Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 11. september 2014.

Nr. 90/2014.

Landsbankinn hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Auðbjörgu ehf.

(Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging.

A ehf. höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist viðurkenningar þess að lánssamningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum, sem bundin væri við gengi erlendra gjaldmiðla. L hf. var sýknaður af kröfunni með því að talið var, að virtum texta lánssamningsins og því hvernig háttað væri ákvæðum hans um efndir aðilanna og hvernig að þeim var staðið í reynd, að skuldbindingin samkvæmt samningnum hefði verið í erlendum myntum og þar með lögmæt. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu stefndi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning 13. desember 2007. Á forsíðu samningsins stóð: „ISK 250.000.000 ... LÁNSSAMNINGUR“. Í upphafi hans sagði að samningurinn væri gerður „um fjölmyntalán til 2 ára að jafnvirði kr. 250.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50% Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í 1.2. gr. samningsins var meðal annars tekið fram að lántaki skyldi senda bankanum beiðni um útborgun þar sem tiltekinn væri sá reikningur sem leggja skyldi lánið inn á og í 2.2. gr. að lántaki óskaði eftir að reikningur hans nr. 73 hjá bankanum yrði „skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.“ Samkvæmt 3.1. gr. lofaði lántaki að greiða bankanum vexti sem skyldu „vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum ... auk 1,90% vaxtaálags“ og í 4.1. gr. var lántaka veitt heimild til að óska eftir því við bankann að myntsamsetningu lánsins yrði breytt. Eftir 7.1. gr. hafði bankinn um það val, kæmi til vanskila af hálfu lántaka, hvort krafist væri „dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.“

Sama dag og lánssamningurinn var gerður undirritaði stefndi beiðni um útborgun lánsins þar sem hann óskaði eftir að lánið yrði greitt út 17. desember 2007 og lánsfjárhæðin lögð inn á tvo reikninga sína hjá Landsbanka Íslands hf. Var hér um að ræða gjaldeyrisreikninga og var annar þeirra í svissneskum frönkum, en hinn í japönskum jenum. Bankinn gerði  17. desember 2007 svonefnda kaupnótu vegna útborgunar lánsins og var þar greint frá fjárhæðum beggja hluta þess í japönskum jenum og svissneskum frönkum sem 0,25% lántökugjald væri dregið frá í hvoru tilviki. Að auki kom til greiðslu samkvæmt nótunni þóknun vegna skjalagerðar að fjárhæð 12.800 krónur sem gerð var upp með 22.873 japönskum jenum. Síðan var tekið fram á nótunni að 17. desember 2007 hafi verið lögð inn á áðurgreinda reikninga stefnda 222.792.530 japönsk jen og 2.275.319,35 svissneskir frankar og hafa kvittanir fyrir þeim greiðslum jafnframt verið lagðar fram í málinu.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber heiti áfrýjanda. Tók áfrýjandi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum frá 13. desember 2007. Eins og nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi voru undirritaðir þrír viðaukar við samninginn þar sem skilmálum lánsins var breytt. Í þeim öllum voru eftirstöðvar lánsins greindar í erlendum gjaldmiðlum.

Stefndi greiddi vexti af láninu alls níu sinnum, 20. júní og 22. desember 2008, 22. júní og 21. desember 2009, 22. mars 2010, 23. febrúar, 7. apríl, 22. júlí og 29. ágúst 2011. Í fyrsta skiptið, 20. júní 2008, var greiðslan gjaldfærð í krónum af áðurgreindum tékkareikningi stefnda hjá Landsbanka Íslands hf., nr. 73. Í hin skiptin voru greiðslurnar hins vegar gjaldfærðar í evrum og breskum pundum af gjaldeyrisreikningum stefnda hjá áfrýjanda, ef frá er talinn lítill hluti af greiðslunni 21. desember 2009, 10.820 krónur, sem gjaldfærðar voru af tékkareikningnum. Í kvittunum fyrir vaxtagreiðslunum voru eftirstöðvar lánsins jafnan tilteknar í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

II

Málsaðila greinir á um það hvort samningur stefnda við Landsbanka Íslands hf. 13. desember 2007 sé um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, þannig að skilmálar þess brjóti í bága við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar 6. mars 2014 í máli nr. 602/2013 var leyst úr sams konar ágreiningi milli áfrýjanda í þessu máli og gagnaðila hans þar sem orðalag í samningnum, sem á reyndi í því máli, var nánast það sama og í lánssamningnum frá 13. desember 2007. Fyrir utan dagsetningar, tilteknar tegundir erlendra gjaldmiðla, bankareikninga og annað, sem eðli máls samkvæmt er bundið við einstök lánsviðskipti, er ekki sá munur á ákvæðum þessara samninga í lagalegu tilliti að hann geti ráðið niðurstöðu um skýringu þeirra. Verður því hér, á sama hátt og í dómi í máli nr. 602/2013, sbr. og dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, að gæta að því hvernig háttað var ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim var staðið í raun.

Eins og áður greinir var lánið, sem um ræddi í samningi stefnda við Landsbanka Íslands hf., greitt út 17. desember 2007 með því að bankinn lagði tilteknar fjárhæðir í japönskum jenum og svissneskum frönkum inn á tvo gjaldeyrisreikninga stefnda í þeim gjaldmiðlum. Þessi aðferð við útborgun lánsfjárins var í samræmi við ákvæði í samningnum 13. desember 2007 sem vísað var til í fyrrnefndri beiðni áfrýjanda um útborgun lánsins 17. sama mánaðar. Fé í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar Landsbanki Íslands hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum. Eins og áður greinir innti stefndi oftast nær vaxtagreiðslur vegna lánsins af hendi í erlendum gjaldmiðlum, enda þótt hann hefði heimild til þess samkvæmt samningnum að greiða af láninu í krónum. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að lánið til stefnda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum og skiptir þá ekki máli í hvaða tilgangi hann tók það. Með því að slíkt lán fellur ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda í máli þessu.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en rétt er að málskostnaður í héraði falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnda, Auðbjargar ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, en málskostnaður í héraði fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. nóvember 2013, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Auðbjörgu ehf., Unubakka 11, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 10. maí 2013.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., nr. 10392 frá 13. desember 2007, að fjárhæð 250.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Málavextir eru þeir, að í desember 2007 óskaði stefnandi eftir láni hjá Landsbanka Íslands hf.  Hinn 13. desember 2007 gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning nr. 10392, að fjárhæð 250.000.000 króna.

Á forsíðu samningsins eru samningsaðilar tilgreindir sem og að samningurinn sé um „ISK 250.000.000,-“.  Í aðfararorðum samningsins segir að hann sé um fjölmyntalán til tveggja ára að jafnvirði 250.000.000 króna, „í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50% JPY 50% Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Í grein 1.1 segir að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“.  Jafnframt segir að lánið sé laust til útborgunar tveimur virkum dögum eftir undirritun lánssamningsins.  Í grein 1.2. kemur fram að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á.  Þá segir að „form að útborgunarbeiðni“ sé fest við samninginn sem viðauki 1.  Samkvæmt grein 2.1 skyldi lánstíminn vera tvö ár og lánið greiðast með einni afborgun í lok lánstímans, 20. desember 2009.  Vexti skyldi greiða á sex mánaða fresti út lánstímann, fyrst 20. júní 2008.  Í grein 2.2 kemur fram að greiðslustaður átti að vera hjá Landsbanka Íslands hf. og að lántaki óskaði eftir því að reikningur hans nr. 73 hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum.  Fyrir liggur að þetta var tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum.  Í grein 2.3 er kveðið á um möguleika lántaka til þess að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að lokagjalddaga kæmi.  Er þar tekið fram að lágmarksgreiðsla skyldi þá nema að minnsta kosti jafnvirði 10.000.000 íslenskra króna hverju sinni.  Samkvæmt grein 2.5 skuldbatt stefnandi sig til þess að greiða bankanum vexti og dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, auk annars kostnaðar, kæmi til vandefnda af hans hálfu.  Í grein 3.1 er mælt fyrir um að lánið beri vexti sem skuli vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,9% vaxtaálags.  Í grein 4.1 er kveðið á um að yrði lánið í skilum gæti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins yrði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar myndu miðast, að öllu leyti eða að hluta, við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega hafi verið samið um.  Við myntbreytingu skyldi, við umreikning, nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætti væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við, samkvæmt gengis­skrán­ingu bankans á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað yrði sérstaklega samið.  Í grein 7.1 kemur fram að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.  Bankinn hefði um það val, hvort hann krefðist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.  Yrði dráttarvaxta krafist í erlendum myntum skyldu þeir vera vextir samkvæmt grein 3.1 auk viðeigandi álags, að viðbættu 10% viðbótarálagi.  Yrði skuldinni breytt í íslenskar krónur á gjalddaga skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.  Samkvæmt grein 7.2 skuldbatt stefnandi sig til þess að greiða bankanum vexti og dráttarvexti samkvæmt grein 7.1, auk annars kostnaðar, kæmi til vandefnda af hans hálfu.  Í grein 10.1 kemur fram að stefnandi lagði að veði skipið Arnar ÁR-55 til tryggingar láninu, með útgáfu tryggingarbréfs nr. 0106-63-52260, að fjárhæð 300.000.000 króna.  Í grein 11.2 er kveðið á um að verði samningurinn gjaldfelldur á grundvelli greinar 11.1 sé bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi, miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti samanstandi af og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samningsins.  Í grein 11.3 er tekið fram að í öllum tilvikum gjaldfellingar samkvæmt grein 11.1 beri allar skuldir dráttarvexti í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð.

Sama dag og lánssamningurinn var undirritaður fyllti stefnandi út form að beiðni um útborgun, sem fylgdi samningnum sem viðauki 1, sbr. grein 1.2 í samningnum.  Lánsfjárhæðin er ekki tilgreind á framangreindu formi né heldur sá reikningur eða þeir reikningar sem leggja skuli hana inn á.  Orðrétt segir: „Vinsamlegast greiðið útborgunarfjárhæð inn á neðangreindan reikning í eigu lántaka:“  Stefnandi hefur svo handskrifað inn á formið númer tveggja reikninga, nr. 0150-38-600054, sem er reikningur í svissneskum frönkum, og nr. 0150-38-670073, sem er reikningur í japönskum jenum.  Jafnframt kemur fram í beiðninni að stefnandi heimili Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af fyrrgreindum tékkareikningi nr. 73.  Hinn 17. des­ember 2007 lagði Landsbanki Íslands hf. 2.275.319,35 svissneska franka inn á framangreindan reikning nr. 600054 og 222.792.530 japönsk jen inn á reikning nr. 670073.  Stað­fest­ing á þessum greiðslum Landsbanka Íslands hf. kemur fram á framlagðri kaupnótu, dagsettri þennan sama dag, þar sem getið er viðskipta með tilgreindar fjárhæðir í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Á kaupnótunni kemur fram að höfuðstóll í japönskum jenum sé 223.373.838 og í svissneskum frönkum 2.281.021,90.

Stefnandi undirritaði umsókn um stofnun gjaldeyrisreiknings í svissneskum frönkum 13. desember 2007.  Stefnandi stofnaði gjaldeyrisreikning nr. 670073 í japönskum jenum 5. mars 2007 og gjaldeyrisreikning nr. 0150-38-710040 hinn 9. mars 2006.

Samkvæmt greinargerð stefnda greiddi stefnandi tíu vaxtagreiðslur af láninu.  Á einum gjalddaga og þeim fyrsta, 20. júní 2008, var tékkareikningur stefnanda nr. 73 skuldfærður fyrir greiðslu.  Samkvæmt framlagðri kvittun voru 6.928.804 krónur teknar út af reikningnum.  Jafnframt segir í greiðslukvittuninni að svissneskir frankar og japönsk jen hafi verið keypt fyrir íslenskar krónur til þess að greiða vexti af láninu.  Vaxtagreiðslur eru tilgreindar í þeim gjaldmiðlum og upphaflegur höfuðstóll í samræmi við framangreinda kaupnótu sem og óbreyttar eftirstöðvar höfuðstóls eftir greiðslu vaxta.  Aðrar framlagðar greiðslukvittanir fyrir síðari vaxtagjalddaga eru byggðar upp með sama hætti.  Samkvæmt kvittun fyrir vaxtagjalddaga 22. desember 2008 var reikningur stefnanda nr. 150-38-710040 skuldfærður fyrir greiðslu og voru þá teknar út af honum 64.825,75 evrur og svissneskir frankar og japönsk jen keypt fyrir þær til þess að greiða vexti af láninu.  Samkvæmt framlögðum greiðslukvittunum var sami reikningur skuldfærður í evrum fyrir vaxtagjalddögum 22. júní 2009, 22. mars 2010, 23. febrúar 2011, 7. apríl 2011, 22. júlí 2011 og 29. ágúst 2011.  Samkvæmt greiðslukvittun fyrir vaxtagjalddaga 21. desember 2009 var reikningur stefnanda nr. 150-38-200100 skuldfærður fyrir greiðslu vaxta og voru þá tekin út 36.745,35 sterlingspund og svissneskir frankar og japönsk jen keypt fyrir þau.  Tilgreindur höfuðstóll lánsins í hinum erlendu gjaldmiðlum helst óbreyttur í framangreindum greiðslukvittunum.

Samkvæmt heimild í 100. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2005, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. hinn 7. október 2008, vék stjórn hans frá og setti skilanefnd yfir bankann.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem reist var á sömu lagaheimild, var eignum og skuldum bankans ráðstafað.  Samkvæmt 1. gr. ákvörðunarinnar var öllum eignum Landsbanka Íslands hf., hverju nafni sem þær nefndust, ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf.  Stefndi, Landsbankinn hf., er því réttur aðili að máli þessu.

Viðauki við lánssamninginn var undirritaður 22. janúar 2010.  Í viðaukanum kemur fram að með lánssamningi nr. 10392 hafi aðilar samið um fjölmyntalán að jafnvirði 250.000.000 króna í eftirtöldum myntum og hlutföllum, 50% í svissneskum frönkum og 50% í japönskum jenum.  Eftirstöðvar lánsins eru tilgreindar í viðaukan­um 223.373.838 japönsk jen og 2.281.021,90 svissneskir frankar.  Einnig kemur fram að ógreiddir vextir séu 2.950.241 japönsk jen og 27.810,98 svissneskir frankar sem lántaka bar að greiða við undirritun viðaukans.  Með viðaukanum var gjalddagi höfuðstóls lánsins færður til 22. mars 2010.  Vextir skyldu áfram vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils en með 3,75% vaxtaálagi og skyldu reiknast frá 21. desember 2009.  Aðrir skilmálar lánssamningsins skyldu haldast óbreyttir.

Stefnandi gat ekki staðið í skilum á nýjum gjalddaga lánsins, samkvæmt fyrrgreindum viðauka, og var þá gerður nýr viðauki við lánssamninginn, undirritaður 25. mars 2010.  Viðaukinn er settur upp með sama hætti og fyrri viðauki.  Vísað er með sama hætti til upphaflegrar skuldbindingar og eftirstöðvar lánsins tilgreindar óbreyttar í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Ógreiddir vextir eru tilgreindir í viðaukanum 2.274.085 japönsk jen og 23.073,29 svissneskir frankar og skyldi stefnandi greiða þá við undirritun viðaukans.  Gjalddagi lánsins var með viðaukanum færður til 29. apríl 2010 og vextir skyldu reiknast frá 22. mars 2010.  Ákvæði lánssamningsins skyldu að örðu leyti haldast óbreytt.

Þriðji viðauki við lánssamninginn var undirritaður 30. apríl 2012 með fyrirvara stefnanda um það hvort lánið teldist lán í íslenskum krónum eða í hinum erlendu gjaldmiðlum.  Tilvísun til upphaflegrar lánsskuldbindingar er í viðaukanum með sama hætti og í tveimur fyrri viðaukum.  Eftirstöðvar lánsins eru tilgreindar, miðað við 26. október 2011, 225.683.868 japönsk jen og 2.304.460,43 evrur.  Stefndi telur þetta misritun og að átt hafi verið við svissneska franka en ekki evrur.  Lánstíma lánsins var breytt þannig að lánið skyldi endurgreiða á næstu fimm árum með 60 mánaðar­legum  afborgunum og lokagjalddagi ákveðinn 15. desember 2016.  „Næsti“ gjalddagi vaxta og afborgana skyldi vera 15. janúar 2012.  Áfram skyldu reiknast á lánið breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni en með 4,25% vaxtaálagi og skyldu þeir reiknast frá 26. október 2011.  Samningur aðila skyldi haldast óbreyttur að öðru leyti.  Stefnandi samþykkti jafnframt að fyrrgreindir gjaldeyrisreikningar hans nr. 670073 í japönskum jenum og nr. 710040 í evrum yrðu skuldfærðir fyrir greiðslu afborgana og vaxta samkvæmt samningnum.

Fyrirsvarsmaður stefnanda gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og kvað hann fyrirtækið hafa tekið umdeilt lán til kaupa á öðru fyrirtæki en Landsbanki Íslands hf. hafi boðist til að lána til kaupanna og jafnframt hafi starfsmenn bankans ráðlagt um form og efni lánssamningsins.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á efnisatriðum lánssamningsins.  Á forsíðu samningsins segi „ISK 250.000.000,- LÁNSSAMNINGUR“.  Hvergi á forsíðunni sé að finna tilgreiningu á því að lánið sé í erlendri mynt.  Einungis sé tekið fram að lánið sé í íslenskum krónum.  Hafi það verið ætlun stefnda að veita lán í erlendri mynt hefði slíkt vitaskuld verið tekið fram á forsíðu samningsins.  Í upphafsorðum samningsins sé lánsfjárhæðin aðeins tilgreind í íslenskum krónum, bæði með tölustöfum og bókstöfum.  Hvorki þar né annars staðar í lánssamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt  en slíkt sé að mati stefnanda algjör forsenda þess að um erlenda skuldbindingu sé að ræða.  Með öðrum orðum, það sé hvergi staf að finna í lánssamningnum um fjárhæð hins ætlaða erlenda láns.  Þess í stað sé eingöngu tilgreint að um sé að ræða „fjölmyntalán til 2 ára að jafnvirði kr. 250.000.000,- Krónur tvö hundruð og fimmtíumilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 50%, JPY 50%“.

 Stefnandi telur að þetta gefi bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og bundið við gengi umræddra gjaldmiðla í framangreindum hlutföllum, það er, að um sé að ræða gengistryggt myntkörfulán.  Fjárhæð hvers gjaldmiðils hafi ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunar­dag lánsins.  Þetta ákvæði um viðmiðunargengi þjóni vart öðrum tilgangi en að binda skuldbindinguna, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi.  Stefnandi vísar í þessu samhengi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011.  Í því máli hafi form umdeilds lánssamnings verið samhljóma þeim samn­ingi sem aðilar í þessu máli deili um.  Um tilgreiningu lánsfjárhæðar segi svo í forsend­­um dómsins: „Í upphafi samningsins var meðal annars tekið fram að lánið væri fjölmyntalán að jafnvirði 150.000.000 krónur „í neðanskráðum myntum og hlutföllum“.  Síðan voru tilgreindir gjaldmiðlarnir fjórir og hlutföll þeirra og kveðið á um að fjárhæð hvers þeirra yrði ekki ákveðin fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins, en skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu gjaldmiðla eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum.  Eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins var samkvæmt þessu í íslenskum krónum, en hvergi var getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins.  Fjárhæð lánsins var þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum.  [Landsbankinn hf.] hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum var að ræða.  Haldlaus er sú viðbára hans að með þessu móti hafi best verið tryggt að lántaki fengi útborgaða nákvæmlega þá fjárhæð í íslenskum krónum, sem hann ætlaði að nýta, sökum þess að nokkra daga gæti tekið að afgreiða lánið og gengi hinna erlendu gjaldmiðla gæti hreyfst á þeim tíma, enda verður ekki framhjá því litið að lánið, sem málið varðar, var greitt út næsta bankadag eftir undirritun samningsins.“

Stefnandi vísar einnig til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 603/2010. Í forsendum dómsins segi meðal annars: „Að framan var gerð grein fyrir lánssamningi aðilanna, en þar skiptir mestu það efni hans að lánsfjárhæð var ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli.  Þá var lánið bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningurinn kveði á um.  Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001.  Að þessu virtu skiptir hvorki máli þótt staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamnings né yfirlýsing sóknaraðila um að skuld í erlendum gjaldmiðum „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum.  Aðrar fram bornar málsástæður varnaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.“

Stefnandi vísar einnig til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 30/2011. Í forsendum héraðsdóms, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, segi meðal annars: „Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að fjárhæð lánsins er skýrt tilgreind í íslenskum krónum og kemur fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla hvergi fram í samningi aðila. [...] Hefði ætlun stefnanda verið sú að lána stefnda svissneska franka og japönsk jen hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir þessara gjaldmiðla í samningi aðila og greiða hinar erlendu fjárhæðir út.“  Í ljósi þess að skuldbindingar aðila, samkvæmt lánssamningi nr. 10392,  séu eingöngu tilgreindar í íslenskum krónum geti aldrei verið um að ræða lán í erlendri mynt og af þeim sökum blasi við að um sé að ræða gengistryggt lán.  Í þessu sambandi skipti ekki máli þótt lánið hafi verið greitt út inn á svokallaða gjaldeyrisreikninga þar sem hvorki fjárhæð né hlutföll hinna erlendu gjaldmiða hafi verið tilgreind í samningi aðila.  Um þetta megi vísa til dóms Hæsta­réttar Íslands frá 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.

Í 4. kafla lánssamningsins sé fjallað um myntbreytingarheimild.  Í grein 4.1 segi meðal annars orðrétt: „Sé skuldin í skilum getur lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.“

Að mati stefnanda gefi þetta ákvæði það bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir.  Vandséð sé hvers vegna erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir ef það væri í raun í erlendri mynt.  Með þessu ákvæði hafi lántaka verið veitt heimild til að óska þess að breyta „vísitölu“ lánsins á lánstímanum.  Sýni þetta glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hefði lánið í reynd verið í erlendri mynt hefði heimildarákvæði um breytingu lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um sölu þess gjaldmiðils sem lánaður hafi verið og kaup annars.  Þá sé í þessum kafla lánssamn­ingsins nánar útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til breytingar á vísitölu lánsins.  Þar segi: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni.“  Að mati stefnanda staðfesti framangreint ákvæði enn betur að með orðalaginu „miðist við“ sé verið að miða við tiltekna erlenda mynt, það er, að gengistryggja samninginn.  Þá staðfesti ákvæðið einnig, að við slíka breytingu á „myntvísitölu“, gengistryggingu, sé höfuðstóll lánsins ávallt hugsaður í íslenskum krónum, enda sé beinlínis áskilið að stefndi hafi heimild til þess að horfa til gengisskráningar á íslensku krónunni við aðgerðina, kæmi til þess.  Þýðingarlaust hefði annars verið að vísa til gengisskráningar á íslensku krónunni við slíka myntbreytingarheimild, væri höfuðstóllinn ekki í þeirri mynt.  Með engu móti sé hægt að útskýra þetta ákvæði samningsins með öðrum hætti, enda algerlega þýðingarlaust að umbreyta láni sem raunverulega væri í evrum fyrst í íslenskar krónur, ef breyta ætti því í japönsk jen.  Í þessu sambandi vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011.  Í forsendum dómsins segi meðal annars um þetta: „Í þessu sambandi verður einnig að líta til ákvæðis í grein 4.1. í lánssamningnum um heimild til að breyta gjaldmiðlum, sem að framan er rakið, en þar kom glöggt fram að hinir erlendu gjaldmiðlar voru til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar.“  Í ljósi þessa sé augljóst að ákvæði 4. gr. lánssamnings aðila hafi verulegt vægi við mat á því hvort samið hafi verið um gengistryggt lán í íslenskum krónum eða lán í erlendum myntum.

Í grein 2.2 í lánssamningi aðila komi sérstaklega fram að lántaki óski þess að íslenskur reikningur hans nr. 73, það er, reikningur nr. 1150-26-73, verði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum.  Þá liggi fyrir í málinu beiðni um útborgun, dagsett 13. desember 2007, þar sem vísað sé til lánssamningsins og með vísan til greinar 1.2 í lánssamningi aðila sé óskað eftir því að lánið verði greitt út inn á tvo gjaldeyrisreikninga, reikning nr. 0150-38-600054 í svissneskum frönkum og reikning nr. 0150-38-670073 í japönskum jenum.  Í útborgunarbeiðninni sé einnig tiltekið að stefnandi heimili stefnda að skuldfæra greiðslur afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt lánssamningnum af íslenskum reikningi stefnanda nr. 0150-26-73.  Á grundvelli þessarar beiðni um útborgun hafi verið ákveðið að nýta lánsfjárhæðina, sem stefnandi hafi þegar tryggt sér, til þess að kaupa erlendan gjaldeyri, svissneska franka og japönsk jen.  Hafi í því samhengi verið útbúin kaupnóta, dagsett 17. desember 2007, og sé hún stíluð á stefnanda.  Í kaupnótunni komi fram að stefnandi hafi keypt tiltekna upphæð svissneskra franka og japanskra jena fyrir lánsfjárhæðina sem hann hafi þegar fengið að láni hjá stefnda.  Með öðrum orðum hafi íslensku krónurnar, sem stefnandi hafi fengið að láni, verið nýttar til þess að kaupa erlendan gjaldeyri.  Hefði stefnandi í raun fengið erlent lán frá stefnda hefði umrædd kaupnóta verið fullkomlega óþörf og hefðu erlendu myntirnar þess í stað verið lagðar beint inn á reikning stefnanda.  Það hafi hins vegar ekki verið reyndin og því sýni umrædd kaupnóta, svo ekki verði um villst, að lán stefnda til stefnanda hafi verið gengistryggt lán í íslenskum krónum.

Framangreind útborgunarbeiðni og kaupnóta geti ekki breytt eðli láns­samnings­ins sem vissulega kveði á um skuldbindingu í íslenskum krónum.  Túlka verði ákvæði samningsins eins og þau komi fram í samningnum sjálfum og beita hefðbundinni textaskýringu þeirra ákvæða.  Hafi sú leið enda verið farin í dómum Hæstaréttar Íslands og vísar stefnandi í því samhengi til nýlegs dóms réttarins í máli nr. 386/2012.  Í því máli hafi rétturinn leyst úr ágreiningi um það hvort samið hefði verið um gengistryggt lán eða lán í erlendri mynt.  Líkt og í þessu máli hafi sá lánssamningur aðeins hljóðað upp á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Í útborgunarbeiðni, með fyrirsögninni „láns­um­sókn“, hafi hins vegar verið tilgreind tiltekin fjárhæð erlendrar myntar.  Lánveitandi í því máli hafi talið að slík umsókn teldist hluti af samningi aðila.  Þessu hafi Hæstiréttur Íslands hafnað og talið að einungis bæri að líta til orðalags lánssamningsins sjálfs.  Í forsendum réttarins segi um þetta: „Í fyrrnefndum samningi 22. maí 2006 var fjárhæð lánsins, sem stefndi tók hjá Glitni banka hf. og deilt er um í málinu, tilgreind með því einu að hún væri að „jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00“.  Þótt komið hafi fram í fyrirsögn samningsins að hann væri um „lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum, verðtryggt“ var hvergi í honum sagt til um hvort það kæmi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu og með hvaða fjárhæð í þeim eða hlutfalli af fjárhæðinni í íslenskum krónum.  Áfrýjanda er í þessu sambandi haldlaust að bera fyrir sig efni fyrrgreindrar umsóknar stefnda um lánið, sem hvergi var vísað til í samningnum, en hún sneri að auki eftir orðanna hljóðan eingöngu að hluta lánsins eða 80.000.000 krónum.  Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda gengi erlendra gjaldmiðla.  Þarf þá ekki að líta til þess hvernig stefndi og Glitnir banki hf. efndu skuldbindingar sínar í raun, en þau atriði gætu að auki að engu leyti hnigið að annarri niðurstöðu.“  Í þessu samhengi beri einnig að hafa í huga að lánssamningur aðila þessa máls sé saminn einhliða af stefnda.  Af þeim sökum beri í öllum tilvikum að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins.  Samkvæmt framangreindri túlkunarreglu skuli óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem samið hafi þau einhliða eða ráðið hafi þeim atriðum til lykta sem ágreiningi valdi.  Löggerninga skuli í samræmi við þetta túlka þeim aðila í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samningsins eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.  Beri stefndi því halla af óljósum ákvæðum samningsins.

Stefnandi leggur og áherslu á að hann hafi greitt af hinu gengistryggða láni með ýmsum gjaldmiðlum en ekki eingöngu í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Sú staðreynd sýni, svo ekki verði um villst, að lánið sé gengistryggt, enda í raun greitt af því í íslenskum krónum.

Í ljósi alls framangreinds byggi stefnandi á því að lán stefnda honum til handa, á grundvelli lánssamnings nr. 10392, hafi í raun verið lán í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggðar í erlendri mynt.  Slík lán fari í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna, líkt og ítrekað hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar Íslands.

Stefnandi byggir einnig á því, að umræddir gjaldeyrisreikningar hans séu gengistryggðir reikningar og enginn gjaldeyrir hafi í raun verið afhentur.  Frá árinu 1960 hafi almennt verið óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þessi almenna regla hafi verið tekin upp í lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl., svokölluð Ólafslög.  Með setningu reglugerðar um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, sem sett hafi verið með heimild í 3. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 4. tölulið 1. mgr. 39. gr. laga nr. 13/1979, og tekið hafi gildi hinn 1. janúar 1988, hafi bönkum og sparisjóðum verið heimilað að taka við innlánum sem tengd hafi verið við ECU, evrópska reiknieiningu, og SDR, reikning Alþjóðlega gjaldeyrissjóðsins.  Eftir setningu reglugerðarinnar hafi innstæða í bönkum og spari­sjóðum getað breyst eftir gengi íslensku krónunnar gagnvart ECU og SDR.  Með setningu laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafi þessi heimild fjármála­stofnana verið felld úr gildi.  Í sérstökum athugasemdum með 13. og 14. gr. í frumvarpi til laganna segi orðrétt: „Samkvæmt 13. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“  Eins og alkunna sé hafi Hæstiréttur Íslands margsinnis staðfest að óheimilt sé að gengistryggja lánssamninga, sbr. dóma réttarins frá 16. júní 2010 í málunum nr. 92/2010 og 153/2010.  Á hinn bóginn verði einnig til þess að líta að lög nr. 38/2001 banni ekki einungis að gengistryggja lánssamninga heldur enn fremur sparifé og innláns­reikninga.  Að mati stefnanda sé einsýnt að þeir reikningar sem stefndi hafi lagt lánsféð inn á, á grundvelli umþrætts lánssamnings, hafi verið ólögmætir gengis­tryggðir reikningar samkvæmt lögum nr. 38/2001 og því sé óhjákvæmilegt að líta svo á að umþrætt lán hafi verið ólögmætt gengistryggt lán.  Í þessu sambandi bendi stefnandi á að þegar lán sé lagt inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu, það er tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Innlendir viðskiptabankar hafi til margra ára boðið upp á sparireikninga í erlendri mynt, svokallaða IG-reikninga.  Höfuðbók IG-reikninga sé einkennd með númerinu 38, sem þýði að reikningsnúmerin hafi eftirfarandi form: xxxx-38-xxxxxx, þar sem xxxx vísi til bankanúmers viðkomandi útibús, og xxxxxx vísi til reikningsnúmers viðskiptavinar.  Að mati stefnanda sé það útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á slíka gjaldeyrisreikninga flytjist gjaldeyrir til Íslands.  Gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi eða löndum sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.  Þannig séu til dæmis japönsk jen ávallt geymd í Japan og svissneskir frankar í Sviss.  Byggir stefnandi á því að engin afhending á gjaldeyri felist í því að „leggja inn“ gjaldeyri á  reikning 38 hér á landi, heldur sé þar einungis um færslu á blaði að ræða.  Eina leiðin til þess að afhenda gjaldeyri í raun sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántaka í banka í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldeyri eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem og til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með undirritun lánssamningsins hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.  Krafa stefnda á hendur stefnanda, samkvæmt hinum umdeilda lánssamningi, sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.  Af hálfu stefnda er á því byggt að lánssamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, það er útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri það með sér að skuldbindingin sé í erlendri mynt.  Í þessu samhengi sé lögð áhersla á að fyrirsögn lánaskjalsins sé lánssamningur „um fjölmyntalán“.  Einnig vísar stefndi til þess að talað sé um „jafnvirði“ íslenskra króna sem geti ekki talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum.  Einnig hafi stefnandi haft tekjur í erlendum myntum á þessum tíma og því hafi hann sótt um það hjá stefnda að taka lán í erlendri mynt enda hafi hann verið að greiða af erlendu láni, sem hann hafi áður tekið hjá Landsbanka Íslands hf.

Stefndi vísar jafnframt til þess að skuldbindingin sé í öðrum skjölum, sem tengd séu lánssamningnum órjúfanlegum böndum, tilgreind í hinum erlendu myntum.  Vísar stefndi til þess að skuldbinding stefnanda hafi verið tilgreind með hinum erlendu myntum um leið og þess hafi verið kostur.  Meginástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta hafi ekki verið sett fram í fjárhæð í lánssamningnum sjálfum, heldur í hlutföllum, sé sú að gengi hinna erlendu mynta sé stöðugt að breytast á gjaldeyrismarkaði.  Í grein 1.2 í lánssamningnum sé gert ráð fyrir því að útborgun taki að minnsta kosti tvo daga en hún hafi í raun tekið fjóra daga því útborgun lánsins hafi farið fram 17. desember 2007.  Þar af leiðandi sé tekið fram í upphafi lánssamningsins að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.

Stefndi kveður að þegar skjalagerð vegna lánsins hafi verið lokið og skilyrðum fyrir útgreiðslu þess hafi verið fullnægt, þar á meðal þinglýsing tryggingarbréfs, hafi fyrst verið hægt að greiða lánið út.  Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll hinna erlendu mynta væri nákvæmlega.  Kaupnóta lánsins sýni hver sé höfuðstóll þess á útborgunardegi og sé skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum þar einungis tilgreind í hinum erlendu myntum.  Skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum sé þannig ekki einungis tilgreind sem jafnvirði íslenskra króna heldur einnig í hinum erlendu myntum.  Stefnandi hafi fengið kaupnótuna senda til sín og hafi hann engar athugasemdir gert við hana.

Stefndi kveður, að í þremur skilmálabreytingum lánsins hafi skuldbindingar stefnanda einungis verið tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum og sama eigi við um tilgreiningu á vanskilum sem hafi verið á samningnum.  Sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir endurgreiðslu hvers gjalddaga og hafi stefnandi fengið öll þessi skjöl send til sín.

Tilgreining íslenskra króna á lánayfirliti viðskiptamanns stafi alfarið af tengslum við bókhaldskerfi stefnda enda geri stefndi upp reikninga sína í íslenskum krónum eins og stefnandi.  Þannig liggi fyrir að skuldbinding stefnanda hafi, í öllum skjölum frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind með hinum erlendu gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum.

Óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi óskað eftir því að fá lánið greitt út í erlendum myntum inn á tiltekna gjaldeyrisreikninga í hans eigu, með beiðni um útborgun lánsins.  Einnig sé óumdeilt að stefndi afhenti stefnanda erlendar myntir með því að millifæra 222.792.530 japönsk jen inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda nr. 670073 og 2.275.319 svissneska franka inn á reikning nr. 600054.  Til þess að tryggja að hann gæti fengið lánið greitt út í hinum tilgreindu erlendu myntum hafi stefnandi, sama dag og hann hafi undirritað útborgunarbeiðnina, 13. desember 2007, óskað eftir því að stofna gjaldeyrisreikning nr. 0150-38-600054 í svissneskum frönkum.  Þegar stefnandi hafi undirritað útborgunarbeiðnina hafi hann átt gjaldeyrisreikning hjá Landsbanka Íslands hf. í japönskum jenum.

Stefndi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með því að afhenda stefnanda erlenda mynt í samræmi við óskir hans.  Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnanda, að stefndi hafi keypt erlenda mynt fyrir lánsfjárhæðina og lagt inn á gjaldeyrisreikningana.  Það sé rangt að í kaupnótu komi fram að stefnandi hafi keypt tilteknar erlendar myntir fyrir íslenskar krónur.  Stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem styðji þá fullyrðingu hans.  Einnig vísar stefndi til þess að fjárhæðir í sviss­neskum frönkum og japönskum jenum hafi verið lagðar inn á gjaldeyrisreikninga stefn­anda.  Stefndi kveður framlagða kaupnótu vera staðfestingu um það, að Lands­banki Íslands hf. hafi keypt lán, samkvæmt lánssamningi nr. 10392, af stefnanda og lagt andvirði þess inn  á gjaldeyrisreikninga stefnanda í samræmi við útborgunarbeiðni hans.

Stefndi byggir á því, að sú staðreynd að lánið hafi verið greitt út í hinum erlendu myntum, staðfesti að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum sé í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum.  Við mat á skuldbindingu samkvæmt lánssamningn­um verði að líta til þess hvernig stefndi hafi sannanlega efnt aðalskyldu sína sam­kvæmt samningnum.  Telur stefndi að efni þess lánssamnings sem um ræði í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012 hafi ekki verið sambærilegt og efni umdeilds samnings þessa máls.

Í útborgunarbeiðni hafi stefnandi óskað eftir því að tékkareikningur hans yrði skuldfærður fyrir vaxtagreiðslum af láninu.  Sá reikningur hafi aðeins verið skuld­færður einu sinni fyrir greiðslu á einum vaxtagjalddaga.  Þá hafi 6.927.984 krónur verið teknar út af reikningnum og 56.196,10 svissneskir frankar og 3.424.786 japönsk jen verið keypt og hafi þær fjárhæðir verið greiddar inn á lánið.  Í öðrum tilvikum hafi stefnandi óskað eftir því að gjaldeyrisreikningar hans yrðu skuldfærðir fyrir vaxtagjalddögunum og hafi það verið gert.  Stefnandi hafi fengið þessar kvittanir sendar og hafi honum verið í lófa lagið að gera athugasemdir við stefnda hafi hann haft þær.  Stefnandi hafi því endurgreitt vaxtaafborganir af láninu, nánast án undan­tekn­­inga, með afhendingu erlendra mynta af gjaldeyrisreikningum sínum.  Fráleitt sé að ætla að lán sem sé endurgreitt í erlendum myntum verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum.  Stefndi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum í hinum erlendu myntum.

Fyrir liggi að báðir aðilar samningsins hafi efnt aðalskyldu sína með því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur og sé á því byggt af hálfu stefnda að við mat á eðli skuldbindingarinnar verði að líta til þeirrar staðreyndar.  Byggir stefndi á því, að við þessar aðstæður geti skuldbinding aðila ekki talist vera í íslenskum krónum.

Stefndi byggir á því að Hæstiréttur Íslands hafi margsinnis staðfest að það teljist erlent lán fái lántaki andvirði lánssamnings greitt út í erlendum myntum og hann endurgreiði lánið í erlendum myntum.  Það sé því deginum ljósara að lánssamning­urinn sé um lögmætt erlent lán.  Bendir stefndi í þessu sambandi á dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 332/2012, nr. 3/2012 og nr. 66/2012.  Í þessum málum hafi tilgreining lánsfjárhæðar á viðkomandi lánssamningum verið í íslenskum krónum.  Hæstiréttur Íslands hafi ekki eingöngu litið til tilgreiningar lánsfjárhæðar í láns­samningunum heldur einnig til þess hvernig samningsskyldum aðila hafi verið háttað.  Þar sem skyldur hafi verið inntar af hendi í erlendum myntum hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi lán væru lögmæt.

Stefndi bendir einnig á, að stefnandi hafi átt, samkvæmt ákvæði 3.1 í lánssamningnum, að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa LIBOR-vöxtum, í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,90% vaxtaálags.  Stefnandi hafi þannig ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur.  Ef svo hefði verið hefði skuld­binding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR-vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi í raun verið, enda LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur.  Skuldbinding stefnanda hafi því án vafa verið í erlend­um myntum.

Stefndi byggir á því að myntbreytingarákvæði sé ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt, sem lánið sé upphaflega tekið í, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum.  Beiðni um breytingu mynta þurfi að setja fram með ákveðnum fyrirvara.  Ástæða fyrirvarans sé til að gera bankanum kleift að kaupa viðkomandi myntir eða eftir atvikum gera skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir bjóði upp á.  Stefndi sé ósammála túlkun stefnanda.  Skýrlega megi ráða af mynt­breyt­ingarákvæði samningsins að við hugsanlega myntbreytingu á láninu færu fram viðskipti með viðkomandi myntir.  Þannig segi orðrétt: „Geti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar.“  Ef ætlunin hefði aðeins verið að miða íslenska fjárhæð við gengi myntar væri framangreint orðalag óþarft, enda ljóst að þá þyrfti ekki að útvega neina mynt.  Í orðalaginu felist að gert sé ráð fyrir því að við hugsanlega myntbreytingu eigi raunveruleg umsýsla sér stað með þær myntir sem lántaki kynni að óska eftir að umbreyta láninu í.

Stefnandi hafi tekið erlend lán hjá Landsbanka Íslands hf. og KB banka hf. áður en hann hafi óskað eftir lánafyrirgreiðslu hjá Landsbanka Íslands hf. í desember 2007 og hafi því haft reynslu af lántökum í erlendum myntum.  Með lánssamningi við Landsbanka Íslands hf. frá 21. desember 1998 hafi stefnandi fengið fjölmyntalán að jafnvirði 73.000.000 króna, 57,53% í japönskum jenum og 42,47% í ECU.  Lánið hafi verið veitt til 15 ára og skyldi endurgreiðast með 30 afborgunum á sex mánaða fresti.  Vextir hafi verið breytilegir, jafn háir sex mánaða LIBOR-vöxtum auk 1,45% vaxta­álags.  Á því tímabili hafi stefnandi séð að greiðslu­byrði þeirra lána hafi verið mun lægri en lána í íslenskum krónum.  Til að mynda hafi LIBOR-vextir verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem hann hafi innt vaxtagreiðslur af hendi, frá árinu 1998 til loka árs 2007.  Þá hafi stefnandi átt mikið af verðbréfum, þar á meðal erlend hlutabréf.  Stefnandi hafi einnig einnig gert skipta­samninga með gjaldeyri til þess að minnka greiðslu­áhættu sína og hagað fjármála­gerningum sínum til að verjast sveiflum á gjaldeyrismarkaði og til að nýta sér gengisþróun sér til hagsbóta.  Jafnframt hafi stefnandi verið með samninga um einkabanka­þjónustu við fjármálafyrirtæki bæði á Íslandi og í Luxemborg.

Stefnandi sé útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem selji afurðir sínar að langmestu leyti til útlanda og fái greiðslur fyrir þær í erlendum gjaldeyri.  Skráður tilgangur fyrirtækisins hafi, árið 2007, verið sagður að reka útgerð fiskiskipa, fiskverkun, rekstur fasteigna og annan skyldan atvinnurekstur og jafnframt viðskipti með fjármálagerninga.  Samkvæmt framlögðum ársreikningum félagsins árin 2007, 2008 og 2009, hafi stærsti hluti tekna stefnanda verið í erlendum myntum og hafi félagið átt erlendan gjaldeyri inni á reikningum hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi og erlendis.  Stefnandi hafi haft verulegan hluta tekna sinna í erlendri mynt á þessu tímabili.  Því hafi gjaldeyrisáhætta hans verið lítil sem engin og hafi það haft áhrif á ákvörðun hans um að sækja um erlent lán hjá Landsbanka Íslands hf.  Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi ekki falist sama áhætta í því að taka erlent lán eins og fyrir þá sem einungis njóti tekna í íslenskum krónum.  Við veikingu íslensku krónunnar hafi eftirstöðvar lánsins hækkað, umreiknaðar í íslenskar krónur, en á sama hátt hafi tekjur stefnanda í íslenskum krónum aukist.  Við styrkingu íslensku krónunnar lækki eftirstöðvar lánsins en tekjur stefnanda í íslenskum krónum lækki einnig.  Væri lánssamningurinn í íslenskum krónum væri fullkomið ójafnvægi á milli tekna og greiðslubyrði stefnanda af láninu.  Því sé óumdeilanlegt að vilji stefn­anda hafi staðið til þess að taka erlent lán og verði ekki annað ráðið af ársreikningum stefnanda fyrir árin 2007 til 2009 en að stefnandi hafi sjálfur litið á hið umþrætta lán sem skuld í erlendum gjaldmiðlum og viðurkennt þar með lögmæti lánanna.  Stjórnendur einkahlutafélags beri enda ábyrgð á ársreikningi félags og útgáfu hans, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

Að mati stefnda hafi stefnandi ekki orðið fyrir tjóni við veikingu krónunnar, meðal annars vegna þess að hann hafi átt hina erlendu gjaldmiðla tiltæka á gjalddögum inni á gjaldeyrisreikningum sínum og hafi því ekki þurft að kaupa erlendar myntir á innlendum gjaldeyrismarkaði til að standa í skilum.  Auk þess hafi stefnandi gert afleiðusamninga (vaxtaskiptasamninga) við fjármálastofnanir til að takmarka þessa gengisáhættu sína.  Stefnandi hafi því staðið jafnfætis stefnda við gerð samningsins og hafi verið fullljóst hvað væri félaginu til hagsbóta og hvað ekki.

Stefndi hafnar því, sem stefnandi haldi fram, að gjaldeyrisreikningar séu gengis­tryggð­ir.  Gjaldeyrisreikningar séu stofnaðir í einum ákveðnum gjaldmiðli og aðeins sé hægt að leggja inn á slíka reikninga í þeirri mynt.  Sama eigi við um úttekt af slíkum reikningum.  Þannig sé ekki hægt að taka íslenskar krónur út af gjaldeyris­reikningum heldur verði eigandi reikninganna að taka út viðkomandi mynt og selja hana fyrir íslenskar krónur.  Stefndi kveðst ekki vita til þess að með því að millifæra gjaldeyri, sem stefndi eigi inni á gjaldeyrisreikningum sínum, inn á gjaldeyrisreikning stefnanda flytjist gjaldeyrir til landsins.  Landsbanki Íslands hf. hafi átt gjaldeyri sem hann hafi keypt og hafi verið geymdur á gjaldeyrisreikningum bankans og hafi fjárhæðir verið millifærðar af þeim reikningum inn á reikninga stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, og til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 13. og 14. gr. laganna.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefndi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnanda.

V

Í málinu greinir aðila á um hvort lánssamningur þeirra á milli, nr. 10392, sé um lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningnum.  Ákvæðum samningsins, sem mestu ráða við úrlausn ágreinings aðila, er lýst hér að framan.  Framan á samningnum kemur fram að hann sé um lán að fjárhæð 250.000.000 íslenskra króna og í aðfararorðum hans segir að lánið sé fjölmyntalán að jafnvirði 250.000.000 íslenskra króna „í neðanskráðum myntum og hlutföllum“.  Þar á eftir eru tilgreindir gjaldmiðlarnir tveir og hlutföll þeirra og kveðið á um að fjárhæð þeirra verði ekki ákveðin fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Jafnframt er tekið fram að skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra gjaldmiðla eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum.  Eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins er, sam­kvæmt framangreindu, í íslenskum krónum en hvergi er getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar tveimur dögum fyrir útborgun lánsins.  Fjárhæð lánsins var þannig í grunnin ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum.  Stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur.  Hefði ætlun stefnda verið sú að lána stefnanda svissneska franka og japönsk jen hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir þeirra gjaldmiðla í samningi aðila.  Ekki er fallist á það með stefnda að orðalag aðfararorða samningsins, sem vísi til þess að samið sé um „fjölmyntalán“ að „jafnvirði“ íslenskra króna, geti ekki átt við um skuldbindingu í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011.  Jafnframt er haldlaus sú viðbára stefnda að ekki hafi verið unnt að tilgreina höfuðstól í hinum erlendu gjaldmiðlum þar sem hann hafi ekki legið fyrir fyrr en þegar skjalagerð vegna lánsins hafi verið lokið og skilyrðum fyrir útgreiðslu þess fullnægt.  Bendir það, þvert á móti, til þess að höfuðstóllinn hafi verið ákveðinn í íslenskum krónum, miðaður við gengi hinna erlendu gjaldmiðla.  Þá er í lánssamningi aðila ákvæði sem heimilar að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að eftirstöðvar skuldar miðist við aðra erlenda gjaldmiðla en upphaflega hafi verið samið um.  Kemur þar glöggt fram að hinir erlendu gjaldmiðlar eru notaðir til viðmiðunar á höfuðstól skuldarinnar.  Hvað varðar efndir aðila á skyldum sínum samkvæmt lánssamningnum þá er í grein 1.2 í samningnum gert ráð fyrir því að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun og tiltaki þá þann reikning sem leggja skuli lánshlutann inn á.  Jafnframt er tekið fram að form að beiðninni fylgi með samningnum sem viðauki 1.  Hvorki í ákvæði greinar 1.2 né í formi að útborgunarbeiðni kemur nokkuð það fram sem bendir til þess í hvaða gjaldmiðli eða gjaldmiðlum lánið skyldi greiða út í.  Þá óskar lántaki eftir því, samkvæmt grein 2.2 í lánssamningnum, að tékkareikning­ur hans í íslenskum krónum verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Í lánssamningnum er kveðið á um að lánið skuli bera LIBOR-vexti en í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands breytir það, eitt og sér, ekki gjaldmiðli lánsins.  Um vaxtavexti og dráttarvexti er svo vísað til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Af orðalagi lánssamningsins verður því ekki annað ráðið en að samið hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í raun efndi stefndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með greiðslu útborgunarfjárhæðinnar inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda, annars vegar reikning í japönskum jenum og hins vegar reikning í svissneskum frönkum.  Var það gert í sam­ræmi við ósk stefnanda samkvæmt útborgunarbeiðni.  Eins og að framan greinir kemur lánsfjáræðin hvergi fyrir í útborgunarbeiðninni heldur er aðeins vísað til útborgunarfjárhæðar sam­kvæmt lánssamningnum. 

Aðalskylda stefnanda samkvæmt samningnum er greiðsla vaxta og afborgana.  Ljóst er af grein 2.2 í lánssamningnum, sem og af framangreindri útborgunarbeiðni, þar sem stefnandi óskar eftir því að íslenskur tékkareikningur hans hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, að ætlun aðila var að greiðslur á gjalddögum lánsins yrðu í íslenskum krónum.  Tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum var þó aðeins einu sinni skuldfærður fyrir vaxta­greiðslum samkvæmt samningnum en annars reikningar hans í evrum og sterlings­pundum.  Reikningar stefnanda í japönskum jenum og svissneskum frönkum virðast aldrei hafa verið skuldfærðir fyrir greiðslum hans samkvæmt lánssamningnum.  Efndir stefnanda á aðalskyldu hans samkvæmt láns­samningnum styðja framangreinda niðurstöðu, um að samið hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, enda greiddi stefnandi af láninu ýmist í íslenskum krónum, evrum eða sterlingspundum en ekki í þeim gjaldmiðlum sem vísað er til í aðfararorðum samningsins.  Gildir þá einu hvernig bankinn nýtti þá gjaldmiðla við uppgjör lánsins enda getur það ekki haft áhrif á það um hvað aðilar sömdu í upphafi.

Þá getur það ekki hreyft framangreindri niðurstöðu um skuldbindingu samkvæmt lánssamningi aðila, nr. 10392, að tekjur stefnanda og aðrar óskildar skuldbindingar hans hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, né heldur hvort ójafnvægi hafi verið milli tekna og greiðslubyrði stefnanda af láninu.

Þeir viðaukar sem síðar voru gerðir kváðu á um breytingar á gjalddögum lánsins og á vaxtaálagi og vaxtatímabili en sérstaklega var tekið fram í þeim öllum að önnur ákvæði upphaflegs lánssamnings héldust óbreytt.  Samkvæmt orðalagi viðaukanna breyttu þeir því ekki gjaldmiðil lánsins né gefa þeir til kynna að upphaflega hafi verið samið um annað en lán í íslenskum krónum enda tilgreina þeir allir að upphaflega hafi verið samið um fjölmyntalán að jafnvirði 250.000.000 króna „í neðanskráðum myntum og hlut­föllum“.

Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu og dómafordæmum Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil. Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild.  Þar af leiðandi er fallist á dómkröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila, nr. 10392, sé bundinn ólögmætri gengis­tryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.  Stefnandi er einka­hlutafélag sem stundar virðisaukaskattskylda starfsemi og ákvarðast máls­kostnaður því án virðisaukaskatts.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að lánssamningur stefnanda, Auðbjargar ehf., og stefnda, Landsbankans hf., nr. 10392, frá 13. desember 2007, að fjárhæð 250.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.