Hæstiréttur íslands
Mál nr. 685/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Brottvísun af heimili
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. október 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 27. september sama ár um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. október 2016
Árið 2016, mánudaginn 3. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Ragnheiði Thorlacius settum dómstjóra, kveðinn upp úrskurður þessi.
Með bréfi dagsettu 30. september 2016, mótteknu sama dag, hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi krafist þess með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að staðfest verði ákvörðun lögreglustjóra frá 27. september sl., þar sem X, kt. [...], varnaraðila þessa máls, var gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011, þannig að varnaraðila var gert að yfirgefa heimili sitt að [...] í [...] í fjórar vikur að telja frá og með birtingu ákvörðunar lögreglustjóra, auk þess sem lagt var bann við því að varnaraðili komi eða sé við [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins. Jafnframt var varnaraðila bannað að veita brotaþola, A, kt. [...], eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri, sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu brotaþola hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við brotaþola, svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Málið var þingfest þann 3. október sl., og sótti varnaraðili þing ásamt Sigurði Sigurjónssyni hrl., sem var skipaður verjandi hans. Þá mætti í dóminn fulltrúi lögreglustjóra og Jónína Guðmundsdóttir hdl., sem skipaður var réttargæslumaður brotaþola. Varnaraðili mótmælti kröfunni og krefst þess að ákvörðun lögreglustjóra verið hrundið. Verjandi krafðist þóknunar fyrir störf sín. Réttargæslumaður brotaþola gerði kröfu um þóknun. Málið var tekið til úrskurðar í framangreindu þinghaldi.
Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að kvöldi 26. september síðastliðnum hafi lögreglu borist tilkynning um meint heimilisofbeldi varnaraðila gagnvart brotaþola. Lögregla hafi hitt brotaþola fyrir í [...] þar sem brotaþoli hafi setið inni í bifreið, klædd náttfötum einum fata og kvartað yfir miklum sársauka í hægri framhandlegg. Varnaraðili hafi einnig verið á vettvangi á annarri bifreið. Samkvæmt brotaþola hafi varnaraðili elt brotaþola frá heimili þeirra að [...] að gatnamótum [...] og [...]. Hafi brotaþoli greint lögreglu frá því að hún hafi flúið frá heimili þeirra undan ofbeldi varnaraðila. Við skýrslutöku hafi brotaþoli greint frá því að hún hafi legið sofandi í rúmi þeirra beggja þegar varnaraðili hafi veist að henni með ofbeldi, og meðal annars slegið brotaþola með hurðakarmi, svokölluðu gerefti. Á vettvangi hafi varnaraðili verið æstur og ekki viljað hlýða fyrirmælum lögreglu. Hafi varnaraðili í framhaldinu verið handtekinn og færður í fangaklefa á [...].
Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að brotaþoli hafi gert kröfu um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af sameiginlegu heimili þeirra að [...] í [...]. Að mati lögreglustjóra sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og raskað friði hennar á sameiginlegu heimili þeirra.
Það sé mat lögreglustjóra að hætta sé á að varnaraðili brjóti á ný gegn brotaþola og að vægari úrræði en nálgunarbann og brottvísun af heimili muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011.
Niðurstaða
Í rannsóknargögnum málsins kemur fram að varnaraðili og brotaþoli hafi búið saman í um sautján ár, lengst af erlendis, en hafi flutt til landsins fyrir tveimur árum. Skýrslur hafa verið teknar af varnaraðila og brotaþola og ber þeim hvorki saman um aðdraganda þess atburðar sem leiddi til afskipta lögreglu umrætt sinn né hvað varðar lýsingar á samskiptum þeirra á sambúðartímanum. Brotaþoli kvaðst hafa búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu varnaraðili í gegnum árin og lýsti brotaþoli því meðal annars að varnaraðili hafi fyrir nokkrum árum, þegar þau bjuggu á [...], nefbrotið hana. Varðandi atvik það sem hér um ræðir kom fram í skýrslutöku yfir brotaþola að varnaraðili hafi, þar sem þau hafi legið saman í hjónarúmi í svefnherbergi þeirra, ráðist að sér og slegið í öxlina. Kvaðst brotaþoli hafa varist og sparkað frá sér og vera kunni að varnaraðili hafi orðið fyrir höggum. Í framhaldinu hafi varnaraðili lamið brotaþola í framhandlegginn með gerefti. Þá hafi varnaraðili farið fram en komið til baka með fötu fulla af vatni sem hann hafi hellt yfir brotaþola, gripið í hár hennar og dregið hana fram úr rúminu. Kvaðst brotaþoli hafa gripið tiltæk föt og klætt sig, tekið lykla af bifreið varnaraðila, sem verið hafi á náttborði í svefnherbergi þeirra flúið út úr húsinu um svalahurð á svefnherberginu, ekið á brott, en varnaraðili hafi elt hana á annarri bifreið. Upphaf átakanna kvað brotaþoli mega rekja til þess að hún hafi leitað eftir að fá afnot af hluta sængur sem hún og varnaraðili deildu, en við það hafi varnaraðili reiðst.
Varnaraðili lýsti atburðarásinni með öðrum hætti í skýrslutöku hjá lögreglu. Brotaþoli hafi átt upptök að átökum, meðal annars slegið varnaraðila í andlitið. Kvaðst hann þá hafa farið fram í eldhús og fengið sér sígarettu en síðan farið inn í svefnherbergið og hellt yfir brotaþola, þar sem hún legið í rúmunum, þremur lítrum af vatni. Þá hafi brotaþoli gripið til hnífs sem verið hafi í náttborðsskúffunni, en varnaraðili kvaðst hafa gripið gerefti og hent því aftur fyrir sig um leið og hann fór út svefnherberginu.
Vitni, sem dvaldi á heimili varnaraðila og brotaþola umrædda nótt, kvaðst hafa vaknað við að varnaraðili hafi beðið brotaþola að hætta að berja sig og einnig hafi hann beðið brotaþola að róa sig. Kvaðst vitnið ekkert hafa heyrt í brotaþola. Meðal rannsóknarargagna eru skýrslur sem lögregla hefur tekið af þremur uppkomnum börnum brotaþola sem öllu greindu frá ofbeldisfullri hegðun varnaraðila í garð brotaþola í gegnum árin.
Framlagt læknisvottorð tilgreinir áverka á brotþola, meðal annars rispur á brjóstholi og læri og eymsli í hársverði. Segir í vottorðinu að skrámurnar geti vel hafa komið við barsmíðar með hlut eins og brotaþoli hafi lýst, þ.e. með spýtu. Á handlegg brotaþola hafi verið eymsli en hvorki sár né beinbrot. Á mynd lögreglu af varnaraðila má sjá sprungna efri og neðri vör og roða á vinstri kinn.
Verjandi lýsti slæmum aðstæðum varnaraðila sem hefði í engin hús að vernda hér á landi eftir ákvörðun lögreglustjóra um brottvísun af heimili. Fulltrúi lögreglustjóra kvað mál þetta enn í rannsókn og meðal annars væri beðið eftir gögnum frá [...] lögregluyfirvöldum. Þá staðfesti réttargæslumaður brotaþola að brotaþoli hafi ekki dvalist á heimilinu um helgina en muni snúa aftur heim í dag.
Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða eins og segir í b-lið sömu lagagreinar að hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt a-lið gagnvart brotaþola. Þá segir í 5. gr. laga nr. 85/2011, að heimilt sé að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXII. – XXIV. kafla almennra hegningarlaga og/eða tilteknum greinum þeirra laga, og verknaður hefur beinst að öðrum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, enda varði brotið fangelsi allt að sex mánuðum eða að hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011, er heimilt að beita nálgunarbanni samhlið brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola.
Varnaraðila var gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart brotaþola með ákvörðun lögreglustjóra frá 27. september sl. Lögreglustjóri hefur nú krafist staðfestingar þeirrar ákvörðunar, en hún var birt varnaraðila þann sama dag klukkan 17:30.
Gögn málsins, einkum lögregluskýrslur, áverkavottorð og ljósmyndir er varða meinta líkamsárás varnaraðila gegn brotaþola umrætt sinn, gefa til kynna að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot, sem varðað getur fangelsi, og raskað friði brotaþola á heimili hennar. Samkvæmt framansögðu og með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011, til þess að varnaraðila verið gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, eins og krafist er. Þá þykir einnig, með vísan til rannsóknargagna, uppfyllt skilyrði 6. gr. sömu laga, um að sennilegt sé að friðhelgi brotaþola verði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni og brottvísun af heimili, en við það mat er sérstaklega litið til framburðar vitna um háttsemi varnaraðila á sambúðartíma þeirra í gegnum árin, þess að brotaþoli flúði af heimili sínu laust fyrir miðnætti umrætt kvöld, að varnaraðili veitti brotaþola eftirför og ástands brotaþola þegar lögregla kom að henni. Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun Sigurðar Sigurjónssonar hrl., skipaðs verjanda varnaraðila, 388.740 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 184.140 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna vinnu þeirra við mál þetta, greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar.
Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Varnaraðila, X, kt. [...], er gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbann í fjórar vikur frá og með þriðjudeginum 27. september 2016, klukkan 17:30 að telja, þannig að varnaraðila er bannað að koma eða vera við [...], [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins. Þá er varnaraðila bannað að veita A, kt. [...], eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 388.740 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 184.140 krónur, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti.