Hæstiréttur íslands

Mál nr. 108/2005


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Eftirlaun
  • Verðtrygging
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. október 2005.

Nr. 108/2005.

Jóhann Tómas Ingjaldsson

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.

 Jóhannes Bjarni Björnsson hdl.)

gegn

Lífeyrissjóði bankamanna

(Jakob R. Möller hrl.

 Óttar Pálsson hdl.)

 

Lífeyrissjóður. Eftirlaun. Verðtrygging. Sératkvæði.

J starfaði óslitið hjá Landsbanka Íslands og síðar Seðlabanka Íslands frá 1955 til 1991, er hann hóf töku ellilífeyris. Frá þeim tíma og fram að gildistöku nýrrar reglugerðar um starfsemi L í árslok 1997 tóku lífeyrisgreiðslur til J mið af launum eftirmanns hans á hverjum tíma, svonefndri eftirmannsreglu. Með nýju reglugerðinni var sú breyting gerð á verðtryggingu réttindanna að framvegis skyldu greiðslur til J breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs í stað þess að taka mið af launum eftirmanns hans. J taldi umrædda breytingu fela í sér ólögmæta skerðingu á áunnum lífeyrisréttundum sínum og krafði því L um fjárhæð, er nam mismun á þeim lífeyri, sem hann hafði fengið greiddan eftir gildistöku reglugerðarinnar, og lífeyris, sem hann taldi að hann hefði átt að fá samkvæmt eftirmannsreglunni. Hæstiréttur vísaði til þess að með breytingunni hefði J ekki verið sviptur nokkru af áunnum lífeyrisrétti sínum eins og hann hafði staðið við gildistöku reglugerðarinnar. Stæði ágreiningur aðila í raun um hvort heimilt hafi verið að breyta aðferð við að verðtryggja réttindi sjóðfélaga til framtíðar en um það hefði Hæstiréttur áður dæmt í málinu nr. 249/2000. Í þeim dómi var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem breytingin hefði verið almenn og tekið til allra sjóðfélaga hefði hún verið bindandi fyrir aðila þess máls. Þar sem J hafði ekki borið fram haldbær rök fyrir því að annað hefði átt að gilda um áunnin réttindi hans en annarra var L sýknaður af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.937.310 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 1999 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi hóf störf í Landsbanka Íslands árið 1955, en 1961 gekk hann í þjónustu Seðlabanka Íslands, þar sem hann gegndi óslitið starfi aðalbókara til loka apríl 1991 þegar hann lét af störfum. Hann hóf þá töku ellilífeyris hjá stefnda, þar sem hann hafði áunnið sér 75,17% lífeyrisrétt. Miðaðist fjárhæð lífeyris hans við svokallaða eftirmannsreglu, sem gilti lengst af á þeim tíma meðan áfrýjandi ávann sér lífeyrisrétt með greiðslu iðgjalda af launum sínum til stefnda. Fyrstu árin sem áfrýjandi tók lífeyri var hann ákveðinn sem hlutfall af launum eftirmanns hans í starfi aðalbókara Seðlabanka Íslands, en eftir að aðalbókarinn varð einn af framkvæmdastjórum bankans árið 1996 var miðað við laun framkvæmdastjóra. Nafni stefnda var breytt nokkrum sinnum eftir að honum var komið á fót uns núverandi nafn var tekið upp.

Þann 31. desember 1997 tók gildi ný reglugerð fyrir stefnda nr. 669/1997, sem staðfest var af fjármálaráðherra, en í ákvæði nr. III til bráðabirgða var vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda um heimild til að setja hana. Áður höfðu breytingar, sem fólust í hinni nýju reglugerð, verið samþykktar á almennum fundi sjóðfélaganna, en á lögmæti þess fundar reyndi sérstaklega í dómum Hæstaréttar í málum nr. 249/2000 og 244/2003, þar sem dæmt var um rétt tveggja annarra sjóðfélaga til lífeyris frá stefnda. Fram að gildistöku reglugerðar nr. 669/1997 báru bankar og aðrir vinnuveitendur starfsmanna, sem greiddu iðgjöld til stefnda, bakábyrgð á skuldbindingum hans. Sú ábyrgð var felld niður, en áfallnar skuldbindingar vinnuveitenda, þar á meðal Seðlabanka Íslands, þess í stað reiknaðar út og þær greiddar sjóðnum, sem eftir það skyldi standa á eigin fótum.

Fram er komið að frá 1991 til 1997 hækkaði ellilífeyrir áfrýjanda í hlutfalli við breytingar, sem urðu á launum eftirmanns hans í starfi hjá Seðlabanka Íslands. Á þessu varð breyting við gildistöku reglugerðar nr. 669/1997, en samkvæmt 11. gr. hennar, sbr. 36. gr., skyldi lífeyrir breytast til samræmis við hækkun eða lækkun, sem yrði á vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar út og auglýsir mánaðarlega. Áfrýjandi telur að þessi breyting hafi á sex ára tímabili frá 1998 til 2003 leitt til þess að lífeyrir hans hafi verið skertur sem nemur stefnukröfunni, en bæði laun eftirmannsins og laun almennt hafi þá hækkað mun meira en vísitala neysluverðs. Telur hann skerðinguna vera ólögmæta gagnvart sér, en áunninn réttur úr lífeyrissjóði sé eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem verði ekki tekinn af lífeyrisþegum nema með skýlausri lagaheimild og í samræmi við skilyrði, sem ákvæðið hafi að geyma svo að slíkt geti talist heimilt. Þau skilyrði séu hér ekki uppfyllt. Stefndi telur breytinguna fyllilega lögmæta og heimila, en að þessu leyti taki hún jafnt til allra og málefnaleg sjónarmið hafi legið að baki. Þótt komið hafi fram í allmörgum dómum Hæstaréttar að lífeyrisréttur teljist til eignarréttinda, sem njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár, verði hér að líta til þess að lífeyrisréttindi áfrýjanda hafi ekki verið skert. Lífeyrir hans hafi hækkað frá því hann var ákveðinn um áramót 1997 og 1998, en með því að nota vísitölu neysluverðs sem verðmæli sé tryggt að raunvirði lífeyrisins skerðist ekki. Þá verði að telja að greiðslur í lífeyrissjóð, sem grundvallast á samtryggingarsjónarmiðum, geti ekki veitt rétt til ákveðinnar fjárhæðar. Málsatvik og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Áfrýjandi krefst mismunar þess lífeyris, sem hann fékk greiddan eftir gildistöku reglugerðar nr. 669/1997, og lífeyris, sem hann telur sig mundu hafa fengið, hefði svokölluð eftirmannsregla enn verið í gildi, en hún var, svo sem að framan er lýst, afnumin með reglugerð þessari. Í 36. gr. reglugerðarinnar var svohljóðandi ákvæði um áfallnar skuldbindingar samkvæmt eldri reglugerðum: „Reglugerð þessi gildir frá 31. desember 1997. Ákvæði hennar taka ekki til áfallinna skuldbindinga sjóðsins gagnvart eldri reglugerðum. Þó skal við það miðað að lágmarksiðgjaldatími til þess að öðlast verðtryggðan lífeyri sé 6 ár vegna réttinda sem mynduðust fyrir 1. janúar 1988. Einnig skal lífeyrisréttur þeirra sjóðfélaga sem hættir eru störfum hjá aðildarfyrirtækjum fyrir 1. janúar 1998 miðast við laun eftirmanns þeirra eins og þau voru 31. desember 1997 eigi sjóðfélagi verðtryggðan rétt til lífeyris hjá sjóðnum. Jafnframt skal allur lífeyrir, greiddur af sjóðnum eftir 31. desember 1997, sem nýtur verðtryggingar, verðtryggður með vísitölu neysluverðs, sbr. 3. mgr. 11. gr. og gildir það bæði um þá sem njóta lífeyris hjá sjóðnum á þeim tíma og þá sem taka munu lífeyri síðar.” Í tilvitnaðri 3. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar sagði: „Nú hækkar eða lækkar vísitala neysluverðs er Hagstofa Íslands reiknar og auglýsir mánaðarlega, eftir að starfsmanni hafa verið ákvörðuð eftirlaun að loknu starfi, og breytast þá eftirlaun í samræmi við það.” Í 11. gr. var jafnframt ákvæði um réttindi þeirra sem létu af starfi eftir gildistöku reglugerðarinnar og var það svohljóðandi:  „Hver sjóðfélagi sem lætur af starfi og greitt hefur iðgjald til sjóðsins og orðinn er 65 ára að aldri á rétt á árlegum eftirlaunum úr sjóðnum í hlutfalli við iðgjaldagreiðslutíma. Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum fyrir fullt starf í stöðu þeirri sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin og skal endurmeta laun fyrstu fjögurra áranna til verðlags á því síðasta með vísitölu neysluverðs. Skulu eftirlaunin nema 2,125% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi, en hlutfallslega lægra fyrir lægra starfshlutfall, þar til 85% eftirlaunahlutfalli er         náð ...“.

Aðilar eru sammála um að áfrýjandi hafi fengið greiddan lífeyri miðað við laun eftirmanns síns eins og þau voru þegar reglugerðin var sett, sbr. framanritaða 36. gr. hennar. Hann var því ekki sviptur nokkru af áunnum lífeyrisrétti sínum eins og hann stóð við greint tímamark. Þessi grunnur lífeyris áfrýjanda var, miðað við þennan tíma, reiknaður eins út og allra annarra sem þá höfðu áunnið sér lífeyrisrétt úr sjóðnum og þessi grunnur átti að taka breytingum hjá öllum miðað við neysluverðsvísitölu eftir að þeir hófu töku lífeyris, hvort sem það gerðist fyrir eða eftir gildistöku reglugerðarinnar. Ágreiningur aðila snýst því í raun um það hvort breyta mátti um aðferð við að verðtryggja réttindi sjóðfélaga til framtíðar litið miðað við greint tímamark. Um það hefur Hæstiréttur áður dæmt 25. janúar 2001 í málinu nr. 249/2000 og sagt að þar sem hér væri um samtryggingarsjóð að ræða hafi borið að fara eins með réttindi allra sjóðfélaga, sem eins stóð á um. Þar sem ekki hafi annað komið fram en að breytingin hafi verið almenn og tekið til allra sjóðfélaga var þar talið að breyting eftirmannsreglunnar til verðtryggingar lífeyrisréttinda samkvæmt vísitölu neysluverðs væri skuldbindandi fyrir aðila þess máls. Hæstiréttur hefur í fleiri dómum ítrekað þessa niðurstöðu sína. Áfrýjandi hefur ekki borið fram haldbær rök fyrir því að annað eigi að gilda um áunnin réttindi hans en annarra. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms. Rétt er að hvor aðili beri sinn  kostnað af máli þessu.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                                                                                                 


Sératkvæði

Guðrúnar Erlendsdóttur og

Gunnlaugs Claessen

Við erum sammála I. kafla í dómi meirihluta dómenda í málinu. Framhald dómsins teljum við að eigi að hljóða eins og hér fer á eftir.

                                                           I.

Af hálfu stefnda er haldið fram að ekki skipti máli hvernig laun annars vegar og neysluverð hins vegar hafi þróast allra síðustu ár þegar skorið sé úr um lögmæti breytingar á verðmæli, sem lífeyrir miðist við. Þótt laun hafi hækkað meira en verðlag eftir setningu reglugerðar nr. 669/1997 standist ekki að líta til svo skamms tímabils þegar lögmæti breytingarinnar sé metið. Stundum hafi verðlag hækkað hraðar en laun, en við þær aðstæður sé hag lífeyrisþega augljóslega betur borgið með verðtryggingu lífeyris miðað við verðlag í stað launavísitölu eða eftirmannsreglu. Því verði að líta yfir lengra tímabil, þegar vænta megi að sveiflur til skamms tíma jafnist út. Geti því engum úrslitum ráðið hvernig breytingin snerti hag áfrýjanda á þeim skamma tíma, sem liðinn sé frá setningu reglugerðarinnar.

Ekki verður vefengd sú lýsing stefnda að sveiflur í efnahagslífi valda því að neysluverð hefur á stundum þróast hraðar en laun í landinu. Þegar litið er til lengri tíma er hins vegar ljóst að lífskjör þjóðarinnar hafa batnað jafnt og þétt, sem felur í sér að laun hafa hækkað umfram verðlag. Þótt verðtrygging lífeyris miðað við neysluverð tryggi raunvirði hans er jafnframt víst að lífeyrisþegar njóta þá ekki bætts efnahags með sama hætti og launafólk gerir almennt og bil milli lífskjara þeirra eykst af þeim sökum. Er því hafið yfir vafa að sú breyting á verðtryggingu lífeyris frá eftirmannsreglu til vísitölu neysluverðs, sem hér reynir á, er almennt til þess fallin að skerða kjör lífeyrisþega í samanburði við launamenn, enda þótt sveiflur, sem stefndi ber fyrir sig, leiði til þess að sú skerðing sé ekki jöfn og samfelld. Verður því að hafna þeirri málsvörn stefnda að breyting frá eftirmannsreglu, sem áður er lýst, hafi ekki leitt til skerðingar á lífeyri og þar með tjóns fyrir áfrýjanda. Mátti sú niðurstaða jafnframt vera fyrirsjáanleg þegar breytingu á reglum um rétt sjóðfélaga í stefnda var hrint í framkvæmd í nóvember 1997. Er jafnframt komið fram í málinu, að við útreikning á framtíðarskuldbindingum vinnuveitenda sjóðfélaga í stefnda, sem gerðar voru upp miðað við áramót 1997 og 1998, hafi beinlínis verið lagt til grundvallar að laun myndu framvegis hækka um 0,5% á ári umfram verðlag auk aldursbundinna launahækkana. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var einnig greint frá því, að stefndi hafi nýverið höfðað dómsmál gegn Landsbanka Íslands hf. og íslenska ríkinu, þar sem kröfugerð sé reist á því að launahækkanir hafi í reynd orðið miklum mun meiri en forsendur samningsins gerðu ráð fyrir.

II.

Áfrýjandi vísar til þess að Hæstiréttur hafi áður í fyrri dómum sínum skorið úr um rétt manna til lífeyris eftir að reglum viðkomandi lífeyrissjóðs um það hafði verið breytt. Hafi Hæstiréttur þá í ríkum mæli gert mun á því hvort um var að ræða svokallaðan virkan lífeyrisrétt, þar sem málsaðilinn hafði þegar hafið töku lífeyris áður en reglum var breytt honum í óhag, eða þegar hann átti einungis geymdan rétt í lífeyrissjóði, sem enn var ekki orðinn virkur er breyting á reglum um greiðslur úr sjóðnum gekk í gildi. Í fyrrnefnda tilvikinu hafi ekki verið talið standast að breyta reglum lífeyrisþeganum í óhag. Auk þeirra dóma, sem getið er í I. kafla dóms meirihluta dómenda, vísar áfrýjandi um þetta til dóma í málum nr. 368/1997 í dómasafni Hæstaréttar 1998 bls. 2140, máls nr. 340/1999 á bls. 1252 í dómasafni 2000 og máls nr. 101/2002. Telur áfrýjandi að sjónarmið, sem að þessu lúta og lögð hafi verið til grundvallar í fyrri málum, eigi við um hann. Þótt verðmæti lífeyris hans eftir breytingu á reglugerð haldist óbreytt ráði það engum úrslitum, enda njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá þau eignarréttindi hans að fá verðmeiri lífeyri, er haldist í hendur við breytingar á launum eftirmannsins.

Í dómum Hæstaréttar hefur verið slegið föstu að réttarvernd lífeyrisréttinda sé ekki sú sama eftir því hvort um virk eða óvirk réttindi er að ræða. Verður ekki gerður munur að því leyti eftir því, hvort um er að ræða lífeyrissjóð, sem starfar á grundvelli sérlaga um sjóðinn eða almennra laga um starfsemi lífeyrissjóða. Þótt þrengri heimildir gildi að þessu leyti um virk lífeyrisréttindi en óvirk girðir það ekki með öllu fyrir að einnig sé unnt að skerða virk réttindi. Við úrlausn um það verða gerðar mun ríkari kröfur en endranær til þess að sýnt sé fram á að skerðing lífeyrisins sé almenn og taki jafnt til allra, sem eins er ástatt um, að málefnalegar forsendur liggi til grundvallar breytingunni og að slíkur lífeyrisréttur verði ekki skertur nema að gættu meðalhófi í þeim skilningi að ekki sé gengið nær rétti sjóðfélaga en nauðsynlegt er til að tryggja að náð verði lögmætu markmiði, sem stefnt er að.

Að því er varðar fyrstnefnda mælikvarðann, sem að framan er getið, er óumdeilt að samkvæmt reglugerð nr. 669/1997 skyldi afnám eftirmannsreglu taka til allra, óháð því hvort réttindi þeirra til lífeyris væru virk eða óvirk. Önnur breyting samkvæmt reglugerðinni fólst í 11. gr. hennar, sem kvað á um að eftirlaun skyldu nema 2,125% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi, en hafði áður verið 2% og 3% fyrir  hvert iðgjaldagreiðsluár umfram 30 og síðan aftur 2% umfram 35 ár. Breytingin tók hins vegar eingöngu til þeirra, sem enn greiddu iðgjöld til stefnda, og er óumdeilt að hækkun í 2,125% tók ekki til þeirra, sem þegar höfðu hafið töku lífeyris. Jafnræðis var þannig ekki gætt almennt að þessu leyti að því gefnu að starfstími að baki virkum lífeyrisréttindum væri 34,3 ár eða skemmri. Í tilviki áfrýjanda stendur hins vegar svo á að með greiðslu iðgjalds til stefnda í rúmlega 35 ár hefur hann unnið upp þennan mun. Getur þetta atriði þannig ekki skipt máli við úrlausn um það hvort skerðing lífeyris hafi talist heimil gagnvart áfrýjanda.

Fram er komið að um líkt leyti og reglugerð nr. 669/1997 var sett voru gerðar veigamiklar breytingar á öðrum lífeyrissjóðum opinberra stafsmanna, sem studdust eins og stefndi við eftirmannsreglu sem verðmæli fyrir breytingar á lífeyrisgreiðslum. Samkvæmt lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var reglum um verðtryggingu lífeyris breytt þannig að sjóðfélagar í B-deild sjóðsins ættu almennt val um það hvort breyting á lífeyri þeirra skyldi miðast við launavísitölu eða laun eftirmanns, sbr. 35. gr. laganna. Naut þorri sjóðfélaga í B-deild sjóðsins því þessa valréttar án tillits til þess hvort lífeyrisréttindi þeirra voru orðin virk eða ekki. Hið sama á við samkvæmt lögum nr. 2/1997 um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 262/1998 fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. skal fjárhæð lífeyris breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar á launavísitölu hjá þeim sjóðfélögum, sem tilheyra A-deild sjóðsins, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt þessu var í tilviki stefnda gengið lengra í þá átt að skerða lífeyrisréttindi en gert var gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins. Sú skýring hefur komið fram af hálfu stefnda að afnám eftirmannsreglu hafi verið nauðsynlegt þar eð hún væri orðin erfið í framkvæmd vegna örra breytinga á störfum manna, sem leitt hafi til þess að oft hafi reynst erfitt eða ókleift að finna viðmiðun við framkvæmd eftirmannsreglu. Ekki hafa þó komið fram skýringar á því hvers vegna framkvæmd eftirmannsreglu sé meiri erfiðleikum bundin hjá stefnda en Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Hinu sama gegnir um það hvers vegna þessi ástæða hafi knúið á um að tekin yrði upp viðmiðun við breytingu á vísitölu neysluverðs í stað þess að miða við breytingu á launavísitölu, en með því móti hefði verið gengið skemmra en gert var í þá átt að skerða lífeyri áfrýjanda. Breytingin verður ekki heldur skýrð með því að fjárhagsleg staða stefnda hafi á þeim tíma verið erfið, þannig að óhjákvæmilegt hafi verið að skerða lífeyri áfrýjanda til að verja hag sjóðsins.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður ekki fallist á að stefndi hafi sýnt fram á að áðurgreint skilyrði hafi verið uppfyllt í hvívetna svo að heimilt væri að skerða virkan lífeyrisrétt áfrýjanda eins og gert var. Fyrirhuguð einkavæðing Landsbanka Íslands og síðan sala án þess að bakábyrgð fyrir lífeyrisskuldbindingum flyttist yfir á kaupanda, skiptir ekki máli við mat á því hvort  heimilt hafi verið að skerða lífeyri áfrýjanda.

Samkvæmt þessu teljum við, að áfrýjandi eigi greiðslukröfu á hendur stefnda vegna þeirra atvika, sem mál þetta er risið af. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu, er ekki þörf á að taka nánari afstöðu til kröfugerðar áfrýjanda.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2004.

             Mál þetta, sem var dómtekið 1. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  Jóhanni T. Ingjaldssyni, Sæviðarsundi 60, Reykjavík gegn Lífeyrissjóði bankamanna, Suðurlandsbraut 24 Reykjavík, með stefnu birtri 26. ágúst  2004.

             Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði stefnanda vangreiddan lífeyri samtals að fjárhæð 5.937.310 krónur  ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. 1. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem hér segir:

af kr. 109.736 frá l. janúar 1999 til l. janúar 2000

af kr. 875.388 frá l. janúar 2000 til l. janúar2001

af kr. 1.625.254 frá 1. janúar 2001 til 1. janúar 2002

af kr. 2.907.854 frá 1. janúar 2002 til 1. janúar 2003

af kr. 4.329.094 frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2004 og

af kr. 5.937.310 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags

Auk þess er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Lögmannsstofu Láru V. Júlíusdóttur hrl. auk virðisaukaskatts skv. 1. nr. 50/1988.

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða með öllu sýknaður af kröfum stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, að teknu tilliti til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

I.

Málavextir.

Stefnandi málsins er fæddur árið 1929 og hóf störf í Landsbanka Íslands árið 1955. Hann starfaði í bókhaldi lengstan hluta starfsævi sinnar. Árið 1961 var Seðlabanki Íslands stofnaður og fór stefnandi þá til starfa þar.   Hann gegndi þar starfi aðalbókara, þar til hann lét af störfum í lok apríl 1991. Óumdeilt er, að hann hafi áunnið sér 75.17% lífeyrisrétt.  Fyrstu árin eftir að hann lét af stöfum, fékk hann greiddan lífeyri á grundvelli svokallaðrar eftirmannsreglu og fylgdu eftirlaunin launum aðalbókara, sem frá árinu 1996 varð einn af framkvæmdastjórum bankans. Stefnandi fékk því greiddan lífeyri miðað við framkvæmdastjóra bankans frá árinu 1996.  Með gildistöku reglugerðar nr. 669/1997,  þ.e. 1. janúar 1998, var horfið frá svokallaðri eftirmannsreglu og  tekið upp viðmið við vísitölu neysluverðs. Stefnandi telur að eftirlaun sín hafi við það skerts og er málið því höfðað til innheimtu vangreidds lífeyris frá og með ársbyrjun 1999.

Stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, áður Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands, var stofnaður var með lögum nr. 10/1928, um Landsbanka Íslands. Lög nr. 10/1961 og 11/1961, tóku gildi 29. mars 1961 og varð sjóðurinn þá sjálfseignarstofnun. Nafni sjóðsins hefur verið breytt nokkrum sinnum frá því að sjóðurinn hét Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands, fram til þess að hann nefndist Lífeyrissjóður bankamanna. Frá stofnun sjóðsins og fram til þess að reglugerð nr. 669/1997 tók gildi, var stjórn sjóðsins skipuð tveimur fulltrúum bankanna og einum fulltrúa sjóðfélaga. Nú mun stjórnin skipuð sex fulltrúum, þremur fulltrúum aðildarfyrirtækja og þremur fulltrúum sjóðfélaga.

Eftirtaldar reglugerðir hafa gilt um sjóðinn:

1.                                        Reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands frá janúar
1929.

2.                                        Reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands frá 1. apríl
1948.

3.                                        Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans frá 1. janúar 1960.

4.                                        Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá
l. júlí 1970.

5.                                        Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá
l. janúar1978.

6.                                        Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá
l. janúar 1982.

7.                                       Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá
1. janúar l988.

8.                                       Reglugerð um Lífeyrissjóð bankastarfsmanna nr. 669/1997.

 

Reglugerðinni frá 1997 hefur nokkrum sinnum verið breytt og hún endurútgefin og nú eru í gildi Samþykktir fyrir Lífeyrissjóð bankamanna, gerðar 7. maí 2001 og staðfestar af fjármálaráðuneytinu 9. júlí 2001, er þær tóku gildi.

Þegar stefnandi hóf að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð var í gildi reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands dags 1. apríl 1948 og var þar kveðið á um að eftirlaun starfsmanna skyldu miðast við meðallaun hans síðustu 5 árin. Í þessari reglugerð var ekki gert ráð fyrir verðtryggingu eftirlauna.

Breyting var gerð á þessu fyrirkomulagi með endurskoðaðri reglugerð sem samþykkt var 4. febrúar 1960. Breytingin var m.a. í þá veru, að upphæð eftirlauna skyldi hækka í samræmi við almennar hækkanir á launum bankamanna. Breyting var enn gerð árið 1965 og þá kveðið á um að miða skyldi greiðslu eftirlauna við launaflokk sjóðsfélaga seinasta starfsár hans í staðinn fyrir meðaltal seinustu fimm ára.

Breyting var enn gerð á eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka með reglugerð dagsettri 12. maí 1978. Var þar kveðið á um, að eftirlaun skyldu nema ákveðnum hundraðshluta af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgdu starfi því sem sjóðfélagi gegndi síðast. Sams konar ákvæði var í reglugerðum um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1982 og 1988 og er vísað til 7. gr. reglugerðarinnar frá 1988 er kveður á um hlutfall lífeyris af launum, en það ákvæði var í gildi er stefnandi hóf töku lífeyris. 

Umdeild reglugerð nr. 669/1997 tók gildi hinn 1. janúar 1998 eða tæpum 7 árum eftir að stefnandi lét af störfum og hóf töku lífeyris. Þar er viðmiðuninni breytt og í stað eftirmannareglunnar ber nú að miða við vísitölu neysluverðs, samanber 11. gr. þeirra reglugerðar, sem er samsvarandi grein og 7. gr. í reglugerðinni frá 1988.

Samkvæmt fyrstu reglugerðinni og fram til setningar reglugerðarinnar nr. 669/1997 báru aðildarfyrirtæki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, þar til eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Fyrir gildistöku þeirrar reglugerðar fór fram tryggingafræðileg úttekt á skuldbindingum sjóðsins og greiddu aðildarfyrirtæki hans inn í sjóðinn við árslok 1997 það, sem á vantaði, til þess að eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Sú úttekt miðaði við reglur hins nýja sjóðs, en ekki við þær skuldbindingar sem bankinn hafði tekist á hendur skv. reglunum sem áður giltu. Er sjóðurinn nú sjálfstæður og ber einn ábyrgð á skuldbindingum sínum.

Stefnandi telur að þessi breyting á reglugerð fyrir Lífeyrissjóð bankamanna hafi leitt til verulegrar skerðingar á eftirlaunum honum til handa og sé honum því nauðsynlegt að fara með mál þetta fyrir dóm.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hefði með réttu mátt búast við því að fá greiddan lífeyri samkvæmt eftirmannsreglunni það sem eftir væri.  Hún hafi verið í gildi í 37 ár, þ.e. á árunum 1960 til 1997 og hafi náð að festa sig í sessi.  Það hafi verið næstum alla starfsævi stefnanda.  Eftir að stefnandi lét af störfum og lífeyrisréttindi hans urðu virk hafi hann fengið greiddan lífeyri á grundvelli reglunnar í tæp 7 ár.  Lífeyrisgreiðslur til hans hafi tekið mið af launum sem aðalbókari og síðar framkvæmdastjóri hafði, eftir að það starfsheiti var tekið upp árið 1994.

Stefnandi telur, að fráhvarf frá eftirmannsreglunni hafi því aðeins verið heimilt að tryggt væri að það hefði ekki í för með sér tjón fyrir hann eða aðra þá sem skyldaðir voru til að greiða í sjóðinn og voru í góðri trú allan tímann um að þeir fengju greiddan lífeyri á grundvelli reglunnar.

Óumdeilt er að áunninn lífeyrisréttur stefnanda er 75,17%.  Dómkrafa málsins er 5.937.310 krónur og sundurliðast á eftirfarandi hátt.

 

Árslaun eftirmanns                          75,17%                    Ársgreiðslur stefnanda                         Mismunur

1998                          4.766.098                             3.582.676                3.472.940                                                       109.736

1999                          5.778.806                             4.343.928                3.578.276                                                       765.652

2000                          6.004.848                                4.513.844                3.763.976                                                       749.868

2001                          7.023.670                             5.279.693                   3.997.095                                                       1.282.598

2002                          7.500.000                             5.637.750                4.216.510                                                    1.421.240

2003                          7.860.000                                5.908.362                   4.300.146                                                    1.608.216

Samtals         5.937.310

 

Stefnandi bendir á, að honum hafi verið gert að vera í Eftirlaunasjóðnum þegar hann réð sig til starfa hjá Landsbankanum 1956. Hann byggir á því, að breytingin á reglugerðinni hafi sannanlega haft í för með sér skerðingu á lífeyrisgreiðslum til hans.

Óumdeilt er, að lífeyrisréttindi séu eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnar-skrárinnar og stefnandi telur að þau verða ekki tekin af launþegum nema með skýlausri lagaheimild í samræmi við þessi ákvæði. Vísar hann til Hrd. 1998:2140, 1999:4769 og Hrd. nr. 101/2002 máli sínu til stuðning. Stefnandi telur, að reglugerðarbreytingin hafi skert lífeyri hans verulega og valdið honum tjóni og muni gera það framvegis. Breytingin rýrir því ekki einungis áunnin réttindi, heldur einnig virkan lífeyrisrétt stefnanda.

Stefnandi bendir á, að meginregla um lífeyrissjóði sé sú, að sjóðfélagar ávinna sér rétt til lífeyris í samræmi við þær reglur sem sjóðurinn starfar eftir á hverjum tíma. Þessi meginregla komi m.a. fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 249/2000. Stefnandi hafði unnið sér inn lífeyrisréttindi samkvæmt reglugerðum sem kváðu á um eftirmannsreglu og ávann sér rétt til að fá greitt samkvæmt reglunni. Þegar hann hóf töku lífeyris fékk hann greiddan lífeyri samkvæmt reglunni allt þar til reglugerðinni var breytt 1. janúar 1998. Stefnandi telur, að þegar lífeyrisréttindi séu orðin virk, njóti þau enn ríkari verndar og vísar til Hæstaréttardóms í máli nr. 101/2002 en þar segir m.a.: Ljóst er að heimildir löggjafans eru þrengri til skerðingar lífeyrisréttinda sem eru orðin virk heldur en þeirra sem eru vœntanleg þegar skerðingin tekur gildi, sbr. dóm Hœstaréttar í dómasafni 2000:1252.

Stefnandi telur, að hafa verði í huga að skylduaðild var og er að lífeyrissjóðnum og því hafði stefnandi ekki nokkurt val. Þegar athafnafrelsi borgaranna er skert og þeir skyldaðir til að verja fjármunum sínum í eitthvað ákveðið, hljóta þeir að geta gert þá kröfu að áunnin réttindi þeirra séu ekki skert afturvirkt. Ef talið verði heimilt að breyta leikreglum á þennan hátt í krafti meirihluta þannig að stjórnarskrárvarin eignarréttindi manna skerðist, má segja að allar forsendur fyrir samtryggingarsjóðum séu brostnar.

Stefnandi bendir á, að í  nokkrum þeim málum þar sem lífeyrisréttindi hafa verið skert og þau farið fyrir Hæstarétt, hafa meginrök fyrir skerðingunni verið þau, að nauðsynlegt hafi verið vegna fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins að skerða lífeyrisréttindin. Má hér sem dæmi nefna dóma vegna Lífeyrissjóðs sjómanna, mál nr. 368/1998, 340/1999, 195/1999 og 178/2000. Engar slíkar forsendur eru til staðar í þessu máli. Lífeyrissjóður bankamanna stóð ekki höllum fæti þegar reglugerðarbreytingin var gerð á árinu 1997.

Auk þessa er krafist dráttarvaxta af launum frá og með 1. apríl 2001, sbr. 5. og 6. gr. 1. um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Miðað er við lok þess tíma sem laun áttu að greiðast. Varðandi kröfu um dráttarvexti er byggt á ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Málskostnaðarkrafa byggir á 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91 /1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því,  að hann beri ekki ábyrgð á neinu því atviki, sem valdið geti skaðabótaskyldu hans gagnvart stefnanda og stefnandi hafi ekki heldur sýnt fram á, að lífeyrir hans hafi verið skertur.

Varðandi verðmæli tekur stefndi fram, að áður en reglugerð nr. 669/1997 tók gildi hafi réttindi stefnanda verið reiknuð út, eins og þau stóðu þá og miðuð við laun eftirmanns hans. Hefur stefnandi ekki gert athugasemdir við, að þessi laun hafi verið réttilega reiknuð út miðað við 31. desember 1997. Stefndi bendir á, að verulegar breytingar hafa orðið á starfssviði bókhalds Seðlabanka Íslands og telur hæpið, að núverandi framkvæmdastjóri gegni í raun sama starfi og stefnandi gerði.

Stefndi bendir á, að eftirmannsreglan hafi verið verðmælir til þess ætluð að lífeyrisréttindi héldu verðgildi sínu óháð verðbólgu. Breyting á slíkum verðmæli úr einum í annan jafngildan, hefur verið talin stjórnvöldum heimil, sjá Hrd: 1991.348 og á það enn frekar við, þegar um er að tefla ákvarðanir aðila, sem lúta einkarétti, og hafa sjálfir tekið þær ákvarðanir sem um er að tefla, eins og hér

háttar til. Stefndi vísar einnig til Hæstaréttardóms í málinu nr.  249/2000 frá 25. janúar 2001 þar sem aðalkrafa sjóðfélaga í stefnda beindist að því að fá viðurkennt að breyting verðmælis úr eftirmannsreglu í neysluvísitölu væri óheimil gagnvart sér.

Stefndi telur, að almenn efnahagsleg rök séu fyrir breytingu verðmælisins. Hann bendir á, að lífeyrissjóðir ávaxti fé sjóðfélaga m.a. með kaupum á skuldabréfum á almennum fjármálamarkaði. Slík skuldabréf séu almennt verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs en ekki mun þekkjast að skuldabréf séu verðtryggð samkvæmt launavísitölu. Af þessu leiðir, að til þess að skuldbindingar lífeyrissjóðs að þessu leyti standist á við mögulega ávöxtun, getur lífeyrissjóður ekki tekið þá áhættu að skuldbindingar hans breytist eftir öðrum verðmæli en eignir hans. Stefndi telur, að ef sú áhætta væri tekin, þýddi það verulega óvissu fyrir þá sem lífeyris njóta, þar sem misvægi í skuldbindingum sem breyttust eftir launavísitölu/eftirmannsreglu og ávöxtun, mundi þýða nauðsyn tiltölulega tíðra breytinga á réttindum lífeyrisþega til þess að jafna mun skuldbindinga og eigna samkvæmt ávöxtun. Slík rýrnun eftirlaunaréttinda, sem nauðsynleg væri af lagaskyldu, væri augljóslega mjög óhagkvæm fyrir lífeyrisþega.

Stefndi telur að lagaleg rök séu fyrir vísitölu neysluverðs sem verðmæli. Í 2. mgr. 14. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 er beinlínis mælt fyrir um það, að mánaðarlegur lífeyrir skuli verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs, þótt á þessu séu undantekningar sem varða sjóði sem njóta eða hafa notið bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka, sbr. 54. gr. laga nr. 129/1997. Stefndi bendir á, að af hálfu stefnanda sé því ekki haldið fram í málinu, að 2. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 sé ógild, en það yrði hann að fá viðurkennt til þess að skaðabótaskylda hefði myndast.  Stefndi bendir á, að starfsheimildir hans séu bundnar því að hann fari eftir tilvitnuðum lögum. Stefndi var fyrir breytinguna á reglugerð nr. 669/1997 sjálfstæð stofnun með eigin stjórn, eignir hans áttu að nægja fyrir skuldbindingum hans og bakábyrgð aðildarfyrirtækja var einungis þar til eignir stefnda sjálfs nægðu fyrir skuldbindingum hans. Stefnandi heldur því ekki fram, að þær greiðslur frá aðildarfyrirtækjum, sem áttu sér stað eftir gildistöku reglugerðar nr. 669/1997 til þess að fullnægja skyldu aðildarfyrirtækjanna, hafi ekki nægt til þess. Því telur stefndi ljóst, að skaðabótaskylda stefnda geti ekki hafa skapast við það að reglugerð lífeyrissjóðs, sem starfsmenn hans voru félagar í, færi að almennum lögum um starfsemi lífeyrissjóða.

Stefndi telur einnig, að sértækar röksemdir gildi um breytingar verðmælis. Hann bendir á, að jafnvel þótt talið yrði, að stefnanda hefði tekist að sýna fram á að hann hefði, að svo stöddu, orðið fyrir fjártjóni af breytingunni á verðmæli úr eftirmannsreglu í vísitölu neysluverðs, sé sagan ekki þar með öll sögð. Í 5. gr. reglugerðar nr. 669/1997 um uppgjör sjóðsins, kemur fram, að leiði rannsókn tryggingafræðings í ljós  misræmi á milli eigna og skuldbindinga sjóðsins, sé skylt að breyta áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga. Á þetta við jafnt um það þegar skuldbindingar hafa aukist umfram hlutfall af eignum og hið gagnstæða. Er þetta ákvæði í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997. Þetta þýðir m.a. að útreikningar sem stefnandi hefur lagt fram eru þegar af þessari ástæðu ómarktækir sem sönnun um tjón stefnanda.

Stefndi byggir á því að starf aðalbókara fyrr og nú sé ekki það sama. Vísað er til yfirlýsingar Seðlabankans þar sem fram kemur að orðið hafa miklar breytingar á starfsemi bókhaldssviðs bankans, þar sem stefnandi gegndi störfum sem aðalbókari áður en hann fór á eftirlaun. Verkefnum hafi fjölgað og ábyrgð aukist og sé erfitt að heimfæra starf aðalbókara árið 1990 yfir á starf aðalbókara árið 2003.  Bent er á, að meðalhækkun á launum starfsmanna Seðlabankans á tímabilinu 1. janúar 1998 til 31. desember 2003 hafi verið um 30,8% á meðan laun framkvæmdastjóra bankans, þ.á m. framkvæmdastjóra bókhaldssviðs, hafa hækkað um tæplega 65% á sama tímabili.  Ársgreiðslur til stefnanda hafa hins vegar hækkað um tæplega 24% á umræddu tímabili. Stefndi telur þetta skýr merki um þann mun sem orðinn er á starfi aðalbókara fyrr og nú.

Stefndi vísar til Hæstaréttardóms frá 25. janúar 2001 í málinu nr. 249/2000 varðandi lögmæti 36. gr. reglugerðar 669/1997 í tengslum við breytingar frá eftirmannsreglunni, en þar segir m.a. eftirfarandi:

"Þar sem hér er um samtryggingarsjóð að ræða bar að fara eins með réttindi allra sjóðfélaga, sem eins stóð á um. Þar sem ekki er annað fram komið en að breytingin hafi verið almenn að þessu leyti og tekið til allra sjóðfélaga ber að fallast á það með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á, að breytingar á reglugerðinni frá svokallaðri eftirmannsreglu til verðtryggingar lífeyrísréttinda samkvæmt vísitölu neysluverðs séu óskuldbindandi gagnvart honum."

Stefndi bendir á, að ekki séu í stefnu færð rök fyrir því að með breytingum á reglugerð nr. 669/1997 hafi verið farið með réttindi stefnanda á annan hátt en annarra sjóðfélaga og á því framangreint að eiga við jafnt um hann sem og aðra sjóðfélaga.

Stefndi telur, að lífeyrisréttindi séu eignarréttindi sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. Hæstiréttur hafi einnig tekið fram, að heimild til skerðingar virkra lífeyrisréttinda sé mun þrengri en þeirra, sem einungis eru væntanleg þegar skerðingin öðlast gildi.  Stefndi telur að  virk lífeyrisréttindi stefnanda hafi ekki verið skert. Við ákvörðun lífeyris stefnanda á árinu 1991 hafi hlutfall lífeyris verið ákveðið 75,17% af viðmiðunarlaunum, sem þá voru laun eftirmanns hans. Þessi réttindi voru reiknuð upp um áramót 1997/1998 samhliða því, að verðmæli var breytt úr eftirmannsreglu yfir í vísitölu neysluverðs. Frá þeim tíma hefur lífeyrir stefnanda hækkað samkvæmt þessum verðmæli. Lífeyrir stefnanda hefur hækkað, frá því að hann var ákveðinn, en ekki skerst. Hlutfall af viðmiðunarlaunum, eins og þau voru 31. desember 1997, er óbreytt. Stefndi telur því fari fjarri að lífeyrisréttindi stefnanda hafi skerst við þessar breytingar. Svo virðist sem laun þess, sem nú gegnir að nokkru samskonar starfi og stefnandi gerði, hafi hækkað umfram almennar launahækkanir af ástæðum sem ekki varða stefnanda. Hefur lífeyrir stefnanda ekki hækkað vegna þessara breytinga, sem eru honum og óviðkomandi, enda greiddi hann hvorki iðgjöld til stefnda af slíkum launum né heldur greiddi vinnuveitandi hans iðgjöld af slíkum launum.

Sé gengið út frá því, að vísitala neysluverðs mæli réttilega breytingar sem orðið hafa á verði almennrar vöru og þjónustu frá áramótum 1997/1998, hefur kaupmáttur lífeyris stefnanda ekki skerst, þótt vera megi að laun þeirra sem enn eru á vinnumarkaði hafi hækkað meira en lífeyrir stefnanda. Til slíkra hækkana hafa þeir sem enn eru á vinnumarkaði væntanlega unnið með vinnuframlagi á sama tíma og stefnandi hefur notið eftirlauna.

Stefndi bendir á, að deilan um það hvort eftirlaun eigi að hækka eins og verðlag eða eins og laun, sé ekki séríslenskt fyrirbrigði. Þær deilur enduróma víða um lönd og endurspegla að hluta þann vanda sem lífeyriskerfi margra landa búa við vegna þess, að hlutfall þeirra sem enn eru við störf lækkar sífellt í þessum löndum í samanburði við þá sem njóta eftirlauna. Alþingi tók grundvallarákvörðun í þessari deilu með setningu 2. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 og tók þar með af skarið um það, hvernig verðtryggingu lífeyris yrði almennt fyrir komið hérlendis. Stefndi telur að ef dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu, að verðtryggingarregla samþykkta stefnda bryti í bága við 72. gr. stjórnarskrár, væri lífeyriskerfið jafnframt sett í uppnám.  Þótt rétturinn til lífeyris sé verndaður af 72. gr. stjórnarskrár, og 1. gr. 1.  viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994, hefur Mannréttindadómstóll Evrópu ekki fallist á, að með því sé verndaður réttur til tiltekinnar fjárhæðar í lífeyri. Stefndi telur, að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu þann 12. október 2004 í máli Kjartans Ásmundssonar gegn Íslandi sé ekki fordæmi í máli þessu. Af dómi Mannréttinda-dómstólsins megi sjá, að kjarni niðurstöðu um lögmæti breytinga á lífeyri kann að vera, hvort breyting sé almenn, það er taki til allra í sömu stöðu og hvort hún styðjist við meðalhóf. Í engu er saman að jafna aðstöðu stefnanda annars vegar og Kjartans Ásmundssonar hins vegar. Kjartan var sviptur örorkulífeyri, ásamt raunar ýmsum öðrum, vegna breytinga á viðmiði um örorku hans. Þessi lífeyrir hafði numið um það bil þriðjungi tekna hans á því tímabili, sem til skoðunar var. Þetta taldi Mannréttindadómstóllinn bæði mismunun og brot á meðalhófi.

Stefndi telur aðstöðu stefnanda gjörólíka, hann njóti lífeyris sem sé mjög rausnarlegur eða  358.000 krónur á mánuði 2003, jafnvel þótt miðað sé við kjör þeirra sem gegnt hafa svipuðum ábyrgðarstöðum og stefnandi gegndi. Þessi lífeyrir hans hækkar í samræmi við verðlagsbreytingar og er því kaupmáttur þeirra tryggður óbreyttur. Breytingarnar sem gerðar voru á verðmæli voru almennar og tóku til allra þeirra, sem þá voru komnir á lífeyri hjá stefnda eða áttu geymd réttindi í sjóðnum. Breytingarnar voru að auki gerðar til þess að taka á margþættum vanda, sem steðjaði að lífeyrissjóðum sem byggt höfðu á eftirmannsreglu, m.a. vegna miklu örari þjóðfélagsbreytinga en urðu fram á síðustu ár. Var því hvergi brotið gegn meðalhófi við breytingarnar, enda ekki sýnt fram á, hvernig ella hefði mátt mæta m.a. þeim vanda lífeyrissjóða, að skuldbindingar þeirra hækkuðu í samræmi við laun á sama tíma og verðtrygging fjárfestinga þeirra, ef um hana var að tefla, byggðist á vísitölu neysluverðs. Stefndi telur því að ekki sé í neinu hægt að bera saman aðstöðu stefnanda og Kjartans Ásmundssonar í ofangreindum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Stefndu telja að væntingar stefnanda hafi ekki gildi gagnvart skýru reglugerðarákvæði og samþykktum stefnda og vísa einnig til Hæstaréttardóms í málinu nr. 244/2003.

Stefndu byggja á því, að allar kröfur fyrir 2. september 2004 séu fyrndar. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda er kveðið á um að skuld eða önnur krafa, sem ekki hefir verið viðurkennd eða lögsókn heimt innan þeirra tímatakmarka, er ákveðin eru í umræddum lögum, falli úr gildi fyrir fyrning. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. sömu laga fyrnast kröfur vegna lífeyris á 4 árum. Stefnandi gerir engu að síður kröfur vegna áranna 1998-2003 þrátt fyrir að fyrning sé ekki rofin fyrr en með stefnu 2. september 2004.

Stefndi telur vaxtakröfu stefnanda svo óskýra, að hæpið sé að dómur verði á hana lagður. Í dómkröfum er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 1999. Í sérstakri málsgrein um dráttarvaxtakröfu er þó tekið fram, að krafist sé dráttarvaxta af launum samkvæmt 5. sbr. 6. gr. laga 38/2001 frá 1. apríl 2001, án þess að nokkuð sé útskýrt hvaða laun það eru, sem vaxta er krafist af, eða hvernig dagsetningin er fundin.

Stefndu telja, að ekki komi  glögglega fram í stefnu á hvaða grundvelli mál þetta er höfðað, það er hvort það varði innheimtu launakröfu eða skaðabótakröfu. Varði málið launakröfu geta dráttarvextir fyrst lagst á þegar mánuður er liðinn frá því að stefnandi sannanlega krafði um skuldina, 3. mgr. 5. gr. laga 38/2001, en sé um að tefla skaðabótakröfu fer um þetta eftir 9. gr. sömu laga. Stefnandi hefur krafist dráttarvaxta af kröfum sínum eins og hann telur þær hafa gjaldfallið á ári hverju, það er fyrst frá 1. janúar 1999 og síðan frá hverjum áramótum af nýjum höfuðstól, en loks af stefnufjárhæð frá 1. janúar 2004 til greiðsludags eða dráttarvaxta af launum frá 1. apríl 2001 samkvæmt 5. og 6. gr. laga 38/2001.

Kröfur sínar á hendur stefnda lagði stefnandi ekki fram fyrr en með þingfestingu máls þessa. Sé krafan skaðabótakrafa verða dráttarvextir samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 fyrst lagðir á frá þeim degi. Stefndi mótmælir því, að dráttarvextir geti lagst á kröfu stefnanda fyrr en frá uppsögudegi endanlegs dóms í málinu.

Krafa stefnda um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991.

Stefndi gerir þá athugasemd, að í dómkröfu er sagt, að heimtur sé vangreiddur lífeyrir. Hann vísar til þess að í umfjöllun um málsástæður og lagarök stefnanda sé tekið fram, að því aðeins hafi mátt hverfa frá eftirmannsreglu, að það hefði ekki í för með sér tjón fyrir stefnanda eða aðra sem skyldaðir voru til að greiða í sjóðinn. Þar sé einnig sagt, að breyting reglugerðar skerði lífeyri stefnanda verulega, hafi valdið stefnanda tjóni og muni gera það. Jafnframt er vísað til þess að lífeyrisréttindi séu eignarréttindi sem ekki megi skerða. Stefndi telur samkvæmt þessu óljóst hvort stefnandi sé að innheimta það sem hann telur vangreiddan lífeyri eða sækja bætur fyrir það tjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Stefndi telur að þetta misræmi geti valdið stefnda nokkrum vanda í vörn sinni. Misræmis gæti einnig í vaxtakröfum stefnanda.

IV.

Forsendur og niðurstaða.

             Mál þetta er til heimtu vangreidds lífeyris fyrir árin 1998 til ársloka 2003 að fjárhæð samtals 5.937.310 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda er skuld eða önnur krafa, sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsókn heimt innan þeirra tímamarka, sem ákveðin eru í fyrningar-lögunum, fallin úr gildi fyrir fyrningu. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. sömu laga fyrnast kröfur vegna lífeyris á fjórum árum. Stefna málsins var birt stefnda 26. ágúst 2004 og eru því kröfur vegna lífeyris fyrir tímabilið 1. janúar 1998 til og með 25. ágúst 2000 fyrndar.  Ekki er unnt að sjá af stefnunni, um hvaða fjárhæð er að ræða, þar sem dómkrafan er þannig úr garði gerð, að hún er sundurliðuð á hvert ár. Yfirlýsing stefnda frá 15. apríl 2003, um að ekki verði borin fyrir sig fyrning né tómlæti gagnvart stefnanda og 16 öðrum fyrrverandi starfsmönnum Seðlabanka Íslands, er gerð umfram skyldu.  Hún er bundin því skilyrði að höfða  hefði þurft dómsmálið fyrir 1. júní 2004.  Því skilyrði er ekki fullnægt.  Stefnandi getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki haft vitneskju um þetta skilyrði sem stefndi gerði í yfirlýsingunni. Yfirlýsingin hefur því ekki þýðingu í máli þessu. Krafa stefnanda fyrir tímabilið 1. janúar 1998 til 25. ágúst 2000 er því fyrnd.

Ágreiningur málsins lítur að því, að stefnandi telur að veruleg skerðing hafi orðið á eftirlaunum hans er reglugerð nr. 669/1997 um Lífeyrissjóð bankastarfsmanna var breytt og svokölluð eftirmannsregla var felld úr gildi og viðmið við vísitölu neysluverðs tekið upp í stað hennar. Hæstiréttur Íslands hefur í nokkrum dómum sínum fjallað um svipað ágreiningsefni, samanber aðallega dóma réttarins í málunum nr. 249/2000 Lífeyrissjóður bankamanna gegn Sigmundi M. Andréssyni og gagnsök og nr. 244/2003 Sigurður Örn Einarsson gegn Seðlabanka Íslands og Lífeyrissjóði bankamanna. Í báðum tilvikum var um fyrrverandi starfsmenn Seðlabanka Íslands að ræða.  Dómar þessir eru því fordæmi við úrlausn þessa máls.  Það sem aðallega greinir á milli málavaxta í þessu máli og nefndra dóma er, að stefnandi þessa máls hóf töku lífeyris árið 1991 og var lífeyrisréttur hans virkur, er breytingin var gerð á reglugerð stefnda, samanber reglugerð 669/1997.  Frá árinu 1. maí 1991 til 1996 var lífeyrir stefnanda 75.17% af launum aðalbókara og frá 1996 og til 1. janúar 1998 tók lífeyrir hans mið af launum framkvæmdastjóra Seðlabankans og telur stefnandi, að stefndi hafi því viðurkennt viðmiðun eftirmannsreglu við framkvæmdastjóra bankans áður en reglugerðinni var breytt.

Í nefndum dómum Hæstaréttar Íslands kemur fram, að umrædd breyting á reglugerð nr. 669/1997 feli í sér breytingu á aðferð til að verðtryggja rétt sjóðsfélaga, en breyti í raun ekki þeim eftirlaunaréttindum sem aðilarnir áttu í lífeyrissjóðnum.  Aðferðin horfir til framtíðar og fyrir henni voru almenn og málefnaleg rök. Hér vísast einnig til  2. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en um breytingu var að ræða á verðtryggingu lífeyrisréttinda á þessum tíma. Stefndi er sjálfstæður og ber einn ábyrgð á skuldbindingum sínum.  Ávöxtun stefnda er meðal annars falin í kaupum á skuldabréfum á almennum markaði og ef slík skuldabréf eru verðtryggð þá fer almennt um verðtrygginguna eftir vísitölu neysluverðs. Skuldabréf verðtryggð samkvæmt launavísitölu munu ekki þekkjast.  Yrði krafa stefnanda tekin til greina myndi skapast misvægi ávöxtunarinnar og skuldbindinganna hjá stefnda. Fyrir gildistöku reglugerðar frá 1997 fór fram trygginga-fræðileg úttekt á skuldbindingum sjóðsins og greiddu aðildarfyrirtæki hans inn í sjóðinn við árslok 1997, það sem á vantaði, til þess að eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Sú úttekt miðaði við reglur hins nýja sjóðs, en ekki við þær skuldbindingar sem bankinn hafði tekist á hendur samkvæmt reglunum sem áður giltu. Eins og hér stendur á, telur dómurinn að ekki skipti máli þótt um virk lífeyrisréttindi sé að ræða.

Dómurinn lítur einnig svo á, að ekki hafi verið sýnt fram á að lífeyrisréttindi stefnanda hafi verið skert vegna nefndrar breytingar á reglugerðinni 1997. Ómótmælt er af hálfu stefnanda, að meðalhækkun á launum starfsmanna Seðlabankans á tímabilinu 1. janúar 1998 til 31. desember 2003 hafi verið um 30.8% þegar laun framkvæmdastjóra bókhaldssviðs bankans hafi hækkað um tæplega 65% á sama tímabili.  Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands sem liggja fyrir í málinu, hafa miklar breytingar orðið á starfsemi bókhaldssviðs bankans frá því að stefnandi lét af störfum. Verkefnum aðalbókara hefur fjölgað mjög og ábyrgðin aukist og telur Seðlabankinn erfitt að heimfæra starf aðalbókara árið 1990 yfir á starf aðalbókara árið 2003. Skýrir þetta að mati dómsins hina miklu hækkun er framkvæmdastjóri bókhaldssvið bankans hefur fengið á nefndu tímabili. Ársgreiðslur til stefnanda hafa aftur á móti hækkað um tæplega 24% á sama tímabili, sem skagar hátt í meðalhækkun á launum starfsmanna Seðlabankans. Í ljósi þessa lítur dómurinn svo á, að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á skerðingu á lífeyrisréttindum sínum vegna nefndrar breytingar á reglugerðinni árið 1997.

Þá verður hér einnig að mati dómsins að líta til þess, að  stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi ekki notið jafnræðis á við aðra, en á þeim tíma er breytingin átti sér stað það er árið 1997 má búast við að fjöldi manns hafi verið í sömu sporum og stefnandi, það er þegar hafið töku lífeyris hjá stefnda.  Áréttað er að rétti stefnanda til eftirlauna var ekki breytt.  Hann hélt sama prósentuhlutfalli til lífeyris og viðmiðunar-laununum var ekki breytt, heldur einungis aðferðinni við að verðtryggja lífeyrissréttindin í framtíðinni. 

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til nýgengins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 14. september 2004 í máli Kjartans Ásmundssonar gegn Íslandi.  Dómurinn telur að tilvitnun til þess dóms hafi ekki þýðingu í máli þessu.  Málsatvikin eru það ólík og nefna má að í nefndu máli var aðilinn úr tiltölulega fámennum hópi og var hann með öllu sviptur réttindum sem hann hafði haft, en það voru um þriðjungur tekna hans. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sýkna eigi stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðilinn beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Lára Júlíusdóttir hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Jakob Möller hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

             Stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns T. Ingjaldssonar.

             Málskostnaður fellur niður.