Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Tryggingarbréf
- Veðréttur
|
|
Fimmtudaginn 2. september 2004. |
|
Nr. 302 /2004. |
Þrotabú Móa hf. (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Tryggingarbréf. Veðréttur.
K hf. krafðist þess að veðkröfur hans samkvæmt tveimur tryggingarbréfum, upphaflega gefin annars vegar út af Móum hf. og hins vegar Ferskum kjúklingum ehf., yrðu viðurkenndar við skipti á búi Þ. Í héraðsdómi var talið að afmörkun veðandlags vegna fyrra bréfsins væri nægilega skýr og því fallist á að sú krafa nyti stöðu veðkröfu í Þ. Þá var fallist á að síðargreinda bréfið hefði við sameiningu þess félags og Móa hf. orðið að veði í eignum Móa hf. Sérstaklega var tekið fram í Hæstarétti að lög stæðu ekki til þess að nauðsynlegt hefði verið að láta þinglýsa tryggingarbréfinu að nýju við samrunann og flutninginn í annað þinglýsingaumdæmi þótt fallast mætti á að það hefði verið öruggara með tilliti til viðskiptalífsins. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest, en kostnaður við málið felldur niður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí sl., þar sem viðurkennt var að krafa varnaraðila að fjárhæð 52.766.794 krónur nyti stöðu veðkröfu í almennum kröfum samkvæmt vörureikningum í eigu sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfi nr. 7919, upphaflega útgefnu af Ferskum kjúklingum ehf. 25. maí 2001 að fjárhæð 30.000.000 krónur, auk verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar. Jafnframt var viðurkennt að krafa varnaraðila að fjárhæð 74.782.799 krónur njóti stöðu veðkröfu í þrotabúi Móa hf. samkvæmt tryggingarbréfi nr. 7630, upphaflega gefnu út af Móum ehf. þann 5. janúar 2000, að fjárhæð 40.000.000 krónur, auk verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði felldur úr gildi og framangreindar kröfur varnaraðila njóti ekki stöðu veðkrafna við skipti á búi hans. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar kærðs úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum og málsástæðum aðila er ítarlega lýst í héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann að því er varðar stöðu veðkröfu í þrotabú Móa hf. samkvæmt tryggingarbréfi nr. 7630.
Tryggingarbréf nr. 7919 var útgefið af Ferskum kjúklingum ehf., Garðatorgi 1 í Garðabæ 25. maí 2001 til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum fjárskuldbindingum fyrirtækisins, eins og þær væru á hverjum tíma við Búnaðarbanka Íslands hf. Með bréfinu var Búnaðarbanka Íslands hf. veðsett með 1. veðrétti „Allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum, hverju nafni sem nefnast, sem veðsali á nú eða eignast síðar í atvinnurekstri sínum á hverjum tíma,- allt í samræmi við 47. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.“ Með tilvitnuðu ákvæði er rekstaraðila heimilað að veðsetja þær almennu kröfur, sem hann á eða fær í rekstri sínum eða aðgreindum hluta rekstrarins. Samkvæmt ákvæðinu leysist skuldari vörureiknings undan greiðsluskyldu sinni með greiðslu til kröfuhafa ef hann hefur ekki fengið tilkynningu um annan viðtakanda greiðslu. Jafnframt er tekið fram að slíkur samningur öðlist réttarvernd gagnvart þriðja manni við þinglýsingu á blað rekstraraðila í lausafjárbók. Tryggingarbréfið var móttekið til þinglýsingar hjá embætti sýslumanns í Hafnarfirði sama dag og það var útgefið. Í málinu er ekki deilt um gildi þess að því er varðar vörureikninga fyrirtækisins Ferskra kjúklinga ehf. Í héraðsdómi er því lýst að félagið var sameinað Móum hf., fuglabúi. Samrunaáætlun hafi verið dagsett 28. febrúar 2002 og í yfirliti hlutafélagaskrár sé vísað í staðfestingu á hluthafafundum beggja félaganna. Félagið Ferskir kjúklingar ehf. var afskráð 20. júní 2002. Bú sóknaraðila Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Á sérstökum skiptafundi 19. febrúar 2004 með skiptastjóra þrotabúsins og lögmanni varnaraðila var rætt um ágreining þeirra um hvort áðurnefnt tryggingarbréf nr. 7919 hafi við sameiningu Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf. undir kennitölu þess síðarnefnda orðið að veði í eignum Móa hf., en samkvæmt gögnum málsins er óumdeilt að vörureikningar stílaðir á Ferska kjúklinga ehf. finnast ekki í þrotabúi Móa hf. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila um þetta atriði meðal annars vísaði skiptastjóri álitaefninu til úrskurðar héraðsdóms samkvæmt ákvæðum 171. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.
Sóknaraðili heldur því fram að til þess að slík veðsetning, sem hér um ræði, öðlist réttarvernd gagnvart grandlausum þriðja manni þurfi þinglýsingu í lausafjárbók. Einnig hljóti að þurfa að þinglýsa grundvallarbreytingu á veðandlaginu svo sem að það taki til eigna í eigu annars félags en tilgreint sé í bréfinu sjálfu, svo réttindin haldi gildi sínu gagnvart veðhafa sem og grandlausum þriðja manni. Slík skylda hafi verið enn brýnni í þessu tilviki þar sem veð í eignum félagsins Ferskra kjúklinga ehf. hafi verið skráð í lausafjárbók í Hafnarfirði. Sá sem hefði skoðað lausafjárbók eftir sameiningu félaganna til að aðgæta um veðstöðu Móa hf. hjá sýslumanninum í Reykjavík, en þar beri að þinglýsa veðskuldbindingum þess fyrirtækis, hefði því ekkert fundið þar um þetta veðbréf. Hafi veðhafi viljað viðhalda réttindum sínum hefði honum borið að tilgreina breytingar í viðaukaskjali við bréfið og þinglýsa því að það tryggi eftirleiðis einnig skuldir Móa hf. og að veðsetningin taki eftirleiðis einnig til vörureikninga sem gefnir verði út í atvinnurekstri Móa hf. Þetta hafi varnaraðili ekki gert.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 98. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 beri að birta samrunaáætlun í Lögbirtingablaði í þeim tilgangi að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta fái upplýsingar um hana. Sóknaraðila og öðrum hafi því mátt vera fullkunnugt um umræddan samruna. Tryggingabréfinu hafi verið þinglýst í lausafjárbók í samræmi við 1. mgr. 47. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Samkvæmt því sem fram komi í 4. mgr. þess ákvæðis sé ekki nauðsynlegt að þinglýsing fari fram að nýju þegar eigendaskipti verði að eign eða eigandi flytjist úr þinglýsingarumdæmi. Enn síður ættu slík sjónarmið við þegar um samruna sé að ræða en hann lúti sérstökum reglum.
Í 2. mgr. 119. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 segir að sé einkahlutafélag yfirtekið við samruna gildi ákvæði XIV. kafla laga nr. 138/1994 um slit þess félags. Samkvæmt 102. gr. síðarnefndu laganna telst yfirteknu félagi slitið og réttindi þess og skyldur runnar til yfirtökufélagsins þegar tiltekin skilyrði eru uppfyllt, þar á meðal að samruninn hafi verið samþykktur í samrunafélögunum. Ágreiningslaust er að samruni Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf. hafi farið fram með lögformlegum hætti og fyrrnefnda félagið runnið saman við það síðarnefnda og verið síðan afskráð. Hlutafélagaskrá var send samrunaáætlunin, ásamt skýrslu endurskoðanda í samræmi við 1. mgr. 98. gr. um einkahlutafélög og var birt í Lögbirtingablaði samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laganna. Eftir 4. mgr. 47. gr. þinglýsingalaga má eigandi lausafjár sem veðsett hefur verið, og veðsetningunni síðan þinglýst, láta þinglýsingu fara fram að nýju flytji hann úr þinglýsingaumdæmi, en þarf þess ekki. Lög standa því ekki til þess að nauðsynlegt hafi verið að láta þinglýsa tryggingarbréfi nr. 7919 að nýju við samrunann og flutninginn í annað þinglýsingaumdæmi þótt fallast megi á að það hefði verið öruggara með tilliti til viðskiptalífsins, eins og hér stóð á. Með framangreindum athugasemdum en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur einnig að því er varðar tryggingarbréf nr. 7919.
Rétt er með vísun til málsatvika að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður nema um málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2004.
Með bréfi, dagsettu 15. mars 2004 og mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag, fór skiptastjóri í þrotabúi Móa hf. fram á að rekið yrði sérstakt ágreiningsmál varðandi kröfu sóknaraðila á hendur þrotabúinu. Ágreiningsmálið var þingfest 2. apríl 2004 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. maí 2004.
Sóknaraðili er Kaupþing Búnaðarbanki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykjavík.
Varnaraðili er Þrotabúi Móa hf., kt. 440788-1229, Fellsási 10, Mosfellsbæ.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að viðurkennd verði veðkrafa sóknaraðila að fjárhæð 52.766.794 krónur í almennum kröfum samkvæmt vörureikningum í eigu varnaraðila samkvæmt tryggingabréfi nr. 7919, að fjárhæð 30.000.000 króna, auk verðbóta og dráttarvaxta og alls kostnaðar, upphaflega gefið út af Ferskum kjúklingum ehf. 25. maí 2001. Einnig að viðurkennd verði veðkrafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila að fjárhæð 74.782.799 krónur, samkvæmt tryggingabréfi nr. 7630, upphaflega gefið út af Móum ehf. 5. janúar 2000, að fjárhæð 40.000.000 króna, auk verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru þær, að staðfest verði sú afstaða skiptastjóra að hafna því að lýst krafa sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfi nr. 7919, upphaflega útgefnu af Ferskum kjúklingum ehf., njóti stöðu veðkröfu við skipti á búi varnaraðila en að lýst krafa sóknaraðila samkvæmt tryggingabréfi nr. 7630, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 krónur en ásamt verðtryggingu 47.216.493 krónur miðað við gjaldþrotadag, verði aðeins talin njóta veðtryggingar í andvirði vörureikninga útgefnum af Móum hf. en njóti ekki frekari veðtryggingar í munum, afurðum eða bústofni varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Umrædd krafa varnaraðila kom fram við aðalmeðferð málsins 28. maí 2004 en í greinargerð hafði varnaraðili gert kröfu um að staðfest yrði sú afstaða skiptastjóra að hafna því að lýstar kröfur sóknaraðila samkvæmt tryggingabréfum nr. 7919 og nr. 7630 samtals að fjárhæð 127.549.593 krónur, hluti kröfu nr. 235 í kröfuskrá, nyti stöðu veðkröfu við skipti á búi varnaraðila.
Óumdeild málsatvik
Með tryggingarbréfi, útgefnu af Ferskum kjúklingum ehf., kt. 670995-2839, 25. maí 2001, voru Búnaðarbanka Íslands hf. veðsettar, að sjálfsvörsluveði með fyrsta veðrétti „Allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum, hverju nafni sem nefnast, sem veðsali á nú eða eignast síðar í atvinnurekstri sínum á hverjum tíma,- allt í samræmi við 47. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð”, til tryggingar á skaðlausri greiðslu að öllum skuldum og fjárskuldbindingum veðsala eins og þær skuldir væru á hverjum tíma við Búnaðarbanka Íslands hf.. að höfuðstólsfjárhæð upphaflega samtals 30.000.000 króna, sem bundin væri vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 206,5 stig, þó eingöngu til hækkunar, auk verðbóta, gengismunar, dráttarvaxta og alls kostnaðar.
Umrætt tryggingabréf var upphaflega gefið út í tengslum við lánssamning nr. 100129-31 frá 23. maí 2001, vegna láns Búnaðarbanka Íslands hf., upphaflega að fjárhæð 115 milljónir króna, til Ferskra kjúklinga ehf. Er tryggingarbréfið fylgisskjal með lánssamningnum og hluti hans. Móar ehf. tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu. Skuldin skyldi greiðast að fullu 3. september 2001 og bera breytilega vexti (óverðtryggða kjörvexti) eins og þeir væru ákveðnir af Búnaðarbanka Íslands hf. á hverjum tíma, að viðbættu 2,5% álagi. Lánið var greitt út í íslenskum krónum í tvennu lagi, fyrst 50 milljónir króna 25. maí 2001 og síðan 65 milljónir króna 29. maí 2001. Af láninu voru greiddar samtals 23.816.663 krónur á tímabilinu júlí til október 2002.
Staða kröfunnar miðað við úrskurðardag var eftirfarandi:
Höfuðstóll 100.000.000 krónur
Samningsvextir 2.182.928 krónur
Dráttarvextir 39.340.224 krónur
Innheimtukostnaður 3.033.842 krónur
Virðisaukaskattur 743.291 krónur
Samtals 145.300.285 krónur
Sóknaraðili telur eftirfarandi hluta framangreindrar skuldar falla undir framangreint tryggingarbréf:
Höfuðstóll 30.000.000 krónur
Verðbætur 3.312.349 krónur
Dráttarvextir 17.925.418 krónur
Innheimtukostnaður 1.228.134 krónur
Virðisaukaskattur 300.883 krónur
Samtals 52.766.794 krónur
Móar hf. gáfu út tryggingarbréf til Búnaðarbanka Íslands hf. 5. janúar 2000 og er það auðkennt nr. 7630. Bréfið var gefið út til tryggingar greiðslu á öllum skuldbindingum félagsins eins og þær væru á hverjum tíma við bankann, að höfuðstól samtals 40.000.000 króna, auk verðbóta, gengismunar, dráttarvaxta og alls kostnaðar.
Bankanum var með tryggingarbréfinu sett að sjálfsvörsluveði, með 1. veðrétti, allar rekstrarvörur, afurðir, uppskera, framleiðslubirgðir, á hvaða tíma sem væri og hverju nafni sem nefndist, sem veðsali ætti eða eignaðist síðar í atvinnurekstri sínum á hverjum tíma eða hefði til endursölu, allt í samræmi við 30. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Einnig var bankanum veðsett með 1. veðrétti „einu nafni (að sjálfsvörsluveði) með 1. -fyrsta- veðrétti eftirtaldir flokkar bústofns útgefanda/veðsala eins og þeir/hann eru/er á hverjum tíma.” Í reitinn „Tegund bústofns nú” á hinu staðlaða formi sem tryggingarbréfið var ritað á var skráð: „Lifandi bústofn; kjúklingar, hænur, hanar, ungar.” Ekkert var skráð í reitinn „Fjöldi nú”. Loks var bankanum veðsettar, einnig með 1. veðrétti, allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum.
Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var félagið Ferskir kjúklingar ehf. sameinað Móum hf., fuglabúi, kt. 440788-1229. Samrunaáætlun er dagsett 28. febrúar 2002 og er í yfirliti hlutafélagaskrár vísað í staðfestingu á hluthafafundi í Ferskum kjúklingum ehf. 21. maí 2002 og á stjórnarfundi í Móum hf., fuglabúi, sama dag. Uppgjörsdagur var 1. september 2001. Félagið Ferskir kjúklingar ehf. var afskráð 20. júní 2002.
Bú varnaraðila, Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Innköllun til kröfuhafa birtist fyrra sinni í Lögbirtingarblaði 19. nóvember 2003 og barst í kjölfar þess kröfulýsing frá sóknaraðila sem lýsti kröfu að fjárhæð 512.375.544 krónur í þrotabúið. Krafan var tryggð að hluta með veði í fasteignum búsins og er fullt samkomulag með málsaðilum um þann hluta kröfunnar.
Í skrá skiptastjóra um lýstar kröfur í þrotabúið kom fram sú afstaða hans að kröfu sóknaraðila væri hafnað að svo stöddu. Var sóknaraðila tilkynnt þessi afstaða í bréfi dagsettu 4. febrúar 2004 og honum jafnframt tilkynnt að yrði afstöðu skiptastjóra ekki mótmælt í síðasta lagi á skiptafundi 16. febrúar 2004, mætti vænta að afstaða skiptastjóra yrði talin endanlega samþykkt. Afstöðu skiptastjóra var mótmælt með bréfi lögmanns sóknaraðila dagsettu 15. febrúar 2004 og þau mótmæli ítrekuð á skiptafundi 16. febrúar 2004. Sérstakur skiptafundur var haldinn 19. febrúar 2004 með skiptastjóra og lögmanni sóknaraðila. Í fundargerð þess fundar segir að rétt væri að krafa sóknaraðila lækki um allt að 295 milljónir króna með vísan til samnings sóknaraðili og Matfugls ehf. frá 13. nóvember 2003, sem gerður hafi verið með samþykki varnaraðila, enda verði gengið frá útlagningu jarðarinnar Hurðabaks í Svínadal til bankans á næstu dögum. Þá var bókað að rætt hefði verið um önnur atriði sem ágreiningur stæði um og varðaði viðurkenningu kröfunnar. Einkanlega varðandi ágreining um hvort tryggingarbréf nr. 7919 hafi við sameiningu Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf., undir kennitölu Móa hf., orðið að kröfu sem veðtryggð væri með veði í eignum Móa hf. Ekki hafi tekist að jafna ágreining um þetta og réttan útreikning vaxta af veðkröfum bankans og því myndi skiptastjóri vísa ágreiningi þessum til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. gjaldþrotalaga.
Af þeim nærri 220 milljónum króna sem eftir standa telur sóknaraðili að um 90 milljónir séu almenn krafa í búið en 127.549.593 krónur, auk verbóta og dráttarvaxta og alls kostnaðar, eigi að njóta stöðu veðkrafna í búinu á grundvelli framangreindra tveggja tryggingarbréfa.
Í bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur er vísað til þess að á skiptafundi 19. febrúar 2004 hafi ekki náðst samkomulag um öll ágreiningsatriði sem varði viðurkenningu á kröfu sóknaraðila. Ágreiningsefnum var í bréfinu lýst með sama hætti og í fundargerð umrædds skiptafundar og óskað eftir úrlausn héraðsdóms um ágreininginn með vísan til 120., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök aðila
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að taka beri til greina sem veðkröfu þann hluta kröfunnar sem falli undir tryggingarbréf nr. 7919, útgefið 25. maí 2001, að höfuðstól 30 milljónir króna.
Vísað er til þess að í 119. laga um hlutafélög nr. 2/1995 komi fram að ef einkahlutafélag sé yfirtekið við samruna gildi ákvæði XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög um slit þess félags. Í 102. gr. þeirra laga komi fram að þegar tilteknum skilyrðum sé uppfyllt, þar á meðal að samruninn hafi verið samþykktur í öllum samrunafélögunum, teljist yfirtekna félaginu slitið og réttindi þess og skyldur runnar í heild sinni til yfirtökufélags. Þegar félagsslit fari fram með samruna sé því ekki nauðsynlegt að skuldaskil fari fram í hinu yfirtekna félagi eins og þegar um félagsslit sé að ræða. Ástæðan sé meðal annars sú að starfsemi yfirtekna félagsins sé í raun haldið áfram innan skipulagsramma yfirtökufélagsins. Samruninn hafi því ekki áhrif á kröfuréttarasambönd sem samrunafélögin hafi verið í við þriðja aðila ef frá sé skilin sú réttarvernd sem lánardrottnar njóti samkvæmt. 97. gr. einkahlutafélagalaga. Í 126. gr. einkahlutafélagalaga sé tekið fram að eigendum verðbréfa skuli við samruna ekki veitt minni réttarvernd en þeir hafi haft í hinu yfirtekna félagi.
Í lögum séu engin frávik sem varði tryggingabréf sérstaklega. Engin ástæða sé því til að ætla annað en að skyldur samkvæmt tryggingarbréfum flytjist yfir til yfirtökufélagsins, eins og aðrar skyldur og önnur réttindi. Sú krafa sem varnaraðili geri til þess að sérstök formleg skipti eða nafnabreyting hafi orðið á yfirtöku tryggingabréfsins af hálfu Móa hf. við samrunann fái ekki staðist miðað við þann lagagrundvöll sem samruni hlutafélaga hafi byggt á.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að reglur um samruna einkahlutafélaga víki til hliðar almennum reglum um skuldskeytingu. Í einkahlutafélögum sé að finna nákvæman kafla um réttarvernd lánardrottna við samruna. Því er alfarið mótmælt að unnt sé að líta á einkahlutafélögin sem almenn lög gagnvart veðlögum nr. 75/1997 í þessu sambandi heldur verði þvert á móti að líta á einkahlutafélagalög sem sérlög að því er varðar réttarvernd lánardrottna við samruna.
Umrætt tryggingabréf hafi upphaflega verið gefið út 23. maí 2001 af Ferskum kjúklingum ehf. í tengslum við lánssamning nr. 100129-31 og hafi verið fylgisskjal með lánssamningnum og hluti hans. Ekki verði annað séð en að varnaraðili líti svo á að sú skuld sem fallið hafi undir umræddan lánssamning hafi verið yfirtekin af varnaraðila. Hins vegar sé því hafnað af hálfu varnaraðila að það tryggingabréf sem gefið hafi verið út í tengslum við lánssamninginn hafi verið yfirtekið þar sem ekki hafi verið gerð sérstök nafnabreyting á bréfinu. Að mati sóknaraðila fái þessi afstaða ekki staðist enda engin rök fyrir því að samþykkja yfirtöku á greiðsluskuldbindingum samkvæmt lánssamningi í tengslum við samruna en hafna yfirtöku á tryggingarskuldbindingu sem gefin sé út á grundvelli sama lánssamningsins.
Byggt er á því að lausafjárbók veiti ekki örugga vísbendingu um þinglýsingu lausafjár. Þinglýsing þurfi ekki að fara fram að nýju þótt eigendaskipti verði á veðandlagi eða það flutt úr umdæmi.
Vísað er til þess að samkvæmt 2. mgr. 123. gr. einkahlutafélagalaga skuli birta samrunaáætlun í Lögbirtingarblaði og því sé ljóst að umræddur samruni hafi ekki átt að fara framhjá neinum.
Bent er á að aðrir en sóknaraðili hafi ekki átt veðrétt í umræddum vörureikningum Móa hf.
Af hálfu sóknaraðila er því mótmælt að nýjar málsástæður varnaraðila sem fram komi í breyttri kröfugerð komist að í málinu. Sá hluti hinnar breyttu kröfugerðar sem lúti að því að krafa á grundvelli tryggingabréfs nr. 7630 njóti ekki veðtryggingar í munum og afurðum sé ekki í samræmi við bindandi málflutningsyfirlýsingu í greinargerð varnaraðila um að mótmæli varðandi þetta tryggingarbréf væru takmörkuð við mótmæli við veðtryggingu í bústofni.
Af hálfu sóknaraðila er því jafnframt haldið fram að bústofn hafi verið nægjanlega vel afmarkaður sem veðandlag í tryggingarbréfi nr. 7630. Ákvæði 30. gr. laga nr. 75/1997 sé undantekning frá meginreglu 3. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 30. gr. sé ekki nauðsynlegt að sérgreina hvern hlut sem falli undir veðréttinn heldur sé heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni tiltekna flokka bústofns. Orðalag ákvæðisins veiti enga stoð fyrir því að fjöldi bústofns þurfi að vera tilgreindur í veðskjali eins og varnaraðili haldi fram og því komi ekki til greina að breyta inntaki ákvæðisins með vísan til ósamrýmanlegra athugasemda í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 75/1997. Þá styðjist takmörkun á 30. gr. ekki við ákvæði 4. mgr. 4. gr. eða 9. gr. laga nr. eldri veðlaga nr. 18/1887.
Markmið tilgreiningar á hinu veðsetta hljóti að vera það að enginn þurfi að velkjast í vafa um það til hvaða eigna veðsetningin taki. Í umræddu tryggingarbréfi fari ekki á milli mála hvaða lausafé sé sett að veði. Ekki sé verið að tilgreina sérstakan hluta bústofnsins heldur sé hann allur settur að veði. Engin hætta hafi því verið á að óveðsett lausafé væri dregið undir veðsetninguna. Byggt er á því að form tryggingarbréfsins skipti engu máli í þessu sambandi. Þá er vísað til þess að tryggingarbréfinu hafi verið þinglýst án athugasemda.
Af hálfu sóknaraðila er ennfremur vísað til þess að samkvæmt tryggingarbréfinu hafi verið umræddur bústofn verið veðsettur eins og hann væri á hverjum tíma. Gögn um birgðamat bústofnsins samkvæmt aldri hafi verið send reglulega til sóknaraðila.
Þá er vísað til þess að enginn lánardrottna hafi vefengt umrædda veðsetningu og ekki aðrir. Það hafi heldur ekki verið gert við þinglýsingu tryggingarbréfsins og ágreiningur hafi raunar ekki komið fram um þetta atriði fyrr en í greinargerð varnaraðila í máli þessu.
Af hálfu sóknaraðila er vísað til b-liðs 5. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 er segi að vextir af skuld sem fallið hafi í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar hafi verið sett fram séu tryggðar með aðalkröfunni nema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins hafi stofnað.
Sóknaraðili byggir á því að hann eigi 1. veðrétt á grundvelli tryggingarbréfanna tveggja og undir þann veðrétt falli dráttarvextir sem fallið hafi í gjalddaga einu ári áður en bú Móa hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta svo og allur kostnaður. Vextir á 1. veðrétti reiknist því frá 5. nóvember 2003. Þeir vextir sem séu umfram eitt ár frá gjalddaga færist síðar í veðröðina, enda sé það í samræmi við orðalag greinarinnar og ummæli í greinargerð þar sem beinlínis sé tekið fram að þeir vextir, sem umfram séu árið, færist aftar í veðröðinni. Á veðandlaginu hvíli í báðum tilvikum einungis tryggingarbréf í eigu sóknaraðila og því sé ekki um það að ræða að aðrir veðhafar eigi rétt til greiðslu umfram það sem sóknaraðili eigi tilkall til á grundvelli 1. veðréttar og þá vexti sem færist á síðari veðrétt.
Upphafstími vaxtakröfu sóknaraðila sé 3. september 2001 þegar greiðsla samkvæmt lánssamningi nr. 100129-31 hafi fallið í gjalddaga. Útreikningi þeirrar kröfu hafi ekki verið mótmælt af hálfu skiptastjóra, heldur einungis því hversu stór hluti hennar falli undir umrædda veðsetningu tryggingarbréfanna. Upphafstími kröfunnar sé innan þeirra tímamarka sem fyrningalög áskilji, samanber 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Varnaraðili byggir kröfur sínar, að því er varðar tryggingarbréf, nr. 7919, á því að bréfið hafi verið gefið út til tryggingar öllum skuldum Ferskra kjúklinga ehf. við Búnaðarbankann hf. Veðandlag samkvæmt bréfinu hafi verið allar vörureikningskröfur sem Ferskir kjúklingar ehf. eignuðust í atvinnurekstri sínum. Einkahlutfélaginu Ferskum kjúklingum hafi verið slitið og félagið afskráð 20. júní 2002. Frá og með þeim degi hafi félagið því hvorki getað tekist á hendur skyldur né öðlast réttindi. Veðandlagið samkvæmt tryggingabréfinu hafi nánar tiltekið verið vörureikningar gefnir út af Ferskum kjúklingum ehf., en slíkir reikningar hafi eðli máls samkvæmt ekki verið gefnir út frá samruna félaganna. Veðréttur samkvæmt bréfinu sé því ekki lengur til staðar þar sem ekki sé kunnugt um að neinar kröfur séu til í búinu sem falli undir hann.
Að því er varði tryggingarbréf, nr. 7919, að höfuðstól 30 milljónir króna, sé ekki deilt um gildi 102. gr. nr. 138/1994 um einkahlutafélög varðandi það að réttindi og skyldur yfirtekna félagsins renni inn í yfirtökufélagið. Varnaraðili telur hins vegar að líta verði til þess að einkahlutfélagalögin séu almenn lög sem gildi um stofnun og starfrækslu atvinnurekstrar í ákveðnu félagsformi. Lögin um samningsveð séu sérlög sem gildi um tiltekna gerð samninga, þ.e.a.s. veðsamninga. Ákvæði þeirra gildi því framar almennu lögunum, í samræmi við almenn 1ögskýringarsjónarmið. Í 47. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 sé fólgin undantekning frá 3. gr. laganna er kveði á um sérgreiningu. Slík undantekning verði samkvæmt eðlisrökum skýrð þröngri lögskýringu.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að veðsetningin öðlist réttarvernd gagnvart grandlausum þriðja manni við þinglýsingu í lausafjárbók. Grundvallarbreytingu á veðandlaginu, svo sem að það taki til krafna í eigu annars félags en tilgreint sé í bréfinu sjálfu, hljóti að þurfa að þinglýsa svo réttindin haldi gildi sínu gagnvart veðhafa sem og grandlausum þriðja manni. Slík skylda sé enn brýnni í þessu tilviki þar sem veð í eigum félagsins Ferskra kjúklinga ehf. hafi verið skráð í lausafjárbók í Hafnarfirði. Sá sem farið hefði og skoðaði lausafjárbók eftir sameiningu félaganna til að aðgæta um veðstöðu Móa hf. hjá sýslumanninum í Reykjavík hefði því ekkert fundið þar um þetta veðbréf. Veðskjöl séu tryggingarskjöl sem tryggi veðhafa forgangsrétt til hinna veðsettu verðmæta umfram aðra veðhafa. Veðhafi verði sjálfur að gæta að rétti sínum. Í veðskjalinu sé kveðið á um að vörureikningar tiltekins rekstaraðila séu settir að veði og skjalinu þinglýst þannig í lausafjárbók. Þannig standi skjalið í þinglýsingarbók, gagnvart veðsala, veðhafa og grandlausum þriðja manni. Ef einhverjar breytingar verða á veðandlaginu og veðhafi vilji viðhalda réttindum sínum verði að tilgreina breytingarnar í viðaukaskjali við bréfið og þinglýsa því að bréfið tryggi eftirleiðis einnig skuldir Móa hf. og að veðsetningin taki eftirleiðis einnig til vörureikninga sem gefnir verði út í atvinnurekstri Móa hf. Það hafi sóknaraðili ekki gert.
Kröfugerð varnaraðila var breytt við upphaf aðalmeðferðar málsins að því er varðar tryggingarbréf nr. 7630 þannig að þess var krafist að lýst krafa sóknaraðila samkvæmt bréfinu yrði aðeins talin njóta veðtryggingar í andvirði vörureikninga útgefnum af Móum hf. en njóti ekki frekari veðtryggingar í munum, afurðum eða bústofni varnaraðila.
Í greinargerð varnaraðila eru færð rök fyrir því að tilgreining á hinum veðsetta bústofni standist ekki kröfur 30. gr. laga nr. 75/1997. Af hálfu varnaraðila er bent á að í tryggingarbréfsforminu, sem samið hafi verið af sóknaraðila, sé gert ráð fyrir að við veðsetninguna sé tiltekinn sá fjöldi veðsettra dýra. Form tryggingarbréfsins sé í samræmi við meginreglu sem leidd verði af 1., sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1997, um að í veðbréfi nægi að sérgreina veðandlagið með þeim hætti að fram komi tegund þess og tala hér um bil. Það sé sama regla og komið hafi fram í 4. mgr. 4. gr. og 9. gr. laga nr. 18/1887. Í veðbréfinu sé þó ekki að finna neina tilgreiningu á fjölda, ekki fylgi bréfinu heldur nein fylgigögn sem varpað geti ljósi á það í hverju veðrétturinn sé raunverulega fólginn, þrátt fyrir að texti veðskjalsins geri ráð fyrir slíkum gögnum. Varnaraðili telur veðsetningarheimild 30. gr. laga nr. 75/1997 vera undantekningu frá 3. gr. laganna en slíkar undantekningar verði að skýra þröngt. Gildur veðréttur samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna hafi því aldrei stofnast í bústofni Móa hf.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að ekki væri deilt um gildi framangreinds tryggingarbréfs að öðru leyti en rakið er hér að framan. Við munnlegan málflutning var ítrekað af hálfu varnaraðila að ekki væri lengur ágreiningur um útreikning sóknaraðila á þeim kröfum sem féllu undir umrædd tryggingarbréf og að fallist væri á sjónarmið sóknaraðila í því sambandi.
Af hálfu varnaraðila er loks byggt á því að gera verði ríkar kröfur til þess, að lánastofnanir tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi þeirra og heimilda að öðru leyti. Beri lánastofnanir að öðrum kosti halla af sönnunarskorti í þeim efnum, t. d. ef formlegur samningur hafi ekki verið gerður. Hið sama gildi þegar um sé að ræða óljóst orðalag veðbréfs og þá alveg sérstaklega ef það sé einhliða samið af lánastofnunar eða á stöðluðu formi þeirra.
Niðurstaða
Óumdeilt er að sóknaraðili, Kaupþing Búnaðarbanki hf., hefur tekið yfir réttindi og skyldur Búnaðarbanka Íslands hf. og telst réttur sóknaraðili í máli þessu.
Eins og frá er greint í lýsingu á málsatvikum hafnaði skiptastjóri í þrotabúi Móa hf., lýstri kröfu sóknaraðila í þrotabúið að svo stöddu. Þeirri afstöðu skiptastjóra var mótmælt bréflega af hálfu sóknaraðila 15. febrúar 2004 og aftur á fyrsta skiptafundi 16. febrúar 2004. Á sérstökum fundi sem skiptastjóri hélt með lögmanni sóknaraðila 19. febrúar 2004, í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, var fjallað um mótmæli sóknaraðila við afstöðu skiptastjóra. Í fundargerð fundarins segir að rétt væri að krafa sóknaraðila lækki um allt að 295 milljónir króna með vísan til samnings sóknaraðili og Matfugls ehf. frá 13. nóvember 2003. Þá var bókað að rætt hefði verið um önnur atriði sem ágreiningur stæði um og varðaði viðurkenningu kröfunnar. Einkanlega varðandi ágreining um hvort tryggingarbréf nr. 7919 hafi við sameiningu Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf. undir kennitölu Móa hf. orðið að kröfu sem veðtryggð væri með veði í eignum þess félags. Ekki hafi tekist að jafna ágreining um þetta og réttan útreikning vaxta af veðkröfum bankans og því myndi skiptastjóri vísa ágreiningi þessum til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. gjaldþrotalaga.
Í bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettu 15. mars 2000 var krafist úrlausnar dómsins um ágreining málsaðila. Þar er vísað til þess að ekki hafi náðst samkomulag um öll ágreiningsatriði sem vörðuðu viðurkenningu á kröfu sóknaraðila á fundi skiptastjóra og lögmanns sóknaraðila 19. febrúar 2004. Síðan segir orðrétt: „Ágreiningur sá sem útaf stendur varðar það hvort tryggingarbréf útgefið af Ferskum kjúklingum ehf. hafi við sameiningu þess félags og Móa hf. orðið að trygginarbréfi með veði í eignum Móa hf. Þá er og deilt um réttan vaxtareikning af kröfum KB-banka.„
Greinargerð sóknaraðila í máli þessu tekur mið af framangreindri afmörkun ágreiningsins.
Í greinargerð varnaraðila er að finna sömu afstöðu til kröfu sóknaraðila og fram kom á skiptafundum að því er varðar þann hluta kröfunnar sem sóknaraðili telur að eigi að samþykkja sem veðkröfu á grundvelli tryggingarbréfs nr. 7919 frá 25. maí 2001. Þá er í greinargerðinni höfð uppi mótmæli gegn því að sóknaraðili eigi veðkröfu á grundvelli tryggingarbréfs nr. 7630 frá 5. janúar 2000 með þeim rökum að andlag veðsetningarinnar hafi ekki verið nægjanlega sérgreint. Ekki verður séð af framlögðum gögnum að þessi mótmæli hafi komið fram fyrr en í umræddri greinargerð. Þrátt fyrir að í 3. tl. 171. gr. laga nr. 21/1991 sé mælt fyrir um að í kröfu skiptastjóra um úrlausn héraðsdóms skuli koma fram um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi verður þessari málsástæðu ekki hafnað á þeim grundvelli að hún sé of seint fram komin, enda hefur því ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila að hún komist að í málinu.
Við aðalmeðferð málsins 28. maí 2004 lagði varnaraðili fram breytta kröfugerð þess efnis að lýst krafa sóknaraðila samkvæmt tryggingabréfi nr. 7630, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 króna en ásamt verðtryggingu 47.216.493 krónur miðað við gjaldþrotadag, verði aðeins talin njóta veðtryggingar í andvirði vörureikninga útgefnum af Móum hf. en njóti ekki frekari veðtryggingar í munum, afurðum eða bústofni varnaraðila.
Enda þótt þessi krafa gangi í raun skemur en upphafleg krafa sóknaraðila verður ekki fram hjá því litið að hún er ekki einungis grundvölluð á sjónarmiðum sem fram komu í greinargerð varnaraðila um að umræddur hluti kröfunnar njóti ekki veðtryggingar í bústofni heldur felur hún einnig í sér mótmæli við því að umæddur hluti kröfunnar njóti veðtryggingar í rekstrarvörum, afurðum, uppskeru og framleiðslubirgðum sóknaraðila en því hefur ekki áður verið haldið fram í málinu. Engin rök hafa verið færð fram af hálfu varnaraðila fyrir þessari nýju takmörkun á veðandlagi umrædds tryggingarbréfs. Af hálfu sóknaraðila hefur því verið mótmælt að þær nýju málsástæður sem í hinni breyttu kröfugerð felast komist að í málinu. Með vísan til 3. tl. 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 og meginreglu réttarfars um að málsástæður skuli koma fram jafn skjótt og tilefni er til þykir þessi nýja málsástæða of seint fram komin og kemst hún ekki að í málinu gegn mótmælum sóknaraðila.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram breytt afstaða skiptastjóra til útreiknings á dráttarvöxtum og var það staðfest við munnlegan flutning málsins. Þar sem varnaraðili hefur fallist á sjónarmið sóknaraðila að þessu leyti verður að líta svo á að ekki sé lengur ágreiningur með aðilum um útreikning á dráttarvöxtum sem falli undir veðtryggingu samkvæmt tryggingarbréfunum tveimur. Þykir ekki þörf á að fjalla frekar um það atriði.
Í 119. laga um hlutafélög nr. 2/1995 segir að ef einkahlutafélag sé yfirtekið við samruna gildi ákvæði XIV. kafla laga um einkahlutafélög um slit þess félags. Í 102. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 kemur fram að þegar tilteknum skilyrðum sé uppfyllt, þar á meðal að samruninn hafi verið samþykktur í öllum samrunafélögunum, teljist yfirteknu félagi slitið og réttindi þess og skyldur runnar í heild sinni til yfirtökufélags. Óumdeilt er að þegar félagsslit fara fram með samruna er ekki nauðsynlegt að skuldaskil fari fram í hinu yfirtekna félagi. Þau kröfuréttarsambönd sem hið yfirtekna félag var í við þriðja aðila halda því gildi sínu án þess að til þurfi að koma sérstakt framsal eða nafnabreyting á þeim til yfirtökufélagsins. Reglur um samruna félaga víkja því til hliðar almennum reglum kröfuréttar um skuldskeytingu.
Í lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 er að finna ákvæði sem ætlað er að vernda rétt lánardrottna við samruna. Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna ber þannig hvoru samrunafélagi um sig að senda hlutafélagaskrá samrunaáætlun, ásamt skýrslu endurskoðanda eða skoðunarmanns, innan mánaðar frá því að samrunaáætlun er undirrituð. Samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laganna skal hlutafélagaskrá láta birta í Lögbirtingablaði á kostnað tilkynnanda tilvísun í aðalefni aukatilkynninga eins og þeirrar sem hér um ræðir.
Eins og áður er rakið var gerð samrunaáætlun milli Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf., fuglabús, 28. febrúar 2002. Var samruna félaganna staðfestur 21. maí 2002 og var uppgjörsdagur 1. september 2001. Félagið Ferskir kjúklingar ehf. var svo afskráð 20. júní 2002.
Umrætt tryggingabréf nr. 7919, útgefið af einkahlutafélaginu Ferskum kjúklingum ehf. 25. maí 2001, til Búnaðarbanka Íslands hf., var gefið út í tengslum við lánssamning nr. 100129-31 og var fylgisskjal með lánssamningnum og hluti hans. Óumdeilt er að skuld sem féll undir umræddan lánssamning var til staðar við samruna Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf. og var yfirtekin af Móum hf.
Í 47. gr. laga nr. 75/1997 er fjallað um vörureikningsveð en ákvæðið felur í sér undantekningu frá 1. mgr. 3. gr. laganna sem kveður á um skyldu til sérgreiningar á veðandlagi. Öðlast veðsetning almennra krafna réttarvernd gagnvart grandlausum þriðja manni með þinglýsingu á blað rekstraraðila í lausafjárbók, sbr. 3. mgr. 47. gr. Í lögunum er ekki að mælt fyrir um að veð í vörureikningum eða almennum kröfum samkvæmt 47. gr. laganna falli úr gildi við samruna tveggja félaga í eitt.
Í 47. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 er fjallað um þinglýsingu er varðar lausafé. Segir þar í 1. mgr. að skjali, sem varðar lausafé skuli þinglýsa á heimavarnarþingi eiganda þeirra eigna, sem haft er fellt á, eða þess, er hlíta verður takmörkun á rétti. Í 4. mgr. segir að ef eigandi flytji úr þinglýsingaumdæmi eða eigendaskipti verði að eign, megi þinglýsing fara fram að nýju, en hún sé ekki nauðsynleg.
Með hliðsjón af þessu ákvæði, ákvæðum einkahlutafélagalaga um yfirtöku réttinda og skyldna við samruna og með tilliti til þess að skylt er að tilkynna samrunaáætlun til hlutafélagaskrár og birta tilvísun til aðalefnis hennar í Lögbirtingarblaði verður ekki talið að við þær aðstæður sem hér um ræðir hafi það ekki verið nauðsynlegt skilyrði fyrir því að veðsetningin héldi gildi sínu gagnvart Móum hf. að umræddu tryggingarbréfi væri þinglýst að nýju hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík í kjölfar samrunans.
Í tryggingarbréfi nr. 7919 er veðandlagið afmarkað þannig:
„Allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum, hverju nafni sem nefnast, sem veðsali á nú eða eignast síðar í atvinnurekstri sínum á hverjum tíma,- allt í samræmi við 47. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Veðrétturinn nær til allra útgefinna, óinnheimtra vörureikninga veðsala, sem og allra þeirra vörureikninga, sem gefnir verða út í atvinnurekstri hans á hverjum tíma. Veðrétturinn nær til allra krafna, hvort sem þær hafa verið afhentar bankanum til innheimtu, eru í vörslu veðsala sjálfs, eða eru til innheimtu annars staðar. ”
Eins og veðandlagið er afmarkað er ljóst að það var ekki bundið við þá vörureikninga sem til staðar voru við útgáfu tryggingarbréfsins heldur náði til allra þeirra vörureikninga, sem gefnir yrðu út í atvinnurekstri veðsala meðan tryggingarbréfið væri í gildi.
Í því máli sem hér er til umfjöllunar er ekki um ræða grundvallarbreytingu á veðandlagi. Félögin sem runnu saman í eitt voru með samskonar rekstur og vörureikningar vegna sölu á vöru af sama tagi. Starfsemi hins yfirtekna félags var þannig haldið áfram innan skipulagsramma yfirtökufélagsins.
Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fallist á þann skilning varnaraðila að orðalagið „óinnheimtra vörureikninga veðsala” verði skilið þannig að andlag veðtryggingarinnar gæti aldrei orðið annað en vörureikningar útgefnir af upphaflegum veðþola, Ferskum kjúklingum ehf. og að þar sem engir vörureikningar útgefnir af upphaflegum veðsala fyrirfinnist í þrotabúinu sé ekkert veðandlag lengur til staðar. Þvert á móti verður að skilja orðalagið þannig að andlag veðsetningarinnar hafi verið vörureikningar útgefnir af hverjum þeim sem líta mætti á sem veðsala á hverjum tíma, þ.e.a.s. þeim sem yfirtekið hefði með lögmætum hætti þær skyldur sem fælust í tryggingarbréfinu.
Í máli þessu hefur því ekki verið haldið fram að vörureikningar Móa ehf. hafi fyrir eða eftir samrunann verið veðsettir öðrum aðila en sóknaraðila þessa máls.
Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að heimild rekstraraðila samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 75/1997 til að veðsetja þær almennu kröfur sem hann á eða fær í rekstri sínum eða aðgreindum hluta rekstrarins, falli undir þau réttindi og skyldur sem um er rætt í 102. gr. laga, nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt því verður talið að þær veðkvöð sem umrætt tryggingarbréf felur í sér hafi flust til yfirtökufélagsins ásamt skyldum samkvæmt lánssamningnum við samruna Ferskra kjúklinga ehf. og Móa hf. með þeim hætti að Móar hf. hafi eftir samrunann orðið að þola það að nýir vörureikningar útgefnir af félaginu stæðu til tryggingar skuldbindingum samkvæmt lánssamningnum.
Samkvæmt öllu framansögðu ber að fallast á með sóknaraðila að krafa hans, að fjárhæð 52.766.794 krónur, njóti stöðu veðkröfu í almennum kröfum samkvæmt vörureikningum í eigu varnaraðila, samkvæmt tryggingabréfi nr. 7919, upphaflega gefnu út af Ferskum kjúklingum ehf. 25. maí 2001, að fjárhæð 30.000.000 króna, auk verðbóta og dráttarvaxta og alls kostnaðar.
Í tryggingarbréfi nr. 7630, útgefnu 5. janúar 2000, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 krónur, kemur fram í B-lið að sóknaraðila sé sett að veði með 1. veðrétti „Eftirtaldir flokkar bústofns útgefanda/veðsala eins og þeir/hann eru/er á hverjum tíma“. Kemur fram í tryggingarbréfinu að tegund lifandi bústofns þá hafi verið kjúklingar, hænur, hanar og ungar. Sem fyrr segir er fjöldi dýra í bústofninum ekki tilgreindur.
Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er að finna meginreglu um bann við að setja að sjálfsvörsluveði safn muna sem eru samkynja eða ætlaðir til samkynja notkunar og eru einkenndir almennu nafni.
Áskilnaður um nægjanlega sérgreiningu sjálfsvörsluveðsettra lausafjármuna hefur meðal annars þann tilgang að nauðsynlegum tryggingarráðstöfunum verði komið við en forsenda þess er að ljóst sé hvað falli undir veðsetninguna og að hið veðsetta sé nægjanlega aðgreint frá öðrum eignum veðsala.
Mikilvæga undantekningu frá sérgreiningarreglu 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 laganna er að finna í 1. mgr. 30. gr. laganna en þar segir meðal annars að þeim sem stundi atvinnurekstur í landbúnaði sé heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni tiltekna flokka bústofns síns og eru alifuglar þar sérstaklega tilgreindir. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að veðlögum segir um 30. gr. að af 1. og 2. mgr. leiði að í veðbréfi nægi að sérgreina veðandlagið með þeim hætti, að fram komi tegund þess og tala hér um bil. Sé það í raun sama regla og fram komi í 4. mgr. 4. gr. og 9. gr. gildandi laga, þegar veðsettir séu í einu nafni tilteknir flokkar búfjár og afurðir og rekstrarvörur í landbúnaði.
Ekki verður með séð hvaða skírskotun athugasemdin „tala hér um bil” í greinargerð með frumvarpinu hefur til lagatextans sjálfs en í 1. mgr. 30. gr. er enginn slíkur áskilnaður gerður um afmörkun veðandlagsins. Þá verður ekki séð að umrædd athugasemd eigi sér stoð í ákvæðum 4. mgr. 4. gr. eða 9. gr. eldri veðlaga nr. 18/1887. Þykja þessar athugasemdir því ekki geta sett afmörkun veðandlags frekari skorður en kveðið er á í lagatextanum sjálfum.
Líta verður svo á að skoða verði í hverju tilviki fyrir sig hvort afmörkun veðandlags sé með þeim hætti að ljóst sé hvað falli undir veðsetninguna og að hið veðsetta sé aðgreint frá öðrum eignum veðsala með nægjanlega tryggum hætti.
Í umræddu tryggingarbréfi er lifandi bústofn veðsala veðsettur og tilgreint sérstaklega að átt sé við kjúklinga, hænur, hana og unga. Verður ekki séð að þessi tilgreining hafi valdið neinum vandkvæðum við afmörkun hins veðsetta frá öðrum eignum veðsala, veðsettum eða óveðsettum. Engu máli þykir skipta í þessu tilviki að í hinu staðlaða formi sem umrætt tryggingarbréf var ritað á var gert ráð fyrir að unnt væri að tilgreina fjölda dýra í bústofni við veðsetningu.
Við úrlausn þess hvort umrædd tilgreining hafi verið nægjanlega nákvæm verður einnig að líta til þess að undir veðsetninguna féll lifandi bústofn á hverjum tíma. Þar sem eldisfuglum er ekki ætlaður langur líftími hlýtur fjöldi fugla á hverjum tíma að vera talsvert breytilegur og því tiltölulega lítið gagn í afmörkun á fjölda.
Samkvæmt því sem að framan greinir hefur afmörkun á veðandlagi í umræddu tryggingarbréfi ekki verið til þess fallin að valda neinum vafa um það til hvaða lausafjár veðsetningin tæki. Því hefur þeim fullyrðingum sóknaraðila ekki verið mótmælt að um veðsetningu á öllum bústofni Móa hf. hafi verið um að ræða og því engin hætta á að óveðsettur bústofn væri dreginn undir veðsetninguna. Umræddu tryggingarbréfi virðist hafa verið þinglýst án athugasemda og ekki verður séð að aðrir lánardrottnar Móa hf. hafi gert athugasemdir varðandi afmörkun veðandlagsins.
Samkvæmt framansögðu telst afmörkun veðandlags tryggingabréfs nr. 7630 nægilega skýr að því er varðar veðsetningu bústofns og ekki andstæð 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Með hliðsjón af því ber að fallast á að krafa sóknaraðila að fjárhæð 74.782.799 krónur njóti stöðu veðkröfu í þrotabúi Móa hf. samkvæmt tryggingabréfi nr. 7630, upphaflega gefnu út af Móum hf. 5. janúar 2000, að fjárhæð 40.000.000 króna, auk verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar og að krafan njóti veðtryggingar í öllum þeim flokkum lausafjár sem þar eru tilgreindir sem veðandlag.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Helgi Sigurðsson hrl. en Ástráður Haraldsson hrl. af hálfu varnaraðila.
Sigurður Tómas Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Viðurkennt er að krafa sóknaraðila, Kaupþings Búnaðarbanka hf., að fjárhæð 52.766.794 krónur, njóti stöðu veðkröfu í almennum kröfum samkvæmt vörureikningum í eigu varnaraðila, þrotabús Móa hf., samkvæmt tryggingabréfi nr. 7919, upphaflega gefnu út af Ferskum kjúklingum ehf. 25. maí 2001, að fjárhæð 30.000.000 krónur, auk verðbóta og dráttarvaxta og alls kostnaðar.
Viðurkennt er að krafa sóknaraðila að fjárhæð 74.782.799 krónur njóti stöðu veðkröfu í þrotabúi Móa hf. samkvæmt tryggingabréfi nr. 7630, upphaflega gefnu út af Móum ehf. 5. janúar 2000, að fjárhæð 40.000.000 krónur, auk verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.