraðila og sóknaraðila. Enga heimild megi finna í samningnum fyrir einhliða frestun á uppgjöri. Hafi sóknaraðili talið varnaraðila hafa vanefnt samninginn hafi honum verið í lófa lagið að gera kröfu á hendur varnaraðila um uppgjör samningsins í kjölfar meintrar tilkynningar um nýtingu kaupréttar ásamt fullri greiðslu fyrir þau hlutabréf sem hann hafi viljað kaupa. Hefði komið til uppgjörs milli aðila á grundvelli samkomulagsins frá 25. september 2008 byggir varnaraðili á því að slík greiðsla hefði verið riftanleg á grundvelli 131. gr. og/eða 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá sé frestdagur í tilviki varnaraðila 15. nóvember 2008, en ekki 22. apríl 2009 eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur sóknaraðili sjálfur og Atli Atlason fyrrum framkvæmdastjóri starfsmannasviðs varnaraðila.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að kaupréttarsamningur hans og varnaraðila frá 11. febrúar 2004 hafi verið hluti af ráðningarsamningi hans og varnaraðila. Saman myndi þessir tveir samningar ásamt kjarasamningi bankamanna ramma um laun sóknaraðila hjá varnaraðila. Launin hafi falist í föstum mánaðarlaunum, árangurstengdum árlegum kaupauka og kaupauka háðum veru í starfi um fyrir fram ákveðinn tíma að lágmarki. Sá kaupauki hafi verið háður gengi hluta í varnaraðila og því falið í sér vísitölubindingu launa sóknaraðila að hluta.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi með vinnu sinni í þágu varnaraðila að fullu efnt allar samningsskyldur sínar samkvæmt samningum hans og varnaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar aðeins að hluta efnt skyldur sínar. Eigi sóknaraðili því lögvarða kröfu á hendur varnaraðila um efndir ráðningarsamnings síns. Sú krafa sé um greiðslu peninga sem svari til verðmætis kaupréttar, sem sóknaraðili hafi unnið sér inn og greiða hafi átt í desember 2007. Hinn 1. desember 2007 hafi sóknaraðili verið búinn að vinna sér inn kauprétt á 2.500.000 hlutum í varnaraðila og mátt leysa 60% þeirra til sín í 90 daga talið frá 1. desember 2007. Kauprétturinn hafi því verið endurgjald fyrir vinnu sóknaraðila í þágu varnaraðila; endurgjald í formi kaupauka bundinn hækkun á verði hluta í varnaraðila.

Sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila að hann nýtti sér kaupréttinn og hafi óskað eftir uppgjöri hans. Varnaraðili hafi gert kauprétti upp með peningagreiðslu til kaupréttarhafa; peningagreiðslu kaupauka, sem hafi svarað til mismunar á grunnverði hluta samkvæmt kaupréttarsamningum og gangverði þeirra í kauphöll við nýtingu kaupréttarins. Mismunur grunnverðs og gangverðs hafi myndað tekjuskattsskyld laun hjá kaupréttarhafa. Við uppgjör kaupaukans hafi varnaraðili dregið staðgreiðslu, tryggingargjald og lífeyrisframlag af launum þessum og skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og lífeyrissjóðs kaupréttarhafans. Kauprétturinn hafi falið í sér lögvarða fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila og uppgjör kaupréttarins af hálfu varnaraðila hafi verið  launagreiðsla í skilningi vinnu- og skattaréttar.

Sóknaraðili byggir á því að hugtakið laun í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotskipti o.fl. nr. 21/1991 beri að skýra rýmkandi lögskýringu og í samræmi við almenna skýringu hugtaksins laun í íslenskum vinnu- og skattarétti. Sé greiðsla vinnuveitanda til starfsmanns t.d. tekjuskattsskyld verði að telja hana til launa í merkingu  1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í lögskýringargögnum með lögunum komi ekkert fram sem bendi til þess að launahugtak laganna skuli skýra þrengra eða með öðrum hætti en í vinnurétti. Telji varnaraðili kaupréttarkröfu sóknaraðila ekki laun telur sóknaraðili að hún sé ,,annað endurgjald“ fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila og  því forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili telur að uppgjör varnaraðila við sóknaraðila vegna vinnu hans í þágu varnaraðila frá miðju ári 2003 til loka október 2008 eigi að fara fram í samræmi við samninga aðilanna og á þann hátt sem varnaraðili hafi haft á uppgjöri kauprétta. Slitastjórn varnaraðila geti ekki breytt einhliða þeim uppgjörsmáta á kaupréttum sem varnaraðili hafi viðhaft og um hafi verið samið milli sóknaraðila og varnaraðila.

Sóknaraðili féll frá málsástæðum þeim er lúta að gildi laga nr. 125/2008.

Verði krafa sóknaraðila ekki samþykkt sem forgangskrafa, kveður hann að hana beri að viðurkenna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili byggir á því að hann hafi þá rétt til að skuldajafna kröfu sinni við kröfu varnaraðila á hendur honum. Hafi varnaraðili framselt kröfur sínar á hendur sóknaraðila í andstöðu við reglur 20. gr. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., byggir sóknaraðili á því að hann eigi skaðabótakröfu, búskröfu, á hendur varnaraðila. Geti sóknaraðili ekki fengið almenna kröfu sína að fullu greidda með skuldajöfnuði mótmælir hann því að innlán, sem hafi verið almennar kröfur þegar hann hafi unnið sér inn laun þau sem mál þetta snúist um, standi framar kröfu hans.

Sóknaraðili hafi verið í skuld við varnaraðila þegar uppgjör kaupréttarins hafi átt að fara fram. Þá skuld hafi hann ætlað að greiða með skuldajöfnuði. Á þeim tíma þegar varnaraðili hafi komist í greiðsluþrot og stjórn hans verið sett af hafi krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila numið 48.374.306 krónum, samkvæmt upplýsingum frá Atla Atlasyni. Gögn um það hafi þó ekki verið afhent. Kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi annars vegar verið samkvæmt verðtryggðu veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, tryggðu með fyrsta veðrétti í Einimel 3, Reykjavík, og hins vegar skuldir að baki tryggingarbréfi að fjárhæð 30.000.000 króna, tryggðu með 2. veðrétti í Einimel 3.

Þegar ljóst hafi orðið að skilanefnd varnaraðila hafi ekki ætlað að standa við uppgjör kaupréttarins og sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum hjá varnaraðila hafi hann greitt upp skuld sína við varnaraðila sem var að baki áhvílandi tryggingarbréfi með láni hjá Lífeyrissjóði bankamanna að fjárhæð 25.000.000 króna.

Sóknaraðili byggir fjárhæð kröfu sinnar á útreikningi Atla Atlasonar, fyrrum starfsmannastjóra varnaraðila. Samkvæmt útreikningi varnaraðila hafi verðmæti kaupréttar og þar með kaupauka sóknaraðila 3. desember 2007 numið 46.575.000 krónum. Dráttarvextir séu reiknaðir frá gjalddaga kaupaukakröfunnar 3. desember 2007 til 22. apríl 2009, sem sé frestdagur við slit sóknaraðila. Fjárhæð dráttarvaxta á þessu tímabili sé 17.621.058 krónur. Varnaraðili hafi hvorki andmælt höfuðstól kröfunnar né upphafstíma og fjárhæð dráttarvaxta.

Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Varakrafa hans byggir á 113. og 100. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um dráttarvexti er byggð á 1. mgr. 6. gr. sbr. 11. og 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla  laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki fjárkröfu á hendur varnaraðila. Beri af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila. Samkvæmt kaupréttarsamningi sem aðilar hafi gert sín í milli 11. febrúar 2004 hafi varnaraðili skuldbundið sig til þess að afhenda sóknaraðila kauprétt til þess að kaupa hlutabréf í varnaraðila. Um hafi verið að ræða 2.500.000 hluti og hafi kaupverð samkvæmt samningnum numið sjö krónum á hlut. Hinn 1. desember 2007, þegar heildarkaupréttur samkvæmt samningnum hafi verið orðinn áunninn, hafi sóknaraðila samkvæmt 4. mgr. 2. gr. samningsins verið heimilt að nýta sér 60% af kaupréttinum eða 1.500.000 hluti.

Frá 1. desember 2007 hafi sóknaraðili í samræmi við 5. mgr. 2. gr. samningsins haft 90 daga til þess að tilkynna varnaraðila á sannanlegan hátt um nýtingu þess kaupréttar sem hann hafi áunnið sér og mátt nýta. Varnaraðili andmælir því að sóknaraðili hafi tilkynnt honum um nýtingu kaupréttar og óskað eftir uppgjöri hans með sannanlegum hætti. Jafnvel þótt svo hafi verið hafi það eitt og sér ekki verið nægjanlegt samkvæmt samningnum til að uppgjör á grundvelli hans gæti farið fram. Ráða megi af ýmsum ákvæðum samningsins að varnaraðila hafi verið skylt að afhenda sóknaraðila tiltekinn fjölda hluta í varnaraðila gegn fyrir fram umsömdu gagngjaldi af hálfu sóknaraðila. Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. samningsins beri sóknaraðila að eiga frumkvæði að tilkynningu um nýtingu kaupréttar og greiðslu. Í 6. gr. samningsins komi fram að sóknaraðili öðlist ekki réttarstöðu hluthafa í félaginu fyrr en kaupréttinum hafi verið skipt út fyrir hlutabréf í félaginu. Þá hafi sóknaraðili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. samningsins ekki verið skyldugur til þess að innleysa hlutabréf sem hann hafi haft kauprétt á heldur hafi einungis verið um rétt hans að ræða.

Virðist raunar af málatilbúnaði sóknaraðila vera óumdeilt að sóknaraðili hafi ekki látið fulla greiðslu fylgja með meintri tilkynningu um nýtingu kaupréttar fyrir þau hlutabréf sem hann hafi viljað kaupa. Sóknaraðili virðist byggja á einhvers konar venju, þ.e. að varnaraðili hafi almennt gert kauprétti upp með peningagreiðslu til kaupréttarhafa sem svarað hafi til mismunar á grunnverði hluta samkvæmt kaupréttarsamningum og gangverði þeirra í kauphöll við nýtingu kaupréttarins. Varnaraðili mótmælir því að einhver venja hafi skapast í þessum efnum, enda sé enga heimild fyrir slíku uppgjöri að finna í samningi aðila. Sóknaraðili hafi ekki fyrr en 1. desember 2007 haft heimild til að nýta sér áunninn kauprétt samkvæmt samningnum. Sé því vandséð hvernig venja geti hafa skapast um uppgjör kaupréttar á milli sóknaraðila og varnaraðila. Það sé sóknaraðila óviðkomandi hvort í kaupréttarsamningum annarra starfsmanna við varnaraðila hafi verið heimild til slíks uppgjörs sem sóknaraðili byggir kröfu sína á og andmælir varnaraðili því að sóknaraðili geti byggt rétt sinn á meintri heimild annarra starfsmanna til slíks uppgjörs.

Varnaraðili mótmælir því að krafa sóknaraðila á grundvelli kaupréttarsamningsins geti sem slík talist til fjárkröfu. Eina skylda varnaraðila samkvæmt samningnum hafi falist í því að afhenda hluti í varnaraðila eftir tilkynningu um nýtingu kaupréttar og gegn umsömdu gagngjaldi. Þar sem sóknaraðili hafi ekki boðið fram greiðslu hafi hlutirnir aldrei verið afhentir.

Þá krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila um stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verði hafnað. Varnaraðili byggir á því að launahugtak gjaldþrotaréttar, og þar með forgangsréttur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sé bundið við að gagngjald í formi vinnu hafi verið innt af hendi og að launagreiðslur séu í beinum tengslum við slíkt gagngjald. Krafa sóknaraðila á grundvelli kaupréttarsamnings aðila uppfylli ekki þetta skilyrði. Í 3. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila frá 27. maí 2003 sé kveðið á um laun sóknaraðila hjá varnaraðila. Hvergi sé vikið að því í ráðningarsamningnum að kaupréttur sé hluti launakjara sóknaraðila hjá varnaraðila.

Varnaraðili fullyrðir að ákvæði kaupréttarsamnings aðila þess efnis að samningurinn sé hluti af ráðningarsamningi við sóknaraðila geri það ekki að verkum að réttur á grundvelli samningsins teljist þegar af þeirri ástæðu til launa í skilningi vinnu- og gjaldþrotaréttar. Varnaraðili andmælir staðhæfingu sóknaraðila um að ráðningar- og kaupréttarsamningur aðila hafi ásamt kjarasamningi bankamanna myndað ramma um laun sóknaraðila. Í kaupréttarsamningnum hafi aðeins falist heimild til handa sóknaraðila til þess að innleysa hlutabréf sem hann hafi haft kauprétt á. Ljóst megi vera að sóknaraðili hefði ekki nýtt sér kaupréttinn ef gengi hlutabréfa í varnaraðila hefði verið undir umsömdu kaupverði enda hefði þá meint launakrafa sóknaraðila verið einskis virði. Virði kaupréttarins, og þar af leiðandi krafa sóknaraðila, hafi þannig verið háð árangri og afkomu varnaraðila en ekki byggst á sérstöku vinnuframlagi af hálfu sóknaraðila í þágu varnaraðila.

Því er mótmælt að skýra beri hugtakið „laun“ og/eða „annað endurgjald“ í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 rúmri lögskýringu. Ákvæði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð en með því sé vikið frá meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Varnaraðili telur að ákvæðið verði því ekki skýrt rýmra en leiði af orðanna hljóðan. Varnaraðili byggir á því að greiðsla eða réttindi verði að eiga rætur að rekja til vinnu þess kröfuhafa sem krefjist forgangs. Réttur sóknaraðila til að eignast hlutabréf í varnaraðila á fyrir fram ákveðnum kjörum geti ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins að þessu leyti.

Varnaraðili mótmælir varakröfu sóknaraðila um að krafa hans skuli viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, á þeim grundvelli að sóknaraðili eigi ekki lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila. Verði fallist á að sóknaraðili eigi slíka kröfu á hendur varnaraðila sé því ekki mótmælt að krafan að því leyti sem hún teldist vera fyrir hendi yrði skipað í flokk almennra krafna.

Varnaraðili andmælir kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili sé ekki í skuld við varnaraðila. Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. frá 9. október 2008 hafi skuldbindingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila flust yfir til hins nýja banka. Annars vegar hafi verið um að ræða lán nr. 0102-74-107603 og hins vegar lán nr. 0102-74-107839. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi 29. október 2008 greitt upp síðarnefnda lánið. Sú krafa sé því ekki tæk til skuldajafnaðar, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Fyrrnefnda lánið sé ekki lengur á forræði varnaraðila og sé kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð því mótmælt. Verði fallist á kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu verði sóknaraðili að beina kröfu sinni um skuldajöfnuð að NBI hf., en samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008 svipti framsal kröfuréttinda á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins ekki skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um að innlánskröfur standi ekki framar kröfu sóknaraðila í réttindaröð verði krafa sóknaraðila viðurkennd að öllu eða einhverju leyti sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um dráttarvexti frá 3. desember 2007 til úrskurðardags við slitameðferð varnaraðila, 22. apríl 2009. Ráða megi af efni samningsins að frumkvæðisskylda varðandi nýtingu kaupréttarins sem og greiðsluskylda vegna hlutarins hafi hvílt á sóknaraðila. Ekki verði ráðið af gögnum málsins hvort eða þá hvenær slík tilkynning eigi að hafa verið send varnaraðila ásamt fullri greiðslu. Sé því þannig mótmælt að hin umdeilda krafa hafi verið á gjalddaga 3. desember 2007. Með sömu rökum sé mótmælt kröfu sóknaraðila um dráttarvexti frá þeim degi.

Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Þá vísar varnaraðili til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar. Varnaraðili byggir kröfu sína um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. 

Niðurstaða

 Krafa sóknaraðila er að slitastjórn varnaraðila samþykki fjárkröfu hans, 46.575.000 krónur, sem forgangskröfu í bú varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, auk dráttarvaxta. Til vara er þess krafist að fjárhæðin ásamt dráttarvöxtum verði samþykkt sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

 Í máli þessu liggur fyrir samkomulag milli Landsbanka Íslands hf. og sóknaraðila, undirritað 25. september 2008, um uppgjör á áunnum óinnleystum kauprétti hans, alls 1.500.000 hlutum af 2.500.000 hlutum sem áunnir voru í desember 2007 samkvæmt kaupréttarsamningi aðila. Fyrir dómi bar sóknaraðili að þess hefði verið beiðst af hálfu varnaraðila að veittur yrði lengri frestur á greiðslu en samkomulagið kvað á um, gegn því að gengi bréfanna yrði hækkað og hafi hann samþykkt það og talið að málinu væri lokið. Fram er komið að samkomulag þetta var ekki efnt og byggir sóknaraðili kröfu sína í máli þessu á kaupréttarsamningi milli aðila dagsettum 11. febrúar 2004.

Eins og greinir í 5. mgr. 2. gr. kaupréttarsamnings þessa nýtir starfsmaður sér kauprétt sinn með því að tilkynna bankanum hve mikinn kauprétt hann vilji nýta. Með tilkynningu um nýtingu kaupréttar skal, samkvæmt ákvæðum samningsins, fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa og er starfsmanni heimilt að greiða innlausnarverðið með peningum eða  með veðskuldabréfi til þriggja ára.

Samkvæmt ákvæðum kaupréttarsamningsins verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi og gegn ákveðnu endurgjaldi á ákveðnu tímamarki. Varnaraðili var því einungis skuldbundinn til þess að afhenda sóknaraðila hlutabréf gegn greiðslu frá sóknaraðila. Krafa sú sem sóknaraðili hefur lýst við slitameðferð varnaraðila er fjárkrafa, en af kaupréttarsamningnum sjálfum og vætti Atla Atlasonar framkvæmdastjóra starfsmannasviðs varnaraðila verður skýrlega ráðið að um hlutabréfaviðskipti var að ræða. Hvorki er kveðið svo á um í kaupréttarsamningi þessum né ráðningarsamningi sóknaraðila að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna ákvæða í kaupréttarsamningnum. Með hliðsjón af framangreindu er ekki í ljós leitt að sóknaraðili hafi, á grundvelli framangreinds kaupréttarsamnings, eignast fjárkröfu á hendur varnaraðila og er því kröfu á grundvelli framangreinds kaupréttarsamnings að fjárhæð 46.575.000 krónur hafnað.

Þegar af þessari ástæðu verður aðal- og varakröfu sóknaraðila hafnað.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði sóknaraðili varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Aðal- og varakröfu sóknaraðila, Arnars Arnarssonar á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.