Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-95

Húnabyggð (Jón Jónsson lögmaður)
gegn
Þjóðskrá Íslands (Ólafur Helgi Árnason lögmaður) og Landsvirkjun (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Fasteignamat
  • Sveitarfélög
  • Lögskýring
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. júlí 2023 leitar Húnabyggð leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní 2023 í máli nr. 229/2022: Húnabyggð gegn Þjóðskrá Íslands og Landsvirkjun. Gagnaðilinn Þjóðskrá Íslands leggst ekki gegn beiðninni en gagnaðilinn Landsvirkjun leggst gegn henni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að ógiltur verði úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 3. desember 2020 þar sem staðfestur var úrskurður Þjóðskrár Íslands 28. apríl 2020 um fasteignamat stöðvarhúss Blönduvirkjunar.

4. Í héraðsdómi, sem Landsréttur staðfesti með skírskotun til forsendna hans, var því hafnað að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 3. desember 2020 hefði verið haldinn verulegum annmörkum. Í dóminum var ekki talið að í úrskurðinum hefði ranglega verið túlkað ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, við fasteignamat stöðvarhúss Blönduvirkjunar. Þá var ekki fallist á þá málsástæðu að fyrrgreint ákvæði færi í bága við 1. mgr. 61. gr. EES–samningsins um ólögmæta ríkisaðstoð. Í dóminum var einnig hafnað málsástæðum leyfisbeiðanda sem sneru að því að ákvörðun um matsverð stöðvarhússins hefði ekki samrýmst 2. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 þar sem ákvörðunin hefði fremur átt að miða við tekjur af eigninni heldur en markaðsleiðrétt kostnaðarmat. Ekki var fallist á aðrar málsástæður leyfisbeiðanda sem sneru að því að annmarkar hefðu verið á undirbúningi og ákvörðun gagnaðilans Þjóðskrár Íslands og yfirfasteignamatsnefndar á matsverði stöðvarhússins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það varði framkvæmd fasteignamats á stöðvarhúsum vatnsaflsvirkjana, einkum málsmeðferð slíks mats og hvaða kostnaðarliðir og mannvirki falli undir matið. Einnig telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt fordæmisgildi um skýringu á 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 6/2001 um hvaða byggingarhlutar stöðvarhellis séu undanþegnir fasteignamati. Þá hafi málið fordæmisgildi um túlkun á 2. mgr. 27. gr. sömu laga þegar metið er hvort horfa skuli til tekna af stöðvarhúsi við framkvæmd fasteignamats. Leyfisbeiðandi telur málið varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem stöðvarhús Blönduvirkjunar sé stærsta staka andlag fasteignamats í sveitarfélaginu. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að héraðsdómur sé bersýnilega rangur einkum þar sem í honum felist ekki raunveruleg endurskoðun á málsmeðferð eða rannsókn gagnaðila Þjóðskrár Íslands við ákvörðun fasteignamats stöðvarhússins.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.