Hæstiréttur íslands
Mál nr. 101/2008
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Trúnaðarskylda
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2008. |
|
Nr. 101/2008. |
Optimar Ísland ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn Jónasi Garðari Jónassyni og Þorsteini Inga Víglundssyni (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Trúnaðarskylda.
J og Þ störfuðu hjá Í hf. sem framleiddi og seldi ísþykknivélar. Í ráðningarsamningum þeirra var að finna ákvæði um trúnaðarskyldu m.a. varðandi viðskipta- og atvinnuleyndarmál. Rekstri Í hf. var hætt og var J og Þ sagt upp störfum. Í hf. gerði síðan samning við O ehf. um kaup á vörubirgðum, lausafjármunum, framleiðsluaðferðum, tæknilegum upplýsingum, einkaleyfum og viðskiptasamböndum Í hf. Í samningnum kom m.a. fram að O ehf. hefði rétt til að framfylgja og fullnusta trúnaðarskyldur starfsmanna. Eftir að J og Þ létu af störfum hjá Í hf. hófu þeir hönnun og þróun á ísstrokkum sem þeir létu framleiða og seldu síðan. O ehf. stefndi J og Þ og krafðist þess að þeim yrði með dómi bannað að framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af tiltekinni gerð. Talið var að Í hf. hafi ekki getað, án samþykkis og vitundar J og Þ, framselt skyldur þeirra samkvæmt ráðningarsamningum sem þegar hafði verið slitið og því ekki hægt að byggja kröfur á því að J og Þ hafi verið bundnir af ákvæðum ráðningarsamninganna. Þá var ekki talið að J og Þ hafi nýtt sér atvinnuleyndarmál við gerð ísstrokkanna þannig að þeir hafi brotið gegn 27. gr. þágildandi samkeppnislaga. Voru J og Þ því sýknaðir af kröfum O ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. desember 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. janúar 2008 og var áfrýjað öðru sinni 19. febrúar sama ár. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði bannað að framleiða eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (T1-T4) eða sambærilega vélarhluti. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að stefndu hafi verið um þriggja ára skeið frá 30. apríl 2003 óheimilt að framleiða eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af þeirri gerð sem lýst er í aðalkröfu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Optimar Ísland ehf., greiði stefndu, Jónasi Garðari Jónassyni og Þorsteini Inga Víglundssyni, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2007.
I
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 4. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Optimar Íslandi ehf., kt. 700103-4550, Stangarhyl 6, Reykjavík, með stefnu, útgefinni af dómstjóranum í Reykjavík 11. janúar 2005 og þingfestri 18. janúar s.á., á hendur Jónasi Garðari Jónassyni, kt. 110459-6299, Heiðargerði 116, Reykjavík, og Þorsteini Inga Víglundssyni, kt. 100662-7799, Búlandi 4, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði með dómi bannað að framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (T1-T4) eða sambærilega vélahluti, en til vara að stefndu hafi verið óheimilt að framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af þeirri gerð, sem lýst er í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað.
II
Málavextir
Stefndu, Þorsteinn Ingi Víglundsson og Jónas Garðar Jónasson, voru starfsmenn fyrirtækisins Ískerfa hf., sem framleiddi og seldi ísþykknivélar. Fyrirtækið Ískerfi hf. var stofnað af Landsbanka Íslands hf. í kjölfarið á gjaldþroti Brunna hf., en Landsbankinn, sem var stærsti kröfuhafi Brunna hf., hafði leyst til sín við gjaldþrotið þær eignir félagsins, sem bankinn hafði veð í, þ.m.t. einkaleyfi þess. Rak eignarhaldsfélag Landsbankans, Hömlur hf., Ískerfi í nokkur ár. Stefndi Jónas hafði starfað hjá Brunnum hf. fyrir gjaldþrotið og var hann ráðinn til Ískerfa í stöðu framkvæmdastjóra frá 1. október 2000, en ráðningarsamningur hans er dagsettur 27. sama mánaðar. Stefndi Þorsteinn var ráðinn til Ískerfa hf. sem sölu- og markaðsstjóri frá 1. apríl 2001, og er ráðningarsamningur hans dagsettur 10. þess mánaðar.
Í ráðningarsamningum beggja stefndu eru ákvæði um trúnaðarskyldu, annars vegar varðandi viðskipta- og atvinnuleyndarmál vinnuveitanda, þ.m.t. upplýsingar um viðskiptasambönd, vörur og viðskiptalegan rekstur, og er þeim óheimilt, án skriflegrar heimildar vinnuveitanda, að veita þriðja aðila slíkar upplýsingar eða hagnýta sér þær, meðan þeir starfa fyrir vinnuveitanda og í næstu þrjú ár, eftir að störfum þeirra lýkur. Hins vegar eru aðilar bundnir ævarandi þagnarskyldu og trúnaði varðandi allar upplýsingar, sem varða hugmyndavinnu, einkaleyfi, þekkingu, aðferðir, tækni, verklag og vinnuferli (know-how), sem notað var hjá vinnuveitanda, sem og upplýsingar um formúlur, lýsingar (skilgreinar), uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem þeir höfðu aðgang að í starfi sínu, auk þess sem þeim er óheimilt að hagnýta sér slíkar upplýsingar.
Ískerfi hf. mun hafa verið rekið með töluverðu tapi á þessum tíma og var því ákveðið að hætta rekstri þess. Var báðum stefndu sagt upp störfum hjá fyrirtækinu, og voru starfslok þeirra þann 30. apríl 2003.
Með samningi Ískerfa hf. og Optimar Íslandi ehf., dagsettum 30. maí 2003, yfirtók stefnandi máls þessa rekstur Ískerfa hf. og keypti m.a. allar vörubirgðir þess sem og lausafjármuni, sem notaðir voru í atvinnurekstrinum, framleiðsluaðferðir, tæknilegar upplýsingar, einkaleyfi, skrásett vörumerki og viðskiptasambönd. Samkvæmt samningnum miðaðist yfirtaka rekstursins við 8. maí 2003. Í 8.2 gr. kaupsamningsins er svohljóðandi ákvæði:
Seljandi framselur kaupanda hér með réttinn til að framfylgja og fullnusta ákvæði ráðningarsamninga núverandi og fyrrverandi starfsmanna seljanda um trúnaðarskyldur, hugverkaréttindi og samkeppnishömlur. Verði ekki talið að lögum heimilt að framselja réttinn til að framfylgja og fullnusta þessi ákvæði, skuldbindur seljandi sig til að veita kaupanda sanngjarna aðstoð við að tryggja, að kaupandi fái einn notið þeirra réttinda, sem framseld eru með samningi þessum, enda beri kaupandi allan kostnað sem af slíkri aðstoð kann að hljótast, þar með talið lögfræðikostnað seljanda. ...
Ískerfi hf. er enn til sem fyrirtæki, en framleiðir ekki lengur ísþykknivélar.
Eftir starfslok stefndu hjá Ískerfum ehf. hófu þeir eigin hönnun og þróun á ísstrokkum, sem þeir létu framleiða erlendis og seldu síðan. Kveða þeir þá ísstrokka, sem þeir hafi þróað og selji, vera mun þróaðri en þá 16 ísstrokkar og ískrapavélar, sem séu á markaðnum í dag, m.a. þeir ísstrokkar, sem stefnandi framleiði og selji í sínum vélum. Hafi stefndu þróað nýja gerð af strokki, sem búi yfir eiginleikum, sem aðrir strokkar hafi ekki, meðal annars ísstrokkar stefnanda. Þeir ísstrokkar, sem stefndu selji, komi í fjórum mismunandi stærðum, geti notað 50% minna salt og henti því mun víðar en aðrir ísstrokkar, m.a. ísstrokkar stefnanda. Sú vara, sem stefndu selji, sé því ekki sama varan og stefnandi framleiði.
Svokallaðir ísstrokkar, sem hér um ræði, séu vélhlutir, sem tengist kælikerfi. Uppbygging allra ísstrokka, sem framleiddir séu í heiminum, sé hin sama. Þetta séu rörlaga strokkar, þar sem ytra rör og innra rör séu soðin saman á endum. Á milli röranna streymi kælimiðillinn og kæli rörin. Eftir miðju innra rörinu sé komið fyrir öxli, sem drifinn sé af mótor með reim eða gír. Á öxlinum sér komið fyrir sköfubúnaði, sem skafi stöðugt innra byrði rörsins. Í innra rörinu streymi saltvatn eða sjór, sem frjósi vegna áhrifa kælingarinnar. Sköfubúnaðurinn verki þannig, að saltvatnið eða sjórinn, frjósi aldrei fastur innan á vegg rörsins, heldur myndist mjúkur krapaís. Þessi aðferð hafi fyrst verið notuð með saltlausn árið 1927 í USA. Helztu önnur not fyrir þessa aðferð hafi verið til þess að búa til rjómaís í ísbúðum, og hafi hún verið notuð í áratugi á Íslandi.
Stefndu kveðast enga hugmynd hafa haft um einstök ákvæði í samningi Ískerfa hf. og Optimar Ísland ehf., svo sem ákvæði um einhvers konar framsal Ískerfa til Optimar Ísland ehf. á starfsskyldum þeirra eða trúnaðarskyldum, fyrr en lögmaður stefnanda hafi sent lögmanni stefndu þær upplýsingar á tölvupósti í september 2004. Lögmaður stefndu hafi óskað eftir að fá ljósrit samningsins í hendur, en hafi ítrekað verið neitað um það. Það var ekki fyrr en gögn voru lögð fram við lögbannsbeiðnina að stefndu fengu eintak af samningi þessum, og hafi þeim þá fyrst verið ljóst, að Ískerfi ehf. hefði framselt Optimar Ísland ehf. trúnaðarskyldur þeirra gagnvart Ískerfum ehf. Hvorki stefnanda né Ískerfum hafi þótt ástæða til þess að tilkynna stefndu um þetta ákvæði, þrátt fyrir það, að stefndu hafi birt tilkynningu í Einkaleyfatíðindum þann 20. janúar 2004 um, að þeir væru að sækja um einkaleyfi á „Tæki og búnaður til framleiðslu á fljótandi ís“ umsókn nr. 7082.
Stefnandi kveðst fyrir nokkru hafa fengið í hendurnar kynningarefni, merkt „Thick Ice ltd.,“ þar sem finna megi netföng beggja stefndu. Í þessu kynningarefni gefi að finna lýsingar á búnaði til gerðar krapíss með vélum, sem nefndar séu „Thick Ice Generators“ í fjórum útgáfum eða stærðum T1 T4.
Hafi stefnandi einnig undir höndum tölvupóst, sem sendur hafi verið þann 12. desember 2003 til fyrirtækisins York International B.V. í Hollandi. Skrifi báðir stefndu undir tölvupóstana og í þeim komi fram, að stefndu séu að vinna fyrir fyrirtækið Mode Inc. við sölu á ísstrokkum.
Stefnandi kveður York International B.V. vera hluta af York Refrigeration samsteypunni, sem sé einn af stærstu framleiðendum kæli- og frystibúnaðar í heiminum. York International B.V. og stefnandi hafi gert með sér framleiðslusamning, þar sem stefnandi framleiði ísþykknivélar, sem York selji með sameiginlegu merki beggja félaganna til notenda.
Í tölvupóstinum til York frá 12. desember 2003 sé m.a. að finna lýsingar stefndu á ísstrokkum sínum svo og staðfestingu á því, að stefndu hafi sannanlega framleitt ísstrokka.
Í hinum fyrri tölvupósti, sem sendur hafi verið sama dag, sé rakin sú reynsla, sem stefndu hafi haft af gerð ísvéla, og hvernig rekstri Ískerfa hf. hafi verið snúið við með þeirra hjálp. Þar sé að finna í smáatriðum frásögn af viðskiptaleyndarmálum Ískerfa hf., hverjir hefðu verið helztu gallar ísvélanna, sem Ískerfi hf. framleiddu, og hvernig stefndu hafi núna, með áframhaldandi þróun, komið í veg fyrir þessi vandamál. Þá sé einnig í bréfinu að finna samanburð á ísvélum stefnanda og stefndu. Þá segi að auki, að hönnun og einkaleyfi á ísvél Mode Inc. sé eign stofnenda fyrirtækisins, en ísvélin sé hönnuð með því að nýta sér þá þekkingu, sem stefndu hafi til að hanna og vinna með notendum ísvéla og með því að laga þá galla, sem verið hafi í eldri hönnun. Sé þetta sannarlega þriðja kynslóð ísvéla.
Stefnandi hafi einnig fengið afrit af tölvupósti stefnda til útibús York í Chile, er sendur hafi verið þann 1. apríl 2004, og þar komi einnig skýrt fram, að stefndu séu að nýta sér þekkingu sína frá Ískerfum hf. í núverandi framleiðslu sinni, og að þeir hafi gert það síðan stefnandi keypti rekstur Ískerfa hf.
A&P Árnason ehf., sé fyrirtæki, sem sérhæfi sig í ráðgjöf í verndun hugverkaréttinda með áherzlu á einkaleyfi. Hafi það fyrirtæki, að beiðni stefnanda, unnið álit um sambærileika þeirra véla, sem stefnandi og stefndu bjóði til sölu. Styðji álit ráðgjafafyrirtækisins það, sem haldið hafi verið fram, að stefndu hafi verið og séu að nýta sér trúnaðarupplýsingar og atvinnuleyndarmál Ískerfa hf. við framleiðslu og sölu á ísstrokkum.
Stefndu hafi, samkvæmt ELS tíðindum frá 20. janúar 2004, verið tilgreindir uppfinningamenn í umsókn um einkaleyfi, sem beri heitið „Tæki og búnaður til framleiðslu á fljótandi ís“ í nafni Jarteikna ehf., en umsóknin hafi verið lögð inn hjá Einkaleyfastofu þann 16. desember 2003. Efni umsóknarinnar sé enn óbirt. Séu stefndu að sækja um einkaleyfi fyrir vél, sem sé sambærileg „Thick Ice Generator“ vélinni, sé enn um að ræða óheimila hagnýtingu trúnaðarupplýsinga frá fyrri störfum stefndu.
Stefnandi hafi skorað á stefndu að hætta þegar að nýta sér trúnaðarupplýsingar til framleiðslu og sölu á ísstrokkum og/eða ísvélum, sambærilegum þeim, sem stefnandi framleiði, með bréfum, dags. 17. september 2004. Á það hafi stefndu ekki fallizt, og því hafi stefnandi ekki haft önnur ráð en að fara fram á lögbann, sem nú sé krafizt staðfestingar á.
Stefnandi kveður þær ísþykknivélar, sem hann nú framleiði og selji, vera með ísstrokkum, sem í grundvallaratriðum séu byggðir á þeim aðferðum og tækni, sem stefnandi hafi keypt af Ískerfum hf. í áðurnefndum kaupsamningi. Þar sem allur rekstur Ískerfa hf. myndi verða stefnanda lítils virði við kaupin, ef ekki hefði verið tryggt, að fyrrum starfsmenn Ískerfa hf. myndu halda þann trúnað við Ískerfi hf., sem þeir hefðu undirgengizt í ráðningarsamningum sínum, og hagnýta sér ekki sjálfir þau atvinnuleyndarmál, og önnur tilgreind atriði, sem þeir hefðu fengið upplýsingar um í starfi sínu (t.d. formúlur, lýsingar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar), hafi verið um það samið í kaupsamningi Ískerfa hf. og stefnanda, að stefnandi gæti fullnustað þau ákvæði ráðningarsamninga starfsmanna Ískerfa hf., sem lytu að trúnaði og samkeppnishömlum.
Snýst ágreiningur aðila um meint trúnaðarbrot stefndu.
Málið var upphaflega flutt um frávísunarkröfu stefndu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 15.04. 2005, var málinu vísað frá dómi. Sá úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar, dags. 11. maí 2005. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 16. marz 2006, voru stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda. Sá dómur var ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar með dómi Hæstaréttar hinn 14. desember 2006, og málinu vísað heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar. Einnig var lagt fyrir dómara að kveðja til sérfróða meðdómendur.
Upphaflegar dómkröfur stefnanda í málinu voru um staðfestingu lögbanns frá 4. janúar 2005 auk þeirrar kröfu, sem nú er aðalkrafa í málinu. Upphaflegar dómkröfur stefndu voru einungis um, að synjað væri staðfestingar lögbannsins. Lögbannið féll niður undir meðferð málsins.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því, að stefndu séu, samkvæmt skýrum ákvæðum í ráðningarsamningi við Ískerfi hf., bundnir af því, eftir ráðningartíma sinn, að nýta sér ekki trúnaðarupplýsingar, er varði atvinnuleyndarmál Ískerfa hf., sem og formúlur, lýsingar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem stefndu hafi verið trúað fyrir í störfum sínum. Einnig hafi verið sérstaklega tilgreint í ráðningarsamningum stefndu, að þessi trúnaðarskylda næði til aðferða, tækni, verklags, vinnuferla o.fl. Með kaupum á rekstri Ískerfa hf. hafi stefnandi tekið við þeim réttindum Ískerfa, sem varði trúnaðarskyldur, hugverkaréttindi og samkeppnishömlur starfsmanna þeirra, sbr. fyrrnefnd ákvæði kaupsamningsins.
Ráðningarsamningar stefndu séu byggðir upp með eftirfarandi hætti: Annars vegar séu stefndu bundnir þagnarskyldu og trúnaði um viðskipta- og/eða atvinnuleyndarmál vinnuveitanda síns, og óheimilt sé að veita þriðja aðila eða hagnýta sér þær með einum eða öðrum hætti í næstu þrjú ár, eftir að störfum fyrir vinnuveitanda ljúki. Hins vegar séu stefndu bundnir ævarandi þagnarskyldu og trúnaði um formúlur, lýsingar, skilgreiningar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem þeir hafi komizt yfir í starfi fyrir vinnuveitanda sinn, og sé þeim óheimilt að hagnýta sér eða gera þriðja aðila kleift að hagnýta sér slíkar upplýsingar með einum eða öðrum hætti. Hvað þennan þátt varði, komi fram í ráðningarsamningum við stefndu, að hin ævarandi þagnarskylda og trúnaður gildi ekki um vitneskju, sem hafi verið almannaeign þegar hún var birt, og vitneskju, sem verði almannaeign með birtingu, án þess að stríði gegn ákvæðum ráðningarsamningsins.
Stefnandi kveði, með hliðsjón af þeim gögnum, sem lögð hafi verið fram við þingfestingu máls þessa, ljóst, að stefndu hafi framleitt og a.m.k. reynt að selja ísstrokka, sem þeir hafa nefnt „Thick Ice Generator“ í fjórum útgáfum eða stærðum T1T4. Séu ísstrokkar þessir í öllum grundvallaratriðum sambærilegir ísstrokkum þeim, sem þeirra fyrrum vinnuveitandi hafi framleitt, og nú stefnandi, eftir að hann yfirtók framleiðsluna. Það sé tæknilega ómögulegt, að stefndu hafi þróað ísstrokka á jafn örskömmum tíma og raun beri vitni, án þess að hagnýta sér atvinnuleyndarmál og/eða formúlur, lýsingar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar þekkingu, sem þeir hafi öðlazt í störfum sínum fyrir Ískerfi hf.
Í þessu sambandi eigi í fyrsta lagi að hafa í huga, að samkvæmt upplýsingum stefnanda, hafi stefndu haft takmarkaða sérþekkingu á kæli- og frystigeiranum, áður en þeir hófu störf hjá Ískerfum hf. Þá hafi þeir í námi sínu ekki lagt áherzlu á þennan afmarkaða og sérhæfða geira vélaverkfræði. Í öðru lagi hafi Ískerfi hf., og Brunnar hf. þar áður, eytt hundruðum milljóna í þróunarkostnað og verið með mikla þróunarstarfsemi í fjölda ára til að komast á það stig að framleiða þær vélar, sem stefnandi framleiði í dag og selji. Í þriðja lagi sé framleiðsla ísþykknivéla og ísstrokka svo sérhæfð, að ekki séu nema örfá fyrirtæki í öllum heiminum, sem framleiði ísstrokka og ísþykknivélar, og lítil ástæða væri fyrir stefnanda að framleiða og selja vélar sínar, ef hann hefði ekki eitthvað sérstakt fram að færa, sem ekki væri á allra færi og vitorði. Í fjórða lagi kveðist stefndu sjálfir hafa endurbætt framleiðslu stefnanda og vera nú með mun betri vöru, eða svo kallaða „þriðju kynslóð“ af ísvélum. Það hljóti því að vera augljóst, að enginn geti á svo skömmum tíma endurbætt vélar stefnanda, nema því aðeins að hafa haft yfir að ráða víðtækum upplýsingum um virkni og eiginleika véla stefnanda. Yfir slíkum upplýsingum hafi stefndu haft að ráða, og hafi trúnaðarákvæðum í ráðningarsamningum verið ætlað að ná yfir þær upplýsingar.
Í ráðningarsamningum stefndu sé tekið fram, að ævarandi þagnarskylda og trúnaður gildi um formúlur, lýsingar, skilgreiningar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem stefndu hafi komizt yfir í starfi sínu fyrir Ístækni hf., og að stefndu sé óheimilt að nýta sér slíkar upplýsingar. Séu uppdrættir að ísvélum aðgengilegir almenningi í gegnum einkaleyfaumsóknir og einkaleyfi, sem birt hafi verið, verði slíkir uppdrættir hins vegar ekki almenningseign, þrátt fyrir slíka birtingu. Hvað sem öðru líði, sé stefndu óheimilt að hagnýta atvinnuleyndarmál stefnanda í þrjú ár frá starfslokum.
Á ákvæðum 27. gr. samkeppnislaga sjáist, að löggjafinn hafi séð sérstaka þörf á að lögbinda fortakslaust þær kvaðir, sem stefnandi vilji nú fá framfylgt, enda myndu ákveðnir þættir atvinnulífsins, sambærilegir þeim, sem stefnandi tilheyri, „standa berskjaldaðir fyrir fyrrum starfsmönnum og samkeppnisaðilum að stela öllu verðmæti fyrirtækisins á einu bretti“ (sic í stefnu). Ákvæði ráðningarsamninga stefndu séu byggð upp með sambærilegum hætti og ákvæði 2. og 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga. Þannig sé þeim ætlað að koma á skýru réttarsambandi vinnuveitanda og starfsmanns og markmið þeirra að verja lögmæta hagsmuni vinnuveitanda. Hafi stefndu enga ástæðu haft til að ætla, að þeir væru óbundnir af þessum ákvæðum ráðningarsamninganna, enda kveði þau skýrt á um, að gildistími þeirra sé óbundinn gildistíma ráðningarsamningsins að öðru leyti. Verði því að telja, að jafnframt því að fara í bága við skýr ákvæði ráðningarsamnings, séu stefndu að brjóta gegn ákvæðum 27. gr. samkeppnislaga.
Í bréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnanda, dags. 28. september 2004, komi fram, að starfslok stefndu hjá Ískerfum hf. hafi verið með þeim hætti, að þeir séu óbundnir af samkeppnisákvæðum ráðningarsamninganna með vísan til 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936, og að sá tími sé liðinn, sem stefndu hafi skuldbundið sig til að vinna ekki hjá samkeppnisaðilum Ískerfa hf. Þá segi þar einnig, að sú yfirfærsla á ákvæðum ráðningarsamninga stefndu frá Ískerfum hf. til stefnanda standist ekki lög og sé óskuldbindandi fyrir gerðarþola.
Varðandi þessi atriði bendi stefnandi á, að í samningi stefnanda og Ískerfa hf. hafi eingöngu verið framselt vald til að fullnusta tiltekin ákvæði ráðningarsamninganna, en ekki ráðningarsamningarnir sem slíkir. Ekkert í lögum takmarki heimild Ískerfa hf. til slíks framsals. Aðstöðunni verði ekki jafnað við framsal á samningi um störf launþega í þágu vinnuveitanda, enda sé þessum ákvæðum eingöngu ætlað að gilda eftir starfslok stefndu, þ.e.a.s. þegar hinu persónubundna sambandi vinnuveitanda og starfsmanns sé lokið. Breyti það engu fyrir stefndu, hver fullnusti þessi ákvæði, stefnandi eða Ískerfi hf. Þessi ákvæði ráðningarsamninganna setji stefndu engar sérstakar skyldur á herðar aðrar en athafnaleysi eftir starfslok.
Ákvæði ráðningarsamninganna séu fortakslaus, hvað varði trúnaðarskyldu stefndu og hagnýtingu trúnaðarupplýsinga eftir starfslok, og skipti í því sambandi ekki máli, hvernig starfslokum stefndu hafi verið háttað. Eigi ákvæði 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936, ekki við í máli þessu, enda eigi sú grein einungis við um samkeppnishömlur launþega, en ekki trúnaðarskyldur.
Hvað sem framsali réttindanna líði, gildi hið fortakslausa ákvæði 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 um háttsemi stefndu, hvernig sem starfslokum sé háttað.
Tjón stefnanda verði aldrei bætt nema að mjög litlum hluta með skaðabótum eða refsingum. Stefnandi hafi því átt þann kost einan að krefjast staðfestingar á lögbanni til að verja þá hagsmuni, sem ekki verði varðir á annan hátt.
Fyrir stefnanda séu í húfi ríkir samkeppnishagsmunir, en á þeim markaði, sem hann starfi, ríki hörð og óvægin samkeppni. Þessir samkeppnishagsmunir verði ekki verðlagðir. Þeir verði heldur ekki bættir eftir reglum skaðabótaréttar. Auk þessa yrði mjög örðugt fyrir stefnanda að færa sönnur á og færa fram nákvæmar tölur til stuðning fjárhagslegu tjóni sínu í skaðabótamáli.
Með hliðsjón af ofangreindu telur stefnandi sýnt, að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um lögbann hafi verið fullnægt.
Stefnandi styður kröfur sínar við ákvæði framangreindra ráðningarsamninga, ólögfestar reglur um skuldbindingargildi samninga og 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Málsástæður stefndu
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi engan lögvarinn rétt átt til lögbanns, hvorki á grundvelli ráðningarsamnings stefndu við Ískerfi ehf., né á grundvelli 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Þegar af þeirri ástæðu, að ekkert ráðningarsamband eða réttarsamband sé á milli stefndu og stefnanda, sé um aðildarskort að ræða, og beri að sýkna stefndu af öllum kröfum með vísan til 2. mgr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Þótt dómari kæmist að þeirri niðurstöðu, að Ískerfum ehf. hefði verið heimilt að framselja einhver ákvæði úr ráðningarsamningum stefndu við þá, séu stefndu óbundnir af slíku framsali þegar af þeirri ástæðu, að þeim hafi verið vikið úr starfi, sbr. 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Jafnvel þótt aðild stefnanda að málinu væri viðurkennd, hafi stefndu ekki aðhafzt neitt það, sem þeim hafi ekki verið heimilt á grundvelli ráðningarsamnings þeirra við Ískerfi eða ákvæða samkeppnislaga, þar sem allar þær upplýsingar, sem þurfi til að framleiða þá vöru, sem stefndu sé gefið að sök, séu almannaeign.
Sérstök athygli sé vakin á því, að stefnandi sé ekki rétthafi neinna einkaleyfa á Íslandi eða í Evrópu varðandi framleiðslu á ísstrokkum, og krafa hans sé því ekki byggð á reglum einkaleyfaréttarins, heldur einungis ráðningarsamningum á dskj. nr. 4 og 5 og kaupsamningi á dskj. nr. 6.
Um réttarsamband stefnanda og stefndu
Stefnandi byggi upphaflega kröfu sína um lögbann á því, að stefndu séu samkvæmt skýru ákvæði í ráðningarsamningi við Ískerfi hf., svo og samkvæmt 2. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, bundnir af því eftir ráðningartíma sinn að nýta sér ekki trúnaðarupplýsingar, er varði atvinnuleyndarmál Ískerfa hf. Stefnandi í þessu máli sé Optimar Ísland ehf., fyrirtæki, sem hafi keypt tilteknar eignir Ískerfa hf. samkvæmt samningi aðila, dags. 30. maí 2003, sbr. dskj. nr. 6. Á þeim tíma hafi stefndu þegar látið af störfum hjá Ískerfum hf. Þeir hafi því aldrei verið starfsmenn stefnanda og hafi engum skyldum haft að gegna við hann. Ákvæðið í gr. 8.2 í kaupsamningi aðila á dskj. nr. 6 sé ekki skýrara en svo, að þar sé að finna fyrirvara, ef svo skyldi fara, að framsal réttarins reyndist ólögmætt.
Trúnaðarskyldur milli starfsmanna og atvinnurekenda séu ekki framseljanlegar samkvæmt íslenzkum vinnurétti. Ráðningarsamband starfsmanns og atvinnurekanda sé persónubundið samband, sem verði ekki framselt, hvorki að hluta til né í heild sinni, nema með samþykki aðila. Eina undanþágan hér frá sé ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 77/1993, en þau ákvæði eigi ekki við hér, þegar af þeirri ástæðu, að stefndu hafi ekki flutzt yfir til stefnanda, þegar hann keypti tiltekna framleiðsluþætti af Ískerfum hf. Vísist um þetta m.a. til dómaframkvæmdar og ummæla Viðars Más Matthíassonar í grein í Úlfljóti, 2. tbl. 2000, kafla. 4.2.6. Aðilum virðist hafa verið ljós þessi annmarki á heimild til framsals á trúnaðarskyldum, þegar kaupsamningur þessi var gerður, þar sem fyrirvari sé gerður um lögmæti framsals á trúnaðarskyldum, hugverkarétti og samkeppnishömlum. Ella hefði engin þörf verið á því að setja þennan fyrirvara í samninginn.
Þegar af þeirri ástæðu, að gerðarbeiðandi sé ekki aðili að ráðningarsamningi gerðarþola við Ískerfi hf., hafi hann ekki átt lögvarinn rétt til þess, að lögbann verði lagt á störf þeirra. Hinn lögvarði réttur, sé hann til staðar, sé í hendi fyrri atvinnurekanda, en ekki þess aðila, sem hann, einhliða og án þess að greina fyrrum starfsmönnum frá, framselji þennan rétt til. Hér vísist enn fremur til ummæla Mogens Koktvedgaard um „kontraktsrelationens loyalitetsforpligtelser“ í Lærebog í konkurrenceret, útg. í Kaupmannahöfn 2003, bls. 358.
Um bann við samkeppni
Þótt dómari kæmist að þeirri niðurstöðu, að Ískerfum ehf. hefði verið heimilt að framselja einhver ákvæði úr ráðningarsamningum stefndu við þá, séu stefndu óbundnir af slíku framsali þegar af þeirri ástæðu, að þeim hafi verið vikið úr starfi, sbr. 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936, en þar sé tekið fram, að ákvæði um bann við samkeppni eftir starfslok falli niður, sé starfsmanni sagt upp stöðunni. Þessi grein fjalli um samkeppnisákvæði, en öll þau ákvæði í ráðningarsamningum, sem um sé deilt, séu samkeppnisákvæði. Þau séu til þess gerð að tryggja samkeppnisstöðu atvinnurekandans með einum eða öðrum hætti. Því sé mótmælt, sem fram komi í stefnu, að ákvæði 37. gr. samningalaga eigi ekki við um trúnaðarskyldur.
Stefndu hafi ekki brotið trúnaðarskyldur gagnvart Ískerfi hf., hvorki samkvæmt ákvæði ráðningarsamnings þeirra né samkeppnislaga.
Jafnvel þótt dómari kæmist að þeirri niðurstöðu, að stefnandi geti verið aðili að lögbannsmáli gagnvart stefndu, þrátt fyrir að ráðningarsamband hafi ekki verið til staðar, hafi stefndu ekki brotið trúnaðarskyldur gagnvart Ískerfum hf., hvorki samkvæmt ákvæði ráðningarsamnings né samkeppnislaga.
Í stefnu komi hvergi fram, í hverju brot stefndu eigi að vera fólgin; hvað það sé, sem þeim sé nákvæmlega gefið að sök eða hvaða atvinnuleyndarmál það séu, sem stefndu noti. Þar komi ekki heldur fram, hvað talizt geti atvinnuleyndarmál í fyrirtækinu, hvaða uppskriftir, þekking, leyndarmál eða annað, sem ekki sé almenn þekking eða hluti af þekkingu vélaverkfræðinga. Þess sé jafnframt getið í stefnu, að ísstrokkar stefndu séu „í grundavallaratriðum byggðir á þeim aðferðum og tækni, sem stefnandi keypti af Ískerfum hf.“ Allir þeir tugir ísstrokka og véla, sem séu á markaðnum í dag, byggi á sama grundvallareinkaleyfinu frá 1927 og fleirum, sem fylgt hafi í kjölfarið (USP 1,641,429 og USP 2,259,841 og US 3,328,927 o.fl. í dskj. 30). Hér sé því ekki um sérstakt atvinnuleyndarmál að ræða.
Nákvæm lýsing á þeim strokkum, sem Optimar Ísland ehf. framleiði, hafi því legið fyrir í einkaleyfagagnagrunnum á internetinu síðan 1997, sbr. fylgiskjal nr. 26 og sé þar enn, ásamt öllum öðrum gögnum. Jafnframt séu eldri og nýrri einkaleyfi og umsóknir í þessum gagnagrunnum, og séu þau m.a. í fylgiskjali nr. 30. Þar séu nákvæmar upplýsingar um allt, sem snúi að þróun og smíði krapastrokka og véla, nákvæmir uppdrættir, lýsingar og allar forsendur. Í einkaleyfum séu jafnframt teikningar af heilum vélum, efnisval, vikmál, yfirborðsáferð, framleiðslutækni og margt fleira.
Þar sem þessar upplýsingar séu almannaeign, hafi verið leikur einn fyrir hvaða fagmann, sem sé, að smíða eftirlíkingu af vél Optimar, án þess að brjóta nokkur lög. Stefndu hefðu hæglega, og án þess að brjóta ráðningarsamning sinn eða 27. gr. samkeppnislaga, getað smíðað strokk, byggðan á þeim upplýsingum, sem fyrir liggi í einkaleyfisumsókninni. Stefndu hafi kosið að gera það ekki, heldur að þróa nýja gerð af strokki, sem hafi búið yfir eiginleikum, sem aðrir strokkar hafi ekki. Þar sem allar upplýsingar um ísstrokk Optimar séu opinberar í einkaleyfagagnagrunnum, sé með þessu verið að banna stefndu að útfæra eftir einkaleyfi, vegna þess að þeir hafi einhvern tímann unnið hjá Ískerfum.
Opinberar lýsingar liggja fyrir um útfærslu ísstrokks
Í ráðningasamningunum sé fyrirvari um, hvað teljist trúnaðarupplýsingar, atvinnuleyndarmál, verkþekking o.s.frv. og jafnframt lýst nákvæmlega (gr. 6.3), hvaða gögn megi ekki hafa með sér úr fyrirtækinu og á hvaða formi þau séu.
Í greinargerð með lögum um einkaleyfi nr. 17/1991 segi svo um 2. málslið, gr. 8:
Hér eru nánari ákvæði um helstu efnisþætti umsókna, en þeir eru: Lýsing uppfinningar ásamt teikningum, ef þörf krefur, og einkaleyfiskröfur. Gögn, þar sem þessi atriði koma fram teljast grunngögn umsóknar. Fyrst er tekið fram að einkaleyfisumsókn skuli hafa að geyma lýsingu á uppfinningunni. Hún skal vera svo skýr að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna. Með fagmanni er átt við einstakling sem hefur til að bera staðgóða þekkingu eða sérmenntun á viðkomandi sviði. Krafa um lýsingu á uppfinningu er byggð á svonefndu opinberunarsjónarmiði sem er eitt af grundvallaratriðum einkaleyfaréttarins: Ríkið veitir aðila einkarétt til að hagnýta uppfinninguna í ákveðinn tíma gegn því að henni sé lýst svo skilmerkilega að hún stuðli að tækniframförum.
Stefndu hafi fengið virta fagmenn á sínu sviði til að fara yfir nokkrar lýsingar og einkaleyfisumsóknir og skoða, hvort þessar lýsingar væru nægjanlega nákvæmar til þess að fagmaður gæti útfært hugmyndirnar.
Í svörum þeirra, sbr. dskj. nr. 22-25, komi m.a. skýrt fram, að í einkaleyfunum sé svo nákvæmlega lýst uppbyggingu, hönnun og kröfum fyrir ísstrokka, að auðvelt sé fyrir fagmenn að byggja á þeim upplýsingum við fullnaðarútfærslu ísstrokka á nokkrum mánuðum.
Til sönnunar þess, að slík lýsing sé almenningi til hagnýtingar, vísist í amerískt einkaleyfi forvera Ískerfa nr. 5.383.342 og einkaleyfisumsókn forvera Ískerfa nr. 94 307 733.9-2301, sem hafnað hafi verið í Evrópu í ágúst 2000, sbr. dskj. nr. 26 og 27. Þrátt fyrir höfnunina, sé umsóknin með öllum lýsingum aðgengileg öllum almenningi, hvar sem sé í heiminum.
Til frekari sönnunar á því, að umrædd þekking og lýsing sé almenn, sé sérstaklega bent á niðurstöðu Evrópsku einkaleyfastofunnar, dskj. 28, liður 3), þegar hún hafi hafnað því, að þekkingin, (know how), sem sett hafi verið fram í einkaleyfi forvera Ískerfa fyrir þessa strokka í Evrópu, væri ný. Hún hafi talið nýnæmi strokksins og aðferðanna, sem tengdust honum, vera þekkta tækni, sem hefði oft verið notuð fyrr við framleiðslu ískrapastrokka.
Stefndu vísi sérstaklega til kröfu 20 í umræddu einkaleyfi.
Þessari einkaleyfiskröfu, ásamt flestum öðrum, sé hafnað. Ástæða höfnunarinnar (dskj. nr. 28 frá EPO) hafi verið eftirfarandi:
1) „strokkurinn byggði á sömu þekktu tækni og fjölmargir aðrir strokkar“.
2) „uppfinningin var ljós hverjum meðalfagmanni“ og hafði þá ekki til að bera lágmarkshugvit.
Stefndu séu fagmenn á viðkomandi sviði
Stefndi, Jónas G. Jónasson vélaverkfræðingur, sé menntaður rennismiður, og stefndi Þorsteinn sé vélaverkfræðingur BSc. og iðnaðarverkfræðingur MSc. Báðir hafi víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, dskj. nr. 32 og 33.
Atriði, sem talin séu upp í ráðningarsamningum, er varði verkþekkingu (know-how), uppskriftir, lýsingar, uppdrætti o.s.frv.
Framleiðsluferli og verkþekking Ískerfa hafi byggt á hefðbundnum aðferðum vélsmiðja á Íslandi. Stefndu framleiði ekkert sjálfir. Þeir noti til þess undirverktaka víða um heim. Framleiðsluferli ísstrokka stefndu eigi því ekkert skylt við framleiðslu Ískerfa.
Um brot á 27. gr. samkeppnislaga
Krafa stefnanda sé m.a. byggð á því, að stefndu hafi brotið 27. gr. samkeppnislaga. Greinin sé um margt svipuð þeim ákvæðum, sem hafi verið í ráðningarsamningum stefndu og rakin séu að framan.
Í greinargerð með 27. grein laganna segi svo m.a.:
Almenn þekking og reynsla
starfsmanns getur ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að
svo sé þarf að liggja fyrir þekking sem er sérstaklega bundin við viðkomandi
rekstur og skiptir máli fyrir starfsemina.
Það verður að gera þær kröfur til þess að atvinnuleyndarmál njóti verndar
samkvæmt greininni að krafa um leynd hafi verið látin í ljós af hálfu
fyrirtækis eða það liggi í hlutarins eðli.
Stefnandi hafi ekki bent á þekkingu innan Ískerfa, sem hafi verið sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og ekki þekkt annars staðar. Þegar hafi verið vikið að reynslu, menntun og þekkingu stefndu. Stefndu komi með mikla verkfræðiþekkingu og reynslu í Ískerfi. Hún verði aldrei aðskilin frá þeim og ekki heldur sú faglega reynsla, sem stefndu ávinni sér á hverjum vinnustað. Fyrirtækið Ískerfi hafi notið góðs af margra ára reynslu og þekkingu stefndu, þegar þeir hafi hafið störf. Engin þekking hafi verið til staðar, sem stefndu hafi ekki kynnzt í námi eða fyrri störfum.
Í 10 gr. reglugerðar Framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 240/96 frá 31. janúar 1996, um beitingu 3. mgr. 85. gr. sáttmálans gagnvart tilteknum flokkum samninga um tæknilega yfirfærslu, segi m.a. um hugtakið „know-how“ eða verkkunnáttu:
1) „verkkunnátta: tæknileg þekking sem er leynileg, umtalsverð og auðkennd á viðeigandi hátt“
Stefnandi hafi ekki bent á, hvaða hluti verkkunnáttunnar sé leynilegur. Tæknileg útfærsla, kröfur til framleiðslu o.s.frv. liggi frammi með sannanlegum hætti, almenningi til hagnýtingar. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á, hvaða hluti af gildi hinnar meintu, leynilegu verkkunnáttu felist í forskoti á markaði. Engin gögn eða listar hafi verið lögð fram, sem sýni, hvaða verkkunnátta hafi verið keypt til Optimar.
Um hagnýtingu uppdrátta, uppskrifta o.s.frv.
Stefndu hafi ekki unnið að þróun ísstrokksins, sem notaður hafi verið í Ískerfum, og hafi því ekki öðlazt neina þekkingu eða reynslu þar, sem þeir hafi getað nýtt sér. Strokkurinn hafi verið notaður óbreyttur í Ískerfum eftir gjaldþrot forvera Ískerfa.
Öll uppbygging seldra ísstrokka og reynsla notenda af þeim séu almennar upplýsingar. Stefndu og hverjum, sem sé, væri í lófa lagið að útvega sér notaðan Optimarstrokk til skoðunar. Upplýsingar um samanburð á ísstrokkum stefndu og stefnanda og annarra séu fengnar frá notendum. Þær geti ekki talizt til atvinnuleyndarmála.
Ísstrokkar stefndu hafi aðra eiginleika og framleiðslugetu og geti, þegar af þeirri ástæðu, ekki verið sömu ísstrokkar og stefnandi framleiði, vegna þess að ísstrokkar stefndu þurfi minna saltmagn til að framleiða ískrapa, séu afkastameiri (T3 og T4), framleiði þykkari ís og séu framleiddir í fjórum stærðum. Stefnandi hafi ekki náð tökum á að framleiða nema eina stærð af strokki. Tilraunir forvera Ískerfa til framleiðslu á minni strokkum hafi mistekizt.
Stefnandi bendi á, máli sínu til stuðnings, að stefndu hafi einnig nýtt sér þekkingu á kælingu fisks með ísþykkni. Stefnandi hafi hvorki sannað, að hann eigi hina ótilgreindu þekkingu á því að kæla fisk með ísþykkni, né sýnt fram á, hvernig hann hafi orðið eigandi og einkanotandi að slíkri þekkingu. Á netinu finnist mörg hundruð greinar um rannsóknir á notkun ísþykknis. Þá sé til einkaleyfi, sem sé gilt í Bandaríkjunum, um notkun ísþykknis við kælingu fisks. Slík þekking sé því almenn og teljist ekki til atvinnuleyndarmála. Flestar rannsóknir, sem séu unnar á þessu sviði í dag, séu birtar jafnóðum og öllum aðgengilegar.
Ógildingarsjónarmið samningalaganna
Séu hagsmunir stefndu og stefnanda bornir saman, sé annars vegar um atvinnu stefndu að ræða, lífsviðurværi þeirra og fjölskyldna þeirra, og hins vegar um óljós, ósönnuð og illa ígrunduð sjónarmið, tengd samkeppnisstöðu. Stefndu séu menntaðir véla- og iðnaðarverkfræðingar, með víðtæka reynslu úr vélaverkfræði, þróunarvinnu og markaðssetningu á nýjum vörum. Þeir hafi stofnað fyrirtæki, sem hafi hannað nýja kynslóð ísstrokka og fjármagnað það alfarið sjálfir af sínu eigin sparifé. Þeir hafi lagt meira en þrjú mannár samanlagt í verkefnið, sótt sýningar, kynnt vöruna víða um heim og selt hana með einstökum árangri. Hagsmunir þeirra séu því gríðarlega miklir og mun meiri en stefnanda, fyrirtækisins Optimar, sem hafi keypt rekstur fyrirtækis með vöru, sem hafi verið hönnuð fyrir 10 árum. Kaupverð Ískerfa hafi aldrei verið gefið upp og hagsmunir þeirra því óljósir. Það sé staðreynd, að forsvarsmenn stefnanda hafi haft fulla vitneskju um starfsemi stefndu strax þann 20. janúar 2004, þegar birtar hafi verið upplýsingar um einkaleyfisumsókn stefndu, og þegar stefnandi og stefndu hafi hitzt á alþjóðlegum vörusýningum á fyrri hluta ársins 2004. Hagsmunir stefnanda geti ekki verið svo bráðir, að réttlætt geti setningu lögbanns á starfsemi þessara tveggja manna, þar sem stefnandi sé í harðri samkeppni við yfir 20 önnur fyrirtæki á þessum markaði, sem öll séu margfalt stærri.
Með lögbanni á gerðarþola séu eftirfarandi hagsmunir í húfi:
30 milljón króna persónuleg fjárfesting gerðarþola í vinnutíma og útlögðum peningum.
15 milljón króna pantanir, sem fyrir hafi legið í desember 2004, sem hefði þurft að afgreiða í janúar og febrúar.
Gera megi ráð fyrir, að sala í janúar og febrúar hefði verið í samræmi við sölu síðasta mánaðar á undan, eða samtals 30 milljónir.
Hugsanleg bótakrafa viðskiptavina vegna vanefnda gerðarþola vegna lögbannsins.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að stefndu hafi verið bundnir af ráðningarsamningi, og að þeir hafi ekki mátt nýta sér þær opinberu upplýsingar, sem liggi fyrir og hafi þar af leiðandi ekki mátt koma að hönnun ísstrokka með þeim hætti, sem þeir hafi gert, sé þess krafizt, með vísan til þess mikla munar, sem hafi verið á þeirra hagsmunum og hagsmunum stefnanda, að frá þeim ákvæðum sé vikið, sbr. 36. gr. l. nr. 7/1936 um samninga, umboð og ógilda löggerninga. Jafnframt sé vísað til 37. gr. samningalaga og þeirrar staðreyndar, að stefndu séu óbundnir af ákvæðum um trúnað eftir ráðningarslit þegar af þeirri ástæðu, hvernig staðið hafi verið að starfslokum þeirra, þar sem þeim hafi verið sagt upp starfi hjá Ískerfum ehf.
Svo sem að framan sé sýnt, hafi skilyrði lögbanns ekki verið til staðar í þessu máli.
Að öðru leyti en að framan greini sé byggt á almennum reglum samningaréttarins, um skuldbindindargildi samninga og um heimildarskort til framsals persónubundinna ráðningarsamninga, svo og ákvæðum samningalaga nr. 7/1936, m.a. 36. og 37. gr. laganna. Enn fremur sé vísað til 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um atvinnufrelsi. Varðandi kröfu til skaðabóta sé vísað til 42. gr. l. nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann. Um réttarfar að öðru leyti sé vísað í eml. nr. 91/1991. Um kröfu um málskostnað sé vísað til 91. gr., sbr. 130. gr. eml. nr. 91/1991.
Í þinghaldi 12. janúar 2006 voru af hálfu stefndu lagðar fram ítarlegar, sundurliðaðar skaðabótakröfur til bráðabirgða, ásamt greinargerð um kröfurnar. Við fyrstu aðalmeðferð málsins féllu stefndu að svo stöddu frá skaðabótakröfu, sem upphaflega kom fram í greinargerð þeirra, en áskildu sér rétt til að höfða sérstakt skaðabótamál á hendur stefnanda þessa máls. Lögmaðurinn tók sérstaklega fram, að í kröfugerð stefndu um sýknu af lögbannskröfu stefnanda felist sú krafa, að þeim verði talið heimilt að framleiða og selja ísstrokka.
IV
Forsendur og niðurstaða
Guðmundur Jón Matthíasson, framkvæmdastjóri stefnanda, gaf skýrslu fyrir dóminum, sem og Trausti Þór Ósvaldsson, framleiðslu- og þjónustustjóri stefnanda, báðir stefndu og vitnin, Björn Ófeigsson, Þór Þorláksson, Gunnar Örn Harðarson, Helgi Hjálmarsson, Kjartan Ragnarsson og matsmaðurinn, Sighvatur Elefsen.
Eins og fyrr er rakið, hefur kröfugerð aðila tekið nokkrum breytingum undir rekstri málsins. Varakrafa stefnanda var sett fram við aðalmeðferð þess, hinn 4. september sl. Af hálfu stefndu var þeirri kröfu mótmælt sem of seint fram kominni enda felist hún ekki í aðalkröfu stefnanda.
Eins og varakrafan er sett fram af hálfu stefnanda lýtur hún að því, að stefndu hafi verið óheimilt, á einhverju ótilgreindu tímabili, sem liðið er, að framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af þeirri gerð, sem lýst er í aðalkröfu. Á hinn bóginn er m.a. byggt á því í stefnu, að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 2. og 3. mgr. 27. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er lagt þriggja ára bann við því að veita upplýsingar um, eða hagnýta sér, atvinnuleyndarmál, sem fengin eru á réttmætan hátt. Verður að telja að varakrafa stefnanda felist þannig í upphaflegri kröfugerð hans.
Við aðalmeðferð hinn 4. september sl. var af hálfu stefndu krafizt sýknu af kröfum stefnanda. Þeirri kröfu var mótmælt sem of seint fram kominni. Af hálfu stefndu var á því byggt, að sýknukrafan hefði falizt í fyrri kröfugerð stefndu um synjun á staðfestingu lögbanns.
Málinu var á sínum tíma vísað frá dómi, þar sem framsetning kröfunnar þótti óljós og illa skilgreind og þannig ekki fullnægja ákvæðum d- og e- liða 80. gr. einkamálalaga. Með dómi Hæstaréttar frá 11. maí 2005, þar sem frávísunarúrskurðurinn var felldur úr gildi, var lagt fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar. Eftir að sýknudómur héraðsdóms var síðan kveðinn upp, féll lögbannsgerðin, sem fyrri liður aðalkröfu stefnanda í máli þessu laut í upphafi að, úr gildi, þar sem málinu var ekki áfrýjað innan lögbundins frests. Krafa stefndu fram að því hafði einungis verið sú, að synjað væri um staðfestingu lögbannsins. Eins og málið er reifað í greinargerð stefndu, má fallast á, að allar málsástæður lúti að sýknukröfu í málinu í heild. Í dómi Hæstaréttar frá 14. desember 2006 virðist litið svo á, að stefndu hafi uppi kröfur í málinu, sem líta verði til efnislega, enda þótt lögbannið hafi á þeim tíma verið fallið úr gildi, sbr. m.a., að lagt var fyrir dómara að kveðja til sérfróða meðdómendur, „með því að bersýnilegt er að kunnáttu sérfróðra meðdómsmanna myndi þurfta til að leysa úr öðrum málsástæðum, sem aðilarnir hafa uppi og varða tæknileg atriði ...“ Verður því talið, að sýknukrafa stefndu hafi falizt í kröfugerð þeirra í greinargerð og sé þannig ekki of seint fram komin.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að stefnandi eigi ekki aðild að málinu, þar sem ekkert réttarsamband sé milli stefnanda og stefndu.
Stefndu hafði verið vikið úr starfi hjá Ískerfum hf., þegar samningur Ískerfa við stefnanda, Optimar Ísland hf., var undirritaður, og störfuðu þeir aldrei hjá stefnanda. Í ráðningarsamningum stefndu við Ískerfi hf. eru trúnaðarskyldur þeirra bundnar við vinnuveitanda, og getur vinnuveitandi leyst þá undan þeim skyldum með skriflegri heimild. Í greinum ráðningarsamninganna, sem fjalla um aukastörf stefndu og samkeppnishömlur, kemur beinlínis fram, að tilgangur með samkeppnishömlum er að fyrirbyggja, að starfsmennirnir geti skaðað samkeppnisstöðu vinnuveitanda. Engin ákvæði eru í ráðningarsamningunum, sem kveða á um, að vinnuveitanda sé heimilt að framselja trúnaðarskyldur starfsmannanna. Ekki liggur annað fyrir en að stefndu hafi hvorki vitað né mátt vita af meintu framsali og hafi staðið í þeirri trú, að trúnaðarskyldur þeirra væru við vinnuveitandann fyrrverandi, Ískerfi hf., sem enn er til sem fyrirtæki, þótt rekstur þess sé ekki lengur tengdur framleiðslu á ísstrokkum.
Er ekki fallizt á, að Ískerfi hf. hafi getað, án samþykkis og vitundar stefndu, framselt stefnanda skyldur þeirra samkvæmt ráðningarsamningum, sem þegar hafði verið slitið með uppsögn og er því ekki fallizt á, að stefnandi geti byggt kröfur sínar á hendur stefndu á þeirri forsendu að þeir hafi verið bundnir gagnvart stefnanda af ákvæðum ráðningarsamningsins.
Stefnandi byggir einnig á því í stefnu, að stefndu hafi jafnframt brotið gegn 2. og 3. mgr. 27. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Við aðalmeðferð hinn 4. september sl. byggði stefnandi einnig á 5. gr. núgildandi samkeppnislaga nr. 57/2005, sem er samhljóða 20. gr. eldri laga. Af hálfu stefndu var því mótmælt sem nýrri málsástæðu og of seint fram kominni, að stefnandi geti byggt á þessu ákvæði.
Þar sem stefnandi hefur ekki haldið því fram á fyrri stigum málsins, að stefndu hafi brotið gegn ákvæði 20. gr. laga nr. 8/1993, er ekki fallizt á, gegn andmælum stefndu, að hann geti byggt á þeirri málsástæðu við aðalmeðferð málsins.
2. og 3. mgr. 27. gr. l. nr. 8/1993 eru svohljóðandi:
Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.
Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.
Stefndu byggja m.a. á því, að þeir hafi ekki notað nein atvinnuleyndarmál frá Ískerfum, eða komizt yfir slík leyndarmál í starfi sínu þar. Engin þróunarvinna hafi farið fram þar, og stefndi Jónas hafi komið með tækniþekkingu sína með sér frá Brunnum, þar sem hann starfaði áður.
Guðmundur Jón Matthíasson, framkvæmdastjóri stefnanda skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, aðspurður, hvaða trúnaðargögn það væru, sem hann teldi, að stefndu hefðu nýtt sér við framleiðslu sína, að hann teldi það vera þær grundvallarupplýsingar, sem liggi um framleiðsluna á ísstrokknum, og þá eigi hann við yfirborðsáferðina á honum og þá hluti, sem menn þurfi að ná þar. Það sé aukaatriði í málinu, að þeir séu að ná fram sinni yfirborðsáferð með einhverjum öðrum aðferðum en stefnandi, heldur sé aðalatriðið, að þeir viti, hvert þeir ætli að komast til þess að ná fram yfirborðsáferðinni. Aðspurður, hvernig stefndi Jónas hefði átt að geta tekið með sér þekkingu um efnið í plastsköfunum, kvað hann málið snúist um það, að Jónas hafi vitað, hvert hann hafi átt að fara til að kaupa, og hvaða plast hann hafi átt að kaupa, jafnvel þótt hann hafi ekki haft hugmynd um, hvaða efni væri í plastinu. Spurður, hvort það væri atvinnuleyndarmál, hvar plastið væri keypt, kvað hann allt safnast í sarpinn.
Stefndi Jónas skýrði svo frá m.a., að enginn ráðningarsamningur hafi verið gerður við hann um trúnað og atvinnuleyndarmál hjá Brunnum. Hann kvaðst ekki hafa verið bundinn neinum sérstökum trúnaði við Ískerfi um þekkingu, sem hann hafði áunnið sér, áður en hann hóf þar störf. Þá kvað hann enga þróunarvinnu hafa farið fram á ísstrokkum hjá Ískerfum, en hins vegar hefðu kælikerfin utan um ísstrokkana verið þróuð þar. Hann kvað allt annað efni notað í ísstrokka í Jarteiknum en hafði verið notað í Ískerfum. Þá væri allt önnur framleiðsluaðferð notuð í Jarteiknum við að framkalla yfirborðið. Hann kvað ísstrokka Jarteikna vera viðurkennda samkvæmt þrýstihylkjastaðlinum PED, en það hefðu ísstrokkar Ískerfa aldrei verið. Hann kvaðst ekki vita til þess, að aðrir framleiðendur gætu framleitt ísstrokka með þessari PED viðurkenningu, en PED sé krafa á markaðnum um lokuð hylki, sem séu undir þrýstingi og sé ætlað að vera einhvers staðar í námunda við fólk. Kvaðst hann telja, að þetta væri sá munur, sem sé mest áberandi á ísstrokkum Jarteikna og Ískerfa, að ísstrokkar Jarteikna séu þeir einu, sem viðurkenndir séu til að vera þrýstihylki á Evrópska efnahagssvæðinu. Þarna sé grundvallarmunur á hönnun á hylkinu sjálfu. Þá framleiði Jarteikn ísstrokka í fjórum stærðum, úr allt öðru efni, sem tryggi allt annað tæringarþol og hafi betri endingu. Þá séu allt aðrar stærðir og önnur hönnun á sköfum, sem og annar sköfuhraði. Hann kvað yfirborðsáferð ísstrokkanna hjá Ískerfum aldrei hafa verið trúnaðarmál, enda sé hægt að fá yfirborðsáferðir mældar hér, m.a. hjá Iðntæknistofnun.
Stefndi Þorsteinn skýrði svo frá m.a., að ísstrokkar Jarteikna gangi á nánast allar kælivélar sem finnist, og þurfi ekki að sérsmíða þær. Hann kvað sín störf hjá Ískerfum alfarið hafa falizt í því að auka sölu, hann búi ekki til vélar eða setji þær upp. Hann kvað enga þróunarvinnu hafa farið fram hjá Ískerfum á ísstrokkum. Það hafi hins vegar farið mikill tími í að laga kælikerfin á vélunum, en hann hafi ekki komið að þeirri þróun.
Undir rekstri málsins var, að kröfu stefnanda, dómkvaddur matsmaður, Sighvatur Elefsen verkfræðingur, til að meta, að hvaða leyti ísstrokkar matsbeiðanda og matsþola séu sambærilegir og enn fremur, hversu líklegt sé, að matsþolar hafi þróað og framleitt ísstrokka sína, án þess að hagnýta sér m.a. viðskiptaleyndarmál eða hugverkaréttindi Ískerfa hf.
Er matsgerðin dags. í nóvember 2005.
Er niðurstaða matsmannsins sú, hvað viðvíkur fyrri hluta matsbeiðninnar, að eiginleikar ísstrokka beggja málsaðila séu í grunninn hinir sömu og hlutverkið það sama. Þá sé ekki hægt að sjá annað en að fyrirhuguð not beggja ísstrokka séu þau sömu, þ.e. að framleiða ísþykkni. Að útliti til séu þeir við fyrstu sýn líkir, en við nánari skoðun ólíkir á margan hátt. Matsmaður bar saman öll helztu þvermál, lengdir, efnisþykktir, bil milli innra og ytra rörs, þvermál drifáss, lengdir o.s.frv. Kveður matsmaður að í sumum tilfellum sé samsvarandi hluti ísstokks annars aðila úr fleiri einingum en hjá hinum og sumir hlutir, sem séu í öðrum ísstrokknum séu ekki í hinum. Kveður matsmaður einungis eitt þvermál, sem litlu skipti, og eitt utanmál rörs vera eins, en öll önnur mál séu mismunandi. Þá séu þær stáltegundir, sem mestu máli skipti, sem notaðar séu í strokkana, ekki hinar sömu. Báðir strokkar séu úr ryðfríu stáli en með mismunandi íblöndunarefnum. Innra rör strokka sé ekki úr sama ryðfría stálinu og hafi ekki sama einkennisnúmer stálefnis. Þessar tegundir hafi nokkuð mismunandi eiginleika við vinnslu. Plast, sem notað sé, sé svipað í sumum hlutum, en eins í öðrum. Alls séu 4 afbrigði plasts notuð, þar af virðist ein tegundin 100% eins. Málsaðilar afli þessa plasts um sitt hvorn farveginn, sinn frá hvoru landinu. Við samanburð á úrfærslu á drifási, þ.e. þvermáli og lengdum, úrfærslu sköfufestinga við drifás og snúningshraða, komi í ljós, að sammerkt með ásunum sé, að þeir séu úr ryðfríu stáli, séu drifnir af reimhjóli og þeir hafi það hlutverk að bera og knýja íssköfurnar. Einungis eitt þvermál, sem litlu skipti, sé eins. Þá séu festingar fyrir íssköfur langt frá því að vera eins og tugum prósenta muni á snúningshraða. Við samanburð á sköfubúnaði, efnisvali, stærðum, úrfærslu festinga á drifás, hreyfimöguleika, jafnvægisstillingu, sköfuhraða o.fl. er það niðurstaða matsmanns, að sammerkt með sköfunum sé, að það sé plastkantur, sem snerti ísstrokkinn innanverðan og það sé miðflóttakraftur og flæði ísþykknis, sem haldi sköfunni þétt að ísstrokki. Plastefni sé sömu gerðar hjá báðum, en að öðru leyti sé langur vegur milli úrfærslna og mekanískra eiginleika. Þá sé framleiðslutæknin mjög frábrugðin og tugum prósenta muni á sköfuhraða. Við vinnslu ísstrokka hafi framleiðendur hvor sína aðferð og sé langur vegur milli aðferða og tækja, sem notuð séu. Er það niðurstaða matsmanns, að sá hluti framleiðslu ísstrokks, sem talizt geti mjög sérhæfð vinna, sé vinnsla innanmáls innra stálrörs, og sé mismunandi tækni og tækjabúnaði beitt við vinnsluna.
Svör matsmanns varðandi síðari hluta matsbeiðninnar eru þau, að matsmaður treystir sér ekki til að svara spurningunni um líkur á þróun án hagnýtingar viðskiptaleyndarmála, atvinnuleyndarmála eða hugverkaréttinda Ískerfa hf., með jái eða neii. Þá svarar matsmaður spurningunni um, hvort stefndu hafi getað þróað ísstrokk á þeim tíma, sem leið frá því að störfum þeirra fyrir Ískerfi hf. lauk (2. maí 2003) og þar til þeir buðu Thick-ice ísstrokk til sölu eða sóttu um einkaleyfi á honum um miðjan desember 2003, svo, að spurningunni sé vandsvarað og hvorki hægt að sanna né afsanna, að tveir menn með menntun og reynslu á sviði hönnunar véla og tækja, sem aldrei hefðu séð innviði ísstrokks Optimar, myndu geta hannað og þróað ísstrokk, eins og ísstrokkur Jarteikna sé, á tilgreindum tíma.
Undir liðnum önnur atriði, sem matsmaður telur skipta máli, í matsbeiðni, segir matsmaður svo:
Miðað við hve (1) langt þróun ísstrokks virðist hafa verið komin hjá Brunnum, miðað við að (2) Jónas var þar starfsmaður í ábyrgðarstöðu, miðað við (3) upplýsingar sem nálgast má úr einkaleyfum og ekki síst með (4) upplýsingum sem fá má frá notendum ísþykknivéla, virðist matsmanni hæpið að staðhæfa að Jónas og Þorsteinn hafi ekki getað þróað og framleitt ísstrokk nema fyrir tilstilli þekkingar sem þeir öðlazt í starfi hjá Ískerfum.
Matsgerð matsmannsins er að mati dómsins vandlega og trúverðuglega unnin og hefur henni ekki verið hnekkt, svo sem með yfirmati. Verður hún því lögð til grundvallar í máli þessu. Dómurinn telur ekki, að þau atriði, sem matsmaður telur svipuð eða eins í ísstrokkum beggja aðila í fyrri lið matsgerðar, séu þess eðlis, að þau byggi á atvinnuleyndarmálum, sem stefndu hafi nýtt sér án heimildar, heldur séu þær upplýsingar aðgengilegar í opinberum gögnum og við skoðun á strokkunum sjálfum. Þá liggur fyrir, að stefndi Jónas kom með yfirgripsmikla þekkingu frá Brunnum, þegar hann kom til starfa hjá Ískerfum, og er ósannað, að sú þekking hafi fallið undir trúnaðarskyldur hans við Ískerfi, eftir að hann hóf störf þar, og engin gögn liggja fyrir um það, að hann hafi verið bundinn trúnaði við Brunna samkvæmt ráðningarsamningi. Það er álit dómsins, að sú þekking, sem Jónas kom með í Ískerfi hafi nægt honum til þess að hefja þá framleiðslu, sem hann síðar hóf hjá Jarteiknum. Rúm 3 ár liðu frá því að Jónas lauk störfum hjá Brunnum, þar til hann hóf kynningu og sölu á framleiðslu Jarteikna. Þykir hann því ekki hafa brotið gegn 2. mgr. 27. gr. samkeppnislaga, jafnvel þótt einhver sú þekking, sem hann öðlaðist hjá Brunnum og nýttist honum við framleiðslu ísstrokka Jarteikna, kunni, eðli máls samkvæmt, að hafa fallið undir atvinnuleyndarmál þar. Þá liggur ekkert fyrir um, að stefndu hafi haft með sér gögn frá Ískerfum, sem talin eru upp í 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga. Þegar allt framaritað er virt, er ekki fallizt á, að stefndu hafi, við framleiðslu á ísstrokkum Jarteikna, nýtt sér atvinnuleyndarmál og gerzt þannig brotlegir gegn 27. gr. samkeppnislaga.
Það liggur fyrir, að hönnun ísstrokka stefndu og stefnanda er ólík, sbr. niðurstaða matsmanns, sem ekki hefur verið hnekkt. Strokkarnir hafa ekki sama lag og þá eru framleiðsluaðferðir ekki þær sömu, svo eitthvað sé nefnt.
Þegar allt framanritað er virt, er það niðurstaða dómsins, að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Ber stefnanda að greiða stefndu hvorum um sig kr. 1.500.000 í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn, ásamt meðdómendunum Sigurjóni Arasyni efnaverkfræðingi og Þorkeli Halldórssyni vélaverkfræðingi.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Jónas Garðar Jónasson og Þorsteinn Ingi Víglundsson, eru sýknir af öllum kröfum stefnanda, Optimar Íslandi ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði hvorum stefndu um sig kr. 1.500.000 í málskostnað.