Hæstiréttur íslands
Mál nr. 196/2010
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 23. september 2010. |
|
Nr. 196/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Sveinbirni Tryggvasyni(Brynjar Níelsson hrl.) (Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.) (Hjördís E. Harðardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Börn. Kynferðisbrot. Skaðabætur.
S var gefið að sök að hafa frá hausti eða vetri 2001, er A var 14 ára, til þess dags er hún varð 18 ára, tælt hana með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði, og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig nánast daglega samræði og önnur kynferðismök á heimili sínu. Var háttsemin talin varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. S bar því við að hann hafi kynnst A í september 2001 og að hafa haft tíð samskipti við hana frá þeim tíma til vors 2007. S gekkst við því að hafa reglulega gefið A gjafir, m.a. peninga, skartgripi og fatnað. Þá viðurkenndi hann að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A á heimili sínu, en framburður hans um það hvenær hann tók upp kynferðislegt samband við A var nokkuð á reiki og þótti það rýra trúverðugleika framburðar hans. Þá þótti ótrúverðugur framburður S um að hann hafi ekki vitað um réttan aldur A fyrr en hún hafi verið orðin 18 ára gömul. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, þótti sannað að S hefði gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greindi, en þó þannig að miða bæri við að hann hefði fyrst haft samræði eða önnur kynferðismök við A í byrjun árs 2002 þegar A var 14 ára. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að S ætti sér engar málsbætur og hann hefði brotið gróflega og ítrekað gegn ungri stúlku á viðkvæmu aldurs- og þroskaskeiði hennar. Þá var litið til þess að brot S voru viðvarandi og stóðu í langan tíma og honum hefði mátt vera það ljóst hversu alvarlegar afleiðingar atferli hans hlyti að hafa fyrir líf og sálarheil A. Var refsing hans talin hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var S gert að greiða A 1.200.000 krónur í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjum. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. mars 2008 til 27. júní 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en vexti af dæmdri bótakröfu, en um þá fer eins og í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að einkaréttarkrafa A skal bera vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. mars 2008 til 27. júní 2009, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Sveinbjörn Tryggvason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 757.363 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 25. september 2009, á hendur Sveinbirni Tryggvasyni, kt. 240433-3039, Bröttutungu 9, Kópavogi „fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], með því að hafa frá hausti eða vetri 2001, er stúlkan var 14 ára, til þess dags er stúlkan varð 18 ára, tælt stúlkuna með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði, og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig nánast daglega samræði og önnur kynferðismök.
Telst háttsemi ákærða varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Bótakrafa:
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. janúar 2004 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.“
Þar sem láðst hafði að tilgreina verknaðarstað í ákæru gaf ríkissaksóknari út framhaldsákæru á hendur ákærða hinn 23. nóvember sl. þar sem verknaðarstaður er tilgreindur og er verknaðarlýsing framhaldsákærunnar svohljóðandi:
„fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], með því að hafa frá hausti eða vetri 2001, er stúlkan var 14 ára, til þess dags er stúlkan varð 18 ára, tælt stúlkuna með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði, og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig nánast daglega samræði og önnur kynferðismök á heimili sínu að Bröttutungu 9, Kópavogi.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af refsikröfu ákæruvalds en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Að því er varðar skaðabótakröfu brotaþola er þess aðallega krafist að henni verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfunni og til þrautavara að bótakrafan verði lækkuð verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins.
II.
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að hinn 5. mars 2008 hafi brotaþoli, A, mætt á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lagt fram kæru á hendur ákærða í máli þessu fyrir kynferðisbrot. Í kæruskýrslunni greindi brotaþoli frá því að ákærði væri tæplega 75 ára gamall og byggi að Bröttutungu 9 í Kópavogi, en það væri eins konar tengihús. Hún kvað ákærða braska með bíla og jafnvel fasteignir og eiga fyrirtækið Egil Vilhjálmsson ehf. Kvaðst brotaþoli hafa séð ákærða fyrst árið 2000 þegar hún var 13 ára og að vinna í kjötborði [...] á [...], en þangað hefði ákærði komið að versla. Síðar hefði hún verið á leið heim til sín fótgangandi í vondu veðri og illa klædd þegar ákærði hefði stöðvað bifreið sína og boðið henni far. Ákærði hefði við sama tækifæri boðið henni vinnu, gefið henni símanúmer sitt og fimm þúsund krónur í peningum. Sagðist brotaþoli halda að þetta hefði verið í september árið 2000. Einhverju síðar hefði ákærði haft samband við hana og farið með hana í skartgripabúð þar sem hún hefði mátt velja sér gjöf. Þá hefði ákærði haldið áfram að gefa henni gjafir og peninga.
Fljótlega hefði ákærði farið að bjóða henni heim til sín og m.a. boðið henni að nota ljósabekk, sem hann hefði verið með á heimili sínu. Eftir nokkur skipti hefði ákærði beðið hana um að afklæðast, sem hún hefði og gert. Þá hefði ákærði tekið vídeómyndir af henni nakinni og síðan farið með hana inn í herbergi. Hún hefði verið skelkuð og sagst vera lasin. Ákærði hefði því ekki haft samfarir við hana í þetta skiptið en káfað á henni allri. Þetta hefði þróast hratt áfram og ákærði hefði síðar einnig farið með hana inn í annað herbergi með billjardborði. Þar hefði hann látið hana upp á borðið og stungið agúrku, banana og ýmsum hjálpartækjum ástarlífsins upp í leggöng hennar og endaþarm. Sagðist hún minnast þess að oft hefði blætt úr endaþarmi hennar vegna þessa. Hún sagði að þetta hefði ákærði allt tekið upp á vídeómyndavél. Eftir að hafa átt við hana á billjardborðinu hefði ákærði farið með hana í annað herbergi þar sem hann hefði haft við hana samfarir. Sagðist brotaþoli halda að ákærði hefði fyrst haft við hana samfarir u.þ.b. þremur til fjórum mánuðum eftir að þau kynntust, en þá hefði hún verið 13 ára. Brotaþoli greindi frá því að stundum hefði ákærði sýnt henni vídeómyndir, sem hann hafði tekið af henni nakinni og á meðan hann var að eiga við hana. Einnig hefði ákærði sýnt henni annars konar klámefni.
Brotaþoli kvaðst hafa átt kynferðislegt samneyti við ákærða nánast daglega frá því að hún var 13 ára til tvítugs, þ.e. til vorsins 2007, en þá hefðu þau hist síðast og stundað kynlíf. Þegar hún var 14 ára hefði hún farið að neyta fíkniefna, en hún sagðist hafa deyft sig með fíkniefnum áður en hún heimsótti ákærða. Hún sagði að ákærði hefði vitað af fíkniefnaneyslu hennar. Brotaþoli sagðist hafa smitast af klamidíu hjá ákærða, en það hefði gerst áður en hún fór að stunda kynlíf með öðrum mönnum en honum. Sagðist hún telja að ákærði hefði verið að hitta aðrar stúlkur á meðan hann hitti hana. Brotaþoli sagðist hafa farið í meðferð í júní 2007 eftir að hún hætti að hafa samskipti við ákærða.
Brotaþoli tjáði lögreglu að eftir að þau ákærði kynntust hefði hann frá fyrstu tíð elt hana og fylgst með henni. Eitt sinn hefði hún verið með vin sinn í heimsókn og þá hefði ákærði hringt og hótað henni að hún fengi ekki bíl frá honum ef vinurinn yrði ekki farinn út eftir 20 mínútur. Sagði brotaþoli að ákærði hefði borgað fyrir hana bílprófið og einnig gefið í skyn að hann ætlaði að gefa henni bíl. Hefði hann keypt bíla í þessum tilgangi og látið þá standa á hlaðinu hjá sér, en selt þá ef brotaþoli hlýddi honum ekki. Einu sinni hefði ákærði læst hana inni í herbergi í fjóra tíma þar sem hann hefði verið ósáttur við hana.
Brotaþoli sagði móður sína hafa grunað ýmislegt, en brotaþoli sagðist hafa búið til mikla lygasögu til að útskýra ýmislegt sem hún hefði verið að fá frá ákærða. Í æsku hefði hún átt vin sem var eldri en hún og sagðist hún hafa sagt móður sinni að foreldrar þessa vinar síns væru henni svo góðir og að þeir gæfu henni eitt og annað.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði alltaf sagt henni að hún ætti að segja öðrum að hún væri að vinna hjá honum. Sagðist hún og hafa gert það. Hún sagðist þó ekki hafa sagt móður sinni það þar sem móðir hennar hefði þá fljótlega áttað sig á þessu. Hún sagði að það hefði frést um [...] að hún væri að hitta gamlan mann. Ein vinkvenna hennar hefði komið með henni til ákærða og hefði ákærði þá gefið þessari vinkonu hennar jakka. Vinkonan hefði verið hissa á þessu og sagt foreldrum sínum frá því. Hún sagði að þegar hún hefði verið í bíl með ákærða hefði hann látið hana vera með hárkollu og stór sólgleraugu svo að hún þekktist síður. Þrátt fyrir þetta hefðu foreldrar vinkonu hennar eitt sinn mætt þeim og þekkt A, en þeir hefðu þó ekkert gert í málinu. Hún sagði að sögusagnir hefðu gengið um samband þeirra ákærða á meðan hún var nemandi í [...]skóla, en enginn hefði þó gert neitt í málinu. Þá sagði brotaþoli að tvær aðrar vinkonur hennar hefðu hugsanlega vitað eitthvað um ákærða og tengsl hans við brotaþola, en engin vitni væru þó að því sem gerst hefði innan veggja heimilis ákærða.
Brotaþoli tjáði lögreglu að finna mætti nærföt af henni og hugsanlega gallajakka og rauða kápu á heimili ákærða. Þar mætti og finna kvenfatnað, sem hún vissi ekki af hverjum væri.
Loks sagðist brotaþoli hafa leitað til geðlæknis vegna ofsakvíðakasta og þunglyndis, en jafnframt til sálfræðings vegna vanlíðunar. m.a. vegna samskiptanna við ákærða.
Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 16. júlí 2008. Greindi hún þar frá málavöxtum með svipuðum hætti og áður. Hún sagði að ákærði hefði gefið henni peninga þegar hún hitti hann fyrst, síma í annað skiptið sem þau hittust og í fjórða eða fimmta skiptið, eða um mánuði eftir það þau hittust fyrst, hefði hann farið með hana í skartgripabúð í [...] til að velja sér skartgripi, en ákærði hefði gefið henni þá í fermingargjöf.
Hún sagði að ákærði hefði frá byrjun vitað hversu gömul hún var. Hann hefði t.d. vitað af því hvar hún var stödd í skóla og haft af því áhyggjur hvernig henni gengi í samræmdu prófunum. Þá hefði ákærði alltaf náð í hana í [...]skóla.
Brotaþoli sagðist oft hafa reynt að hætta að tala við ákærða með því að slökkva á símanum, en einhvern veginn hefði ákærði alltaf náð tökum á henni aftur. Hún sagðist ekki hafa þorað að leita til neins fullorðins vegna málsins af þeim sökum að hún hefði talið að þetta væri allt sér að kenna og að hún væri vond manneskja. Þá hefði ákærði sagt henni að hann væri bjargvætturinn í lífi hennar og að án hans væri hún ekki neitt.
Brotaþoli sagði að B, vinkona hennar, hefði vitað af sambandi hennar og ákærða, en brotaþoli sagðist hafa kynnst B þegar hún var sjálf 13 til 14 ára gömul.
Í þessari síðari skýrslutöku bar brotaþoli kennsl á fatnað, sem haldlagður hafði verið við húsleit á heimili ákærða.
Hinn 7. mars 2008 var gerð húsleit á heimili ákærða að Bröttutungu 9 í Kópavogi. Í skýrslu lögreglu, dags. 11. mars 2008, segir að húsið að Bröttutungu 9 sé eins konar tengihús á tveimur hæðum og með áföstum tvöföldum bílskúr. Á neðri hæð sé komið inn í anddyri en þaðan sé gengið inn í stórt hol og þaðan inn í stórt herbergi. Í því hafi verið billjardborð og lítill sófi og lítil borð sitt hvorum megin við hann. Við hlið þessa herbergis sé enn stærra herbergi, sem notað hafi verið sem skrifstofa. Þar inni geti að líta sófa, stóla, skrifborð og skápasamstæðu. Á borðinu hafi verið tölvuskjár, en tölvuna sjálfa hafi verið að finna í næsta herbergi, sem sé nokkuð stórt og langt. Þar hafi verið að finna umrædda tölvu, prentara, lítinn svefnbekk, annað skrifborð, sjónvarp og hillusamstæður. Að auki hafi verið að finna á neðri hæðinni annað lítið baðherbergi með sturtu og lítið herbergi, sem notað hafi verið sem þvottahús.
Frá holinu liggi stigi upp á efri hæðina og þar sé komið upp í tvær samhliða stofur á hægri hönd. Í stærri stofunni hafi verið sjónvarp, myndbandstæki o.fl. Gegnt stiganum sé gengið inn í eldhús og strax til vinstri inn í svefnherbergisálmu með fjórum svefnherbergjum og einu baðherbergi. Fyrsta herbergið á hægri hönd sé frekar lítið og þar hafi eingöngu rúmast ljósabekkur. Við hlið þessa herbergis sé baðherbergið. Innst í þessari álmu sé að finna svefnherbergi ákærða, en þaðan sé hægt að ganga út á stórar svalir. Þá er tekið fram að bílskúrinn sé tvöfaldur og rúmgóður. Inni í honum hafi verið tveir bílar, en lítið annað markvert þar að sjá.
Í skýrslunni segir að í skápskúffu í billjardherberginu hafi fundist kynlífsleikföng, þ.e. tveir stórir gervilimir og tvö egg, sem klædd hafi verið smokkum. Jafnframt hafi þar verið að finna sleipiefni. Í einum vasa billjardborðsins hafi verið að finna plastflösku, sem innihaldið hafi eins konar sleipiefni. Í herberginu hafi fundist JVC myndbandsupptökutæki á þrífæti. Við frumrannsókn á dúk billjardborðsins hafi fundist ummerki lífsýna.
Í litlu geymslunni á milli billjardherbergisins og litla baðherbergisins hafi verið rauð kvenkápa og gallajakki og í stórum fataskáp í holinu fundust fjögur kvenskópör. Tjáði ákærði lögreglu að brotaþoli ætti þennan fatnað.
Í skrifstofuherberginu hafi verið dökk skápasamstæða. Í einum skápanna hafi verið að finna nokkurt magn af kvenfatnaði, aðallega undirföt, sem ákærði sagði að brotaþoli ætti. Á bak við hurð í herberginu hafi einnig verið að finna kvenfatnað, sem ákærði hafi talið að mestu í eigu brotaþola.
Við húsleitina lagði lögregla hald á áðurnefnd kynlífsleikföng, hluta dúks af billjardborðinu og áklæði af svefnbekknum ásamt tveimur koddaverum, en koddar þessir voru á svefnbekknum. Einnig myndbandsupptökuvél, kvenfatnað, myndavél og filmur, myndbandsspólur, tvær borðtölvur og geisladisk. Í skýrslunni segir að það sem ekki var haldlagt á vettvangi hafi verið ljósmyndað.
Samkvæmt upplýsingaskýrslum lögreglu 14. maí 2008 fannst ekkert klámefni eða barnaklámefni á tveimur turntölvum við leit í gagnageymslum þeirra. Skoðun á haldlögðum myndböndum lauk 17. mars 2008 og samkvæmt upplýsingaskýrslu, dags. sama dag, fannst ekkert ólöglegt efni á þeim eða efni, sem tengist máli þessu.
Meðal gagna málsins er skýrsla tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. maí 2008, um rannsókn á munum, sem haldlagðir voru á vettvangi. Um rannsókn á afskornum dúk af billjardborði, koddaverum og dýnuhlíf segir að hún hafi leitt í ljós að í koddaveri og dýnuhlíf hafi fundist blettir, sem gefið hafi jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem sæði. Smásjárskoðun hafi ennfremur leitt í ljós að í sýnum frá blettum á dýnuhlífinni hafi einnig fundist sáðfrumur og séu þar til staðar lífsýni sem nothæf séu til DNA-kennslagreiningar. Engar sáðfrumur hafi hins vegar verið sjáanlegar í smásjársýnum frá blettum í koddaverinu.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 23. mars 2009, og meðfylgjandi tölvupósti frá launafulltrúa [...], dagsettum sama dag, var brotaþoli á launaskrá hjá [...] í [...] frá 9. júní 2001 til 15. ágúst 2001.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 26. mars 2009, kemur fram að haft hafi verið samband við tannlæknastofu C þann sama dag vegna upplýsinga, sem fram hefðu komi í skýrslu brotaþola. Við athugun í skrám tannlæknastofunnar hefði komið fram að B, kt. [...], kom til umrædds tannlæknis hinn 14. febrúar 2006 vegna smíða á lýsingaskinnum. C hafi ekki getað fullyrt að hann myndi eftir þessu atviki, en sagði að þetta væri aðgerð sem kostaði talsverða fjármuni. Ekki væri hægt að sjá hvernig greitt hefði verið fyrir aðgerðina. Aðspurður hafi C sagst þekkja ákærða, en ekki geta sagt til um tengsl hans og stúlkunnar. Hann sæi þó að hann hefði gefið afslátt á aðgerðinni á sínum tíma og því mætti ætla að hann hefði þekkt til þess aðila sem greiddi fyrir aðgerðina.
Meðal gagna málsins eru fimm ljósmyndir af brotaþola, sem ákærði framvísaði hjá lögreglu og sagðist hafa tekið í maí 2002. Einnig framvísaði ákærði að eigin ósk sex farsímum til frekari rannsóknar, sem og yfirliti yfir sms-skilaboð á milli hans og brotaþola á tímabilinu frá 28. janúar 2002 til 25. ágúst 2007.
Með bréfi, dags. 20. maí 2009, óskaði lögreglan eftir upplýsingum frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um hvort brotaþoli og ákærði hefðu leitað sér læknisaðstoðar vegna klamidíusýkingar á árinu 2001 eða 2002. Í tölvupósti Lúðvíks Ólafssonar, lækningaforstjóra á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 21. júlí 2009, segir að brotaþoli hafi verið með jákvætt sýni um klamidíusýkingu á rannsóknastofu Landspítalans hinn 27. nóvember 2001. Hún hafi síðan átt neikvætt sýni í desember 2002. Að ábendingu ákærða var leitað eftir upplýsingum um hann hjá annars vegar D heimilislækni og hins vegar E húðlækni. Í bréfi D segir að í gögnum hans sé ekki að finna neinar upplýsingar um klamidíusmit og í bréfi E segir að ákærði hafi leitað til hennar af og til frá árinu 1996, en aldrei vegna kynsjúkdóma, svo sem klamidíu.
Meðal gagna málsins er greinargerð F sálfræðings, dagsett 28. júní 2008. Þar kemur fram að brotaþoli hefur verið í vikulegum viðtalstímum hjá henni frá því í desember 2007, en þá hafði hún nýlokið meðferð við áfengis- og vímuefnanotkun. Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar segir eftirfarandi:
„Í sálfræðiviðtölum hefur A ávallt verið samkvæm sjálfri sér og virðist einlæg og heiðarleg. Frásögn hennar af sálrænum viðbrögðum eru trúverðug og í samræmi við tjáða atburðarás. Í sálrænni úrvinnslu hefur hegðun og tilfinningaleg og líkamleg viðbrögð ávallt verið í fullu samræmi við frásagnir og ljóst að A hefur verið að vinna úr alvarlegum sálrænum áföllum, sem hafa haft víðtæk áhrif á líf hennar og líðan.“
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:
Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa kynnst brotaþola í september 2001 en þá hefði hann ekið fram á hana á gangi við Sundlaug [...], illa klædda og í ausandi rigningu. Sagðist hann hafa tekið hana upp í bílinn og ekið henni heim. Að skilnaði hefði hann gefið brotaþola eitt þúsund krónur þar sem brotaþoli hefði borið sig illa og sagst vera blönk. Þá hefði hann að beiðni brotaþola gefið henni símanúmerið sitt.
Nokkrum vikum seinna hefði brotaþoli hringt í hann og beðið hann um peninga. Sagðist ákærði þá hafa látið hana hafa fjögur þúsund krónur. Spurður um ástæðu þess að hann lét brotaþola hafa peninga sagðist ákærði almennt vera mjög gjafmildur maður. Í þetta sinn hefði hann tekið brotaþola upp í bílinn við sjoppu þar sem brotaþoli hefði beðið hann um að hitta sig, ekið einn hring í kringum sjoppuna og afhenti brotaþola peningana.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði alltaf verið að hringja í hann og biðja hann um að skutla sér hingað og þangað. Þá hefði brotaþoli stundum beðið hann um peninga fyrir sígarettum og öðru og þá hefði hann látið hana fá peninga fyrir því. Brotaþoli hefði fyrst komið á heimili hans nokkrum vikum eftir að þau kynntust. Hefði einhverju sinni komið til tals að hann væri með ljósabekk heima hjá sér og þá hefði brotaþoli spurt hvort hún mætti koma heim til hans í ljós. Eftir það hefði brotaþoli oft komið á heimili hans til þess að fara í ljós og sagðist ákærði iðulega hafa sótt brotaþola og ekið henni aftur heim að lokinni heimsókn. Hann sagði að brotaþoli hefði ekki aðeins komið til að fara í ljós heldur hefðu þau oft sest niður og rætt saman. Hann sagði að samband þeirra brotaþola hefði ekki verið kynferðislegt fyrstu árin, en þau hefðu hins vegar tekið upp kynferðislegt samband nokkrum mánuðum áður en brotaþoli fékk bílpróf á árinu 2004. Sagðist ákærði þá hafa talið að brotþoli væri að verða 19 ára, en þá hefði hún í raun og veru verið tæplega 17 ára.
Ákærði sagði að þegar hann hefði hitt brotaþola fyrst hefði hann spurt hana að því hvað hún væri gömul og þá hefði brotaþoli sagst vera 16 ára. Ákærði hefði þá sagt við hana að hún liti út fyrir að vera 18 til 19 ára gömul og hefði brotaþoli játað því og tjáð honum að hún segðist vera eldri þegar hún færi út að skemmta sér. Ákærði sagðist oft hafa spurt brotaþola að því hvers vegna hún tæki ekki bílpróf en hún hefði þá sagt honum að henni þætti miklu þægilegra að hann skutlaði henni. Sagðist ákærði ekki hafa áttað sig á því að brotaþoli hefði í raun og veru ekki aldur til þess að taka bílpróf. Ákærði sagðist ekki muna það nákvæmlega hvenær brotaþoli fékk bílpróf. Hún hefði reynt við prófið skömmu eftir að hún hafði aldur til þess að taka prófið, en þá hefði hún fallið. Síðar hefði hún reynt aftur og þá náð bílprófinu. Tók ákærði fram að á þessum tíma hefði hann haldið að brotaþoli væri tveimur árum eldri en hún raunverulega var.
Um aðdraganda þess að þau brotaþoli tóku upp kynferðislegt samband á árinu 2004 sagði ákærði að þau hefðu einhverju sinni hist á neðri hæð hússins eins og ákærði orðaði það. Brotaþoli hefði verið nakin og þau rætt saman og síðan kysst hvort annað og í framhaldi af því haft samfarir. Fram að þessu eða frá 2001 til 2004 hefði samband þeirra ekki verið kynferðislegt. Eftir þetta hefðu þau brotaþoli haft samfarir einu sinni til þrisvar sinnum í viku. Þau hefðu hins vegar haft samskipti nánast daglega þar sem hann hefði oft verið að skutla brotaþola á milli staða. Brotaþoli hefði hins vegar ekki komið á heimili hans á hverjum degi. Nánar aðspurður um kynlíf þeirra sagði ákærði að þau hefðu haft samræði og munnmök hvort við annað. Þá hefðu þau notað hjálpartæki, sem kallað væri egg, en önnur hjálpartæki, þ.e. gervilimi, sem fundist hefðu á heimili hans, hefðu þau aðeins talað um og skoðað, en ekki notað. Sagði ákærði að þessi hjálpartæki væru í hans eigu. Þá viðurkenndi ákærði að hafa tekið myndir af kynlífi þeirra brotaþola. Þessar myndir hefðu þau skoðað og síðan þurrkað jafnóðum út. Hann sagði að þau brotaþoli hefðu haft munnmök á biljarðborðinu, en samfarirnar hefðu átt sér stað á legubekk í innri skrifstofunni. Ákærði kannaðist við það að samskipti þeirra brotaþola hefðu verið með sama hætti í hvert skipti, þ.e. þau hefðu byrjað á ákveðnum stað og endað á öðrum.
Aðspurður sagði ákærði að þau brotaþoli hefðu stundað kynlíf sitt á heimili hans að Bröttutungu 9, nánar tiltekið í innri skrifstofu á neðri hæð hússins. Hann sagði að þau hefðu aldrei stundað kynlíf í svefnherbergi hans, sem væri á efri hæðinni. Hann sagði að enginn hefði vitað af sambandi þeirra og sagðist hann aldrei hafa haft samband við foreldra brotaþola eða vini. Aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hefði beðið hann um að kaupa hárkollu og sólgleraugu til setja upp þegar hún væri í bíl með honum þar sem einhver hafði þá séð til þeirra saman í bíl og strítt henni á því.
Aðspurður um gjafir til brotaþola sagðist ákærði t.d. hafa boðið brotaþola að fara í skartgripabúð til að velja sér þar hring og armband sem hana langaði í, en þetta hefði verið þremur til fimm mánuðum eftir að þau kynntust. Þá sagðist ákærði t.d. hafa gefið brotaþola sófa, úr og síma, en allt hefðu þetta verið hlutir sem hún hefði beðið um. Einnig sagðist ákærði hafa gefið brotaþola fatnað. Brotaþoli hefði þá farið og valið sér fatnað í verslunum og tekið hann frá, en ákærði hefði síðan farið og sótt hann. Hann sagði að brotaþoli hefði oft haft samband vegna þess að hana vantaði eitt og annað og hefði hann stundum veitt henni það sem hún bað um en stundum ekki. Þegar hann hefði verið staddur úti á landi eða erlendis og brotaþola vantaði peninga hefði brotaþoli beðið hann um að leggja inn á reikning vinkonu sinnar. Sagðist hann fyrst hafa lagt inn á reikning brotaþola þegar samband þeirra var að líða undir lok. Ákærði sagðist hafa gefið brotaþola nokkra síma. Þá sagðist hann stundum hafa hringt í hana.
Aðspurður sagðist ákærði fyrst hafa áttað sig á aldri brotaþola þegar hann heyrði brotaþola gefa upp kennitölu sína en hún hefði þá verið að panta eitthvað í gegnum síma. Sagðist ákærði halda að þá hefði brotaþoli verið 18 ára, en þetta hefði verið ári eftir að brotaþoli fékk bílpróf eða árið 2005. Hann sagði að það væri rangt hjá brotaþola að hún hefði sagt honum strax hversu gömul hún væri.
Aðspurður kvaðst ákærði alls ekki hafa litið á sig sem kærasta brotaþola. Þau brotaþoli hefðu bara hist og rætt saman, en síðar hefðu þau tekið upp kynferðislegt samband. Brotaþoli hefði sífellt verið að biðja hann um peninga og gjafir og sagðist ákærði bara hafa haft gaman af því að gefa brotaþola hitt og þetta. Ákærði neitaði því að hafa fylgst með brotaþola, en sagðist tvisvar hafa elt brotaþola og í báðum tilfellum hefði brotaþoli verið á bíl frá honum. Brotaþoli hefði neitað að skila bílunum eða ekki látið ná í sig og því hefði hann farið á stúfana til að hafa uppi á brotaþola. Í fyrra skiptið hefði hún verið á Cherokee-jeppabifreið, sem ákærði sagðist hafa þurft að koma á verkstæði áður en hann færi utan. Sagðist ákærði hafa séð hana á bifreiðinni við heimili brotaþola og með henni hefði verið yngri bróðir hennar. Í síðara skiptið hefði brotaþoli verið á Golf-bifreið og með henni vinkona hennar. Sagðist ákærði hafa séð til þeirra á Smáratorgi, stöðvað bifreið sína og haldið að brotaþoli kæmi til hans. Brotaþoli hefði hins vegar ekið í burtu. Ekki hefði verið um mikla eftirför að ræða, heldur sagðist ákærði hafa ekið á eftir brotaþola og veifað henni.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði átt kærasta á meðan á sambandi þeirra stóð og örugglega eftir að samband þeirra varð kynferðislegt. Sagði hann að það hefði ekki skipt sig neinu máli. Hann sagði að brotaþoli hefði þó kvartað yfir að fá aldrei frið fyrir kærastanum og því þyrfti hún að fá nýtt símanúmer o.s.frv. Samt sem áður hefði hún ekki slitið sambandi sínu við kærastann.
Aðspurður neitaði ákærði því að hafa gefið brotaþola gjafir í þeim tilgangi að hún hefði við sig samfarir. Hann sagði að löngu eftir að þau kynntust hefði brotaþoli tjáð honum að hún hefði átt nokkra kærasta og að henni hefði verið nauðgað á útihátíð ári áður en þau kynntust. Ákærði sagðist ekki hafa orðið var við að brotaþoli neytti fíkniefna. Þá sagðist ákærði ekki hafa vitað af því að brotaþoli hefði fengið klamidíu og sagðist sjálfur ekki hafa fengið slíkan sjúkdóm. Hann sagði að brotaþoli hefði einu sinni viljað láta hvítta í sér tennurnar og hefði hún farið til tannlæknis í þeim tilgangi. Hefði hún notað kennitölu vinkonu sinnar hjá tannlækninum vegna þess að hún vildi ekki að móðir sín frétti af þessu. Sagðist ákærði hafa pantað tíma og gefið upp nafn og kennitölu vinkonu brotaþola.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði aldrei komið með vinkonur sínar heim til hans. Hann sagðist hins vegar þrisvar hafa ekið brotaþola og vinkonum hennar á milli staða. Í fyrsta skipti hefði hann sótt brotaþola og vinkonur hennar á skemmtistað í [...] og skutlað þeim á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Í annað skiptið hefði hann sótt brotaþola og vinkonur hennar [...] niðri við [...] í miðbæ Reykjavíkur og skutlaði þeim heim til ömmu brotaþola. Í þriðja sinnið hefði hann sótt brotaþola og vinkonu hennar í partí á [...]götunni og skutlað brotaþola heim. Vinkona hennar hefði hins vegar viljað fara aftur í partíið á [...]götunni og hefði hann ekið henni þangað með viðkomu á [...] til að kaupa sígarettur. Einnig hefði hann gefið vinkonunni eitt þúsund krónur til að taka bíl heim.
Ákærði sagði að ekki væri rétt að stundum hefði blætt úr brotaþola eftir samfarir þeirra. Þá væri ekki rétt hjá brotaþola að hann hefði læst hana inni í herbergi á heimili sínu, enda væri ekki hægt að læsa einni einustu hurð í húsinu. Þá sagði hann að rangt væri að brotaþoli hefði einhverju sinni lokað sig inni í bílskúr og ákærði ekið á bílskúrshurðina. Sagði hann að þetta væri fjarstæða þar sem hann hefði um sjö leiðir að velja til að komast inn í bílskúrinn.
Aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hefði sagt sér að einhver ákveðin vinkona hennar ætti mjög erfitt og því hefði hann hringt í þessa vinkonu brotaþola og gefið henni 20.000 krónur. Einnig hefði hann sagt vinkonunni að hún mætti hringja í hann ef hún lenti í einhverjum þrengingum. Þessi stúlka hefði síðan hringt í hann löngu síðar og beðið hann um peninga, en þá sagðist ákærði hafa séð að hún var í óreglu og sennilega undir áhrifum vímuefna. Sagðist hann því hafa neitað því að aðstoða hana. Ákærði sagði að ekki væri rétt að hann hefði sagst vera frá [...].
Ákærði var spurður um skýringu á misræmi í framburði hans hjá lögreglu um það hvenær þau brotaþoli hefðu fyrst haft kynmök. Í skýrslutökunni segi hann ýmist að þau hafi fyrst haft kynmök tveimur árum eftir að þau kynntust, þ.e. árið 2003, eða tveimur til tveimur og hálfu ári fyrir skýrslutökuna, sem fram hafi farið 2008, þ.e. árið 2005 eða 2006. Sagði ákærði að honum hefði ekki liðið vel í skýrslutökunni og því hefði hann ekki munað þetta nákvæmlega.
Aðspurður sagðist ákærði hafa sótt brotaþola á ýmsa staði, m.a. á heimili hennar, í sundlaug [...], í Menntaskólann [...] og víðar. Hann sagðist ekki hafa orðið var við að brotaþoli væri í grunnskóla þegar hann kynntist henni. Sagðist hann iðulega hafa tekið ákærðu upp í bílinn í nágrenni sundlaugarinnar eða Menntaskólans [...]. Sagði hann að brotaþoli hefði haldið því alveg leyndu fyrir sér hversu gömul hún væri. Aðspurður sagðist ákærði aldrei hafa séð ástæðu til að grennslast fyrir um aldur stúlkunnar.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 7. mars 2008. Þar viðurkenndi ákærði að hafa haft samfarir við brotaþola. Skýrði hann frá upphafi kynna þeirra brotaþola með sama hætti og hér fyrir dómi og sagði að þau hefðu kynnst í september eða október 2001. Um það bil tveimur árum síðar hefðu þau byrjað að hafa samfarir. Sagðist hann síðast hafa haft kynferðisleg samskipti við hana vorið eða sumarið 2007. Síðar í skýrslunni, sem gefin er í mars 2008, sagðist ákærði fyrst hafa átt kynferðislegt samneyti við brotaþola fyrir um tveimur til tveimur og hálfu ári, þ.e. árið 2005 eða 2006. Að öðru leyti skýrði ákærði í megindráttum frá á sama hátt og hér fyrir dómi.
Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 27. maí 2009. Þar sagði hann að samband þeirra brotaþola hefði þróast yfir í kynlífssamband skömmu áður en brotaþoli fékk bílpróf og með því hefði brotaþoli verið að tryggja það að hann myndi borga fyrir hana bílprófið og jafnvel bíl. Sagðist hann þá hafa talið að brotaþoli væri að verða 19 ára. Tveimur til þremur mánuðum síðar hefði hann áttað sig á réttum aldri brotaþola. Nánar aðspurður sagði hann að kynlífssamband þeirra hefði hafist tveimur til þremur mánuðum áður en brotaþoli fékk bílpróf og tveimur og hálfu ári eftir en þau kynntust.
Brotaþoli, A, sagðist fyrst hafa séð ákærða þegar hún vann í kjötborðinu í [...] á [...] sumarið 2001. Síðar hefði hún verið á gangi í rigningu skammt frá Sundlaug [...] þegar ákærði hefði stöðvað bifreið sína hjá henni og boðið henni far. Hún sagði að ákærði hefði spurt hana hvort hana langaði í aðra vinnu. Þá hefði ákærði ekið henni heim, rétt henni fimm þúsund krónur og spurt hana um símanúmerið hennar.
Brotaþoli sagðist halda að þetta hefði átt sér stað annaðhvort rétt áður eða skömmu eftir að hún varð 14 ára. Nánar aðspurð sagðist hún halda að ákærði hefði fyrst tekið hana upp í bílinn í júní 2001.
Nokkrum dögum síðar hefði ákærði hringt og spurt hvort hann mætti hitta hana. Sagðist brotaþoli hafa farið að hitta hann og spurt hann um vinnuna, en ákærði hefði eytt því tali. Þess í stað hefði ákærði spurt hana að því hvort hana langaði ekki að fara í skartgripabúð í [...] til að velja sér fermingargjöf. Þá hefði hann sagt að hún mætti velja sér allt sem hana langaði í versluninni. Hefðu þau farið í skartgripabúðina og ákærði ekið henni heim að því loknu.
Nokkru síðar hefði ákærði endilega viljað bjóða henni heim til sín. Sagðist brotaþoli alltaf hafa verið að spyrja um vinnuna, sem ákærði ætlaði að útvega henni, en hann hefði ávallt eytt því tali. Ákærði hefði endilega viljað bjóða henni í ljós og sagðist brotaþoli vel muna eftir fyrsta skiptinu sem hún hefði farið í ljós hjá ákærða. Sagðist hún hafa farið inn í herbergið þar sem ljósabekkurinn var, lokað á eftir sér og sett handklæðið vel utan um sig þegar hún fór í sturtu. Eftir tvö skipti hefði ákærði beðið hana um að koma með sér inn í herbergi og sagðist brotaþoli bara hafa lagst upp í rúm og sagst vera veik og lokað augunum.
Hún sagði að ákærði hefði verið mjög almennilegur og sagst ætla að gefa henni bílprófið ef hún hlýddi honum og gerði allt sem hann bæði um, þ.e. svaraði alltaf símtölum frá honum og kæmi alltaf þegar hann bæði um það. Þá hefði hann sagt að hún væri heppin að hitta hann og að ekkert hefði orðið úr henni ef hún hefði ekki hitt hann. Ekkert meira hefði verið rætt um vinnuna sem ákærði ætlaði að útvega henni. Eitt sinn hefði ákærði verið að aka henni heim og þá hefði hann strokið henni um lærið og sagt við hana að hann vildi ganga alla leið. Sagði brotaþoli að þetta hefði verið einum og hálfum til tveimur mánuðum eftir að þau hittust fyrst. Brotaþoli sagði að síðan hefði þetta gengið alla leið, þ.e. þau ákærði haft samfarir heima hjá ákærða að Bröttutungu 9. Í minningunni væri þetta fyrsta skipti eins og í þoku og sagðist hún ekki muna glöggt eftir kynmökunum sem slíkum. Aðspurð sagði hún að þegar þau ákærði hefðu fyrst haft kynmök hefðu í mesta lagi tveir mánuðir verið liðnir frá því að þau kynntust. Nokkrum dögum síðar sagðist brotaþoli hafa sagt vinkonu sinni, B, frá því að hún hefði sofið hjá ákærða.
Eftir þetta hefðu þau ákærði haft samfarir daglega og stundum tvisvar á dag. Ákærði hefði oft náð í hana í skólann, m.a. [...]skóla, svo og í vinnuna og heim til hennar. Hún sagði að ákærði hefði ekki komið upp að skólanum heldur tekið hana upp við strætóskýli í götunni fyrir neðan [...]skóla. Sagðist hún alltaf hafa sett upp hárkollu og sólgleraugu í bílnum hjá ákærða og hefði hún gert það að beiðni ákærða, en hún sjálf hefði ekki viljað það. Sagði hún að ákærði hefði keypt tvær hárkollur í þessu skyni.
Brotaþoli sagði að þau ákærði hefðu haft samfarir, svo og munnmök hvort við annað og notað hjálpartæki. Alltaf hefði verið um sömu rútínu að ræða, þ.e.a.s. hún hefði komið inn og farið inn í skrifstofuherbergið og klætt sig þar úr fötunum. Þaðan hefði hún stundum farið upp á aðra hæð og út á svalir að reykja. Þá hefði hún farið í ljós og síðan í sturtu. Næst hefði hún farið inn í billjardherbergið, en þar hefðu hjálpartækin verið og stundum myndavél. Einnig hefði verið myndavél í herberginu þar sem hún afklæddist. Að lokum hefðu þau farið inn í skrifstofuherbergið þar sem svefnbekkurinn hefði verið.
Hún sagði að ákærði hefði gert allt fyrir hana, gefið henni gjafir og verið mjög almennilegur við hana eða allt þar til hún svaraði eitt sinn ekki símtali frá honum. Hefði hann þá náð í hana heim til hennar, verið mjög reiður og spurt hana hvers vegna í andskotanum hún hefði ekki svarað í símann. Hefði hann farið með hana heim til sín og sagt henni að drulla sér inn í herbergi og setjast þar. Hefði hann sagt við hana að svona gerði hún ekki og að hún ætti að hlýða honum, annars myndi hann ekki borga bílprófið fyrir hana. Brotaþoli sagði að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún sá ákærða reiðan og sagðist hún hafa orðið hrædd. Í eitt skipti hefði hann lokað hana inni í herbergi þegar hún hafði óhlýðnast honum. Hefði hann sagt henni að fara inn í herbergi og sitja þar grafkyrr. Hann hefði síðan farið út og lokað hurðinni. Hún sagði að þetta atvik væri í mikilli þoku fyrir sér. Þá sagðist hún einu sinni hafa hlaupið inn í bílskúr og lokað að sér og þá hefði ákærði keyrt á bílskúrshurðina. Sagði hún að ákærði hefði oft orðið mjög reiður og þá hefði hann alveg brjálast.
Brotaþoli sagði að sambandi þeirra ákærða hefði lokið vorið 2007, en þá hefði hún verið orðin tvítug. Frést hefði af sambandi þeirra út um allt og m.a. hefðu foreldrar G, vinkonu hennar, séð þau saman. Þá hefði fólk oft verið að spyrja hana hver þessi maður væri og sagðist hún yfirleitt hafa sagt að þetta væri maður sem hún væri að vinna hjá. Hún sagði að bekkjarfélagar hennar hefðu oft séð ákærða sækja hana í [...]skóla og sagðist hún stundum hafa sagt vinkonum sínum að þetta væri pabbi hennar. Hún sagði að sögusagnirnar hefðu að lokum verið farnar að ganga út á það að hún og ákærði væru í kynferðislegu sambandi, en brotaþoli sagðist ávallt hafa neitað því. Brotaþoli sagði að sig minnti að hún hefði eingöngu sagt vinkonu sinni, B, frá því að hún hefði haft mök við ákærða.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði aldrei spurt hana að því hversu gömul hún væri. Hann hefði hins vegar alveg virst vita um aldur hennar. Hann hefði t.d. vitað af því þegar hún fór í samræmdu prófin og spurt hana að því hvaða fög hún hefði valið. Þá hefði ákærði virst vita allt um hana, m.a. um útivistartíma. Einu sinni hefði hann spurt hana að því hvort hún gæti gist hjá sér, en hún hefði sagt honum að hún væri einungis 14 ára og þyrfti að vera komin heim á ákveðnum tíma. Hún sagði að móðir hennar hefði alltaf passað mjög vel upp á það og sagðist hún aldrei hafa gist hjá ákærða. Þá sagðist hún halda að ákærði hefði fengið allar upplýsingar um hana þegar hún vann hjá [...] á sínum tíma, en hann hefði vitað hverra manna hún væri og hvar hún ætti heima. Sagðist hún ekki vita hvar ákærði fékk þessar upplýsingar. Hún sagði að ákærði hefði komið með kennitölu B og stungið upp á því að hún notaði hana þegar hún færi til tannlæknis.
Brotaþoli sagði að móðir hennar hefði oft gengið á hana og spurt hana að því hvað væri í gangi. Þau ákærði hefðu oft rætt um það hverju hún ætti að svara móður sinni ef hún spyrði og að hún ætti þá að segja henni að þetta væri pabbi H vinar hennar og að hún væri að vinna hjá fjölskyldu hans. Brotaþoli sagði að H væri gamall vinur sinn en hún hefði ekki verið í neinum samskiptum við hann á þessum tíma. Brotaþoli sagðist vera mjög dugleg að verja sig og segist oft hafa þurft að gera það í gegnum tíðina.
Aðspurð um gjafir ákærða sagði brotaþoli að hann hefði m.a. gefið sér peninga, síma, fatnað, sígarettur og sófa, sem hún hefði farið með heim til sín. Þá hefði ákærði borgað bílprófið fyrir hana. Sagðist hún í fyrstu hafa fallið á bílprófinu, en síðan hefði ákærði talað við einhvern yfirmann hjá Frumherja og eftir það hefði hún náð prófinu. Sagðist hún hafa sýnt ákærða ökuskírteini sitt eftir að hún fékk það. Þegar ákærði gaf henni fatnað hefði hún farið í verslanir, valið sér föt og tekið frá og ákærði síðan farið og náð í fatnaðinn. Hún sagði að ekki væri rétt hjá ákærða að hún hefði alltaf verið að biðja ákærða um hitt og þetta þó að það hefði komið fyrir. Ákærði hefði hins vegar iðulega komið með hugmyndir að gjöfum og óskað eftir tillögum og óskum frá henni. Sagði hún að ákærði hefði oft spurt hana að því hvað hana langaði í og sagðist hún hafa sagt honum það og ákærði fundið ýmis tilefni til að gefa henni gjafir. Þá sagði hún að ákærði hefði einu sinni keypt ferð fyrir hana og móður hennar til [...]. Sagðist hún hafa verið að vinna hjá [...] á þeim tíma og ávallt verið söluhæst þar. Sagðist hún hafa sagt móður sinni að hún hefði fengið þessa ferð í vinnunni.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði einu sinni gefið vinkonu hennar, G, jakka. Í það skipti hefði ákærði sótt þær úr boði og farið með þær í bílskúrinn heima hjá sér og gefið þeim sígarettur og G jakkann. Þá hefði hann gefið I peninga. Sagðist hún hafa verið búin að segja ákærða frá þessari vinkonu sinni og hversu erfitt hún ætti. Hefði ákærði hringt í þessa vinkonu hennar og sagst vera frá [...]. Hefði hann tjáð henni að hún hefði verið dregin úr einhverjum potti og gefið henni pening. Sagði brotaþoli að I hefði síðar spurt hana að því hvort þetta væri maðurinn. Sagðist brotaþoli halda að hún hefði verið 17 ára þegar þetta var. Hún sagðist ekki hafa sagt I frá sambandi þeirra ákærða, en sagðist hafa fundið að I vissi af þessu því þetta hefði verið búið að fréttast út um allt. Þegar þarna var komið hefði hún verið hætt að geta varið sig gegn sögusögnunum.
Brotaþoli sagði að langur aðdragandi hefði verið að því að hún fór að hafa kynmök við ákærða. Sagðist hún í fyrstu hafa haldið að hann ætlaði að útvega henni vinnu. Þá sagðist brotaþoli ekki hafa haft mikið sjálfstraust á þessum tíma og sagðist hafa lent í einelti. Hún hefði ekki verið ánægð með sjálfa sig og sagðist hún halda að það hefði hjálpað til að hún leiddist út í þetta kynferðissamband og örugglega hefðu gjafir ákærða haft sitt að segja.
Brotaþoli sagði að þegar hún hefði fyrst haft samfarir við ákærða hefði það verið hennar fyrstu samfarir. Hún sagði að ekki væri rétt að hún hefði haft mök áður og rangt væri að henni hefði verið nauðgað á útihátíð ári áður en þau ákærði kynntust. Hún sagði að rétt væri að hún hefði greinst með klamidíu í nóvember 2001 og sagðist hún hafa smitast af ákærða. Hún sagðist örugglega ekki hafa bent á ákærða sem smitbera hjá lækninum, en sagðist þó ekki muna þetta glöggt. Brotaþoli sagðist fyrst hafa átt kærasta þegar hún var 15 ára. Hún sagði að þau ákærði hefðu haft óvarðar samfarir fyrstu árin og hún fyrst farið á pilluna 16 ára gömul. Sagðist brotaþoli ekki hafa haft áhyggjur af því að hún yrði ófrísk og þá hefði ákærði ekki virst hafa áhyggjur af því.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði fylgst mjög grannt með henni. Sagðist hún t.d. oft hafa verið ein heima um helgar og þá hefði ákærði verið í götunni fyrir ofan heimili hennar og fylgst með húsinu. Í eitt skiptið hefði vinur hennar verið hjá henni og þá hefði ákærði hringt og sagt að ef vinur hennar kæmi sér ekki út innan 20 mínútna fengi hún ekki bílprófið. Ákærði hefði síðan setið í bílnum fyrir ofan húsið og beðið eftir að vinur hennar færi út. Þá sagði hún að ákærði hefði oft látið hana skipta um síma og símanúmer, en þá hefði hann haft kveikt á gömlu símunum hennar heima hjá sér og þannig hefði hann fylgst nákvæmlega með því hverjir hringdu í hana. Þá sagði brotaþoli að ákærði hefði einu sinni elt hana þegar hún hefði verið í bíl með vinkonu sinni, J. Þá hefði hún ekki verið búin að svara honum í þrjá daga. Sagðist brotaþoli hafa verið á Golf-bifreið í umrætt sinn og sagðist halda að hún hefði verið 18 ára þegar þetta gerðist.
Brotaþoli sagði að sér hefði liðið mjög illa á meðan á sambandinu við ákærða stóð. Sagðist hún hafa byrjað að deyfa sig með fíkniefnum og passað sig á því að vera alltaf vel deyfð áður en hún fór heim til ákærða. Sagðist hún hafa fjármagnað fíkniefnaneyslu sína að stórum hluta með peningum frá ákærða. Sagði hún að þessi tími hefði verið ógeðslegur. Hún sagði að þetta hefði endað á því að móðir hennar hefði náð í hana úr partíi þar sem hún hefði verið nánast dáin úr fíkniefnaneyslu og þá hefði hún ákveðið að leita sér hjálpar. Hún hefði þá sagt móður sinni frá þessu og móðir hennar hefði verið sú fyrsta sem hún sagði alla sólarsöguna. Hún sagði að líðan sín hefði verið hræðileg síðan og hún væri búin að vera í samtalsmeðferð hjá sálfræðingi vikulega í tvö ár. Sagðist hún hafa verið greind með kvíðaröskun, þunglyndi og ofsakvíða og sagðist þurfa að taka inn lyf vegna þessa. Brotaþoli sagðist hins vegar hafa náð tökum á fíkniefnaneyslu sinni og hafa verið án þeirra í tvö ár. Brotaþoli sagðist alltaf vera hrædd og óttast það að ákærði veitti henni eftirför. Eftir að hún lagði fram kæru hefði einhver brotið rúðu í bifreið hennar og um daginn hefði rúða einnig verið brotin í bifreið móður hennar.
K, móðir brotaþola, sagði að brotaþoli hefði fermst 1. apríl 2001 og fljótlega eftir það hefði hún greint breytingar á andlegri líðan hennar. Sagðist hún hafa orðið vör við miklar geðsveiflur og reiði hjá brotaþola. Þá hefði brotaþoli verið grátgjörn og mikil reiði brotist út hjá henni af litlu tilefni, sem oft hefði endað í grátköstum. Þá hefði brotaþoli farið í bað oft á dag. Sjálfsálit hennar hefði minnkað mjög mikið og sjálfsöryggi hennar beðið mikla hnekki. Henni hefði fundist hún ógeðsleg og gjarnan notað það orð um sjálfa sig. Vitnið sagði að þetta hefði komið vel í ljós í fjölskylduboðum, en á þessum tíma hefði brotaþoli farið að draga sig í hlé og greinilega ekkert fundist gaman að vera innan um aðra. Áður hefði brotaþoli hins vegar verið ákveðin og haft gaman af því að tjá sig og tala við frænkur sínar og frændur. Þegar hún hugsi til baka hafi brotaþoli verið flóttaleg og varla horft í augun á fólki.
Vitnið sagði að einkunnir brotaþola hefðu farið hríðversnandi, en áður hefði hún alltaf staðið sig vel í skóla og verið með góðar einkunnir. Sagði vitnið að einkunnir hennar hefðu farið niður úr öllu valdi í 9. bekk.
Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði verið eirðarlaus, sofið með símann og ekki viljað láta hann frá sér. Brotaþoli hefði búið til persónu að nafni H, sem hún hefði sagt að væri vinur sinn og þegar hann hringdi í hana hefði hún alltaf orðið að fara inn í herbergi til að tala við hann.
Einnig hefði það slegið vitnið að brotaþola þótti gamlir menn ógeðslegir. Sagðist vitnið minnast þess að þegar nágrannar þeirra, fullorðin hjón, hefðu verið að vinna í garðinum sínum og vitnið haft á orði hvað þau væru dugleg, hefði brotaþoli sagt: „Oj, hann er örugglega ógeðslegur perri.“ Vitninu hefði fundist skrítið að brotaþoli skyldi hugsa svona um fullorðinn mann, en þarna hefði brotaþoli verið 14-15 ára gömul.
Þá sagðist vitnið hafa staðið í stríði við brotaþola út af ljósabekkjanotkun hennar, en hún hefði viljað banna henni að fara í ljós. Brotaþoli hefði alltaf verið brún og tjáð henni að heima hjá H væri ljósabekkur, sem hún fengi að fara í.
Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði farið að koma heim með allskyns föt, skartgripi og sígarettupakka, sem hún hefði stöðugt verið að gera upptæka. Fjárráð brotaþola hefðu ekki leyft þessa neyslu og sagðist vitnið hafa gengið á hana vegna þessa. Hefði brotaþoli þá ýmist sagt að pabbi hennar eða föðuramma hefðu gefið henni fötin, en vitnið sagðist ekki hafa verið í sambandi við þau á þessum tíma. Einnig hefði brotaþoli sagt að vinkonur hennar ættu þessi föt og hún væri með þau í láni. Þá hefði brotaþoli búið til persónuna H, sem hefði fylgt henni alveg til tvítugs, en þá fyrst hefði vitnið frétt að þessi persóna væri ekki til, heldur hefði þetta verið ákærði. Brotaþoli hefði sagt að H þessi ætti ofsalega góða foreldra og þeim þætti mjög vænt um hana. Þau gæfu henni gjafir, en þau ættu dóttur sem væri fíkniefnaneytandi og byggi í útlöndum. Brotaþoli hefði sagt henni að hún færi til þeirra til að taka til og fengi greitt fyrir það. Þá hefði hún sagt að H væri mjög góður vinur hennar. Eftir á að hyggja væri hins vegar skrýtið að þegar H hefði komið að sækja hana hefði hann aldrei keyrt upp að húsinu heldur hefði brotaþoli alltaf orðið að fara í næstu götu fyrir ofan. Hefði brotaþoli ýmist sagt að H væri að flýta sér eða væri svona feiminn. Þau H hefðu hist mjög oft og alltaf þegar H hringdi hefði hún farið inn í herbergi að tala við hann. Hún hefði aldrei getað talað við hann fyrir framan þau.
Vitnið sagðist ekki hafa orðið vör við að brotaþoli væri að neyta fíkniefna. Hún sagði að þetta hefði allt komist upp fyrir tveimur árum eða 4. september 2007, en þá hefði hún frétt að H og fjölskylda hans væri ekki til heldur hefði brotaþoli lent í klónum á barnaníðingi. Brotaþoli hefði sagt henni að hún hefði haft kynmök við ákærða og einnig sagt henni frá öllum hans ógeðslegu kynlífsathöfnum, sem hann hefði átt með brotaþola þegar hún var barn að aldri. Einnig að hann hefði tekið þetta allt upp á myndband o.s.frv. Sagðist hún minnast þess að brotaþoli hefði orðið mjög hissa þegar hún sagði henni að hún hefði ekkert gert af sér. Augljóslega hefði verið búið að innprenta henni að hún væri ógeðsleg.
Vitnið sagðist halda að brotaþola hefði létt mikið eftir að hún sagði frá þessu. Hún væri búin að vera hjá sálfræðingi nánast í hverri viku í tvö ár. Hún sagði að brotaþoli væri alltaf hrædd um að ákærði elti hana eða léti einhvern elta sig. Skömmu eftir að brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu hefði verið brotist inn í bílinn hennar en engu verið stolið. Hefði brotaþoli verið alveg viss um að þar hefði ákærði verið að verki. Fyrir stuttu hefði einnig verið brotist inn í bíl vitnisins og þá hefði brotaþoli einnig verið viss um að þar ætti ákærði hlut að máli. Ákærði hefði verið búinn að sýna henni að hann hefði stjórn á umhverfinu og gæti haft áhrif í krafti peninga, t.d. komið því til leiðar að hún næði bílprófinu.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði átt tvo kærasta á þessum árum. Hún sagði að brotaþoli hefði verið líkamlega þroskuð á þessum tíma, en sagðist hins vegar ekki telja að brotaþoli hefði litið út fyrir að vera eldri en hún var.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 4. júní 2008 sem er í megindráttum í samræmi við framangreint.
I sagðist hafa verið með brotaþola í [...]skóla, en hún sagðist hafa flutt frá [...] og byrjað í skóla í [...]. Brotaþoli hefði verið ein af fyrstu vinkonunum sem hún eignaðist á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefði mamma hennar verið kennari í skólanum. Brotaþoli hefði síðar farið yfir í [...]skóla, en vitnið sagðist ekki muna hvenær það gerðist. Þær hefðu samt verið vinkonur áfram og séu það enn þann dag í dag.
Vitnið sagði að þegar hún var í grunnskóla hefði hún vitað að einhver karl væri að gefa brotaþola peninga. Allir í skólanum hefðu verið að tala um þetta. Oft hefði fólk í kringum þær verið að bera þetta upp á brotaþola, en hún hefði ávallt neitað því. Sagðist hún halda að þá hefðu þær báðar verið í [...]skóla, en sagðist samt ekki vera viss. Hún sagðist halda að brotaþoli hefði fært sig yfir í [...]skóla vegna þessara sögusagna, þ.e.a.s. að hún væri að hitta einhvern karl, eldri mann. Einnig að hún fengi peninga og síma hjá honum. Þá hefðu sögusagnirnar gengið út á að hún væri hóra og væri að selja sig, þ.e. að stunda kynmök með þessum manni.
Vitnið sagði að umræddur maður hefði hringt í sig og sagst vera frá [...] [...]. Þá hefði hann sagt að hún hefði verið dregin út og að hann ætlaði að hjálpa henni með því að veita henni fjárhagslega aðstoð, þ.e.a.s. láta hana hafa peninga. Sagðist hún hafa farið að hitta hann og fengið umslag með peningum. Einnig hefði maðurinn látið hana hafa símanúmerið sitt og tjáð henni að ef hún þyrfti eitthvað meira ætti hún hiklaust að hringja í hann. Sagðist hún hins vegar hafa verið orðin það gömul að hún hefði áttað sig á því til hvers maðurinn ætlaðist og því hætt að tala við hann. Sagði hún að maðurinn hefði boðið henni heim með sér, en þá sagðist hún hafa farið út úr bílnum og komið sér í burtu.
Vitnið sagðist hafa rætt þetta við brotaþola, en þær hefðu á þessum tíma verið saman í [...]. Einnig hefði hún sýnt brotaþola símanúmerið sem maðurinn lét hana fá og brotaþoli kannast við þetta allt saman. Brotaþoli hefði tjáð henni að hún hefði hitt ákærða og hann skutlað henni heim og gefið henni síma. Þá væri hann alltaf að gefa henni peninga og ýmsa hluti og væri eins og afi hennar. Brotaþoli hefði hins vegar ekki sagt henni að hún ætti í kynferðislegu sambandi við hann og sagðist vitnið aldrei hafa þorað að spyrja brotaþola út í það. Hún sagðist í fyrstu ekki hafa verið viss um að um sama manninn væri að ræða, en brotaþoli hefði staðfest það við hana. Þá sagðist vitnið hafa borið kennsl á ákærða í dómhúsinu og staðfesti að um sama mann væri að ræða og þann sem hafði samband við hana eins og að framan greinir.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 5. júní 2008 sem er í megindráttum í samræmi við framangreint.
J sagðist hafa kynnst brotaþola þegar þær voru 11-12 ára í [...]skóla. Þær hefðu strax orðið mjög góðar vinkonur og verið það síðan. Sagðist hún hafa verið að vinna í hverfissjoppunni í [...]hverfinu á umræddum tíma og muna eftir því að fólk hefði stundum komið til hennar og spurt hana að því hvort brotaþoli væri að hitta gamlan mann. Sagðist hún ekki hafa vitað það. Sagðist hún hafa spurt brotaþola að þessu en hún neitað því. Brotaþoli hefði síðan sagt henni frá þessu fyrir einu og hálfu ári eða sumarið 2008.
Vitnið sagði að einu sinni hefðu þær verið staddar á [...] á bíl brotaþola og verið að aka úr bílastæðinu. Allt í einu hefði bíll farið að elta þær og sagðist hún hafa haldið að brotaþoli hefði svínað fyrir hann. Þetta hefði verið mjög flottur bíll, sennilega svartur Bens. Hún sagði að bíllinn hefði elt þær í 20-30 mínútur og sagðist hún alltaf hafa verið að segja brotaþola að stoppa og tala við bílstjórann til að athuga málið. Á þessum tíma hefði brotaþoli verið nýkomin með bílpróf, þ.e. verið 17 ára. Sagðist hún hafa séð að í bílnum var aðeins einn maður. Fyrir einu og hálfu ári hefði brotaþoli sagt henni að þetta hefði verið ákærði.
Hún sagði að brotaþoli hefði alltaf átt allt, þ.e. föt og skartgripi. Brotaþoli hefði alltaf sagt að þetta væri frá pabba hennar, ömmu eða mömmu. Hún sagði að brotaþoli hefði átt meira en vinkonur hennar og einnig átt dýrari hluti en þær. Brotaþoli hefði átt kærasta, L, frá því að hún var 13 ára og hefðu þau verið ýmist í sundur eða saman í langan tíma.
Vitnið sagði að sig hefði grunað á sínum tíma að brotaþoli væri farin að neyta fíkniefna. Þegar brotaþoli hefði skipt um skóla í 9. bekk hefði hún vitað að brotaþoli var komin í einhvern skrýtinn félagsskap. Sagðist hún lítið hafa talað við brotaþola á þeim tíma því hún hefði sjálf skipt um skóla. Sagðist hún ekki vita af hverju brotaþoli skipti um skóla en sagðist halda að það hefði verið vegna þess að hún fór sjálf í annan skóla, en þær hefðu verið góðar vinkonur. Ein önnur vinkona þeirra hefði einnig skipt um skóla á sama tíma. Þá hefði brotaþola þótt óþægilegt að hafa mömmu sína í skólanum.
M sagði að dóttir hennar, G, og brotaþoli hefðu verið saman í [...]skóla þar til dóttir hennar flutti úr hverfinu, en fjölskyldan hefði flutt í [...] þegar G var 14 ára eða árið 2001. Hún sagðist einu sinni hafa verið að sækja dóttur sína út í [...]sjoppu/[...] í [...] og þá séð brotaþola stíga upp í bíl hjá eldri manni. Hefði þetta verið um svipað leyti og þau fluttu í [...]. Sagði vitnið að sér hefði fundist þetta skrýtið og ákveðið að elta bílinn til að sjá hvaða viðbrögð brotaþoli sýndi, en misst af bílnum á rauðu ljósi. Sagðist hún síðan hafa farið heim og sagt G frá þessu og þá hefði G sagt henni að þetta væri einhver maður sem brotaþoli væri að vinna fyrir annað hvort á ljósastofu eða í sjoppu. Sagðist hún ekkert hafa gert í þessu þá, en löngu síðar hefði brotaþoli sagt G frá þessu máli.
Vitnið sagði að þegar stelpurnar voru 18-19 ára hefði hún frétt af því að brotaþoli hefði verið að hitta þennan karl í einhvern tíma. Það hefði byrjað með því að karlinn hefði tekið hana upp í bílinn til sín þegar brotaþoli var 13 eða 14 ára og á leið heim úr skólanum. Einnig hefði hann gefið henni peninga og í framhaldi af því farið að sækja hana og fá hana í heimsókn til sín. Stelpurnar hefðu ekki mátt vita af þessu. G hefði tjáði henni að hún hefði gengið mjög hart að brotaþola og spurt hana að því hvort þetta væri kynferðislegt samband, en hún hefði ekki viðurkennt það fyrr en löngu síðar. Vinkonurnar hefðu verið vissar um að þetta væri eitthvað sem móðir brotaþola vissi af og því hefði hún ákveðið að skipta sér ekki af þessu.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 6. júní 2008 sem er í megindráttum í samræmi við framangreint.
G sagðist hafa kynnst brotaþola þegar þær voru 12 ára gamlar. Þær hefðu strax orðið góðar vinkonur og verið það allt þar til G flutti utan á árinu 2007. Þegar þær voru 14 ára hefði brotaþoli sagt henni frá því að daginn áður hefði hún verið að ganga heim úr skólanum í vondu veðri þegar ákærði hefði stoppað bílinn hjá henni og boðið henni far heim. Einnig hefði maðurinn hefði gefið henni fimm þúsund krónur og boðið henni vinnu hjá sér. Brotaþoli hefði lítið rætt þetta en hún sagðist minnast þess að þær vinkonurnar hefðu stundum verið niðri í [...]sjoppu og þá hefði brotaþoli sagt þeim að maðurinn hefði sagt henni að þær mættu alls ekki vita af þessu og alls ekki sjást með henni. Hefðu þær orðið að láta lítið á sér bera og ekki þóst þekkja manninn þegar hann kom að ná í brotaþola. Þær hefðu hins vegar séð manninn út um gluggann og þekkt hann í sjón. Síðan hefði liðið langur tími og þær ekki vitað hvort brotaþoli væri að hitta þennan mann eða ekki því brotaþoli hefði farið að leyna þessu mjög. Fyrst hefði brotaþoli sagt þeim að maðurinn hefði aldrei átt dóttur og að hann kæmi fram við hana eins og dóttur sína. Þegar þær hefðu farið að spyrja hana út í þetta síðar hefði hún allt í einu sagt þeim að hún væri hætt að hitta hann. Eitthvert leynimakk hefði hins vegar alltaf verið á brotaþola þannig að þær hefði grunað að þetta væri enn í gangi.
Vitnið sagði að einu sinni hefðu þær vinkonurnar verið í partíi niðri í bæ, en þá hefðu þær verið 14-15 ára gamlar og átt að vera komnar heim kl. 12.00. Þær hefðu verið að reyna að útvega sér far heim og enginn hefði getað komið að sækja þær. Brotaþoli hefði þá komið til hennar og sagt við hana: „Ekki vera reið en ég hringdi í gamla.“ Sagði hún að brotaþoli hefði gjarnan kallað ákærða „gamla“. Sagðist vitnið hafa farið með þeim því hún hefði verið orðin óróleg yfir því að komast ekki heim á réttum tíma. Sagðist hún hafa spurt manninn hvort hann gæti drifið sig því klukkan væri orðin svo margt og það yrði allt brjálað ef hún kæmi of seint heim. Maðurinn hefði þá spurt hana hvort hún vildi kannski bara gista hjá honum. Hún gæti bara sagt mömmu sinni að hún hefði gist hjá vinkonu sinni. Það sagðist hún hins vegar aldrei hafa gert. Á leiðinni heim hefði maðurinn stoppað fyrir utan húsið sitt og látið brotaþola fá föt og boðið vitninu að taka jakka, sem hann var með heima hjá sér. Hún sagðist hins vegar ekki hafa þorað að taka við jakkanum. Maðurinn hefði síðan skutlað henni heim til ömmu hennar og áður en hún fór hefði hann sagt við hana að hann væri með síma á hennar nafni, sem hún mætti taka. Sagðist hún ekkert hafa skilið í þessu þar sem hún hafði aldrei séð manninn fyrr og ekki vitað til að hann vissi hver hún væri. Sagðist hún samt hafa tekið við símanum, en síðar hefði komið í ljós að síminn var skráður á nafn B. Sagðist hún því hafa skilað brotaþola símanum daginn eftir. Eftir þetta hefði hún ekki vitað hvernig sambandi brotaþola og ákærða var háttað. Síðar hefði brotaþoli sagt þeim að hún væri hætt að hitta manninn, en þetta hefði samt verið mikið laumuspil í langan tíma.
Hún sagði að brotaþoli hefði aldrei sagt henni að hún ætti í kynferðislegu sambandi við manninn. Þær hefðu spurt brotaþola að þessu því þeim hefði þótt þetta skrýtið, en hún hefði alltaf neitað. Brotaþoli hefði fyrst sagt sér frá þessu sumarið 2007, en það sumar hefðu þær byrjað aftur að hafa samband hvor við aðra. Hægt og rólega hefðu þær byrjað að tala um þetta og brotaþoli tjáð henni að samband þeirra ákærða hefði verið með öðrum hætti en hún hefði áður lýst fyrir þeim vinkonunum, þ.e.a.s. að það hefði verið kynferðislegt þegar hún var yngri og að henni hefði liðið mjög illa út af þessu. Brotaþola hefði greinilega þótt óþægilegt að tala um þetta, liðið illa og samtalið hefði því verið stutt. Brotaþoli hefði ekki vitað hvernig hún ætti að snúa sér í þessu.
Hún sagði að þær vinkonurnar hefðu vitað að brotaþoli var að fá peninga, föt og hina og þessa hluti frá manninum. Hún sagðist minnast þess að oft þegar þær hefðu verið niðri í sjoppu hefði maðurinn lagt bílnum sínum fyrir utan. Stundum hefði brotaþoli farið með honum en stundum hefði hann aðeins látið hana fá peninga eða föt. Hún sagði að brotaþoli hefði alltaf átt fín og flott föt og verið með nýjar neglur og flott hár. Þá hefði brotaþoli alltaf verið á nýjum bílum. Brotaþoli hefði haft mun meira á milli handanna en jafnaldrar hennar. Hún sagði að brotaþoli hefði mátt fara í Kringluna og velja sér föt og taka frá í sínu nafni. Maðurinn hefði síðan farið og náð í fötin. Fyrst hefði brotaþoli sagt að maðurinn kæmi vel fram við hana, en síðar hefði þetta orðið laumuspil og hún sagt þeim að hún væri hætt að hitta hann. Þær hefðu þó vitað að svo var ekki.
Hún sagði að rétt væri að brotaþoli hefði verið sundur og saman með sama stráknum, en það hefði verið aðeins seinna. Hún sagðist ekki hafa vitað um fíkniefnaneyslu brotaþola.
B sagðist hafa kynnst brotaþola haustið 2001, en þær væru báðar úr [...]. Þær hefðu kynnst í gegnum strákavinahóp og farið að vera saman í fíkniefnaneyslu. Þær hefðu þó ekki umgengist hvor aðra lengi og lítið samband haft frá árinu 2002.
Hún sagði að sér hefði verið kunnugt um það að brotaþoli væri að hitta ákærða. Sagist hún hafa verið búin að heyra sögusagnir um þeirra samband áður en hún kynntist brotaþola. Eftir að þær urðu vinkonur hefði hún fengið þessar sögusagnir staðfestar hjá brotaþola. Brotaþoli hefði tjáð henni að hún hefði kynnst þessum manni þegar hún hefði eitt sinn verið að ganga heim úr [...]skóla í rigningu og hann boðið henni far heim og síðan vinnu. Þá hefði hann hringt í hana daginn eftir og sagst ætla að sýna henni nýja vinnustaðinn. Þegar hún hefði komið út í bíl til hans hefði hann látið hana fá síma og peninga og sagt henni að hann myndi ekki að láta hana fá neina vinnu. Hún gæti bara hringt í hann og beðið hann um það sem hana vanhagaði um. Sagðist vitnið t.d. hafa farið með brotaþola í Smáralind og Kringluna og þær tekið frá föt, sem maðurinn hefði síðan keypt.
Hún sagði að ákærði hefði oftast sótt brotaþola þegar brotaþoli fór heim til hans. Brotaþoli hefði spilað við hann og stundum orðið að hanga hjá honum í marga tíma. Þá hefði hún hringt í hann ef hana vantaði peninga. Síðan hefði ákærði viljað fara að fá meira og rætt það við hana. Brotaþoli hefði hugsað málið og sagðist vitnið muna eftir því að brotaþoli hefði einu sinni komið til hennar og þá verið búin að sofa hjá manninum í fyrsta skipti. Hefði maðurinn látið hana fá 60.000 krónur í peningum. Ákærði hefði einnig viljað hafa munnmök við brotaþola, en hún hefði ekki viljað það. Þá hefði hann keypt nærföt og sagt henni að fara í þau. Sagðist hún minnast þess að þegar brotaþoli kom til hennar og sagði henni frá þessu hefði brotaþoli sagt að sér liði eins og hún væri rosalega skítug. Síðan hefði sér sýnst að brotaþoli ýtti þessu bara undir borðið. Þetta hefði átt sér stað á árinu 2002, en þá hefðu ákærði og brotaþoli verið búin að hittast í nokkra mánuði. Aðspurð sagði hún að þetta gæti þó hafa verið um áramótin 2001/2002.
Vitnið sagðist halda að maðurinn hefði alveg vitað af því hvað brotaþoli var gömul. Í fyrsta lagi vegna þess að hann hefði tekið hana upp fyrir framan grunnskóla, þ.e. [...]skóla, og þá sagðist hún telja að brotaþoli hafi sagt honum hvað hún var gömul. Eftir að brotaþoli og maðurinn höfðu kynmök í fyrsta skipti, hefði brotaþoli farið aftur til hans og haft kynmök við hann aftur og aftur. Sagðist hún vita til þess að brotaþoli hitti manninn oftar. Hún sagðist síðan hafa farið í fíkniefnameðferð á [...] í apríl 2002 og ekkert haft samband við brotaþola eftir það. Hún sagði að þær væru þó báðar í AA-samtökunum og að þær hittust á fundum. Hún sagði að þær brotaþoli væru ekki nánar vinkonur í dag.
Aðspurð sagðist vitnið halda að brotaþoli hefði verið í kynferðislegu sambandi við ákærða aðallega til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína og líferni sitt, en einnig hefði henni þótt mjög gaman að fá alls kyns nýja hluti. Hún sagðist sjálf hafa notið góðs af þessu, þ.e. fengið nokkrar flíkur, sem ákærði hafði keypt, svo og peninga og þetta hefði gert þeim brotaþola ýmislegt kleift, m.a. að kaupa fíkniefni. Hún sagði að brotaþoli hefði haft mun meira á milli handanna en unglingar á sama aldri. Einnig sagðist hún minnast þess að ákærði hefði lofað henni bíl þegar hún yrði 17 ára og fengi bílprófið. Hefði ákærði alltaf verið að lofa einhverju fram í tímann.
Vitnið sagði að brotaþola hefði fundist hún vera mjög skítug en jafnframt fundist hún vera skuldbundin manninum á einhvern hátt. Brotaþoli hefði virst vera orðin töluvert háð ákærða fjárhagslega. Brotaþola hefði liðið illa, en mikil lygi hefði fylgt þessu, t.d. gagnvart móður hennar og fjölskyldu.
Vitnið sagðist ekki hafa hitt ákærða, en sagðist hins vegar hafa séð bílinn hans fyrir utan heimili sitt einu sinni, en þá hefði ákærði verið að skutla brotaþola. Einnig sagði hún að þau hefðu einhverju sinni sótt brotaþola heim til ákærða.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið nýbyrjuð í fíkniefnaneyslu þegar hún kynntist henni og hún hefði aðallega verið í e-pillum. Hún sagði að alls ekki hefði sést utan á brotaþola að hún væri í fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Neyslan hefði aðallega átt sér stað um helgar, en hassreykingar hefðu þó farið fram á virkum dögum.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 18. maí 2009 sem er í megindráttum í samræmi við framangreint.
F, sálfræðingur, sagði að brotaþoli hefði leitað til hennar 7. desember 2007 og síðan þá hefði hún komið í u.þ.b. 70 viðtöl. Brotaþoli hefði leitað til hennar vegna ætlaðrar kynferðislegrar misnotkunar. Meðferð hennar lyti að sálrænum afleiðingum af samskiptum hennar við ákærða. Til að byrja með hefði brotaþoli verið illa haldin af ýmsum sálrænum kvillum og áfallastreituröskun í tengslum við atburði, sem gerðust í samskiptum við ákærða. Þá hefði hún verið haldin þunglyndi og kvíðaröskunum. Ýmis félagsleg vandamál hefðu verið í tengslum við þetta og sjálfsmynd brotaþola verið mjög léleg og neikvæð. Brotaþoli hefði verið haldin miklum ótta og kvíða í samskiptum við fólk og félagsfælni. Áður en brotaþoli kom til hennar hafði hún hitt geðlækni og fengið þunglyndislyf. Þá hefði brotaþoli verið búin að fara í meðferð vegna fíkniefnaneyslu.
Vitnið sagði að mat hennar væri að samskiptin við ákærða hefðu haft alvarleg og víðtæk áhrif á brotaþola. Með aðstoð vitnisins hefði brotaþoli síðan verið að vinna markvisst úr þessari misnotkun og samskiptum við gerandann. Brotaþoli hefði sýnt ótrúlegar framfarir og verið mjög dugleg að takast á við þetta. Í dag væru töluvert minni einkenni þunglyndis hjá brotaþola, en hún væri enn með kvíðaeinkenni og ákveðin áfallastreitueinkenni, sem birtust í aukinni viðbragðsstöðu gagnvart umhverfinu, litlu þoli gagnvart álagi, þ.e. litlu streituþoli. Þegar málið hefði farið fyrir dóm hefði t.d. komið bakslag í líðan brotaþola. Sagðist vitnið telja að brotaþoli þyrfti á áframhaldandi sálfræðiaðstoð að halda í einhvern tíma.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði alltaf verið samkvæm sjálfri sér og saga hennar væri trúverðug. Þær hefðu margsinnis farið inn í sömu minningarnar, eins og vitnið orðaði það, og viðbrögð hennar hefðu alltaf verið mjög trúverðug og í samræmi við fyrri skipti. Hún sagði að oft kæmu fram mjög sterk líkamleg og tilfinningaleg viðbrögð við svona úrvinnslu. Viðbrögð brotaþola hefðu samræmst mjög vel hennar frásögn og endurspeglað mikinn ótta og skömm, svo og sjálfshatur. Brotaþoli hefði einnig sterka tilhneigingu til sjálfsmeiðinga. Vitnið sagði að frásögn brotaþola samræmdist alveg því ferli sem ætti sér stað þegar fórnarlamb yrði sífellt háðara gerandanum.
III.
Niðurstaða
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa frá hausti eða vetri 2001, er brotaþoli var 14 ára, til þess dags er hún varð 18 ára, tælt brotaþola með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði, og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart brotaþola vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig nánast daglega samræði og önnur kynferðismök á heimili sínu.
Ákærði hefur borið um það að hafa kynnst brotaþola í september 2001 og að hafa haft tíð samskipti við hana frá þeim tíma til vors 2007. Hefur hann viðurkennt að hafa reglulega gefið brotaþola gjafir, m.a. peninga, skartgripi og fatnað. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola á heimili sínu, en heldur því fram að kynferðisleg samskipti þeirra hafi ekki hafist fyrr en nokkrum mánuðum áður en brotaþoli fékk bílpróf á árinu 2004. Jafnframt hefur ákærði borið um að þá hafi hann talið að brotaþoli væri að verða 19 ára.
Ekki er fullt samræmi á skýrslum ákærða hjá lögreglu og hér fyrir dómi um það hvenær hann tók upp kynferðislegt samneyti við brotaþola. Í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu, hinn 7. mars 2008, hélt ákærði því fram að hann hefði byrjað að hafa samfarir við brotaþola um það bil tveimur árum eftir að þau kynntust, þ.e. síðari hluta árs 2003. Síðar í sömu skýrslu sagði ákærði að hann hefði fyrst átt kynferðislegt samneyti við brotaþola fyrir tveimur til tveimur og hálfu ári síðan, þ.e. á árinu 2005 eða 2006.
Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu 27. maí 2008 hélt ákærði því fram að samband þeirra brotaþola hefði þróast yfir í kynlífssamband skömmu áður en brotaþoli fékk bílpróf, en þá hefði hann haldið að brotaþoli væri að verða 19 ára, en í raun hefði hún verið tæplega 17 ára. Brotaþoli á afmæli 22. mars og sjá má á gögnum málsins að ökuskírteini brotaþola er fyrst gefið út 2. júlí 2004. Samkvæmt þessum framburði ákærða hafði hann því fyrst samfarir við brotaþola nokkru fyrir 22. mars 2004. Ákærði kvaðst hins vegar hafa áttað sig á réttum aldri brotaþola tveimur til þremur mánuðum síðar. Hér fyrir dómi bar ákærði á sama veg, þ.e. að hann hefði tekið upp kynferðislegt samband við brotaþola nokkrum mánuðum áður en hún fékk bílpróf og sagðist þá hafa talið að brotaþoli væri að verða 19 ára. Hins vegar sagðist hann fyrst hafa áttað sig á réttum aldri brotaþola þegar hún var orðin 18 ára, en það er ekki í samræmi við framburð hans hjá lögreglu.
Brotaþoli hefur frá upphafi rannsóknar málsins borið um það að nokkrum vikum eftir að þau ákærði kynntust hafi hann leitað á hana kynferðislega. Nokkru síðar hefði hann haft við hana samfarir og önnur kynferðismök. Hjá lögreglu sagði brotaþoli að þau ákærði hefðu fyrst haft samfarir u.þ.b. þremur til fjórum mánuðum eftir að þau kynntust. Hér fyrir dómi sagði brotaþoli hins vegar að í mesta lagi tveir mánuðir hefðu liðið frá því að þau ákærði kynntust og þar til þau höfðu fyrst kynmök. Samkvæmt framburði brotaþola hófust því kynferðisleg samskipti þeirra ákærða einhvern tímann á tímabilinu frá nóvember 2001 til janúar 2002, en þá var brotaþoli 14 ára.
Fram kom í skýrslu vitnisins B hér fyrir dómi, en hún er tveimur árum eldri en brotaþoli, að hún hefði kynnst brotaþola haustið 2001. Á þeim tíma hefðu þær báðar verið í fíkniefnaneyslu. Sagðist hún hafa verið búin að heyra sögusagnir um samband þeirra ákærða áður en þær kynntust og fengið þær staðfestar hjá brotaþola. Sagðist hún minnast þess að brotaþoli hefði eitt sinn komið til hennar og tjáð henni að nú væri hún búin að hafa kynmök við ákærða í fyrsta skipti. Jafnframt hefði brotaþoli rætt um vanlíðan sína vegna þessa. Sagði vitnið að þetta hefði átt sér stað á árinu 2002, en þá hefðu brotaþoli og ákærði verið búin að hittast í nokkra mánuði. Vitnið sagði aðspurt að þetta gæti þó hafa verið um áramótin 2001/2002. Vitnið sagðist hafa farið í fíkniefnameðferð í apríl 2002 og ekkert haft samband við brotaþola eftir það. Jafnframt kom fram hjá vitninu að þær brotaþoli væru ekki nánar vinkonur í dag. Framburður þessa vitnis samræmist því framburði brotaþola um það að þau ákærði hafi fyrst haft samfarir fljótlega eftir að þau kynntust og að þá hafi brotaþoli aðeins verið 14 ára.
Þá bar móðir brotaþola um það hér fyrir dómi að fljótlega upp úr fermingu brotaþola í apríl 2001 hefði hún greint breytingar á andlegri líðan brotaþola. Sagðist hún hafa orðið vör við miklar geðsveiflur, sem og að sjálfsálit og sjálfstraust brotaþola hafði beðið hnekki. Brotaþola hefði fundist hún ógeðsleg og farið í bað oft á dag. Einnig sagði vitnið að einkunnir brotaþola hefðu farið niður úr öllu valdi í 9. bekk. Þegar brotaþoli var 14 eða 15 ára sagðist móðir brotaþola einnig hafa orðið vör við og fundist einkennilegt að brotaþola fannst gamlir menn ógeðslegir og sagði hún að brotaþoli hefði gjarnan haft á orði að þessi eða hinn gamli maðurinn væri örugglega „ógeðslegur perri“.
Framburður framangreindra vitna, B og K, móður brotaþola, hefur verið stöðugur og skýrslur þeirra fyrir dóminum voru greinargóðar og skýrar. Þykir framburður þessara vitna mjög trúverðugur.
Framburður brotaþola hefur sömuleiðis verið stöðugur. Var skýrsla hennar hér fyrir dómi greinargóð og skýr og samrýmist í öllum meginatriðum skýrslum hennar hjá lögreglu. Þá staðfesti húsleit á heimili ákærða hinn 7. mars 2008 ýmislegt í frásögn brotaþola í kæruskýrslu hjá lögreglu, svo sem aðstæður á vettvangi og tilvist muna sem þar voru haldlagðir. Þá samræmist framburður brotaþola um upphaf kynferðislegs sambands hennar við ákærða trúverðugum framburði vitnisins B og fær sömuleiðis góðan stuðning í framburði móður brotaþola. Þá fær framburður brotaþola einnig stuðning í trúverðugum framburði annarra vitna, sem fyrir dóminn komu, svo sem í framburði vitnisins G um að brotaþoli hefði haldið sambandi sínu við ákærða leyndu.
Eins og áður greinir hefur framburður ákærða um það hvenær hann tók upp kynferðislegt samband við brotaþola verið nokkuð á reiki og þykir það rýra trúverðugleika framburðar hans. Þá hefur ákærði borið um það að enginn hafi vitað af sambandi hans og brotaþola og að hann hafi aldrei haft samband við foreldra hennar eða vini. Þó hefur komið fram að ákærði og brotaþoli áttu í nánast daglegum samskiptum og að ákærði stóð straum af talsverðri neyslu brotaþola. Þykir þessi leynd, sem hvíldi yfir sambandi þeirra, benda til þess að samband þeirra hafi frá upphafi verið af kynferðislegum toga eins og brotaþoli heldur fram. Með vísan til framangreinds þykir framburður ákærða um að hann hafi fyrst átt kynferðislegt samneyti við brotaþola á árinu 2004 ótrúverðugur.
Þá þykir sömuleiðis ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi ekki vitað um réttan aldur brotaþola fyrr en hún var orðin 18 ára gömul og er þá m.a. litið til þess langa tíma sem samband þeirra stóð. Þá hefur komið fram að ákærði tók brotaþola oft og iðulega upp í bíl sinn í nágrenni grunnskóla brotaþola, m.a. við söluturn þar sem bekkjarsystur brotaþola komu gjarnan saman á meðan þær voru enn í grunnskóla. Þá hefur vitnið G borið um það að ákærði hafi einu sinni sótt þær í partí þegar þær voru 14 eða 15 ára gamlar og að þá hafi komið fram að þær yrðu að vera komnar heim til sín fyrir miðnætti. Er það í samræmi við framburð brotaþola um að ákærða hafi verið kunnugt um að hún yrði að hlíta reglum um útivistartíma barna. Loks hefur ákærði borið um það að hann hafi gefið brotaþola bílprófið og að hún hafi reynt við prófið skömmu eftir að hún hafði aldur til, eins og ákærði orðaði. Síðar hefði hún reynt aftur og þá náð prófinu.
Með vísan til alls framangreinds þykir í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi frá upphafi verið kunnugt um réttan aldur brotaþola. Þá þykir sýnt að ákærði hóf að tæla brotaþola til fylgilags við sig með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði, allt frá hausti eða vetri 2001. Með vísan til framburðar vitnisins B þykir þó rétt að miða við að ákærði hafi fyrst haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola í upphafi árs 2002, en þá var brotaþoli 14 ára. Þykir ljóst að ákærði nýtti sér yfirburði sína gagnvart brotaþola vegna aldurs- og þroskamunar til fá vilja sínum framgengt. Fram hefur komið hjá ákærða að þau brotaþoli hafi átt samskipti nánast daglega. Þykir sannað með trúverðugum framburði brotaþola, sem hefur stuðning í framburði vitnisins B að þau ákærði hafi reglulega og nánast daglega haft samræði eða önnur kynferðismök.
Með vísan til alls framangreinds þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir, en þó þannig að miða ber við að ákærði hafi fyrst haft samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola í byrjun árs 2002 þegar brotaþoli var 14 ára. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað.
Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði braut gróflega og ítrekað gegn ungri stúlku á viðkvæmu aldurs- og þroskaskeiði hennar. Þá er litið til þess að brot ákærða var viðvarandi og stóð yfir í langan tíma. Mátti ákærða vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar atferli hans hlaut að hafa fyrir líf og sálarheill brotaþola. Á hinn bóginn verður að líta til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Samkvæmt þessu og með sérstakri hliðsjón af 1., 3. og 6. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ljóst er að háttsemi af því tagi sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Í greinargerð F sálfræðings og vitnisburði hennar fyrir dómi kemur fram að sú hafi orðið reyndin að því er brotaþola varðar. Er það mat hennar að samskiptin við ákærða hafi haft alvarleg og víðtæk áhrif á brotaþola. Með vísan til þess og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er fallist á að brotaþoli eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Þykja bætur að framangreindu virtu hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 27. júní 2009, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða var kynnt krafan, og til greiðsludags.
Ákærði greiði 817.800 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Þórðarsonar hdl., 564.750 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar D. Valdimarsdóttur hdl., 200.800 krónur, hvorutveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Finnbogi Alexandersson héraðsdómari og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Sveinbjörn Tryggvason, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði brotaþola, A, 1.200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 27. júní 2009 til greiðsludags.
Ákærði greiði 817.800 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Þórðarsonar hdl., 564.750 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar D. Valdimarsdóttur hdl., 200.800 krónur.