Hæstiréttur íslands
Mál nr. 105/2010
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Vændi
- Mansal
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 2010. |
|
Nr. 105/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Catalinu Mikue Ncogo(Hilmar Ingimundarson hrl. Jón Egilsson hdl.) (Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Fíkniefnalagabrot. Vændi. Mansal.
X var sakfelld fyrir tvö fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi á annars vegar 68,4 g af kókaíni, sem A var fenginn til að flytja til landsins, og hins vegar 353,29 g af kókaíni, sem X fékk B og C til að flytja til landsins. Voru brot X meðal annars talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þá játaði X að hafa bitið í bak lögreglumanns og var hún sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. X var ennfremur gefið að sök mansal með því að hafa, í þeim tilgangi að notfæra sér E kynferðislega, með ólögmætum blekkingum fengið hana til landsins undir því yfirskyni að hún væri að koma í frí, hýst hana, þar sem X neyddi E til að stunda vændi með því að hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum og með því að taka af henni fatnað og skilríki. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu X af þessum ákærulið var staðfest, þar sem mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar vitnisins E gat ekki komið til endurmats fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá þótti sannað að virtum gögnum málsins og framburði vitna að X hefði haft viðurværi sitt af vændi E, F og G og haft milligöngu um að fjöldi manna hefði samræði eða önnur kynferðismök við þær gegn greiðslu, en X leigði húnsnæði undir vændisstarfsemina. Þá hafði hún einnig látið taka myndir af konunum og auglýst vændi þeirra opinberlega á vefsíðum og óskað eftir kynmökum annarra við þær gegn greiðslu. Var háttsemi X talin varða við 3., 6. og 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X hefði verið sakfelld fyrir að hafa haft atvinnu af umfangsmikilli vændisstarfsemi um nokkuð langt skeið og staðið að innflutningi á töluverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Var styrkleiki þeirra mikill. Brotavilji X var talinn einbeittur og átti hún sér engar málsbætur. Þótti refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Miskabótakrafa E var byggð á því að X hefði flutt hana nauðuga hingað til lands og neytt hana til að stunda vændi fyrir sig. X hafði verið sýknuð af þeirri háttsemi og var kröfunni því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærðu fyrir brot samkvæmt ákæru 10. ágúst 2009 og II. kafla ákæru 29. september 2009. Þá er krafist sakfellingar samkvæmt I. kafla síðargreindrar ákæru og að refsing ákærðu verði þyngd.
E krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafa aðrir brotaþolar fallið frá einkaréttarkröfum á hendur ákærðu.
Ákærða krefst aðallega sýknu af 1. og 2. lið ákæru 10. ágúst 2009, en vægustu refsingar, sem lög leyfa, af sakargiftum samkvæmt 3. lið sömu ákæru. Þá krefst hún sýknu af ákæru 29. september 2009. Til vara krefst ákærða að refsing verði milduð. Loks krefst hún þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hún verði sýknuð af kröfunni, en að því frágengnu að dæmd fjárhæð verði lækkuð.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var ákærða sakfelld samkvæmt 1. lið ákæru 10. ágúst 2009 fyrir að hafa staðið að innflutningi á 68,4 grömmum af kókaíni, sem A var fenginn til að flytja til landsins 2. apríl 2009. Sakfelling ákærðu var meðal annars reist á framburði þessa manns hjá lögreglu sem rakinn er í héraðsdómi. Þessi framburður var ekki staðfestur fyrir dómi og verður því ekki byggt á honum í málinu, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Meðal gagna málsins er umslag, sem á er handskrifað nafnið A. Lögreglumaðurinn Eiríkur Valberg, sem vann við rannsókn málsins, bar fyrir dómi að lögregla hafi fundið miðann við húsleit á heimili ákærðu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu samkvæmt ákæru 10. ágúst 2009 og heimfærslu brotanna til refsiákvæða.
Í I. kafla ákæru 29. september 2009 er ákærðu gefið að sök mansal „með því að hafa, í þeim tilgangi að notfæra sér E kynferðislega, með ólögmætum blekkingum fengið hana til landsins í júní 2008 undir því yfirskyni að E væri að koma í frí, hýst hana að [...] og svo seinna að [...], í Hafnarfirði þar sem ákærða neyddi E til að stunda vændi með því að hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum og með því að taka af henni fatnað og skilríki.“ Í ákæru var þetta talið varða við 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a., 225. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en til vara við 5. mgr. 206. gr., 225. gr. og 233. gr. sömu laga. Ákærða var sýknuð af þessari háttsemi með hinum áfrýjaða dómi. Í niðurstöðu hans var meðal annars tekið fram að ákærða hafi greitt farmiða E hingað til lands og hýst hana. Fengi framburður E um að ákærða hafi tekið af henni föt og skilríki að hluta til stuðning í gögnum málsins, en skilríki hennar hafi fundist við húsleit heima hjá ákærðu. Dómurinn taldi á hinn bóginn að vætti konunnar hafi ekki að öllu leyti verið skýrt og stöðugt varðandi tiltekin atriði og var litið til þess við mat á trúverðugleika hennar. Áðurgreind atvik þóttu ekki nægja gegn eindreginni neitun ákærðu til sönnunar á sekt hennar og var hún því sýknuð af sakargiftunum. Mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar vitnisins E getur ekki komið til endurmats fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Verður samkvæmt þessu að staðfesta þessa niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir sakargiftir samkvæmt II. kafla ákæru 29. september 2009.
Við ákvörðun refsingar ákærðu verður litið til þess að hún hefur verið sakfelld fyrir að hafa haft atvinnu af umfangsmikilli vændisstarfsemi um nokkuð langt skeið og staðið að innflutningi á töluverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Var styrkleiki þeirra mikill. Brotavilji hennar var einbeittur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing hennar ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, en frá refsingunni dregst gæsluvarðhald ákærðu eins og í dómsorði greinir. Einkaréttarkrafa E er um miskabætur og á því byggð að ákærða hafi flutt hana nauðuga hingað til lands og neytt hana til að stunda vændi fyrir sig. Ákærða hefur verið sýknuð af þeirri háttsemi og ber því að vísa kröfunni frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði. Ákærða verður að öðru leyti dæmd til að greiða ¾ hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, en ¼ hluti hans greiðist úr ríkissjóði, þar með talið af málsvarnarlaunum verjanda ákærðu, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, en frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hennar frá 21. febrúar 2009 til 27. febrúar sama ár og 30. apríl 2009 til 12. maí sama ár.
Einkaréttarkröfu E er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Af öðrum áfrýjunarkostnaði málsins, samtals 771.312 krónum, þar með töldum málsvarnarlaunum verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónum, greiði ákærða ¾ hluta, en ¼ hluti hans greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. október sl., er höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara. Fyrri ákæran er dagsett 10. ágúst sl. á hendur Catalinu Mikue Ncogo, kt. 280278-2549, Akurvöllum 1, Hafnarfirði, „fyrir fíkniefnalagabrot, framin í ágóðaskyni, og brot gegn valdstjórninni með því að hafa á árinu 2009:
- Staðið að innflutningi á samtals 68,4 g af kókaíni sem A var fenginn til að flytja til landsins, falin innvortis, sem farþegi með flugi FI-205 frá Kaupmannahöfn fimmtudaginn 2. apríl. Hugðist ákærða móttaka eða láta móttaka efnin hér á landi, og hafði m.a. látið panta hótelherbergi fyrir manninn, en úr móttökunni varð ekki þar sem lögregla handtók hann við komu hans til Keflavíkurflugvallar og lagði síðar hald á efnin.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
2. Staðið að innflutningi á samtals 353,29 g af kókaíni sem ákærða fékk B og C til að flytja til landsins, falin innvortis, sem farþega með flugi FI-503 frá Amsterdam sunnudaginn 12. apríl. Afhenti ákærða konunum efnin ytra og hugðist móttaka eða láta móttaka þau hér á landi en úr því varð ekki þar sem lögregla handtók þær við komu þeirra til Keflavíkurflugvallar og lagði síðar hald á efnin.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
- Aðfaranótt föstudagsins 20. febrúar í leitarklefa tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, bitið í bak lögreglumannsins D þannig að hann hlaut bitfar.
Telst brot ákærðu varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976 og lög nr. 25/2007.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar“.
Seinni ákæran, sem er dagsett 29. september sl., er á hendur framangreindri Catalinu Mikue Ncogo og Finni Bergmannssyni, kt. 200566-4409, Bjallavaði 7, Reykjavík, og hljóðar þannig:
„1.
Gegn ákærðu Catalina fyrir mansal, hótanir og ólögmæta nauðung með því að hafa, í þeim tilgangi að notfæra E kynferðislega, með ólögmætum blekkingum fengið hana til landsins í júní 2008 undir því yfirskyni að E væri að koma í frí, hýst hana að Fögruhlíð 1 og svo seinna að Hringbraut 25, í Hafnarfirði þar sem ákærða neyddi E til að stunda vændi með því að hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum og með því að taka af henni fatnað og skilríki.
Telst þetta varða við 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a., 225. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 5. mgr. 206., 225. og 233. gr. sömu laga.
2.
Gegn ákærðu Catalina fyrir að hafa haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi E, F, G og fleiri ónafngreindra kvenna á árunum 2008-2009. Ákærða hafði einnig milligöngu um að fjöldi manna hefðu samræði eða önnur kynferðismök við framangreindar konur gegn greiðslu að fjárhæð kr. 20.000 til kr. 25.000 og hafði þannig tekjur af vændi þeirra, leigði undir vændisstarfsemina íbúðarhúsnæði að Fögruhlíð 1 og Hringbraut 25 í Hafnarfirði, og Hverfisgötu [...] og Rauðarárstíg [...] í Reykjavík. Þá lét ákærða taka myndir af framangreindum konum og auglýsti vændi þeirra opinberlega á vefsíðum og óskaði eftir kynmökum annarra við þær gegn greiðslu.
Telst þetta varða við 3., 6. og 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.
3.
Gegn ákærða Finni fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu sem lýst er í kafla II, með því að uppfæra auglýsingar um vændið á vefsíðum og taka ljósmyndir af nefndum konum sem þar birtust, en fyrir þetta fékk ákærði peningagreiðslur frá meðákærðu.
Telst þetta varða við 3., 6. og 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu G, fd. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu Catalina, samtals að fjárhæð krónur 800.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu E, kennitala [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu Catalina, samtals að fjárhæð krónur 800.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu F, kennitala [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu Catalina, samtals að fjárhæð krónur 800.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags“.
Ákærða Catalina Mikue Ncogo krefst aðallega sýknu af sakargiftum í ákæruliðum 1 og 2 í ákæru dagsettri 10. ágúst 2009 en vil vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Að því er varðar ákærulið 3 krefst ákærða vægustu refsingar og lög leyfa. Ákærða krefst aðallega sýknu af sakargiftum í 1. og 2. ákærulið í ákæru dagsettri 29. september 2009 en til vara að henni verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærða þess aðallega að bótakröfum í síðarnefndri ákæru verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar. Verjandi ákærðu krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði Finnur Bergmannsson krefst aðallega sýknu af sakargiftum í 3. ákærulið í ákæru dagsettri 29. september 2009 en til vara að refsing verði felld niður. Til þrautavara krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Í öllum tilvikum er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákæra dagsett 10. ágúst 2009.
Ákæruliður 1.
Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum dagsettri 16. apríl sl. var A handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komu frá Kaupmannahöfn 2. apríl 2009 vegna gruns um innflutning fíkniefna og færður til gegnumlýsingar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Segir að áður en til myndatöku kom, hafi hann strokið úr haldi lögreglu en verið handtekinn á ný morguninn eftir. Við gegnumlýsingu þann sama dag hefðu sést þrír aðskotahlutir í meltingarvegi og hefði hann í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. apríl sl. Þann 4. apríl sl. hefði A viljað vísa á fíkniefni, sem hann hefði hent frá sér skömmu fyrir handtöku að morgni 3. apríl. Samkvæmt ábendingu ákærða hefðu fundist 4 svartar plastpakkningar á malarplani við Hafnargötu 19 í Reykjanesbæ, sem hann hefði sagst hafa haft innvortis, en skilað af sér skömmu eftir flóttann.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu bar A á þann veg, að hann hafi verið fenginn til að flytja efnin til Íslands gegn greiðslu. Um hafi verið að ræða menn frá Amsterdam í Hollandi, sem hafi komið til Belgíu og fengið hann til að heimsækja þá í Amsterdam. Þar hefði hann verið látinn gleypa efnin en síðan verið sendur aftur til Belgíu og sagt að fljúga þaðan til Íslands. Kvaðst hann hafa átt að innrita sig á [...] hótel en upphaflega hefði honum hins vegar verið sagt að fara á annað hótel. Efnin yrðu síðan sótt til hans á hótelið. Hann hafi átt að fá 2000 evrur fyrir flutninginn á efnunum en hann gat ekki sagt nákvæmlega til um magn þeirra eða tegund, en taldi að um væri að ræða um það bil 70 g. Samkvæmt efnaskýrslum var um að ræða kókaín og reyndist þyngd þess vera samtals 68,40 g, þar af 29,34 g innvortis og 39,06 g sem hann vísaði lögreglu á.
Í rannsóknargögnum málsins er að finna lögregluskýrslur, sem teknar voru af A 3., 14. og 17. apríl sl. Þar játaði hann að hafa flutt framangreind fíkniefni hingað til lands. Hann kvaðst hafa hitt hollenskt fólk í Antwerpen, sem hefði sumt verið af spænskum uppruna en sumt þeldökkt. Um hefði verið að ræða bæði konur og karla og taldi A líklegt að konurnar hefðu verið hórur. Hann gaf ekki frekari lýsingu á fólkinu en kvað það í fyrstu hafa verið vinsamlegt í sinn garð en síðan tekið af honum bifreið hans og vegabréf og viljað fá hann til að flytja fyrir sig fíkniefni gegn greiðslu. Hann hefði farið með því til Amsterdam og þau útvegað honum farmiða til Íslands og gistingu og afhent honum eyðslufé og fé fyrir hóteluppihaldi. Hann hefði verið látinn gleypa pakkningar og síðan hefði fólkið ekið með honum á bifreið hans til Brüssel þar sem hann hefði tekið flug til Íslands. A kvaðst hafa fengið afhent símanúmer og síma með korti í. Síðar hefði landamæralögreglan sagt honum að símanúmerið væri ekki til. Frá flugvellinum á Íslandi hefði hann átt að taka leigubifreið að [...] hóteli þar sem fólkið hafði sagt honum að hann ætti pantað herbergi nr. 101. Upprunalega hefði honum verið sagt að fara á annað hótel. Þá hefði honum verið sagt að haft yrði samband við hann og að efnin yrðu sótt þangað.
Í rannsóknargögnum kemur fram að ákærða Catalina sendi H í Hollandi, sem ákærða segir vera vinkonu sína, sms-skilaboð á tímabilinu 30. mars til 2. apríl sem fjölluðu um [...] hótel en A kom til landsins með fíkniefni 2. apríl sl. eins og áður greinir. Einnig er í rannsóknargögnum að finna hljóðritanir á nokkrum símtölum ákærðu við H sama dag úr símanúmerinu [...]. Þar ræða þær um einhvern mann, sem bróðir H hefði farið með til Brüssel og hafi „farið inn“. H segist hafa bifreið hans, lykla, síma og skilríki og segir síðar að hann sé traustur og geri enga vitleysu. Ákærða segir m.a. að hún haldi að hann hafi ekki náðst og kemur jafnframt fram að hann komi frá Kaupmannahöfn. Þá ræða þær um að þær þurfi að grennslast fyrir um hann og H nefnir flugnúmerið 594 sem er það sama og kom fram í fluggögnum A.
Af gögnum málsins er ljóst að ákærða var í símasambandi við I 1. og 2. apríl sl. Ákærða hefur borið um það hjá lögreglu að I hafi stundað sölu á marihuana og hefur hún lýst tengslum þeirra þannig að þau tali oft saman. I kvað ákærðu hafa beðið hann um að bóka fyrir sig herbergi á [...] hóteli í apríl og hefði hann fengið greitt fyrir það. Í símtali þeirra 1. apríl kemur m.a. að ákærða biður hann um að senda sér nafnið, númerið og herbergisnúmerið. Í öðru símtali síðar sama dag ræða þau ákærða og I um að ekki sé allt í lagi og ákærða segir að þau séu í slæmum málum. Þá kemur fram í gögnunum að þau ákærða, I og H ræddu öll þrjú saman að kvöldi 2. apríl. Var þá m.a. rætt um að einhver væri væntanlegur frá Kaupmannahöfn.
Loks er meðal rannsóknargagna að finna skýrslu um húsleit, sem gerð var á heimili ákærðu 30. apríl sl. þar sem m.a. kemur fram að á heimilinu hafi fundist umslag sem á var ritað A.
Verður nú rakinn framburður ákærðu Catalinu Mikue Ncogo og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærða hefur neitað sök samkvæmt þessum ákærulið. Hún hefur neitað að þekkja A og segist aldrei hafa heyrt nafn hans. Þá neitaði hún að hafa pantað hótelherbergi fyrir hann. Ákærða kvaðst hins vegar þekkja mann að nafni I og þau töluðu oft saman. Hún kvaðst í símtali við hann þann 1. apríl sl. hafa verið að biðja hann að útvega sér gras eða marihuana til að reykja. Síðar í þinghaldinu leiðrétti hún sig og sagðist hafa beðið hann um að benda sér á einhvern til að útvega sér fíkniefnin. Aðspurð um hvað hún hefði átt við þegar hún sagði „the name, and the phonenumber and because they need it now“, kvað ákærða sig og vin sinn hafa langað til að reykja og I hefði vitað nafn og heimilisfang fíkniefnasala. Hins vegar neitaði ákærða að hafa í símtalinu verið að biðja I um að panta hótelherbergi nr. [...] á [...] hóteli í Hafnarfirði.
Ákærða kvaðst hafa þekkt H lengi. Þær töluðu saman á hverjum degi og kvaðst ákærða ekki muna sérstaklega eftir samtali þeirra þann 1. apríl sl. sem hún var spurð um. Ákærða kannaðist ekki við miða, sem A var með á sér þegar hann var handtekinn, og á er skrifað nafnið [...], símanúmerið [...] og [...] hotel [...]. Sérstaklega aðspurð kannaðist ákærða ekki við að vera kölluð [...]. Aðspurð um sms skilaboð í farsíma hennar, sem send voru áður en miðinn fannst, þar sem rætt er um [...] hotel [...] og að hitta hennar mann, kvaðst ákærða ekkert kannast við skilaboðin. Tók hún fram að margt fólk kæmi á heimili hennar, enda ættu hún og unnusti hennar marga vini. Gat ákærða ekki gefið aðrar skýringar á því hvers vegna sími með framangreindum símanúmerum fannst á heimili hennar en að það væri gestkvæmt á heimili hennar. Aðspurð um símanúmerið [...] kvaðst ákærða ekki þekkja það.
Við aðalmeðferð málsins var ákærða beðin um að gefa skýringar á nokkrum símtölum sínum sem lögregla hafði hlustað á. Þegar ákærða var beðin um að útskýra hvað þær H væru að ræða um þegar þær töluðu um farmiða í símtali 2. apríl kl. 15:45, svaraði hún því til að hún ferðaðist mjög mikið og hefði á þessum tíma haft í hyggju að fara til Amsterdam. Hins vegar kvaðst hún ekki vita hvað hún hefði átt við þegar hún spurði um tímann á flugmiðanum. Ákærða gat ekki upplýst, hvað hún hefði verið að tala um þegar hún sagði í símtalinu, að það tæki um það bil eina klukkustund en taldi sig eingöngu hafa verið að svara spurningu vinkonu sinnar. Þá kvaðst hún ekki vita hverju hún var að svara þegar hún sagði að klukkan fimm væri allt í lagi og að hún myndi hringja aftur. Ítrekaði ákærða að hún talaði við H á hverjum degi.
Í símtali 2. apríl kl. 19:43 kvaðst ákærða hafa talað um það við I að einhver væri ekki enn þar og að þau væru í slæmum málum af því að hana langaði svo til að reykja.
Spurð út í hvað þær H hafi rætt um 2. apríl kl. 19:54 þar sem þær furða sig á að engar fréttir hafi borist og að hann hafi átt að vera í dag, kvað ákærða þær hafa verið að tala almennt um hvað væri í fréttum. Þegar þær hafi talað um að hann hafi þurft að eyða nóttinni einhvers staðar, hafi þær verið að tala um ýmislegt og hún gæti hafa verið að tala um J. Þær H tali saman alla daga. Þegar hún hafi talað um að hennar maður hafi beðið í allan dag, kvað ákærða H hafa verið að spyrja út í komutíma flugvéla, t.d. frá Danmörku og Hollandi. H hafi ekki verið að spyrja um hver væri að koma, heldur almennt um komutíma. Hún hafi einnig spurt um það, hvort flug þaðan væri erfiðleikum bundið.
Ítrekaði ákærða að hún myndi ekki eftir öllu því, sem þær H töluðu um í daglegum símtölum sínum og það eigi við um símtalið kl. 21:04. Aðspurð um hvað þær H hafi verið að tala um þegar H segi að hann hafi ekki gert neitt heimskulegt og ákærða segir síðan að hennar maður viti hvað gerist á Íslandi, kvaðst ákærða lesa fréttir og hún hafi einungis verið að svara spurningum H. Ákærða kvað H ekki hafa gefið sér upp flugnúmerið 594 og ítrekaði þann framburð þegar henni var bent á að sama flugnúmer kæmi fram á farmiða A.
Aðspurð um hvað hún hafi átt við þegar hún segir í símtali við I 2. apríl kl. 21:14 að hún haldi að hann hafi ekki náðst, kannaðist hún ekki við að hafa sagt þetta og áréttaði að H spyrði sig um ýmsa hluti. Ákærða kvaðst reyna að svara þegar hún væri spurð um flugtíma og komutíma flugvéla. Þá kvaðst ákærða ekki vita hvað H var að tala um þegar hún sagði bróður sinn hafa ekið honum á flugvöllinn. Ákærða kvaðst einungis hafa verið að upplýsa H um það, hvernig hlutirnir gangi fyrir sig á Íslandi en hins vegar gat ákærða ekki skýrt hvers vegna H spyrði slíkra spurninga. Aðspurð um það hvers vegna ákærða segi við I í símtalinu að hann eigi að útskýra þetta fyrir H því hún sé svo stressuð, kvaðst hún alltaf vera stressuð og gat engar sérstakar skýringar gefið á þessu samtali.
Þegar hún segir við H að þetta sé mjög slæmt vegna þess að hann hafi ekki komið til Íslands og H svari með því að spyrja hvort hann hafi ekki verið í fluginu, kvaðst ákærða kannski hafa svarað á þennan hátt því hún hafi vorkennt henni. Þegar hún hafi talað um Kaupmannahafnarflug hafi hún verið að svara H því að það sé ekki erfitt að ferðast milli Kaupmannahafnar og Íslands. Þegar H hafi talað um að hún hafi bifreið hans, lykla og fleira og ákærða hafi svarað að hann hafi ekki tekið þetta flug, skýrði ákærða orðaskiptin með því að hún hefði einungis verið að svara spurningum vinkonu sinnar.
Aðspurð um hvað hún hafi verið að tala um þegar hún segir í símtali við H 2. apríl kl. 22:01 að þetta sé of mikið til að tapa, kvaðst ákærða hafa átt að fljúga til útlanda eftir helgina en hefði verið handtekin og því verið að tala um hversu miklu hún hefði tapað. Þegar hún hafi síðan talað um að hann hafi aldrei komið til Íslands, það sé hundrað prósent og þau hafi athugað nafnið og allt, kvaðst ákærða aldrei hafa athugað neitt. Kannski hafi vinur H verið koma og þær spjallað um það í símanum. Gat ákærða ekki skýrt hvað H átti við með því að tala um að bróðir hennar hefði ekið einhverjum til Brüssel. Þá kvaðst ákærða ekki hafa verið að segja neitt sérstakt þegar hún spurði H. hvort bróðir hennar hefði séð hann fara inn og tók fram að þær vinkonurnar töluðu bara svona saman.
Þegar ákærða hefði sagst vera í slæmum málum og þætti illt að valda fólki vonbrigðum, kvaðst ákærða hafa átt við að hún hefði farið fram yfir á greiðslukorti sínu og því ekki getað notað það og þurft að fá lán fyrir farmiðanum til Hollands hjá vini sínum. Neitaði ákærða því alfarið að hafa í áðurgreindum símtölum verið að skipuleggja þann fíkniefnainnflutning, sem hún er ákærð fyrir í þessum ákærulið.
Aðspurð um skýringar á því að umslag með nafni A hefði fundist við húsleit á heimili hennar 30. apríl sl., kvaðst ákærða engar geta gefið, enda hefði hún fyrst séð það hjá lögreglu.
Vitnið K rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa stjórnað rannsókn á ætluðum fíkniefnainnflutningi ákærðu. Í febrúar 2009 hefði ákærða farið til Amsterdam með unnusta sínum og á meðan þau voru þar hefði lögregla fengið upplýsingar um að þau ætluðu að flytja kókaín til Íslands þegar þau sneru heim úr ferðinni. Síðan hefði frést að unnusti ákærðu hefði verið handtekinn 13. febrúar í Hollandi fyrir innflutning á fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Hollands og hefði þá hafist hlustun á síma ákærðu. Hlustunin hefði vakið grunsemdir um að ákærða undirbyggi fíkniefnainnflutning, m.a. símtöl þar sem ákærða ræddi við konu í Hollandi um að þetta þyrfti að fara að gerast því það væri svo mikill þurrkur á Íslandi og nú væri kominn tími til að fá rigningu. Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli hefði síðan verið gert viðvart um grunsemdir lögreglu sem leitt hefði til þess að maður, að nafni A, sem talinn var tengjast málinu, var handtekinn með tæp 70 g af kókaíni. Þann 12. apríl hefðu komið til landsins tvö önnur burðardýr með fíkniefni, sem lögregla taldi vera á vegum ákærðu.
Vitnið kvað ákærðu Catalinu hafa verið þá einu sem notaði símanúmerið [...] frá 2. apríl til 7. maí. Byggði vitnið þessa fullyrðingu á því að hann hefði hlustað á ákærðu í um það bil einn mánuð og þekkti því rödd hennar vel.
Vitnið I kvaðst þekkja ákærðu en þau hittist stundum til að reykja gras saman. Hann kvað ákærðu einhvern tímann í apríl hafa beðið sig um að gera sér greiða og bóka hótelherbergi á [...] hóteli í [...]. Kvaðst vitnið ekki vita hvers vegna hún bað hann um þetta og vissi ekki til hvers hún ætlaði að nota herbergið. Vitnið kvaðst hafa fengið 20.000 krónur fyrir en herbergið hefði kostað 15.000 krónur svo hann hafi sjálfur fengið 5.000 krónur fyrir viðvikið. Kvaðst hann hafa bókað herbergi nr. 101 eða 102.
Vitnið kvaðst hafa átt að afhenda fólkinu, sem var væntanlegt, lykil að herberginu og taka á móti því. Hann hefði átt að bíða eftir símtali, sem aldrei barst, og þá hefði fólkið heldur ekki birst. Kvaðst vitnið ekki þekkja A.
Aðspurður um það hvað símtal hans við ákærðu 1. apríl sl. snerist, þar sem hún bað hann um að senda sér nafnið, símanúmerið og númerið því þau þyrftu það núna, kvaðst vitnið ekki vita hvort þau ræddu um hótelherbergið. Þá gat vitnið ekki upplýst um hvað þau ákærða ræddu um í símtali seinna sama dag þegar vitnið svaraði neitandi spurningu ákærðu um hvort hann væri kominn og þegar ákærða segir „Weer screwed“. Gæti verið að þau hefðu rætt um hótelherbergið og það kæmi væntanlega fram í lögregluskýrslu hans.
Vitnið kannaðist við að ákærða hefði beðið hann um að tala við H vegna þess að hún væri svo stressuð en ekki vissi vitnið hvers vegna. Hún hefði sagst hafa bifreið mannsins, sem væri hér og vitnið vissi ekki nafnið á, og vissi hvar hann byggi.
Þegar borinn var undir vitnið framburður ákærðu um að hún hefði aldrei beðið hann um að panta fyrir sig hótelherbergi, hélt vitnið fast við framburð sinn um að það hefði hún gert. Kunni hann enga skýringu á þessari afstöðu ákærðu.
Niðurstaða.
Ákærða hefur neitað sök og kvaðst hvorki þekkja A né hafa heyrt hans getið. Þá neitaði hún því alfarið að hafa beðið I um að panta fyrir sig hótelherbergi. Framangreindur A var handtekinn við komu til landsins 2. apríl sl. þar sem hann var með 68,4 g af kókaíni falin innvortis. Hann játaði sök og hefur hlotið dóm fyrir brot sitt.
Ýmislegt er fram komið í málinu sem tengir ákærðu við A. Við handtöku var hann með miða á sér sem á var ritað tiltekið símanúmer og [...] hótel [...]. Í framburði A í skýrslu hans hjá lögreglu kom fram að pantað hefði verið fyrir hann herbergi nr. [...] á [...] hóteli í Íslandi en vitnið I hefur borið um það fyrir dóminum að hann hafi að ósk ákærðu bókað herbergi nr. [...] á [...] hóteli á þessum tíma.
Fyrir liggur að þau I og ákærða töluðu saman í síma í tvígang 1. apríl sl. Skýringar ákærðu á því hvað þau I ræddu þá um, voru nokkuð á reiki í skýrslu hennar hér fyrir dóminum. Þannig sagði hún í upphafi að hún hefði verið að biðja I um að útvega sér fíkniefni en síðar í skýrslutökunni kvaðst hún hafa beðið hann um að benda sér á einhvern annan til að útvega sér efnin.
Eins og áður greinir bera rannsóknargögn málsins með sér að ákærða sendi H í Hollandi, sem ákærða segir vera vinkonu sína, sms-skilaboð á tímabilinu 30. mars til 2. apríl sem fjölluðu um [...] hótel en A kom til landsins með fíkniefni sama dag. Þá liggja fyrir uppritanir á nokkrum hljóðrituðum símtölum ákærðu við H úr símanúmerinu [...] sama dag þar sem þær ræða um einhvern mann, sem bróðir H hefði farið með til Brüssel og hafi „farið inn“. Þá nefnir H flugnúmerið 594 sem er það sama og kom fram í fluggögnum A. Að framanrituðu virtu er það mat dómsins að skýringar ákærðu á efni símtala hennar og H á þann veg að þær vinkonurnar tali saman daglega um allt mögulegt og hún muni því ekki eftir öllum þeirra símtölum, séu bæði óskýrar og ótrúverðugar. Þá hefur ákærða ekki getað skýrt tilvist umslags með árituninni A, sem fannst við húsleit á heimili hennar 30. apríl sl.
Að öllu framanrituðu virtu er það mat dómsins að framburður ákærðu sé í heild ótrúverðugur og óglöggur og með vísan til vættis vitnisins I og þess, sem kemur fram í lögregluskýrslu A, og rannsóknargögnum málsins, þykir fram komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærða hafi staðið að innflutningi á 68,4 g af kókaíni sem framangreindur A flutti til landsins 2. apríl sl. Er brot ákærðu rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru og verður hún því sakfelld eins og krafist er.
Ákæruliður 2.
Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 29. apríl sl., komu þær C og B, sem báðar eru belgískir ríkisborgarar, til landsins 12. apríl sl. frá Amsterdam. Segir í skýrslunni að tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi stöðvað þær eftir að fíkniefnaleitarhundur hafði „merkt sterklega við þær“. Konurnar, sem hefðu komið samtímis að hliðinu, hefðu verið teknar til frekari skoðunar og færðar í sitt hvorn leitarklefann. Grunur tollvarða hefði vaknað um að þær væru með fíkniefni innvortis og hefðu þeir því tilkynnt rannsóknardeild lögreglunnar um málið. Hefðu konurnar báðar neitað að vera með fíkniefni en verið reiðubúnar að gangast undir röntgenrannsókn því til staðfestingar. Frásögn kvennanna hefði verið talin ótrúverðug einkum þar sem þeim hefði ekki borið saman.
Röntgenmynd hefði staðfest að konurnar voru með aðskotahluti í leggöngum og hefði C reynst vera með eina pakkningu og B með tvær auk þess sem hin síðarnefnda hefði verið með tvær pakkningar í endaþarmi. Þann 13. apríl sl. hefðu konurnar báðar verið úrskurðaðar í gæsluvarðhald til 21. sama mánaðar sem síðar var framlengt allt til 30. sama mánaðar.
Við efnagreiningu haldlagðra fíkniefna hefði komið í ljós að um var að ræða samtals 353,29 g af kókaíni. Í pakkningunni, sem kom frá C, hefðu reynst vera 150,45 g en í pakkningunum fjórum, sem B skilaði frá sér, hefðu reynst vera 202,84 g. Sýni úr pakkningunum hefðu verið styrkleikamæld og hefði styrkur kókaínsins í sýnunum vera 52-55% sem samsvaraði 58-62% af kókaínklóríði.
Um lýsingu framangreindra kvenna á atburðum segir í skýrslunni, að samræmi sé í lýsingum beggja á því að í upphafi hefði C verið í atvinnuleit og rekist á auglýsingu um vel launað starf þar sem símanúmer var gefið upp. C hefði hringt í númerið og þá hefði karlmaður svarað, sem hefði viljað koma á fundi með þeim. C hefði fallist á að hitta manninn og hann komið ásamt öðrum heim til hennar föstudaginn 10. apríl sl. Þau hefðu í kjölfarið farið á lestarstöð i Brüssel þar sem þau hefðu hitt tvær dökkar konur á grárri Audi sportbifreið. Önnur kvennanna hefði sagst vera frá Íslandi og hefði hún beðið C um að flytja fyrir sig fíkniefni til Íslands. Um væri að ræða 500 g til 1 kíló af kókaíni, sem komið yrði fyrir í endaþarmi og leggöngum. B hefði tengst málinu seinna sama dag þegar hún og C hefðu verið í símasambandi en frásögn þeirra ber ekki saman varðandi hvor þeirra hringdi. Í kjölfarið hefðu C og mennirnir tveir hitt B, sem hefði ákveðið að taka þátt í að flytja fíkniefnin.
Því næst hefðu þær C og B farið með konunum tveimur akandi til Amsterdam og komið þangað aðfaranótt laugardagsins 11. apríl, þar sem þær hefðu gist á [...] hotel. Íslenska konan hefði pantað og greitt 300 evrur fyrir hótelherbergið og látið þær C og B hafa 50 evrur hvora í vasapeninga. Samkvæmt frásögn þeirra beggja, hefði íslenska konan virst sjá um skipulag innflutningsins.
Morguninn eftir hefði íslenska konan komið með tvær töskur með fötum í, sem C og B hefðu átt að hafa með sér til Íslands. Þá hefði hún tekið skilríki þeirra til þess að geta keypt fyrir þær farmiða til Íslands. Á sunnudeginum hefði íslenska konan komið með fíkniefni í tösku sem búið hefði verið að pakka í tvær stórar pakkningar og 4 litlar. Íslenska konan hefði sagt að í stóru pakkningunum væru 200 g en í litlu pakkningunum 50 g. Íslenska konan hefði síðan hjálpað B að koma litlu pakkningunum fjórum fyrir. Stærri pakkningarnar tvær hefðu verið of stórar til að C gæti komið þeim fyrir, svo íslenska konan hefði hringt í hina konuna, sem hefði komið skömmu síðar upp á hótelherbergið. Síðan hefðu þær farið heim til konunnar, sem bjó þar skammt frá, og hefðu hún minnkað eina pakkninguna til þess að C kæmi henni fyrir.
Að þessu loknu hefði þeim C og B verið ekið á flugvöllinn í Amsterdam og á leiðinni hefði íslenska konan afhent þeim skilríki sín, 500 evrur í 20 evruseðlum, farmiðana og bækling með upplýsingum um Hótel [...] þar sem íslenska konan hefði sagst hafa pantað fyrir þær herbergi. Þegar þær kæmu til Íslands ættu þær að sýna leigubifreiðarstjóra bæklinginn sem æki þeim að hótelinu. Síðan myndi íslenska konan hringja í hótelsímann og þær C og B ættu að staðfesta að allt væri í lagi með því að segja yes ok. Þá hefðu þær fengið fyrirmæli um að fela pakkningarnar undir rúmdýnunni og gæta þess að enginn kæmi inn í herbergið. Önnur þeirra ætti alltaf að vera í herberginu þar til íslenska konan kæmi til landsins þriðjudaginn 14. apríl en þá myndu þær fá greiddar 10.000 evrur hvor fyrir ferðina.
Aðspurðar um íslensku konuna, hefði komið fram að hún hafi verið smávaxin með axlarsítt slétt hár og snyrtilega klædd. Hin konan hafi verið mun stærri og þreknari. B hefði sagt konuna kalla sig [...] og C hefði sagst hafa heyrt nafnið [...].
Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla um rannsókn tæknideildar lögreglunnar á dagbók, sem fannst við húsleit á heimili ákærðu og ákærða hefur viðurkennt að sé í hennar eigu, annars vegar og afrifu úr dagbók sem fannst á C þegar hún var handtekin við komuna til Íslands 12. apríl sl. Þar kemur fram að afrifan og útskorin blaðsíða úr dagbókinni voru bornar saman undir stækkun í víðsjá og sameiginlegra einkenna leitað. Var niðurstaða rannsóknarinnar sú að afrifan hefði áður verið hluti af blaðsíðu 23 og 24 í dagbókinni.
Verður nú rakinn framburður ákærðu Catalinu Miku Ncogo og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærða hefur neitað sök og kvaðst ekki hafa vitað um tilvist B og C fyrr en lögreglan sagði henni frá þeim.
Áður en lengra er haldið þykir rétt að gera grein fyrir atriðum sem fram komu í vitnisburði K rannsóknarlögreglumanns, en hann stjórnaði rannsókn þessa tiltekna máls. Í skýrslu sinni skýrði vitnið svo frá að nokkrar ábendingar hefðu borist um að ákærða væri að flytja inn fíkniefni. Í febrúar hefði hún farið til Amsterdam með kærasta sínum og þá hefðu borist upplýsingar um að þau ætluðu að flytja inn fíkniefni til landsins úr þeirri ferð. Eftir hlustun á síma ákærðu hefðu vaknað grunsemdir í lok mars um að ákærða ætlaði að flytja fíkniefni frá Hollandi til Íslands. Í kjölfarið hefði maður verið handtekinn með um 70 g af kókaíni en þá hefði lögregla hlustað á ákærðu tala við konu í Hollandi um að mikill þurrkur væri á Íslandi og nú væri góður tími til að fá rigningu. Síðan hefðu önnur tvö burðardýr komið til landsins í apríl sem talið var að væru á vegum ákærðu. Síðan hefðu borist upplýsingar um að hringt hefði verið úr símanúmeri ákærðu, [...], og pantað herbergi fyrir konu að nafni C. L, starfsmaður Hótels [...], hefði gefið upp nöfn kvennanna og því hefði verið hægt að vara Tollgæsluna við því að þær væru hugsanlega með fíkniefni meðferðis. Við komu hefði önnur þeirra verið með bækling um [...] hótel meðferðis. Bæði M, starfsmaður Hótels [...], og L hefðu svo staðfest að daginn sem B og C komu til landsins, hefði kona, sem talaði íslensku með hreim, hringt úr framangreindu símanúmeri og spurst fyrir um það hvort konurnar væru komnar.
Í skýrslu sinn kvað ákærða símanúmerið [...] vera sitt númer en kannaðist ekki við að hafa hringt á Hótel [...] úr því símanúmeri til að panta hótelherbergi. Kvaðst hún oft lána símann sinn auk þess sem hún hafi verið gestur á heimili vinar síns í Hollandi á þessum tíma og hefði hún verið með símann sinn með sér þar. Kvaðst ákærða ekkert vita um tilgreind símtöl á Hótel [...] þegar spurst var fyrir um framangreindar tvær konur.
Ákærða neitaði að hafa pantað hótelherbergi fyrir C á [...] hóteli 12. apríl sl. Við handtöku 19. febrúar sl. hefði hún verið með dagbókina sína með sér og kannaðist við að ljósmyndir í gögnum málsins væru af dagbók hennar. Þá taldi hún að afrifa, sem fannst á C þegar hún kom til landsins og sem rannsókn lögreglu leiddi í ljós að væri úr dagbók ákærðu, gæti verið úr dagbók hennar. Hún kvaðst þó hvorki kannast við nafnið né númerið, sem skráð er á afrifuna, og hefði hún ekki vitað að þessa afrifu vantaði í dagbók sína fyrr en lögregla sýndi henni hana. Þegar ákærða var upplýst um það, að símanúmer hennar hefði verið fjórum sinnum í samskiptum við greint símanúmer á afrifunni á tímabilinu 2.-4. apríl sl., ítrekaði ákærða að hún hefði verið gestur á heimili vinar síns á þessum tíma og myndi hún ekki eftir símanúmerinu á afrifunni. Taldi hún loks að númerið gæti verið símanúmer vinkonu hennar, sem hún dvaldi hjá.
Ákærða kannaðist við að framlagðar myndir, sem þær C og B hafa sagt vera af konunni, sem skipulagði fíkniefnainnflutning þeirra til Íslands, væru af henni en kvað rangt að hún hefði skipulagt innflutning fíkniefna. Þegar borið var undir ákærðu vætti B þegar hún kom sjálfviljug til lögreglu og sagði mynd af ákærðu á forsíðu vikurits vera mynd af konunni sem skipulagði fíkniefnainnflutninginn, benti ákærða á að lögregla hefði áður sýnt B mynd af ákærðu. Þá ítrekaði ákærða að hún hefði aldrei hitt þær B og C og því gæti ekki verið að hún hefði afhent C afrifuna úr dagbókinni eins og C hefur borið um.
Ákærða kannaðist ekki við heimilisfangið [...]. Hún kvaðst ekki þekkja sig vel í Hollandi en hún fengi stundum uppgefin heimilisföng þar sem hún ætti að gista og skrifaði þau í dagbókina sína.
Aðspurð um heimilisfang ferðaskrifstofunnar [...], þar sem ferðaskrifstofan [...] er einnig staðsett, á vegabréfshulstri hennar, kvaðst ákærða eiga það til að týna farseðlum og þá vísi vinir hennar henni á ferðaskrifstofur og riti nafn ferðaskrifstofunnar niður fyrir hana. en vegabréfshulstrið hefði hún fengið gefins á ferðaskrifstofunni enda kaupi hún farseðla hjá nefndri ferðaskrifstofu fyrir sjálfa sig.
B, kvað tvær konur hafa fengið sig og C til að flytja fíkniefni fyrir sig. Konurnar hefðu ekki kynnt sig en önnur þeirra hefði verið ákærða. Aðspurð kvaðst vitnið ekki vera viss um að önnur þeirra hefði kallað sig [...]. Vitnið kvaðst hafa komist að nafni ákærðu þegar hún sá mynd af henni í blaði sem hún fletti eftir að hún kom í fangelsi hér á landi. Við skýrslutöku af vitninu 7. september sl. staðfesti hún að ákærða væri konan, sem skipulagði umræddan fíkniefnaflutning. Þá hefði ákærða sagst vera frá Íslandi.
Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt ákærðu á föstudagskvöldi í Belgíu þar sem hún var ásamt tveimur karlmönnum. Vitnið kvað ákærðu hafa sagt að þær vitnið og C ættu að flytja samtals 400 g af kókaíni til Íslands. Hefðu ákærða og hin konan aðstoðað þær vitnið og C við að koma fíkniefnunum fyrir. Magn efnanna hefði verið minnkað úr 200 g í 150 g vegna þess að C hefði ekki ráðið við það magn sem henni var ætlað að flytja. Þær vitnið og C hefðu viljað hætta við allt saman, en ekki getað það þar sem þær voru ekki með persónuskilríki sín.
Vitnið kvað ákærðu og hina konuna hafa sagt þeim C á flugvellinum að þær ættu að láta sem þær væru lesbískt par. Ákærða hefði séð um að útvega þeim farmiða og hótel auk þess sem hún hefði tekið af þeim nafnskírteinin. Þá hefði ákærða látið þær hafa fé fyrir uppihaldi þeirra og hefðu þær átt að fá 10.000 evrur hvor fyrir flutninginn en ekkert fengið greitt fyrirfram. Vitnið kvað ákærðu hafa séð um allt og m.a. séð um greiðslur til þeirra en hin konan hefði frekar verið áhorfandi að því sem fram fór.
Vitnið kvaðst hafa verið með ákærðu þegar sú síðarnefnda fór til lögfræðings sem vitnið minnti að héti [...]. Ákærða hefði hringt en enginn svarað. Þær hefðu farið á kaffihús og vitnið síðan beðið þar í hálfa klukkustund á meðan ákærða brá sér frá.
Vitninu var við skýrslutökuna sýndur miði, sem á stendur nafnið [...] og tiltekið símanúmer. Kvað vitnið konuna, sem ók bifreiðinni, hafa viljað gefa þeim C símanúmer sitt og hefði ákærða skrifað á miðann og spurt konuna hlæjandi hvort hún gæfi þeim upp rétt símanúmer. Kvaðst vitnið vita að miðinn hefði verið rifinn út úr dagbók.
Aðspurð kvað vitnið sér ekki hafa verið hótað vegna þessa máls og þá kvaðst hún ekki hafa haft samband við ákærðu.
C tók fram í upphafi skýrslutökunnar að hún væri með gloppótt skammtímaminni vegna flogaveiki. Hún kvaðst hafa verið að leita sér að vinnu þegar hún sá auglýsingu í blaði um „svarta vinnu“ á hóteli. Hefði hún hringt í uppgefið símanúmer og fyrst talað við karlmenn, sem hún vissi ekki nöfnin á, og hefðu þeir síðan komið til hennar. Þeir hefðu gert henni tilboð um að hún flytti fyrir þá kókaín. Í Amsterdam hefði verið talað um það magn, sem fannst á henni og B, og að þær hefðu átt að fá 10.000 evrur fyrir, sem greiðast skyldu eftir á. Þær hefðu gist á hóteli en hefðu enga peninga fengið fyrir kostnaði.
Viðskiptin hefðu verið rædd bæði í Belgíu og Amsterdam en í Amsterdam hefðu komið til þeirra tvær konur sem ekki kynntu sig. Konurnar hefðu verið á lítilli blárri eða grárri bifreið en vitnið kvaðst ekki muna eftir andlitum þeirra. Konurnar hefðu verið af afrísku bergi brotnar og hefði önnur verið lágvaxin en hin hávaxin. Við skýrslutökuna gat vitnið ekki fullyrt að hún þekkti ákærðu sem aðra konuna. Aðspurð kvað vitnið geta verið að önnur kvennanna hefði sagst vera frá Íslandi.
Konurnar tvær hefðu látið þær hafa fíkniefnin og flugmiða en enga peninga. Þær hefðu fengið fyrirmæli frá báðum konunum um að bíða á hóteli á Íslandi. Þá hefðu konurnar verið viðstaddar þegar vitnið setti fíkniefnin upp í líkama sinn. Það hefði gengið illa og því hefði einhver karlmaður minnkað pakkann að konunum tveimur viðstöddum.
Aðspurð um miða með nafninu [...] og tilteknu símanúmeri, kvaðst vitnið ekki hafa tekið á móti honum og kannaðist hvorki við nafnið né símanúmerið. Kannaðist hún þó við að hafa séð miðann hjá lögreglunni og taldi mögulegt að B hefði tekið við honum. Aðspurð um lýsingu sína í lögregluskýrslu 13. apríl 2009 um að [...] hafi látið hana hafa 500 evrur í 20 evruseðlum og jafnframt miða með nafni hennar og símanúmeri, kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa verið afhentur umræddur miði en rengdi þó ekki að hún hefði sagt það, sem eftir henni er haft í skýrslunni.
Vitnið kannaðist ekki við númerið [...] sem skrifað er á hótelbókun merkta Hótel [...].
Vitnið kvaðst ekki vita hvor kvennanna úti í Hollandi var kölluð [...] en hún hefði engin nöfn heyrt.
N rannsóknarlögreglumaður kvað myndir þær, sem bornar voru undir B og C, hafa verið af ákærðu Catalinu, annars vegar úr vegabréfaskrá og hins vegar úr brotamannaskrá. Vitnið kvað lögreglu hafa borist upplýsingar um það, að ákærða Catalina hefði hitt þær B og C úti og því hefði verið ákveðið að athuga hvort þær þekktu ákærðu. C hefði sagst hafa fengið miða með nafninu [...] og númerið [...] frá „íslensku konunni“ eins og hún orðaði það.
O rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu tæknideildar lögreglunnar frá 12. júní 2009 um dagbók ákærðu og afrifu úr dagbók. Dagbókin og dagbókarafrifan hefðu verið bornar saman með smásjárskoðun og væri niðurstaðan sú að afrifan væri úr dagbókinni.
P lögreglumaður staðfesti upplýsingaskýrslu um dagbók ákærðu Catalinu dagsetta 20. maí 2009.
Vitnið K rannsóknarlögreglumaður kvað ástæðu þess að talað var við L, en þeim vitnisburði er áður lýst, vera þá, að þegar ákærða Catalina var í útlöndum hringdi hún í I og bað hann um að hafa annað hvort samband við Hótel [...] eða senda henni símanúmer hótelsins. Vitnið kvað B hafa að eigin frumkvæði óskað eftir að gefa skýrslu hjá lögreglu og þá sýnt lögreglu myndir af ákærðu Catalinu úr vikublaðinu Vikunni og sagt að þetta væri konan, sem hefði afhent henni fíkniefnin í Hollandi og hefði ætlað að taka á móti þeim C hér á landi. Vitnið staðfesti skýrslur sínar í málinu og þá voru borin undir hann ýmis atriði úr rannsóknargögnum málsins. Staðfesti vitnið að miði með handskrifuðu nafni A hefði fundist við húsleit á heimili ákærðu. Þá hefði verið ritað í dagbók ákærðu tiltekið heimilisfang við [...], sem hún hefði ekki viljað kannast við. Í plasthulstri utan um vegabréf hennar hefði verið skráð ferðaskrifstofa sem var til húsa í [...] og hefði komið í ljós að flugmiðar A, B og C hefðu verið bókaðir í gegnum sömu ferðaskrifstofu.
L kvaðst hafa verið starfsmaður á Hótel [...] þegar pantað var herbergi fyrir tvær konur 12. apríl sl. úr símanúmeri sem byrjaði á tölustafnum 7. Kvaðst vitnið hafa skrifað nöfn kvennanna á miða sem hún hefði afhent lögreglu. Konurnar hefðu heitið mjög sérstökum nöfnum. Kona, sem talaði bjagaða íslensku, hefði síðan hringt að minnsta kosti í tvígang til að spyrjast fyrir um það, hvort konurnar væru komnar. Konan hefði sagt konurnar vera væntanlegar frá Brüssel. Kvaðst vitnið hafa látið lögreglu vita af þessu.
M kvaðst hafa unnið á [...] hóteli í Reykjavík í byrjun árs þegar lögregla hafði samband við hann. Kannaðist vitnið við að hafa tekið niður hótelbókun frá konu, sem vitninu heyrðist vera útlendingur, en talaði íslensku með hreim. Konan hefði hringt mörgum sinnum 11. og 12. apríl sl. til að fylgjast með því hvort gestirnir væru mættir á hótelið. Þann 13. apríl hefði konan verið pirruð og ekki trúað því að gestirnir væru ekki mættir en hún hefði sagt þá vera að koma frá Amsterdam. Mundi vitnið ekki nöfn gestanna. Kvaðst vitnið hafa ritað allt sem á miðanum stendur nema „[...] x 2“.
Niðurstaða.
Fyrir liggur að þær B og C hafa játað og verið dæmdar fyrir innflutning á samtals 353,29 g af kókaíni 12. apríl sl. B hefur borið um það, bæði við skýrslutöku hjá lögreglu og hér fyrir dóminum, að ákærða hefði skipulagt umræddan fíkniefnainnflutning. Kvaðst hún hafa séð myndir af konu í vikuritinu Vikunni eftir að hún hlaut dóm fyrir aðild sína að málinu, og gaf þá, að eigin frumkvæði, skýrslu hjá lögreglu um að þetta væri konan sem skipulagði innflutninginn. Er óumdeilt að umrætt viðtal í Vikunni er viðtal við ákærðu með myndum af henni.
Rannsóknargögn sýna að símanúmer ákærðu var fjórum sinnum í samskiptum við símanúmer, sem ritað var á afrifu úr dagbók hennar ásamt nafninu [...], á tímabilinu 2. til 4. apríl sl. Ákærða hefur kannast við dagbókina og rengdi ekki rannsóknarniðurstöðu lögreglu um að afrifan væri úr bók hennar. Hins vegar kvaðst hún í fyrstu hvorki þekkja nafnið né símanúmerið en taldi loks að númerið gæti verið símanúmer hjá ónafngreindri vinkonu hennar sem hún hefði dvalið hjá. Ákærða gat engar skýringar gefið á því, hvers vegna afrifa úr dagbók hennar fannst á C og neitaði að hafa afhent henni hana.
Skýringar ákærðu eru í mótsögn við vætti B hjá lögreglu og hér fyrir dóminum og vætti C hjá lögreglu. Vætti þeirrar síðarnefndu var ekki eins afdráttarlaust fyrir dóminum og bar hún fyrir sig gloppóttu minni vegna flogaveiki. Vætti vitnanna er trúverðugt og ekkert fram komið sem kastar rýrð á ábendingu vitnisins B vegna viðtals og mynda af ákærðu í vikuritinu Vikunni. Hér ber að hafa í huga að vitnið hafði þegar hlotið dóm fyrir aðild sína að málinu og hafið afplánun fangelsisrefsingar sinnar vegna dómsins þegar þetta var. Verður því ekki séð að vitnið hafi haft hagsmuni af því að beina ranglega grun að ákærðu vegna aðildar hennar að málinu.
Þegar litið er til alls framanritaðs og einnig til vættis vitnanna L og M um hótelpantanir og hringingar konu, sem talaði íslensku með erlendum hreim, vegna tveggja væntanlegra kvenna 11. og 12. apríl sl., og þess sem áður er rakið að hringt var á þessum tíma úr síma ákærðu í tvö hótel hér á landi til að panta hótelherbergi fyrir tvær konur og síðan ítrekað spurst fyrir um þær, þykir fram komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærða hafi staðið að innflutningi á samtals 353,29 g af kókaíni sem framangreindar B og C fluttu til landsins 12. apríl sl. Er brot ákærðu rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru og verður hún því sakfelld eins og krafist er.
Ákæruliður 3.
Ákærða hefur játað sök samkvæmt þessum ákærulið. Þar sem játning hennar er í samræmi við gögn málsins telst sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem í þessum lið ákærunnar greinir. Verður ákærða því sakfelld eins og krafist er en brot hennar eru í ákæru rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæra dagsett 29. september 2009.
Ákæruliður 1 og 2.
Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um rannsókn málsins, dagsettri 9. september 2009, segir að rannsókn hafi hafist í lok nóvember 2008 þegar kannaðar voru ítrekaðar ábendingar um ætlað mansal, milligöngu um vændi og innflutning fíkniefna af hálfu ákærðu. Þann 1. desember sama ár hefði fengist heimild til að fá aðgang að upplýsingum um símanotkun og bankanotkun ákærðu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 1. desember 2009. Af þeim gögnum, sem þannig var aflað, hefði mátt sjá að millifærslur inn á bankareikning ákærðu þörfnuðust frekari rannsóknar. Hefði verið talið um að ræða millifærslur frá kaupendum vændisþjónustu til ákærðu. Þá hefði mátt sjá í símum ákærðu að mikill fjöldi innhringinga var úr símanúmerum, sem karlmenn voru skráðir fyrir. Frekari úttekt á fjármálum ákærðu hefði sýnt neikvæða fjárhagsstöðu ákærðu.
Þann 23. desember 2008 kærði Q árás sem á að hafa átt sér stað 1. september að [...] í Reykjavík. Kemur fram í skýrslunni að hún hafi verið þar ásamt R, F og S. Q hefði lýst atvikum þannig að hún hefði legið sofandi í sófa þegar hún hefði verið slegin á hægri kinn af karlmanni, en hún hefði verið barnshafandi þegar þetta var. Hún hefði staðið upp eftir höggið og rekið kviðinn í borðbrún. S hefði kallað að Q væri barnshafandi og hefði hún verið látin í friði eftir það. Þrír karlmenn hefðu ráðist inn í húsið umrætt sinn og tekið vegabréf og peninga en þegar þeir voru farnir, hefðu þær farið á lögreglustöð og tilkynnt atvikið. Kvaðst Q síðan hafa fengið háan hita og farið á sjúkrahús þar sem hún hefði misst fóstur.
E, frænka ákærðu, hefði gefið skýrslu hjá lögreglu að eigin frumkvæði þann 17. febrúar 2009. Hefði hún lýst því að hún hefði búið á [...] í Hafnarfirði og verið þræll ákærðu og hefðu fleiri verið í sömu stöðu. Kvaðst hún þekkja eina konu, sem ákærða þvingaði til að vinna en vinnan fælist í að stunda kynlíf gegn greiðslu en fá ekki sjálf peningana fyrir það. Kom fram hjá E að ákærða væri kölluð [...].
E kvað ákærðu hafa boðið sér til Íslands í frí þar sem hún hefði átt erfitt heima fyrir í Frakklandi vegna hjónabandserfiðleika. Í fyrstu hefði virst sem um frí væri að ræða en síðan hefði ákærða viljað fá að taka nektarmyndir af henni. Ákærða hefði sagst vera í peningavandræðum og vegna tengsla þeirra gæti E hjálpað sér við að afla fjár. Hefði ákærða síðan farið með E að hitta konu að nafni [...], sem ákærða hefði sagt að sæi um peningana. Þarna hefði E verið ljóst að um vændi væri að ræða. Þegar hún hefði neitað að stunda vændi fyrir ákærðu, hefði ákærða brjálast og tekið föt hennar og vegabréf.
E hefði sagt frá því að ákærða hefði komist að því að einhverjar stúlkur hefðu stundað vændi á eigin vegum og hefði ákærða tekið því mjög illa og sent menn til þeirra á [...] sem hefðu barið stúlkurnar. Ein þeirra hefði misst fóstur vegna þessa. Þá kom fram að tilgreindur karlmaður hefði séð stúlkunum, sem unnu fyrir ákærðu, fyrir kókaíni auk þess sem ákærði Finnur hefði unnið mikið fyrir ákærðu.
Í lögregluskýrslunni tilgreindi E nöfn þeirra stúlkna, sem unnu fyrir ákærðu. Þá kvað hún vændisþjónustuna kosta 25.000 krónur á tímann en auk þess þyrftu menn að borga leigubíl ef stúlkurnar þyrftu að fara til viðskiptavinanna. Kvaðst hún fyrst hafa unnið fyrir ákærðu í Fögruhlíð 1 í Hafnarfirði en síðar hefði starfsemin færst á Hverfisgötu [...] í Reykjavík.
Samkvæmt lögregluskýrslunni kom ákærða til Íslands frá Kaupmannahöfn þann 19. febrúar 2009 og vegna fyrirliggjandi upplýsinga um ætlaðan fíkniefnainnflutning og handtöku annars manns, hefði hún þá verið handtekin. Húsleit hafi verið gerð á heimili ákærðu þann 20. sama mánaðar og hefði verið lagt hald á skilríki E og S auk ýmissa annarra gagna. Þá hefðu við leitina einnig fundist farmiðar fjögurra kvenna. Við athugun hjá Icelandair og Iceland Express hefði komið í ljós að ein þeirra kvenna kom aldrei til landsins þótt hún hefði átt bókað flug 11. desember 2008. Í öllum fjórum bókunum hefði verið tilgreint símanúmer og/eða netfang ákærðu. Ákærða var þann 21. febrúar sl. úrskurðuð í gæsluvarðhald til 27. sama mánaðar.
F gaf skýrslu hjá lögreglu 23. febrúar sl. og lýsti því að frænka hennar, R, hefði boðið sér til Íslands til að vinna. Þegar hún hefði komið til landsins hefði hún áttað sig á að vinnan snerist um vændi. Stúlkurnar hefðu búið á [...] ásamt S, sem hefði unnið til skiptis fyrir ákærðu og R. Ákærða hefði verið mjög ósátt við það og hótað stúlkunum. Kvöld eitt hefði karlmaður hringt í þær og sagst vera viðskiptavinur og hefði því verið opnað fyrir honum. Inn hefðu komið þrír karlmenn sem hefðu lagt íbúðina í rúst og tekið tölvu, síma vegabréf og spænsk dvalarleyfi. Stúlkurnar hefðu í kjölfarið fengið inni í Kvennaathvarfinu og þá hefði ákærða hringt og haft í hótunum við hana. Kemur fram í skýrslunni að samkvæmt símagögnum liggi fyrir að úr símanúmeri, sem ákærða notaði á þessum tíma, hafi verið hringt í síma Kvennaathvarfsins þann 8. september 2008 kl. 11:30. Fullyrti F að ákærða hefði flutt inn konur til Íslands til að stunda vændi og nafngreindi nokkrar.
Þann 24. febrúar sl. var ákærði Finnur handtekinn á heimili sínu. Hann kvaðst hafa talið að allar stúlkurnar stunduðu vændi fyrir ákærðu en með þeirra vilja og sagt þær halda þeim peningum, sem þær ynnu fyrir. Þá hefði hann talið þær vera frjálsar ferða sinna og að þær gætu farið af landi brott þegar þær vildu.
Ákærða Catalina var yfirheyrð 25. febrúar sl. og kannaðist þá hvorki við heimilisföngin Fagrahlíð 1 og Hringbraut 25 í Hafnarfirði en kvaðst hafa leigt húsnæði að Hverfisgötu [...] og Rauðarárstíg [...] í Reykjavík fyrir vini sína að gista í. Kemur fram í rannsóknarskýrslunni að hún hafi þó að lokum sagst hafa áður verið með Fögruhlíð 1 og Hringbraut 25 í Hafnarfirði á leigu fyrir vini sína.
Ákærða kannaðist við að stunda sjálf vændi og færi hún þá með viðskiptavini sína á heimili sitt að Akurvöllum 1 í Hafnarfirði. Kvaðst hún hafa um 200.000 krónur í tekjur af vændinu á dag. Kvað hún stúlkurnar, sem kæmu hingað til lands og gistu í húsum á hennar vegum, vinna úti um allan heim sem vændiskonur. Hins vegar neitaði hún því að hún beitti þær þvingunum eða hótunum eða tæki vegabréf þeirra af þeim. Þá hefði hún ekki sent menn á [...] til að beita stúlkurnar ofbeldi.
Ákærða kvað rangar ávirðingar E um hótanir og að ákærða hefði þvingað hana til að vinna og þá kannaðist ákærða ekki við að hún hefði stundað vændi fyrir ákærðu. Ákærða kannaðist við F en kvað rangan framburð hennar um að hún hefði stundað vændi fyrir ákærðu án þess að fá fyrir það peninga. Hins vegar kannaðist ákærða við að F stundaði vændi en ákærða hefði sjálf enga peninga fengið fyrir það. Loks kannaðist ákærða ekki við að hafa séð um að setja vændisauglýsingar fyrir F inn á netið og neitaði því jafnframt að hafa hringt í hana þar sem hún var í Kvennaathvarfinu enda hefði ákærða hafa verið meðvitundarlaus á sjúkrahúsi eftir fegrunaraðgerð á þeim tíma.
Þann 26. febrúar sl. var gæsluvarðhaldskröfu á hendur ákærða Finni hafnað í héraðsdómi en í kjölfar þess óskaði ákærði eftir að gefa skýrslu. Kvað hann ákærðu hafa í nokkur ár flutt konur til landsins og látið þær stunda vændi fyrir sig en ákærða tæki allan hagnaðinn sjálf. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi haft eftir stúlkunum, sem unnu fyrir ákærðu, að prósenta ákærðu af innkomunni væri nokkuð há. Samkvæmt verðskrá kostuðu munnmök 15.000 krónur, kynlíf auk munnmaka kostuðu 20.000 krónur, endaþarmsmök kostuðu 30.000 krónur og svonefnt „heimakynlíf“, þ.e. þegar stúlkan færi heim til viðskiptavinarins, kostaði 40.000 til 45.000 krónur að viðbættum leigubifreiðakostnaði. Lýsti ákærði því að þegar hann spurði eina kvennanna hvers vegna hún lækkaði ekki verðið þegar lítið væri að gera, hefði konan svarað á þann veg að það gæti hún ekki gert af því að ákærða stjórnaði þessu að öllu leyti.
Sama dag var gerð húsleit á Vesturgötu 55 vegna gruns um að þar byggju konur, sem stunduðu vændi á vegum ákærðu. Hefði lögregla rætt við tvær af konunum þar inni og hefði önnur þeirra neitað því að stunda vændi á Íslandi en hin hefði sagst hafa komið til Íslands 8. febrúar sl. og stundað hér vændi síðan af fúsum og frjálsum vilja.
Við yfirheyrslu 27. febrúar sl. hefði ákærða Catalina aðspurð um ýmsa farmiða kvenna til Íslands, sem fundust á heimili hennar, sagt að hún hefði keypt miða fyrir ýmsar vinkonur sínar sem bjuggu á Rauðarárstíg. Þá kvaðst hún hafa um það bil 200.000 króna tekjur á dag af vændi og hefði um 12.000.000 krónur í tekjur á mánuði. Þegar henni var bent á að 200.000 krónur á dag í 30 daga gerði 6.000.000 krónur en ekki 12.000.000 krónur, neitaði hún því að misræmið væri til komið vegna þess að hún tæki peninga frá öðrum konum, sem stunduðu vændi.
Þann 30. apríl sl. var ákærða handtekin í þágu rannsóknar málsins og var jafnframt framkvæmd húsleit á heimili hennar. Tekin var af henni skýrsla sama dag og jafnframt var hún úrskurðuð í gæsluvarðhald til 12. maí sl. Þann 7. maí var ákærða yfirheyrð og neitaði hún þá að hafa hótað tveimur konum. Þá lýsti hún því að hún væri „blönk“ og hefði framfærslu af eigin vændisstarfsemi. Við skýrslutöku 12. sama mánaðar neitaði ákærða að hafa haft milligöngu um vændi tiltekinna kvenna.
Í skýrslutöku 26. júlí sl. ítrekaði ákærða fyrri neitun sína á því að hafa hringt í Kvennaathvarfið eftir að þangað leituðu konur, sem sökuðu hana um að hafa sent ofbeldismenn á þær á [...]. Við skoðun á símanúmeri, sem ákærða átti og notaði, hefði hins vegar mátt sjá að hringt var úr númerinu í Kvennaathvarfið 8. september 2008 kl. 11:30. Ákærða kvað þetta ekki geta verið þar sem hún hefði þá verið ófær um að hringja enda meðvitundarlaus eftir fegrunaraðgerð.
Aðspurð um persónuskilríki tveggja kvenna, sem fundust heima hjá henni við húsleit, kvaðst ákærða hafa geymt skilríki annarrar konunnar, sem væri frænka hennar, en hin konan hefði búið hjá sér og skilið skilríki sín eftir.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglunnar frá 18. ágúst sl. kemur fram, að lögregla hafi leitað upplýsinga hjá D3, sem stendur að vefsíðunni einkamal.is. Hafi komið fram að um 2000 auglýsingar hefðu verð fjarlægðar af vefnum vegna gruns um að þær tengdust vændi. Þá kom í ljós að fundist hefðu 29 auglýsingar þar sem notað var eitthvert af þeim póstföngum sem annars vegar ákærði Finnur gaf upp eða hins vegar fundust á miðum og bókum á heimili ákærðu Catalinu. Enn fremur er það niðurstaða lögreglu að megnið af 101 auglýsingu tengist ákærðu og ætlaðri vændisstarfsemi hennar. Loks segir að við athugun á IP-tölum á þeim tölvum, sem gerðu auglýsingarnar, hafi IP-tala ákærða Finns komið þar fyrir 155 sinnum á tímabilinu 15. janúar til 22. febrúar 2009. Ákærða Catalina hefði hins vegar verið skráð fyrir 6 IP-tölum.
Verður nú rakinn framburður ákærðu Catalinu Miku Ncogo og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærða hefur neitað sök samkvæmt þessum liðum ákærunnar. Hún kvað frásagnir tilgreindra kvenna vera lygi, þær væru allar vændiskonur sem komið hafi hingað á eigin vegum og stundað hér vændi. Ákærða kvaðst ekki hafa haft tekjur af vændi þeirra. Ákærða kvaðst engar kvennanna þekkja nema E, frænku sína, en henni kvaðst ákærða hafa boðið til Íslands vegna þess að hún átti í hjónabandserfiðleikum
Ákærða kvaðst hafa hýst E að Fögruhlíð 1 þar sem hún hefði ekki treyst sér til þess að hafa hana heima hjá sér vegna þess að E skemmti sér og drakk mjög mikið. Hún hefði því gert tveggja mánaða leigusamning fyrir hana að Fögruhlíð 1 en síðan leigt fyrir hana húsnæði við Hringbraut í Hafnarfirði. E hefði haldið uppteknum hætti og því hefði ákærða að lokum þurft að vísa henni á dyr. E hefði stundað vændi á eigin vegum en aldrei fyrir ákærðu. Ákærða kvaðst aldrei hafa tekið af henni föt og skilríki en hún hefði hins vegar keypt á hana öll hennar föt. Öll skilríki E hefði hún geymt fyrir hana þar sem hún var gestur á heimili hennar. Aðspurð kvaðst ákærða einnig hafa geymt skilríki S, vinkonu sinnar, sem einnig hefði búið á heimili hennar.
Aðspurð um íbúðir, sem hún hefði haft til umráða, kvaðst ákærða hafa leigt íbúðirnar við Fögruhlíð og Hverfisgötu fyrir vinkonur sínar því þær gátu ekki sjálfar tekið húsnæði á leigu vegna þess að þær þekktu ekki íslenska kerfið. Síðan hefðu þær greitt henni fyrir íbúðirnar. Ákærða kannaðist við að hafa leigt íbúðirnar við Fögruhlíð og Hringbraut fyrir E. Húsnæðið að Hverfisgötu [...] hefði hún leigt fyrir æskuvinkonur sínar sem hefði vantað íverustað. Húsnæðið á Rauðarárstíg [...] hefði hún hins vegar leigt fyrir vini sína yfir jólin þar sem hún hefði ekki haft rúm fyrir þá heima hjá sér. Aðspurð neitaði ákærða því að hafa grætt á íbúðunum.
Þegar bornir voru undir ákærðu farmiðar með nöfnum [...] og [...], sem fundust við húsleit á heimili hennar, kvaðst hún hafa lánað þessum vinkonum sínum fyrir flugmiðum til landsins. Þær hefðu endurgreitt henni síðar en hún hefði ekkert grætt á þessu. Kvað hún rangt að hún hefði flutt konur til Íslands til að stunda vændi enda ferðaðist hún mikið og hefði ekki tíma til að standa í innflutningi á fólki. Neitaði ákærða því að framangreint húsnæði tengdist vændi og mansali en hins vegar hefðu konurnar, sem væru vændiskonur, komið hingað til að stunda vændi og hefðu gert það.
Þær F, G og E hefðu ekki verið að vinna fyrir ákærðu, þær væru enn á Íslandi og stunduðu vændi á eigin vegum. Sjálf væri hún vændiskona og hefði hún eigin viðskiptavini sem hún kæmist í samband við á vefsíðunni einkamal.is. Ákærða neitaði að hafa tekið myndir af F, G og E til að auglýsa þjónustu þeirra á vefsíðunni einkamal.is. Ákærða kvaðst hafa átt samskipti við stúlkurnar og þannig hefði ákærði Finnur kynnst þeim en hann hefði tekið af þeim myndir til að setja á internetið. Sérstaklega aðspurð um hvernig stæði á því að hún segðist nú hafa umgengist stúlkurnar þrátt fyrir að hún hefði fyrr í þessari skýrslu fyrir dóminum borið á þann veg að hún þekkti engar af stúlkunum nema E, kvaðst ákærða hafa átt við að hún hefði engar þeirra flutt til landsins nema E.
Aðspurð um rannsókn lögreglu á fjármálum hennar, sem leiddi í ljós að á tímabilinu janúar 2008 til febrúar 2009 var mjög mikill munur á uppgefnum tekjum ákærðu og útgjöldum hennar, kvað ákærða mikla veltu vera í vændisstarfsemi hennar sjálfrar. Hún ferðist mikið og eyði miklu. Hins vegar gefi hún tekjur sínar af vændi ekki upp til skatts.
Vitnið, E, kvaðst vera frænka ákærðu Catalinu. Hún hefði komið til Íslands í júlí eða ágúst 2008 og hefði ákærða sagt henni að þetta yrði eins og að fara í frí. Hefði ákærða aldrei talað um hvað vitnið ætti að gera en boðið henni að koma til Íslands og jafnframt greitt fyrir farmiða vitnisins. Í fyrstu hefði dvölin verið eins og frí og hefði vitnið gist heima hjá ákærðu að Akurvöllum. Síðan hefði ákærða sagt að vitnið ætti að flytja til annarrar stelpu að Fögruhlíð 1 og gefið þá skýringu að vitnið ætti að byrja vinna fyrir sig. Stúlkan í Fögruhlíð 1 hefði sagt henni að vinnan fælist í því að hún ætti að stunda kynlíf með mönnum gegn greiðslu. Hefði vitninu þótt þetta hræðilegt og sagt ákærðu að hún ætlaði ekki að gera þetta. Þá hefði ákærða orðið öskureið og tekið föt vitnisins, pappíra og vegabréf, og hótað að meiða hana ef hún hlýddi ekki. Vitnið kvaðst hafa orðið hrædd enda hefði hún verið algjörlega ókunnug hér á landi.
Vitnið kvað viðskiptavinina aldrei hafa haft samband beint við sig heldur alltaf hringt í ákærðu sem síðan hefði hringt í vitnið og sagt að viðkomandi viðskiptavinur væri við dyrnar. Þá hefði vitnið hleypt viðskiptavininum inn en hún hefði verið með um það bil sex viðskiptavini á dag en fleiri um helgar. Hefði greiðsla fyrir hvert skipti numið 20.000 til 25.000 krónum og hefði vitnið fengið helming greiðslnanna í sinn hlut en ákærða hefði fengið hinn helminginn. Hefði hún sent einhverja peninga til móður sinnar í Gíneu en sumt hefði hún notað sjálf. Vitnið kvaðst hafa tekið við greiðslum af viðskiptavinunum en síðan hefði ákærða komið til þess að ná í peningana. Stundum hefði ákærða komið sama dag en stundum nokkrum dögum og allt að viku síðar í þessum erindagjörðum.
Vitnið kvaðst hafa verið í þrjá mánuði í Fögruhlíð en síðan hefði ákærða fært hana á Hringbraut í Hafnarfirði þar sem hún hefði haldið áfram að stunda vændi fyrir ákærðu. Kvaðst hún oft hafa sagt ákærðu að hún vildi hætta þessari vinnu en ákærða hefði ekki leyft það. Kvaðst vitnið hafa reynt að sleppa en þá hefði ákærða tekið af henni fötin og vegabréfið og vitnið því ekki komist í burtu. Vitninu hefði síðan tekist að flýja þaðan eftir að hún kynntist kærasta sínu. Aðspurð kvaðst vitnið hafa þurft að nota fíkniefni og áfengi til að lifa þetta af og hefði kærasti ákærðu, J, séð henni fyrir efnum. Síðan hefði vitnið hætt í vændinu því hún gat ekki meir. Á sama tíma og vitnið var í vændi fyrir ákærðu hefði einungis ein önnur unnið fyrir hana. Síðan hefðu fleiri stúlkur farið að stunda vændi fyrir ákærðu.
Aðspurð kvaðst vitnið hafa verið hrædd við ákærðu enda hefði hún séð hvað ákærða gerði við hinar stelpurnar þegar hún sendi menn til að berja þær. Hún hefði heyrt þegar einhverjir strákar töluðu við ákærðu og ákærða hefði margsagt já í símann og síðan útskýrt að hún hefði sent þessa menn til þess að lemja stúlkurnar. Ástæðan hefði verið sú að stúlkurnar hefðu ekki viljað vinna fyrir ákærðu. Kvað vitnið S hafa unnið fyrir ákærðu áður en síðan sloppið og ekki viljað vinna fyrir ákærðu framar.
Vitnið kvað vændið hafa verið auglýst þannig að ákærða tók af henni myndir og lét ákærða Finn síðan setja þær inn á vefsíðuna einkamal.is. Hins vegar hefði ákærði ekki séð um samskiptin við viðskiptavinina heldur hefði ákærða alltaf séð um þau sjálf.
Vitnið kvaðst hafa gefið skýrslu hjá lögreglu sjálfviljug þar sem hún hefði talið að það væri eina leið hennar til að frelsast undan þessu öllu. Aðspurð kvað vitnið ákærðu hafa bannað stúlkunum að eiga vini og kærasta og þá hefðu þær átt að hlýða ákærðu og veita viðskiptavinunum ánægju. Stúlkurnar hefðu átt frí á föstudögum og laugardögum. Þá hefði ákærða sótt þær og farið með þær í borgina að skemmta sér. Ákærða hefði sagt vitninu að fara með þá karlmenn, sem hún hitti í borginni, heim og selja þeim vændi. Hins vegar kvað vitnið sér ekki hafa komið til hugar að leita til lögreglu þegar hún var að skemmta sér, því þá hefði ákærða látið berja hana.
Aðspurð um það sem hún sagði í skýrslutöku hjá lögreglu um að ákærði Finnur hefði stjórnað stúlkunum þegar ákærða væri ekki við, kvað vitnið hann einungis hafa opnað vefsíðuna einkamal.is en aldrei ákveðið hvert stúlkurnar færu og þá hefði hann aldrei tekið við peningum. Þá hefði ákærði ekki tekið myndir af vitninu.
Vitnið kvað J, kærasta ákærðu, hafa afhent henni vegabréfið á síðasta ári en önnur skilríki hefði hún enn ekki fengið.
Aðspurð um líðan sína meðan á vændinu stóð, kvaðst vitnið ekki hafa fundið neitt, hún hefði ekki átt neitt líf. Núna liði henni aðeins betur en áður. Hún kvaðst engar tilfinningar bera lengur gagnvart ákærðu enda hefði ákærða komið illa fram við hana. Vitnið kvaðst ekki hafa stundað vændi áður en hún komið hingað til lands og hún ynni ekki lengur við það.
Þegar borið var undir vitnið vætti hennar í lögregluskýrslu 17. febrúar sl. um að hún hefði stundað vændi á eigin vegum og notað til þess vefsíðurnar einkamal.is og privat.is eftir að hún slapp frá ákærðu, kvaðst hún í félagi við nokkrar vinkonur sínar hafa byrjað sitt eigið „prógram“, sem hefði falist í því að þær nudduðu fólk. Hún hefði hins vegar ekki haldið áfram að stunda vændi. Síðar í skýrslu sinni fyrir dóminum kannaðist hún hins vegar við að hafa stundað vændi á eigin vegum eftir að hún losnaði frá ákærðu.
Vitnið, F, kvaðst hafa komið til Íslands árið 2007 vegna þess að frænka hennar, R, sem hafði búið hér í mörg ár, bauð henni að koma og vinna hér í fiski. Hefði vitnið búið á Vesturgötu til að byrja með en síðan flutt til T, frænku sinnar, í Síðumúla en kynnst ákærðu Catalinu á Kaffi Rex og farið að stunda vændi fyrir hana þar sem hana vantaði peninga. Vitnið hefði búið hjá T, frænku sinni í Síðumúla.
Ákærða hefði stjórnað vændinu og séð um að selja kynlífsþjónustu stúlknanna. Vændið hefði vitnið stundað að Hverfisgötu [...] og þar hefði hún einnig búið. Viðskiptin hefðu farið þannig fram að viðskiptavinurinn hringdi og kom og valdi sér stúlku. Hefði vitnið stundum sinnt sex til sjö viðskiptavinum á dag og hefði verðið verið 20.000 krónur fyrir skiptið. Vitnið kvaðst hafa þénað meira en milljón þennan mánuð sem hún vann fyrir ákærðu á árinu 2008. Stúlkurnar hefðu sjálfar tekið við greiðslum viðskiptavinanna fyrir ákærðu, sem hefði síðan tekið peningana og skipt þeim í tvennt. Kvaðst vitnið sjálft hafa tekið við greiðslum hjá viðskiptavinum sínum og hefði hún síðan afhent ákærðu peningana. Afhending peninganna til ákærðu hefði farið fram mörgum sinnum á dag. Hefði ákærða tekið 10.000 krónur í sinn hlut en vitnið haldið eftir helmingnum. Ákærða hefði greitt húsaleiguna en sagt að 10% af vinnulaununum færu í leigu. Stúlkurnar hefðu sjálfar séð um að greiða fyrir mat sinn.
Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa verið neydd til að stunda vændi heldur hefði hún gert það af fúsum og frjálsum vilja. Áður en vitnið fór að vinna fyrir ákærðu, hefði hún stundað vændi á eigin vegum á [...]. Ákærða hefði ekki viljað að vitnið stundaði vændi á eigin vegum og hefði hún einu sinni sent þrjá menn til að ræna hana og aðrar stúlkur, sem voru með henni á Laugaveginum. Hefðu mennirnir borið stúlkunum kveðju frá ákærðu þegar þeir hurfu á braut. Flestar stúlkurnar hefðu síðan flúið land af hræðslu við ákærðu. Vitnið kvað ákærðu hafa flutt inn stúlkur til að stunda vændi í byrjun síðasta árs og hefði vitninu verið sagt að stúlkurnar byggju í Hafnarfirði.
Vitnið kvaðst ekki hafa stundað vændi fyrr en hún kom hingað til lands. Þá kvaðst hún enn stunda vændi hér á landi. Útskýrði hún muninn á því að stunda vændi fyrir ákærðu annars vegar og hins vegar fyrir sjálfa sig, á þann veg að í seinna tilvikinu nyti hún allra peninganna sjálf. Þá kvað hún þær T, E og G hafa stundað vændi allt sitt líf og hefði E haldið því áfram eftir að hún hætti að vinna fyrir ákærðu.
Aðspurð um tilfinningar sínar í garð ákærðu Catalinu, sagðist vitnið engar tilfinningar bera til hennar.
Vitnið G kvaðst hafa búið á Spáni í níu ár og stundað þar vinnu við þrif en þar áður starfað sem þjónustustúlka í Nýju-Gíneu. Hún hefði aldrei starfað sem vændiskona á Spáni enda hefði hún þar verið gift kona með barn. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hvort hinar stúlkurnar hefðu stundað vændi áður en þær komu hingað til lands.
Vitnið kvaðst hafa hringt í ákærðu Catalinu, gamla vinkonu sína, og sagt henni að hún væri búin að missa vinnuna. Hún hefði síðan komið til Íslands 8. febrúar 2009 til þess að vinna með ákærðu Catalinu en hún hefði sagt vitninu að hún stundaði einhvers konar viðskipti sem hún lýsti ekki alveg hver væru. Hefði vitnið ekki haft hugmynd um hvers konar viðskipti var um að ræða en hefði áttað sig á því þegar hún var komin til landsins. Ákærða hefði ekki beint neytt vitnið til þess að stunda vændi en þetta hefði þó ekki verið það sem samið var um þeirra í milli. Vitnið hefði hins vegar látið tilleiðast fyrst hún var búin að fara alla þessa leið til þess að fá vinnu og þar sem hún átti dóttur sem hún þyrfti að sjá fyrir. Hefði hún greitt farseðil sinn sjálf en ákærða tekið á móti henni. Á Hverfisgötu hefði vitnið dvalið í tvo daga en síðan flutt í húsnæði á vegum ákærðu að Rauðarárstíg [...]. Strax daginn eftir komuna til landsins hefði ákærða sagt vitninu að mála sig og síðan hefði hún stundað kynlíf með einum viðskiptavini í klukkustund en í kjölfarið hefði lögreglu borið þar að.
Fyrir kynlífið hefðu verið greiddar 20.000 krónur. Vitnið kvað viðskiptavinina hafa greitt fyrir vændið með reiðufé og í fyrstu hefðu þeir greitt ákærðu. Ákærða hefði fengið helming greiðslunnar í sinn hlut en vitnið haldið hinum helmingnum. Vitnið kvaðst hafa haft fáa viðskiptavini til að byrja með en síðan hefði fjöldinn verið misjafn. Hefði hún ekki þénað mikið á vændinu hjá ákærðu.
Ákærða hefði látið vitnið hafa síma svo viðskiptavinirnir gætu náð í hana. Vændisþjónustan hefði verið auglýst á einkamal.is og hefði J, kærasti ákærðu, séð um að setja inn fyrstu auglýsinguna. Ákærða hefði tekið af vitninu nektarmyndir þannig að hún var einungis í litlum bol en ákærða sagði henni að sýna brjóstin. Kvaðst vitnið hafa unnið við vændi fyrir ákærðu í þrjár vikur í íbúðinni á Rauðarárstíg en sagði henni síðan að hún vildi ekki vinna fyrir ákærðu lengur heldur vildi hún vinna fyrir sjálfa sig. Ákærða hefði brugðist illa við þessu og vildi fá símana sína aftur. Þá hefði ákærða hótað stúlkunum að hún myndi senda til þeirra morðingja. Hefði vitnið orðið mjög hrædd og talað við lögregluna daginn eftir.
Vitnið kvað stúlkur að nafni U, T, V og W hafa unnið við vændi fyrir ákærðu á sama tíma og vitnið. Hefði T átt að sjá um peningamálin fyrir ákærðu þegar ákærða væri í burtu. Vitnið kvað ákærðu hafa sagt sér að fá vinkonur sínar frá Spáni til að koma hingað en vitnið kvaðst hafa ráðið þeim frá því.
Vitnið kvaðst hafa haldið áfram að vinna við vændi eftir að hún hætti að vinna fyrir ákærðu Catalinu enda þyrfti hún að vinna fyrir dóttur sinni. Kvaðst vitnið vera ein í vændisstarfsemi sinni.
Aðspurð um tilfinningar sínar í garð ákærðu, kvaðst vitnið ekki bera gremju í garð hennar en vildi að hún léti sig í friði.
Vitnið Q kvaðst hafa komið til Íslands til þess að heimsækja R, vinkonu sína, 25. ágúst 2008. Hún kvaðst hafa kynnst ákærðu Catalinu hér á landi en það eina sem hún vissi um hana væri það sem laut að vitninu. Ákærða hefði sent menn á Laugaveg til að meiða Su, vinkonu hennar. Mennirnir hefðu spurt um móður S og síðan hefðu þeir lamið allar stúlkurnar. Kvaðst vitnið hafa misst barnið, sem hún gekk með. Mennirnir hefðu tekið öll vegabréfin, tölvu og fleiri muni. Þegar mennirnir hefðu farið hefðu þeir sagt að ákærða Catalina bæði að heilsa. Kvað vitnið þessa árás hafa verið vegna þess að eitthvað kom upp á milli Cynthiu og ákærðu Catalinu. Vitnið kvaðst hafa borgað ákærðu 50.000 krónur fyrir að fá vegabréfið sitt aftur en ákærða hefði þó ekki skilað því og vitnið því fengið sér nýtt.
Vitnið kvaðst aldrei hafa stundað vændi fyrir ákærðu Catalinu og hefði ákærða ekki reynt að fá hana til þess.
Ákærði Finnur Bergmannsson kvað margt ekki rétt sem hann bar um í skýrslu sinni hjá lögreglu 26. febrúar 2009. Hefði hann verið í áfalli vegna þess að hann hefði á þeim tíma legið undir grun um stórfellt fíkniefnalagabrot. Hann taldi ákærðu og konurnar, sem dvöldu á Hverfisgötu [...], vera vinkonur og hefði hann talið að þær stunduðu vændi á eigin vegum. Hefði hann aldrei heyrt konurnar segja að þær væru að vinna fyrir ákærðu Catalinu. Fyrirkomulagið hefði verið þannig að þegar viðskiptavinur færi með einni kvennanna, tæki önnur kona við peningunum og geymdi þá á meðan. Kvaðst ákærði ekki vita til þess að konurnar inntu af hendi greiðslur til ákærðu Catalinu. Hins vegar vissi hann að ákærða hefði tekið húsnæðið á leigu og því hlytu þær að þurfa að greiða henni eitthvað þótt hann vissi í raun ekkert um það. Aðspurður kvaðst ákærði einu sinni hafa sofið hjá ákærðu Catalinu í byrjun árs 2008 og hefði hann greitt fyrir það 20.000 krónur.
K rannsóknarlögreglumaður kvað niðurstöðu rannsóknar á fjórum flugmiðum, sem fundust við húsleit hjá ákærðu Catalinu, hafa leitt í ljós að kaup á miðunum tengdust henni í gegnum símanúmer eða netföng hennar, þannig að sá, sem bókaði flugmiðana, gaf upp númer í eigu hennar. Ákærða hafði í nokkur skipti notað eigið greiðslukort til að kaupa miða fyrir aðra en sjálfa sig.
X rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu um húsnæði, sem talið var tengjast ákærðu Catalinu. Þykir ekki ástæða til að rekja vætti hans frekar.
Y lögreglumaður staðfesti skýrslu sína um greiningu á fjármálum ákærðu Catalinu. Gögnin sýna opinbera tekjuskráningu ákærðu annars vegar og samantekt á staðfestum úttektum ákærðu með greiðslukortum, í greiðsluþjónustu og slíku á tilteknu tímabili. Útgjöld ákærðu hefðu reynst töluvert meiri en opinberar og skráðar tekjur hennar á sama tímabili. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við peningatilfærslur milli ákærðu og hinna kvennanna.
Niðurstaða.
Vitnin E, F og G hafa allar borið á þann veg, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dóminum, að þær hafi stundað vændi fyrir ákærðu. Er vætti þeirra í meginatriðum samhljóða um það, hvað hafi verið greitt fyrir vændið og hvernig greiðslum var skipt milli þeirra og ákærðu. Er það mat dómsins að vætti vitnanna sé trúverðugt að þessu leyti.
Þá liggur fyrir vætti ákærða Finns hjá lögreglu 26. febrúar sl. um að ákærða hafi í einhver ár flutt til landsins konur og látið þær vinna fyrir sig í vændi og að konurnar hafi látið ákærðu hafa greiðslurnar fyrir það. Gerði hann jafnframt ítarlega grein fyrir verðskrá fyrir vændið. Ákærði Finnur dró umtalsvert í land í vætti sínu hér fyrir dóminum og kvaðst þá ekki vita til þess að konurnar inntu af hendi greiðslur til ákærðu Catalinu. Gaf hann þá skýringu á breyttum framburði sínum, að hann hefði verið í miklu áfalli við skýrslutökuna vegna ávirðinga um stórfellt fíkniefnabrot. Þegar litið er til þess að samkvæmt gögnum málsins var honum í upphafi skýrslutökunnar bent á að sakarefnið væri mansal og milliganga um vændi og að þennan framburð sinn gaf ákærði Finnur að eigin frumkvæði tveimur dögum eftir að hann var handtekinn, er það mat dómsins að breyttur framburður hans sé ótrúverðugur.
Þá þykja rannsóknargögn málsins um fjárhagsmálefni ákærðu, sem sýna mikinn mun á opinberum tekjum hennar annars vegar og útgjöldum hennar hins vegar, renna frekari stoðum undir vætti framangreindra vitna um vændisstarfsemi ákærðu. Þá ber hér einnig að líta til þess, sem fram er komið í rannsóknargögnum, og er jafnframt óumdeilt, að ákærða hafði á umræddum tíma umráð yfir húsnæði á fjórum stöðum, bæði í Hafnarfirði og Reykjavík, til viðbótar íbúðinni, sem hún býr í að Akurvöllum 1 í Hafnarfirði. Ákærða hefur neitað því að umræddar íbúðir hafi hún tekið á leigu til að reka þar vændisþjónustu en dómurinn metur ótrúverðugar þær skýringar ákærðu, að hún hafi leigt íbúðirnar til þess að hafa þær til reiðu fyrir vinkonur sínar og gesti.
Að þessu virtu og með vísan til vættis framangreindra vitna þykir sannað að ákærða hafi á greindu tímabili haft viðurværi sitt af vændi þeirra kvenna, sem nafngreindar eru í ákæru, og haft milligöngu um að fjöldi manna hefði samræði eða önnur kynferðismök við þær gegn greiðslu eins og nánar er rakið í ákæru. Með vætti vitnanna E og F er sannað að ákærða hafi einnig haft viðurværi sitt af vændi fleiri ónafngreindra kvenna eins og henni er jafnframt gefið að sök í ákærunni. Með vísan til vættis vitnanna E og G er sannað að ákærða lét taka myndir af konunum og auglýsti vændi þeirra opinberlega á vefsíðum með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Verður ákærða því sakfelld fyrir brot þau, sem henni eru gefin að sök í 2. ákærulið en brotin eru þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Eins og rakið er hér að framan er með vætti framangreindra vitna og rannsóknargögnum sannað að ákærða stundaði umfangsmikla vændisstarfssemi. Í ákærunni er ákærðu jafnframt gefið að sök mansal, hótanir og ólögmæt nauðung. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 segir að í skilgreiningu á mansali felist þrír meginþættir: Í fyrsta lagi verknaðurinn, þ.e. að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingum, í öðru lagi aðferðin, þ.e. með því að hóta valdbeitingu, beita valdi eða annars konar nauðung, brottnámi, svikum, blekkingum o.fl., og í þriðja lagi tilgangurinn, þ.e. að misnotkunin sé til hvers konar hagnýtingar. Kemur síðan fram að til þess að um mansal geti verið að ræða, verði allir þessir þrír þættir að vera til staðar.
Um það hvort ákærða hafi beitt E ólögmætum blekkingum og hótunum er ekki við annað að styðjast en framburði kvennanna tveggja. E hefur borið á þann veg að ákærða hafi beitt sig blekkingum til þess að fá sig til landsins til að stunda vændi fyrir hana en þessu hefur ákærða neitað og jafnframt sagt E hafa stundað vændi á eigin vegum eftir að hún kom til landsins. Þá bera þær ekki á einn veg um ástæðu þess að E flutti af heimili ákærðu að Akurvöllum 1 eftir að hafa dvalið þar fyrstu vikuna hér á landi. Ákærða kvað ástæðuna hafa verið mikla áfengis- og vímuefnaneyslu E en E kvað ákærðu hins vegar hafa flutt sig að Fögruhlíð 1 til þess að láta sig stunda vændi á vegum ákærðu.
Vætti E hefur ekki að öllu leyti verið skýrt og stöðugt. Þannig kannaðist hún við það í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði stundað vændi á eigin vegum eftir að hún hætti hjá ákærðu en fyrir dóminum kvaðst hún í upphafi ekki hafa gert það. Síðar í sömu skýrslutöku kvaðst hún hins vegar hafa unnið við að nudda fólk ásamt nokkrum vinkonum sínum og kannaðist loks við að hafa stundað vændi á eigin vegum eftir að hún fór frá ákærðu.
Þá bar vitnið á þá leið að ákærða hefði haldið henni nauðugri og hafi jafnframt bannað henni að eiga vini og kærasta. Allt að einu skýrði hún svo frá fyrir dóminum að hún hefði átt frí á föstudögum og laugardögum og þá hefði ákærða farið með hana og hinar stúlkurnar í bæinn að skemmta sér. Við skýrslutöku hjá lögreglu 17. febrúar sl. lýsti hún því þannig að þegar hún hefði verið farin að þreytast og líða illa hefði hún farið niður í bæ á kvöldin og nóttunni og þannig kynnst kærasta sínum. Verður ekki framhjá þessu misræmi litið við mat á trúverðugleika vitnisins um þessi atriði.
Lýsing E á því að ákærða hafi tekið af henni föt hennar og ferðaskilríki, fær að hluta til stuðning í rannsóknargögnum sem sýna að skilríkin fundust við húsleit á heimili ákærðu 30. apríl sl. Þá liggur jafnframt fyrir að ákærða greiddi farmiða E til landsins. Ákærða gaf þær skýringar að hún hefði boðið frænku sinni hingað til lands vegna þess að hin síðarnefnda átti í hjónabandserfiðleikum en E hefur sjálf lýst því að hún hafi átt við þess konar erfiðleika að etja á þessum tíma. Þá kvað ákærða skilríki E hafa verið í geymslu hjá sér.
Gegn eindreginni neitun ákærðu þykir ekki nægilegt til sönnunar að þessu leyti að ferðaskilríki E fundust við húsleit hjá ákærðu og að ákærða greiddi farmiða hennar og hýsti hana hér á landi. Að öllu framanrituðu virtu verður því ekki talið að uppfyllt séu skilyrði ákvæðis 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga um mansal, sem og 5. mgr. 206., 225. og 233. gr. laganna. Er ákærða samkvæmt þessu sýknuð af sakargiftum samkvæmt 1. lið ákæru 29. september 2009.
Ákæruliður 3.
Ákærði Finnur kvaðst í skýrslutöku hjá lögreglu 24. febrúar 2009 hafa tekið myndir af stúlkum fyrir ákærðu Catalinu svo hún ætti alltaf til nýlegar myndir af þeim til að nota á vefsíðunni einkamal.is. Hefði hann myndað stúlkur, sem bjuggu á Hverfisgötu [...], í þrjú eða fjögur skipti fyrir ákærðu. Í skýrslu rannsakara kemur fram að við húsleit á heimili ákærða hefðu fundist einhvers konar óundirritaðir vinnusamningar milli ákærðu Catalinu og ákærða þar sem lýst er vinnuframlagi ákærða og greiðslum fyrir það. Hafi vinnan aðallega falist í myndatökum af stúlkunum og umsjón með tölvumálum. Greiðslur hefðu átt að nema frá 16.000 krónum á viku til 120.000 króna á mánuði. Hafi komið skýrt fram að ákærða Catalina var verkkaupi en ákærði verktaki. Í lögregluskýrslu 26. febrúar sl. kvaðst ákærði tvisvar sinnum hafa þegið greiðslur frá ákærðu Catalinu vegna vinnu fyrir hana, annars vegar 20.000 krónur í desember 2008 og hins vegar 50.000 krónur í janúar 2009. Ákærða Catalina bar um það í lögregluskýrslu að ákærði Finnur væri vinur hennar sem aðstoðaði hana með ýmis tölvumál og fengi hann greitt fyrir það 60.000 krónur á viku.
Eins og áður er rakið, kemur fram rannsóknargögnum að lögregla hafi leitað upplýsinga hjá fyrirtækinu D3, sem standi að vefsíðunni einkamal.is, og hafi komið í ljós að hluti þeirra auglýsinga, sem taldar voru tengjast vændisstarfsemi ákærðu Catalinu, hafi tengst IP-tölum ákærða.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvaðst hafa kynnst ákærðu Catalinu gegnum vefsíðuna einkamal.is. Lýsti hann vinnu sinni fyrir ákærðu þannig að í desember 2008 hefði hann hjálpað ákærðu með ýmislegt í sambandi við tölvumál á heimili hennar. Í janúar sl. hefði hann sett upp fyrir hana „router“ á Hverfisgötu en annað hefði hann ekki unnið fyrir hana. Kvað hann ákærðu Catalinu hafa greitt sér 20.000 krónur fyrir tölvuaðstoðina í desember en 50.000 krónur fyrir tölvuvinnu á Hverfisgötu í janúar.
Aðspurður um ástæðu þess að lýsing hans hjá lögreglu væri mjög ólík framburði hans hér fyrir dóminum, kvaðst ákærði hafa verið í miklu áfalli vegna ávirðinga um stórfellt fíkniefnabrot og því væri margt af því rangt, sem hann hefði sagt í lögregluskýrslu. Hið rétta væri að stúlkurnar, og þá sérstaklega F, sem kölluð sé V, hefðu beðið hann um að stofna fyrir sig aðgang á vefsíðunni einkamal.is. Hann hefði stofnað aðgang fyrir V, T og Q. V hefði sjálf beðið hann um aðstoð og hann hefði átt erfitt með að neita henni um það. Í hans augum hefði verið um að ræða greiða við flottar stelpur og samskipti við þær. Hann hefði hins vegar ekki haft hugmynd um að aðstoð við stúlkurnar væri ólögleg háttsemi. V hefði sjálf sett upp auglýsingu sína og hefði hann ekki uppfært auglýsingar fyrir hans heldur aðeins sýnt henni hvernig ætti að fara að því. Þegar aðgangi hennar að netinu hefði verið lokað, hefði hann aðstoðað hana við að stofna nýjan aðgang. Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið greiðslu fyrir aðstoð sína við stúlkurnar og þá hefði hann aldrei fengið kynlíf hjá þeim.
Ákærði kannaðist við að hafa tekið ljósmyndir af framangreindum stúlkum og gaf þá skýringu á því að hann gæti ekki neitað þeim um neitt. Þá kvaðst hann einu sinni hafa tekið myndir af ákærðu Catalinu en neitaði því að hafa stofnað aðgang fyrir hana að vefsíðunni einkamal.is. Hefði hann ekki heldur uppfært auglýsingar fyrir hana. Kvaðst hann hvorki hafa sett inn á internetið auglýsingar né myndir. Aðspurður um aðra aðstoð hans við ákærðu Catalinu, kannaðist ákærði við að hafa einu sinn bókað far fyrir hana með hennar eigin greiðslukorti.
Aðspurður um óundirritaða vinnusamninga milli hans og ákærðu Catalinu, sem fundust við húsleit á heimili hans, kvað hann þá hafa snúist um hugsanlega aðstoð ákærða við ákærðu Catalinu við uppsetningu á heimasíðu um fylgdarþjónustu. Hins vegar hefði aldrei orðið af þessu samstarfi.
Ákærða Catalina Mikue Ncogo kvað þau ákærða Finn vera vini. Hann hefði aðstoðað hana við þegar hún lenti í erfiðleikum með tölvuna í rekstrinum en hann hefði hvorki unnið fyrir hana né þegið hjá henni laun. Markmið hennar hefði verið að stofna fyrirtæki og hefði ákærði ætlað að hjálpa henni við það, enda þekkti hann til bókhalds og hefði ætlað að hjálpa henni við að fá kennitölu fyrir fyrirtækið. Að því er varðaði óundirrituðu vinnusamningana, kvað hún ákærða Finn hafa viljað gera við hana samning þar sem hann treysti henni ekki fullkomlega. Ákærði hefði búið til samningana en hún hefði ekki undirritað þá.
Þegar borinn var undir ákærðu Catalinu framburður hennar hjá lögreglu 25. febrúar sl. um að ákærði hafi stundum hjálpað henni með tölvuna, kvaðst hún ekki nenna að svara fyrirspurnum um kynlíf og því ákveðið að greiða ákærða 60.000 krónur á viku. Hafi þetta verið hluti af samkomulagi þeirra í milli um tölvuaðstoð ákærða vegna rekstrar ákærðu og hefði hún einu sinni greitt honum 60.000 krónur fyrir aðstoðina. Þá kvað hún rétt eftir sér haft í lögregluskýrslunni að ákærði Finnur hefði tekið myndir af stúlkunum til að setja á internetið. Hann hefði sett myndir inn á netið og stúlkurnar borgað honum fyrir það með kynlífsþjónustu.
K rannsóknarlögreglumaður staðfesti niðurstöður rannsóknar á netfangalista, sem fannst við húsleit á heimili ákærðu Catalinu eða var bent á að hún notaði, sem hefði leitt í ljós að um þar var um að ræða töluvert magn auglýsinga þar sem kynlíf var boðið gegn greiðslu. Við skoðun á IP tölum hefði komið í ljós að ákærði Finnur átti einhverjar þeirra sem og ákærða Catalina.
E kvaðst hvorki hafa beðið ákærða um að sjá um einkamal.is fyrir sig né borgað honum fyrir tölvuþjónustu. Hins vegar hefði hún verið viðstödd og heyrt þegar ákærða Catalina bað hann um aðstoð við tölvurnar. Ákærða hefði hringt í ákærða Finn og sagt honum nákvæmlega hvað hann ætti að gera. Vændið hefði verið auglýst þannig að ákærða tók af vitninu myndir en þáttur ákærða Finns hefði verið sá að opna vefsíðuna einkamal.is og setja myndirnar þar inn. Síðar í skýrslutökunni kvaðst vitnið aldrei hafa séð ákærða búa til auglýsingar og vissi ekki í hvað hann vann á tölvuna en hún hefði heyrt talað um það. Ákærði hefði aldrei séð um samskiptin við viðskiptavinina enda hefði ákærða Catalina alltaf séð um þau. Kvaðst vitnið sjálf hafa sett eigin auglýsingar inn á einkamal.is.
Vitnið F kvaðst hafa heyrt ákærðu Catalinu tala við ákærða Finn þegar hún heyrði til og rætt um að hann sæi um að setja auglýsingar um vændi og myndir inn á internetið. Þá hefði hann tekið myndir af stúlkunum fyrir auglýsingarnar. Þegar hún var á Laugavegi hefðu stúlkurnar sjálfar hins vegar séð um að setja inn auglýsingar á netið. Einnig hefðu þær einnig notað myndir á msn-einkamálum. Ákærði hefði aldrei sett inn auglýsingar fyrir vitnið og hún hefði því ekki greitt honum fyrir slíka þjónustu. Aðspurð kvaðst vitnið ekki vita hvort ákærði hefði stofnað aðgang að netinu eða sett auglýsingar inn á netið en ákærða Catalina hefði sagt ákærða hvað hann ætti að gera og hann hefði gert það. Kannaðist vitnið hins vegar ekki við að ákærði Finnur hefði einhvern tímann stjórnað vændisstarfseminni.
Aðspurð um hvað hún ætti við þegar hún sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að ákærða Catalina hefði opnað messenger-síðu en stúlkurnar hefðu síðan séð um msn, kvað vitnið ákærða Finn hafa tekið myndirnar, ákærða Catalina hefði opnað msn og stúlkurnar hefðu séð um hafa samskipti við viðskiptavinina. Þegar auglýsingar hefðu dottið út af netinu hefðu annað hvort ákærði Finnur eða ákærða Catalina sett inn nýjar. Vitnið kvaðst eingöngu hafa átt kynmök við ákærða Finn sem viðskiptavin.
Vitnið G kvað ákærðu Catalinu hafa beðið ákærða Finn að taka myndir af stúlkunum og hefði hann tekið myndir af þeim og einnig af vitninu. Hann hefði síðan sett myndirnar inn á msn á Hverfisgötu af því að þar var internettenging sem ekki var á Rauðarárstíg. Ákærða Catalina gerði fyrstu auglýsinguna en ákærði Finnur hefði gert seinni auglýsinguna og hefði ákærða Catalina talað við ákærða Finn um það. Ákærði Finnur hefði þá komið og sett myndirnar inn á einkamal.is en stúlkurnar séð sjálfar um að tala á msn. Vitnið kvaðst aldrei hafa stundað kynmök með ákærða Finni. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa greitt ákærða Finni neitt heldur hefði allt farið inn á reikning hjá ákærðu Catalinu. Vitnið kvaðst einu sinni hafa séð ákærða Finn búa til vændisauglýsingu.
Niðurstaða.
Í lögregluskýrslu 24. febrúar 2009 kvaðst ákærði hafa myndað stelpur fyrir ákærðu Catalinu þrisvar til fjórum sinnum. Þá kvaðst hann „vinna í internetmálum“ fyrir hana og kom fram hjá honum að þegar hann væri búinn að setja inn auglýsingar fyrir stúlkurnar, léti hann þær vita og gæfi þeim upp notendanafn og lykilnúmer. Fyrir dóminum dró ákærði Finnur frásögn sína til baka að þessu leyti og kvaðst einungis hafa aðstoðað nokkrar kvennanna við að stofna fyrir þær internetaðgang en neitaði því hins vegar að hafa sett inn á netið auglýsingar og myndir. Eins og áður er rakið hefur dómurinn metið ótrúverðuga þá breytingu, sem orðið hefur á framburði ákærða hér fyrir dóminum.
Jafnframt liggur fyrir framburður ákærðu Catalinu um að ákærði hafi tekið myndir af konum til að setja á internetið og vætti vitnanna F og G um að ákærði hafi tekið myndir af þeim. Vitnið G hefur borið á þann veg að ákærði hafi sett myndir af konunum inn á internetið auk þess sem hann hafi búið til eina auglýsingu. Jafnframt bera rannsóknargögn með sér að einhverjar auglýsingar, þar sem kynlíf var boðið gegn greiðslu, hefði komið úr tölvum með IP tölum ákærða. Loks liggja frammi óundirritaðir vinnusamningar milli ákærðu Finns og Catalinu, þar sem fram kemur að meðal verkefna ákærða fyrir ákærðu Catalinu eigi að vera gerð heimasíðu fyrir fylgdarþjónustu á vegum ákærðu og myndatökur af stúlkum til að setja á internetið. Með þessum gögnum þykir sannað að ákærði hafi í einhverjum tilvikum tekið myndir af konum, sem stunduðu vændi fyrir ákærðu Catalinu, og sett slíkar myndir inn á internetið til að auglýsa vændisstarfsemina. Þá hefur ákærði kannast við það að hafa þegið greiðslur frá ákærðu Catalinu fyrir m.a. tölvuvinnu. Þegar til alls framanritaðs er litið, þykir fram komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafa átt hlutdeild í brotum ákærðu Catalinu samkvæmt 3. ákærulið með þeim hætti sem þar er lýst. Er brot ákærðu rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru og verður hann því sakfelldur eins og krafist er.
Skaðabótakröfur.
Í málinu gera þær G, E og F miskabótakröfur á hendur ákærðu Catalinu, hver um sig að fjárhæð 800.000 krónur auk með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þær E og G krefjast þess að vextirnir reiknist frá 1. júní 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakrafnanna en krefjast dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Fkrefst þess að vextirnir reiknist frá 1. janúar 2009 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þær allar málskostnaðar úr hendi ákærðu að viðbættum virðisaukaskatti.
Miskabótakröfurnar eru reistar á ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Af hálfu E er á því byggt, að brot ákærðu hafi falið í sér gróf kynferðisbrot en kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Brot ákærðu hafi verið mjög alvarleg þar sem hún hafi þvingað brotaþola með ofbeldi og hótunum til að stunda vændi fyrir sig. Þá er einnig byggt á afleiðingum tjónsins en brotin hafi valdið brotaþola gríðarlega miklu andlegu tjóni. Hafi hún neyðst til að stunda vændi af ótta við ákærðu og til að fá til baka eigur sínar, m.a. vegabréf. Brotaþoli hafi ekki komist af landi brott, henni hafi liðið illa og ekki viljað stunda þessi viðskipti. Hún hafi ekki verið með sjálfri sér þegar hún þurfti að sinna viðskiptavinunum og mislíkað það, sem viðskiptavinir ákærðu vildu. Þá hafi henni fundist hún einskis nýt.
Af hálfu G er á því byggt að brot ákærðu hafi falið í sér gróf kynferðisbrot en kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Brot ákærðu hafi verið mjög alvarleg þar sem ákærða hafi misnotað sér bága stöðu brotaþola og þvingað hana með hótunum og ofsóknum til að stunda vændi fyrir sig. Þá er einnig byggt á afleiðingum tjónsins en brotin hafi valdið henni gríðarlegum miska. Brotaþoli hafi neyðst til að stunda vændi af ótta við ákærðu og vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu sinnar en brotaþoli eigi 13 ára dóttur sem hún þurfi að framfæra. Brotaþoli lifi í stöðugum ótta vegna hótana ákærðu og líði mjög illa og óttist um líf sitt.
Af hálfu F er á því byggt að brot ákærðu hafi falið í sér gróf kynferðisbrot en kynferðisbrot séu almennt til þess fallin að valda miskatjóni. Brot ákærðu hafi verið mjög alvarleg þar sem hún hafi þvingað brotaþola með ofbeldi og hótunum til að stunda vændi fyrir sig. Þá er einnig byggt á afleiðingum tjónsins en brotið hafi valdið brotaþola mjög miklum miska. Hún hafi neyðst til að stunda vændi vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu sinnar og fjölskyldu og af ótta við ákærðu sem hafi verið með stöðugar hótanir og ofsóknir. Brotaþoli hafi aldrei stundað vændi áður og henni hafi liðið illa við að vinna við það. Þá hafi brotaþoli óttast ákærðu mjög sem og menn á hennar vegum.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Ákærða hefur verið sakfelld fyrir að hafa haft viðurværi sitt af vændi framangreindra þriggja kvenna og fyrir að hafa haft milligöngu um að fjöldi manna hefði samræði eða önnur kynferðismök við þær og jafnframt auglýst vændi þeirra og óskað eftir kynmökum annarra við þær gegn greiðslu. Í almennum athugasemdum að frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007, en með þeim var ákvæði 206. gr. almennra hegningarlaga m.a. breytt í það horf sem nú er, kemur fram að löggjafinn leggi áherslu á að í milligöngu um að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu felist misnotkun á félagslegri, andlegri eða líkamlegri neyð annarrar manneskju einkum í hagnaðarskyni. Engin efni eru til annars en að líta svo á að þessi aðstaða sé hér fyrir hendi og að í broti ákærðu hafi falist slík misnotkun gagnvart þeim þremur konum sem hér eiga hlut að máli. Er það að þessu virtu mat dómsins að ákærða hafi gerst sek um ólögmæta meingerð gegn persónu framangreindra þriggja kvenna og að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga fyrir greiðslu miskabóta þeim til handa séu þannig uppfyllt. Þykir því rétt að dæma ákærðu Catalinu til að greiða konunum þremur miskabætur eins og nánar greinir í dómsorði.
Refsiákvörðun o.fl.
Ákærða Catalina var þann 9. febrúar 2007 dæmd í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir skjalafals. Með brotum sínum nú hefur ákærða rofið skilorð þess dóms og ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að taka þann dóm upp og gera ákærðu refsingu í einu lagi, sbr. og 77. gr. laganna. Ákærða hefur verið sakfelld fyrir skipulagningu á innflutningi á töluverðu magni af fíkniefnum og fyrir að hafa haft með höndum umfangsmikla vændisstarfsemi sem hún hagnaðist á. Ákærða á sér engar málsbætur. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 2 ár og 6 mánuðir. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem ákærða sætti frá 30. apríl til 12. maí sl. með fullri dagatölu.
Ákærði Finnur hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Hann hefur verið sakfelldur fyrir hlutdeild í brotum ákærðu Catalinu er lúta að umfangsmikilli vændisstarfsemi hennar. Þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærðu Catalinu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., þykir hæfilega ákveðin samtals 1.743.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og starfa verjandans í þágu ákærðu á rannsóknarstigi málsins. Í ljósi niðurstöðu málsins þykir rétt að ákærðu verði gert að greiða 4/5 hluta málsvarnarþóknunar, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði. Sakarkostnaður samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti nemur 913.634 krónum og stafar hann samkvæmt framlögðum gögnum af kostnaði vegna símhlerana og hlustunar á síma sem ákærða Catalina notaði. Verður ákærðu Catalinu gert að greiða þann kostnað. Þá ber ákærðu einnig að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., sem telst hæfilega ákveðin samtals 535.350 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærða Finni ber að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., sem telst hæfilega ákveðin 684.750 að teknu tilliti til virðisaukaskatts og starfa verjandans í þágu ákærða á rannsóknarstigi málsins.
Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Arnfríður Einarsdóttir, sem dómsformaður, og Ragnheiður Bragadóttir og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.
D ó m s o r ð
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 30. apríl til 12. maí 2009 með fullri dagatölu.
Ákærði, Finnur Bergmannson, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað er fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, greiði G 250.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. febrúar 2009 til 8. nóvember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, greiði E, 250.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. febrúar 2009 til 8. nóvember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, greiði F, 250.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. febrúar 2009 til 8. nóvember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða, Catalina Mikue Ncogo, greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 1.743.000 krónur, að 4/5 hlutum, en að öðru leyti skulu þau greidd úr ríkissjóði. Ákærða greiði réttargæsluþóknun skipaðs réttargæslumanns G, E og F, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., samtals 535.350 krónur. Ákærða greiði 913.634 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærði, Finnur Bergmannsson, greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 684.750 krónur.