Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2005
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Skaðabótamál
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2005. |
|
Nr. 268/2005. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Sigurðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Halldóri Gíslasyni (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarlög. Skaðabótamál. Vátrygging.
Hjartavernd hafði keypt segulómtæki af H hf. Tækið var flutt til Reykjavíkur á vöruflutningabifreið sem HG hafði umráð yfir og notaði við atvinnurekstur sinn. Er segulómtækið var híft af bifreiðinni, með krana hennar og annarrar vörubifreiðar, féll það á jörðina úr nokkurra metra hæð og eyðilagðist, þar sem bretti er tækið var á gaf sig vegna þunga þess. T, vátryggingafélag H hf., greiddi H hf. bætur vegna tjónsins. T taldi tjónið verða rakið til notkunar fyrrnefnds ökutækis HG og hann bæri, sem umráðamaður þess, ábyrgð á grundvelli sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, en SA, sem ábyrgðartryggði ökutækið, bæri ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í fyrri dómum réttarins, þar sem reynt hafði á gildissvið umræddrar bótaábyrgðarreglu umferðarlaga, hafi það verið lagt til grundvallar að lestun og losun vörubifreiða væri þáttur í notkun þeirra. Þegar litið væri til málsatvika allra, einkum þess að hífa átti tækið alllanga leið af palli bifreiðarinnar með tveimur öflugum krönum sem hvor um sig hefði dugað til losunar bifreiðarinnar, yrði ekki talið að sú sérstaka aðferð sem var viðhöfð við flutning tækisins við húsnæði Hjartaverndar yrði felld undir sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. laganna. Voru SA og HG sýknuð af kröfu T.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2005. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 61.881.750 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. september 2002 til 7. nóvember 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og að dráttarvextir verði dæmdir frá dómsuppsögudegi og málskostnaður í því tilviki falli niður.
Atvikum málsins er ítarlega lýst í héraðsdómi, en eins og þar greinir keypti Hjartavernd segulómtæki af Heklu hf. Framleiðandi tækisins var GE Medical Systems S.A., en GM Medirad A.S. mun hafa verið umboðsmaður framleiðanda í viðskiptum við kaupanda. Tækið kom til Keflavíkurflugvallar í janúar 2002, en 13. mars það ár var það flutt úr vörugeymslu á flugvellinum að húsnæði Hjartaverndar við Holtasmára 1 í Kópavogi á vöruflutningabifreiðinni OB 728, sem óumdeilt er að stefndi Halldór Gíslason muni hafa haft umráð yfir og notað við atvinnurekstur sinn sem sjálfstæður atvinnurekandi. Er segulómtækið var híft af bifreiðinni féll það á jörðina úr nokkurra metra hæð og eyðilagðist, þar sem bretti er tækið var á gaf sig vegna þunga þess, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Áfrýjandi, sem vátryggingafélag Heklu hf., greiddi síðarnefnda félaginu bætur vegna tjónsins og höfðaði mál í héraði á hendur stefndu og GE Medirad A.S. til óskiptrar greiðslu skaðabóta, auk vaxta. Taldi áfrýjandi tjónið verða rakið til notkunar ökutækisins OB 728 og bæri stefndi Halldór, sem umráðamaður þess, ábyrgð á því á grundvelli sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sem ábyrgðartryggði ökutækið, bæri ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. laganna. Þá byggði áfrýjandi á því í héraði að tjónið mætti rekja til sakar stefnda Halldórs og GE Medirad A.S. Héraðsdómur sýknaði alla stefndu í héraði af kröfu áfrýjanda. Fyrir Hæstarétti gerir áfrýjandi ekki kröfu á hendur síðastgreinda fyrirtækinu. Kröfugerð hans á hendur stefndu er nú ekki byggð á sök stefnda Halldórs vegna flutninganna heldur eingöngu grundvölluð á sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr., 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. laganna.
Bifreiðin OB 728 er 19.140 kg að eigin þyngd, en leyfð heildarþyngd hennar er 38 tonn. Hún er 10,6 metra löng, en 2,55 metra breið, með flötum vörupalli og sérstökum öflugum krana, staðsettum milli stýrishúss og palls bifreiðarinnar og knúnum af aflvél hennar. Hann mun hafa verið tryggður sérstaklega frjálsri ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Umrætt segulómtæki var töluvert umfangsmikið. Mun það hafa vegið rúm sex tonn og skömmu fyrir flutning þess frá Keflavíkurflugvelli höfðu um 900 lítrar af helíum verið settir á geymi í tækinu. Tækið var í kassa og á bretti og var það flutt þannig úr geymslu á flugvellinum á pall vöruflutningabifreiðarinnar OB 728. Var notaður sérstakur lyftari við flutning tækisins úr vörugeymslu og á pall bifreiðarinnar, en ekki krani hennar. Ökumaður hennar var Jón Halldór Halldórsson, sonur stefnda Halldórs, og var ekki lagt af stað með tækið til Reykjavíkur fyrr en stefndi Halldór hafði fullvissað sig um að Hekla hf. hafði tekið sérstaka flutningstryggingu vegna þessa. Sérstakur undirbúningsfundur hafði verið haldinn 12. mars 2002 fyrir utan húsnæði Hjartaverndar í Kópavogi þar sem aðstæður voru skoðaðar og rætt um hvernig best yrði staðið að því að koma tækinu fyrir í húsnæði Hjartaverndar. Er efni fundarins rakið í hinum áfrýjaða dómi, en aðila greinir á um hvort þar hafi verið ákveðið að nota einungis krana bifreiðarinnar OB 728 við hífingu segulómtækisins af bifreiðinni, eða tvo krana til verksins sem raun varð á. Eins og lýst er í héraðsdómi var krani á vöruflutningabifreiðinni TH 055 einnig notaður til verksins, en hún er sambærileg bifreiðinni OB 728 að gerð og mun stefndi Halldór einnig vera umráðamaður hennar. Stefndi Halldór stjórnaði krana fyrrnefndu bifreiðarinnar við hífinguna, en sonur hans krana bifreiðarinnar OB 728 og mun stefndi Halldór hafa haft yfirumsjón með hífingunni. Georg Ragnar Árnason, starfsmaður vinnueftirlits, sem gerði skýrslu um umrætt atvik bar fyrir héraðsdómi að slík aðferð væri alvanaleg við verk sem þetta og síður en svo varhugaverðari en að nota einn krana. Er fram komið í málinu að ástæða þess að notaðir voru tveir kranar hafi verið sú að stefndi Halldór taldi það öruggara, þótt kraninn á bifreiðinni OB 728 hafi haft næga lyftigetu til losunar segulómtækisins af vörubifreiðinni, til að tryggja stöðugleika tækisins með tilliti til þess að það innihéldi vökva. Þá er fram komið að bifreiðin OB 728 var ekki losuð þannig að tækið væri flutt stystu leið af palli hennar, heldur átti jafnframt að hífa það fjóra til fimm metra upp á efri hæð bifreiðastæðahúss og rúmlega fjóra metra inn eftir henni. Var bifreiðunum stillt upp kyrrstæðum hlið við hlið við verkið. Efri hæð bifreiðastæðahússins mun hafa verið notuð sem bifreiðastæði, en ekki var talið víst að hún þyldi þunga flutningabifreiðarinnar OB 728 ásamt segulómtækinu. Var bifreiðinni því ekki ekið þangað, en eins og fram kemur í héraðsdómi mun hafa komið til athugunar að nota sérstakan krana til verksins í stað þeirrar aðferðar notuð var.
Í dómum réttarins, þar sem reynt hefur á gildissvið hinnar sérstöku bótaábyrgðarreglu umferðarlaga um tjón af notkun skráningarskyldra vélknúinna ökutækja, hefur það verið lagt til grundvallar að lestun og losun vörubifreiða sé þáttur í notkun þeirra. Þegar litið er til framangreindra atriða, einkum þess að hífa átti segulómtækið alllanga leið af palli bifreiðarinnar OB 728 með tveimur öflugum krönum sem hvor um sig hefði dugað til losunar bifreiðarinnar, verður ekki talið að sú sérstaka aðferð sem var viðhöfð við flutning umrædds segulómtækis við húsnæði Hjartaverndar í Kópavogi verði felld undir sérreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. laganna og ber því að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.
Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Halldór Gíslason, eru sýkn af kröfu áfrýjanda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Áfrýjandi greiði stefndu hvorum um sig samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2005.
Mál þetta sem dómtekið var 23. febrúar sl. er höfðað með stefnu birtri 3. nóvember 2003 á hendur stefnda GE Medirad AS., en 19. nóvember 2003 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Halldóri Gíslasyni.
Stefnandi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Stefndu eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík, Halldór Gíslason, Hvassabergi 14, Hafnarfirði og GE Medirad AS., Tåsenveien 71, Oslo, Noregi. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt kr. 61.881.750,00, stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Halldór Gíslason greiði óskipt vexti af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. mars 2002 til 7. nóvember 2002 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags en stefndi GE Medirad AS. greiði vexti af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. mars 2002 til 18. mars 2003 en greiði ásamt öðrum stefndu óskipt dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. er þess krafist að þessi stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður felldur niður og dráttarvextir einungis greiddir frá dómsuppsögudegi.
Af hálfu stefnda Halldórs Gíslasonar er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.
Af hálfu stefnda GE Medirad AS. er þess krafist að þessi stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður. Til vara er þess krafist að sýknukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Með úrskurði dómsins frá 8. desember sl. var kröfu stefnda Medirad AS. um frávísun málsins hafnað.
MÁLSATVIK
Hjartavernd ákvað á árinu 2001 að festa kaup á segulómtæki til rannsókna og/eða greininga á hjartasjúkdómum. Haft var samband við Heklu hf., sem er umboðsaðili stefnda GE Medirad AS, en það fyrirtæki hefur með höndum sölu á þessum tækjum fyrir framleiðanda tækisins, sem er GE Medical Systems, New Berlin, Wisconsin. Tækið var eign seljanda, Heklu hf., þar til tækið væri komið á sinn stað í húsnæði Hjartaverndar í Kópavogi. Tækið var flutt frá Houston í Texas, Bandaríkjunum, til Keflavíkur með flugi og kom tækið til Keflavíkur í janúar 2002 þar sem það var geymt í húsnæði Vallarvina ehf. Þann 23. janúar 2002 fóru starfsmaður Heklu og starfsmaður stefnda GE Medirad AS. til Keflavíkur þar sem tækið var tengt við vatn og rafmagn og helium bætt á tækið. Í þessu skyni varð að taka þar til gerðan kassa af tækinu en hann var síðan settur á aftur. Þann 12. mars 2002, var óskað eftir því að við TVG Siemsen af hálfu Heklu hf. að tækið yrði flutt í húsnæði Hjartaverndar, Kópavogi. TVG hafði af þessu tilefni sambandi við stefnda Halldór Gíslason, sem starfar sem sjálfstæður verktaki við flutninga og tók hann að sér flutninginn. Þann 12. mars 2002 var fundur í Hjartavernd þar sem farið var yfir flutningsferlið. Viðstaddir þann fund voru m. a. Smári Kristinsson, stefndi Halldór Gíslason, Guðmundur Hreiðarsson og Flemming Lassen sem hingað var kominn frá Danmörku og skyldi annast tengsl tækisins við vatn og rafmagn. Fundurinn var ekki í sérstöku fundarherbergi heldur hittust aðilar fyrir utan húsnæði Hjartaverndar og ræddu málin og skoðuðu aðstæður. Þann 13.03.2002 var tækið sótt til Keflavíkur og flutt í Kópavog á bifreiðinni OB-728, sem er skráð eign SP-Fjármögnunar, en varanleg umráð bifreiðarinnar hefur stefndi Halldór Gíslason. Ökumaður bifreiðarinnar OB-728 frá Keflavík í Kópavog var Jón Halldór Halldórsson, sonur Halldórs Gíslasonar. Að morgni 13 mars höfðu þrír menn á vegum Heklu hf. gert tækið klárt til flutnings og þá m.a. opnað kassann. Kassinn var kominn á tækið þegar ökumaður OB-728 kom að sækja það. Strax og komið var að húsnæði Hjartaverndar var hafist handa um að undirbúa hífingu tækisins af bifreiðinni og ætlunin að nota tvo krana, en hífing með þeim hætti var öruggari að mati stefnda Halldórs sem taldi að þá væri minni hætta á að kassinn og þar með tækið hallaðist. Stefndi Halldór sem stjórnaði affermingunni hagaði verki með þeim hætti að tveimur tvöföldum stroffum var brugðið undir bretti sem segulómtækið stóð á en kassi var utan um segulómtækið. Síðan vora keðjur með krók á endum festar í stroffurnar og strekkt á (tvö keðjusett, eitt í hvora stroffu). Keðjusettin voru þannig útbúin að í hvoru þeirra um sig voru fjórar keðjur, með krókum á öðrum enda. Hinn endi þessara fjögurra keðja í hvoru setti um sig, var festur við hring. Krókur í krana á vörubifreiðum þeim sem notaðar voru við afferminguna var síðan festur í þennan hring. Síðan voru tvær af fjórum keðjum í hvoru keðjusetti festar í hvora stroffu um sig. Krókum á enda þeirra tveggja keðja í hvoru keðjusetti sem ekki voru festar við stroffu var síðan smeygt uppá hring viðkomandi keðjusetts. Við hífingu féll tækið til jarðar og varð altjón á tækinu.
Leiðbeiningar framleiðanda um hvernig lyfta skyldi segulómtækinu voru í plasthylki sem fest var á kassa þann sem tækið var í þegar það var afhent Heklu hf. í janúar 2002. Fyrir liggur að er starfsmaður stefnda Halldórs kom til þess að flytja tækið frá geymslu á Keflavíkurflugvelli höfðu leiðbeiningarnar verið teknar af kassanum. Í leiðbeiningum þessum er því lýst hvernig lyfta beri tækinu með krana eða með gaffallyftara og leiðbeiningar um hvernig tengja beri tækið við vatns- og raflagnir á geymslustað eða þeim stað þar sem það skal notað. Hafði Flemming Lassen sem annast skyldi tengingar við vatn og rafmagn tekið leiðbeiningarnar að morgni 13. mars til þess að hafa til hliðsjónar við aftengingu á tækinu og athugun á tengingum og öðru, sem nauðsynlegt var að gera áður en tækinu yrði komið fyrir á endanlegum stað hjá Hjartavernd. Þegar því var lokið aftengdi hann tækið. Að svo búnu var kassanum lokað. Eftir að búið var að aftengja tækið og loka kassanum setti hann umræddar leiðbeiningar ekki aftur á kassann heldur í tösku sem hann var með.
Í máli þessu hefur verið lögð fram myndbandsupptaka af því er óhapp það, sem mál þetta á rót sína að rekja til, varð.
Þann 19. september 2002 greiddi stefnandi vátryggðum, Heklu hf., 68.069.750 krónur í bætur vegna altjónsins. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi tjónið numið 700.000 bandaríkjadölum. Bótagreiðslur stefnanda hafi hins vegar miðast við 770.000 dali sbr. 3. mgr. 75. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954. Greiðsla stefnanda sundurliðist þannig:
|
Bótafjárhæð |
USD |
770.000,00 |
|
|
|
Gengi |
kr. |
88,4 |
|
|
|
Andvirði |
kr. |
68.068.000,00 |
|
|
|
Útlagður kostnaður |
kr. |
750,00 |
|
|
|
Kostn. erl. banka |
kr. |
1.000,00 |
|
|
|
Samtals |
kr. |
68.069.750,00 |
|
|
Greiðsla stefnanda að frádregnum þeim 10% sem byggst hafi á 3. mgr. 75. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954 hafi numið 61.881.750 krónum (USD 700.000,00 x 88,4 + 750,00 + 1.000,00 = 61.881.750.), sem er stefnufjárhæðin í málinu.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK:
Stefnandi vátryggði umrætt segulómtæki í flutningi og greiddi stefnufjárhæðina í bætur vegna tjónsins. Rétt til endurkröfu byggir stefnandi á 22. gr. sbr. 21. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Umrætt tjón á segulómtækinu þann 13. mars 2002 verði rakið til atvika sem gerst hafi við affermingu ökutækisins OB-728 með krana sem var hluti af búnaði hennar. Tjónið verði því rakið til notkunar ökutækisins OB-728. Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Halldór Gíslason beri ábyrgð á tjóninu á grundvelli 1. mgr. 88. gr., 1. mgr. 90. gr. , 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þá telur stefnandi ljóst að tjónið verði rakið til gálausrar háttsemi stefnda Halldórs sem tekið hefði að sér að flytja tækið frá Keflavík til móttakanda í Kópavogi og stjórnað affermingu bifreiðarinnar OB-728. Stefndi Halldór hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að nota krana tveggja bifreiða við að afferma ökutækið OB-728, án þess að gera viðsemjendum sínum eða fulltrúa stefnda GE Medirad AS. grein fyrir því að þannig hygðist hann standa að verki. Þá hafi hann ekki leitað eftir upplýsingum frá fulltrúa stefnda GE Medirad AS., hvorki á fundi þann 12. mars 2002 eða þann 13. mars 2002 um hvernig standa bæri að affermingunni. Stefnda Halldóri hafi verið kunnugt um eðli tækisins, þyngd þess og verðmæti. Honum hafi því verið ljóst, sem fagmanni með mikla reynslu á þessu sviði, að sérstakrar aðgæslu var þörf við afferminguna. Þá hafi starfsmaður stefnda Halldórs verið sérstaklega beðinn um að ekki yrði hafist handa við að afferma ökutækið í Kópavogi fyrr en fulltrúi stefnda GE Medirad AS. væri kominn á staðinn. Við þessum fyrirmælum hafi stefndi Halldór ekki orðið.
Hefði stefndi Halldór, á fundinum í húsnæði Hjartaverndar þann 12. mars 2002 eða að morgni 13. mars 2002, borið aðferð þá sem hann hugðist nota við að afferma bifreiðina OB-728 undir fulltrúa stefnda GE Medirad AS. eins og honum hefði borið sem sérfræðingi, hefði hann verið upplýstur um að fjarlægja bar kassan utan af tækinu fyrir affermingu þar sem tækið stóð á grind í kassanum sem sérstaklega hafi verið útbúin til notkunar við að hífa tækið.
Þá hafi stefnda Halldóri mátt vera það ljóst að sú ákvörðun hans að nota svokallaðan "hanafót" við hífingu í stað þess að nota "herðatré", hafi falið í sér verulegt gáleysi enda hafi þetta valdið því að stroffurnar og keðjurnar lágu utan í kassanum nokkuð sem hann hefði ekki þolað þegar slinkur kom á hann og óeðlilegur þungi færst yfir á annað keðjusettið/stroffu. Mjög erfitt sé að standa að hífingu með þeim hætti sem stefndi Halldór hafi gert án þess að það leiði til þess að á einhverju tímamarki færist óeðlilegur þungi yfir á annað af keðjusettunum/stroffunum tveimur, þ.e. mjög erfitt sé að halda jafnvægi í hífingu milli krananna tveggja. Þetta hafi stefnda Halldóri verið kunnugt um.
Einnig komi glöggt fram á myndbandsupptöku af atvikinu sem liggur frammi í málinu, að frágangur stefnda Halldórs á því keðjusetti sem tengt var krana bifreiðarinnar OB-728 hafi verið ófullnægjandi, sem aftur hafi leitt til þess að slinkur kom á það keðjusett og óeðlilegrar þungayfirfærslu á þá stroffu sem tengd hafi verið þeim krana, sem aftur varð til þess að kassinn brotnaði, stroffan slitnaði og tækið féll til jarðar. Bendir stefnandi sérstaklega á að stefndi Halldór hafi látið vera að kanna sérstaklega frágang á keðjusetti því sem tengt var krana bifreiðarinnar OB-728 eftir að slakinn hefði verið tekinn af því keðjusetti en áður en hífing hófst, nokkuð sem stefnandi telji óforsvaranleg vinnubrögð.
Af þessu sé ljóst að háttsemi stefnda Halldórs við afferminguna hafi verið óforsvaranleg og hann beri því skaðabótaábyrgð á tjóninu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Um bótaábyrgð stefnda GE Medirad AS. bendir stefnandi á að stefnda sem seljanda tækisins og sérfræðings um tækið hafi borið að upplýsa þann aðila sem tók að sér flutning tækisins ef sérstakra aðferða var þörf við flutninginn, þar með talið við lestun og affermingu. Stefnda GE Medirad AS. hafi borið að ganga úr skugga um að þeim sem tók að sér flutninginn væri kunnugt um að tækið hafi staðið á sérstakri grind í kassanum, sem sérútbúin hafi verið til notkunar þegar hífa þurfti tækið ef ekki var notaður lyftari. Það hafi stefndi GE Medirad AS. ekki gert.
Þá hafi fulltrúi stefnda GE Medirad AS. sem var á fundi m.a. með stefnda Halldóri þann 12. mars 2002 og var í Keflavík þann 13. mars 2002 að ganga úr skugga um að stefndi Halldór beitti réttum aðferðum við að affermingu ökutækisins OB-728 í Kópavogi. Það hafi hann ekki gert. Þá sé einnig ljóst að þegar umboðsmaður stefnda GE Medirad AS. hafi komið á affermingarstað í Kópavogi hafi tjónið ekki orðið. Þrátt fyrir að hann hafi talið þá þegar ljóst að affermingaraðferð stefnda Halldórs væri óforsvaranleg hafi hann ekki gert tilraun til að stöðva afferminguna.
Stefnandi telur þetta athafnaleysi og skort á flutningsfyrirmælum hafi bakað stefnda GE. Medirad AS. skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Sýknukrafa stefnda Sjóvár-Almennra trygginga er í fyrsta lagi á því byggð að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar beri ekki ábyrgð sem vátryggjandi bifreiðarinnar OB-728 þar sem ekki sé um að ræða notkun í merkingu 88. greinar umferðarlaga nr. 87/1987. Hvað varði fermingu og affermingu hafi dómstólar sett notkunarhugtakinu tiltekin mörk og sýnist þar einkum höfð hliðsjón af því að um sé að ræða eiginlega fermingu eða affermingu með venjubundnum búnaði vörubifreiðar og þegar um krana vörubifreiða sé að ræða eigi að hafa hliðsjón af lyftigetu. Um leið og komið sé út fyrir beina fermingu og affermingu í þröngri merkingu geti ekki verið um að ræða notkun í merkinu 88. greinar umferðarlaga, t.d. þegar farmur er færður úr stað eða hífður tiltekna leið. Í þessu tilviki sé ekki um affermingu að ræða. Fyrir það fyrsta hafi umrætt tæki verið sett á bifreiðina með lyftara án þess að fastur krani bifreiðarinnar hafi komið þar nærri. Í öðru lagi hafi ekki verið um að ræða affermingu þar sem hífa hafi átt tækið tiltekna leið upp á bifreiðastæði til framhaldsflutnings. Flutningur tækisins af bifreiðinni hafi falið í sér sérstakar hættur umfram venjulega affermingu. Í þriðja lagi hafi við flutning tækisins af bifreiðinni OB-728 verið notaðir tveir kranar, krani bifreiðarinnar OB-728 og krani vörubifreiðarinnar TH-055. Flutningur tækisins af palli vörubifreiðarinnar með þessum hætti geti í engum tilvikum fallið innan notkunarsviðs 88. greinar umferðarlaga, þar sem öll fyrirliggjandi dómafordæmi byggi á því að notaður sé krani viðkomandi bifreiðar. Í fjórða lagi sé lyftigeta kranabifreiðarinnar OB-728 langt umfram það sem bein þörf sé á vegna notkunar bifreiðarinnar sem ökutækis. Lyftigeta kranans taki mið af þeirri notkun bifreiðarinnar að geta híft þunga hluti til, hvort sem þeir hinir sömu hlutir hafi verið fluttir með bifreiðinni eða ekki. Vörubifreið í slíkum tilvikum sé þá í raun í hlutverki eiginlegs bílkrana, sem eins og kunnugt sé geti ekki flutt muni og sé eingöngu notaður til hífinga.
Í öðru lagi sé á því byggt að hugsanleg ábyrgð stefnda sem vátryggjanda bifreiðarinnar hafa fallið niður vegna eigin sakar stefnanda, starfsmanna eigenda tækisins eða manna sem þeir beri ábyrgð á, sbr. 3. mgr. 88. grein umferðarlaga.
Hvað varði stefnanda sé á því byggt að hann hafi sem vátryggjandi tækisins í flutningi vanrækt að kynna sér hvernig ætti að standa að flutningi tækisins og til þess megi öðrum þræði rekja tjónið. Í þessu sambandi sé rétt að árétta að stefnanda sé fullkunnugt um að eigendur krana geti ekki fengið keypta nema afar takmarkaða vátryggingu vegna muna í hífingu eða vörslu og því fyllsta ástæða til að kynna sér flutninginn á tækinu þar sem um hafi verið að ræða flutningstryggingu á dýrum hlut og hífing innifalin í vátryggingunni. Það sé og venja hjá vátryggingafélögum að sérstakt áhættumat fari fram í slíkum tilvikum, en á það virðist hafa skort.
Hvað varði eiganda tækisins sé og byggt á því að hann hafi einnig vanrækt að kynna sé hvernig ætti að standa að flutningi tækisins og á því beri stefnandi ábyrgð þar sem hann leiði rétt sinn til bóta frá honum. Eigandi tækisins hafi fengið í hendur flutningsfyrirmæli framleiðanda sé og á því byggt að hann hafi ekki kynnt sér þau fyrirmæli og til þess megi rekja tjónið. Þá sé og á því byggt að starfsmenn eiganda tækisins eða menn sem hann beri ábyrgð á hafi ekki upplýst stefnda Halldór Gíslason um að fyrir hendi hafi verið búnaður á tækinu, gerður til hífinga.
Þá sé enn fremur í þessu sambandi byggt á því að starfsmenn eiganda tækisins hafi með því að taka kassann af og opna, veikt burðargetu hans og til þess megi rekja tjónið.
Þá feli kröfugerð stefnanda á hendur GE Medirad AS í sér viðurkenningu þess efnis að stefndi Halldór hafi að öllu leyti flutt tækið í samræmi við viðteknar venjur og hefðir.
Hvað varði varakröfu um lækkun sé í fyrsta lagi vísað til þess að ábyrgð stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga geti aldrei orðið meiri en helmingur þar sem krani annarrar bifreiðar hafi einnig verið notaður við affermingu tækisins. Notkun þess krana geti í engum tilvikum fallið undir notkunarhugtak 88. greinar umferðarlaga í tengslum við notkun bifreiðarinnar OB-728 enda heldur ekki því byggt af hálfu stefnanda.
Í öðru lagi er, verði ekki fallist á niðurfellingu hugsanlegs bótaréttar vegna eigin sakar, er vísað til þess að skipta beri sök og þá vitnað til sömu raka og hér að framan eru rakin um niðurfellingu vegna eigin sakar.
Af hálfu stefnda Halldórs Gíslasonar er bent á að búið hafi verið um segulómtækið í trékassa, sem hafi engar merkingar borið um það að ekki mætti hífa, eða hvernig staðið skyldi að við hífingu þess, né hvað bæri að varast við þá aðgerð. Þvert á móti komi fram í viðbótarupplýsingum á farmbréfi því er fylgdi kassa þeim er segulómtækið var í og stefndi Halldór fékk í hendur, að lyfta megi kassanum með gaffallyftara eða krana, en þá verði stroffa að vera a.m.k. sex fet eða 1,80 metrar.
Farmflytjanda sé ekki heimilt að opna þá kassa sem honum er falið að flytja, nema að sú heimild liggi ljós fyrir og að kassinn sé merktur með þeim hætti að til þess sé ætlast fyrir hífingu eða að grunur vakni um að innihaldið sé ólöglegt og beri honum þá að kalla til lögreglu- eða tollayfirvöld.
Stefndi Halldór hafi þegar í upphafi gert það ljóst að við hífingu yrðu notaðir tveir kranar þar sem í tækinu var sagður vökvi og ekki vitað hvort vökvatankur var fullur eða ekki, eða hvort skilrúm væru í tanknum.
Þegar hífing hafi verið undirbúin hafi fjórir borðar, með hlífum á kassabrúnum, verð dregnir í gegnum þar til gerðar hífingarraufar og burðargeta hvers borða hafi verið fjögur tonn, sem eigi að þola tveggja metra fall, komi til þess. Á hverjum borða hafi verið tvær endalykkjur og þær þræddar upp á tvo keðjukróka á hvorum enda. Síðan hafi farið fram strekking og kassanum lyft u. þ. b. 10 sentimetra, þá hafi verið slakað um u. þ. b. 5 sentimetra og festingar skoðaðar, svo og hvort samanpressa gæti verið of mikil á topp kassans. Við slökunina hafi hvorki komið fram brak né brestir í toppi kassans. Hafi þá hífing verið hafin og kassanum haldið stöðugt í láréttri stöðu. Botnbretti kassans hafi brostið og borðarnir skorist í sundur á stálplötum sem voru u. þ. b. 25 sentimetra frá kassabrún og tækið fallið til jarðar á milli bifreiðanna OB-728 og TH-055. Við það hafi bifreiðin OB-728 skemmst töluvert.
Eftir fall kassans hafi lok hans verið stráheilt.
Stefndi telur lýsingu stefnanda á atburðarás við hífingu kassans, sem byggð sé á túlkun hans á myndbandi því sem tekið var af atvikinu vera ranga og villandi.
Stefndi Halldór hafi tryggt bifreiðarnar OB-728 og TH-055 lögboðnum ábyrgðartryggingum, sbr. 91. gr. umfl. nr. 50 frá 1987, hjá meðstefnda, Sjóvá- Almennum tryggingum hf og hafi kranar bifreiðanna auk þess verið tryggðir sérstaklega, frjálsri ábyrgðartryggingu, hjá sama félagi. Stefndi Halldór telji að notkun bifreiðanna og krananna hafi tvímælalaust verið í notkun í merkingu 88. gr. umferðarlaga.
Ljóst megi vera að ekki sé hægt með nokkrum hætti að rekja tjónið til sakar eða gálausrar háttsemi stefnda, Halldórs Gíslasonar, sem verkstjórnanda við flutninginn, eða affermingu bifreiðarinnar OB-728 með aðstoð krana á bifreiðinni TH-055, né heldur vanbúins tækjabúnaðar hans. Beri því að taka dómkröfur stefnda, Halldórs Gíslasonar til greina að öllu leyti í máli þessu.
Af hálfu stefnda GE Medirad A.S. er byggt á því að eins og fram komi í yfirlýsingu GEMS frá 7. janúar 2004 liggi fyrir að GE Medirad A.S. hafi komið fram fyrir hönd GEMS, sem umboðsmaður GEMS, við sölu á nefndu segulómtæki til Heklu hf. Hafi stefndi í umboði GEMS séð um að taka við pöntun á tækinu og reikningsgerð ásamt öðrum tengdum verkum vegna kaupanna. Staða stefnda, sem umboðsmanns GEMS gagnvart Heklu hf. við kaupin, byggist á viðskiptavenju sem Hekla hf. hafi vitað um eða mátt vita um.
Samkvæmt þessu og með vísan til almennra reglna samningaréttar um umboð hafi ekkert réttarsamband skapast á milli Heklu hf. og stefnda með kaupum Heklu hf. á nefndu segulómtæki, sem mál þetta snúist um. Af þeim sökum beri stefndi enga skyldu gagnvart Heklu hf., sem leiði til þess að kröfum stefnanda sé ranglega beint að stefnda.
Samkvæmt því krefjist stefndi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði ekki á þetta fallist byggir stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að tjónið hafi ekki orsakast af atvikum sem hann beri ábyrgð á eftir skaðabótareglum innan og utan samninga. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir því, að honum, sem seljanda og sérfræðingi um tækið, hafi borið að upplýsa stefnda Halldór ef sérstakra aðferða var þörf við flutning og hífingu á tækinu, að stefnda hafi borið skylda til að ganga úr skugga um daginn fyrir slysið að undirverktaki Heklu hf. beitti réttri aðferð við hífingu á tækinu og að fulltrúi stefnda hafi borið skylda til grípa inn í og stöðva hífingu á tækinu rétt áður en slysið átti sér stað. Byggir stefndi annars vegar á því, að hann hafi afhent tækið með greinargóðum upplýsingum um hvernig átti að hífa tækið og hins vegar á því, að samið hafi verið sérstaklega um að Hekla hf. myndi að sjá um flutning og þar af leiðandi hífingu á tækinu á sína áhættu og ábyrgð eftir að búið væri að afhenda tækið til Heklu hf.
Fyrir liggi í málinu að stefndi hafi afhent Heklu hf. tækið ásamt greinargóðum leiðbeiningum um hvernig haga ætti hífingu á tækinu.
Stefndi byggir á því að með því að afhenda tækið á þennan hátt hafi hann uppfyllt þá upplýsingaskyldu sem kunni að hvíla á honum gagnvart kaupanda tækisins á grundvelli almennra reglna kaupa- og skaðabótaréttar.
Hekla hf. og/eða undirverktaki Heklu hf. hafi látið undir höfuð leggjast að kynna sér leiðbeiningamar og/eða rannsaka tækið í þá rúmlega tvo mánuði sem tækið beið í vörugeymslunni á Keflavíkurflugvelli og geti stefnandi ekki borið fyrir sig að stefndi hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni eða sýnt af sér eitthvað athafnaleysi, eins og haldið er fram í stefnu. Verði stefnandi að bera hallann af þessar vanrækslu eða yfirsjón Heklu hf. eða manna sem félagið ber ábyrgð á.
Stefndi byggir auk þess að því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á umræddu tjóni þar sem tjónið hafi átt sér stað eftir að búið var að afhenda tækið til Heklu hf. og þar af leiðandi eftir að ábyrgð stefnda á tækinu hafi lokið samkvæmt samningi aðila.
Hvernig geymslu, fermingu um borð í vörubifreið, flutningi og affermingu tækisins var háttað á Íslandi hafi algjörlega verið á áhættu og ábyrgð Heklu hf. og stefnda óviðkomandi, enda svo um samið að Hekla hf. bæri ábyrgð á þessum verkum. Hafi orðið einhver mistök við þessi verk sem leiddu til þess að tækið varð fyrir tjóni beri Hekla hf. ein ábyrgð á því eða sá undirverktaki sem Hekla hf. fékk til þess að framkvæma verkið.
Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því, að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóninu þar sem sérstaklega var samið um að flutningur á tækinu væri á ábyrgð Heklu hf. en ekki stefnda.
Fyrir liggi að stefndi hafi einungis tekið aðeins að sér að veita tæknilega ráðgjöf og aðstoð við að koma tækinu í gang. Þessi ráðgjöf hafi ekkert með flutning og hífingu á tækinu að gera. Sá þáttur hafi alfarið verið á ábyrgð og áhættu Heklu hf. Af þeim sökum geti hvorki komið til bótaábyrgðar stefnda á flutningnum né hvílt einhver skylda á stefnda til þess að aðstoða eða veita einhverja ráðgjöf í sambandi við hann þrátt fyrir að menn á vegum stefnda hafi verið staddir hér á landi þegar slysið átti sér stað.
Stefndi mótmælir því alfarið að á Flemming Lassen hafi hvílt einhver sérstök skylda að leiðbeina um flutning og hífingu tækisins eða að honum hafi berið að grípa til einhverra aðgerða til þess að afstýra tjóninu. Vísar stefndi til þeirrar meginreglu í skaðabótarétti að athafnaleysi leiðirekki til bótaskyldu.
Flemming Lassen hafi verið staddur hér á landi í þeim erindagerðum einum að veita tæknilega ráðgjöf við gagnsetningu á tækinu. Flutningur og hífing tækisins hafi verið honum óviðkomandi enda alfarið á ábyrgð og áhættu Heklu hf.
Enda þótt Flemming Lassen hafi ekki sett leiðbeiningarnar á kassann eftir að hann hafði notað þær við að aftengja tækið á Keflavíkurflugvelli hafi það ekki breytt neinu varðandi tjónið. Leiðbeiningar þessar hefðu verið á tækinu í rúmlega tvo mánuði og þannig aðgengilegar fyrir Heklu hf. Auk þess hafði Halldór þegar tekið ákvörðun daginn áður um hvernig hann ætlaði að hífa tækið, sem leiðir til þess að það hefði ekki breytt neinu þótt leiðbeiningarnar hefðu verið á tækinu þegar það kom í Holtasmára 1.
Stefndi gerir þá grein fyrir kröfu sinni um lækkun bóta á því að fyrir liggi og sé óumdeilt að viðskipti Heklu hf. og stefnda hafi verið í bandaríkjadölum og að beint tjón Heklu hf. hafi verið 700.000 dalir. Með vísan til þess beri að gera tjónið upp í bandaríkjadölum en ekki íslenskum krónum. Að öðrum kosti sé stefnandi ekki í sömu sporum og Hekla hf., sem sé andstætt endurkröfurétti stefnanda eftir 22. gr. skaðabótalaga. Auk þess geti þessi aðferð stefnanda á útreikningi kröfunni leitt til þess að stefnandi hagnast á tjóninu, sem sé andstætt þeirri almennu reglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki að hagnast á tjóni sínu.
Í öðru lagi krefst stefndi þess að tekið verði tillit til eigin sakar eða aðgæsluleysis Heklu hf. og/eða undirverktaka félagsins og dómkrafan felld niður eða lækkuð í samræmi við slíka eigin sök.
Í þriðja lagi mótmælir stefndi því alfarið að honum beri að greiða óbeint eða afleitt tjón, m.a. með vísan til 17.1. gr. í dreifingarsamningi stefnda og Heklu hf. Af þeim sökum beri að lækka kröfuna um 1.750 krónur.
Í fjórða lagi krefst stefndi þess að dregið verði frá kröfunni það sem hægt sé að fá fyrir sölu hins skemmda tækis í brotajárn. Kröfu stefnanda um vexti fyrir tímabilið áður en dómur er kveðinn upp er alfarið mótmælt.
NIÐURSTAÐA
Um ábyrgð stefnda Halldórs Gíslasonar
Stefndi Halldór átti fund með vitnunum Guðmundi Hreiðarssyni, Smára Kristinssyni og Flemming Lassen í húsakynnum Hjartaverndar í Kópavogi og kom fram hjá vitnunum að hann hefði sagt frá því hvernig hann ætlaði að standa að því að koma tækinu inn í húsnæði Hjartaverndar. Þau minntust þess ekki að stefndi Halldór hafi sagst ætla að nota tvo krana. Hins vegar er ljóst að ætlunin var að nota krana við að lyfta tækinu af bílpalli og upp á bifreiðastæðið. Fram kom hjá vitninu Georgi Árnasyni eftirlitsmanni hjá véladeild vinnueftirlits ríkisins sem er vélvirkjameistari og vélfræðingur, en hann kannaði vettvang, ræddi við sjónarvotta og gerði skýrslu um rannsókn sína, að sú aðferð að nota tvo krana við að lyfta hlutum sé alþekkt og að hann hefði ekkert við þá aðferð að athuga. Taldi vitnið að bretti það er var undir tækinu hafi brotnað er því var lyft og stroffur þær sem brugðið var um kassann hefðu kubbast í sundur er þær námu við járnplötur sem voru á tækinu um 25 sentimetrum innan við kassann. Eftir að brettið hafi brotnað hafi kassinn farið. Dró vitnið þessar ályktanir af athugun sinni á vettvangi en hann kvaðst ekki hafa séð myndband sem til er af atvikinu. Athugun á myndbandsupptökunni bendir og til þessa að mati dómara. Verður á því byggt hér að bretti það sem tækið var flutt á hafi brotnað er því var lyft og í framhaldi af því hafi bönd þau er brugðið var um kassann kubbast í sundur og tækið því fallið til jarðar. Þykir aðferð sú sem beitt var þ. e. að nota tvo krana við að flytja tækið af palli bifreiðarinnar OB-728 ekki skipta máli um hvernig fór. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að meta beri aðferð þá sem beitt var stefnda Halldóri Gíslasyni til sakar.
Kemur þá til athugunar hvort það verði metið stefnda Halldóri til sakar að hafa ekki leitað sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig flytja skyldi tækið. Fram er komið að stefndi átti fund með fulltrúa Heklu hf, Rafarnarins og manns sem sendur hafði verið af stefnda GE Medirad til þess að annast tengingar tækisins daginn áður en tækið var flutt og að rætt var hvernig staðið skyldi að affermingu bifreiðar þeirrar er tækið flutti. Engir fyrirvarar eða athugasemdir við þá aðferð að lyfta tækinu á bretti komu fram þar. Mátti stefndi því gera ráð fyrir því að sérfróðir aðilar um tækið myndu gera athugasemdir við fyrirhugaða aðferð hans við flutning þess ef hún teldist hættuleg. Við þessar aðstæður verður það ekki metið stefnda til sakar að kanna þetta atriði ekki sérstaklega enda var um að ræða farm á bretti sem stefndi mátti ætla að væri nægjanlega traust.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi Halldór Gíslason sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt er að taka fram að þess misskilnings gætir hjá talsmönnum aðila, annarra en lögmanns stefnda Halldórs, að á segulómtækinu hafi verið sérstakir krókar til að krækja í og lyfta þannig. Samkvæmt leiðbeiningum, sem sagðar eru samskonar þeim sem voru á kassanum, skyldi kassinn tekinn af brettinu og böndum brugðið um bol tækisins sem er sívalt og því lyft þannig ef nota ætti krana en sérstaklega er tekið fram að alls ekki megi nota umrædda króka við að lyfta tækinu. Allt að einu var það gert er síðara tækinu var komið fyrir án þess að séð verði að nokkur hafi hreyft athugasemdum við því.
Um ábyrgð stefnda Sjóvár Almennra trygginga hf.
Atvik í máli þessu er með þeim hætti að verið var að lyfta rúmlega sex tonna þungum farmi af bifreið og til þess var notaður krani bifreiðar þeirrar er flutti farminn og krani annarrar bifreiðar. Skyldi farminum lyft af palli bifreiðarinnar OB-728 og upp á bifreiðastæði um allt að 5 metrum. Þá kemur fram í málinu að ráð hafði verið fyrir því gert að krani yrði fengin til þessa verks en horfið var frá því vegna þess að talið var að verkefnið yrði leyst með bílkrana. Við þessar aðstæður þykir ekki verða litið svo á að um sé að ræða notkun ökutækis hvort heldur er í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga eða 1. mg. 91. gr. sömu laga. Verður því ekki á það fallist að hlutlægar reglur umferðalaga taki til tilviks þessa. Þá er það niðurstaða dómsins eins og að framan greinir að ekki sé sýnt fram á sök stefnda Halldórs Gíslasonar og að fenginni þeirri niðurstöðu auk þess sem segir um hlutlæga ábyrgð verður stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. sýknaður af kröfum stefnanda.
Um ábyrgð stefnda Medirad A/S.
Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á hendur þessum stefnda á því að tjón stefnanda verði rakið til gálausrar háttsemi eða athafnalesyis starfsmanns stefnda Flemming Lassen sem hafi fjarlægt leiðbeiningar af kassanum og vanrækt að ganga úr skugga um að stefndi Halldór stæði rétt að verki sínu og að honum væri kunnugt um sérstakar reglur sem gilt hafi um flutning tækisins. Flemming þessi var kominn hingað til þess að annast um að aftengja tækið í húsnæði Vallarvina á Keflavíkurflugvelli og tengja það á nýjan leik í húsnæði Hjartaverndar er því hefði verið komið fyrir þar. Ekki er sýnt fram á að honum hafi verið falið að leiðbeina um eða hafa eftirlit með flutningi tækisins. Þá verður það ekki metið honum til sakar að hafa tekið leiðbeiningarnar af kassanum vegna þess að þær voru sérstaklega ætlaðar til notkunar við verk það sem hann skyldi vinna auk þess að þar var sýnt hvernig lyfta skyldi tækinu. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að sök verði lögð á stefnda Medirad AS. vegna háttsemi þessa starfsmanns stefnda.
Þá er ekki fallist á það með stefnanda að á stefnda hafi hvílt sérstök upplýsingaskylda vegna flutnings tækisins. Með tækinu fylgdu upplýsingar um þetta og er ekki sýnt farm á að á stefnda hafi hvílt sérstök skylda að veita upplýsingar umfram þetta eftir að tækið hafði verið afhent Heklu hf.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi Medirad AS. sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir úrslitum málsins stefnandi dæmdur til að greiða stefndu 750.000 krónur í málskostnað hverjum.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Halldór Gíslason, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og GE Medirad AS. skulu sýknir af kröfum stefnanda Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Stefnandi greiði stefndu 750.000 krónur hverjum í málskostnað.